Vetri lokið

Nú er vetrinum lokið samkvæmt hinu forna íslenska misseristímatali. Sumar hefst með sumardeginum fyrsta. Nýliðinn vetur var umhleypingasamur og þótti nokkuð erfiður. Sennilega viðraði einna best um landið austanvert, en suðvestanlands og víða á Suður- og Vesturlandi var sérlega úrkomu- og illviðrasamt. Illviðrin náðu hámarki í janúar, febrúar og fram í miðjan mars, en síðan þá hefur veður verið mun skárra og sumir tala um góða tíð. Sem stendur lítur nokkuð vel út með gróður, þar sem hann á annað borð er farinn að taka við sér. 

Úrkomumagnið í Reykjavík er eftirminnilegt. Myndin hér að neðan sýnir úrkomumagn hvers vetrar í Reykjavík eins langt aftur og mælingar ná.

w-blogg210422a

Lárétti ásinn sýnir ártöl aftur til mælinga 19. aldar. Úrkoma var ekki mæld á árunum 1908 til 1919. Lóðrétti ásinn sýnir magnið í mm. Veturinn nú er hér í þriðja sæti, nokkuð langt ofan við allt síðan á þriðja áratug síðustu aldar. Þær mælingar voru gerðar í porti við Skólavörðustíg - og ekki útilokað að í hvassviðrum hafi regn skafið af húsþökum niður í mælinn í húsagarðinum á bakvið skrifstofur Veðurstofunnar. En alla vega sker veturinn í vetur sig úr því sem verið hefur síðan. Veturinn í fyrra (2020-21) var hins vegar nokkuð þurr miðað við það sem algengast hefur verið undanfarin ár. Þurrast var veturinn 1976-77. 

w-blogg210422b

Minni tíðindi eru af hitanum. Vetrarhitinn í Reykjavík (bláar súlur) var mjög nærri meðaltali þessarar aldar (sem er er nokkuð hátt miðað við lengri tíma). Landsmeðalhiti var um -0,3 stigum neðan aldarmeðaltalsins. Síðustu 70 árin voru veturnir 1963-64 og 2002-03 þeir langhlýjustu í Reykjavík (og á landsvísu), en kaldastir voru 1950-51 og 1978-79. 

Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars með von um að það reynist hagstætt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þakka þér með óskum um: Gleðilegt sumar.

Helga Kristjánsdóttir, 22.4.2022 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 356
  • Sl. sólarhring: 357
  • Sl. viku: 1930
  • Frá upphafi: 2350557

Annað

  • Innlit í dag: 273
  • Innlit sl. viku: 1722
  • Gestir í dag: 259
  • IP-tölur í dag: 257

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband