Áttatíu ára gamalt septembermet

Í dag rifjaði Sigurður Þór Guðjónsson upp septemberhitamet Reykjavíkur sem sett var fyrir nákvæmlega 80 árum, þann 3. árið 1939. Hámarkshiti dagsins fór þá í 20,1 stig í Reykjavík og er það í eina skipti sem hiti þar hefur náð 20 stigum í september. Þann 31.ágúst hafði hitinn í Reykjavík farið í 21,4 stig og einnig var allgóður hiti næstu tvo daga þar á undan. Hámarkshitinn í Reykjavík 2.september 1939 (19,9 stig) er einnig hærri heldur en annars hefur mælst svo seint á sumri í Reykjavík. Í þriðja sæti eru 18,5 stig sem mældust þann 10. 1968. Þetta er því mjög óvenjuleg hitasyrpa í langtímasamhengi (verður samt slegin um síðir). [Við skulum til gamans láta þess getið að Rasmus Lievog færir 15,5°R = 19,4°C til bókar þann 2.september 1789]. 

Mjög víða var hlýtt þessa daga - þó misjafnt frá degi til dags í hvaða landshluta var hlýjast. Hæstur mældist hitinn vestur á Lambavatni, 25,0 stig. Hámarksmælingar þar þykja þó grunsamlegar þessi árin - svo grunsamlegar að við getum varla tekið þær trúanlegar. Ef til vill munar þó ekki nema 2 til 3 stigum frá réttu lagi. Norður á Sandi í Aðaldal hafði hiti farið í 24,6 stig þann 1. Hámarkshiti þess 3. á Hvanneyri í Borgarfirði (22,7 stig) mun enn standa sem hæsti hiti þar á bæ og í Síðumúla fór hiti í 22,3 stig, hærra en nokkru sinni annars í september.  

Myndin hér að neðan sýnir hitamælingar í Reykjavík fyrstu fjóra daga septembermánaðar 1939. 

w-blogg030919a

Lesið var af sírita á 2 klukkustunda bili allan sólarhringinn. Til að rétta hann af var notast við hefðbundnar hitamælingar - þær eru merktar með litlum rauðum krossum á myndinni. Ef við rýnum í mismuninn sjáum við að blaðið hefur verið aðeins skakkt í ritanum, tölur hans eru aðeins of lágar þann 1., réttast síðan af og eru orðnar aðeins of háar þann 4. Þetta er ekki mikill munur og við erum ekkert að leiðrétta hann hér. Svo vill til að þann 3. ber sírita og mælingum mjög vel saman. 

Rauðu punktarnir sýna hámarkshitamælingu hvers dags. Á þessum tíma var hámark ekki mælt nema síðdegis - við sleppum því við svokallað tvöfalt hámark sem með núverandi lesháttum hefði lent á þeim 4. - hámarkshiti talinn 19,0 stig - en var í raun ekki nema 14,9 stig - eins og rauði bletturinn sýnir. Bláu ferhyrningarnir sýna lágmarkshitann, aðfaranótt þess 3. var mjög hlý, næturlágmarkið 14,4 stig. Það er líka septembermet og lágmarkið þann 2. er í öðru sæti allra tíma (rétt eins og hámarkið þann dag) - þar á eftir koma svo 13,4 stig þann 3.september 2010. 

En hvernig var veðurstaðan?

w-blogg030919c

Við notum bandarísku endurgreininguna til að segja okkur frá henni- nægilega nákvæm er hún. Ekki er hægt að segja að hún komi á óvart. Hlý austanátt yfir landinu - dæmigerð fyrir hinar mestu hlýindavæntingar um landið vestanvert. Lægð fyrir suðvestan land, en hæð norðausturundan. Kerfin ekki nægilega sterk til þess að vindur valdi leiðindum en þó nægilega til að halda sjávarlofti í skefjum. Við sjáum að ekki er eins mikilla hlýinda að vænta á Austfjörðum og Suðausturlandi. 

Við eigum líka Íslandskort frá þessum degi, reyndar aðeins eitt, og sýnir það veðrið kl.8 um morguninn (sem við segjum sé kl.9). 

w-blogg030919d

Sé myndin stækkuð skýrist hún nokkuð - en einnig má finna skýrara eintak í viðhenginu. Hiti var þá þegar 16 stig í Reykjavík og 18 stig í Borgarfirði og á Akureyri, en ekki nema 8 á Blönduósi. Þar átti hins vegar eftir að hlýna talsvert og fór hiti þar í 19 stig síðdegis. Allhvass austsuðaustanátt (7 vindstig) var á Stórhöfða í Vestmannaeyjum kl.8. 

Við látum síðdegisathuganir á nokkrum stöðvum einnig fylgja hér með - verða læsilegri við stækkun:

w-blogg030919b

En þetta voru miklir örlagadagar. Þjóðverjar (og rússar) höfðu ráðist inn í Pólland þann 1. og frakkar og bretar voru um það bil að segja þjóðverjum stríð á hendur - að sögn til að bjarga Pólverjum (sem mikið álitamál er svo hvort þeir gerðu þegar upp var staðið - verkar á okkar tíma eins og hver annar fyrirsláttur). En hér á landi er sumarið 1939 mjög í minnum haft fyrir einstök veðurgæði. Júlímánuður fær toppeinkunn á sumarkvarða ritstjóra hungurdiska - ágúst kemur ekki eins vel út (sökum úrkomu), en september gerði útslagið - kannski ætti ritstjórinn að herða sig upp í að gefa þeim mánuði einkunnir líka? 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 326
  • Sl. sólarhring: 465
  • Sl. viku: 1642
  • Frá upphafi: 2350111

Annað

  • Innlit í dag: 291
  • Innlit sl. viku: 1494
  • Gestir í dag: 284
  • IP-tölur í dag: 274

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband