Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2022
28.4.2022 | 22:31
Lítið veðurkerfi fer hjá
Veðurkerfi eru af öllum stærðum - sum eru svo óveruleg og fara svo hljóðlega hjá að vart er tekið eftir - en þau eru samt. Við lítum hér á neðan á eitt slíkt kerfi sem kemur að landinu seint í nótt (aðfaranótt föstudags 29.apríl) og fer yfir það á morgun. Rétt er að vara lesendur við strembnum texta - þar sem engin miskunn er sýnd.
Kerfið kemur einna best fram á 500 hPa og 300 hPa-kortum. Þar kemur það fram sem greinilegt lægðardrag. Á myndinni (500 hPa) má sjá lögun þess af legu jafnhæðarlína (heildregnar) og þar með vindátt og vindstyrk (örvar). Litirnir á kortinu sýna hita. Kaldast er í dökkgræna litnum, þar er meir en -28 stiga frost. Ástæða kuldans getur verið að minnsta kosti tvenns konar (enn fleira kemur til greina). Annars vegar séu hér á ferð leifar af köldu lofti að vestan eða norðan sem lokast hefur inni í hlýrra umhverfis. Hins vegar, og það finnst ritstjóra hungurdiska líklegra, að hér megi greina uppstreymi og niðurstreymi í kerfinu af dreifingu litanna. Loft sem streymir upp kólnar, en það sem streymir niður hlýnar. Lægðardragið hreyfist hér til austurs - uppstreymi er á undan því og þar með kalt, því kaldara sem uppstreymið er ákafara. Vestan dragsins (bakvið það) er hins vegar niðurstreymi, loft í niðurstreymi hlýnar.
Næsta kort sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu, hita í 850 hPa-fletinum og vind í 10 m hæð. Þetta er á sama tíma og fyrsta kortið. Ekki sér móta fyrir neinni lægðarmyndun - alls ekki - við erum í hér í hæðarhrygg, og varla sér heldur nokkurs stað í 850 hPa-hitanum. Við sjáum hins vegar nokkra úrkomuflekki, mest á undan háloftadraginu, þar sem við gátum okkur til að væri uppstreymi. Sé farið í smáatriðin má sjá lítil skúramerki í úrkomusvæðinu yfir Vestfjörðum - líkan evrópureiknimiðstöðvarinnar giskar á að þar séu skúraklakkar á ferð (mjög óst0ðugt loft). Úrkomuákefðin er ekki mikil, en þó sýna dekkstu, grænu flekkirnir ákefðina 1,5 til 3 mm á 3 klst - einhver gæti blotnað. Þessi árstími er ekki mjög gæfur á myndun klakka. Ef við værum hér í júlímánuði væri næsta líklegt að úr þessu yrðu töluverðar síðdegisdembur í flatt hey á Suður- og Vesturlandi - afskaplega erfið staða fyrir veðurfræðinga fortíðar á miðju rigningasumri - og það í hæðarhrygg.
Þetta kort nær um allt Norður-Atlantshaf og sýnir það sem kallað er stöðugleikastuðull. Sjá má af litunum hversu stöðugt loftið er, kannski hversu mikið þarf að hreyfa við því til að það taki að velta af sjálfu sér. Á brúnu svæðunum er stöðugleiki lítill, en mikill á þeim grænu. Talan sjálf segir frá mun á mættishita við veðrahvörf og jafngildismættishita í 850 hPa-fletinum. Þetta hljómar heldur flókið - en því minni sem þessi munur er, því óstöðugra er loftið - fari það á annað borð að lyftast. Ástæður þeirrar lyftu geta verið ýmsar, t.d. hlýtt yfirborð lands síðdegis á sumardegi - eða fjallshlíð sem loftið rekst á. Í kerfinu okkar er lægsta gildi stuðulsins minna en 5 stig. Þetta lágmark fer yfir Vesturland í fyrramálið - eins og reyndar má sjá á úrkomukortinu að ofan. Af spákortum má sjá að í framhaldinu á þetta kerfi að fara suðaustur fyrir land, sameinast þar lægðinni litlu sem er á kortinu beint suður af landinu og fara síðan í með henni yfir Bretland, suður um Spán og svo austur til Ítalíu. Ótrúlega samheldið allt saman þótt lítið sé - sé að marka spárnar (sem ekki er víst).
Síðasta kortið sýnir jafngildismættishitasnið (heildregnar línur), rakastig (litir) og vatnsmagn í lofti (rauðar strikalínur), allt á sama tíma og áður, kl.6 í fyrramálið. Landið sjálft, hálendi þess er grátt. Sniðið nær yfir landið frá vestri til austurs og rúmlega það (innskotskort). Umfang uppstreymishluta kerfisins okkar er merkt með gulu striki ofarlega á myndinni. Á þvi svæði er loft nærri því rakamettað (rakastig yfir 90 prósent) allt frá sjávarmáli upp í 400 hPa (7 km hæð). Jafngildismættishitalínurnar eru líka mjög gisnar - langt á milli þeirra. Það er nokkurn veginn það sem stöðugleikastuðullinn segir okkur. Svo virðist sem rakt loft kembi fram af og berist enn ofar austan við lægðardragið, allt að veðrahvörfum (þau merkjum við af mjög þéttum línum). Trúlega er þarna háskýjabreiða á ferð.
Þeir sem vel fylgjast með veðri geta ábyggilega séð eitthvað af þessu öllu - en langflestir verða einskis varir og missa algjörlega af þeirri miklu fegurð sem hér fer hljóðlega hjá.
26.4.2022 | 20:05
Af árinu 1781
Flestar heimildir hrósa heldur tíðarfari ársins 1781, en þó er ljóst að erfiðleikar voru ýmsir. Veturinn var hagstæður framan af, en síðan nokkuð umhleypingasamur. Sumir tala um gott vor, en aðrir segja frá felli. Tvö nokkuð langvinn og leiðinleg hret gerði um vorið. Annað í kringum páskana (um miðjan apríl), en hitt þegar nokkuð var komið fram í maí. Þá virðist hafa snjóað nokkuð víða um land, meðal annars á Suðurlandi. Grasspretta var góð - en misvel gekk að hirða um landið sunnan- og vestanvert. Nóvember var harður, en desember mildur. Almennt fékk haustið góða dóma.
Færeyskur maður, Nicolai Mohr, dvaldist hér á landi veturinn 1780 til 1781, birti veðurathuganir á bók og notum við okkur það. Við lítum líka lauslega í dagbækur Sveins Pálssonar í uppskrift Haraldar Jónssonar í Gröf. Sveinn var aðallega í Skagafirði, en var þó í nokkrum ferðalögum suður á land. Annálapistlar eru fengnir beint úr Íslenskum annálum Bókmenntafélagsins (stundum styttir lítillega).
Myndin sýnir hitamælingar Rasmusar Lievog í Lambhúsum á Bessastöðum. Þó mælirinn sé e.t.v. ekki alveg réttur, sjáum við marga atburði mjög vel. Hlýtt var í nokkra daga fyrir miðjan janúar, en eftir það talavert frost afgang mánaðarins. Ekki er sérlega kalt í febrúar og mars, en talsvert kuldakasti apríl. Eftir mjög hlýja daga um mánaðamótin apríl/maí gerði leiðinlegt kuldakast. Eftir það er stórtíðindalítið í hitamálum, en seint í ágúst kólnaði snögglega, Mjög kalt varð seint í október og í nóvember, en hlýrra í desember.
Við skiptum frásögnum annálanna á árstíðir til að samanburður verði auðveldari.
[Vetur]: Veturinn fær allgóða dóma. Helst að Espólin sé þungorður - blotaumhleypingar eru auðvitað engin úrvalstíð í Skagafirði þótt snjór sé e.t.v. ekki mikill.
Vatnsfjarðarannáll yngsti: Vetrarveðurátta frá nýári og fram yfir sumarmál var að vísu óstöðug, með sterkum frostum og köföldum á milli, þó ætíð nægilegar jarðir;
Úr Djáknaannálum: Vetur mjög frostalítill svo klaki kom fyrst í jörð á þorra að kalla mátti. Veðrátta síðan óstöðug með regnum og útsynningsfjúkum, sérdeilis alla góu, einkum syðra og vestra, svo færri mundu þar slíka umhleypinga.
Höskuldsstaðaannáll: Veturinn var í betra lagi, ekki langsamar stórhríðir né jarðbönn, þó fjúkapáskar í síðustu vetrarviku.
Íslands árbók: Gjörðist vetur í meðallagi og þó nokkuð betur, án stóráhlaupa. Á langaföstu kom ein dugga (s100) inn á Eyjafjörð ... lá hér fram á vor fyrir hindran af hafís, lagði í millitíð út til Hríseyjar og mætti þar áfalli af veðri og hafís ... [Hér er áreiðanlega átt við sama skip og Mohr talar um að komið hafi til Akureyrar 1. apríl og hann hitti síðan í Hrísey í maílok].
Espihólsannáll: Veðurátta frá nýári og fram á gói ærið góð, þaðan af stríðari með umhleypingsfjúk- og áfreðahríðum, so oftar var annað dægur regn, en annað frosthríð, og þessi veðurátt varaði fram á sumarmál í Eyja- og Skagafjarðarsýslum. . (Vetur frá nýári til þorraloka góður. Versnaði þá veðurátt, so þaðan af fram yfir sumarmál var mesta ónotaveður.
Ketilsstaðaannáll: Vetur til nýárs harður, en þaðan af góður, ...
Espólín: XXVI Kap. Veturinn versnaði með þorra lokum, og var allillur fram yfir sumarmál, var þá svo mikill bjargarskortur, að hrossakjöts át gjörðist tíðara en nokkurn tíma fyrr hafði verið, frá því er kristni kom á land þetta. (s 27).
Janúar (Mohr):
Þann 1. blástur með þéttri snjókomu, 2. bjart veður 5 stiga frost, 3. og 4. þykkviðri og blástur, 2 stiga hiti, 5. og 6. órólegt veður með éljum. 7. sterkur blástur með þéttri snjókomu, birti upp undir kvöld, 5 stiga frost. 8. blástur og regn, 9. sterkur stormur með stórum hrannarskýjum, 8 stiga hiti. 10. og 11. næstum logn og bjart veður, 6 stiga hiti. 12. sama veður, 0 stig. 13. sama veður 4 stiga frost, 14. og 15. misskýjað, hægur vindur 0 stig. 16. þykkviðri, 3 stiga hiti. Að morgni 17. hægur, síðdegis stormur og þétt snjókoma, 2 stiga frost. 18. hryðjur 6 stiga frost. 19. lítill vindur og hreinviðri, framan af degi 7 stiga frost, 12 stiga frost undir kvöld. 20. og 21. hægur og hreinn, 16 stiga frost. 22. sama veður 7 stiga frost, 23. misvindi 4 stiga frost. 24. hægur, 12 stiga frost. 25. hægur vindur, 7 stiga frost, 26. og til mánaðarloka skiptust á bjart veður og snjókoma 10 til 14 stiga frost.
Febrúar (Mohr):
Þann 1. heiður, næstum logn, vindur af suðaustri 4 stiga frost. Um kvöldið sáust óvenjusterk norðurljós, næstum því í hvirfilpunkt; þar léku, eins og oft, margir sterkir litir og snerist í hring eins og mylla á óvenjulegum hraða, hélt sér, án þess að breytast verulegar frá klukkan 8 til 9 um kvöldið. Flestir spáðu harðviðri næsta daga, en þá varð samt hægviðri og skýjað með köflum og 14 stiga frost. Þ. 3. og 4. þykkviðri og snjókoma 4 stiga hiti. 5. bjart, nokkur blástur, 6 stiga frost. 6. hægur, 4 stiga hiti. 7. og 8. hægur og snjókoma, 2 stiga hiti. 9. og 10. bjart, 1 stigs frost. 11. og 12. stormur og snjókoma 9 stiga frost. 13. bjartur og hægur 5 stiga frost. 14. sama veður 11 stiga frost. 15. lítilsháttar snjóél 2 stiga frost. 16. og 17. þykkviðri, 0 stig. 18. bjartviðri, 2 stiga frost. 19. blástur, 3 stiga hiti. 20. sterkur blástur, bjartviðri, 6 stiga hiti. 21. blástur og skafrenningur, 6 stiga frost. 22. næstum logn og bjartviðri, 10 stiga frost. 23. til 27. skiptist á bjartviðri og snjókoma, frost 4 til 10 stig. 28. þykkviðri fyrir hádegi með lítilsháttar snjókomu, 8 stiga frost; undir kvöld sunnanvindur, 5 stiga hiti.
Sveinn Pálsson segir 3. febrúar: Góðviðrið varir með frosti. Þann 18.: Skipti um til hláku. 9. mars: Hláka góð og mari.
Mars (Mohr):
Þann 1. sterkur blástur með regnskúrum, 5 stiga hiti. 2. sama veður, undir kvöld 0 stig. 3. til 8. breytilegt veður, milli 2 stiga hita og 2 stiga frosts. 9. þykkviðri með regni, 5 stiga hiti. 10. til 22. breytilegt, enginn stormur og stundum logn, milli 3 stiga hita og 3 stiga frost. 22. logn og bjart, 5 stiga frost. 23. sama veður, 2 stiga hiti. 24. til 28. milt veður með vestlægum áttum og skiptist á regn og bjartviðri, 4 til 6 stiga hiti. Hávella sást í fyrsta sinn þessa daga. 29. blástur og snjór, 3 stiga frost, um kvöldið 7 stiga frost. 30. og 31. logn og fagurt veður, 5 stiga frost.
[Vor] Eftir slæmt páskahret kom mjög góður kafli, en snerist svo til kulda þegar fram í maí kom.
Vatnsfjarðarannáll yngsti: ... síðan góðviðri fyrsta sumarmánuð, þar eftir fram yfir fardaga sterkir norðankuldar og hretviðrasamt; hafísar miklir, einkum fyrir Norður- og Vesturlandi;
Úr Djáknaannálum: Gjörði norðanhríðir um páskana [15. apríl], en batnaði aftur með næsta sunnudegi eftir þá, sem var sá fyrsti í sumri og gjörði góða veðráttu. Vorið gott og snemmgróið, kom þó stórhret um krossmessu svo í lágar komu óklífir skaflar. [Strangt tekið er krossmessa 3. maí, en hún er samt oft í heimildum talin þann 13., mun svo hér]. Hafís kom fyrir sumarmál, umkringdi Strandir og allt Norðurland. Varð þó ei til spillingar veðri. ... Í Árnessýslu kom hríð sú miðvikudag [23.maí] næsta fyrir uppstigningardag, að í Ölvesi dóu af henni 19 kýr og ei allfáar annarsstaðar, ... Um vorið horféllu bæði kýr og sauðfé syðra, því heyin voru lítil og ónýt. ... Í Árnessýslu féllu 260 kýr, 4355 sauðfjár og 334 hestar. Sæmilegt árferði á Austfjörðum. ... Hafísinn, sem vofraði fyrir norðan fram í Júlium hindraði stundum róðra á Skagafirði. (s228) g3 Um vorið var víða hart til matar, svo fólk dó sumstaðar úr ófeiti, helst í Árnessýslu. ... Þetta og fyrirfarandi ár fækkaði á 8 mánuðum 989 manns á Íslandi. g4. ... 2 bátar fórust syðra.
Höskuldsstaðaannáll: Vorið og svo í betra lagi (og gott í tilliti til flestra). Grasvöxtur fljótur og góður síðan Urbanus [25. maí]. ...
Íslands árbók: Vorið þótti kalt, þó ei framar venju.
Espihólsannáll: Vorið var eftir stillt. Í Majo seint kom áhlaup so mikið, að sunnan lands og vestan dó mikið af kúpeningi og öðru fé. Var þetta óaldarvor þar, einkum við sjósíðu, og varð mannfellir mikill.
Espólín: XXVI Kap. Varð þá mannfellir mikill við sjóinn vestra og syðra, þvíað vor var illt, og kom svo mikil hríð miðvikudaginn fyrir uppstigningardag, að á þeim bæjum einum saman, er liggja niður með Varmá, miðreitis í Ölfusi, dóu 19 kýr, og eigi allfáar annarstaðar [beint úr Mannfækkun af hallærum (s104)]. Dó sauðfé framar venju, og eignuðu sumir vanþrifum, er fylgdu hafís; urðu þá jarðir víða lausar í sveitum, því að peningslausir menn lögðust í sjóbúðir, og var þó ekki þessi vetur almennt talinn með harðindisárum. (s 27)
Apríl (Mohr)
Þann 1. hægur vindur, bjartviðri, 0 stig. 2. til 4. stöðugt þykkviðri með snjókomu, 2 stiga frost. 5. logn og bjart, 7 stiga frost. 6. ti 8. þykkviðri og snjóél, 5 stiga frost. 9. til 16. lengst af bjartviðri; stundum þó él, lítill vindur, oftast logn, 6 til 10 stiga frost. 17. til 19. óstöðugir vindar, 0 stig og 1 stigs hiti. 20. blástur og heiðríkt, 5 stiga frost. 21. til 25. hægir vestanvindar 4 til 6 stiga frost. 26. til 30. bjartviðri með sterkum hafvindi um skeið á daginn, hin svokallaða haf-gola. Á kvöldin og nóttunni, logn 5 til 7 stiga hiti.
Sveinn Pálsson, 19. apríl: Kuldi á norðan með fjúkrenningi, 20.: Heljar kuldi á sunnan, þó sólskin , 23.: Vestan rosi, snerist í hláku, hvessti mjög, 3. maí: Þykkveður og hita molla, 10. maí: Hríð með frosti og snjófergja, rak inn hafís, 13.: Fjörðurinn fullur af ís.
Maí (Mohr)
1. til 6. sama veður og í apríllok. 7. og 8. órólegt veður, 9. blástur úr norðri, 4 stiga frost. 10. til 12. bjartviðri með blæstri, 2 til 4 stiga frost. 13. stormur og skafrenningur, 3 stig frost. 14. til 18. óstöðugt, með blæstri og regni, 2 til 5 stiga hiti. 19. mikil snjókoma allan daginn 0 stig. 20. bjart og logn, 3 stiga hiti. 22. til 24. sterkur blástur, stundum stormur, 4 stiga hiti. 24. til 29. næstum stöðugt logn, 6 stiga hiti. 30. blástur að deginum, logn undir kvöld, 3 stiga hiti. 31. logn og þoka, 1 stigs hiti.
Efnisleg og stytt mjög lausleg þýðing á efni tengt veðri í ferðaskýrslu Mohr um vorið:
Um miðjan maí varð veður mildara, ís og snjór bráðnuðu hrátt og víða varð grænt. Mohr fór 29. maí með einu af verslunarskipunum frá Akureyri til Hríseyjar (Risöe). Þar hitti hann fyrir fyrsta vorskipið, þar sem kom til Akureyrar 1. apríl eftir erfiða ferð í ísnum við Langanes og víðar undan Norðurlandi. Svo kaldur hafði sjórinn verið að ís hafi hlaðist á reiða og stýrið hafi frosið fast nokkrum sinnum. Eftir að hafa athafnað sig á Akureyri hafi þeir siglt út úr firðinum snemma í maí, en hafi strax séð Grænlandsísinn sem hafði legið allt frá Langanesi til Horns. Skipið sigldi nokkra daga fyrir innan ísbrúnina í von um að finna leið út, en án árangurs. Þvert á móti hefði ísinn nokkrum sinnum þrengt að landi og skipstjórinn var feginn að hafa sloppið aftur inn til Hríseyjar, en var orðinn fárveikur af vökum og kulda og dó um borð á skipinu 4. júní. Þann 31. maí fór Mohr úr Hrísey yfir að Karlsá (utan við Dalvík). Þokuloft var, komnir nær hafísnum sem oftast er umkringdur þykkri þoku. Nokkuð stór ísjaki var strandaður undan landi og kelfdi þegar þeir sigldu hjá, með svo miklum brestum að það var eins og fjöllin væru að hrynja. Frá Karlsá var haldið út í Ólafsfjörð og síðan að Siglunesi. Undrast Mohr það hversu stilltur sjórinn var, eins og siglt væri á stöðuvatni. Þó ísinn væri í 5 danskra mílna fjarlægð (um 35 km) hefði hann samt áhrif á sjólagið. Hið milda og hlýja loft sem lengi hafi viðvarað inni í Eyjafirði var ekki merkjanlegt hér. Ísinn kastaði frá sér svo miklum kulda að meðan sól var lágt á lofti var jörð frosin og grýlukerti og ísskæni mynduðust alls staðar þar sem vatn lak eða rann. Mohr fór síðan aftur til Karlsár, síðan í hvítasunnumessu að Ufsum og síðan yfir á Grenivík. Þá segir hann að allan daginn hafi verið hafgola (sem hann nefnir svo og skýrir út orðið: Vind fra Havet, der især um Foraaret blæser stærk med klar Luft visse Timer næsten daglig.
Ýmislegt athyglisvert kemur fram í ferðalýsingunni: Hann skýrir út gerð svonefnds bruðnings úr þorskhausum og uggum, sömuleiðis kæfugerð. Fjallar um ólæti svarfdælskra barna utan við kirkju á messutíma, segir frá tónlistariðkun við messuna og síðan lýsir hann siglingu inn Eyjafjörð. Harmar að menn fáist ekki til að nota áttavita hans í þoku (landar hans í Færeyjum geri það hins vegar með góðum árangri), en lýsir fokkusiglingu í mjög hægum vindi (eftir að hafgolan datt niður).
[Sumar] Sumarið þótti flestum hagstætt. Þó gerði hret norðaustanlands í júnílok og sömuleiðis snjóaði í byggð í lok ágúst.
Vatnsfjarðarannáll yngsti þaðan af [eftir fardaga] var sumarið rétt gott, grasvöxtur mikill yfir allt og heyjanýting góð, jafnvel þó sumarið væri öðru hverju vætusamt fram að höfuðdegi;
Úr Djáknaannálum: Sumar hlýtt, (s227) var þó stundum úrfelli af suðvestri. Gras tók helst að spretta með hvítasunnu [3. júní] og varð grasvöxtur einn hinn besti í manna minnum, nýttust líka hey víða vel. En ei gaf af regnum að heyja til muna upp frá því 20 vikur voru af sumri. Var sumar þetta af mörgum kallað Grassumarið mikla. Af ofurregnum skemmdust hey í görðum syðra.
Höskuldsstaðaannáll: Fleiri skip kom út á Akureyri um sumarið, víst 3 alls, tvö í Hofsós, eitt í Höfða, hvert lengi lá við Hrísey, umkringt af hafísi, hver ís kom fyrir sumarmál og umkringdi Strandir og allt Norðurland. [Enn er sagt frá sama skipi við Hrísey - það var þar alls ekki umkringt ís - en komst hvorki austur né vestur um] (s580) ... Fóru flestir að slá í 11. og 12. viku sumars. Nýttust hey sæmilega. Þó var stundum óþerrir af suðvestri, svo ei verkaðist allt sem best. ... Ísinn hraktist fram í Julium. (s581) Tilburður hryggilegur við Eyrarbakka í Septembri. Fórst þar í stórviðri póstduggan, sem út skyldi sigla, við Þorlákshöfn með sjö mönnum og þar til 12 menn á slúpum [bátum með sérstöku lagi] sem vildu lóssera hana inn, 19 menn alls (að fortalið var).... .
Íslands árbók: Gjörði þó um sumarið góðan grasvöxt með kyrrum og hlýviðrum og hagstæðri veðuráttu um allan heytímann ... (s101).
Espihólsannáll: Sumar hið æskilegasta. Heyskapur góður. Nýting eins.
Viðaukar Espihólsannáls (1): Allramesta gæðasumar í Múlasýslu, ei einasta upp á landið, heldur og sjóinn ... (s228)
Espólín: XXVI Kap. XXIX. Kap. og var þá hið besta sumar, og góður heyskapur og nýting, en menn höfðu þó fækkað í landi þann árshring nær um þúsund. En þó hey yrði mikil, þóttu mönnum þau létt, þvíað eigi varð troðið fjórðungs þyngd í hálftunnu; varð gott haustið (s 30)
Júní (Mohr):
Frá 1. til 9. bjartviðri með blæstri um miðjan dag, undir kvöld og á nóttunni var logn, 7 stiga hiti. 10. til 12. lítill vindur með lítilsháttar regnskúrum, 6 til 9 stiga hiti. 13. og 14. þykkviðri með mikilli rigningu, 5 stiga hiti. 15. til 27. bjart og lengst af logn, frá 10 til 15 stiga hiti. 27. blástur með mikilli rigningu úr norðri, 4 stiga hiti. 28. og 29. lítilsháttar snjókoma, 3 stiga hiti. 30. logn og bjart, 9 stiga hiti. Síðari hluta mánaðarins var Mohr á ferð um Suður-Þingeyjarsýslu til Húsavíkur og síðan Mývatns.
Mohr getur þess að þegar hann var á Húsavík 29. júní hafi ísjaka rekið inn á leguna þar svo óttast var um skipin. Allt slapp þó vel til.
Júlí (Mohr):
Þann 1. til 4. blástur, þykkviðri og snjókoma, 4 stiga hiti. 5. til 11. bjartviðri og log, frá 10 til 14 stiga hiti. 11. til 13. þykkviðri, dálítil rigning og blástur, 7 stiga hiti. 14. til 17. fagurt, hægt veður, 12 stiga hiti. 18. blástur og regn, 19. til 21. gott hægviðri, 10 stiga hiti. 22. og 23. þoka. 24. til 28. hægviðri og bjart, frá 8. til 12 stiga hiti. 29. blástur með regni, 6 stiga hiti. 30. og 31. fagurt veður. Mohr var fyrst við Mývatn en fór síðan austur á Hérað, á Eskifjörð og loks á Djúpavog.
Ágúst (Mohr):
Þann 1. og 2. stormur og regn. 3. til 6. bjart og fagurt veður, síðasta daginn 17 stiga hiti (21°C). 7, til 10. gott veður, 11. þykk þoka. 12. til 18. hægviðri, stundum þoka, 10 til 14 stiga hiti. 19. blástur og mikil rigning, 6 stiga hiti, 20. til 28. fagurt veður, 29. og 30. sterkur blástur og regn. 31. gott veður.
Sveinn Pálsson:
28-8 Snjóaði fyrst i fjöll og byggð. 22-9 Stórviðri reif hey. 23-9 Kafald á norðan.
[Haust og vetur til áramóta]. Nokkuð umhleypingasamt framan af, en síðan frosthart - en ekki sérlega illviðrasamt til landsins. Allmiklir skaðar urðu á sjó - eins og annálarnir rekja.
Vatnsfjarðarannáll yngsti þaðan af fram yfir veturnætur óstöðugt, með hríðum, krapa- og kafaldahretum á milli; síðan gott til nýárs.
Viðvíkjandi almennilegu ástandi, þá jafnvel þó veturinn væri í betra lagi, gengu þó ei að síður yfir, þá á leið, stór harðindi og mesti bjargræðisskortur allvíða meðal manna af undanförnum bágindum og sumstaðar, einkum austan- og sunnanlands, ekki lítill mannfellir af hungri og öðru þar af leiðandi, sömuleiðis stórt peningahrun. Vorvertíðar- sumars- og haustfiskirí var yfir allt að heyra mikið gott, sem ásamt þeim góða heyfeng og hvalarekum í nokkrum stöðum gjörði þaðan af gott árferði. ... Póstduggan strandaði á Eyrarbakka um haustið; skrifað þar hefðu farist 18 manns með þeim, er fram til hennar fóru, ... (s400)
Úr Djáknaannálum: Haust óstöðugt framan af með miklum sunnanregnum, komu skörp frost eftir veturnætur, hlánaði aftur með jólaföstu; stillt síðan. 10 menn drukknuðu á Patreksfirði, 8 í Barðastrandasýslu... Í Sept. forgekk póstduggan, er hét Síld, fyrir Þorlákshafnarskeiði í stormi og stórsjó, drukknuðu þar 18 menn, 8 af duggunni og 10 íslenskir, sem fóru fram til að hjálpa henni í góða höfn, því þá að þessir voru (s230) upp á hana komnir, sleit hana upp og brotnaði. ... 14da sama mánaðar [nóvember] í snögglegu norðan áhlaupsveðri urðu 2 skiptapar nyrðra. (s231). 21ta Dec. varð skiptapi úr Keflavík undir Jökli á rúmsjó með 10 mönnum. ... Varð úti öndverðan vetur maður milli Rifs og Ólafsvíkur, ... og í Nóv. maður á Hnausamýrum í Breiðuvík, ... Jón Andrésson, múrsveitt, ... varð úti hjá Baulu í Norðurárdal. ... Ólafur bóndi Guðmundsson á Vindhæli á Skagaströnd missti um haustið sexæring, er brotnaði. Farmaskip amtmanns Ólafs, sem að kvöldi lá fermt við bryggju í Hafnarfirði, brotnaði um nóttina og tapaðist góssið. (s231)
Höskuldsstaðaannáll: Að kvöldi 14. Novembris undan Árbakka á Skagaströnd fórst fiskibátur við lendingu með fjórum mönnum ... . Sama dag forgekk skip við Reykjaströnd með 5 mönnum ... Bóndinn á Vindhæli, Ólafur, missti um haustið skip, sexæring, í sjóinn. Brotin bar upp í Selvík (s584). Haustið í betra lagi að veðuráttu og fiskafli á Skaga. Skorpa frá allraheilagramessu fram undir aðventu með sterkum frostum og nokkrum fjúkum. En góðviðri síðan í Decembri og fram um jól til Knúts [7. jan.]. (s585)
Espihólsannáll: Haust og vetur til nýárs í betra lagi. Hey reyndust um veturinn víða mjög létt og dáðlítil. (n)) --- Fáeinar manneskjur dóu af hor í Eyjafjarðar og Skagafjarðarsýslum. (s168) ... Skiptapi verður með fjórum mönnum á Skaga, annar á Reykjaströnd ogso með fjórum mönnum sama daginn. Í Barðastrandarsýslu verða 2 skiptapar með 7 mönnum, og voru á öðru 4 bræður, duglegustu menn til lands og sjóar ... . Tveir skiptapar syðra, annar á Seltjarnarnesi, annar undir Vogastapa. Þann 21. Decembris týndist áttæringur í Keflavík undir Snæfellsjökli með 9 mönnum af holsjó undir segli. ... Einn skiptapi í Beruvík með Jökli. Týndust 2 menn, en 2 komust lífs af. 3 bátstapar með mönnum sunnan Snæfellsjökuls. Einn skiptapi á Breiðdal austur með fjórum mönnum. (s169)
Ketilsstaðaannáll: ... á eftir fylgdi ein sérdeilis blíð sumartíð með góðum grasvexti og heynýtingum fyrir vestan, norðan og austan, en fyrir sunnan urðu töður manna fyrir nokkrum hrakningi. Harðindi, einkum á Suður- og Vesturlandi, allmikli manna á meðal, ... (s450) Einninn orsakaðist af þeim skemmdu heyjum frá því árið fyrir stórmikill peningafellir fyrir sunnan og vestan ... (s451) Fannst um vorið Höfðaskip strandað undir Smiðjuvíkurbjargi, sem nú kallast, í Almenningum á Ströndum. Strandaði póstjaktin fyrir sunnan. Á henni voru 7 menn sem allir drukknuðu, sömuleiðis 11 menn aðrir, er mót henni voru sendir til að hjálpa henni til hafnar, ... Hér að auk urðu fyrir sunnan og vestan 10 skiptapar, einn fyrir norðan á Skaga og einn í Breiðdal fyrir austan með fjórum mönnum, (s452)
September (Mohr):
Þann 1. blástur með éljum, 3 stiga hiti. 2. til 9. mest bjartur og hægur, 5 til 9 stiga hiti. 10. þykkviðri með blæstri og mikilli rigningu, 11. til 15. hægviðri og bjart, 5 til 8 stiga hiti. 16. til 24. blástur, stundum snjókoma og rigning, 1 til 5 stiga hiti. 24. til 30. hægur, bjartur með lítilsháttar næturfrosti, 1 til 5 stiga hiti.
Október (Mohr):
Þann 1. og 2. gott veður, 4. sterkur blástur og regnskúrir. 4. og 5. fagurt veður, 6. blástur og regn. 7. og 8. blástur, 9. og 10. stormur, 11. og 12. fagurt veður. 13. til 15. sterkur blástur með hryðjum.
Sveinn Pálsson segir um nóvember:
Þennan allan mánuð hafa gengið mjög mikil frost, með austan átt. Snjólítið hér um sveit, utan hlánaði þann 28. og frysti svo aftur þann 30.
Hér lýkur umfjöllun hungurdiska um tíðarfar og veður á árinu 1781. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir mestallan innslátt annála og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska).
Við sjáum til hvernig eða hvort átjándualdarhjakki ritsjóra hungurdiska miðar eður ei.
Vísindi og fræði | Breytt 27.4.2022 kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2022 | 20:06
Af norðurslóðum
Síðari hluta aprílmánaðar dregur mjög úr styrk vestanvindabeltis háloftanna á norðurhveli jarðar. Kuldinn á heimskautasvæðunum heldur þó áfram að verja sig og í kringum hann helst vindstyrkur oft furðu öflugur allt fram á sumar. Við lentum eftirminnilega í slíku vorið 2018 þegar öflugur lægðagangur hélt áfram hér við land allan maímánuð í austurjaðri mikils kuldapolls vestan við Grænland.
Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á sunnudag, 24.apríl. Tvennt er sérlega áberandi á þessu korti. Annars vegar hinir öflugu kuldapollar við norðurskautið og vestan Grænlands, en hins vegar að svo mikið hefur slaknað á vestanáttinni yfir Norður-Atlantshafi og Evrópu að hún hefur skipt sér upp í fjölmargar litlar lokaðar lægðir. Leifar af vestanátt eru þó sunnan þessa svæðis og veldur m.a. hálfgerðu leiðindaveðri við vestanvert Miðjarðarhaf. Nyrst á þessu grautarsvæði er nokkuð öflug hæð nærri Íslandi - og njótum við auðvitað góðs af henni meðan hún endist.
Þetta er ekki óalgeng staða á þessum árstíma, en alltaf dálítið óþægileg. Í grunninn er ekki langt í gríðarmikinn kulda. Eins og spár eru þegar þetta er skrifað (föstudag 22. apríl) virðist sem stærri kuldapollurinn, sá við norðurskautið, muni ekki ógna okkur í bili. Spár gera þó frekast ráð fyrir því að hann ráðist á norðanverða Skandinavíu upp úr helginni. Gerist það frestast vorkoma á þeim slóðum um að minnsta kosti eina til tvær vikur og það mun snjóa allt til sjávarmáls í Norður-Noregi.
Framhaldið er óljósara hér á landi. Spár gera sem stendur ráð fyrir því að kuldapollurinn vestan Grænlands muni um síðir ónáða okkur. Hvort úr verður leiðindahret eða ekki er hins vegar enn á huldu. Í dag giska flestar spár á að fyrsta vika maímánaðar verði mjög köld.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2022 | 19:39
Vetri lokið
Nú er vetrinum lokið samkvæmt hinu forna íslenska misseristímatali. Sumar hefst með sumardeginum fyrsta. Nýliðinn vetur var umhleypingasamur og þótti nokkuð erfiður. Sennilega viðraði einna best um landið austanvert, en suðvestanlands og víða á Suður- og Vesturlandi var sérlega úrkomu- og illviðrasamt. Illviðrin náðu hámarki í janúar, febrúar og fram í miðjan mars, en síðan þá hefur veður verið mun skárra og sumir tala um góða tíð. Sem stendur lítur nokkuð vel út með gróður, þar sem hann á annað borð er farinn að taka við sér.
Úrkomumagnið í Reykjavík er eftirminnilegt. Myndin hér að neðan sýnir úrkomumagn hvers vetrar í Reykjavík eins langt aftur og mælingar ná.
Lárétti ásinn sýnir ártöl aftur til mælinga 19. aldar. Úrkoma var ekki mæld á árunum 1908 til 1919. Lóðrétti ásinn sýnir magnið í mm. Veturinn nú er hér í þriðja sæti, nokkuð langt ofan við allt síðan á þriðja áratug síðustu aldar. Þær mælingar voru gerðar í porti við Skólavörðustíg - og ekki útilokað að í hvassviðrum hafi regn skafið af húsþökum niður í mælinn í húsagarðinum á bakvið skrifstofur Veðurstofunnar. En alla vega sker veturinn í vetur sig úr því sem verið hefur síðan. Veturinn í fyrra (2020-21) var hins vegar nokkuð þurr miðað við það sem algengast hefur verið undanfarin ár. Þurrast var veturinn 1976-77.
Minni tíðindi eru af hitanum. Vetrarhitinn í Reykjavík (bláar súlur) var mjög nærri meðaltali þessarar aldar (sem er er nokkuð hátt miðað við lengri tíma). Landsmeðalhiti var um -0,3 stigum neðan aldarmeðaltalsins. Síðustu 70 árin voru veturnir 1963-64 og 2002-03 þeir langhlýjustu í Reykjavík (og á landsvísu), en kaldastir voru 1950-51 og 1978-79.
Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars með von um að það reynist hagstætt.
21.4.2022 | 12:38
Fyrstu 20 dagar aprílmánaðar
19.4.2022 | 16:55
Sumardagurinn fyrsti - sundurlausir fróðleiksmolar (taka 3)
Fyrir fimm árum (og fyrir 9 árum) rifjaði ritstjóri hungurdiska upp nokkra fróðleiksmola um sumardaginn fyrsta - þetta er að mestu endurtekning á því með lítilsháttar uppfærslum, leiðréttingum og viðbótum þó. Sérlega hlýtt var á sumardaginn fyrsta 2019 og tengjast flestar breytingar þeim degi. Aðallega er miðað við tímabilið 1949 til 2021.
Þetta er vægast sagt þurr upptalning en sumum veðurnördum finnst einmitt best að naga þurrkað gagnaroð.
Aðrir hafa helst gaman af þessu með því að fletta samhliða í kortasafni Veðurstofunnar en þar má finna einfölduð hádegiskort sumardagsins fyrsta aftur til 1949 á sérstökum síðum (fletta þarf milli áratuga).
Meðalvindhraði var minnstur 1955, 1,9 m/s. Langhvassast varð 1992, 15,1 m/s. Næsthvassast var 1960.
Þurrast var 1996 og 1978. Að morgni þessara daga mældist úrkoma á landinu hvergi meiri en 0,5 mm og varð aðeins vart á um þriðjungi stöðva. Úrkomusamast var hins vegar 1979 en þá mældist úrkoma á 98 prósentum veðurstöðva á landinu. Ámótaúrkomusamt var 2009 en þá mældist úrkoma meira en 0,5 mm á 96 prósentum veðurstöðva.
Kaldasti dagurinn í hópnum var 1949 (meðalhiti -7,3 stig). Landsmeðalhitinn var hæstur 2019 (9,0 stig). Meðalhámark var einnig hæst 2019 (14,2 stig). Lægst varð meðalhámarkið dagana köldu 1949 (-4,5 stig) og 1967 (-3,1 stig). Landsmeðallágmarkið var lægst sömu ár, 1949 (-9,7 stig) og 1967 (-7,8 stig). Hæst var landsmeðallágmarkið (hlýjasta aðfaranóttin) 1974 (5,8 stig).
Lægsti lágmarkshiti á mannaðri veðurstöð á sumardaginn fyrsta á tímabilinu 1949 til 2016 mældist 1988, -18,2 stig (Barkarstaðir í Miðfirði). Lægsti hiti sem mælst hefur á landinu á sumardaginn fyrsta er -23,4 stig á Brúarjökli 2007, en hæsti hámarkshiti þessa góða dags mældist 1976, 19,8 stig (Akureyri). Hiti fór reyndar í 20,5 stig á Fagurhólsmýri á sumardaginn fyrsta 1933, en það er óstaðfest í bili. Á sumardaginn fyrsta 1949 fór hiti hvergi á landinu yfir frostmark, hæsta hámark dagsins var -0,2 stig. Þetta er með ólíkindum. Sumardagurinn fyrsti 1951 var litlu skárri því þá var hæsti hámarkshitinn nákvæmlega í frostmarki.
Í Reykjavík er kaldasti sumardagurinn fyrsti sem vitað er um 1876, þá var meðalhitinn -6,9 stig (ekki nákvæmir reikningar), lágmarkshiti ekki mældur. Þann dag segir blaðið Norðanfari að -18 stiga frost hafi verið á Akureyri (en opinberar mælingar voru engar á Akureyri um þær mundir). Lægsti lágmarshiti mældist í Reykjavík 1949, -8.9 stig. Það hefur sjö sinnum gerst svo vitað sé að ekkert hafi hlánað í Reykjavík á sumardaginn fyrsta, síðast 1983 þegar hámarkshiti dagsins var í frostmarki, 0,0 stig. Sjö sinnum hefur mælst frost aðfaranótt sumardagsins fyrsta á þessari öld í Reykjavík, síðast 2017, en aðeins -0,1 stig. Dagsmeðalhiti sumardagsins fyrsta í Reykjavík var hæstur 2019, 10,8 stig (25. apríl) og þann sama dag mældist hæsti hámarkshiti sem vitað er um á sumardaginn fyrsta í Reykjavík 14,7 stig.
Sumardagurinn fyrsti var sólríkastur í Reykjavík árið 2000, þá mældust sólskinsstundirnar 14,6, þær voru litlu færri 1981, eða 14,4. Síðustu 100 árin rúm hefur 22 sinnum verið alveg sólarlaust í Reykjavík á sumardaginn fyrsta, síðast í fyrra. Sólríkast var á Akureyri á sumardaginn fyrsta 1988, þá mældust 13,5 klst. Síðast var sólarlaust á Akureyri á sumardaginn fyrsta 2012.
Á Akureyri var hitinn hæstur 19,8 stig 1976 - eins og nefnt var hér að ofan, en mesta frost sem mælst hefur á sumardaginn fyrsta á Akureyri er -10,5 stig. Það var 1949.
Meðalskýjahula á landinu var minnst 1981 (aðeins 1,8 áttunduhlutar). Það var bjartur dagur - en býsnakaldur. Skýjahulan var mest 1959 (7,9 áttunduhlutar) - mörg önnur ár fylgja skammt á eftir.
Loftþrýstingur var hæstur 1989 (1041,6 hPa) en lægstur 1958 og 2006 (980,6 hPa).
Algengast er að vindur sé af norðaustri á sumardaginn fyrsta (miðað við 8 vindáttir). Norðvestanátt er sjaldgæfust.
Ameríska endurgreiningin segir að þrýstisviðið yfir landinu hafi verið flatast 1958 (vindur hægastur), en langbrattast 1992 (hvassast). Sama dag var hvassast á veðurstöðvunum (eins og áður sagði) og þrýstimunur á milli veðurstöðva landsins mestur og hittir endurgreiningin hér vel í. Þrýstivindur var af austsuðaustri, en á veðurstöðvunum var meðalvindátt rétt norðan við austur. Það er núningur sem er meginástæða áttamunarins. Þrýstisviðið var flatast á sumardaginn fyrsta 2014.
Sé litið á 500 hPa-flötinn segir endurgreiningin hæðarbrattann hafa verið mestan 1960, af vestnorðvestri.
17.4.2022 | 15:16
Hugsað til ársins 1951
Þá rifjum við lauslega upp veður og veðurlag ársins 1951. Um 1950 virtist eitthvað meiriháttar hik vera í hlýskeiðinu sem staðið hafði frá því á þriðja áratugnum. Vorið 1949 var sérlega hart um land allt og veturinn 1950 til 1951 var frekar í gömlum stíl heldur en nýjum. Austanlands gerði gríðarlegar rigningar sumarið 1950 með mannskæðum skriðuföllum á Seyðisfirði og seint á árinu gerði eftirminnileg norðanveður, bæði 30.nóvember og 10.desember. Í síðara veðrinu hlóð niður snjó á Norður- og Austurlandi. Við getum vonandi fjallað um þau veður síðar hér á hungurdiskum.
Þjóðviljinn segir í frétt þann 22.febrúar 1951:
Síðastliðin 20 ár hefur verið hlýindatímabil hér á Íslandi, en ýmislegt bendir til þess að því sé að ljúka. Á 49. stöðum voru jöklamælingar framkvæmdar s.l. sumar. Á 37 stöðum hafði jökullinn minnkað gengið til baka, á 4 stöðum staðið í stað, en gengið fram stækkað á 8 stöðum, en undanfarið má segja að þeir hafi allstaðar minnkað.
Veturinn (desember til mars) 1950 til 1951 var kaldur, á landsvísu sá kaldasti frá 1920 og kaldari vetur kom ekki aftur fyrr en 1965 til 1966. Séu nóvember og apríl einnig taldir til vetrarins kemur í ljós að ekki hafa nema tveir vetur síðan verið kaldari síðan, 1967 til 1968 og 1978 til 1979.
Snjóhuluathuganir hafa nú verið gerðar á landinu í nærri hundrað ár. Á Norður- og Austurlandi er þessi vetur sá snjóþyngsti frá upphafi, sá 14. snjóþyngsti á Suður- og Vesturlandi og sá næstsnjóþyngsti á landsvísu, ásamt vetrinum 1982 til 1983. Snjóþyngstur var á landinu öllu var veturinn 1994 til 1995.
Alhvítir dagar voru 166 á Akureyri veturinn 1950 til 1951 og hafa aldrei verið fleiri frá upphafi snjóathugana 1924. Alhvítt var allan desember, janúar, mars og apríl, og 24 daga í febrúar. Í Reykjavík var fjöldi alhvítra daga 58, örlítið færri heldur en í meðalári. Þar var aðeins einn alhvítur dagur í desember, 7 í janúar, en 27 í febrúar og 20 í mars.
Eftir áramót 1950 til 1951 linnti vart fregnum af snjó og hríðum. Þann 18.janúar féll snjóflóð á beitarhús á bænum Hjarðarhaga á Jökuldal og drap 48 kindur, snjóflóð féllu víða í Eyjafirði þann 13. og dagana þar á eftir. Ófærðar gætti meira að segja suðvestanlands og lenti fólk í miklum hrakningum á vegum í nágrenni Reykjavíkur þann 29.janúar. Tveimur dögum síðar, þann 31.janúar fórst flugvélin Glitfaxi í éli út af Vatnsleysuströnd og með henni 20 manns. Þann 21. og 22. féllu snjóflóð á mannvirki hitaveitu Ólafsfjarðar.
Mestallan veturinn eru dagblöð full af fréttum af miklum snjó, ófærð og vandræðum af þeim sökum. Mjólkurflutningar gengu illa, líka á Suðurlandi, þó mun meiri snjór væri fyrir norðan og austan. Við veljum hér nokkuð tilviljanakennt úr fréttum.
Tíminn segir frá 12. janúar:
Frá fréttaritara Tímans í Búðardal. Hvammsfjörð lagði um áramót, og var hann kominn á ís alla leið út að eyjunum fyrir mynni hans. En í fyrradag og fyrrinótt stormaði og brotnaði þá ísinn í mynni hans, svo að nú er fært báti inn undir Staðarfell. Landleiðin er bílfær vestur í Dali, en lokist hún og haldist lengi ís á firðinum, er héraðið illa sett um samgöngur. Veður hefir verið mjög kalt, en stillt. Er haglítið orðið og klammi á jörðu, en gott yfirferðar.
Og daginn eftir, 13. janúar:
Samfelld hríð í 4 dægur nyrðra. Sér hvergi í dökkan díl. Á Akureyri var kominn mikill snjór í gær, svo að þar í nágrenninu sá hvergi á öökkan díl að kalla. Umferð um götur bæjarins var mjög erfið öllum farartækjum og ófært víða með bíla, svo sem um brekkuna. Mjólkurbílar komust seint til bæjarins í fyrradag, en í gær urðu sumar leiðir ófærar með öllu.
Og fyrirsögn í Tímanum 21. janúar: Meiri harðindi í N-Þingeyjasýslu en þekkst hafa um áratugi.
Klakastíflur í ám ollu vandræðum. Tíminn segir frá 25. janúar:
Allur Þykkvibær undir vatni: Klakastífla, sem myndaðist í Ytri-Rangá. sprakk og stórflóð féll yfir byggðina Þegar fólk kom á fætur í gærmorgun í Þykkvabænum var heldur einkennilegt um að litast í byggðinni. Vatn var yfir öllu landi, en hús og bæir sem klettar upp úr lygnum haffleti. Flóðið átti rót sína að rekja til leysinganna að undanförnu og þess að stíflur hafa komið í Ytri-Rangá vegna jakaburðar. Síðdegis í gær var flóðið heldur farið að sjatna.
Ekki varð mikill skaði af flóði þessu. Sömu daga greina blöðin frá stórkostlegum snjóflóðum í Sviss, Austurríki og á Norður-Ítalíu og að 285 séu þá taldir af.
Að kvöldi 28. janúar gerði eftirminnilegt hríðarveður í Reykjavík og nágrenni. Tíminn segir frá þann 30. (nokkrum millifyrirsögnum sleppt hér):
Upp úr hádeginu á sunnudaginn byrjaði að hvessa og nokkru siðar gerði hríð, sem hélst svo til sleitulaust til miðnættis. Umferðatafir urðu ekki á götunum fyrst í stað, en þegar á kvöldið leið fór færðin að þyngjast fyrir smærri bíla. Margir stöðvarbílar hættu þá akstri vegna erfiðleika við að komast áfram en strætisvagnar héldu áfram fram eftir kvöldi. En veðrið herti með kvöldinu og um 10 leytið var kominn um 12 vindstiga stormur í Reykjavík er hélst svo til fram undir miðnætti. Jafnframt var mikil og stöðug snjókoma. Bílar urðu þá unnvörpum fastir á götunum þar sem þeir voru komnir en fólk var ýmist að láta fyrirberast í þeim, að leita gangandi út í illviðrið og brjótast heim til sín upp á gamla mátann. Strætisvagnar urðu margir fastir einkum i úthverfunum og brátt varð að hætta ferðum um þau. Þegar fólk kom úr leikhúsum og kvikmyndahúsum á tólfta tímanum var ömurlegt um að litast í bænum. Í hríð og hvassviðri var fólk að brjótast heim til sín í gegnum snjóskaflana á götunum. Var hríðin svo svört að varla sá út úr augum og algengt var að sjá fólk rekast á bíla sem sátu fastir á götunum, eða jafnvel upp um gagnstéttir. Kvenfólk í nylonsokkum kafaði skaflana eins og karlmennirnir. Varð mörgum þeirra að orði að nú dyggðu nylonsokkarnir ekki vel. En ekki gat fólk sem fór í leikhús og kvikmyndahús búist við þeim ósköpum að ófærðin væri svo algjör sem raun varð á að sýningu lokinni. Algjörlega varð ófært milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og sat fjöldi bíla fastur á Hafnarfjarðarveginum lengi nætur í fyrrinótt. Ýtur komu til hjálpar fyrst frá Hafnarfjarðarbæ og síðan úr Reykjavík og losnuðu flestir bílanna milli klukkan 3 og 4. Fjöldi fólks sem ætlaði lengra lét fyrir berast i Hafnarfirði og var góðtemplarahúsið fengið til afnota fyrir húsnæðislaust ferðafólk.
Snjókoman í fyrrakvöld virtist hafa verið langmest í Reykjavík og nágrenni. Til dæmis snjóaði ekki nema lítið eitt í Borgarfirði ofan Skarðsheiðar. Færð var að vísu talsvert þung á akvegum í Borgarfirði í gær en mest vegna þess, að snjóinn hafði skafið saman í skafla 1 hvassviðrinu í fyrrakvöld. Olli þetta nokkrum umferðatöfum, en viðast hvar voru skaflarnir mokaðir af veginum strax í gær, svo nú er orðið greiðfært aftur.
Við skulum líta á veðurkort sem sýnir aðstæður í þessum hríðarbyl.
Ástæður hans sjást vel. Mikil úrkoma í köldu landsynningsveðri. Djúp lægð kom úr suðvestri inn á Grænlandshaf og settist þar að. Skil lægðarinnar fóru svo yfir laust eftir miðnætti.
Miðnæturkortið (klukka landsmanna var þó ekki nema 23 þegar þetta kort gildir) sýnir hvassa suðaustanátt, fárviðri er á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Handan skilanna var kalt loft frá Kanada með éljum og minni lægðakerfum.
Mikið var um slys af ýmsu tagi á árinu 1951. Sjóslys mörg, en þó sker árið sig ekki úr á þeim vettvangi, banaslys urðu fjölmörg í umferð og landbúnaði og mjög alvarleg slys á börnum tíð. Brunar voru sérlega tíðir, fréttir af húsbrunum nærri daglegt brauð. Nútímalesendur hrökkva við lestur allra þessara frétta, svo margt hefur færst til betri vegar - þrátt fyrir allt. Eftirminnilegasta slys ársins er þó það sem er kennt við flugvélina Glitfaxa, eða Vestmanneyjaflugvélina. Um það var rætt árum saman - svo lengi að ritstjóri hungurdiska man vel þær umræður sem barn og unglingur. Ekki voru mörg ár frá síðasta stóra flugslysi, því sem kennt er við Héðinsfjörð.
Slysið varð á Faxaflóa síðdegis þann 31. janúar, í varasömum en þó ekki alvondum veðurskilyrðum. Hér er ekki rúm eða ástæða til að fara út í nákvæma lýsingu atvika, en hér er þó frásögn Morgunblaðsins af þeim daginn eftir, 1. febrúar (textinn er lítillega styttur hér):
Morgunblaðið 1. febrúar:
Um klukkan [15:30] í gærdag [31.janúar] fóru tvær flugvélar héðan frá Reykjavík til Vestmannaeyja, báðar fullskipaðar. Í Vestmannaeyjum var höfð skömm viðdvöl, en þaðan lagði Glitfaxi" upp um klukkan [16:35]. ... Ferð Glitfaxa" frá Vestmannaeyjum gekk eðlilega. Flugvélin kemur yfir stefnuvitann á Álftanesi um kl. [16:58] og átti þá eftir um 1015 mín flug til Reykjavíkurflugvallar. Flugstjórinn fær þá leyfi flugumferðarstjórnarinnar til að lækka flugið, samkvæmt hinum venjulegu reglum. Litlu síðar tilkynnir flugstjóri, að truflanir séu í móttökutækinu en þær áttu rót sína að rekja til hríðarbyls, er þá gekk yfir. Flugstjóranum er nú tilkynnt, að vegna hríðarinnar sé flugvellinum lokað um stundarsakir og honum sagt að fljúga upp í 4000 feta hæð út yfir Faxaflóa. Skömmu síðar rofar til yfir Reykjavíkurflugvelli. Var þá ákveðið að gera aðra tilraun til aðflugs. Flugvélin var þá komin í 2000 feta hæð. Klukkan var nú [17:14], og í skeyti frá flugstjóranum, sem er hið síðasta sem frá flugvélinni bast, segir hann sig vera á leið að stefnuvitanum á Álftanesi og fljúgi hann flugvélinni í 700 feta hæð. Þetta er sem sé það síðasta, sem frá Glitfaxa" heyrist. Strax og sambandið við flugvélina rofnar, voru gerðar allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að ná sambindi við hana á ný, en án árangurs.
Þess skal þó geta hér, að flugvélin, sem fór ásamt Glitfaxa" til Vestmannaeyja, lagði upp frá Eyjum 20 mínútum síðar eða klukkan [16:55]. Hún fékk ekki lendingarleyfi hér í Reykjavík fyrr en klukkan rúmlega 18 vegna þess að með radartækjum á Keflavíkurflugvelli var þá verið að leita yfir Faxaflóa að Glitfaxa". Umrædd flugvél flaug í 5000 feta hæð yfir Reykjavík og næsta nágrenni meðan á leitinni stóð. Þessi flugvél flutti enga farþega, því farþegar frá Eyjum munu hafa kosið að fara með þeirri vélinni, sem fyrr fór.
Hér má sjá veðurkort (bandaríska endurgreiningin) síðdegis þann 31. janúar, um það leyti sem Glitfaxi fórst. Aðalatriðin eru áreiðanlega rétt, en lítil von er til þess að smáatriði komi fram. Við vitum t.d. ekki glöggt hvort lægðin suðvestur í hafi er á réttum stað - eða réttum styrk, né hvort lægðardragið við landið suðvestanvert er rétt greint.
Íslandskortið á sama tíma sýnir éljabakka við Suðvesturland. Ákveðin austsuðaustanátt er á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, 40 hnútar, haglél og hiti 0,7 stig. Á Reykjanesvita er vindur hægur, snjókoma og ekki nema 100 metra skyggni. Við sjáum eðli veðurlagsins m.a. á því að heiðskírt er að kalla norðaustanlands - enginn stórfelldur blikubakki fylgir úrkomusvæðinu við Suðvesturland.
Flugvallarathuganir á Reykjavíkurflugvelli síðdegis þann 31. sýna éljagang, en ekki mikinn vind, mest 18 hnúta. Hér gefa tímasetningar tilefni til ruglings. Klukkurnar eiga að sýna alþjóðatíma (zulu), en ekki íslenskan miðtíma, sem var klukkustund á eftir. Ekki er ljóst af blaðafregnum hvor tíminn er sá sem tilgreindur var í blaðafregnum (við gerum þó ráð fyrir því að það hafi verið hinn íslenski). Hér má sjá í hnotskurn hvers vegna langflestir veðurfræðingar eru á móti öllu hringli með klukkuna - og þann mikla kost að vera á alþjóðatíma árið um kring.
Myndin hér að ofan sýnir þrýstirita dagana kringum Glitfaxaslysið. Lægðardrag fór yfir daginn áður, þann 30. janúar, síðan var loftvog stígandi fram undir slystímann. Um kvöldið kemur síðan inn snarpur éljagarður eða smálægð. Seint um kvöldið var vindur allhvass, fyrst af suðaustri, en síðan suðvestri með blindhríð, skyggni fór niður í 300 metra á flugvellinum.
Snemma í febrúar losnaði lagnaðarís á Skutulsfirði, Tíminn segir frá þann 4. febrúar.
Allmikið ísrek er nú út Skutulsfjörð og norður í Ísafjarðardjúp. Hafnarstjórinn á ísafirði hefur af þessum sökum aðvarað sjófarendur, þar eð skipaleið er talin hættuleg af völdum ísreksins, ef ekki er fullrar varúðar gætt.
Í febrúar voru enn stöðugar fréttir af ófærð og samgönguvandræðum. Við grípum niður í nokkrar fréttir í Tímanum:
[22.] Í aftaka hvassviðri og hríðarbyl, urðu í fyrrinótt skemmdir á hitaveitunni í Ólafsfirði, svo að hún er nú óstarfhæf. Féll snjóskriða sunnanvert í Garðsdal einmitt þar sem upptök hitaveitunnar eru. Lenti skriðan á mannvirkinu, svo að hitaveitan kemur ekki að notum. Hvassviði og snjókoma hélst enn í allan gærdag svo ekki reyndist unnt að aðgæta skemmdirnar
[23.] Gífurlegt fannfergi komið á Norðurlandi Látlaus stórhríð í þrjá sólarhringa. Á Norðurlandi hefir nú verið látlaus stórhríð í þrjá sólarhringa. og er fannfergi ofan á gamla hjarninu orðið gífurlegt, svo að víða verður vart farið á milli bæja nema á skíðum í Suður-Þingeyjarsýslu er fannkyngið orðið mjög mikið, en þó var brotist til Húsavíkur með mjólk í gær á sleðum aftan í ýtum. Hafði bærinn þá verið mjólkurlaus um skeið. Allar samgöngur milli byggðarlaga i héraði eru að öðru leyti tepptar. Heldur var þó að rofa til í gærkveldi.
Á Akureyri er vetrarlegt um að lítast. Mannhæðarháir skaflar eru víða á götunum. Í gær voru stórar ýtur að vinna að því að ryðja braut fyrir bíla um miðbæinn.
[24.] Bílar allan daginn í gær að brjótast til mjólkurbús [Flóamanna]. Mjólkurbílar 10 klst frá Reykjavík til Selfoss. Margt fólk varð að gista í Krísuvík í fyrrinótt. Mjólkurbílar komust við illan leik úr flestum eða öllum sveitum Suðurlandsundirlendisins til Mjólkurbús Flóamanna í gær og eins þaðan til Reykjavíkur. Snjóýtur unnu á Krísuvíkurleiðinni og vegum í nánd við Selfoss í gær og er búist við sæmilegu færi í dag, ef ekki tekur að snjóa á ný
Um mánaðamótin hlánaði um stund syðra, flæddi allvíða yfir vegi og í hús:
Tíminn 1. mars:
Vatn hefir runnið inn í mörg hús í Keflavík og YtriNjarðvík og sums staðar valdið skemmdum á innanstokksmunum. Úr einni íbúð í kjallara húss við Kirkjuveg í Keflavík hefir fólkið orðið að flytja brott. Skemmdir hafa orðið á einni götu.
Tíminn 2. mars:
Síðdegis í fyrradag [28. febrúar] féll snjó- og aurskriða á 2030 metra löngum kafla yfir veginn norðan í Reynivallaháls. Bifreiðar, sem komu þar að um kl. 7 um kvöldið, komust ekki lengra og urðu frá að hverfa. Var vegurinn því tepptur í fyrrinótt. Flóir yfir veginn hjá Kleifarvatni Flæðir yfir Keflavíkurveginn.
Mikla hríð gerði norðanlands þann 4. og fauk þá m.a. járn af þökum fjögurra íbúðarhúsa á Húsavík.
Við látum veðurathuganamenn Veðurstofunnar lýsa tíðarfari marsmánaðar í almennum orðum.
Gunnhildargerði á Úthéraði [Anna Ólafsdóttir]:
Marsmánuður hefir verið með afbrigðum erfiður, svo að slíkt mun einsdæmi. Svo mikil óveður dag eftir dag að vart hefir verið hægt að sinna skepnuhirðingu því víðast hvar er fé á beitarhúsum hér um slóðir og ekkert til að styðjast við þegar að hvergi sér á dökkvan díl, og svo mikill snjór að elstu menn hér um slóðir segja að slíkt hefi ekki verið á þessari öld nema ef ske kynni 1910. Hér í nánd eru skaflar víða um 20 metra djúpir. Nú hefir gengið svo á heyfeng bænda að margir eru á þrotum, og þó nokkur heimili sem eru alveg bjargarlaus og hafa aðrir reynt ofurlítið að miðla þeim því allstaðar er af mjög litlu að taka.
Anna segir þann 6.mars:
Ótrúlega mikill snjókoma hefir verið nú í 3 dægur, víða á sléttu eru 3 m djúpir skaflar og alveg vandræði að komast hús milli vegna ófærðar.
Þann 25.segir hún:
Svo ótrúlega mikill snjór er nú að þess þekkjast ekki dæmi, hvergi sér á girðingarstaura nema aðeins á hliðarstólpa sem eru meira en 3 metrar upp frá jörðu.
Á Seyðisfirði segir athugunarmaður, Sigurður Sigurðsson, frá því að úrkomumælir hafi hvað eftir annað farið á kaf í snjó.
Hof í Vopnafirði [Jakob Einarsson]:
Harðindi. Stórhríðar 5.-6. og 21. með fannburði og stórviðrum, einkum 5. og 21. Vonskuhríðir og éljaveður oft þar fyrir utan. Var komin talsverð jörð í mánaðarbyrjun eftir blotann um mánaðamótin, en hvarf að mestu hér og víðast alveg. Þó var hér á Hofi til snöp á parti af Kofaborgartungu og enda Þormundarstaðaháls er upprof var, ef ekki var mulla sem byrgði. Í mánaðarlok kominn einhver sá mesti snjór sem ég hef séð, bæði á sléttlendi, en einkum þó í sköflum í og yfir brekkum og í giljum. Öll gil full sem nokkurn tíma geta fyllst og fleiri og öðruvísi en ég hef áður séð.
Sandur í Aðaldal [Friðjón Guðmundsson]:
Harðindatíð var allan mánuðinn með frostum, fannkomum og jarðbönnum. Snjóþungt var með afbrigðum og vegir allir ófærir bílum.
Reykjahlíð við Mývatn [Pétur Jónsson]
Versta veðurátta. Meiri snjór kominn en ég hefi séð síðan ég fór að hafa veðurathuganir [1936]. Símalínur komnar undir snjó sumstaðar og hús á kafi.
Teigarhorn [Jón Kr. Lúðvíksson]
Mars fremur kaldur og vindasamur. Góðir hagar hér og í nálægum sveitum. Fé beitt alla daga, aðeins einn innistöðudagur. Sjósókn stopul, tregur afli þegar gaf á sjó.
Tilraunastöðin á Sámsstöðum [Bogi Nikulásson]
Svipar til fyrri mánaða, en samfelldari frostaveðurátta. Sól flesta daga þegar upp birt, en fannkoma meiri og oft það mikil að Krísuvíkurleið varð ekki bílfær án snjómoksturs. Úrkomulítið eins og fyrri mánuði og talsverður hluti úrkomunnar bræddur snjór. Áttin var tíðast norðaustan en aldrei mjög hörð. Samgöngur urðu allar mjög erfiðar og gefa varð öllum fénaðinum, því beit var nær engin.
Síðumúli í Borgarfirði [Ingibjörg Guðmundsdóttir]
Marsmánuður hefir verið óvanalega þurrviðrasamur. Öll úrkoma mánaðarins var ekki meiri en oft kemur fyrir á einu dægri. Vatnsskortur er víða tilfinnanlegur og þarf á sumum bæjum að sækja vatn langar leiðir. Jörð er nú frosin og að mestu hulin snjó og ísum.
Stykkishólmur [Valgerður Kristjánsdóttir]
Í mánuðinum hefur verið regluleg vetrartíð.
Lambavatn á Rauðasandi [Ólafur Sveinsson]
Það hefir mátt heita óslitin austan- og norðaustanátt allan mánuðinn. Oft töluvert hvassviðri en úrkomulítið. Snjór alltaf lítill. Þótt eitthvað hafi snjóað hefur það fokið af straks. Svell hafa verið töluverð og hagi því lítill. Eins og fyrr í vetur hefur mátt heita hér algerð innistaða fyrir allar skepnur.
Fagurhólsmýri [Helgi Arason]
Í lok mánaðarins var hér í sveit allmikill snjór á jörðu. Hann þó fokinn í fannir og jörð víða auð. Ég býst við að hér í sveit hafi ekki verið svo miklar fannir síðan veturinn 1929-1930.
Eins og sjá má voru sjóþyngsli óvenjuleg austanlands, á Suðurlandi var kvartað undan ófærð, en vestanlands var sérlega þurrt.
Við veljum hér úr einn hríðardaginn, þann 21. mars. Hann var að ýmsu leyti óvenjulegur. Suðvestlæg átt var ríkjandi í háloftum yfir landinu, en í neðri lögum var áttin norðaustlæg. Lægð fór til norðausturs skammt fyrir suðaustan og austan land.
Hér má sjá að háloftalægðardrag er yfir landinu og vindátt í 500 hPa úr vestsuðvestri. Þessarar vestanáttar gætti þó alls ekki við jörð, þar var lægðin alveg fyrir suðaustan land. Þegar svona háttar til snjóar oft býsna mikið á Suður- og Vesturlandi þrátt fyrir norðaustanáttina. Vesturland slapp þó alveg að þessu sinni, en mikil snjókoma var víða á Suðurlandi og fór snjódýpt í 30 cm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, mikla en skammvinna hríð gerði í uppsveitum Árnessýslu, en festi ekki mikið. Talsvert snjóaði sums staðar suðaustanlands. Faxaflói og Breiðafjörður sluppu að mestu við fannkomuna, en mikið snjóaði á landinu norðan- og austanverðu. Eystra var linnulítil hríð allan daginn. Vindur var allhvass eða hvass um land allt. Satt best að segja kemur á óvart að ekki skuli vera fréttir af snjóflóðum þau hafa ábyggilega orðið víða eystra, þó ekki hafi valdið tjóni.
Kortið sýnir veðrið á landinu kl.18 miðvikudaginn 21. mars 1951. Mikil hríð er um landið norðan- og austanvert, sérstaklega frá Húnavatnssýslum austur og suður um og allt vestur í Öræfi. Á þessu svæði var skyggni víðast aðeins nokkur hundruð metrar, á Daltanga 400 metrar og innan við 100 metrar í Fagradal í Vopnafirði. Suðvestanlands hefur létt til en þar var þó lágur skafrenningur. Skyggni á Hæl í Hreppum 5 km og 2,5 á Síðumúla í Borgarfirði. Best var skyggnið í Reykjavík, 65 km.
Tíminn 30.mars:
Frá fréttaritara Tímans í Jökulsárhlið: Nú er svo komið, að ýmsir menn hér um slóðir eru þrotnir að heyjum, en fjölmargir eru á nástrái. Fannkyngi er meiri en elstu menn muna. Gripahús víða gersamlega í kafi og sums staðar sést aðeins á mæninn á íbúðarhúsunum, og margra metra snjógöng úr bæjardyrunum upp á hjarnbreiðuna, sem hylur allt. Að Grófarseli í Jökulsárhlíð er tveggja hæða íbúðarhús og sést nú aðeins á mæninn á því og um þrjá glugga á efri hæð má enn sjá niður til miðs. Þar eru sjö metra göng úr bæjardyrunum upp á hjarnið. Viðlíka sjón mætir mönnum víða á Fljótsdalshéraði. Víða sést alls ekki á fjárhús, fjós og önnur útihús og er þykk fannbreiða yfir, en gengið í þau um löng snjógöng, sem grafin hafa verið og minna á myndir úr ferðabókum vetursetumanna í heimskautalöndunum. ... Að Litla-Steinsvaði í Hróarstungu brotnaði fjósið hjá Jóni Guðmundssyni bónda þar niður í fyrradag.
Svipuð tíð hélst fram eftir apríl, Tíminn segir snjóafréttir, m.a. snjóaði óvenjumikið syðst á landinu:
[13. apríl] Frá fréttaritara Tímans í Haganesvík. Við Ketilás í Austur-Fljótum er símalínan komin alveg í kaf, svo að ekki sér einu sinni á símastaurana, og af íbúðarhúsinu að Stóru-Brekku í Austur-Fljótum sést ekki annað upp úr fönn inni en reykháfurinn og eitt horn hússins. Fjós er þar sambyggt íbúðarhúsinu, og er skaflinn á þaki þess orðinn hálfur annar metri að þykkt.
[17.] Undanfarna tvo daga hefir verið hörkuveður með fannkomu á Norður- og Norðausturlandi. Frostharkan hefir verið mikli einhver hin mesta á vetrinum, komist upp í 1718 stig í Eyjafirði og víðar. Á Húsavík var norðvestan stórhríð með mikilli veðurhæð og frosthörku, sagði Fréttaritari blaðsins þar. Í Eyjafirði eru allir vegir orðnir ófærir á ný. Voru þeir ruddir litlu fyrir helgina en nú er skeflt í allar slóðir. Mjólk barst þó til Akureyrar i gær og fyrradag bæði sjóleiðis frá Dalvík og á sleðum úr næstu sveitum.
[19.] Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal. Hér hefir snjóað látlaust meira og minna hvern einasta dag í rúma viku og er kominn meiri snjór hér um slóðir en nokkur maður man dæmi til. Algerlega er orðið ófært um alla vegi og ekki vonir til að bílaumferð hefjist fyrr en verulega breytir um tíðarfar. Nokkrir fjárskaðar urðu í Mýrdalnum ofviðri á dögunum. Bílar tepptust á Sólheimasandi. Þegar snjóinn tók að setja niður fyrir alvöru, tepptust þrír bílar, sem voru á austurleið með vörur, á Sólheimasandi og sitja vörurnar þar enn. Eina ýtan, sem hér er, brotnaði einnig, svo að hún er nú ekki nothæf, en verið er að reyna að gera við hana.
Hár í Mýrdalnum urðu nokkrir skaðar í ofviðri á dögunum. Nokkrir símastaurar hafa brotnað og símalínur víða i ólagi. En tilfinnanlegri varð þó fjárskaði í Mýrdalnum. Á Ytri-Sólheimum hrakti 40 ær, sem Ísleifur Erlingsson bóndi átti, frá fjárhúsum út í veðrið. Fundust þær flestar aftur, en þó vantar fjórar enn. Sex þeirra sem fundust, drápust þó og ellefu eru enn veikar eftir hrakninginn og ekki séð, hvernig þeim reiðir af. Einnig missti Einar Einarsson bóndi á næsta bæ tíu ær út í veðrið, átta þeirra náðust aftur lifandi, en tvær eru dauðar. Segja má, sagði fréttaritarinn að lokum, að ástandið sé hið ískyggilegasta, því að ekki er nú langt þangað til sauðburður hefst og haldist svipað tíðarfar, sem er algerlega einsdæmi hér um slóðir á þessum tíma, eru miklir og ófyrirsjáanlegir erfiðleikar fyrir dyrum.
Þessir dagar, um og upp úr miðjum apríl voru sérlega kaldir. Þann 20. apríl fór frostið í -23,1 stig í Reykjahlíð við Mývatn og í Möðrudal. Það er mesta frost sem mælst hefur í byggðum landsins svo seint í apríl og reyndar mesta frost sem mælst hefur í byggð á íslenska sumarmisserinu. Sumardaginn fyrsta 1951 bar upp á 19.apríl.
Undir lok mars bárust fregnir af rýrum jökulvötnum undir Vatnajökli, Tíminn segir frá 29. mars:
Frá fréttaritara Tímans í Öræfum. Bændur í Svínafelli og Skaptafelli í Öræfum fóru í vetur í fyrsta skipti á bifreiðum til þess að sækja rekatré á fjörur fyrir Skeiðarársandi, 2030 kílómetra leið. Ísalög hafa verið með mesta móti í vetur, enda hafa verið frost lengst af síðan um miðjan nóvembermánuð, en slíkt tíðarfar er óvenjulegt í Öræfunum. Snjór er nú óvenjulega mikill, litlir hagar og vegir ófærir. Hin miklu ísalög hafa hins vegar gert kleift að fara á rekafjörurnar fyrir Skeiðarársandi á bifreiðum, og voru tvær slíkar aðdráttarferðir farnar frá Svínafelli og ein frá Skaftafelli.
Og aftur eru svipaðar fréttir í Tímanum þann 21. apríl:
Stórvötnin skaftfellsku þorrin: Jökulsá á Breiðamerkursandi nær ekki lengur að falla til sjávar, Skeiðará eins og lítill bæjarlækur. Oft litlar, en aldrei sem nú. Það er að vísu ekki óvenjulegt, að Skeiðará og Jökulsá verði vatnslitlar um þetta leyti árs, en ekki vita menn dæmi þess, að Jökulsá hafi ekki ævinlega náð að renna í sjó fram, þar til nú. Orsök þessa vatnsleysis eru hinir langvarandi kuldar.
Eftir þetta batnaði tíð talsvert. Veðráttan, tímarit Veðurstofu Íslands segir um maímánuð:
Tíðarfarið var hagstætt, hlýindi og stillur lengst af. Hvergi varð tjón af vatnavöxtum vegna þess hve leysingin varð jöfn. Þó að geysimikla snjóa leysti í mánuðinum á Norður- og Norðausturlandi, voru þar enn skaflar í lautum í mánaðarlok. Tún grænkuðu þar jafnótt og þau komu upp, en um sunnan- og vestanvert landið greri seint vegna klaka í jörðu, og víða urðu þar verulegar kalskemmdir.
Eftir góða og hlýja daga í júníbyrjun kólnaði og mikið hret gerði. Þá snjóaði m.a. niður í Borgarfjörð.
Kortið sýnir þennan kuldalega morgunn, 12. júní 1951. Hríðarveður er í Síðumúla, hiti 1,0 stig og skyggni 400 metrar. Í grein Lauslegt rabb um veðurfar sem birtist í tímaritinu Veðrinu 1959 (s.49) birtir Þórður Kristleifsson þá kennari á Laugarvatni vísu orta þennan dag - eða um hann. Sennilega er vísan eftir föður hans Kristleif Þorsteinsson:
Tólfta júní faldi fönn
fjöllin, dalinn grundir,
gátu' ei fest á grasi tönn
gripir átján stundir.
Sumarið varð annars frægt fyrir íþróttasigra Íslendinga erlendis og hérlendis. Laxveiði þótti óvenjumikil í Borgarfirði.
Sunnudaginn 8. júlí varð mannskætt slys þegar grjóthrun lenti á fólksflutningabifreið í Óshlíð milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Tveir týndu lífi og fleiri slösuðust.
Eftir laklega byrjun gekk heyskapur allvel syðra, en síður á Norðaustur- og Austurlandi. Næturfrost voru til ama snemma í ágúst og þaðan af. Þannig sá á kartöflugrasi í Mosfellsdal þann 8. ágúst og um svipað leyti féll kartöflugras í Skagafirði.
Síðan voru fréttir af þurrkum á Suður- og Vesturlandi:
Tíminn segir þann
Tíminn 9. ágúst:
Í fyrrinótt var frost á sléttlendinu í Mosfellsdal, svo að kartöflugrös héngu slöpp og dauðaleg um morguninn, þar sem ekki er velgja í jörðu. Mosfellsdal mun vera nokkuð hætt við næturfrostum, því að dalurinn lokast að framan, svo að kalda loftið safnast fyrir og nær ekki að streyma fram. Mun frostsins því ekki hafa gætt i brekkum eða þar sem hærra bar, heldur aðeins niðri á jafnlendinu.
Tíminn 17. ágúst:
Það hefir áreiðanlega mikið af fornum jarðvegi fokið af öræfum landsins og sandsvæðum í gær. Mistrið, sem lagði hér vestur yfir var óvenjulega mikið, svo að aðeins grillti í fellin í Mosfellssveit, séð úr Reykjavík, og kembdi mökkinn langt út á Faxaflóa. Norður undan var einnig mikil móða í lofti, en þó ekki eins dimm. Það er ekki smáræði af lífefnum, sem sópast brott og berst á haf út.
Tíminn 24. ágúst:
Esjan flytur vatn til Vestmannaeyja frá Eskifirði og Reykjavík. Vatnsgeymar við fjórða hvert hús þrotnir. En nú hafa úrkomur í Eyjum verið óvenjulega litlar í hálft annað ár, og muna elstu menn ekki svo langvarandi þurrviðri sem þessi misseri.
Tíminn 9. september:
Nú síðustu vikur hefir eldur verið í hálfunnum flagspildum við þjóðveginn á Kjalarnesi. Hefir reyk lagt upp hér og þar um flögin, og í fyrrakvöld, er allhvasst var á Kjalarnesi, kembdi eimyrjuna undan vindinum í myrkrinu, og við og við gusu logar upp úr. Þessi flagbruni er neðan við þjóðveginn i tungunni, þar sem braut liggur niður að Saltvík. Þarna hafa verið grafnir skurðir til þess að þurrka landið og er mikill mór í uppmokstrinum. Eldurinn mun fyrst hafa kviknað i mónum úr uppmokstrinum á skurðbakkanum, en hefir breitt sig út, svo að nú er eimyrja í stórum spildum, þar sem búið var að tæta landið að nokkru leyti. Jörð öll er nú óvenjulega þurr eftir hina langvinnu þurrka, að læsa sig um svörðinn og grafa um sig í mó og reiðingstorfi, sem er undir efsta jarðlaginu.
Tíminn 9. október:
Útlendingar. sem komu á Þingvöll síðari hluta sumars, og ætluðu að skoða Öxarárfoss, þóttust illa sviknir. Öxará var þá orðin nauðalítil vegna langvarandi þurrka, og fossinn, sem þeir höfðu séð svo bústinn og virðulegan á myndum, var ekki annað en seytla, sem hripaði niður svart bergið.
Annað var eystra - þar héldu úrkomur áfram að valda vandræðum:
Tíminn 7.september:
Undanfarnar þrjár til fjórar vikur má heita, að verið hafi stanslausir óþurrkar og oftast illviðri og stórrigningar á Norður- og Austurlandi, en þó einna verst á norðausturhorni landsins. Er nú svo komið, að hin miklu hey, sem úti eru, mestur hluti engjaheyskapar þessara héraða eru orðin stórskemmd, og bregði ekki til þurrka næstu daga eru líkur til, að heyfengurinn verði rýr og sums staðar verði að koma til bústofnsminnkunar.
Tíminn 8. september:
Í gærmorgun var svell á tjörnum Austanlands. Á Reyðarfirði var frostið eftir nóttina, það mikið að rúðuglersþykkt svell var á lygnum tjörnum. en á Grímsstöðum á Fjöllum var svellið 5 millimetra þykkt.
Frá fréttaritara Tímans í Borgarfirði eystra. Í fyrradag var hér geysileg úrkoma fyrst með slyddu og jafnvel snjókomu. Er hvítt niður undir byggð og frost var i gærmorgun. Geysilegur vöxtur hefir hlaupið í Fjarðará eins og önnur vatnsföll hér um slóðir. Í gær hafði áin grafið brott þriggja metra háa uppfyllingu við syðri brúarstöpulinn og undan honum, svo að hann er siginn nokkuð og sprungur komnar í þilju brúarinnar. Beljar áin nú á stöplinum og sunnan við hann og er talin hætta á að hann fari alveg. Umferð er að sjálfsögðu alveg teppt.
Tíminn 9. september:
Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Nú upp á síðkastið hafa verið hér miklar rigningar og vatnavextir, svo að skemmdir hafa orðið á heyjum. Síðustu þrjár vikur hefir ekki verið hægt að ná heyi á Fljótsdalshéraði, svo að mikið var orðið úti, og í vatnavöxtunum sem gerði, flaut upp mikið hey á engjum í Hjaltastaðarþinghá.
Þann 10. október varð talsvert tjón í illviðri víða um land. En annars var í október lengst af hagstæð tíð á Norður- og Austurlandi og hirtust þá loks hey, en umhleypingasamt var og gæftir stirðar á Suður- og Vesturlandi.
Tíð var hagstæð um land allt í nóvember, en heldur stirt og illviðrasamt var í desember. Þá voru bæði samgönguerfiðleikar og gæftir tregar. Ekki varð þó um stórfellt tjón að ræða.
Tíminn 6.desember:
Þann 4. desember var ofsarok og hríð af norðri um sunnanvert Snæfellsness, eins og víðar. 26 manna áætlunarbifreið var á leið úr Reykjavik til Stykkishólms, og var veðrið svo mikið, að hún tókst á loft og kastaðist út af veginum.(Tíminn 6. desember) Í sama veðri hrakti 28 kindur í Laxá á Ásum og fórust þær þar (Tíminn 12. desember).
Í Tímanum þann 12. desember segir af illviðri í Borgarnesi. Ritstjóri hungurdiska man úr æsku eftir þjóðsagnakenndum frásögnum af samkomu þeirri sem minnst er á í fréttinni.
Einkafrétt Tímans frá Borgarnesi. f fyrrakvöld gerði hér um Borgarfjörð aftakaveður af suðaustri, og var veðurhæðin mest milli krukkan sjö og tíu um kvöldið. Reif hluta af þaki tveggja húsa í Borgarnesi Templarahúsinu, sem áður var barnaskóli, og sláturhúsi verzlunarfélagsins Borg. Templarar höfðu samkomu í húsi sínu þetta kvöld, og var verið að spila þar framsóknarvist, er járnið byrjaði að fjúka af þakinu. Litlu síðar slokknuðu ljósin, því að járnplöturnar slitu loftlínur rafmagnsveitunnar. Fólki var bannað að fara úr samkomuhúsinu, meðan á þessu stóð, sökum hættu, sem stafaði af járnplötunum. Járnplöturnar af húsunum tveimur fuku eins og skæðadrífa um bæinn, og urðu allmörg hús ljóslaus sökum slita á rafmagnslinunum. Í nokkrum húsum brotnuðu einnig rúður, því að bæði skóf á glugga steina af götunum og járnplötur og annað lauslegt fauk á þá. Var veður þetta með þeim hörðustu, er koma í Borgarfirði, og rigning mikil.
Önnur frétt af vandræðum í Borgarnesi birtist í Tímanum 21. desember:
Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Í fyrradag munaði minnstu að flutningaskip strandaði við Brákarey við Borgarnes. Var það að koma þangað með timbur og ætlaði að leggjast að bryggju snemma morguns, en landtaugin slitnaði og skipið rak að klettum Brákareyjar hinnar minni.
Vandræði urðu í Hvalfirði daginn eftir Tíminn segir frá 22. desember:
Í fyrrakvöld og fyrrinótt var ofsarok af austri í Hvalfirði, og slitnaði þá upp annar af tveimur hvalveiðibátum sem voru í vetrarlægi undan Miðsandi á Hvalfjarðarströnd. Var þetta Hvalur II. Rak bátinn á grunn við Lækjarós hjá Kalastöðum. Undir áramót voru enn og aftur samgöngutruflanir sunnanlands vegna snjóa.
Í viðhenginu eru ýmsar tölur og fleiri upplýsingar. Í Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands má finna ítarlegar veðurlýsingar 1951.
16.4.2022 | 14:17
Fyrri hluti apríl
Fremur kalt var fyrstu daga mánaðarins, en síðan hefur smám saman hlýnað. Meðalhiti það sem af er er nú +3,2 stig í Reykjavík, +0,3 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og í meðallagi síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 12. hlýjasta sæti (af 22) á öldinni. Hlýjastur var fyrri hluti apríl árið 2003, meðalhiti þá 5,1 stig, en kaldastur var hann 2006, meðalhiti +0,4 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 44. sæti (af 150). Hlýjastir voru sömu dagar 1929, meðalhiti þá 6,6 stig, en kaldast var 1876, meðalhiti -4,1 stig.
Á Akureyri er meðalhiti dagana 15 +1,4 stig, -0,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, og einnig -0,2 stig neðan meðallags síðustu 10 ára.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðurlandi, hiti raðast þar í 11. hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast hefur verið á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Þar raðast hitinn í 15. sæti.
Á Sámsstöðum er hiti +0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, en neikvætt vik er mest á Dalatanga, Kambanesi og Vatnsskarði eystra, -1,2 stig.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 53,6 mm, rúm 50 prósent ofan meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 12,7 mm og er það um 70 prósent meðalúrkomu.
Sólskinsstundir hafa mælst 73,6 í Reykjavík, og er það í meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 39,9, 17 færri en í meðalári.
13.4.2022 | 19:52
Um óvenjulegt úrkomumagn í Reykjavík
Eins og fram kom í yfirliti Veðurstofunnar um mánaðamótin síðustu (mars/apríl) var veturinn (desember til mars) sá úrkomusamasti frá upphafi mælinga í Reykjavík. Eins var með fyrstu þrjá mánuði ársins. Aðalkeppnin stóð við sama tíma árið 1921 en þá var úrkomumagn í Reykjavík líka með nokkrum ólíkindum. Síðasta vikan hefur verið þurr í Reykjavík og nægði það hlé til þess að úrkomumagn frá áramótum 1921 fór fram úr því sem nú hefur mælst á sama tíma (515 mm á móti 525), munar um 10 mm. Nokkuð langt er niður í næstu tölu (463 mm sömu daga árið 1925).
Árið 1951 er þurrasta ár mælisögunnar í Reykjavík (um það verður vonandi fjallað fljótlega hér á hungurdiskum). Úrkoman allt árið mældist ekki nema 560,3 mm. Næstþurrast var 2010, en þá mældist ársúrkoman 592,3 mm. Við sjáum af þessum tölum að ekki vantar mikið upp á (um 45 mm) að úrkoman á þessu ári nái ársúrkomunni 1951. Forvitnir vilja þá auðvitað vita hvaða almanaksdag úrkoma hefur fyrst náð því marki.
Ritstjóri hungurdiska leitaði það uppi og fann að það var 23. apríl 1921 að úrkoma þess árs fór fram úr heildarúrkomu þurrasta ársins. Árið 1921 er reyndar í nokkrum sérflokki í úrkomuákefð á þessum mælikvarða, því næst í hraða er árið 1989, en þá varð 560,3 mm ekki náð fyrr en 26. maí. Það er raunar mjög snemmt - en miðað við 1921 virðist það seint. Aðeins þrjú ár (1925, 1991 og 2018) bætast við í júní (að ná heildarúrkomu þurrasta ársins) og í júlílok eru þau ár sem náð hafa þessu marki orðin 16 (af 123 sem við höfum fullnægjandi upplýsingar um).
Myndin sýnir uppsafnaða úrkomu í Reykjavík eftir því sem á árið líður. Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins en sá lóðrétti úrkomuna. Myndin skýrist sé hún stækkuð, en enn skýrara eintak fylgir í viðhengi. Árið í ár (2022) er blámerkt - sá ferill endar auðvitað í dag (13. apríl). Úrkoma ársins 1921 hefur aftur náð yfirhöndinni eftir að hafa verið undir frá 20. mars til 9. apríl. Heildarúrkoma þurrasta ársins (1951) er merkt með gulbrúnni strikalínu þvert yfir myndina og meðalúrkoma 1991 til 2020 með punktalínu nokkru ofar. Ör bendir á hina gríðarmiklu úrkomu 17. og 18. nóvember 2018, en þá féllu 83,2 mm á tveimur sólarhringum - stórt þrep í ferlinum.
Við erum sem stendur í þeirri stöðu að eiga fræðilegan möguleika á að slá hraðamet ársins 1921 nú, eins og áður sagði vantar um 45 mm, og dagarnir sem eru til reiðu eru 9 (10 dagar til jöfnunar). Miðað við veðurspár í dag (13. apríl) virðist heldur ólíklegt að þetta náist, en kannski er annað sætið í höfn (að vísu ekki ef það styttir rækilega upp og næstu fjórar vikur verða næstum þurrar).
Í framhaldi af þessu er eðlilegt að spyrja um önnur mörk. Hvaða ár var fyrst til þess að ná ársmeðalúrkomu 1991 til 2020 (875,8 mm)? Athugun sýnir það vera árið 1925 (sjá myndina að ofan). Þá hafði meðalúrkoma heils árs fallið frá áramótum til 24. september. Árið 1921 kom aðeins fáeinum dögum á eftir, 29. september, 1887 er í þriðja sæti, 2. október og 1989 í því fjórða 5. október. Úrkomumagnið 1925 hafði farið fram úr 1921 þann 13. september og hélt forystunni til 15. október. Á myndinni má sjá að 2018 fylgdi úrkomumestu árunum til að byrja með, en fór síðan að dragast aftur úr í apríl, en bætti það síðan upp með mikilli úrkomu framan af sumri - ferillinn er þá talsvert brattari heldur en hinir ferlarnir og komst að lokum í flokk fáeinna ára með úrkomu meiri en 1000 mm í Reykjavík. Náði þó ekki 2007 sem enn er úrkomumesta ár aldarinnar.
Það er 1921 sem er síðan úrkomumesta ár sem við vitum um í Reykjavík - hreinsaði af sér alla keppinauta og fór í 1291,1 mm. Mjög mikið rigndi síðari hluta árs árið 2007, nægilega mikið til að koma því ári í annað sæti, 1125,4 mm, en samt langt á eftir 1921.
Við vitum auðvitað ekki neitt um framhaldið nú. Veðurnörd geta setið í nokkurri spennu næstu daga og fylgst með því hvort metið frá 1921 verður slegið - en samkeppnin við það ár og önnur ellefuhundruðmillimetra ár verður hörð - þau eru örfá. Rými er þó gott fyrir met. Væri úrkomumet slegið í hverjum mánuði ársins í Reykjavík yrði ársúrkoman 2155 mm (ekki líklegt að slíkt ár birtist nokkru sinni - en auðvitað hugsanlegt). Verði þurrkmet slegið í hverjum mánuði yrði ársúrkoman ekki nema 113 mm. Hætt er við að veruleg vandræði sköpuðust.
Vissulega munu bæði ársúrkomumetin (það þurra og vota) falla í framtíðinni, en við vitum ekki hvenær.
11.4.2022 | 13:15
Fyrstu 10 dagar aprílmánaðar
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 12
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2459
- Frá upphafi: 2434569
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2184
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010