Bragðbreyting

Þótt lítið lát sé að sjá á suðvestan- og vestanáttinni virðist samt að dálítil bragðbreyting verði á henni eftir að lægðir helgarinnar verða gengnar hjá. Veðurlag hefur verið mjög ruddalegt miðað við árstíma undanfarna viku og kaldur og hvass útsynningur ríkjandi. Sumar lægðirnar sem farið hafa hjá hafa líka verið í dýpra lagi. 

Nú virðist loftþrýstingur eiga að hækka markvert og háloftavindáttin á að verða vestlægari o og heldur hægari en verið hefur. Það þýðir þó ekki að allir fái „gott“ veður.

w-blogg270523a

Kortið sýnir vikuspá evrópureiknimiðstöðvarinnar, meðalhæð 500 hPa-flatarins vikuna 29.maí til 4. júní (heildregnar línur). Litirnir sýna hæðarvik. Flöturinn á að standa nokkuð langt ofan meðallags fyrir sunnan land, en vel undir því við Norður-Noreg. Að undanförnu hefur lághæðarvikið hins vegar haldið til yfir Grænlandi - og háhæðarvikin yfir Bretlandi. 

En þetta er samt ekki alveg hrein og einföld staða. Í grunninn takast á þrír mjög ólíkir loftstraumar. Fyrst skulum við telja mjög rakt loft sem berst langt úr suðri á vesturjaðri hæðarinnar. Þó þetta loft sé komið sunnan að og því hlýtt - er það samt kalt að neðan - sjórinn sér um þá kælingu. Íbúar Suðvesturlands sleppa varla alveg við það eins og málum er háttað. En þó fellst ákveðin von í því lofti sem kemur beint úr vestri, yfir Grænland. Austan Grænlands er það í niðurstreymi sem þýðir að það verður bæði hlýtt og þurrt þegar til Íslands er komið. Málið er bara það að þar sem það er hlýtt er líklegt að það fljóti ofan á því lofti sem úr suðri kemur - sérstaklega ef sunnanloftið nær ekki langt upp. 

Líklegt er að íbúar Austurlands fái marga hlýja daga - hvort sem þeir verða í sunnan- eða vestanloftinu. Ráði sunnanloftið sleppa þeir nefnilega við hinn kalda neðri hluta þess - njóta hlýindanna ofan við. Vestanloftið gæti líka náð niður til þeirra - sérstaklega ef vindur blæs. 

Það eru lítil gæði í þessari stöðu fyrir höfuðborgarsvæðið - alla vega ef vindur verður af þvervestan. Þótt úrkoma verði ekki mikil (eftir mánudaginn) er líklegast að lengst af verði skýjað og heldur nöturlegt. Ákveðin von er hins vegar fyrir Suðurlandsundirlendið - þar gætu hæglega komið öllu hlýrri dagar - alla vega einn eða fleiri. Kannski eiga uppsveitir Borgarfjarðar líka möguleika - en þó minni. Fyrir norðan eru mun meiri möguleikar á öllu hlýrra og bjartara veðri en að undanförnu - en sérstaklega fyrir austan. 

Svo liggur köld norðanáttin í leyni undan Norðaustur-Grænlandi (eins og venjulega). Sumar spárunur skella henni suður yfir landið - alla vega dag og dag. Það er varla nokkrum til ánægju nema kannski þeim sem geta gert sér að góðu að norpa sunnan undir vegg. 

Höfum svo í huga að þetta er meðalspá - þær segja stundum skynsamlega frá, en stundum ekki. Svo er best að taka mark á hinum daglegu spám Veðurstofunnar - þær segja okkur strax frá ef eitthvað breytist - bæði í raunveruleikanum sem og framtíðarhugmyndum reiknimiðstöðva. Það sem hér stendur um framtíðina er úrelt nærri því um leið og það er birt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Úrelt!? Nei skemmtilega skrifuð af lærðum veðurfræðingi og geysilega reyndum, minnir mig á gamla daga "norpandi sunnan undir vegg"  og engu um að kenna. 

Helga Kristjánsdóttir, 28.5.2023 kl. 02:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 402
  • Sl. viku: 1581
  • Frá upphafi: 2350208

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1454
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband