Bloggfærslur mánaðarins, maí 2023

Sumareinkunn maímánaðar?

Meðan við bíðum eftir maímánaðarniðurstöðum Veðurstofunnar skulum við leika okkur smávegis. 

Fyrir sex árum (31.maí 2017) birtist hér á hungurdiskum pistill undir yfirskriftinni „Sumareinkunn maímánaðar“. Kominn er tími á uppfærslu, sérstaklega vegna þess að sá maímánuður sem nú má heita liðinn hefur verið bæði sólarlítill og úrkomusamur - samanburður við fyrri mánuði kannski athyglisverður. Við byrjum á hreinni endurtekningu á texta gamla pistilsins - þar eru varnaðarorð sem enn eru í fullu gildi:

„Undanfarin ár hefur ritstjóri hungurdiska leikið sér að því gefa sumarmánuðum og heilum sumrum einkunn. Aðferðafræðin er skýrð í fyrri pistlum. Sú óraunhæfa krafa kemur stundum upp að meta beri veður í maí á sama hátt - og það heyrist meira að segja að menn taki kalda, sólríka þurrkþræsingsmaímánuði fram yfir vota og hlýja. Slíkt er hins vegar í töluverðri andstöðu við það sem tíðkast hefur þegar vortíð er metin.

Gott og vel - við skulum nú bera saman maímánuði í Reykjavík eins og um sumarmánaðakeppni væri að ræða“.

w-blogg310523

„„Bestur“ var maí 1932 með fullt hús stiga - en lakastur er maí 1992 með aðeins 1 stig (bæði kaldur og blautur). Við skulum taka eftir því að hinn hræðilegi og kaldi maí 1979 er hér metinn góður - fær 12 stig. Jú, sólin skein og úrkoma var lítil og úrkomudagar fáir - mánuðurinn fékk hins vegar 0 stig (af fjórum mögulegum) fyrir hita.

En það er kannski að nútíminn vilji hafa veðrið þannig - menn geta vökvað garðinn sé þurrviðrasamt - en erfiðara er að verjast rigningu“.

En hvað hefur gerst síðan 2017? Jú, við fengum afskaplega „laklegan“ maí árið 2018 (2 stig) og svo aftur nú (3 stig). Stigin 3 í ár koma öll með hitanum. Hitinn er í meðallagi 1991 til 2020, og yfir meðallagi tímabilsins alls. Hann fær hins vegar núll stig í öðrum einkunnaflokkum. Rauði ferillinn á myndinni sýnir 10-ára keðjumeðaltal. Við sjáum að 2 stig hafa „tapast“ miðað við hámarkið á árunum 2002 til 2011, en við erum samt um 3 stigum ofan þess sem „laklegast“ var á 9. áratug síðustu aldar. En höfum hér í huga að þessi mælitala mælir bara það sem hún mælir - raunveruleg gæði koma þar ekki endilega við sögu.

Sú spurning kemur oft upp hvort þetta segi eitthvað um veður sumarsins. Hvert er samband maíeinkunnar og heildareinkunnar mánaðanna júní til ágúst? Einfalda svarið er að það er nákvæmlega ekki neitt - veður í maí segir ekkert um veður sumarsins.

w-blogg310523b

Síðari mynd pistilsins ætti að sýna það (myndin skýrist við stækkun). Lárétti ásinn sýnir maísumareinkunn, en sá lóðrétti einkunn sumarsins í heild. Reiknuð fylgni er nánast engin (r=0,2). Bölsýnismenn geta þó haft eitthvað upp úr krafsinu með því að túlka myndina á sinn svartsýna hátt. Ef við lítum á þau sumur sem fylgja maímánuðum sem hafa fengið mjög lága einkunn (4 eða lægri) kemur í ljós að ekkert eftirfylgjandi sumra er með mjög háa einkunn. Autt svæði er þar á myndinni í kringum 40, svo há sumareinkunn virðist aðeins fylgja öllu hærri maíeinkunnartölum. Sömuleiðis er líka autt svæði á myndinni neðst til hægri - enginn hraksumur fylgja allra hæstu maíeinkunnartölunum.

Sannleikurinn er hins vegar sá að við eigum í framtíðinni eftir að sjá ár fylla þessi „auðu“ svæði myndarinnar, nema að enginn nennir auðvitað að gera myndir sem þessar áfram og aftur - og öllum nákvæmlega sama. Einhverjir aðrir munu kannski búa til öðruvísi einkunnarkvarða og þar með öðruvísi útkomu. Hver veit hvað gerist nú? Hvar lendir sumarið 2023 á myndinni?


Bragðbreyting

Þótt lítið lát sé að sjá á suðvestan- og vestanáttinni virðist samt að dálítil bragðbreyting verði á henni eftir að lægðir helgarinnar verða gengnar hjá. Veðurlag hefur verið mjög ruddalegt miðað við árstíma undanfarna viku og kaldur og hvass útsynningur ríkjandi. Sumar lægðirnar sem farið hafa hjá hafa líka verið í dýpra lagi. 

Nú virðist loftþrýstingur eiga að hækka markvert og háloftavindáttin á að verða vestlægari o og heldur hægari en verið hefur. Það þýðir þó ekki að allir fái „gott“ veður.

w-blogg270523a

Kortið sýnir vikuspá evrópureiknimiðstöðvarinnar, meðalhæð 500 hPa-flatarins vikuna 29.maí til 4. júní (heildregnar línur). Litirnir sýna hæðarvik. Flöturinn á að standa nokkuð langt ofan meðallags fyrir sunnan land, en vel undir því við Norður-Noreg. Að undanförnu hefur lághæðarvikið hins vegar haldið til yfir Grænlandi - og háhæðarvikin yfir Bretlandi. 

En þetta er samt ekki alveg hrein og einföld staða. Í grunninn takast á þrír mjög ólíkir loftstraumar. Fyrst skulum við telja mjög rakt loft sem berst langt úr suðri á vesturjaðri hæðarinnar. Þó þetta loft sé komið sunnan að og því hlýtt - er það samt kalt að neðan - sjórinn sér um þá kælingu. Íbúar Suðvesturlands sleppa varla alveg við það eins og málum er háttað. En þó fellst ákveðin von í því lofti sem kemur beint úr vestri, yfir Grænland. Austan Grænlands er það í niðurstreymi sem þýðir að það verður bæði hlýtt og þurrt þegar til Íslands er komið. Málið er bara það að þar sem það er hlýtt er líklegt að það fljóti ofan á því lofti sem úr suðri kemur - sérstaklega ef sunnanloftið nær ekki langt upp. 

Líklegt er að íbúar Austurlands fái marga hlýja daga - hvort sem þeir verða í sunnan- eða vestanloftinu. Ráði sunnanloftið sleppa þeir nefnilega við hinn kalda neðri hluta þess - njóta hlýindanna ofan við. Vestanloftið gæti líka náð niður til þeirra - sérstaklega ef vindur blæs. 

Það eru lítil gæði í þessari stöðu fyrir höfuðborgarsvæðið - alla vega ef vindur verður af þvervestan. Þótt úrkoma verði ekki mikil (eftir mánudaginn) er líklegast að lengst af verði skýjað og heldur nöturlegt. Ákveðin von er hins vegar fyrir Suðurlandsundirlendið - þar gætu hæglega komið öllu hlýrri dagar - alla vega einn eða fleiri. Kannski eiga uppsveitir Borgarfjarðar líka möguleika - en þó minni. Fyrir norðan eru mun meiri möguleikar á öllu hlýrra og bjartara veðri en að undanförnu - en sérstaklega fyrir austan. 

Svo liggur köld norðanáttin í leyni undan Norðaustur-Grænlandi (eins og venjulega). Sumar spárunur skella henni suður yfir landið - alla vega dag og dag. Það er varla nokkrum til ánægju nema kannski þeim sem geta gert sér að góðu að norpa sunnan undir vegg. 

Höfum svo í huga að þetta er meðalspá - þær segja stundum skynsamlega frá, en stundum ekki. Svo er best að taka mark á hinum daglegu spám Veðurstofunnar - þær segja okkur strax frá ef eitthvað breytist - bæði í raunveruleikanum sem og framtíðarhugmyndum reiknimiðstöðva. Það sem hér stendur um framtíðina er úrelt nærri því um leið og það er birt. 


Óróinn

Veðurlag er býsna órólegt þessa dagana. Ritstjóri hungurdiska er spurður um það hvort þetta sé óvenjulegt á þessum árstíma. Þá þarf e.t.v. að spyrja að hvaða leyti óvenjulegt? Það er alla vega ekki óvenjulegt fyrir kulda eða úrkomuákefð. Maímánuður hefur hins vegar sannarlega verið bæði votur og sólarlítill um landið suðvestanvert. Í lok dags í gær (þriðjudaginn 23. maí) var úrkoman í mánuðinum í Reykjavík komin upp í 92,1 mm og hefur aðeins fjórum sinnum mælst meiri á sama tíma. Það var 1896 (100,5 mm), 1988 (94,4 mm), 1989 (92,6 mm) og 1991 (107,2 mm). Við megum taka eftir því að þetta gerðist sum sé þrisvar á fjórum árum að úrkoma þessa daga var meiri en nú - en annars ekki nema 1896. Framhaldið varð mjög ólíkt þessi ár. Sólskinsstundirnar í maí í Reykjavík höfðu til sólarlags í gær aðeins mælst 73,5 og hafa aðeins tvisvar verið færri, 1939 (64,0) og 1980 (53,1). Ekkert segir sólarleysið heldur neitt um framhaldið.

En vindbelgingurinn hefur verið nokkuð óvenjulegur. Maívindhraðamet (bæði 10-mínútna meðalvindhraði og hviður) hafa verið sett á allmörgum stöðvum, þar af á einum níu sem athugað hafa í meir en 20 ár (Gagnheiði, Súðavík, Hornbjargsviti, Bjarnarey, Rauðinúpur, Papey, Kárahnjúkar, Upptyppingar og Neskaupstaður).

Mælitölur ritstjóra hungurdiska telja vindinn í gær svipaðan og var þann 20.maí 2018 (sem einhverjir muna ef til vill). „Stormhlutfallið“ var hærra á sjálfvirku stöðvunum nú heldur en þá, en meðalvindhraði sólarhringsins hins vegar svipaður. Útsynningsveður bæði tvö. Sé litið lengra aftur rekst ritstjórinn á fáein minnisstæð útsynningsveður í maí og júní, heldur meiri þó. Má telja 19. júní 1992 (rétt á undan Jónsmessuhretinu illræmda), sömuleiðis veðrið sem gerði þann 17. og 18. júní 1988, ákaflega illkynjað útsynningsveður og eftirminnilegt þá hversu mikið sá á gróðri. Í enn fjarlægari fortíð er síðan vestanveðrið mikla 27. og 28. maí 1956. Ritstjórinn getur ekki heiðarlega sagt að hann muni eftir því, en man hins vegar að mikið var um það talað árum saman. Allt kjarr í Borgarfirði og á Mýrum varð svart áveðurs - en hélt græna litnum í skjólmegin. Misjöfn sýn blasti því við eftir því í hvora áttina ekið var eftir vegum. Illt útsynningsveður gerði einnig 19. júní 1940. Í ungdæmi ritstjórans minntust eldri menn maímánaðar 1914 með hrolli en þá gerði afarslæm útsynningshret. Eins má minnast mikils júnívestanrosa um miðjan júní 1899 og fyrir miðjan júní 1888. 

Síðan eru öll norðan- og norðaustanhretin á þessum árstíma önnur saga, og jafnan alvarlegri. 


Fyrstu 20 dagar maímánaðar

Fyrstu 20 dagar maímánaðar hafa verið hlýir hér á landi. Meðalhiti í Reykjavík er 7,1 stig, +1,1 stig ofan meðallags sömu daga 1991-2020 og meðaltals síðustu tíu ára. Hitinn raðast þar í 8. hlýjasta sæti aldarinnar (af 23). Hlýjastir voru sömu dagar í maí 2008 (8,1 stig), en kaldastir 2015 (3,7 stig). Á langa listanum er raðast hitinn í Reykjavík í 29. hlýjasta sæti (af 149). Hlýjast var 1960, meðalhiti þá 9,3 stig, en kaldast 1979, meðalhiti ekki nema 0,6 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú 7,5 stig, +2,1 stigi ofan meðallags 1991-2020 og +2,3 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.

Þetta er næsthlýjasta maíbyrjun aldarinnar á Norðurlandi eystra, Austurlandi og á Miðhálendinu, en sú sjöundahlýjasta á Ströndum og Norðurlandi vestra. Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Brúaröræfum, þar er hiti nú +4,0 stigum ofan meðallags, en kaldast að tiltölu hefur verið á Reykjum í Hrútafirði, +0,6 stig ofan meðallags.

Úrkoma hefur verið mikil í Reykjavík, hefur mælst 73,0 mm og er það meir en tvöföld meðalúrkoma sömu daga, sú mesta á öldinni, en sú fimmtamesta frá upphafi mælinga. Mest var hún sömu daga 1991, 104,4 mm. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 8,2 mm, það er um helmingur meðalúrkomu.

Sólarlitið hefur verið suðvestanlands. Sólskinsstundir hafa mælst 63,1 í Reykjavík, rúmum 70 stundum færri en að meðaltali og hafa aðeins fjórum sinnum mælst færri sömu daga síðustu 111 ár, fæstar 49,2 árið 1980. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 126,8 og er það 18,1 stund umfram meðallag.


Hugsað til ársins 1936

Af veðri ársins 1936 er það illviðrið sem grandaði franska rannsóknarskipinu Pourquoi Pas? (og olli fleiri mannsköðum) sem oftast er rifjað upp nú á dögum. Fleira er þó markvert og verður það helsta rifjað upp hér að neðan. Fyrstu mánuðir ársins voru óvenjulegir fyrir sérlega þrálátar norðan- og norðaustanáttir og janúarmánuður er sá þurrasti sem við vitum um bæði í Reykjavík og í Stykkishólmi. Úrkoma í Reykjavík mældist aðeins 2,4 mm og 3,1 mm í Stykkishólmi. Á Hæli í Hreppum mældist úrkoma aðeins 0,7 mm. Veturinn 1935 til 1936 er einhver sá þurrasti á mælitímanum á Suðvestur- og Vesturlandi. Árið í heild náði þó nærri meðalúrkomu, haustið var mjög úrkomusamt.  

Tíð var Fremur óhagstæð á Norður- og Austurlandi framan af ári, en hagstæðari á Suður- og Vesturlandi. Úrkoma og hiti voru yfir meðallagi. Í janúar var tíð óhagstæð með miklum snjó na-lands, en á Suður- og Vesturlandi var tíð hagstæð og mjög úrkomulítil. Óvenju lítið var um stórviðri. Kalt var í veðri. Í febrúar var tíð áfram óhagstæð um landið norðaustanvert með talsverðum, en hagstæð og björt tíð ríkti á Suður- og Vesturlandi. Hiti var undir meðallagi. Svipað hélst í mars, slæm tíð var um norðan- og austanvert landið, en hagstæð suðvestanlands. Hiti var nærri meðallagi. Apríl var hagstæður mánuður einkum á Suður- og Vesturlandi. Fyrri hluta maí var óstöðug tíð suðvestanlands, en annars talin góð, mjög hlýtt var í veðri. Í júní var fremur hráslagalegt fyrri hlutann, en síðan góð, einkum á Norður- og Austurlandi. Vestast á landinu var óþurrkasamt lengst af. Hlýtt í mánuðinum sem heild. Í júlí var tíð mjög góð, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi. Víðast þurrviðrasamt og hlýtt. Í ágúst brá til votviðra á Suður- og Vesturlandi, en hagstæð tíð var eystra. Hlýtt. September var votviðrasamur nema í innsveitum á Norðaustur- og Austurlandi, hlýtt var í veðri. Október þótti óstöðugur, en ekki óhagstæður. Miklir umhleypingar, taldir óhagstæðir á Suður- og Vesturlandi, en annars hagstæðari nema rétt í byrjun mánaðarins. Desember var talinn óhagstæður og umhleypingasamur, en ekki þótti stórviðrasamt. Þá var fremur kalt.

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Textar úr Morgunblaðinu verða mjög fyrir valinu þetta ár. Blöðin vitna mjög oft í Fréttastofu útvarpsins (FÚ). Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar. Talnasúpu má finna í viðhenginu. 

Við lítum fyrst á dóma fáeinna veðurathugunarmanna um janúarmánuð. Þar kemur landshlutaskipting mjög vel fram:

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið stöðug norðan- og austanátt allan
mánuðinn, nærri úrkomulaust og snjólítið. Jörð allstaðar ágæt þar sem beitt er. Frost hefir verið töluvert og af því jörð hefir verið auð hefir vatn víða orðið óvenjulítið.

Suðureyri (Kristján St. Kristjánsson): Frosthart nokkuð. Fremur úrkomulítið. Jarðbönn, hjarn. Haglaust allan mánuðinn. Hóflegir vindar. Gæftafátt og aflalítið.

Víðidalstunga (Aðalsteinn Teitsson): Tíðarfarið var mjög óhagstætt, sauðfé á fullri gjöf svo að segja allan mánuðinn. Hross voru ekki tekin inn umfram venju (okhestar) enda var nógur hagi fyrir þau og úrkoma ekki mjög mikil, en kalt hefir þeim þó vafalaust verið og getur varla talist mannúðleg meðferð að láta þau berja gaddinn. Vatnsskortur er orðinn hér á nokkrum bæjum og verður að sækja það á sleða úr ám eða lækjum.

Sandur (Heiðrekur Guðmundsson): Tíðarfar mjög slæmt, frosthart og snjóasamt. Frysti á nýársdag og hleypti í gadd krapinn sem myndast hafði milli jóla og nýárs og gerði jarðbönn um allar sveitir hér í sýslu. Snjór er víðast mikill og stórfenni mun vera inn til sveitar og yfirleitt er snjórinn því meiri sem lengra dregur frá sjó.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Veðurfar kalt og úrkomusamt. Hagar sæmilegir en sjaldan hægt að nota þá til mikilla nota. Tíðin yfirleitt slæm og óhagstæð.

Teigarhorn (Jón Kr. Lúðvíksson): Þessi mánuður góður. Sauðfé gengið gjafarlaust. Góðir hagar.

Hlíð í Hrunamannahreppi (Guðmundur Guðmundsson): NÆrri óslitinn þurrkakafli. Fölvaði 11 og 14. svo lítið að mælir tók það ekki.

Slide1

Lengi vetrar var mikil og þrálát fyrirstöðuhæð í háloftum við Grænland og hélt hefðbundinni lægðabraut langt fyrir sunnan land. Endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir janúar sýnir þetta mjög vel. 

Í upphafi árs var hríðarveður norðaustan- og austanlands með ísingu og símslitum. Morgunblaðið segir frá 4.janúar:

Á Norðausturlandi hefir geisað óveður undanfarna daga og hefir ísing og stormar víða eyðilagt símalínur. Morgunblaðið hefir fengið upplýsingar hjá póst- og símamálastjóra, Guðmundi Hlíðdal og fer hér á eftir frásögn af því, hvar helstu bilanir hafa orðið, tekið eftir skeytum sem honum hafa borist utan af landi. Á Hofshálsi, milli Hofs og Hauksstaða í Vopnafjarðarhéraði hafa símalínur fallið niður af 100 staurum. Línumenn voru sendir frá Vopnafirði og Hauksstöðum til þess að gera við skemmdirnar. Á austurhluta Fjarðarheiðar fellu allar símalínur niður á eins kílómetra langri leið. Ísing var mjög mikil þar um slóðir. Á Króardalsskarði, Seyðisfjarðarmegin, féllu niður línur af 6 staurum. Viðgerð er þar lokið. Sennilegt þykir að víðar um norðanverða Austfirði hafi línur fallið niður. Viðgerðir eru torveldar sakir illviðra og ófærðar. Í Króardal féll snjóflóð og braut 4 staura. Austan Sæluhúss á Fjarðarheiði féllu þræðir af 40 staurum alls. Milli Fjarðar og Brekku hafa nokkrir staurar farið í snjóflóði. Kl. 1 e.h. í gær var samband komið á frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Eskifjörð. Samband er nú einnig milli Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar og Norðfjarðar. Póst- og símamálastjóra barst í gær fregn frá Seyðisfirði þess efnis að milli Hámundarstaða og Bakkafjarðar hafi símaþræðir fallið af 105 staurum og 12 staurar brotnað í óveðrunum er gengið hafa um Norðausturland undanfarið. Á Brekknaheiði milli Þórshafnar og Finnafjarðar fellu símaþræðir niður af 40 staurum.

Undir miðjan mánuð fóru þurrkar að bíta í raforkuframleiðslu. Einnig er sagt frá því að hægt sé að ganga Skerjafjörð úr Skildinganesi í Álftanes. Morgunblaðið segir frá 14.janúar:

Eins og skýrt hefir verið frá hér í blaðinu er nú svo komið vegna langvarandi þurrka og frosthörku að rafmagnsstöðin við Elliðaárnar hefir ekki nóg vatn. Vegna vatnsskortsins verður því að draga úr spennunni frá stöðinni sem svarar 20%. Afleiðingin verða að ljósin verða daufari, suðu- og hitunartæki fá minni straum, og mótorar sem knúðir eru með rafmagni fá minna afl og þurfa því meiri aðgæslu. Eins og menn muna, varð alltilfinnanlegur vatnsskortur í Elliðaánum haustið 1923, en það var þá sem „haustrigningarnar“ brugðust, eins og kunnugt er. Það var upp úr þessum vatnsskorti, að rafmagnsveitan réðist í að gera hina miklu uppistöðu á Elliðavatnsengjum, til að komast til þess að safna þar vatni, sem grípa mætti til í langvarandi þurrkum. Nú hefir ekki komið dropi úr lofti, að heitið geti, síðan í byrjun desember, en hinsvegar haldist langvarandi frosthörkur, sem hafa orsakað það, að vatnið hefir minnkað stórlega, bæði í uppistöðunni á Elliðavatnsengjum og í ánum sjálfum. Samkvæmt upplýsingum, sem Morgunblaðið hefir fengið hjá Steingrími Jónssyni rafmagnsstjóra, er nú svo komið, að vatnsforðinn á Elliðavatnsengjum er að mestu tæmdur. Er því ekki annað vatn að hafa, en rennslið í Elliðaánum, en það er ca. 80% minna, en rafmagnsstöðin þarf, til þess að geta fullnægt notkuninni í bænum, eins og hún er nú.

Í frostinu sem verið hefir undanfarið hefir Skerjafjörð lagt, svo að nú er hægt að fara fótgangandi yfir fjörðinn, milli Skildinganess og Álftaness.

Næstu daga eru enn svipaðar fréttir, en einnig fréttir af Þingvallavatni. Morgunblaðið segir frá:

[16. janúar] Dráttarbáturinn „Magni“ fór í gærmorgun suður í Skerjafjörð til að brjóta togaranum Agli Skallagrímssyni leið út úr ísnum. Gekk það alt vel og komu bæði skipin hingað í gærdag. Egill Skallagrímsson fer nú innan skamms á veiðar. Skeljungur, sem hefir legið frosinn inni í Skerjafirði undanfarna daga er nú kominn hingað inn á höfn. Tókst skipinu að komast af eigin rammleik út úr ísnum, enda lá það svo utarlega í firðinum að þegar frostið minnkaði myndaðist lón kring um skipið.

[21. janúar] Um helgina minnkaði rennslið í Elliðaánum að miklum mun. Stafar það að nokkru leyti af því, að frostið harðnaði, en þó frekar af því, að hvassviðri gerði af norðri. Vegna þess hve vatnið ofan við Elliðavatnsstífluna er nú grunnt, og dreift, myndast klaka- og krapastíflur uppi í lóninu, þegar hvassviðri gerir, svo frárennsli allt tefst og teppist meira og minna.

Á sunnudaginn [19.] fóru héðan 3 menn á bíl til Þingvalla, sem leið liggur upp að Kaldárhöfða, og þaðan norður eftir Þingvallavatni, og sömu leið til baka. Könnuðu þeir ísinn í leiðinni upp eftir, en óku heimleiðina til baka á 1 klst og 10 mín. Kunnugir menn segja, að annar eins ís hafi ekki komið á Þingvallavatn síðustu 55 árin. [Frá 1881?]

Enn segir Morgunblaðið frá símabilunum og ísingu 30.janúar:

Símabilanir urðu nokkrar austan lands og norðan í gær af völdum krapahríðar og jafnvel snjóflóða, að því er menn halda. Í gær bárust póst- og símamálastjóra skeyti frá Siglufirði og Akureyri um það, að sambandslaust væri milli Þrasastaða og Ófeigsfjarðar [?], og bjuggust menn við að símabilun þar væri af völdum snjóflóða. Frá Seyðisfirði barst skeyti um það, að símalínur væru slitnar milli Hafraness og Fáskrúðsfjarðar. Krapahríð var s.l. sólarhring á Austur- og Norðurlandi og sumstaðar rigning.

Svipuð veðurstaða var í febrúar. Smáundantekning þó um viku af mánuðinum þegar hlánaði um stund og smávegis rigndi á Suðurlandi. Veðurathugunarmenn segja frá:

Lambavatn: Það hefir mátt heita stöðug austan- og norðaustanátt, fremur stillt og
úrkomulítið. Jörð alltaf auð. ... Síðan 14. desember hefir verið hér óminnilega stillt og björt vetrarveðrátta. En töluvert jafnir kuldar. Álftir hafa í allan vetur haldið til hér á lækjum og uppsprettum. Í lok janúar fóru þær að drepast útaf af fæðuskorti og eru að deyja útaf enn. Það hefir verið reynt að gefa þeim, en þær vilja ekki neitt sem þeim hefir verið boðið.

Sandur: Tíðarfar slæmt enn sem fyrr, frost og fannkomur lengst af. Í blotunum þ.6. og 8. sé snjórinn nokkuð, en frostin sem komu upp á, hleyptu öllu í óvenju hart hjarn. Þ.15. tók svo aftur að snjóa og má segja að ekki stytti upp til mánaðarloka úr því. Snjór er nú orðinn svo mikill að slíks eru ekki dæmi síðan 1916 og gaddur afskaplegur. Síðast í janúar 1930 mun hafa orðið næstum eins mikill snjór að fyrir, en sá snjór var miklu lausari enda hlóð honum niður á þrem vikum.

Nefbjarnarstaðir: Harðindi og hagleysur. Þó snöp hafi verið hefir ekki verið beitandi fyrir illviðri.

Teigarhorn: Þessi mánuður góður hér um svæði, góð jörð, sauðfé gengið gjafarlaust.

Fagurhólsmýri: Auðar jarðir og oftast gott veður.

Morgunblaðið segir 4.febrúar frá vetraríþróttum, bæði skíðum og skautum - og síðan segir af óvenjumiklum trjáreka við Grímsey:

Fjöldi manna fór um helgina út úr bænum til að iðka vetraríþróttir. — Skíðaferðir í nærliggjandi fjöllum og skautahlaup á Þingvallavatni. Er nú orðið jafnalgengt að fólk fari í skemmtiferðir út úr bænum, þó hávetur sé, eins og þegar flest fer að sumarlagi til að njóta náttúrunnar í góðu veðri. Fjölmennast var með Ferðafélagi Íslands, sem fór til  Þingvallavatns og Skíðafélags Reykjavíkur, sem efndi til skíðaferðar á Skálafell. Einnig fóru nokkur önnur íþróttafélög í skauta og skíðaferðir svo og ófélagsbundnir hópar og einstaklingar. Á Þingvallavatni var fjöldi fólks um helgina. Á laugardaginn voru þar hátt á fimmta hundrað börn og kennarar frá Miðbæjarbarnaskólanum ásamt skólastjóranum Sigurði Jónssyni. Sama dag var stór hópur úr Verslunarskólanum og úr Gagnfræðaskóla Reykvíkinga. Á sunnudaginn var Ferðafélag Íslands á vatninu og fór um það þvert og endilangt. Sumir fóru niður að Sogi og einnig að Hagavík, Nesjum og í Hestvík.

Húsavík í gær. FÚ. Grímseyingar komu í land til Húsavíkur 1. þ.m. Sögðu þeir óvenjumikinn trjáreka við eyjuna. Á Miðgarðafjöru einni voru rekin 40 stór tré, en talið er að allur rekinn í eyjunni sé nær 200 tré. Gæftir hafa verið litlar en snjókoma lítil og veturinn mildur framan af, svo að unnið var við jarðarbætur á jólaföstu. Sjómælingar við eyjuna sýna að sjórinn hefir verið með kaldara móti, en er nú farinn að hlýna.

Morgunblaðið fjallar aftur um rafmagnsmálin 5.febrúar:

Í gær átti blaðið tal við Steingrím Jónsson rafmagnsstjóra, og spurði hann um hvernig útlitið væri með rafmagnið í bænum. Hann sagði að rennslið í Elliðaánum væri síðustu dagana minna en það hefði verið síðustu vikuna í janúar, vegna þess hve frostin hafa nú harðnað. En nokkur bót er það í máli, að ljósatíminn er nú farinn að styttast nokkuð — hann styttist á kvöldin sem svarar stundarfjórðung á viku. Og nú er ljósanotkun á morgnanna mikið til úti.

Morgunblaðið segir 6.febrúar frá miklum trjáreka á Ströndum:

Reykjarfirði, 5.febr. FÚ. Feikna mikill trjáreki hefir verið undanfarið á öllum Ströndum aðallega þó norðan til. Björn Blöndal Jónsson löggæslumaður, hefir það eftir Guðjóni hreppstjóra Guðmundssyni á Eyrum í Árneshreppi, að á Óseyri við Ingólfsfjörð hafi 8 menn verið fyrir skömmu heilan dag að bjarga rekavið undan sjó. Einnig sagði hann að í nokkrum víkum, sem ekki yrði komist að sakir kletta og brims, væru nú breiður af rekaviði. Fyrir tveimur árum var þar mikill trjáreki og rak þá stórviði, en.nú var reki miklu meiri að vöxtum en trén minni. Sumt af þessu er unnin viður, en megnið eru sívalir trjábolir stýfðir fyrir enda og liggur allur þessi viður ósnertur á fjörunum. Sumir ætla að viðarskip hafi farist í nánd við ísland, en Guðjón álítur að viður þessi hafi komið frá Síberíu og muni hafa týnst þar í fljót er honum hefir verið fleytt til sjávar.

Morgunblaðið segir af hláku 7.febrúar:

Á miðvikudagskvöld {5.] snerist veður hér til suðaustanáttar með stinningshvassviðri, þíðviðri og rigningu. Náði hlákan í gær um allt land, með 4—6° hita á flestum veðurathugunarstöðvum og talsverðu úrfelli. Blaðið átti tal við Veðurstofuna í gær, og spurði um hvort útlit væri fyrir að þíðviðrið héldi áfram. Veðurfræðingur sagði, að ekki væri sérlegt útlit fyrir að hláka þessi yrði endaslepp, þó norðanátt og frost væri ekki langt undan landi á Vestfjörðum. Úrkoman hér í Reykjavík var í gær orðin 7 millimetrar. Leysing var svo mikil hér í bænum í fyrrinótt og í gær, að klaki og svell eru að mestu farin af götunum, og skautaísinn á Austurvelli er orðinn að tjörn. Um helgina, sagði  rafmagnsstjóri, að bæjarbúar gætu búist við að fá fulla rafspennu. Og þó veðrátta brigði aftur til frosta bráðlega, sagði hann, að vatn það, sem nú hefði safnast myndi nægja um tíma til þess að halda fullri spennu.

Vísir segir 7.febrúar af vatnsskorti í Rangárvallasýslu og í Vestmannaeyjum:

Brúnum, 6. febrúar FÚ. Fréttaritari Útvarpsins að Brúnum skrifar: Víða í Rangárvallasýslu var orðinn tilfinnanlegur vatnsskortur á undan þessum blota. Öll vötn í héraðinu hafa verið ísi lögð um langt skeið og álftir voru byrjaðar að falla. Í 7—8 undanfarnar vikur hefir verið hér sífeld norðanátt og bjartviðri og muna menn ekki fegurra skammdegi.

Tilfinnanlegur vatnsskortur var orðinn í Vestmannaeyjum á undan þessum blota, og horfði til stórvandræða, en nú hefir rignt á annan sólarhring og hefir það hjálpað í bili.

Nýja dagblaðið fjallar 13.febrúar um ísalög á Breiðafirði:

Ísalög eru nú að mestu leyti horfin af Breiðafirði og jörð er auð á norðanverðu Snæfellsnesi. Ísalög voru orðið óvenjumikil um Breiðafjörð á undan þessum bata. Var gengið á milli lands og eyja og bifreiðar fóru frá Stykkishólmi að Svelgsá og þaðan yfir Álftafjörð og inn á Skógarströnd. — FÚ.

Ísalög eru svo ekki er talið fært á vélbátum um Reyðarfjörð innan til. — FÚ.

Morgunblaðið segir 18.febrúar af fannkomu fyrir norðan:

Hríðarveður var um allt Norðurland í gær, einkum austan til. Á Húsavík var í gærmorgun skollin á norðan hríð, með talsverðri fannkomu, en fyrir var mikið harðfenni og svellalög. Í Siglufriði var í fyrrinótt og í gær kafaldshríð af norðaustri og afar mikil fannkoma ofan á feikna mikinn gadd, er fyrir var. Í Blönduósi var norðaustan stormur, en lítil fannkoma. (FÚ)

Morgunblaðið segir 7.mars frá hrakningum sem Stefán í Möðrudal lenti í um miðjan febrúar:

Kópasker, 5. mars. FÚ. Stefán bóndi Jónsson í Möðrudal á Fjöllum lenti í hrakningum miklum dagana 16. til 18. f.m. í stórhríðarbyl á Öræfum, austan Möðrudals. Sunnudaginn 16. lagði Stefán af stað heimleiðis frá Heiðarseli á Jökuldalsheiði með 5 kindur. Kom hann við í Sænautaseli og hélt síðan áfram. Skall þá á blindhríð með 17 stiga frosti. Um nóttina gerði hann grjótbyrgi fyrir kindurnar, en hélt á sér hita með að ganga um og berja sér. Á mánudagsmorgun hélt hann áfram, en týndi kindunum um kvöldið. Var hann þá á réttri leið en vörður voru flestar fenntar í kaf, og fór hann þá villur vegar og gróf sig loks í fönn og lét þar fyrir berast um nóttina. Á þriðjudagsmorgun reyndi hann að halda í veðrið og hugði það rétta stefnu heim. Þekkti sig loks í svonefndum Arnardal, en þaðan eru 25 til 30 kílómetrar að Möðrudal. Náði hann um kvöldið beitarhúsum frá Möðrudal og hitti þar bróður sinn er studdi hann heim. Var hann all þrekaður en ókalinn. — Sextíu klukkustundir var hann á ferðinni og hafði ekki annað nesti en hálfa flatbrauðsköku.

Vísir segir 22.febrúar frá vatnsskorti í Reykholtsdal:

Vatnsskortur í brunnum og smálækjum hefir orðið hér [Reykholtsdal] víða, en bagalegast er þar sem frosið hafa lækir, sem virkjaðir hafa verið til raforku. Rafstöðin á Vilmundarstöðum, sem lýsti skóla, kirkju og íbúðarhús í Reykholti, er fyrir löngu hætt að starfa, vegna þess að vatn þraut í leiðslunni. Er óséð hvenær hún tekur aftur til starfa. Af þeirri reynslu, sem hér hefir fengist i vetur verður ekki litlum lækjum treystandi til rafvirkjunar í vetrarhörkum, nema þeim einum, sem ekki geta frosið.

Og þingmenn fóru að taka við sér. Morgunblaðið 23.febrúar:

Fyrirspurn í þinginu frá Garðari Þorsteinssyni. Garðar Þorsteinsson flytur svohljóðandi fyrirspurn til ríkisstjórnarinnar: „Hverjar ráðstafanir hefir ríkisstjórnin þegar gert og, eða hverjar ráðstafanir hyggst hún að gera til þess að fyrirbyggja fóðurskort, felli og aðrar afleiðingar þeirra óvenjulegu harðinda, sem undanfarið hafa gengið og enn ganga yfir Norðurland?“

Morgunblaðið segir 25.febrúar frá bjargarskorti á Austfjörðum:

Norðfirði, mánudag, einkaskeyti til Morgunblaðsins. Almennur bjargarskortur fyrir búfé er nú fyrirsjáanlegur hér eystra, ef ekki kemur neitt sérstakt fyrir til að bæta úr þessu hörmungar ástandi. Mikil ótíð og jarðbönn hafa nú gengið um langan tíma. Bjargarskortur stafar aðallega af því, að stór hluti heyskapar manna náðist ekki í hús á síðasta hausti, sökum stöðugra rigninga. Norðfirðingar hafa alltaf keypt hey úr Norðfjarðarhreppi undanfarin ár og einnig frá Norðurlandi. Þegar nú þetta bregst, er ekki útlit fyrir annað en lóga þurfi um helming nautpenings í bænum, ef ekki fæst hey annars staðar frá af landinu, eða frá Noregi, með „Nova“ í marsmánuði. Þormar.

Morgunblaðið segir 20.mars frá fjárskaða á Jökuldal í febrúar:

Bændur á Eiríksstöðum í Jökuldal urðu fyrir tilfinnanlegum fjárskaða í síðara hluta febrúarmánaðar. Bændurnir beittu fé sínu austur yfir Jökulsá og upp á heiðina austan megin árinnar. Skall á hríðarveður og hröktust 80 kindur víðsvegar um heiðina, sumar alla leið austur í Fljótsdal, og aðrar suður undir Snæfell. Um 40 kindur voru ófundnar þegar síðast fréttist. (FÚ.).

Veðráttan segir frá því að þann 15.febrúar hafi vélbátur slitnað upp og skemmst á Norðfirði og að þann 26. hafi vélbátur strandað of sokkið við Stapavík á Snæfellsnesi, 12 menn björguðust naumlega, einn fórst.

Veðurathugunarmenn segja frá tíð í mars. Veðurstaða svipuð og áður. Óvenjuleg snjóþyngsli norðaustanlands. Taka má eftir því að langvinnan norðaustanbyl gerði á Lambavatni, en fram að því hafði norðaustanáttin verið mjög þurr á þeim slóðum. Við lítum nánar á þá stöðu hér neðar. 

Lambavatn: Það hefir verið breytilegt veðurlag yfir mánuðinn. Oftast austan og norðaustan næðingar. 18. gerði hér vondan og langan byl. Með verri byljum sem hér koma.

Sandur: Tíðarfar óhagstætt, snjóþungt, hagbönn og ófærð mikil. Sumstaðar er svo mikill snjór orðinn að enginn man meiri, en víðast mun þó hafa verið eins mikill eða meiri 1916 og 1910. Sumstaðar eru fjárhús í kafi í fönn að ... sér einungis á mæninn og er mjög erfitt að fást við gegningar og aðdrætti alla. Frost hafa verið fremur væg og hefði eigi snjókyngin verið fyrir væri tíðarfarið yfirleitt talið betra. Álftir hafa fallið allmjög.

Grímsstaðir (Sigurður Kristjánsson): Óveður mestallan mánuðinn, hagleysi og afar mikill snjór svo hann hefir ekki orði svo mikill síðan 1924 - þó líklega öllu meiri nú. [mældist 160 cm þann 25. og 26.].

Reykjanesviti (Jón Á. Guðmundsson): Mjög hagstæð veðrátta bæði til lands og sjávar.

Nýja dagblaðið segir frá ísalögum á Hrútafirði 3.mars:

Hrútafjörður hefir undanfarið verið lagður um 5 km. út fyrir Borðeyri, norður undir Kjörseyrartanga, en þar hafa skipin Lagarfoss og Esja verið affermd. Í gær fór bifreið frá Borðeyri yfir fjörðinn um 3 km fyrir innan Borðeyri og sama bifreið fór í gær inn í fjarðarbotn, sem er um 6 km. vegalengd. Reyndist ísinn fulltraustur. Hefir aldrei áður verið farið á bifreið á ís á Hrútafirði, enda leggur fjörðinn sjaldan svo langt út. Ísinn er talinn bílfær nokkuð út fyrir Borðeyri með löndum fram.-FÚ.

Morgunblaðið segir 5.mars frá úrhelli í Vestmannaeyjum:

Vestmannaeyjum, miðvikudag. FÚ. Afspyrnu austanrok með stórfelldri rigningu skall á í Vestmannaeyjum í gærkveldi [3.]. Leysing var svo mikil um miðnætti að vatnið á götum bæjarins varð víða 30—60 cm djúpt. Flæddi víða inn í hús, svo að stórskemmdir urðu að hæði á vörum og öðru. Þegar komið var á fætur í morgun var vatnið í sumum kjöllurunum 1/2 metri á dýpt eða meira. — Sumar götur bæjarins stórskemmdust. Flestir bátar voru komnir í höfn er veðrið skall á, en þeir sem ókomnir voru náðu landi heilu og höldnu.

Morgunblaðið segir af skíðaferðum 6.mars:

Skíðafæri er nú ágætt í öllum nærliggjandi fjöllum, eftir fannkomuna á dögunum. Milli 40 og 50 manns notuðu sér góða veðrið í gær, og fóru á skíðum, flest upp á Hellisheiði. Komu skíðamenn aftur í bæinn kaffibrúnir eins og þeir hefðu legið í sólbaði dögum saman, að sumarlagi.

Upp úr miðjum mars gerði nokkuð flókið veður. Veðráttan segir þannig frá: „Þ.14. til 17. Grunnar lægðir fara austur yfir landið eða fyrir norðan land. Vindstaða oftast Vestlæg, sumstaðar allhvasst 2 síðustu dagana. Gekk í NV og N með talsverðu frosti þ. 17. og nóttina eftir. Þ.18.—30. Lægðir fyrir sunnan land, en hæð yfir Grænlandi. Austan og norðaustanveðrátta. Hvessti þ. 19. á Norður- og Norðvesturlandi með snjókomu, en rigndi sunnanlands“. Oftast var vestan-, suðvestan- og sunnanátt í háloftum fram til þess 23. Sunnanlands var oftast hláka og jafnvel rigning, en nyrðra og á Vestfjörðum snjóaði mikið. Í Borgarfirði var þannig frost og skafrenningur marga daga, en allgóð hláka í Reykjavík. Fannfergið fyrir norðan var allmikið í fréttum. 

Slide2

Kortið sýnir ágiskun bandarísku endurgreiningarinnar um stöðuna í 500 hPa-fletinum þann 19.mars. Þá var suðvestlæg átt í háloftum og í neðri lögum skörp skil milli suðlægra þíðvinda og norðaustankulda og snjókomu. 

Slide3

Daginn eftir var mikil norðaustanvindstrengur yfir Vestfjörðum (náði suður í Borgarfjörð) og um mestallt landið norðanvert. Syðra var þítt á láglendi í mun hægari austan- og suðaustanvindi. 

Morgunblaðið segir frá 19.mars:

Húsavík, miðvikudag. Norðvestan stormur, snjóél og sjógangur var hér í gærdag. Vélbáturinn Njáll slitnaði upp af legunni og rak hann upp í fjöruna. Báturinn skemmdist töluvert og verður líklega ekki nothæfur meira, þar sem hann var gamall og lélegur. Egill.

Húsavík, miðvikudag. Einkaskeyti til Morgunblaðsins: Veturinn hefir verið harðari hér í sýslu, en í undanfarin mörg ár. Heybirgðir eru því að verða af skornum skammti víðast hvar í útsveitum. Er talið að víða um sveitir endist fóður handa sauðfé ekki lengur en til sumarmála. Mývetningar munu vera nokkru birgari með hey. Vegna fannkyngi er mjög erfitt að koma kornvöru um sveitirnar. Útlitið er afar ískyggilegt, jafnvel þó sæmilega vori. Egill

Tveir ungir menn frá Ólafsfirði drukknuðu á þriðjudaginn var, er þeir voru að hrognkelsaveiðum í Ólafsfirði. Mennirnir voru báðir ókvæntir. Margir bátar voru á sjó frá  Ólafsfjarðarkauptúni þennan dag og var veður gott framan af degi. Allt í einu syrti yfir með hríð og hvassviðri. Ókunnugt er með hverjum hætti þetta slys vildi til. (FÚ.).

Morgunblaðið segir frá því 20.mars að mikið hafi snjóað á Hellisheiði, þó þíða hafi verið í bænum:

Miklum snjó hefir hlaðið niður á Hellisheiði í gœr og í fyrrinótt. Hefir jafnmikill snjór ekki komið á Hellisheiði fyrr í vetur. Þrátt fyrir að hér í bænum var þíðviðri og rigning í gærdag, var frost á Hellisheiði og komst hitinn aldrei yfir frostmark þar í gær. Bílar, sem ætluðu austur yfir í gær, komust ekki lengra en að Skíðaskálanum, vegna snjóa.

Morgunblaðið segir 21.mars frá fannfergi á Siglufirði:

Siglfirðingar verða nú margir hverjir að fara út og inn um glugga á húsum sínum, vegna gífurlegrar snjókomu. Hefir annað eins fannkynngi ekki komið á Siglufirði síðan 1918. Snjóað hefir þar látlaust síðustu þrjá daga og má heita að bærinn sé á kafi í fönn. Þegar Siglfirðingar vöknuðu í gærmorgun brá þeim heldur í brún, því svo mikið hefði hlaðið niður af snjó, að menn komust ekki út úr húsum sínum á venjulegan hátt — með því að fara út um dyrnar — heldur urðu þeir að fara út um glugga og það jafnvel á tvílyftum húsum. Í þvergötum náði snjórinn svo hátt að ekki var komist úr húsum eða í nema með því að fara út um efstu gluggana á húsunum. Látlaus stórhríð var á Siglufirði í allan gærdag, með norðan roki, var vindur um tíma mældur 10 vindstig. Kennsla í skólum er að mestu hætt vegna fannfergis.

Morgunblaðið er enn með fréttir frá Siglufirði 22. mars - og síðan einnig frá Ísafirði:

Í gær rofaði til á Siglufirði og veðurofsann lægði. Fannkyngi er komið svo mikið, að eigi eru dæmi til slíks. Í gærmorgun varð að hjálpa fólki úr mörgum húsum, sem alveg voru fennt í kaf. Tíðindamaður blaðsins átti í gærmorgun tal við mann, sem hafði hjálpað til að moka frá 5 húsum, svo fólk kæmist úr þeim. Svo mikið er fannfengið, að einlyft íbúðarhús eru sum alveg í kafi í fönn. T.d. þurfti fólk sem býr í lágreistu húsi að moka ofan af reykháfnum, áður en eldur var kveiktur í eldfærum hússins. Mikill veðurofsi var þá daga, sem fannkoman var, er reif upp háa skafla. Niður á eyrinni eru skaflarnir svo háir, að sumstaðar verður gengið af þeim inn um glugga á 3. hæð húsanna. Svo mikil snjóþyngsli voru á þaki á einu íbúðarhúsi uppi undir fjallinu, að hætta var á að þakið brotnaði niður. Var tekið að bresta í máttarviðum hússins áður en tími vannst til að moka fönninni ofan af því. Ýms léleg útihús, beitingaskúrar og þess háttar hafa alveg sligast af fannkynginni. Mjög er erfitt um alla aðflutninga til bæjarins vegna ófærðar. Á föstudag voru 6 menn með 7 hesta í 3 klst að koma 100 lítum af nýmjólk tveggja kílómetra veg. Þegar blaðið átti tal við Siglafjörð í gærkveldi var veður mikið að batna. Telja menn að mikil hætta sé á því, að snjóflóð skelli yfir þá og þegar, einkum austanmegin fjarðarins. En úr hlíðinni ofan við bæinn er hættan ekki yfirvofandi, m.a. vegna þess að norðanveðrið hefir rifið mikið af snjó úr hlíðinni vestan megin fjarðarins.

Ísafirði, laugardag. Snjóflóð féll hér í nótt á Kaldáreyri. Flóðið sópaði burtu geymsluhúsi, eign Þorsteins Kjarvals. Arngrímur. 

Morgunblaðið segir 24.mars frá snjóflóðum sem fallið hafa víða um land:

Snjóflóð hafa fallið víða um land og sumstaðar valdið allmiklum skemmdum. Hafa snjóflóð og ísing sumstaðar valdið símaslitum á Vesturlandi. Sunnan við Þrastastaði hefir snjóflóð fallið og brotið niður 3 símastaura. Í Súðavík hefir rekið 8 brotna símastaura og er talið að snjóflóð hafi brotið þá niður á Snæfjallalínunni, milli Æðeyjar og Sandeyrar. Á Laxárdalseyri hafa símalínur slitnað og flækst vegna ísingar. Þar hefir ekki verið hægt að gera við símann vegna óveðurs.

Morgunblaðið segir 25.mars frá heyflutningum úr Borgarfirði til Vopnafjarðar:

Esja flutti til Vopnafjarðar í síðustu ferð sinni um 450 hesta af heyi frá Hvanneyri, til bjargar búpeningi á harðindasvæðinu. Meira hey hefir verið flutt úr héraðinu niður í Borgarnes til flutnings austur, ef harðindi haldást. (FÚ).

Morgunblaðið segir 26.mars frá jarðbönnum í Vopnafirði, en vorblíðu í Landeyjum. 

Í síðustu viku voru í Vopnafirði miklar logndrífur og er nú alveg jarðlaust um alla sveitina og hey á þrotum á nokkrum heimilum og horfir til stórvandræða með fóður fyrir búpening. (FÚ).

Vorblíða hefir verið í Landeyjum síðan 19. þ.m. Hlýindi eru og skúraveður og vorfuglar byrjaðir að koma. Skúmur sást fyrst þann 20. þ.m., lóa þann 22. og lómur þann 23. þ.m. (FÚ).

Hrímþoka og hríð ollu stórskemmdum á símanum á Laxárdalsheiði og Holtavörðuheiði s.l. þriðjudagsnótt [aðfaranótt 24]. Á Laxárdalsheiði eru að minnsta kosti 10 símastaurar brotnir niður neðan Laxár og símalínur lágu niðri á 5 km vegalengd. Á Holtavörðuheiði höfðu línumenn farið um norðanverða heiðina og voru staddir í sæluhúsinu kl. 3 í gærdag. Sögðu þeir í skeyti til póst- og símamálastjóra, að allar línur væru fallnar af 10 staurum á Grunnavatnshæðum, en engir staurar voru þar brotnir. Í nánd við Hæðarstein eru einnig miklar bilanir. Símamenn komust ekki að heiman fyrr en í gær til að athuga skemmdirnar vegna hríðar.

Morgunblaðið segir frá 27.mars:

Ísafirði fimmtudag. Einkaskeyti til Morgunblaðsins: Vélbáturinn Jón frá Súðavík sökk hér á sundunum við Naust í gærdag í ísreki. Menn björguðust. Báturinn hefir ekki náðst upp ennþá, en menn gera sér vonir um að það takist.

Vísir segir 28.mars frá snjóflóðinu í Skutulsfirði þann 21.:

Ísafjörður 27. mars. FÚ. Snjóflóð féll á Kaldeyri í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp 21. þ.m. og tók af geymsluhús Þorsteins bónda Kjarvals í Naustum, ásamt varnargarði tveggja metra háum úr grjóti og sterkum viðum. Í húsinu voru bræðslutæki og fleira. Flóðið braut einnig símastaur og þeytti stórbjörgum niður í fjöru.

Morgunblaðið segir 31.mars frá skíðafæri - og síðan ísalögum á Hvammsfirði og harðindum í Þingeyjarsýslum:

Skíðafæri og veður var svo gott s.l. sunnudag að skíðamenn muna ekki annað eins síðan á páskunum 1934. Hvammsfjörður er ennþá íslagður til Skoravíkur að norðan og Hólmláturs að sunnan, eða á 200 ferkílómetra svæði. Suðurhluti héraðsins hefir verið samgöngulaus síðan fyrir hátíðir og má má búast við matvælaskorti, ef eigi bregður til bóta. Nýlega kom vélbátur að ísskörinni með lítið eitt af vörum. Voru þær sóttar á sleðum. Bætti það úr brýnustu þörfum. Heybirgðir eru víða sæmilegar í Hvammsfirði og skepnuhöld góð. (FÚ).

Húsavík, sunnudag. Einkaskeyti til Morgunblaðsins: Harðindin enn í Þingeyjarsýslum og jarðbönn yfir allt. Svanir hafa fallið vegna harðinda við Mývatn. Síðustu viku sást það til sólar að snjór seig og þéttist svo akfæri fékkst um útsveitir og til Mývatnssveitar. 57 hríðardagar voru í Húsavík frá nýári fram til 22. mars.

Skutull á Ísafirði segir 1.apríl frá stóru snjóflóði á Flateyri:

Snjóflóð féll nýlega úr svonefndri Skollahvilft fyrir ofan Flateyri og sópaði burtu tveimur fiskþurrkunarhjöllum, braut nokkra símastaura, olli spjöllum á túnum og matjurtagörðum og braut steinsteypuvegg utan með kirkjugarðinum á Flateyri. Var á tímabili talið, að Sólbakkaverksmiðjan væri 1 nokkurri hættu vegna snjóflóða.

Nokkuð kalt var fyrstu dagana í apríl, en svo voraði vel. 

Morgunblaðið segir frá 15.apríl:

Vestmannaeyjum, þriðjudag. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Veðurfar hefir verið sérstaklega gott hér í Eyjum undanfarna daga og má segja að vorið sé komið. Eyjarnar eru að verða grænar, sól skín daglega og heitt er í veðri.

Gott tíðarfar hefir verið á harðindasvæðinu austan lands og norðan síðustu daga. Víða er komin upp jörð og nokkur beit. Víðast hvar eiga bændur enn eftir nokkurn heyforða og eru menn orðnir vongóðir um horfur þrátt fyrir öll harðindin í vetur.

FÚ. birtir eftirfarandi: Fréttaritarinn að Ystafelli skýrir frá því, að í Suður-Þingeyjarsýslu hafi verið sólskin og blíðviðri undanfarna daga, en lítil leysing. Víða er komin upp beitarsnöp, en víða er enn jarðlaust. Bændur hafa von um að komast af með hey, ef þessu fer fram. Skepnuhöld eru góð.

Morgunblaðið 17.apríl:

Akureyri, fimmtudag. Einkaskeyti. Snjó hefir nú leyst svo mikið í Bárðardal að jörð er komin upp á öllum bæjum nema einum, Sandhaugum. Haldist þessi tíð, vona Bárðdælingar að þeir sleppi við fjárfelli vegna harðindanna.

Vísir segir frá 1.maí. Það gæti komið á óvart að snjólítið hafi verið við Arnarfjörð miðað við allan snjóinn norðan til á Vestfjörðum - en svona er það stundum:

Arnarfirði 24. apríl. FÚ. Mildur vetur við Arnarfjörð. Fréttaritari útvarpsins að Hrafnseyri við Arnarfjörð skrifar 24. þ.m.: Nú hefir kvatt oss Arnfirðinga einn sá mildasti vetur, sem hér hefir komið. Hafa verið hér sífeldar stillur mestallan veturinn og sést nú varla snjór í byggð. Nokkrir róðrar höfðu verið farnir út úr firðinum, er bréfið var ritað, og fiskast ágætlega, einkum þó síðustu dagana.

Maí var einnig hagstæður, en talsvert hret gerði í mánaðarlokin og varð þá m.a. alhvítt að morgni á Kirkjubæjarklaustri og sömuleiðis í innsveitum á Norðausturlandi.

Morgunblaðið segir 3.maí frá óvenjulegu þrumuveðri í Reykjavík að kvöldi þ.2.:

Óvenjulegt þrumuveður skall hér yfir bæinn um kl. 10:45 í gærkvöldi, með hagléljum. Þrumuveðrið gekk yfir úr vestri og færðist inn yfir landið, og voru taldar einar 15 þrumur á tímabilinu til kl. 12. Fyrstu eldingunum sló niður í bæinn, eða mjög nálægt bænum, en ekki hafði frést, er blaðið fór í prentun, að þær hefðu gert tjón. Svo miklar voru þær, að hús nötruðu víða, og var veðrið með ósköpum um stund, þegar þrumurnar drunuðu og haglélin dundu á húsum, svo börn og unglingar urðu skelfd við. Tvisvar bar á því, að eldingarnar höfðu áhrif á rafmagnsljósin. Og þar sem símalínur eru ofanjarðar í úthverfum bæjarins, sáust sumstaðar eldglæringar upp af símaáhöldum. Maður einn var að tala í síma í Alþingishúsinu, er ein þruman skall yfir. Fékk hann í sig rafstraum og kipptist til, en sakaði ekki.

Nýja dagblaðið segir einnig frá þessum atburði í bréfi 19.maí:

Reykjavík og næsta umhverfi hennar er „lítilla sanda, lítilla sæva“ um jarðfræðilegar breytingar og veðurfarsleg stórmerki líðandi stunda. Þó hefir þar vikið frá nokkuð fyrst í þessum mánuði. Laugardagskvöldið 2. maí laust eldingu niður á Melunum fyrir sunnan Íþróttavöll, og varð af ægilegri þrumugnýr en heyrst hefir um langt skeið í Reykjavík. Samtímis skall yfir haglél svo stórfellt að stærri snjóhögl munu sjaldan falla hér á landi. Um svipað leyti eða jafnvel þetta sama kvöld hefir runnið fram skriða í Öskjuhlíðinni efst, vestanmegin. Undan hábungu hlíðarinnar hefir sprottið upp vatnsból, sem fleytt hefir melfláka ofan af klettalagi, rutt honum að nokkru leyti til hliðar og steypt hinu fram af klettastöllum. Þótt skriða þessi nái ekki yfir nema hálfa dagsláttu er hún skoðunarverð í fábreytni nágrennisins. Og þar er dálítill texti í átthagafræði handa vorskólunum, sem nú eru nýteknir til starfa hér í bænum. Guðgeir Jóhannsson.

Morgunblaðið segir 6.maí frá lélegri togaravertíð:

Vetrarvertíð togaranna, sem nú stendur yfir er einhver hin lélegasta sem komið hefir í mörg ár. Fiskur hefir ekki einungis, svo að segja algjörlega brugðist, heldur hafa og stöðug illviðri spillt fyrir veiði togaraflotans.

Kröpp lægð fór yfir landið austanvert þann 12. og olli manntjóni á sjó. Morgunblaðið segir frá 14.maí:

Reyðarfirði í gær. Einkaskeyti til Morgunblaðsins: Óttast er um vélbátinn Kára frá Fáskrúðsfirði með fjögurra manna áhöfn. Gerði aftaka rok af suðaustan, austanlands í fyrrinótt [aðfaranótt 12.] og stóð alla nóttina. — Veðrið var svo mikið, að gamlir fiskimenn telja að það hafi verið annað versta veðrið, sem þeir hafi lent í. Veðrið hefir og valdið manntjóni og sennilega bátstapa. Vélbáturinn „Kári“ frá Fáskrúðsfirði fór á veiðar á mánudagskvöldið kl. 11, en síðan hefir ekkert til hans spurst. Var báteins leitað í nótt og í dag og tóku 7 bátar þátt í leitinni. Þeir eru nú komnir að landi og hafa einskis orðið varir.

Norðfirði, miðvikudag. Einkaskeyti til Morgunblaðsins: Nokkrir bátar reru, héðan í fyrrinótt, en náðu allir landi undan suðvestanrokinu. Síðasti báturinn kom að um miðnætti,

Í veðurofsanum austanlands í fyrrinótt missti vélbáturinn „Hekla“ út þrjá menn, en tókst að bjarga inn tveimur þeirra. Þriðji maðurinn drukknaði. Veðrið skall á svo skyndilega að allir bátarnir frá Fáskrúðsfirði töpuðu meirihlutanum af lóðum sínum og sumir öllum.

Morgunblaðið segir af ís 26.maí:

Skipverjar á breska togaranum „Welsbach“, sem kom til Siglufjarðar í gærmorgun, segja frá því, að mikill hafís sé 30 mílur norðaustur af Horni. Telja skipsmenn að ísinn liggi austur á móts við Skaga.

Veðurathugunarmenn lýsa júní:

Lambavatn: Það hefur verið stillt, en nær óslitin vætutíð. Oftast suðvestan og vestan
þokusúld en ekki oft stórgerð rigning.

Suðureyri: Fremur stirt, kalt og rosalegt fram yfir 25. Langvinn vestanhvassviðri spillti görðum. Snjóaði fjórum sinnum í fjöll. Sólarlítið.

Nefbjarnarstaðir: Ágætis tíð. Suðvestanátt tíðust, hlýindi og stillingar.

Fyrri hluti júní var svalur, en síðari hlutinn hlýr og hagstæður. Talsvert hret gerði þann 5. og 6. Morgunblaðið segir frá 7.júní:

Norðan éljaveður gerði víða norðanlands í fyrrinótt [aðfaranótt 6.] og snjóaði niður í sjó. Nokkrar skemmdir hafa orðið af veðrinu á hinni nýju hafskipabryggju á Húsavík og skip slitnaði upp frá bryggjum í Siglufirði. Þá hafa og borist fréttir um hafís fyrir Norðvesturlandi frá skipum, sem þar hafa verið. Frá Húsavík símar fréttaritari í gærmorgun: — Norðan hríðarveður var hér í nótt. Snjór er yfir allt. Sjógangur hefir skemmt og eyðilagt sumt af því, sem unnið hefir verið við bryggjugerðina síðustu daga.

Siglufirði, 6. júní. Hér var stórrigning og norðanstormur í gær [5.] og í nótt. Talsverður sjógangur var í firðinum. Togarinn Hávarður ísfirðingur slitnaði upp frá Ríkisbryggjunum. Varð að flytja skipið inn að Hafnarbryggju og skipa þar upp því sem eftir var af farminum. Hefir snjóað nokkuð í fjöll í nótt. Í morgun birti upp, en talsvert brim er þó ennþá. Jón.

Á Ísafirði snjóaði niður í miðjar hlíðar og var þar mikill kuldi í gær. Á Hesteyri var ennþá hríð um miðjan dag í gær. Á Akureyri var afar kalt í gær og þar snjóaði niður í sjó. Togari hrekst af Halanum vegna íss. Hávarður Ísfirðingur kom til Siglufjarðar í gær af karfaveiðum. Skipið neyddist til að hætta veiðum á Halanum vegna íss. Síðast var Hávarður að karfaveiðum út af Dýrafirði. Þar var einnig talsverður ís og illt veður. Veðurstofan fékk í gær skeyti frá ensku skipi, sem sagði „að við Horn væri allt fullt af ís“. Skipverjar á togaranum Júpíter, sem kom til Hafnarfjarðar í gær að vestan, sáu ís 10—15 sjómílur út af Rit. Veðurstofan spáði í gærkvöldi að norðanveðrið myndi lægja í dag.

Bílferðir norður í land hafa stöðvast í bili vegna mikilla vatnavaxta í ám í Skagafirði. Mestar skemmdir hafa orðið við Dalsá í Blönduhlíð og við Valagilsá í Norðurárdal.. Er talið að það taki nokkra daga að gera við skemmdirnar hjá Valagilsá. Við Dalsá hefir áin tekið hluta af veginum á 12—14 metra svæði og einnig brotið ræsi úr steinsteypu. Við Valagilsá hefir áin einnig tekið kafla úr veginum og hljóp áin úr farvegi sínum svo að brúin stendur nú á þurru.

Morgunblaðið segir enn af hretinu í pistli 9.júní:

Húsavík 8. júní. Einkaskeyti til Morgunblaðsins: Talsverður skaði varð hér að ofviðrinu á laugardagsnótt og laugardag. Fönn kom svo mikil hér í heiðina að fé fennti. Nokkrar ær hafa fundist í fönn nær dauða en lífi og lömb hafa dáið af kulda. Mikið vantar en af lambfé Húsvíkinga. Egill.

Þegar hlýnaði gerði miklar leysingar á fjöllum á Norðurlandi. Morgunblaðið segir frá 25. og 26. júní:

[25.] Frá fréttaritara vorum: Blönduósi í gær: Stórflóð hafa laskað brúna yfir Öxnadalsá. Búist er við að konungur og fylgdarlið hans verði að stíga um borð í „Dannebrog“ á Sauðárkróki og fara sjóleiðis til Akureyrar. Fregnin um það, að Öxnadalsbrúin hefði laskast, barst til Blönduóss kl. 10 í kvöld. Hefir sá hluti brúarinnar, sem er úr járnbentri steinsteypu, skemmst. Hitar hafa gengið undanfarið fyrir norðan og í dag var hitinn 26 stig. Þessir óvenjumiklu hitar hafa orsakað flóðið.

[26.] Veður var heiðskírt um því nær allt land í gær, og hiti 15—22 stig á Norður- og Austurlandi (mestur á Seyðisfirði og Vattarnesi við Reyðarfjörð). Vestanlands voru 11—17 stig. Fréttaritari Morgunblaðsins á Seyðisfirði segir í skeyti í gær: Óvenjulegir hitar hafa verið hér undanfarna daga, 20—24 stig á Celsius í skugganum, dag og nótt. Í gær var 25 stiga hiti á Norðfirði, símar fréttaritari.Túnasláttur er byrjaður fyrir nokkru og hirðist taða jafnóðum. Afli hefir verið sæmilegur á grunnmiðum.

Akureyri, föstudag. Geysihiti hefir verið hér í dag, 25 gr. í skugga og 39 móti sól. Allar ár hafa vaxið stórkostlega. Eyjafjarðará flæðir yfir alla bakka. Rafstöð bæjarins er stöðvuð og einnig klæðaverksmiðjan Gefjun vegna aurhlaups í Glerá. Kn.

Í júlí var tíð sérlega hlý og góð á Suður- og Vesturlandi, og á vestanverðu Norðurlandi. Norðaustanlands var heldur óhagstæðara, alla vega um tíma. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:

Lambavatn: Það hefir verið blíðviðri og stilla allan mánuðinn. Alltaf þurrkur nema fyrstu og síðustu daga mánaðarins. Heyskapur hefir gengið óvenjuvel, þornað eftir hendinni.

Sandur: Tíðarfar yfirleitt hagstætt, stillt og fremur þurrviðrasamt. Grasspretta í meðallagi eða tæplega það, en í betra lagi á flæðiengjum. Snjór óvenjumikill til fjalla.

Nefbjarnarstaðir: Hægviðri og hlýindi. Óþerrisamt um miðbik mánaðarins en samt ekki
stórfelldar úrkomur.

Slide6

Meðalhæð 500 hPa flatarins og hæðarvik í júlí 1936. Þá var óvenjuhlýtt um landið vestan- og suðvestanvert og góð tíð. 

Morgunblaðið segir frá 12.júlí. Þá fyrst var verið að opna Fjarðarheiði fyrir umferð:

Seyðisfirði í gær. Undanfarna viku hefir verið unnið að því að moka snjó af bílveginum á Fjarðarheiði, og fór fyrsti bíll á þessu sumri yfir heiðina í dag. 35 sjálfboðaliðar unnu að því í samtals 200 klukkutíma að gera veginn færan bílum. Í fyrravetur snjóaði óhemju mikið á heiðina, svo að þrátt fyrir gott og heitt tíðarfar í vor og sumar hafði snjó ekki leyst svo mikið, að bifreiðavegurinn væri fær.

Þetta vor var gerður leiðangur á Vatnajökul, eins konar framhald annars árið 1934. Lesa má um þá í bókinni „Vatnajökull. Barátta elds og ísa“. Höfundur er Niels Nielsen

Í Morgunblaðinu 24.júlí er alllöng fregn um leiðangurinn. þar segir m.a.:

Hinn 17, maí komust þeir til Grímsvatna og héldu þar til fram að 25. maí. Gígurinn var nú orðinn mjög breyttur. Engin volgra í botninum og ekkert vatn, heldur aðeins jökull og stór skriðjökull gengur ofan í dalinn frá norðri og vestri. En úr gígbörmunum komu heitar gufur og fjall þar fyrir vestan er alltaf snjólaust vegna jarðhita. Er það nú fróðlegt vísindaefni að aðgæta hvort vatnið í gígnum, sem veldur hlaupunum, myndast smám saman undir jöklinum, eða þá að það myndast allt í einu við hinn ofsalega hita þegar gos hefst. Þegar lagt var á stað frá Grímsvötnum, skildi Jóhannes Áskelsson við þá ásamt öðrum fylgdarmanninum, Þórarni Pálssyni á Seljalandi, svo að nú voru þeir aðeins þrír eftir, Danirnir tveir og Jón bróðir Þórarins. Dvöldust þeir á jöklinum fram til 16. júní. Rannsökuðu þeir alla íslausa tinda í vestanverðum Vatnajökli, með góðum árangri. Svo gengu þeir á Geirvörtur og niður að Grænalóni. Vatnið í því hefir hækkað talsvert síðan í fyrra, en þó standa þar upp úr 25—30 metra háir jökuldrangar. Þarna tóku þeir margar myndir, en rannsökuðu ekki frekar, því að þeir bjuggust við að Jóhannes Áskelsson hefði gert það, en svo var þó eigi. Nú fóru þeir aftur upp á jökul. Var nú farið að hlýna í veðri og ófærð og mittisdjúpar blár sumstaðar á jöklinum. Urðu þeir því að sæta fi'óMfúm til að ferðast. Gengu þeir fyrst þvert til Hágangna og þar vestur yfir. Á þeim slóðum hafa sýnilega orðið eldsumbrot í fyrra, þótt þau hafi ekki haft svo mikinn kraft, að þau næði sér upp úr jöklinum. En kross-sprengt höfðu þau jökulinn svo, að dr. Nielsen segist aldrei hafa séð annað eins. Giskar hann á, að sumar  jökulsprungurnar þarna muni vera 50 metra djúpar. Var þarna gríðarstórt svæði ófært með öllu.

Morgunblaðið segir 16.ágúst frá hlýindum í júlí:

Júlímánuður í sumar, er heitasti mánuður, sem komið hefir hér á landi síðastliðin 60 ár. Meðalhitinn í júlí í sumar hefir verið 13,2 stig, en meðalhiti þessa mánaðar hér í Reykjavík er 10,9 stig. Mestur meðalhiti, sem mældur hefir verið hér í júlímánuði áður, er 12,8 stig árin 1872 og 1933. Heitasti dagur í júlí í sumar var 4. júlí, var hiti þá 22.stig.

Ágúst var hlýr, en úrkoma var í meira lagi, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Veðurathugunarmenn lýsa tíðarfari:

Lambavatn: Það hefir verið votviðrasamt og þar af leiðandi óhagstætt fyrir heyskap. Um
miðjan mánuðinn hurfu alveg skafla sem eru undir Skörðunum. Eru þeir venjulega öll sumrin.

Nefbjarnarstaðir: Hlýindi og hægviðri að staðaldri. Úrkomulítið. Má tíðin því teljast hin hagfelldasta.

Þann 8. gekk lægð yfir landið og enn urðu sjóskaðar. Morgunblaðið segir frá þann 11.ágúst:

Óttast er um afdrif línuveiðarans „Örninn“ frá Hafnarfirði, en hann var eitt þeirra skipa, sem lenti í aftaka norðvestan illviðri fyrir Norðurlandi á laugardag [8.ágúst] og aðfaranótt sunnudags. — 18 manna skipshöfn var á Erninum.

Morgunblaðið segir 13.ágúst frá miklu hagléli í Reykjavík:

Um níuleytið í gærkvöldi kom haglél hér í bænum og nágrenni. Haglélið var svo mikið, að götur urðu alhvítar um stund. Skúrin stóð í 10 mínútur.

Vísir segir 31.ágúst frá skriðuhlaupum - líklegast er talið að þetta hafi verið þann 13. ágúst:

Í rigningum þeim hinum miklu, sem gengu um Vestfjörðu laust fyrir miðjan ágústmánuð, hlupu hvorki meira né minna en 12 skriður úr Eyrarhlíð og runnu yfir þjóðveginn milli Hnífsdals og Ísafjarðar. Var mikið verk að gera veginn bílfæran að nýju.

Morgunblaðið segir 18.ágúst frá hrakviðri á þjóðhátíð eyjamanna. 

Vestmannaeyjum mánudag [17.ágúst]. Einkaskeyti til Morgunblaðsins: Þjóðhátíðin, sem halda átti um helgina, misheppnaðist sökum óveðurs og varð að fresta hátíðahöldum síðari dagsins um óákveðinn tíma. Á laugardag var veður sæmilegt og fóru svo að segja allir Vestamannaeyingar inn í Dal.

Alþýðublaðið segir 19.ágúst frá rigningum í Eyjafirði:

Frá fréttaritara Alþýðublaðsins Akureyri í morgun: Stórfelldar rigningar hafa gengið hér í gærdag og nótt. Smálækir, sem voru orðnir svo að segja þurrir geystust fram eins og stórár. Hætta er talin á, að þetta geti valdið nokkru tjóni.

Morgunblaðið segir af hugsanlegur gosi í Vatnajökli 27.ágúst. [Geta má þess að svo virðist sem framhlaup hafi orðið í Síðujökli á árinu 1936 - slíkt fyrirbrigði var þá lítt þekkt].

Lítilsháttar gos virðist hafa orðið nýlega í suðvestanverðum Vatnajökli. Bárust lausafregnir hingað til bæjarins um að gosið hefði sést frá Kirkjubæjarklaustri á Síðu. Spurðist FÚ. fyrir um það í gær og skýrir Lárus bóndi Helgason þannig frá: Fyrra þriðjudagskvöld sást héðan frá Kirkjubæjarklaustri gosmökkur í norðaustri. Bar hann yfir Austur-Síðufjöllin — um bæinn Keldunúp framan við Hörglandsfell, lítið eitt sunnar en undanfarin gos. Gosmökkurinn sást greinilega. Steig hann við og við hátt á loft en hvarf þess á milli, en yfir var þykkt biksvart ský og bar móðuna suður yfir. Gosið mun þó hafa verið lítið, því engin leiftur sáust í mekkinum og ekki heyrðust neinir dynkir. Vöxtur hljóp í Skaftá um sama leyti eða litlu síðar. Síðastliðinn föstudag fóru menn frá Klaustri norður að Laka og varð þess vart að mikill vöxtur hafði hlaupið í ána norður á Öræfunum, en vöxturinn hafði að mestu leyti horfið í hraunin og gætti hans lítið niðri í byggð, en þó að nokkru. Lárus telur gosstöðvarnar 5 km, eða rúmlega það, sunnan við Grímsvötn og getur það staðið heima við athuganir, sem gerðar hafa verið hér af kunnugum mönnum. (FÚ.).

Heldur kalt var fyrstu daga septembermánaðar og þ.4 varð alhvítt í efstu byggðum norðaustanlands. Annars var mánuðurinn mjög umhleypingasamur og sérlega votur á Suður- og Vesturlandi. Eftirminnilegast er þó illviðrið mikla aðfaranótt þess 16. Um það hafa hungurdiskar fjallað áður og sagt frá aðdraganda þess og háttum illviðrislægðarinnar. Þar var einnig fjallað um afdrif rannsóknaskipsins Pourquoi Pas? Verður það ekki endurtekið hér, en helstu skaðar taldir upp (þó að einhverju leyti sé um endurtekningu að ræða). Pistlarnir sem hér eiga helst við birtust á hungurdiskum 15. og 17. september 2016. „Fyrir 80 árum - þankar um veðrið sem grandaði Pourquoi Pas?“ og „Meira um PP?-veðrið“. 

Morgunblaðið segir frá veðrinu og tjóni í löngum pistlum 17.september:

Ofsarokið skall yfir Norðurland á miðvikudagsnótt [aðfaranótt 16.], og olli tilfinnanlegu tjóni í öllum sýslum. Er ógerningur að gera sér grein fyrir því, hve tjónið hafi verið mikið, því fréttir hafa ekki borist úr öllum sveitum. En mest kveður að því tjóni, sem orðið hefir á heyjum manna. Af þeim fregnum, sem blaðinu bárust í gær, er aðeins hægt að ráða af dæmum, hve tjónið hafi verið mikið.

Frá Blönduósi var blaðinu símað: Í ofsarokinu, sem hér geisaði aðfaranótt miðvikudags urðu miklir heyskaðar víðsvegar um Húnavatnssýslu. — Eru engin tók á að afla sér yfirlits um það enn, hve víða menn hafa misst hey, eða hve miklu tjónið hefir numið. En telja má víst, að það nemi þúsundum heyhesta, sem menn hafa misst. Sumstaðar þar, sem til hefir frést, hefir rokið skafið burtu heyflekki, og þeytt föngum, svo ekki sést urmull af þeim. Hefir frést, að tjónið á einum bæ t.d., Stóru-Giljá, nemi 300 hestum og víða er talað um, að menn hafi misst 100 hesta, eða sem því svarar á bæ. Af bólstrum, sem úti stóðu verjulausir, er víða ekki annað eftir en botnarnir. Veðurofsinn stóð yfir frá kl.1—4 um nóttina.

Tíðindamaður blaðsins á Sauðárkróki hefir svipaða sögu að segja. Úr Blönduhlíð, Hólmi, Seiluhreppi, Skagafjarðardölum berast fregnir af miklum heysköðum. Þaðan er og sagt hið sama, að rokið hafi jafnvel rifið burtu flatt hey. Á Mælifelli er talið, að tapast hafi á 3. hundrað hestar. Og tilfinnanlegt tjón er sagt að orðið hafi t.d. á Silfrastöðum, Úlfsstöðum og Miklabæ í Blönduhlíð. Sama sagan er úr Viðvíkursveit á Vatnsleysu t.d. Og af Sjávarborgarengjum tapaðist mikið hey. Úr hvorugri sýslunni hefir blaðið frétt að orðið hafi tilfinnanlegt tjón á húsum — nema hvað húsaþök löskuðust víða og járnþök fuku af hlöðum hér og þar.

Í Eyjafirði. Tíðindamaður blaðsins á Akureyri segir og frá, að þar í sýslu hafi fokið talsvert af heyi. En eftir því sem hann hafði frétt í gærkvöldi, hefir heytjón vart orðið eins víða þar í sýslu eins og vestar. Á Litla-Eyrarlandi var talið að tapast hefðu um 200 hestar í veðrinu, á Möðruvöllum í Hörgárdal annað eins og á Grund í Eyjafirði um 300.

Frá Blönduósi var blaðinu símað í gærkvöldi, að önnur timburbryggjan, sem byggð hefir verið á Skagaströnd, hafi stórskemmst í rokinu, og getur svo farið, að mikill hluti hennar ónýtist með öllu. Er þetta ytri bryggjan, sem liggur til austurs frá hafnargarðinum. Hangir bryggjan uppi á enda stöplunum, en stólparnir þar á milli hafa dregist undan bryggjunni, svo hún er sliguð niður og liggur undir áföllum af sjávargangi. Á bryggjuhausnum var fallhamar 7 tonn að þyngd. En við rask það, sem á bryggjunni varð, féll fallhamar þessi í sjóinn.

Húsavík miðvikudag. Einkaskeyti. Í nótt var ofsaveður hér um slóðir af suðri og suðaustri, er gerði mikið tjón á heyjum. Fauk jafnvel torf ofan af uppbornum heyjum, og skóf veðrið upp flata flekki svo þeir fuku út í veður og vind. Í Húsavík töpuðust nokkur hundruð hestar af heyi, sem úti var. Ekki hafa enn komið nákvæmar fregnir úr sveitunum. En búast má við, eftir því hvernig veðrið var hér, að tjónið hafi orðið mikið. Egill.

Af veiðiskipaflotanum er símað: Þegar fárviðrið skall á í nótt lágu margir  karfaveiðitogararnir við affermingu í höfn. Þeir togarar, sem voru á Halamiðum, leituðu hafnar, nema 2 eru enn á miðunum og sögðu í dag veður fara heldur batnandi. (FÚ)

Úr Dölum er símað: Á Ballará í Klofningshreppi fauk tyrfð járnvarin hlaða niður að torfveggjum og talsvert af heyi. Öll önnur útihús eru meira eða minna skemmd, jafnvel torfveggirnir tættust sundur og grjót úr þeim kastaðist langar leiðir. Túngirðing er mikið skemmd. Skv. FÚ.

Í Laxárdalshreppi urðu þessir skaðar: Í Búðardal fauk verkfæraskúr ríkisins. Á Leiðólfsstöðum fauk járnþak af íbúðarhúsi. Á Gillastöðum fauk járnþak af fjárhúshlöðu. Á Hrappsstöðum fauk járn af fjárhúsi og húsin eru mikið skemmd. Í Hjarðarholti fuku um 100 hestar heys. Víða annarsstaðar er mikið heytjón. Þrír bílar tepptust í Miðá í gær. Tveir hafa náðst, en eru ekki komnir í lag. Átján manna áætlunarbíll frá Bifreiðastöð Íslands er enn fastur næstum á kafi í kvísl vestan árinnar nálægt Gröf. Tilraunir til þess að ná bílnum standa yfir. (Skv. FÚ)

Frá Patreksfirði símað: Aftaka sunnan stormur geisaði hér síðastliðna nótt. Alla báta, er lágu hér á höfninni, að undanteknum einum, rak á land eða þeir sukku. Sumir ónýttust alveg, en aðrir skemmdust mikið. Vélbátnum Þresti var bjargað óskemmdum. Járnplötur fuku af nokkrum húsþökum, auk annarra smærri skemmda. — Í Tálknafirði fauk meginið af því heyi, sem úti var, og þak tók af hlöðu í Botni. Vélbáturinn Alpha á Suðureyri rak þar á land og hvalveiðaskipið Estella, sem lá við Suðureyrarbryggju,  skemmdist eitthvað, auk þess urðu skemmdir á húsum á hvalveiðistöðinni. Í Sauðlauksdal fauk þak af hlöðu og allmikið af heyi. — Á Hvallátrum urðu einnig skemmdir á húsum. (Skv. FÚ.)

Á Snæfellsnesi urðu allmiklir skaðar. Fréttaritari útvarpsins í Stykkishólmi símar í dag: Ofsaveður var hér síðastliðna nótt og var veðurhæðin mest milli kl. 24—2. Silfurrefabú Ólafs Jónssonar frá Elliðaey, með 10 silfurrefum, fauk í óveðrinu. Náðust 4 dýrin í búrunum ómeidd, en 6 sluppu út. Þau náðust þó aftur í dag. Búrin gereyðilögðust. Er tjónið áætlað á annað þúsund krónur. Þak fauk af hlöðu hjá Sumarliða Einarssyni og víða urðu skemmdir á skúrum og girðingum. Óveðrið olli miklu tjóni á heyjum, sem óhirt voru. — Á nýræktinni í Stykkishólmi var mestöll seinni slægjan í göltum og fuku þeir í nótt. — Margir áttu óflutt hey úr Eyjum, og eru þau talin ónýt. (Skv. FÚ)

Í Eyrarsveit var sama ofviðri og urðu þar miklir heyskaðar. Í Gröf fauk hjallur og þvottahús og þak af hlöðu. Þak fauk af fjósi á Fornugrund og fjárhús skemmdust á Setbergi. (Skv. FÚ)

Þegar sunnanrokið skall á á Norðurlandi um sexleytið í gærmorgun, voru flestir bátar í róðri. Í gærkvöldi voru 18 bátar ókomnir til Siglufjarðar, og hafði spurst til þeirra allra nema Þorkels mána, Kristins Erlings, og óttast var ennfremur um Draupnir. Bátarnir voru að smákoma til Siglufjarðar í allan gærdag. — Sjómenn sögðu veður öllu verra úti fyrir en inni á firðinum (segir í FÚ fregn). Var rok um allan sjó og krappar öldur, en ekki stórsjór. Togararnir Garðar, Gulltoppur, Þórólfur og Fáfnir sem voru á Siglufirði, fóru út fyrir hádegi í gær til að vera til aðstoðar bátum er kynnu að vera í hættu. Margir bátar töpuðu netum og öðrum hlekkist á eða biluðu. Netatjónið er talið nema mörgum tugum þúsunda. Stormur, 5 smálesta bátur, komst undir Siglunes með vél í ólagi, en var sóttur þangað. Netatrossur þeirra Draupnis og Snorra rak saman. — Hjó Snorri frá sér netin en Draupnir hangir í þeim úti. Afturmastrið brotnaði af Snorra. Bára missti öll netin og fleiri bátar öll eða flestöll. Vélbátinn Hvíting, sem lá austur af Eyrinni, rak út undir Siglunes mannlausan og var sóttur þangað af bv. Þórólfi. Flutningaskipið Bro sleit frá hafnarbryggjunni á Siglufirði og rakst afturendi þess á næstu bryggju norðanvið og braut hana mikið. Nótahjallar við börkunarstöð Siglufjarðar fauk og annar laskaðist. Hey hafa fokið víða hér í firðinum. Skúr fauk af bryggju Hafliða Halldórssonar og lenti hann á manni, sem slasaðist allmikið. Varð að flytja hann þegar á sjúkrahúsið. Kl. 6 voru þessir bátar komnir til Siglufjarðar: Arthur, Fanney, Bjarni, Brynjar, Einar Hjaltason, Esther, Frigg, Fylkir, Geir goði, Gunnar Antons, Hannes Hafstein, Haraldur, Harpa, Kári, Kári Sölmundarson, Kolbeinn ungi, Magni, Skarphjeðinn, Skíði, Snorri, Stathav, Sæbjörn, Víkingur, Lagarfoss, Ásbjörn, Hansína,.

Ófært er á bílum austan úr Mýrdal vegna vatnavaxta í ám í Vestur-Skaftafells- og Rangárvallasýslu. Varð í gær að selflytja þá, sem komu að austan. Brúin á Jökulsá á Sólheimasandi er í hættu. Hefir áin grafið sig fram í öldu fyrir austan brúna og er óvíst hvort tekst að afstýra stóru áfalli, ef aðgerð verður ekki framkvæmd fljótt (símar fréttaritari Mbl.) Hafa undanfarið gengið miklar rigningar og hlýindi fyrir austan og hefir mikill vöxtur hlaupið í ár, bæði jökulsár og bergvötn. Á Kálfafelli í Fljótshverfi hefir ofvöxtur hlaupið í Laxá, sem er bergvatn og rennur vestan Kálfafells og Kálfafellskots. Var hlaupið með fádæmum mikið (símar fréttaritari Mbl.) og eyðilagði rafstöðina við Kálfafell, en þaðan fá rafmagn þrír bæir. Tók rafstöðin húsið, sem var úr steinsteypu, burtu, og grunnurinn brotnaði. Vélar stöðvarinnar standa eftir í rústunum, en eru undir möl og sandi. Flóðið eyðilagði stórt stykki í túni í Kálfafellskoti og ennfremur talsvert af nýrækt. Langri girðingu sópaði burtu, svo ekki sást urmull eftir. Árnar bera fram mikið af urð og grjóti. Búendur í Kálfafelli, sem orðið hafa fyrir tjóni eru Stefán Þorvarðsson og sonur hans Björn og Helgi Bergsson. Í Skaftártungu hefir Eldvatnið við Stórahvammsbrú hlaupið á vegargarð og brotið hann. Í Hólmsá hefir vöxtur ekki verið eins mikill síðan í Kötluhlaupunum. Hólmsá er jökulsá. Brúin yfir Hólmsá liggur yfir hátt gljúfur en áin flóði yfir brúna og braut skarð í kampana báðum megin brúarinnar. Áin flæddi inn í svokallað Kötlugil og tók brú yfir gilinu og komst inn í rafstöð, sem bóndinn í Hrífunesi á. — Um skemmdir í rafstöðinni er óvíst. I Mýrdal hefir brúin á Klifanda skekst. Hljóp Klifandi með Hafursá með svo miklum fallhraða á brúna að eitt okið skemmdist. Klifandi hljóp einnig fram fyrir vestan brúna. Undir Eyjafjöllum var ófært bílum alveg vestan Hrútafells (bær), því að Kaldaklifsá, sem þar rennur fram, hafði brotið varnargarða í fleiri stöðum. Holtsá undir Eyjafjöllum hljóp á gamlan, öflugan varnargarð og braut garðinn. Flóði hún yfir túnið.

Símasamband rofnaði víða þannig að fréttir af tjóni voru að bætast við næstu daga. Morgunblaðið 18.september:

Fárviðrið aðfaranótt miðvikudags geisaði um alla Vestfirði og olli gífurlegu tjóni. Í skeyti frá Bíldudal, segir að veðrið hafi verið meira en aldamótaveðrið, árið 1900, sem var versta veður þá um mannsaldra. Frá Rauðasandi í Barðastrandarsýslu er Morgunblaðinu símað að annað eins veður hafi ekki orðið síðan um aldamót. Þar kom geysistór flóðalda sem skall alveg upp að túnum á Rauðasandi og alla leið að Straumhól. Sást til bylgjunnar eins og hún væri gríðarhár veggur. Frá Ísafirði er Morgunblaðinu símað um mikið tjón af völdum fárviðrisins, bæði á húsum og skipum. (Sjá skeyti á öðrum stað í blaðinu). Mannskaði mun þó hvergi hafa orðið nema á Bíldudal. Þar er saknað trillubáts, sem var að smokkfisksveiðum. Á bátnum voru þrír menn: Eiríkur Einarsson, frá Otradal (giftur, 1 barn), Ólafur Jónsson frá Bíldudal (17 ára) og Ríkarður Sigurleifsson (12 ára). Reru fimm bátar á smokkfisksveiðar frá Bíldudal á þriðjudagskvöldið og hafa allir náð landi nema bátur Eiríks.

Á Bíldudal lágu 12 bátar og skip á höfninni, þegar óveðrið skall á um 11-leytið á þriðjudagskvöld. En eftir storminn var aðeins einn bátur eftir, vélbáturinn Ægir. Línuveiðarana tvo, Geysi og Ármann, rak yfir fjörðinn. Rak Geysi á land hjá Auðkúlu og er hann lítið skemmdur. — Ármann dró akkerið og tók botn framundan Lónseyri og liggur þar á floti. Við Auðkúlu rak einnig á land handfæraskipið Geysi og skemmdist mikið. Er óvíst, hvort það næst út aftur. Skipið er 30 smálestir. Verið er að reyna að ná upp þrem bátum, sem sukku, og þrír bátar eru reknir fyrir utan Tjaldaneseyrar. Víða er rekið með fjörunni ýmislegt úr róðrarbátum, svo sem árar, vélahús o.fl. (segir FÚ). Miklar skemmdir hafa orðið á húsum á Bíldudal. Rafleiðslur eru allar mikið bilaðar og er þorpið rafmagnslaust. Aðrar fréttir úr Arnarfirðinum eru: Frá Stapadal tapaðist vélbátur og tveir árabátar brotnuðu þar í spón. Í Lokinhömrum brotnaði vélbátur og tveir árabátar. Þar tók einnig þak af hlöðu. Á Rafnseyri brotnaði bátur og járnþak tók af hlöðu og hey ofan veggja. Á Laugabóli brotnaði vélbátur. Á Ósi tók þak af bænum og hjallur fauk. Auk þess urðu meiri og minni skemmdir á húsum og hey fauk og eldiviður skemmdist. (Skv. FÚ).

Á Patreksfirði hvessti mjög snögglega af suðri um 10-leytið á þriðjudagskvöld. Togararnir Gylfi og Leiknir lágu þá báðir við bryggju, Gylfi við affermingu, en Leiknir utan á honum, og beið affermingar. Þegar svona snögglega hvessti, var samstundis kallað á skipshafnirnar til þess að bjarga skipunum. Löskuðu þau nokkuð bryggjuna, áður en tókst að ná þeim frá. Fárviðrið var mest milli 1 og 4. Tveir trillubátar sukku og vélbátinn Ellen rak á land; skemmdist hann frekar lítið. Vélbátinn Orra rak á land og gereyðilagðist hann. V.b. Þröstur dró legufæri sín og var rétt, kominn á land, er veðrinu slotaði. Skemmdir á húsum á Patreksfirði urðu litlar, aðeins fauk járn af einu húsi og rafljósaþræðir slitnuðu að einhverju leyti. Mörg erlend skip leituðu til Patreksfjarðar undan óveðrinu. Að Sauðlauksdal fauk þak af hlöðu og fuku þar 80 heyhestar. Á Hvallátrum skemmdust hús meira og minna. Frá Guðmundi Kristjánssyni, Breiðuvík tók trillubát úr nausti. Rak hann á land niðurbrotinn, varð engu náð nema vélinni. Í Kollsvík fauk þak af hlöðu. Í Tálknafirði fauk alt hey, sem úti var, og þak af hlöðu í Norðurbotni. Hús hvalveiðastöðvarinnar á Suðureyri skemmdist töluvert. Vélbátinn Alpha rak þar á land og eyðilagðist að mestu leyti. Hvalveiðabáturinn Estelle var við Suðureyrarbryggju og var að gera ketilhreinsun. Skemmdist hann allmikið og er óvíst, hvort hann getur farið aftur á hvalveiðar á þessu ári án viðgerðar. Af hinum hvalveiðabátnum, Busen, hefir ekkert frést. Tjón í Dýrafirði urðu helst þessi (skv. FÚ): Í Hvammi fuku 200 hestar heys, í Haukadal 100 hestar og í einum bæ í Mýrarhreppi, Fremri-Hjarðardal, 70 hestar. Auk þess sópuðust víða burt hey, er úti voru. Kristján Einarsson bóndi í Hvammi missti þak af hlöðu og það hey, sem ekki fauk, liggur undir skemmdum. Ólafur bóndi á Múla hafði baðstofuhús í smíðum. Þessi bær gerónýttist svo, að tóftin ein stendur eftir. Í Haukadal var samkomuhús einnig í smíðum. Féll húsgrindin til grunna og nokkuð af viðnum brotnaði, en sumt fauk á sjó út. Þar fuku og þrír bátar og hús skekktust á grunni. Þak fauk af geymsluskúr og Ólafur bóndi Hákonarson missti fjárhús sitt og þak af hesthúsi. Við norðanverðan Breiðafjörð var í fyrrinótt aftaka sunnan rok og sjógangur. Urðu víða skemmdir. í Króksfjarðarnesi fauk þak með öllum viðum af nýju haugshúsi og fjósi og 3 bátar brotnuðu allmikið. Á Reykhólum brotnaði einnig bátur.

Miklar skemmdir hafa orðið á Ísafirði af völdum suðvestan fárviðrisins. Fréttaritari vor á Ísafirði símar: Í fárviðrinu rak á land vélbátinn Rafnar, og skemmdist hann mikið. Vélbáturinn Hekla laskaðist og trillubátar og smábátar mölbrotnuðu. Hafnarstræti er stórskemmt af sjógangi og er það illfært bifreiðum, enda fullt af allskonar reka úr bátum, viðum úr bryggjum o.fl. Vélbáturinn Björn, 16 smálestir, strandaði á Maleyri, Hestfirði, og er talið að hann sé mikið skemmdur. Sumir segja að hann sé ónýtur. Báturinn hafði flutt allmargt berjafólk frá Ísafirði til Hestfjarðar, en lenti í hrakningum. Sumt af fólkinu hafðist við í tjöldum í fyrrinótt, en um 20 manns hafðist við í bátnum. Slitnuðu festar hans um miðja nóttina og rak hann á land. Bjargaðist fólkið á land. — Fólkið, sem hafðist við í tjöldunum missti þau út í veður og vind. Leitaði það bæja og var loks sótt á vélskipinu „Huginn annar“. Í Hnífsdal fauk hús Ingólfs Jónssonar af konu og tveim börnum, og björguðust þau nauðulega. Þau sakaði þó ekki. Skemmdir á öðrum húsum urðu miklar. Á Flateyri fauk þak af íbúðarhúsi og hlaða Guðjóns Jóhannssonar. Miklar skemmdir urðu á smábátum. — Nokkuð skriðurennsli varð á Breiðdalsheiðarvegum við rafveitu Ísafjarðar og urðu skemmdir talsverðar. Skúr fauk alveg og tjöld verkamanna. Í Álftafirði fauk þak af salthúsi og nokkuð af íbúðarhúsi á Langeyri og hlöðuþak í Súðavík hjá Grími Jónssyni. Í Bolungavík fauk þak af íbúðarhúsi Hjálmars Guðmundssonar í Meirihlíð, hlöðuþak í Þjóðólfstungu hjá Jóni J. Eyfirðing og mikið af heyjum. Heyskaðar meiri og minni urðu um allar nærsveitir.

Fimm menn tók út af norsku skipi í óveðrinu aðfaranótt 16. þ.m. Varðskipið Ægir kom með skipið hingað til Reykjavíkur í gærkvöldi. Fór Ægir í fyrrinótt kl.2 að sækja skipið, sem var á hrakningi undan Búðum á Snæfellsnesi.

Morgunblaðið gerir upp manntjón í pistli 22.september 1936, en segir einnig af jarðhræringum og síðan af tjóni við Seljavallalaug undir Eyjafjöllum:

Í ofviðrinu aðfaranótt 16. þ.m. fórust 56 manns, íslendingar og útlendingar, svo að vitað sé.

Allmargir jarðskjálftakippir, misjafnlega snarpir, fundust hér í Reykjavík í gær. Fyrstu kippirnir komu um þrjúleytið, en sá síðasti undir átta. Í Reykjavík voru mældir 28 kippir á tímabilinu frá hálf þrjú til kl. fimm og var næstum aldrei kyrrt. Bættust margir kippir við eftir það.

Grindavík; Þar byrjuðu jarðhræringar í fyrradag og svo aftur upp úr hádeginu í gær. Sumir kippirnir voru allsnarpir,. Kl. 5 í gær var kippurinn svo snarpur að hrundi úr grjótveggjum og steinsteyptar vatnsþrær sprungu. Reykjanes: Þar hafa jarðskjálftakippir fundist Öðru hvoru síðan í fyrradag, sumir allsnarpir, svo að hlutir í skápum hreyfðust til. Snarpasti kippurinn var kl. 5 í gær.

Í ofviðrinu mikla í vikunni sem leið kom hlaup í Laugará í Eyjafjöllum. Rennur á þessi fram hjá Seljavöllum og upp með henni, hátt uppi í fjallinu, var sundlaug Eyfellinga, hin einkennilegasta sundlaug, sem til var hér á landi. Áin hljóp á laugina og ónýtti hana gjörsamlega, braut algjörlega af gafl hennar, sem að ánni vissi, þótt rammger væri, fyllti sundþróna af aur og grjóti, svo að nú er slétt yfir hana. Sundlaug þessi var 7—8 ára gömul, og var það íþróttafélag Eyfellinga, sem lét gera hana, með ærnum kostnaði og fórnfýsi. Var þó nokkuð um það deilt fyrst í stað, hvar laugin skyldi vera, því að sumir óttuðust Laugará og skriðuhlaup úr fjallinu. En svo var laugin byggð þarna undir háum kletti og átti hann að varna skriðuhlaupum. Sundlaugin var 25 metrar á lengd og 6—8 metra breið, dýpi 1—2 1/2 m. Þegar laugin var fullger, settu Eyfellingar á sundnámsskyldu hjá sér, og hefir fjöldi manns lært að synda þar á undanförnum árum. Í sumar voru byggðir klefar við laugina og standa þeir enn. Eyfellingum þykir sem von er skaði mikill að missi sundlaugarinnar, og munu hefjast handa um að koma sér upp annarri laug, eða gera við þessa. Væri ekki nema sanngjarnt, að hið opinbera styrkti þá -að einhverju leyti til þess, þar sem tjón þetta er af náttúrunnar völdum. Sennilega verður horfið að því að moka upp sundþróna og gera við bana, steypa öflugri varnargarð meðfram ánni, og sprengja úr ánni kletta, svo að vatnsrennslið hafi frjálsari framrás. Verður þetta ódýrara heldur en að gera nýja sundlaug, vegna þess hve mikil mannvirki eru þarna uppi í fjallinu óskemmd enn.

Nýja dagblaðið bætir við fregnum úr Eyrarsveit á Snæfellnesi 30.september:

Eins og áður er frá sagt hér í blaðinu urðu töluverðir skaðar í Eyrarsveit á Snæfellsnesi í ofviðrinu aðfaranótt 16. þ.m. En viðbótarfréttir, er blaðinu hafa borist, herma að 50-60 fjár frá Vatnabúðum og fleiri bæjum í Eyrarsveit hafi hrakið í sjó fram í ofviðrinu og farist þar. Töluverðir skaðar urðu á heyjum og útihúsum, en mestir hjá Sigurjóni Halldórssyni, Norður-Bár. Hjá honum tók þak af hlöðu og töluvert af heyi.

Í veðuryfirliti septembermánaðar segir Sigurður V. Jónathansson athugunarmaður á Stórhöfða: „ Eyjafjallajökull minnkaði meira í sumar en mörg undanfarandi sumur, víða auðir blettir um allan jökulinn“.  

Veðráttan greinir frá því að þann 20. hafi orðið vatnavextir sunnanlands og skemmdir í Landeyjum og að þann 25. september hafi strandferðarskip strandað við Grundarfjörð í vestankólgu og laskast nokkuð.

Október var mjög hlýr framan af, en síðan kólnaði og undir mánaðamót snjóaði nokkuð fyrir norðan og sömuleiðis gerði sjávarflóð á Suðvesturlandi. 

Vísir greinir 6.október frá enn einu „draugagosinu“ í Vatnajökli. Þetta gos hefur ekki fengist viðurkennt.

Samkvæmt skeyti frá Seyðisfirði til FÚ. sáu ferðamenn í gær af norðurbrún Fjarðarheiðar biksvartan gosmökk, sennilega úr Vatnajökli í stefnu yfir Snæfell. Mökkinn lagði hátt og jafnt. Engin leiftur sáust. Ekkert öskufall. Dökk móða var á fjöllum, segir í fregninni, en „ljósblá móða yfir Héraði öllu“. — Blíðviðri eru nú á Austfjörðum.

Talsverðir jarðskjálftar urðu á Norðurlandi að kvöldi 22. október. Morgunblaðið greinir frá þann 24.:

Þrír allsnarpir jarðskjálftakippir fundust um allt Norðurland í fyrrakvöld. Snarpastir voru kippirnir í Dalvík og annarsstaðar við Eyjafjörð og er álitið að upptök jarðskjálftanna séu á sömu slóðum eins og sumarið 1934, er mest tjón varð að völdum jarðskjálfta í Dalvík, eftir því sem Þorkell Þorkelsson veðurstofustjóri hefir reiknað út af jarðskjálftamælunum hér. Engar skemmdir urðu af völdum jarðskjálftanna, en víða færðust smáhlutir úr stað.

Undir lok mánaðarins gerði illviðrasyrpu. Sjávarflóð gerði á höfuðborgarsvæðinu - orsakir þess þyrftu nánari athugunar við því loftþrýstingur varð ekki sérlega lágur og vindur ekki með afbrigðum heldur. 

Slide7

Kortið sýnir hæð 1000-hPa flatarins um miðjan dag þann 29.október. Þrýstingur í lægðarmiðju er um 964 hPa. Lægðin er hér farin að grynnast - hafði nóttina áður ef til vill farið niður undir 950 hPa í miðju. Mjög hvöss vestanátt hélst næstu tvo daga og olli meira tjóni. 

Morgunblaðið segir frá 30.október:

Suðvestan hvassviðri var í gær [29.október] við suðurströnd landsins. Hvassviðrinu fylgdi mikið brim og mesta sjávarflóð, sem komið hefir hér í mörg ár. Á nokkrum stöðum varð tjón af flóðunum, og þá einna mest í Sandgerði. Í FÚ-frétt frá Sandgerði segir svo: Sjór gekk mjög á land og braut tvö hús. Annað er fiskhús, sem Huxley Ólafsson á, en hitt skúr, eign h.f. Sandgerði. Lagði brimið inn þær hliðar hússins, er vita að sjó, en húsin standa að öðru leyti. Háflæði var þar kl. 4:20, en kl. 5 var tekið að fjara svo mikið út, að hús og önnur mannvirki voru úr hættu að þessu sinni. Í Grindavík varð óvenju flóðhátt og gekk sjór upp á Kampa og yfir þá á stöku stað, en ekki varð neitt tjón af flóðinu. Á Akranesi varð stórflóð og feikna brim, en ekki olli það tjóni svo vitað sé. Á Eyrarbakka og Stokkseyri varð ákaflega flóðhátt, svo að annað eins flóð hefir ekki komið þar í mörg ár. Gekk sjór sumstaðar yfir alla sjávargarða og upp á grundir. Ekki er þó vitað til, að flóðið hafi valdið verulegu tjóni.

Á flóðinu í gær — kl.5 e.h. gekk flóðalda yfir Seltjarnarnesið. Var flóðið svo mikið, að á löngum kafla stóð vegurinn einn upp úr. Víða flæddi kringum hús, og á einum stað olli flóðið skemmdum á hænsnahúsum og fjósi. Í Gróttu gekk sjór yfir hálfa eyjuna, þegar mest lét, og braut þar 60 metra langan varnargarð, sem staðist hefir allan sjógang s.l. 14 ár. - Í gær, þegar blaðamaður frá Morgunblaðinu fór suður á Seltjarnarnes til að athuga flóðið, var orðið nokkuð dimmt, og því ekki hægt að sjá, hve flóðið var umfangsmikið. En frá Akri og að Kolbeinsstöðum náði sjórinn alveg upp að vegi, bæði að norðan og sunnan, og á einum stað seytlaði jafnvel alveg upp á veginn. Hjá bænum Eiði hafði sjórinn brotið skarð í skjólgarð og kastað stórum steinum langt á land upp. Þara og öðrum sjávargróðri feykti brimið alveg heim á hlað að Eiði. Kolbeinsstaðatúnið liggur allt undir sjó og er miðbik Seltjarnarness nú að sjá eins og óslitið stöðuvatn. Vegurinn og hús sem standa jafn hátt eða hærra, eru ekki flædd, en víða verður ekki komist heim að húsum þurrum fótum, eins og t.d. Akri og Sæbóli, Litla-Bjargi og víðar. Hænsnahús og fjós frá Stóra-Bjargi hefir flætt alveg, og hefir mikill sjór runnið inn í húsin. Bóndinn, Ísak Jónsson, verður þar fyrir töluverðu tjóni. Flætt hefir undir hey hjá honum og skemmt þau. Einnig hefir flætt upp í básana hjá kúnum, svo þær geta ekki lagst. Hænsnin höfðu bjargað sér upp á hænsnaprikin, en stóran hóp af gæsum varð að láta út, og hímdu þær í hvassviðrinu á bletti, sem stóð upp úr flóðinu. Óttast er, að ef útsynningsáttin helst í dag og á morgun, þá verði ennþá stórkostlegri flóð á nesinu, þar sem straumur fer enn stækkandi.

Morgunblaðið segir 1.nóvember frá óhappi í hvassviðri í Hafnarfirði:

Níu manns — sjö skóladrengir og tveir fullorðnir karlmenn slösuðust í Hafnarfirði í gærmorgun er ris af fiskhúsi Böðvarsbræðra við Strandgötu 50, fauk í roki og sjógangi. Um klukkan fjögur í fyrrinótt skall á vestsuðvestan-stórviðri í Hafnarfirði. Hafrótið var gífurlega mikið og gekk sjórinn óbrotinn yfir skipin sem lágu á höfninni og alla leið upp á Strandgötu. Um 7 leytið í gærmorgun var sjórinn búinn að brjóta undan fiskverkunarhúsi Böðvarsbræðra, sem stendur á plani við Strandgötu; einnig hafði sjórinn brotið innhlið hússins. Strandgatan fylltist af sjó alla leið upp að kirkjunni og var unnið að því í gær að aka mörgum bílhlössum af sjávarþangi af götunni, sem brimið hafði skolað á land. Um fótaferðatíma í gærmorgun kom fjöldi Hafnfirðinga til að skoða skemmdirnar á fiskverkunarstöðinni. Um 10 leytið komu að nokkrir skólapiltar á aldrinum 11—14 ára, sem voru í frímínútum. En þeir eru nemendur í gamla barnaskólanum, sem er þarna rétt fyrir ofan (bæjarþinghúsið). Piltarnir voru inni í fiskverkunarhúsinu og voru að skoða skemmdirnar. Allt í einu urðu menn þess varir að hluti af þaki hússins var að fjúka af því. Hlupu piltarnir þá út úr húsinu, en urðu þá undir þakinu. Einnig urðu fyrir því tveir fullorðnir menn, þeir Gunnlaugur Stefánsson kaupmaður, Austurgötu 25, og Jón Lárusson, Skúlaskeiði 4. Skólapiltarnir sem meiddust, voru: Kristján Kristjánsson, 12 ára, Garðaveg 13. Kristján Jónsson, 13 ára, Öldugötu 7. Skúli Ingvarsson, 11 ára, Hverfisgötu 9. Gunnar Már Torfason, 13 ára, Vesturbraut 3 B. Hinrik Hinriksson, 11 ára, Suðurgötu 42 B. Sigurjón Pjetursson, 11 ára, Krosseyrarveg 4. Guðmundur Hjartarson, 14 ára, Suðurgötu 9. Nokkrir piltanna urðu undir þakinu, þannig, að það varð að lyfta því til að ná þeim undan. Allir þrír læknar bæjarins voru kallaðir til að athuga og binda um sár hinna særðu pilta. Voru þrír þeirra fluttir á spítalann, og fjórir í bæjarþinghúsið. Alvarlegustu meiðslin hlaut Skúli Ingvarsson, enda varð hann alveg undir þakinu. Fékk hann stór sár víða á líkamann. Hann liggur nú í spítalanum, en hinir piltarnir eru komnir heim til sín og meiðsli þeirra eru ekki, talin hættuleg. Jón Lárusson fékk heilahristing en Gunnlaugur Stefánsson kaupmaður særðist ekki hættulega.

Í veðrinu í gærmorgun [31.október] dró línuveiðarinn Bjarnarey legufæri sín og rak í áttina til lands. Frammastur skipsins brotnaði og féll alveg niður á þiljur, einnig brotnaði ofan af afturmastrinu. Skipið rak í áttina til vélbátsins „Síldin“, sem lá þarna nærri og var um tíma hætt við að skipin rækjust saman. En þá var brotist út í „Síldina“ og lengt á legufærunum. Á svonefndu „Thorsplani“ braut sjórinn trillubát í spón. Báturinn var eign Brynjólfs Símonarsonar.

Fimmtudagsveðrið [29.október]. Sjóflóð tekur 100 metra túngarð í Höfnum. Mannvirki skemmist á Akranesi. Suðvestan hvassviðri gerði hér á Suðvesturlandi í fyrrinótt. Veðrinu fylgdi víða mikill sjógangur um flóðið í gærmorgun kl.7. Skemmdir urðu þó hvergi, svo teljandi séu, nema í Hafnarfirði. Á Akranesi urðu ekki neinar skemmdir af flóði, sjávargangi og veðri í fyrrinótt og gær en á fimmtudaginn urðu þar nokkrar skemmdir með háflóðinu kl. 4—5. Var þá brimrót mikið og gekk sjór á land og umturnaði fjörunni á löngum kafla. Skemmdi sjávargangurinn sumstaðar fiskreiti og fiskhús, sem eru næst ströndinni, en bryggjur stóðu og urðu t.d. engar skemmdir á hafnarbryggjunni, og ekki heldur á bátum. Vildi það og til, að þetta var um miðjan dag, og ruku allir til þess að verja bátana, einkum þá, sem voru í Slippnum, og tókst það. Hjá tveimur eða þremur mönnum gekk flóðbylgjan inn í fiskirás og hefir valdið einhverjum skemmdum á fiski, sem þar var, en þó ekki mjög tilfinnanlegum. Engin hús hafa skemmst hér af völdum roksins né sjávargangi.

Á Hellissandi var veður slæmt í gærmorgun [31.október] og mikið brim. Gekk sjórinn langt á land upp, lengra en menn muna. Skemmdir urðu þó ekki miklar af völdum sjávargangs, nema á veginum frá Sandi og út í Krossavík, en hann skemmdist töluvert. Í fimmtudagsveðrinu skemmdist vélbáturinn „Garðar“, sem lá upp við bryggju. Suður með sjó urðu engar skemmdir af völdum suðuvestanstormsins í gær [31.október], símar fréttaritari Mbl í Keflavík. En í fimmtudagsveðrinu [29.] gekk alda á land í Höfnum og tók af um 100 metra túngarð í Kirkjuvogi.

Veðráttan segir frá því að þann 1.október hafi bátur frá Viðfirði með fjórum mönnum farist við Norðfjarðarhorn og að kringum 22. hafi vatnavextir orðið í Borgarfirði, hey flæddi við Norðurá og víðar.

Nóvember var hlýr lengst af en umhleypingasamur. Mikið illviðri gerði þann 19. Veðurathugunarmenn segja frá mánuðinum: 

Hvanneyri (Hjörtur Jónsson): 19. þ.m. gerði ofsaveður af suðvestri með mikilli rigningu, þök fuku bæði járn- og torfvarin, hér og hvar. Hvítá flæddi yfir bakka sína og fé flæddi, sjór gekk langt á land upp, svo margur fullorðinn man ekki öllu meira flóð. Hér á Hvanneyri tók flóð þetta fjögurra manna far (bát) er hvolfdi í nausti sem þar hefur verið hafður í 2 tugi ára og ekki sakað. Rak hann langa leið og fannst á réttum kili. Hafði hann þá rekið alla þessa leið yfir engi og flóðgarða, var óbrotinn.

Hamraendar (Guðmundur Baldvinsson): Aðfaranótt 19. nóvember 1936 fauk þak af hlöðu á
Breiðabólstaði, Sauðafelli, Hamraendum, af fjósi á Svínhóli, skemmdist rafstöð á Háafelli. Fauk þak af hlöðu og fjárhúsum í Gunnarsstöðum í Hörðudalshreppi. Fauk þak af hlöðu og ca. 100 hestar á Sauðhúsum í Laxárdalshreppi. Fauk þak af hlöðu á Giljalandi og aftur á sama bæ 25.11.

Sandur: Tíðarfar fremur óhagstætt. Slæmur hagi fyrri hluta mánaðarins, en stormasamt síðari hlutann og notaðist þá haginn illa sem kom upp í veðrinu mikla þ.19. Það veður var eitt hið mesta er hér hefur komið í manna minnum. Sumstaðar fuku þá hey er úti stóðu, þakin og vel búin. Hver pollur var þá í háaroki og lagði mökkinn langar leiðir frá stærri vökum.

Reykjanesviti (Jón Á. Guðmundsson): Yfirleitt rosaveðrátta. Afar úrkomu- og stormasamt. Þar af leiðandi einnig óvenju brimasamt. Mest brim var morguninn þann 19. Þá var sjógangur svo mikill að Karlinn, sem er 51 m að hæð huldist alveg í löðurhjúpnum. Hefi ég aldrei séð það fyrr.

Morgunblaðið segir af vetraríþróttum 8.nóvember:

Fyrsta skautasvell vetrarins kom á Tjörnina í gær. Fjöll og dalir í nágrenni bæjarins eru snævi þakin. — Vetraríþróttirnar eru byrjaðar. Reykvíkingar láta ekki standa á sér að iðka vetraríþróttir, skíða- og skautaferðir þegar færi gefst. Fyrir nokkru er komið gott  skíðafæri í nágrenni bæjarins og ungir sem gamlir þyrpast í skíðaferðir.

Slide8

Lægðirnar tvær sem ollu illviðrunum 19. og 21. nóvember koma vel fram á þrýstiriti úr Reykjavík. 

Slide9

Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins um miðnæturbil að kvöldi 18.nóvember 1936. Þrýstingur í lægðarmiðju er að sögn endurgreiningarinnar um 955 hPa, en trúlega hefur hún í raun verið að minnsta kosti 5 til 7 hPa dýpri. 

Slide10

Um hádegi þann 19. var lægðin fyrir norðan land og vestanillviðri um land allt.

Morgunblaðið segir tíðindin í frétt 20.nóvember:

Fárviðri af suðri gerði hér á landi í fyrrinótt [aðfaranótt 19.] og urðu sumstaðar töluverðar skemmdir af völdum veðursins. Á Akranesi rak á land þrjú skip, þar á meðal flutningaskip Akurnesinga, Fagranes. Þá urðu nokkrar símabilanir. Þök fuku af húsum og girðingar tók upp. Í Reykjavík urðu nokkur símaslit í úthverfum bæjarins, en ekki er getið um neitt verulegt tjón. Á höfninni urðu engar skemmdir á skipum eða mannvirkjum, þó sjór gengi óbrotinn yfir hafnargarðana. Ein af stærstu gluggarúðum í bænum brotnaði. Var það í skrifstofu Sjúkrasamlags Reykjavíkur, glugganum, sem veit út að Austurstræti. Rúða þessi var sprungin áður. Í sama húsi, suðurhlið, brotnaði einnig stór rúða á annarri hæð. Í Bygggarði á Seltjarnarnesi fauk þak af fjósi og hlöðu og í Hólabrekku á Grímsstaðarholti fauk einnig þak af fjósi. Símaslit urðu nokkur og víða sveifluðust saman línur. Einna mestar urðu símaskemmdirnar hjá Rauðavatni, við Baldurshaga. Einnig nokkrar upp á Kjalarnesi og austur í sýslum. Póst- og símamálastjóri, Guðmundur Hlíðdal, skýrði blaðinu svo frá, að símaslit hefðu orðið minni en við hefði mátt búast, sem stafaði af því að engin ísing hefði verið á línunum. Nokkrar bilanir urðu á stuttbylgjustöðinni á Vatnsendahæð. Um miðjan dag í gær var búið að gera við mestallar símaskemmdir.

Akranes. Þar urðu ýmsar miklar skemmdir, af veðrinu. Flóabátinn „Fagranes“ rak á land á Langasandi. Þar sem hann kom upp er ægisandur, svo að skipið er lítið skemmt, en stendur hátt á sandinum. Ætla menn þó að hægt verði að bjarga því. Vélbátinn „Ægi“, sem gekk best fram þegar „Pourqoui pas?“ slysið varð, sleit upp á höfninni og rak á land skammt þar frá er Fagranes strandaði. Lenti hann þar á klettum við sjóinn og brotnaði nokkuð, en þó mun hægt að gera við hann þar sem hann liggur og koma honum aftur á flot. Vélbátinn „Rjúpu“, eign Jóns Halldórssonar, sleit frá festum á Lambhúsasundi og rak upp í klettana. Fór hann þar í spón. Einn trillubátur, eign Bjarna Brynjólfssonar, sökk á höfninni og brotnaði nokkuð.

Borgarnes. Ferjukotssíki gekk yfir þjóðveginn og skemmdi hann svo, að hann er ekki bílfær. Þá hafa fokið þök af hlöðum og íbúðarhúsum á stöku stað. Á Hreðavatni fauk þak af fjárhúsi yfir 160 fjár, og auk þess brotnuðu viðir. Á Beigalda fauk hluti af þaki íbúðarhússins og þak af hlöðu. Á Ferjubakka, Svignaskarði og Fróðhúsum skemmdust einnig þök. Af bryggjunni í Borgarnesi skoluðust ýmsir hlutir, svo sem bensíntunnur, olíutunnur og síldartunnur. Var þó nokkru náð úr sjónum í gær. Ferjubakkaflói er undir vatni og eru menn hræddir um að búpeningur hafi farist.

Keflavík. Þar var ofsarok og brimrót mikið úti fyrir, en inni á höfninni var skjól. Urðu hér því litlar skemmdir af ofviðrinu, nema hvað girðingar umhverfis hús í þorpinu slitnuðu upp og fuku, og ennfremur slitnuðu símar innan bæjar. Í Innri-Njarðvíkum sökk vélbáturinn „Pilot“ við bryggju og mun hafa skemmst eitthvað lítilsháttar.

Í Grindavík urðu talsverðar skemmdir af völdum veðursins. Brimið var mjög mikið. Á Hópi brotnuðu túngarðar og bar sjórinn grjót og sand langt upp á tún og ónýtti það. Einn 6 tonna opinn vélbátur brotnaði í spón vegna sjávargangs og annar brotnaði allmikið, en þó mun mega gera við hann. Fjórir aðrir bátar skemmdust nokkuð. Þegar verið var að bjarga bátunum lá við mannskaða og meiddist einn maður nokkuð. Á Auðnum á Vatnsleysuströnd fauk sjávarhús af grunni og út á sjó. Í Vogum fauk bílskúr ofan af mjólkurbíl og skellti veðrið bílnum á hliðina. Víða fuku hænsnahús og ýmislegt fleira, (segir FÚ.).

Eyrarbakki. Þar varð aftaka mikið sjávarflóð í fyrrinótt, og hefir ekki komið annað eins síðan 1925. En til allrar hamingju hefir það þó valdið litlum skemmdum. Flóðið var svo mikið að brimrótið fór í holskeflum yfir sjávargarðinn. Garðurinn stóðst, en innan við hann eyðilagði flóðið nokkuð af matjurtagörðum. Um aðrar skemmdir er varla að tala þar. Bátar og hafnarmannvirki er óskemmt; engar skemmdir hafa orðið á húsum. En sjógarðurinn austan við Hraun á sem er á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar, brotnaði á einum stað eða fleirum, og gekk þar brim á land.

Stokkseyri. Afarmikið brim gerði þar í fyrrinótt, en olli minni skemmdum, en búast mátti við. Tveir vélbátar, sem voru á legunni, „Sísí“ og „Haukur“, slógust saman, en óvíst er um hve miklar skemmdir þeir hafa hlotið. Sísí er eign Böðvars Tómassonar útgerðarmanns, Haukur eign Jóns Magnússonar útgerðarmanns.

Tjón í Öræfum. Sandfelli, fimmtudag. Sunnan ofviðri með slagviðri gerði hér í nótt. Allir lækir fylltust. Bæjarlækurinn hér á Sandfelli hljóp úr farvegi og fór yfir engjarnar, bar fram. aur og sand og olli allmiklum skemmdum; einnig braut hann niður um 80 metra af girðingu. Menn af næstu bæjum komu í dag og gengu í að veita læknum aftur í sinn fyrri farveg, og tókst það að mestu.

Sandur. Árabát Halldórs Guðbrandssonar tók út og brotnaði hann í spón. Nokkrir aðrir árabátar skemmdust talsvert. Vesturendi Thorsbergshúsanna, saltfiskshús úr steinsteypu, féll í rústir. Í Flatey sukku 3 bátar, þar sem þeir lágu við landfestar, og brotnuðu þeir til stórskaða.

Hólmavík. Þar sökk stór trillubátur á höfninni er Magnús Hansson átti. Símalínur biluðu og fleiri skemmdir urðu. Í Drangsnesi fauk lýsisbræðsluskúr og þak af hlöðu.

Blönduós. Víða reif torf af heyjum og í Þingi fuku talsverð hey. Þó mest á Stóru-Giljá. Fauk þar á annað hundrað hesta og er það þriðji heyskaðinn þar á þessu ári (FÚ).

Siglufjörður. Fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði símar: Um kl.5 á fimmtudagsmorgun skall hér á ofsarok af suðaustri. Var veðrið mest frá kl. 8—9 f.h. Þrír litlir vélbátar sukku, er hér voru við bryggjur. Nokkrir af hinum stærri vélbátum brotnuðu talsvert ofanþilja. Þak fauk af fjárskúr, og sentist þakið í heilu lagi yfir 5 hús, án þess að snerta þau. Eru tvö af húsunum tvílyft en eitt þrílyft. Kom flakið niður á sjóbúð Malmquists, hraut hana og bramlaði, og standa spýturnar úr flakinu upp úr sjóhúðarþakinu. Járnþak fauk af nokkrum húsum, þar á meðal af afgreiðsluhúsinu á Hafnarbryggjunni. Goðafoss lá á höfninni. Missti hann bæði akkerin og varð að flýja héðan, án þess að fá afgreiðslu. Hann fór áleiðis til Akureyrar. Miklar skemmdir urðu á síma- og ljósaleiðslum.

Nýja dagblaðið segir líka frá 20.nóvember (margt það sama og í frétt Morgunblaðsins):

Ofsarok af suðri og síðan suðvestri gekk yfir nær allt land í fyrrinótt. Var veðurhæð allvíða 11—12 vindstig á Norður- og Vesturlandi síðari hluta nætur. Sjávarflóð var þá mikið og stórbrim og urðu víða skaðar, sérstaklega við sjávarsíðuna á Norður- og Vesturlandi. Er talið að sumstaðar hafi veðrið verið engu minna en óveðrið hina eftirminnilegu nótt 16. sept. s.l. Í Reykjavík varð vindhraði mestur síðari hluta nætur 11—12 vindstig. Urðu skemmdir víðsvegar um bæinn, en hvergi stórvægilegar. Brotnaði stór rúða í húsnæði Sjúkrasamlagsins og eins hjá Vigfúsi Guðbrandssyni í sama húsi. Aðalloftnet Loftskeytastöðvarinnar slitnaði á mínútunni kl. 12 á miðnætti. Varð stöðin að nota varaloftnet þar til aðgerð á aðalloftnetinu fór fram í gær. — Miklar skemmdir urðu á rafmagnsleiðslum — loftleiðslum í hús og var unnið að viðgerðum af kappi í allan gærdag, Voru skemmdir meiri en í septemberveðrinu. A Akranesi var mikið brim og sjávarflóð og gekk sjórokið yfir allan skagann. — Mótorskipið Fagranes, sem lá á Króksvík, rak í upp á Langasand. Var skipið eigi mikið brotið er síðast fréttist í gærkveldi og talið líklegt, að heppnast megi að ná því á flot, þegar sjó lægi. Verða gerðar tilraunir til þess strax og fært þykir. — Vélbáturinn Rjúpan, sem var á legunni, fór á bryggju, braut hana eitthvað, en báturinn gjöreyðilagðist. Var hann um 24 tonn að stærð og eign Jóns Halldórssonar. — Vélbáturinn Ægir slitnaði upp og rak á kletta sunnan við þorpið. Brotnaði botn bátsins eitthvað, en talið er að gera megi við skemmdirnar. Aðrar skemmdir á Akranesi voru smávægilegar. Í Grindavik var aftaka brim. — Eyðilagðist einn bátur, fjórir skemmdust nokkuð og einn mikið. Að Hópi gekk sjór langt upp á tún, bar með sér grjót og sand, svo að túnið er eyðilagt á stórum svæðum. Einnig braut sjórinn túngarðinn. Í Flatey á Breiðafirði var ofsarok síðari hluta nætur og var þá aftaka brim og háflóð. Sukku þrír trillubátar og brotnuðu töluvert. Á Siglufirði sleit járnþök af mörgum húsum. þá fauk fiskgeymsluskúr og fóru máttarviðir hans gegnum þak á húsi, sem Malmquist Einarsson á. — Hús kúabúsins á Hóli skemmdust svo mikið, að fólki varð þar eigi vært og flutti i burtu. — Tveir trillubátar sukku á höfninni og aðrir skemmdust. — Goðafoss, sem lá í Siglufjarðarhöfn, sleit báðar akkerisfestarnar og varð að hverfa til Eyjafjarðar. Í Borgarfirði urðu víða nokkrar skemmdir. Ferjukotssíki gekk yfir þjóðveginn og skemmdi hann svo, að hann er ekki bílfær. — Á Hreðavatni fauk þak af fjárhúsi yfir 160 fjár, og auk þess brotnuðu viðir. — Á Beigalda fauk hluti af þaki íbúðarhússins og þak af hlöðu. Á Ferjubakka, Svignaskarði og Fróðhúsum skemmdust einnig þök. — Af bryggjunni í Borgarnesi skoluðust ýmsir hlutir, svo sem bensíntunnur, olíutunnur og síldartunnur. Hefir þó nokkru verið náð úr sjónum aftur. — Ferjubakkaflói er undir vatni og eru menn hræddir um að búpeningur hafi farist. Á Sandi tók út árabát og brotnaði hann í spón, en þrír bátar aðrir skemmdust. — Vesturendi Thorsbergshúsanna féll í rústir. Í Húnavatnssýslu urðu skemmdir viða, en mestir heyskaðar urðu að Stóru-Giljá í Þingi. Fauk þar á annað hundrað hestar heys. Er það þriðji heyskaði, sem þar hefir orðið á einu ári.

Nýja dagblaðið bætir við fréttir af tjóni í pistli 21.nóvember:

Í ofviðrinu aðfaranótt síðastliðins fimmtudags urðu miklar skemmdir á íbúðarhúsi Ingimars Kjartanssonar í Laugarási hér í bænum. Fauk þakið af húsinu. að mestu, svo að það gereyðilagðist. Auk þess skemmdist húsið innan af vatni og liggur undir skemmdum enn af þessum sökum. Mun skaðinn nema á þriðja þúsund króna eða meira, ef eigi tekst að gera við húsið nú þegar.

Morgunblaðið bætir einnig við tjónfréttir 21.nóvember:

Togari Bæjarútgerðarinnar í Hafnarfirði, Maí, laskaðist stórlega á stjórnborðssíðu í sunnanofviðrinu; á fimmtudagsnótt. Slóst togarinn við Bæjarbryggjuna þar sem hann lá og braut hlífðartré bryggjunnar á löngu svæði.

Skutull á Ísafirði segir af tjóni þar vestra í frétt 21.nóvember:

Tjón af ofviðri. Aðfaranótt síðasta fimmtudags gerði ofsaveður af vestri um land allt, og olli það víða skemmdum. Hér í bæ fylgdi veðrinu mikið flóð og sjógangur. Brotnaði bryggja hf. Shell alveg og bryggja hf. Fiskimjöl skemmdist mjög mikið. Hafnarstræti er að kalla gereyðilagt á stórum kafla. Sjór fór víða í kjallara og olli talsverðum skemmdum á geymsluvörum almennings. — Hænsnahús, sem stóð niðri í flæðarmáli, fauk, og drukknuðu eða króknuðu allmörg hænsni, sem í því voru. — Væri ekki síður ástæða til að fram færi skoðun á meðferð manna á og aðbúð að alifuglum, heldur en meðferð sauðfjár.

Morgunblaðið segir 22.nóvember einnig fréttir að vestan:

Ísafirði, laugardag. Í ofsaveðrinu 19. þ.m. urðu hér töluverðar skemmdir. Torfunesbryggjan brotnaði allmikið. Nokkur hluti Hafnarstrætis stórskemmdist. Fylltust þar margir kjallarar og eyðilagðist ýmislegt í þeim. Nokkrar skemmdir urðu á bátum í bátahöfninni nýju. Shellbryggju sakaði ekkert, (þó útvarpið segði svo), en bryggjustúfur á Grænagarði eyðilagðist. Fiskreitur á Torfunesplani og Stakkanesplani skemmdust. Að Kotum í Önundarfirði féll nokkuð af steinsteyptri hlöðu yfir peningshús og drápust allmargar kindur og 2 hestar. Bóndinn þar, Hannibal Hálfdánarson, fullgerði byggingar þessar í fyrra. Arngrímur.

Morgunblaðið segir enn af afleiðingum illviðrisins 19. nóvember í bréfi sem birtist 29.desember:

Fróðárvatn á Snæfellsnesi þornaði upp seint í mánuðinum sem leið. Fréttaritari FÚ í Ólafsvík, síra Magnús Guðmundsson, lýsir þeim atburði í bréfi því, sem hér fer á eftir:

Það þóttu mikil tíðindi hér um slóðir að óveðursnóttina miklu 18.—19. f.m. braut sjórinn stórt skarð í Fróðárrif, rétt vestanvert við Haukabrekkuhöfða, svo nú er þar stór ós til sjávar úr Fróðárvatni. Mesta prýði sveitarinnar, Innri-Fróðárvaðall, en svo er vatnið venjulega nefnt, er nú alveg horfið, nema um stórstraumsflóð, en sjór fyllir gamla vatnsstæðið. Um fjörur er vatnið þurrt. Nú fellur Fróðá til sjávar gegnum þennan nýja ós, en ekki gegnum Bugsós, eins og áður. Þessi nýi ós er ófær, nema um stærstu stórstraumsfjörur, svo leiðin eftir Fróðárrifi, sem var besta og stysta leið milli Fróðárhrepps og Ólafsvíkur er nú ófær að heita má. Í fornsögum er þess getið, að Fróðá hafi runnið til sjávar þar sem þessi nýi ós er. Eftir því, sem ég hefi komist næst, mun gamli Fróðárós hafa stíflast árið 1838 eða 1839. Hefir áin þá tekið sér framrás í Bugsós og hið fagra vatn myndast. En nú eftir tæp hundrað ár fellur hún í sinn forna farveg.

Minni sögum fer af tjóni í veðrinu þann 21. nóvember, en það mun samt hafa verið eitthvað. 

Veðurathugunarmenn eru sammála um að tíð hafi verið óstöðug og heldur lakleg í desember. En ekki var mikið um stórviðri og tjón ekki stórfellt. Veðráttan segir frá því að aðfaranótt 1. hafi vélbát rekið upp í illviðri á Akranesi og þann 4. hafi þýskur togari strandað á Bakkafjöru í Landeyjum. Aðfaranótt 7. varð maður úti á leið frá Reykjavík í Skerjafjörð í illviðri og þ.9. drukknuðu tveir menn á pramma á Hellissandi í stórviðri. Þann 28. strandaði annar þýskur togari, að þessu sinni við Eldvatnsós í Meðallandi. Mannbjörg varð í þessum togaraströndum. 

Veðurathugunarmenn segja frá desembertíðinni:

Lambavatn: Það hefir verið óstöðugt, en ekki mjög stórgert. Snjóað hefir töluvert og hefir snjórinn hlaupið í krap og allt farið í klaka svo hér hefur allt mátt heita jarðlaust. Nú er mikill snjór yfir allt.

Þórustaðir (Hólmgeir Jensson): Veðurlagið í þessum mánuði verið fremur úrkomusamt. Jarðlaust varð með öllu kringum þ.20., enda var þá komið djúpfenni og áfreðar. Rokstorm gjörði hér þ.23. Áttin hefir lengst af verið norðaustlæg. Eftir sólhvörfin brá til sunnan- og suðvestanáttar. Gekk á ýmist með rigningu, slyddu eða snjóéljum og tók þá nokkuð upp snjó.

Sandur: Slæmt tíðarfar. Jarðbönn, snjóasamt og oft mikil frost. Hlákur engar, einungis
spilliblotar öðru hvoru.

Reykjahlíð við Mývatn (Gísli Pétursson): Snjór var lítill í byrjun mánaðarins, en kom þá dálítill. Allmikill snjór kom um miðjan mánuðinn, en síðan var mjög lítil snjókoma. Desember mun oft hafa verið kaldari hér. Þó fór frost í -26,5°C 3. desember. Það var um kl.11.

Grímsstaðir á Fjöllum (Sigurður Kristjánsson): Hægviðri og frostamikið framan af mánuðinum. Annars allgóð tíð allan mánuðinn og fullur hagi. Sauðfé og hross lá allt úti.

Fagridalur (Oddný S. Wiium): Köld tíð og umhleypingasöm. Það hefir oftast verið góður hagi en mönnum þykir óvenjufrosthart um þetta leyti árs.

Eiðar (Erlendur Þorsteinsson): Tíðin umhleypingasöm. Óvenjulega kalt skammdegi hér á
Fljótsdalshéraði. Stillt og úrkomulítið.

Reykjanesviti: Frekar óstöðugt veðurlag og talsvert kalt. Snjóar með meira móti. Samt sæmilega góð beit lengst af.

Hér lýkur umfjöllun hungurdiska um tíðarfar og veður á árinu 1936. Margskonar tölulegar upplýsingar má finna í viðhenginu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Með snarpara móti - miðað við árstíma

Leifar vetrarins lifa oft lengi fram eftir í norðurhöfum og slettast þar um svæðið í líki snarpra kuldapolla. Í þeim miðjum er afskaplega kalt, en komist þeir í námunda við hlýrra loft úr suðri geta þar myndast öflugar lægðir sem valda leiðindum þar sem þær fara hjá. Við þekkjum þetta auðvitað mætavel hér á landi, oftar þó í formi norðlægra hreta heldur en útsynningskasta þegar komið er fram yfir miðjan maí. 

Við finnum þó slík útsynningsköst í fortíðinni, sum voru minnisstæð vegna vandræða sem þau ollu í sauðburðinum, en gera minna af sér nú á dögum þegar allt slíkt á sér stað í húsum. Ekki þarf að fara mörg ár aftur til að rekast á leiðindaútsynning í síðari hluta maímánaðar. Það var 2018. 

Nú er spáð einhverju ámóta (veðrið er þó aldrei eins). Ekkert verður á þessu stigi sagt til um það hvort veruleg leiðindi fylgja - eða bara bleytuhrollur. Þetta er samt með snarpara móti (rætist spár).

w-blogg170523a

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins, vind og hita í honum síðdegis á föstudag, 19.maí. Gríðarlegur vindstrengur er þá yfir landinu. Vindhraði í 5 km hæð meiri en 50 m/s. Jafnhæðarlínur þéttar eftir því. Við vitum um fáein tilvik með svona miklum vindi yfir Keflavíkurflugvelli síðari hluta maí, en að jafnaði líða samt mörg ár á milli þess sem það gerist. 

Mikil hlýindi fylgja, en aðeins stutta stund. Þykktin (en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs) á að fara upp fyrir 5560 metra yfir Austurlandi um þær mundir sem kortið gildir. Það er því rétt hugsanlegt að við fáum fyrstu 20 stig ársins á landinu þennan dag - en vegna sólarleysis er það samt algjörlega sýnd veiði en ekki gefin. Leiðindaveður verður um mikinn hluta landsins - og það jafnvel í nokkra daga.

Lægðarmiðjan er vestur á Grænlandshafi. Spár segja að miðjuþrýstingur hennar fari niður fyrir 970 hPa á föstudag. Það er ekki algeng tala á þessum tíma árs hér við land - en þar sem lægðin er langt vestan við land eru lágþrýstimet ekki í hættu hér á landi. Hæð 500 hPa-flatarins í háloftalægðarmiðjunni er líka óvenjulág, 5010 metrar. Við vitum ekki um mörg lægri tilvik yfir landinu - en einhver má finna í nágrenni þess - sé leitað. 

Við, veðurnördin, getum alla vega skemmt okkur eitthvað yfir þessu. Aðrir verða bara að gera sem best úr á sinn hátt og við vonum öll að sumarið verði gjöfult. 


Fyrir 200 árum

Við skulum nú okkur til hugarhægðar líta 200 ár aftur í tímann. Hvernig var veðrið þá um miðjan maí? Sumarið 1820 hóf Jón Þorsteinsson að athuga veður og mæla í Reykjavík á vegum vísindafélagsins danska. Skömmu síðar flutti hann út á Seltjarnarnes og athugaði í Nesstofu (sem enn stendur). Árið 1833 flutti hann aftur inn til Reykjavíkur og settist að við Ránargötu - þar sem kallað var doktorshús - en það mun nú horfið. 

Árið 1839 kom út í Kaupmannahöfn bók með veðurathugunum Jóns og úrvinnslu úr þeim. Bókin nær til tímabilsins 1.mars 1823 til júlíloka 1837 og er hún fáanleg á netinu. Við flettum upp athugunum síðari hluta maímánaðar 1823 (frá og með 13.) og er myndin hér að neðan klippa úr ritinu (myndin verður læsilegri sé hún stækkuð með smellum):

jon-thorst-1823-05-13-utg-danska-visindafjel-1839

Hér þarf trúlega nokkurra skýringa við. Mælt var einu sinni á dag, hér kl.8 að morgni (væntanlega um kl. 9:30 eftir okkar klukku). Lesið er af þremur mælum, kvikasilfursloftvog, hitamæli á lofvoginni og útihitamæli. Loftvogin var kvörðuð í frönskum tommum (27,07 mm) og línum. Hver lína 1/12 hluti tommu. Hægt var að lesa brot úr línu. Hitamælar voru með Reaumur-kvarða (°R). Suðumark vatns er við 80°R og hvert stig því 1,25°C. Vindátt og vindhraði voru athuguð og sömuleiðis veður og skýjahula. 

Upphaflegar bækur Jóns eru á Landsbókasafninu og þar sjáum við að athuganir á vindi og skýjum eru lítillega einfaldaðar í prentuðu útgáfunni. En lítum nú á dálkana - fyrirsagnir eru á latínu (eins og reyndar öll bókin):

1. Dagsetning (í maí 1823).

2. Aflestur af loftvog (franskar tommur og línur (PL)).

3. Hiti á loftvog (°R). Leiðrétta þarf fyrir hita loftvogarinnar - kvikasilfrið þenst út við aukinn hita. Samkomulag er um að telja loftvogir „réttar“ við frostmark (0° á bæði R og C-kvörðum). 

4. Loftvog leiðrétt til 0°R (franskar tommur og línur). Þessa tölu reiknaði Jón ekki - heldur útgefendur bókarinnar (eða þrælar þeirra). Ekki er hér leiðrétt fyrir hæð yfir sjó og ekki heldur til samræmds þyngdarafls (45°N). Ef einhver lesandi reiknar (sér til gamans) yfir í hPa þarf að bæta 3-4 hPa við. 

4. Hitamælir á staur norðan Nesstofu, um það bil fet frá jörðu. Hér þarf að athuga sérstaklega að formerki er einungis sett þegar það breytist. Fyrsta talan sem nefnd er er -2, tölur næstu daga, 3, 3 og 4 eru einnig mínustölur, það er frost alla þessa daga. Þessi háttur var algengur í veðurathugunum langt fram eftir 19. öld (og jafnvel lengur) og veldur oft vandkvæðum við tölvuskráningu þessara mælinga - mikillar aðgæslu er þörf. Við vitum ekki nákvæmlega hvers konar mælir það var sem Jón notaði, en líklega var hann eins og flestir mælar þessa tíma, stærri en gengur og gerist nú á tímum. Það er því ekki víst að Jón hafi þurft að beygja sig mjög við aflestur. Mælirinn var ekki í skýli. Þó Jón hafi gætt þess að sól skini ekki á mælinn nærri aflestrartíma er samt hætt við að fyrirkomulagið (stutt til jarðar og skýlisleysi) valdi því að hiti verður nokkuð ýktari heldur en í nútímaskýlum eða hólkum. Þetta á sérstaklega við í björtu veðri (bæði að degi og að nóttu). Sömuleiðis er óæskilegt að mælirinn blotni mjög - það vill lækka hita (vegna gufunarvarma sem „stolið“ er af mælinum. 

5. Vindátt er hér skammstafaður upp á latínu (sept=norður, oc=vestur, or=austur, mer=suður),  norðaustur verður þá sept or.

Vindstyrks er ekki getið nema hann sé nokkur og þá með tölu, 2 = blástur, 3 = stormur). Við sjáum að norðanstormur er þann 16. og gaddfrost, daginn eftir er norðvestanstormur (sept oc) og þá snjóaði og rigndi (nix & pl.).

6. Síðasti dálkurinn er ásýnd himins, sömuleiðis í latneskum skammstöfunum. Jón notar enga latínu, bara dönsku og gerir greinarmun á snjó og snjóéljum - sem útgefendur gera ekki í listunum, (nix = (snjór, slydda, snjóél), pluvia (eða pl) = (rigning, súld), seren = (heiðskírt eða bjart veður), nubes (skýjað), obd (alskýjað/þykkvíðri)).

Við sjáum að mjög kalt var dagana 13. til 18., frost hafði verið alveg frá þeim 8. og hélt áfram til 16. Þann 19. hlýnaði og var mjög hlýtt til mánaðamóta. Hiti var hæstur þann 27. 15°R = 19°C. Besta veður í raun alla dagana 21. til 27. - en síðan rigndi. 

Þessa slæma maíhrets gætti um land allt. Það kom ofan í til þess að gera hlýjan vetur. Um veðurlag ársins og helstu tíðindi má auðvitað lesa í pistli hungurdiska: Af árinu 1823.

Þeir sem vilja rifja upp veðurlag ársins 1923 geta gert það líka með því að fletta pistli hungurdiska um árið 1923 eða íslenskri veðurfarsbók (timarit.is). Þá gerði líka mjög slæmt hret í maí - með mannsköðum á sjó og ýmsum vandræðum á landi. M.a. varð alhvítt í Reykjavík. 


Fyrri hluti maímánaðar

Fyrri hluti maí hefur verið með hlýrra móti. Meðalhiti í Reykjavík er 7,2 stig, +1,4 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +1,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 7. hlýjasta sæti aldarinnar (af 23). Hlýjastur var fyrri hluti maí árið 2008, meðalhiti þá 8,3 stig, en kaldast var 2015, meðalhiti 2,8 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 25. hlýjasta sæti (af 149). Hlýjast var 1960, meðalhiti þá 9,4 stig, en kaldast var 1979, meðalhiti 0,3 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú 6,7 stig, +1,5 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, en +2,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Hitavikum er nokkuð misskipt. Á Miðhálendinu er þetta næsthlýjasti fyrri helmingur maí á öldinni (e.t.v. er þar óvenjusnjólétt), Á Norðurlandi eystra er þetta þriðjihlýjasti maíhelmingur aldarinnar, en sá 9. hlýjasti á Ströndum og Norðurlandi vestra, þar hefur verið tiltölulega svalast.
 
Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast að tiltölu á Brúaröræfum, vikið er +3,8 stig, en kaldast að tiltölu á Reykjum í Hrútafirði þar sem hiti hefur verið +0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma hefur mælst 61,4 mm í Reykjavík og er það ríflega tvöföld meðalúrkoma. Á Akureyri hafa hins vegar mælst 8,2 mm, ríflega helmingur meðallags.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 55,1 í Reykjavík, aðeins helmingur af meðallagi. Þær hafa þó alloft verið færri sömu daga. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 86,8 og er það í rétt rúmu meðallagi.

Stutt kuldaskot

Allkröpp lægð gengur nú norður yfir landið austanvert. Henni fylgir stroka af köldu lofti og af ritstjórnarskrifstofu hungurdiska má sjá snjó niður í um 4-500 metra hæð í fjöllum - gæti farið neðar þegar kemur fram á nótt - enda úrkomuákefð töluverð. Veðurstofan hefur gefið út nokkrar gular viðvaranir, bæði vegna vinds og snjókomu. 

w-blogg130523a

Klukkan 9 í fyrramálið (sunnudag) á lægðin að vera komin norðaustur fyrir land. Þá verður hvassast, og úrkoma mest, á Norðurlandi vestanverðu eins og kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir. Lægðin heldur síðan áfram norðaustur í haf og veður skánar. Kuldinn sem fylgir þessari lægð er fremur grunnstæður, hans gætir mest í neðsta hluta veðrahvolfsins yfir landinu. Mesti háloftakuldinn fer framhjá, alveg fyrir sunnan land.

En - svo vill til að á mánudaginn kemur kalt háloftadrag beint úr vestri. Því fylgir ný lægð, meiri úrkoma og meiri kuldi.

w-blogg130523b

Hér er mánudagsspákortið. Fyrri lægði er komin norður til Jan Mayen og er að grynnast, en ný lægð er á hraðri leið til austurs yfir landið sunnanvert og henni fylgir kalt loft úr norðri. Sá má af kortinu eð úrkoma er allmikil um landið vestan- og sunnanvert. Sé rétt til getið um kuldann er ekki ólíklegt að það snjói nokkuð suður eftir Vesturlandi (ekki endilega þó á höfuðborgarsvæðinu) seint á aðfaranótt mánudags eða á mánudagsmorgunn. En það styttir upp og sólin verður væntanlega fljót að hreinsa til. 

w-blogg130523c

Síðasta kortið sýnir háloftalægðardragið og kuldann sem því fylgir. Á bletti yfir Vestfjörðum á hiti í 500 hPa að fara niður fyrir -36 stig, ekki er það met, en samt í óvenjulegra lagi þegar komið er fram í miðjan maí. 

En svo á að koma hlýrra loft að landinu strax á þriðjudag. 


Fyrstu tíu dagar maímánaðar

Fyrstu tíu dagar maímánaðar hafa verið hlýir. Meðalhiti í Reykjavík er 7,8 stig, +2,2 stigum ofan meðaltals sömu daga áranna 1991 til 2020 og +1,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. og raðast í 6. hlýjasta sæti aldarinnar (af 23). Hlýjastir voru sömu dagar 2011, meðalhiti þá 8,6 stig, en kaldastir voru þeir 2015, meðalhiti 1,7 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 15. hlýjasta sæti (af 149). Hlýjast var 1939, meðalhiti þá +9,1 stig, en kaldast var 1979, meðalhiti -1,0 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú 6,7 stig, +1,8 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +1,6 ofan meðallags síðustu tíu ára.

Á spásvæðunum hefur verið tiltölulega hlýjast á Miðhálendinu. Þar byrjar mánuðurinn sem sá þriðjihlýjasti á öldinni, en á öðrum spásvæðum er hitinn almennt í 5. til 7. hlýjasta sæti aldarinnar. Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast við Sátu norðan Hofsjökuls, +4,8 stig ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast á Reykjum í Hrútafirði þar sem hiti hefur verið +0,6 stig ofan tíuárameðaltalsins.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 17,4 mm og er það í tæpu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman aðeins mælst 1,5 mm, innan við fimmtungur meðalúrkomu.

Sólskinsstundir hafa mælst 29,2 í Reykjavík, 35 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 68,8 og er það 21 stund umfram meðallag.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 119
  • Sl. sólarhring: 149
  • Sl. viku: 954
  • Frá upphafi: 2420769

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 842
  • Gestir í dag: 105
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband