Bloggfærslur mánaðarins, mars 2022

Vetrarmeðalhiti í byggðum landsins

Veðurstofa Íslands skilgreinir veturinn sem fjóra mánuði, desember, janúar, febrúar og mars. Í flestum löndum norðurhvels telst mars hins vegar til vorsins. Það þykir ekki eiga við hér á landi þar sem mars er kaldasti mánuður ársins um það bil sjötta hvert ár að meðaltali litlu sjaldnar en desember sem er kaldastur um það bil fimmta hvert ár (að meðaltali). 

Mars er þó ólíkur hinum vetrarmánuðunum að því leyti að sól er hærra á lofti og áhrifa hennar á hitafar og náttúru gætir meir en í fyrri mánuðum. Sé vel að gáð sjást gjarnan fyrstu merki vorsins í bæði dýralífi og gróðri. Þrálátar klakabreiður vetrarins fara oft að losna í sundur. Við höfum hér á hungurdiskum oft fjallað um vorkomuna og farið í gegnum alls konar skilgreiningar á henni. 

Veturinn sem er að líða hefur verið heldur illviðrasamur. Sérstaklega kaflinn frá áramótum fram yfir miðjan mars. Hvert illviðrið á fætur öðru gekk yfir landið með samgöngutruflunum og foktjóni. Erfiðleikar voru líka til sjávarins, gæftir slæmar og sjór úfinn. Desember var hins vegar hægviðrasamur og tíminn frá miðjum mars hefur í raun verið hagstæður líka. 

Úrkoma hefur verið mjög mikil, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Svo virðist sem þetta verði úrkomusamasti vetur sem vitað er um í Reykjavík. Þegar þetta er skrifað (30. mars) hefur vetrarúrkoman mælst 558 mm, um 15 mm meiri en veturinn 1920 til 1921, en hann kemur í öðru sæti. Þá var mælt við Skólavörðustíg. Að vísu mældi Jón Þorsteinsson landlæknir heldur meiri úrkomu veturna 1829 til 1830 (579 mm í Nesi við Seltjörn) og 1841 til 1842 (594 mm við þar sem síðar var Ránargata í Reykjavík). Þessar fornu mælingar eru trúverðugar, ekki síst vegna þess að mjög þurrt var líka aðra vetur á þessum tíma. En mælitækin voru önnur og samanburður ekki alveg fullnægjandi. Samanburðartilraunir hafa ekki verið gerðar. 

Við lítum nú á hitafar á landsvísu og berum saman við fyrri ár. Veðurstofan mun gera upp vetrarhita einstakra veðurstöðva í pistli sínum. 

w-blogg300322a

Við reynum að reikna vetrarhita í byggðum landsins aftur til 1824. Tölur eru mjög óvissar fram yfir 1870, en batnandi úr því. Lesendur hungurdiska ættu að vera orðnir kunnugir megindráttum hitafars á þessum tíma. Veturinn hefur hlýnað um meir en 2 stig (og munar um minna). Síðasta þrep upp á við varð um aldamótin síðustu og hefur vetrarhiti haldist svipaður síðan þá og breytileiki milli ára verið furðulítill, talsvert minni en hann var á hlýskeiðinu um og fyrir miðja 20. öld. Þetta þýðir að hiti nú er hærri en þá, þrátt fyrir að mjög hlýir vetur séu ekki fleiri. 

Ótrúlegt er að þessi breytileikabæling sé varanleg. Við gætum fengið kaldan vetur í fangið - þrátt fyrir hlýnandi veðurlag, rétt eins og veturinn 1950-51 var nærri því eins kaldur og köldustu vetur kuldaskeiðsins eftir 1965. Var þó tuttugustualdarhlýskeiðið í fullum gangi. 

Við skulum líka taka eftir því að meðalhiti vetrarins í vetur, -0,2 stig, er hærri heldur en allra nema 6 vetra á árunum 1965 og fram yfir aldamót og á hlýskeiðinu 1925 til 1964 hefði hann líka talist hlýr, þó hann hefði vissulega ekki verið í hópi þeirra allrahlýjustu þá.  


Hugsað til ársins 1971

Árið 1971 þótti yfirleitt hagstætt. Ritstjóra hungurdiska þykir það eiginlega nýliðið - en hrekkur nokkuð við þegar hann áttar sig á því að þetta ár var jafnlagt aftur til 1920 og til nútímans. Fáeinna atburða ársins hefur verið getið nokkuð ítarlega hér á hungurdiskum og verður það ekki endurtekið hér. [Pistill þar sem dagar í febrúar 1971 koma við sögu og annar þar sem fjallað er um óvenjulega „hitabylgju“ í nóvember - fleira hefur líka sýnt sig hér - í framhjáhlaupi].

Í janúar var frosthart með köflum, en snjólétt og yfirleitt hæglátt. Kalt. Í febrúar var mjög umhleypingasöm tíð - en þótti samt hagstæð víðast hvar. Í mars þótti tíð einnig hagstæð. Apríl var einnig hagstæður - einkum sunnanlands. Þó gerði eitt afgerandi illviðri. Við lítum nánar á það hér að neðan. Svipað var með maí. Tíð var hagstæð um land allt, fyrir utan stutt hret undir lok mánaðarins - við lítum á það líka. Júní var með afbrigðum þurrviðrasamur um mestallt land, svo háði gróðri. Mjög minnisstæður mánuður. Júlí var (í minningunni) sérlega góður. Heldur háar úrkomutölur komu ritstjóra hungurdiska á óvart - en einhvern veginn úrkoma mánaðarins aðallega á vinnutíma í miðri viku. Ágúst var einnig hagstæður, nema hvað mikið illvirði gerði undir lok mánaðar - þess gætti þó mest norðaustan- og austanlands. Við lítum nánar á það hér að neðan. Í september var votviðrasamt og í október var óstöðugt veðurlag. Nóvember þótti hagstæður eystra, en var heldur síðri vestanlands. Desember þótti einnig hagstæður eystra, en var í snjóasamara lagi suðvestanlands.

Talsverður hafís var við Norðurland, þó minni en verið hafði árin á undan og óhagstæðra áhrifa hans gætti ekki eins mikið. Þetta reyndist síðasta ísárið í syrpunni sem staðið hafði frá 1965 og kom það mjög á óvart að svo skyldi verða. Útlitið í norðurhöfum var slæmt haustið 1971 og virtist stefna í enn eitt ísárið - en svo varð ekki. Nær enginn ís kom 1972. Hann lét svo sjá sig í talsverðu magni 1979, en síðan eiginlega ekki söguna meir - fyrir utan fáeinna daga hrafl nokkrum sinnum, síðast 2005.

Eins og áður sagði var janúar kaldur - alveg í stíl ríkjandi kuldaskeiðs og hafísa - en veðrið var samt ekki vont. Það var snjólítið - sérstaklega á Suður- og Vesturlandi og lengst af fór vel með veður (ekki þó alveg tjónlaust). Fáeinir dagar skáru sig þó úr fyrir kulda sakir. Fyrst í kringum þann 20. og síðan aftur undir lok mánaðarins. 

Lágmarkshitinn í Reykjavík að morgni þess 30. janúar var -19,7 stig. Þetta var lægsti lágmarkshiti sem mælst hafði í bænum síðan 1918 - og hiti í Reykjavík hefur ekki farið svona neðarlega aftur síðan. Sólarhringsmeðalhitinn í Reykjavík þann 29. var sá lægsti síðan 1919 og sá lægsti í janúar frá 1918. Kuldinn varð afbrigðilegastur suðvestanlands, fór í -25,7 stig á Hólmi (rétt ofan Reykjavíkur) og -26,1 stig á Þingvöllum. Frostið fór í -30,3 stig í Reykjahlíð við Mývatn, en það er ekki alveg jafn óalgengt og -19 stig í Reykjavík. Meðallágmarkshiti á landinu að morgni þess 30. var -18,1 stig, það lægsta sem við vitum um í janúar (þau gögn ná aftur til 1949, við vitum um eina lægri tölu í febrúar og apríl og tvær í mars). 

Slide12 

Kortið sýnir athugun kl.9 að morgni þess 30.janúar. Við megum taka eftir því að snjókoma og 400 metra skyggni er í éljabakka á Stórhöfða í Vestmannaeyjum - boðaði mikla breytingu á veðurlagi. Febrúar var mun órólegri. 

Í Tímanum 30.janúar 1971 er nokkuð skondin frétt. Athugum að hún er skrifuð þann 29., daginn fyrir köldustu nóttin. Ritstjóri hungurdiska á reyndar bágt með að trúa því að nákvæmlega sé vitnað í veðurfræðinginn - en látum þetta samt standa. Spádeild Veðurstofunnar - og hitamælingar voru þarna á Reykjavíkurflugvelli. 

Kaldasti dagur vetrarins reyndist vera i dag hér í Reykjavík, en þá mældist 15 stiga frost í tveggja metra hæð á hitamæli Veðurstofunnar á Reykjavíkurflugvelli. Ekki er þó ótrúlegt, að frostið hafi verið töluvert miklu meira til dæmis í Breiðholti og Árbæjarhverfi, enda er oftast nokkurra stiga munur á hitanum í þessum úthverfum og á Reykjavíkurflugvelli. Veðurfræðingur á Veðurstofunni sagði, að ekki hefði komið til tals að hafa fleiri mæla en flugvallarmælinn hér í Reykjavík til þess að gefa upp hitastigið á, þar sem þá yrði ekki lengur hægt að tala um neinn einn Reykjavíkurhita eða kulda. Til gamans sagði hann okkur að á efstu hæð flugturnsins á vellinum væri hita mælir, og á honum var aðeins 10 stiga frost.

Margskonar atburðir urðu í febrúar - verða þeir ekki raktir hér (sjá atburðaskrána neðarlega í viðhenginu). Þó verður að nefna að þann 14. féll snjóflóð á húsið Hlíðarveg 1d á Siglufirði og hálffyllti það af snjó. Mannbjörg varð. Síðar í sömu hrinu drápu snjóflóð 75 kindur í fjárhúsum sunnar í fjallinu og sumarbústaður eyðilagðist. Að kvöldi 28. febrúar og aðfaranótt 1. mars gerði gríðarhart landsynningsveður. Tjón varð á gróðurhúsum í Reykholtsdal, bátar fengu á sig brotsjói við Eyjar og Þrír bílar fuku út af veginum yfir Holtavörðuheiði. Hlöður og hesthús skemmdust á Leirubakka á Landi. 

Einnig urðu alvarleg snjóflóð í mars. Þann 22. fórust tveir menn í snjóflóði á Skipadal við Hrafnseyrarheiði. Snjóflóð féll á bæjarhúsin í Munaðarnesi við Ingólfsfjörð og braut niður vélageymslu, annað flóð tók þar 8 símastaura í sjó fram. Flóð féll svo þann 24. í Hamragili sópaði með sér kofa og skíðalyftu við skíðaskála.

Um miðjan apríl virtist vorkoman í fullum gangi, en þá varð nokkurra daga bakslag. Eftirminnilegt fyrir sjóslys sem þá varð auk mikillar breytingar á veðri. Veðurspáin sem var lesin í útvarp að morgni þess 16. minnir okkur óþyrmilega á það hversu skammt veðurspár náðu á þessum tíma - þar gætir varla gruns um það hversu illt þetta veður varð og það aðeins hálfum sólarhring síðar. Lægðin var að vísu fundin og ljóst að hún færi til austurs. Þessu lík var staða veðurspámála einnig 8 árum síðar þegar ritstjóri hungurdiska fór að reyna við spár hjá Veðurstofunni. 

Spá 16.apríl 1971 kl. 10:10:

Grunn lægð á Grænlandshafi mun hreyfast austsuðaustur. Suðvesturland til Vestfjarða, Suðvesturmið til Vestfjarðamiða: Sunnan gola eða kaldi og þykknar upp í dag. Sums staðar snjómugga eða rigning síðdegis, léttir síðan til með norðaustankalda. 

En klukkan 16:15 höfðu vaktmenn áttað sig og farið var að spá hvassviðri af norðaustri og kl.22:15 kom inn stormviðvörun fyrir Vestfjarðamið og kl.04:30 (spá gerð á Keflavíkurflugvelli) var spáð stormi um land allt (enda veðrið skollið á). 

Slide1

Staðan sést mjög vel á endurgreiningu japönsku veðurstofunnar. Þetta er 500 hPa-hæðar og þykktarkort sem gildir kl.18 föstudaginn 16. apríl 1971. Hér hafa spámenn áttað sig vel á alvöru málsins. Öflugt, kalt lægðardrag er að koma suðaustur yfir Grænland og um leið og það far hjá skellur köld gusa af miklu afli suður yfir landið - auk þess sem lægð grefur um sig og dýpkar ört. 

Slide2

Um hádegi daginn eftir er lægðin við Suðausturland. Hvöss vestanátt (sem menn voru nánast alveg grunlausir um) er sunnan hennar náði að umturna sjó áður en norðanáttin skall svo á á móti. Þessar aðstæður áttu stóran þátt í alvarlegu (en samt tilviljanakenndu) slysi austur við Hornafjarðarós. 

Morgunblaðið segir frá þessu daginn eftir, 18. apríl 1971:

Hörmulegt slys varð á Hornafirði rétt fyrir hádegi í gær, er Sigurfara SF 58 hvolfdi á innsiglingunni í höfnina — í þann mund er hann var á leið inn í Ósinn. Tíu eða ellefu manns voru á bátnum og samkvæmt þeim upplýsingum, er Mbl. hafði um nónbil, höfðu tveir menn bjargazt um borð í Gissur hvíta og gúmbátur hafði sézt á hvolfi. Fjöldi manns sá er slysið varð og fékk ekkert að gert.

Í gærmorgun var aftakaveður við Höfn á austan, en vindur snerist er leið á daginn og var orðinn á vestan um hádegisbil. Slysið varð um kl. 11.30 og voru bátarnir þá að koma inn einn af öðrum vegna veðurs. Aðfall var og straumur mikill í innsiglingunni — getur hann þá er hann er harðastur orðið allt að 9 mílur. Slysið sáu menn í landi, svo og menn um borð í bátum, sem voru fyrir utan ósinn.

Slide3

Kortið gildir kl.18 þann 17.apríl. Vonskuveður er um mestallt land. Enn ekki stytt upp á Suðurlandi, skyggni innan við 100 metrar í skafhríð á Hæli í Gnúpverjahreppi - en hægviðri komið á Þingvöllum. Ritstjóri hungurdiska var staddur á Laugarvatni. Þar voru í heimsókn sjónvarpsmenn undir forystu Magnúsar Bjarnfreðssonar og áttu í ákveðnum myndrænum vandræðum með veðrabrigðin. Verið var að gera mynd um skólasetrið - kannski sést eitthvað af veðrinu í henni (minnið ekki alveg nógu gott til að fullyrða um það). En snjórinn var alla vega nægilegur til að bílar áttu í vandræðum - mikil viðbrigði frá ljúfu vori dagsins áður. 

Í næstu viku á eftir var eftirminnilegur dagur, miðvikudagurinn 21. apríl þegar handrit Flateyjarbókar og Konungsbókar Eddukvæða komu til landsins og voru formlega afhent. Þá var bjart og fagurt veður, síðasti vetrardagur. Daginn eftir, á sumardaginn fyrsta gerði hins vegar talsverða hríð um landið sunnanvert - einnig eftirminnilegt. Hríðin sú stóð þó ekki lengi og vorið hélt framsókn sinni áfram. 

Annað óvænt norðanskot gerði síðan í lok maí. Andvökunótt hjá ritstjóranum á Laugarvatni - vindgnauð mikið - en líka einhver aukahávaði í húsinu - reyndist um morguninn vera bárujárnsplata sem losnað hafði af þakinu en ekki fokið burt. Ekki hríð en ofsafengin norðanátt víða um Suðurland - hríð á Vestfjörðum og sums staðar nyrðra.

Slide4

Þessi lægð tengdist einnig lægðardragi sem kom úr norðvestri yfir Grænland 25. maí og sneri upp á sig yfir landinu og norðanstrengur gekk yfir landið. Ólíkur aprílveðrinu að því leyti að aðstæður gáfu tilefni til bylgjuhreyfingar yfir og undan fjöllum. Þykktin í greiningu japönsku veðurstofunnar er minni en 5280 metrar - en við hana eru þumalputtamörk rigningar og snjókomu á landi. Kortið gildir kl. 6 að morgni 26. maí.

Slide5

Sjávarmálskortið sýnir krappa lægð skammt fyrir suðaustan land. Ekki af fullum vetrarstyrk, en hún var samt fljót að dýpka. Ekki gekk sérlega vel að spá þessu veðri:

Spá lesin í útvarp kl.22:15:

Faxaflói til Vestfjarða, Faxaflóamið til Vestfjarðamiða: Norðan eða norðvestan stinningskaldi og stöku él í nótt, en úrkomulaust á morgun. 

Um nóttina kl.04:30 var fyrst minnst á storm: „Gert er ráð fyrir stormi víða á spásvæðunum“, en veðrið hafði þá þegar nærri því náð hámarki. 

Slide6

Kortið sýnir stöðuna um hádegið. Hiti 2,7 stig í Reykjavík. Það er ekki mikið um hádag í maílok. Hiti var um frostmark á Vestfjörðum - og reyndar aðeins neðan þess í hríðarveðri í kringum Húnaflóa. Þótt hafísinn þar væri reyndar bráðnaður fyrir nokkru var sjávarhiti mjög lágur.

Daginn eftir, þann 27. birtist frétt um veðrið í Tímanum - gærkvöldið sem minnst er á er reyndar þriðjudagskvöldið 25 - fréttin - eins og venjulega - skrifuð daginn áður en blaðið kom út. 

Tíminn 27.maí:

Þegar ísfirðingar sátu í gærkvöldi, inni í hlýju stofunum og hlýddu á veðurfræðing skýra frá því í sjónvarpinu, að á Ísafirði væri vindhraðinn kominn upp í 6 stig, var þar skollin á norðaustan stórhríð með allt að 10 stiga vindhraða og á miðunum fyrir utan var vindhraðinn kominn upp í allt að 12 stig. Þannig hélzt veðrið þar vestra í alla nótt og fram á hádegi í dag, en þá birti til og dró úr vindhraðanum. Snjóskaflar voru þá á götum Ísafjarðar og fjallvegir þar um slóðir orðnir ófærir.

Norðanveðrið herjar nú um allt landið, en að sögn Veðurstofunnar í kvöld, hefur það nú náð hámarki. Snjóað hefur í fjöll alls staðar á landinu í nótt og dag og á norðurhluta landsins hefur snjóað niður í byggð. Hvassviðrið hefur valdið tjóni á mannvirkjum, gróðurhúsum fyrir austan fjall og hluti af hlöðum fuku á a.m.k. tveimur býlum á Snæfellsnesi, áttu bændur í erfiðleikum með fé sitt í dag. Í dag var stórhríð í Strandasýslu og fjallvegir þar um slóðir voru orðnir þungfærir í kvöld. Á Norðurlandi varð leiðin um Mánárskriður ófær í dag litlum bílum. Óttazt var í kvöld að Oddskarð yrði ófært í nótt, ef héldi áfram að snjóa í fjöll á Austurlandi. Slydda eða snjóhraglandi hefur verið í allan dag nyrðra. Hvasst var í allan dag um allt land, en vindhraðinn komst þó óvíða yfir 7 stig. Mest frost, eða
5 stig, mældist í nótt á Hveravöllum.

Undir lok hagstæðs sumars gerði óvenjulegt hret seint í ágúst. Þá var ritstjóri hungurdiska reyndar kominn til Noregs og varð að lesa um hretið síðar í blöðum sem þangað bárust seint um síðir - og svo auðvitað líka í Veðráttunni - sem er reyndar aðalheimildarit árapistla ritstjórans frá og með 1925. 

Slide7

Um hádegi þann 25.ágúst var snarpt háloftalægðardrag að grafa um sig við landið og hreyfðist jafnframt austur. Ört dýpkandi lægð var skammt fyrir sunnan land á leið norðaustur. Þetta er ekki mjög ósvipuð staða og sú sem kom upp fyrir septemberfjárskaðaveðrið fræga 2013 - en meir en hálfum mánuði fyrr á ferð og loftið sem kom við sögu því heldur hlýrra.

Slide8

Daginn eftir, þann 26. var mjög djúp lægð skammt austan við land. Með þeim dýpri og krappari sem sjást á þessum árstíma, um 971 hPa í lægðarmiðju. Mikill norðanstrengur lá yfir landið með mikilli úrkomu um landið norðaustanvert. Þó talsvert hvasst væri vestanlands var þar ekki aftakaveður og úrkoma var lítil.

Miklir skaðar urðu í í þessu veðri, einkum norðaustanlands. Rúmlega fjögur þúsund fjár mun hafa farist. Mest fjártjón varð í Vopnafirði. Slydduísing hlóðst á rafmagnsstaura og víða varð rafmagnslaust á Norðausturlandi. Fjallvegir urðu ófærir og ferðamenn lentu í hrakningum. Skriður féllu á vegi á Austurlandi. Snjó festi á sjö veðurstöðvum.

Slide9

Íslandskortið sýnir stöðuna kl.18 þann 26. Þá var hríðarveður á öllum heiðum norðaustanlands, en mikli slydda eða rigning í byggð. Sé litið á lista yfir þrýstispönn á landinu (mismun hæsta og lægsta loftþrýstings á hverjum athugunartíma) kemur í ljós að hann hefur, allt frá 1949 að minnsta kosti verið jafnmikill í ágústmánuði og í þessu veðri, 26,9 hPa á hádegi þann 26. Næst þessari tölu kemst illviðri þann 18. ágúst 1955. Sú lægð var enn dýpri en þessi, en fór vestar og olli ekki hríðarveðri. 

Við grípum niður í pistla í dagblaðinu Tímanum 28. ágúst og er þar fjallað um veðrið.

Óveðrið, sem geisað hefur á Norður- og Austurlandi, er nú heldur í rénun. Samt hafði hann ýft sig upp aftur í Mývatnssveit seinni hluta dags og var kominn éljagangur þar. Í veðrinu, sem geisaði Norðurlands í nótt, slitnuðu rafmagnslínur á mörgum stöðum eins og t.d. í Mývatnssveit, í Skagafirði og á Vaðlaheiði, og var Akureyri rafmagnslaus þegar síðast fréttist. Víða gekk mjög illa að gera við slitnar línur vegna veðurs. Menn í Mývatnssveit óttast líka, að fé hafi fennt. Pétur Jónsson í Reynihlíð sagði, að þetta væri eitthvert versta sumarhret sem komið hefði. Úrkoman frá því í fyrradag hefði mælzt 48 millimetrar og væri það ekkert smáræði. Mest væri það krapasnjór, sem kyngt hefði niður, og hefði hann lagzt þungt á rafmagns- og símalínur. Línur slitnuðu niður og þar sem mýrlent er lögðust staurar á hliðina. Af þessum sökum var hálf Mývatnssveit rafmagnslaus í gær og í nótt. í dag hefur verið hægt að gera við allar bilanir og voru allir bæir komnir með straum seinnihluta
dags. Margir bílar voru við Mývatn í nótt, t.d. dvöldu fulltrúar, sem voru að fara á fund Stéttarsambands bænda á Hornafirði, þar í morgun lagði svo veghefill af stað austur fjöllin og fylgdu bílarnir á eftir. Annar veghefill lagði af stað austur úr Jökuldal og fylgdi bílalest honum eftir. Ferðin yfir öræfin gekk ágætlega, en búast má við að færð versni aftur með kvöldinu, þar sem éljagangur var skollinn á. Að lokum sagði Pétur, að óttazt væri að fé hafi fennt, reyndar hafi ekki fennt í skafla þar í sveit, en uppi til fjalla var miklu kaldara, og á þeim slóðum hélt féð sig, og þar má reikna með að skeflt hafi og fannir  komið.

Þormóður Jónsson á Húsavík sagði, að þar væri leiðindaveður, en ekki hefði það valdið neinu tjóni, svo hann vissi. Gránað hafði í fjöll þar í kring. Um fjallvegi þar um slóðir sagði hann að Vaðlaheiði væri illfær og það sama væri að segja um heiðarnar þar í kring. Ekki er talið að bændur hafi orðið fyrir heytjóni, þar sem þeir voru flestir búnir að hirða. — Síðasta sólarhring hefur verið mjög slæmt veður, sagði Guttormur Óskarsson á Sauðárkróki. — Raflínur hafa víða slitnað og það sama má segja um símalínur. Núna í augnablikinu er t.d. Lýtingsstaðhreppur rafmagnslaus og var ekki byrjað að gera við línur þar, síðast þegar vitað var. Úrkoman hefur verið geysimikil í gær og í nótt, en sem betur fer voru bændur búnir að hirða eða setja í sæti, svo tjón af völdum úrkomunnar er ekki teljandi. — Veðrið hér á Austurlandi er að ganga niður, sagði Jón Kristjánsson á Egilsstöðum. - Núna er búið að ryðja fjallvegi t.d. voru Fjarðarheiði og Oddsskarð rudd í morgun og í dag fór veghefill norður yfir Möðrudalsöræfi. Í óveðrinu, sem hér geisaði, mun tjón ekki hafa orðið núkið, þó er símasambandslaust við Hallormsstað, en á leiðinni þangað féllu tveir staurar um koll. Vonazt er til að hægt verði að gera við það í dag.

Eins og frá var skýrt í blaðinu í gær, var óttazt um tvær danskar konur, sem vinna hjá Orkustofnun. Höfðu þær lagt upp frá Hrafnkelsdal í fyrrakvöld og lent í óveðrinu, sem geisaði á Austur1andi í gær. Seinnihluta dags i gær lagði bíll af stað frá Orkustofnun og tók hann stefnu á Laugarfell, en þangað höfðu konurnar ætlað sér. Sóttist bílnum ferðin seint vegna ófærðar, og brauzt hann áfram í alla nótt og fram á dag. Eftir hádegi í dag fundu mennirnir í bílnum konurnar og voru þær við sæmilegustu heilsu. Var von á þeim niður í Hrafnkelsdal í gærkvöldi. Þá voru tveir íslenzkir jarðfræðingar fastir á jeppa uppi á Fljótsdalsheiði. Létu þeir fyrirberast í jeppanum í allan gærdag og í alla nótt, en þegar veður batnaði í dag, lögðu þeir af stað gangandi niður í Fljótsdal, og voru komnir þangað um kl. 17 í gær. Voru þeir við beztu heilsu, enda vel búnir, og í jeppanum höfðu þeir hitunartæki, þannig að þeim þurfti ekki að verða kalt. Þá er og fólk inni í Krepputungu, Hvannalindum og Grágæsadal. Mun ekkert ama að fólkinu, sem þar er, en það mun bíða þar þangað til. veður lægir, þannig að hægt verði að ryðja veginn þangað inn eftir, eða komast áfram á annan hátt.

Síðasta veðrið sem við fjöllum hér um sérstaklega er allt annars eðlis. Mikill gæðadagur á Suðvesturlandi þann 11. september. Þá mældist hámarkshiti á Mógilsá 21,9 stig. Er það hæsti hiti sem vitað er um á höfuðborgarsvæðinu í septembermánuði. - Met sem e.t.v. liggur vel við höggi nú þegar veðurstöðvum á svæðinu hefur fjölgað svo um munar. 

Hiti fór í 20 stig víðar þennan dag, á Þingvöllum, Jaðri í Hrunamannahreppi, Hæl í Gnúpverjahreppi, Ljósafossi og á Hólmi fyrir ofan Reykjavík. Daginn áður náði hiti 20 stigum á Sámsstöðum. Hiti á Reykjavíkurflugvelli fór í 18,2 stig, sem telst nokkuð gott á þessum tíma árs - en hámarkshiti hefur þó nokkrum sinnum orðið hærri í Reykjavík í september. 

Slide10 

Háloftakortið er dæmigert fyrir hlýindi á Suðvesturlandi. Austanátt færir okkur hlýindi frá Evrópu. 

Slide11

Á sjávarmálskortinu er vindur enn ákveðnari af austri. Að flestu leyti óskastaða undir sumarlok. 

Afgangur ársins varð ekki tíðindalaus í veðri. Geta má óvenjuhárrar sjávarstöðu við suðvesturströndina þann 5. október, þegar allkröpp lægð fór hratt til norðurs skammt fyrir vestan land í stórstreymi. Minniháttar tjón varð á Eyrarbakka og í Grindavík. 

Í nóvember mynduðust klakastíflur í Jökulsá á Fjöllum og í Hörgá og urðu talsverðar vegaskemmdir þegar árnar ruddu sig. Talsvert var um umferðartruflanir vegna snjókomu og hríðarveðra í nóvember og desember, m.a. í Reykjavík. Sumir muna e.t.v. bylinn sem gerði um miðjan aðfangadag þetta ár, en stóð þó ekki mjög lengi. 

Í viðhenginu má finna ýmsar tölulegar upplýsingar frá árinu 1971 og þar er getið fleiri atburða.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Alauðaskeiðið í Reykjavík

Minnst var á það í pistli hér á hungurdiskum nýlega að árið 1926 hefðu aðeins 122 dagar liðið frá því að síðast varð alhvítt að vori í Reykjavík þar til að fyrst varð alhvítt að hausti. Snjóhula hefur verið athuguð í Reykjavík frá því seint í janúar 1921 til þessa daga. Athuganir þessar hafa verið tölvuskráðar þannig að auðvelt er að draga út upplýsingar sem þessar. Villur af ýmsum toga gætu þó hæglega leynst í gagnaröðinni - en vonandi hreinsast hún við notkun. 

Það verður einnig að hafa í huga að athuganirnar hafa ekki verið gerðar á sama stað í bænum allan tímann og að auki kann að vera misjafnt hvernig snjóhulan hefur verið metin. Hún hefur þó allan tímann verið athuguð einu sinni á dag, að morgni kl.9 (eftir núverandi klukku). Stöku sinnum gerist það að alhvítt verður um stund að nóttu - en hefur tekið upp kl.9. Einnig eru dæmi þess að alhvítt hafi orðið um stund um miðjan dag - en tekið fljótt upp aftur. 

Þannig var t.d. um snjóinn sem féll aðfaranótt 10.júní 1986. Alhvítt varð um stund við Veðurstofuna, en allur snjór var horfinn kl.9. Ekki er ómögulegt að hefði úrkomuákefðin verið mest um níuleytið að þá hefði verið alhvítt um það leyti - en það hitti ekki í. 

Í maí 1979 varð síðast (formlega) alhvítt í Reykjavík þann 16., en síðan ekki fyrr en 10. nóvember. Ritstjóri hungurdiska man þó vel að þegar hann kom á vakt kl.7 að morgni þess 14. september var snjókoma - og gerði alhvítt um stund á Veðurstofutúni. En sá snjór var bráðnaður kl.9. Tilvikið frá 1926 virðist hafa hitt aðeins betur í - en sá snjór stóð heldur ekki lengi við. Síðan varð ekki alhvítt um haustið 1979 fyrr en 10. nóvember - meti naumlega forðað. 

Þannig er ábyggilega með mörg fleiri ár að litlu hefur munað - af eða á. 

w-blogg230322-alautt-rvk

Myndin sýnir fjölda daga milli þess að síðast er alhvítt að vori og fyrst alhvítt að hausti í Reykjavík. Tilvikið 1926 sker sig nokkuð úr, en tveimur árum áður var alauða tímabilið einnig mjög stutt, síðast alhvítt 29.apríl og svo aftur alhvítt 28. september. Það vottar fyrir tímabilaskiptum á myndinni, tíminn fyrir 1927 sker sig úr (en það eru örfá ár) og síðan var tímalengdin aftur undir meðaltali nærri því samfellt frá 1977 til 1994. Þetta var reyndar kalt skeið í Reykjavík. 

Lengst varð alauðaskeiðið árið 1965. Þá varð ekki alhvítt í Reykjavík frá 21. janúar til 23. nóvember eða í 305 daga. Sker sig úr öllum öðrum árum. Þó ritstjóri hungurdiska byggi ekki í Reykjavík árið 1965 getur hann staðfest að þetta gæti alveg staðist. Það snjóaði eitthvað meira uppi í Borgarfirði - febrúar var fádæma hlýr, mars var aftur á móti aðallega kaldur, þá voru í Borgarfirði einhverjir stakir dagar alhvítir - og jafnvel í apríl, en október var aftur á móti sérlega hlýr og nóvember afskaplega þurr. 

Leitni reiknast - samsvarar fjögurra daga lengingu alauða tímabilsins á öld. Ábyggilega ómarktækt - enda er um miklar tilviljanir að ræða. Það er þó líklega þannig að á mjög löngum köldum skeiðum verður þetta tímabil styttra heldur en á löngum hlýjum. Til þess að skera úr um það þurfum við miklu lengri athugunartíma heldur en 100 ár. 

Á 19. öld vitum við um heldur fleiri septembersnjóatilvik í Reykjavík heldur en á þeirri 20. Sömuleiðis er heldur oftar talað um snjó seint í maí eða snemma í júní heldur en á því tímabili sem við höfum hér fjallað um. Hvort þau tilvik eru „raunveruleg“ í þeim stranga ramma sem athugunin kl.9 setur getum við ekkert sagt um. Kannski hittu þessi tilvik alls ekki á réttan tíma sólarhrings frekar en þau sem á var minnst hér að ofan? Það vitum við ekki. Þó eru alláreiðanlegar heimildir fyrir því að 6. eða 7. september 1813 hafi orðið alhvítt í Reykjavík - það tók fyrir nautajörð var sagt - og fleiri en ein heimild greina frá hríðinni sem gerði. 

Við alla „bestu“ skilyrði gæti orðið alhvítt um stund í Reykjavík allt fram um sólstöður og aftur frá því síðast í ágúst - en varla þar á milli. Ólíklegar eru þessar dagsetningar þó - og enn ólíklegra að þær beri upp á sama árið - birtist þær á annað borð. Síðan er auðvitað alveg hugsanlegt að heill vetur líði án þess að alhvítt verði. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að nefna líkur í því sambandi - eða hvort sú hnattræna hlýnun sem búist er við breyti þeim líkum eitthvað. 


Hugsað til ársins 1926

Við rifjum nú upp helstu veðuratburði ársins 1926. Hlýskeiðið sem við kennum við 20. öld nýhafið - en af því vissi þó enginn. Minnisstæðir veðuratburðir voru margir og fjölbreyttir. Hér verður stiklað á stóru. 

Þetta var tímamótaár í sögu Veðurstofunnar. Hún varð sjálfstæð stofnun 1. júlí og þangað kom til starfa fyrsti veðurfræðingurinn, Jón Eyþórsson. Móttaka veðurskeyta frá útlöndum jókst og farið var að teikna fleiri og ítarlegri veðurkort en verið hafði. Þ.1. nóvember var í fyrsta sinn farið að skipta landinu upp í spásvæði (8) og veðurspá látin ná til sólarhrings en ekki aðeins til næsta dægurs (dags eða nætur). Veðurspám var þannig dreift að símstöðvar fengu veðurspá fyrir sitt hérað og nágrannahéruðin. 

Fyrstu tveir mánuðir ársins fengu góða dóma til landsins en oft var ógæftasamt. Mjög snjólétt var á Suður- og Vesturlandi. Í mars var talsverður snjór framan af, en mjög hagstæð tíð í apríl. Kuldahret gerði í maí, en júní var almennt hagstæður. Upp úr því lagðist í rigningar, talið með verri rigningasumrum á Suðurlandi, og norðaustanlands varð tíð mjög einnig stirð þegar á leið. Haustið var kalt, sérstaklega október. Snjóþyngsli voru nyrðra. Desember var illviðra- og umhleypingasamur. Skástur austanlands. Síðla sumars og um haustið gekk mikil jarðskjálftahrina yfir Reykjanestá - einskonar framhald á hrinu árið áður.

Fyrstu mánuðir ársins voru stórtíðindalitlir. Snjóleysi á Hellisheiði þótti þó tíðindum sæta um miðjan janúar og fyrir miðjan janúar féll skriða á Akureyri, líklega þann 12. Dagsetningar er þó ekki getið í flestum fréttum:

Dagur segir frá 4. mars:
Skriðuhlaup á Akureyri. Fyrir nokkru féll skriða úr brekkunni í suðurbænum og gerði talsverðar skemmdir á húsi þeirra Aðólfs Kristjánssonar og Jónasar Franklíns [Morgunblaðið (11.febrúar) segir þetta hús vera númer 20 við Aðalstræti]. Brotnaði skúr er stóð að húsbaki, gluggar er að brekkunni sneru og urðu talsverðar skemmdir innan húss. Hafði vatn hlaupið úr skurði uppi á brekkunni og losað um jarðveginn uns fylla allmikil, ásamt snjó, hljóp fram. Dagur hefir áður bent á, að hús þau er undir brekkunni standa eru meira og minna háð þeirri hættu, að brekkan hlaupi fram og valdi skemmdum og jafnvel slysum. Þurfa forráðamenn bæjarins að gefa því máli gaum.

Það er enn svo að gefa þarf skriðuhlaupum á Akureyri gaum - þó sjaldgæf séu. Sjóslys voru tíð á árinu, hvað eftir annað fórust menn og bátar en ekkert eitt skaðaveður sker sig úr. Afi ritstjóra hungurdiska drukknaði í stórbrimi í sjóróðri frá Grindavík 14. mars ásamt 9 mönnum öðrum. 

Fyrri hluti mars var nokkuð snjóþungur, ekki síst á Suðurlandi. Tvær fréttir eru dæmigerðar: 

Morgunblaðið 9.mars: Austan úr Mýrdal var Mbl. símað í gær, að þar væri snjókyngi svo mikið, að samgöngur um sveitina mættu kallast að mestu tepptar. Pósturinn, sem er á norðurleið, hefir verið 3 daga tepptur í Vík; er Mýrdalssandur talinn ófær og vötn öll svo spillt, að ógerningur er að komast yfir þau.

Ísafold 10.mars: Snjóþyngsli allmikil eru austur í sveitum nú. Keyrði mikinn snjó þar niður á föstudag sl. [5.mars] , svo að nú er þar nærri hnésnjór á láglendinu. Sömu snjóþyngsli eru austur í Mýrdal.

Snjódýpt mældist 54 cm í Vík í Mýrdal þann 7. og 42 cm á Stórhöfða í Vestmanneyjum þann 9. 

Snjóinn tók að mestu upp um miðjan mánuð, þó allmikið hríðarveður gerði norðanlands undir lok mánaðar. Getið var um fjárskaða. Alautt var í Reykjavik allan apríl. Einn alhvítur dagur var hins vegar í maí í Reykjavik (9.) - og síðan varð alhvítt að morgni 9. september. Samfelldar snjóathuganir hófust í Reykjavík í janúar 1921. Síðan þá hafa aldrei liðið jafnfáir dagar á milli síðasta alhvíta dags að vori og þess fyrsta að hausti og var 1926, 122 dagar. Meðaltalið er 205. 

Maíhríðin var nokkuð snörp og olli einhverjum fjársköðum á Suðurlandi og norðanlands varð foktjón og skemmdir urðu í höfnum. Flest bendir til þess að mjög kalt háloftalægðardrag hafi komið úr norðvestri eða vestri yfir Grænland og lægð tengd því síðan grafið um sig skammt fyrir suðvestan land. [Minnir ritstjóra hungurdiska á kast upp úr miðjum apríl 1971 - kannski verður fjallað um það hér síðar]. 

Slide1

Bandaríska endurgreiningin giskar á stöðuna í háloftunum í þessu veðri. Kalt lægðardrag er við Vesturland og lægð er þar að grafa um sig. 

Slide2

Þann 10. var lægðin orðin alldjúp (endurgreiningin vanmetur þó dýpt hennar). 

Dagblað segir 12.maí: 

Aðfaranótt sunnudagsins (9.maí) skall á norðanhríð, einhver sú mesta sem komið hefir um langt skeið. Veðurhæðin var ekki ýkja mikil en snjókoman mjög mikil og nokkurt frost. Hélst veðrið allan sunnudaginn og fram á næstu nótt án þess að nokkurn tíma rofaði til. Telja má víst að þetta veður hafi valdið miklu tjóni víðsvegar um land þótt ljósar fregnir séu ekki komnar um það ennþá. Hefir þegar frést um mikla fjárskaða hér sunnanlands, en annars vita menn ekki ennþá um hve mikið fé hefir farist, því það var komið víðsvegar vegna hins ágæta tíðarfars sem verið hefir í alt vor. Hefir féð bæði fennt og hrakið i ár og sjó og eru t.d. ljótar sögur sagðar austan úr Árnessýslu um að fé hafi farist þar í hópum í ám og lækjum, þótt vonandi séu þær sagnir eitthvað orðum auknar. — Í Álfsnesi á Kjalarnesi hröktu um 30 ær í sjóinn og einnig kvað margt fé hafa farið i Leirvogsá og aðrar ár þar upp frá.

Þilskipið Hákon héðan úr Reykjavik strandaði á sunnudagsnóttina fram undan Grindavík, og björguðust mennirnir við illan leik eftir 9 tíma volk í skipsbátnum. Vegna veðursins sáu þeir ekki hvar landtaka var möguleg og lentu um síðir í vör rétt hjá Reykjanesvita allmjög þjakaðir, en þó sjálfbjarga, þótt lending væri vond, og var þeim ágætlega tekið hjá vitaverði og voru þar næstu nótt. Einnig hefir frést um skemmdir á skipum norðanlands, og á Eyrarbakka brotnaði einn bátur í lendingu og fleiri voru hætt komnir. Ekkert manntjón hefir orðið af völdum veðursins svo frést hafi.

Ísafold segir 15. maí: 

(Símtal við Ölfusá 12. þ.m. - (þéttbýlið Selfoss var ekki komið til sögunnar)) Það var við því að búast, því miður, að fregnir ættu eftir að berast hingað um fjárskaða af völdum hríðarveðursins, sem svo snögglega skall á, aðfaranótt sunnudags s.l. Og því miður lítur út fyrir, að fjárskaðarnir hafi orðið all tilfinnanlegir sumstaðar, einkum í Árnessýslu neðanverðri. Ísafold átti tal við Ölfusá nýlega, til þess að spyrjast fyrir um fjárskaðana. Vantar enn fjölda fjár í Flóa, Ölfusi og Grímsnesi. Féð hafði hrakið í skurði og gil, og hefir verið að finnast þar ýmist dautt, hálfdautt eða lifandi. Enn er ekki unnt að segja neitt «m það með fullri vissu, hversu mikil brögð eru að fjársköðum þar um slóðir. En á sumum bæjum hefir þegar komið í ljós, að þeir eru æði miklir. T.d. á einum bæ Völlum í Ölfusi, hafa fundist milli 20—30 kindur dauðar í Forunum, og vantar enn annað eins frá sama bæ. Á öðrum bæ Árbæ í sömu sveit, vantar 30 kindur á flestum bæjum eitthvað. Á Oddgeirshólum í Flóa, hafa fundist 16 kindur dauðar og vantar enn fleiri frá sama bæ. Á mörgum bæjum hafa fundist 3—10 kindur dauðar, og víða vantar enn margt fé. Einstaka bæir hafa heimt alt sitt, en þeir eru mjög fáir. Úr uppsveitum Árnessýslu eru enn óljósar fregnir komnar, en margt fé hafði vantað þar, þegar síðast fréttist.

Morgunblaðið 21. maí: 

Stórfenglegar sögur hafa gengið hér í bænum undanfarið um mikinn fjárskaða í Grímsnesi, er átt hefði að vera í bylnum á dögunum. — Sem betur fer, eru sögur þessar tilhœfulausar. Mbl. átti í gær tal við bónda úr Grímsnesi, og sagði hann, að fjárskaðar þar um slóðir hefðu orðið mjög litlir; aðeins fáar kindur á einstaka bæ.

Morgunblaðið 12. maí:

Akureyri F.B. 10. maí. Skaðar á skipum og bátum. Ofsarok gerði hér í nótt á norðvestan, og olli talsverðum skemmdum á skipum og bátum á höfninni. Eitt skip rak á land lítið skemmt. Vélbátur sökk. Annar brotnaði í spón. Síld eyðilagðist í kastnótum.

Verkamaðurinn 18.maí:

Í sunnudagstorminum urðu víða spjöll á eignum manna. Á Siglufirði fuku tvö hús, sem voru í smíðum; símastaurar brotnuðu og rafljósakerfið skemmdist svo, að ekki er búist við að það komist í lag fyrr en eftir langan tíma. Víðar að hefir og frést um nokkrar skemmdir.

Slide5

Hríðin 9. september var minni. Mjög kalt lægðardrag kom úr vestsuðvestri frá Grænlandi sunnanverðu og gekk síðan saman við kuldapoll norrænnar ættar. Endurgreiningin sýnir aðalatriðin líklega allvel. 

Slide6

Myndin sýnir kort Veðurstofunnar að morgni þess 9. Þá snjóar í Reykjavík. Úrkomusvæðið gekk síðan til austurs. Autt var fyrst um morguninn í Húnavatnssýslu, en alhvítt var um miðjan dag - síðan tók af. 

Vísir segir frá 9.september: „Snjó festi aðeins hér í bænum í nótt“.

Vísir 10.september:

Alsnjóa var í Þingvallasveit í gærmorgun og langt fram á dag, en ökklasnjór á Mosfellsheiði, að sögn manna, sem að austan komu í gær.

Íslendingur á Akureyri segir að þar hafi líka orðið alsnjóa um hádegi þann 10. september. Víða varð alhvítt á veðurstöðvum, jafnvel um miðjan dag þann 9. Þann dag heyrðust þrumur á Eyrarbakka, í Vík í Mýrdal og Hraunum í Fljótum. Loft greinilega mjög óstöðugt. 

Ritstjóri hungurdiska bað oft gamla borgfirska bændur um að nefna við sig verstu rigningasumrin sem þeir mundu eftir. Flestir voru sammála um að 1955 og 1913 væru þau verstu, en nefndu einnig 1926, 1937 og 1947. Sumarið 1926 varð einnig mjög endasleppt í heyskap norðanlands. Lagðist þar í rigningar í ágúst svo segja mátti að óþurrkarnir næðu um mestallt landið. Mesta vatnsveðrið gerði þó dagana 23. til 25. Þá urðu margvíslegar skemmdir vegna flóða og skriðufalla. því miður voru úrkomumælingar heldur rýrar norðanlands, t.d. engar í Eyjafirði, en mikið rigndi í Fljótum og austur í Bakkafirði þar sem voru alláreiðanlegar mælingar. Blöðin birtu fréttir af tjóni. Páll Jónsson, veðurathugunarmaður á Grænavatni í Mývatnssveit, segir að þann 24. hafi verið dæmafátt vatnsveður. Víða snjóaði í fjöll og sömuleiðis undir lok mánaðarins. 

Slide3

Veðráttan segir að lægð að vestan hafi dagana 22. til 25. gengið austur eftir sunnanverðu landinu og austur fyrir það. Fyrri 2 dagana hafi verið suðlæg átt sunnanlands en austan og norðaustan norðanlands. Síðan hafi hann allstaðar snúist í norðrið. Kortið sýnir veðrið að morgni þess 24. Þá er lægðin yfir landinu austanverðu og úrfellið í hámarki fyrir norðan. 

Slide4

Um kvöldið var lægðin komin austur fyrir land. Mjög hvöss norðanátt var vestan við lægðarmiðjuna, eins og glögglega sést á bandarísku endurgreiningarkorti. 

Morgunblaðið 29. ágúst:

Skemmdir af vatnavöxtum. Á þriðjudagsnóttina var og þriðjudaginn (24. ágúst) gerði hið mesta foraðsveður á Norðurlandi. Hljóp þá svo mikill vöxtur í Eyjafjarðará, að hún flæddi yfir hina svokölluðu Hólma og tók þaðan allt hey, sem þar var, bæði bæjarbúa og sveitarmanna. Þá flæddi hún og yfir Staðarbyggðarmýrar og bar þangað leir og sand, svo talið er að engi sé þar ekki sláandi. Í Svarfaðardal fór á sömu leið. Áin flæddi þar yfir svonefnda Bakka, geysimikið engjasvæði, og tók allt hey, sem þar var og ónýtti allt sem óslegið var. Nemur tjónið af þessu gífurlega miklu í hey- og engjatapi.

Skriðuhlaup. Í sama veðri varð skriðuhlaup í Eyjafirði og ónýtti mjög tún og engjar á þrem bæjum, Möðruvöllum, Kálfagerði og Helgastöðum.

Dagur 26.ágúst:

Ofsaveður og stórrigningu af norðri gerði á þriðjudagsnóttina var. Er langt að minnast slíks úrfellis og slíkrar veðurhæðar í norðanátt. Ár allar umhverfðust sem þá er leysing verður mest á vordaginn. Skaðar miklir hafa orðið af völdum skriðufalla og vatnavaxta í óveðrinu síðastliðinn þriðjudag. Vötn æstust svo mjög, að jafnvel tók yfir það, sem mest verður á vordaginn. Í hólmum Eyjafjarðarár og engjum meðfram henni flutu burt öll þau hey er laus voru, en það spillist, sem eftir sat. Nokkuð af heyi situr í röstum við brautina og stíflugarða engjanna og á þar hver sinn skerf í sameiginlegri bendu. Engjaskemmdirnar tóku þó heyskemmdunum fram. Þverárnar úr fjöllunum beggja megin héraðsins urðu hamslausar en skriður urðu lausar og ultu þverárnar og svo sjálf Eyjafjarðará fram þykkar af leir og sandeðju. Barst leirinn og sandurinn um allar engjar þær er undir vatn komu, en svo mátti telja að hólmar og engjar inn af botni fjarðarins yrðu samfelldur flói. Mikill hluti engjanna er því talinn óvinnandi á þessu sumri. — Skriðuhlaup urðu víða hér í grennd. Hefir blaðið heyrt um þessar skemmdir af völdum þeirra: Á Helgastöðum í Eyjafirði hljóp skriða á túnið og tók af nálægt þriðjungi þess. Á Möðruvöllum (fram) og Kálfagerði hljóp skriða og urðu af miklar skemmdir á engjum. Þá hefir og heyrst að skriður hafi hlaupið í Öxnadal og Hörgárdal, en ekki hafa borist um það greinilegar fregnir.

Íslendingur 27. ágúst: 

Aðfaranótt þriðjudagsins (24. ágúst) brast á aftaka norðaustanveður með afspyrnuúrfelli. Urðu af veðri þessu hin mestu spjöll til lands og sjávar. Ár allar runnu fram með feikna vatnsgangi og aurburði, gerði skaða á slegnu grasi og óslegnu. Þverá í Garðsárdal braut varnargarð, sem nýgerður var norðan við farveg hennar, og flæddi yfir engi Kaupangssveitar, og gerði á þeim illan usla. Munkaþverá óx svo, að flæddi inn í rafstöðvarbyggingu Munkaþverár, svo að aflvélarnar stöðvuðust. Tekur það tíma langan og tilfinnanlegan kostnað að koma því í lag aftur. Eyjafjarðará flæddi yfir flæðiengi bæjarins norðan Staðareyjar, og verða engjaleigjendur fyrir stórtjóni af völdum þess. Allvíða hlupu fram aurskriður, og eyðilögðu að meiru og minnu engjar og tún. Urðu allmiklar skriðuhlaupsskemmdir á engjum Möðruvalla í Eyjafirði og Kálfagerðis. Um þriðjungur af túni Helgastaða í Eyjafirði eyðilagðist og þannig. Heyrst hefir og, að skemmdir hafi orðið af skriðum í Öxnadal og Hörgárdal, en af því hafa ekki nánar fregnir fengist. Á Steindyrum á Látraströnd hljóp stór skriða og eyðilagði mikinn hluta af enginu og er álitið, að fé hafi farist í þeirri skriðu. Norskt síldveiðiskip rak á land nálægt Staðarhóli austan Siglufjarðar, og er talið eyðilagt. Við Skagaströnd hafði færeyskt veiðiskip nær rekið á land, en Helga Magra tókst við illan leik að ná mönnunum, og kom þeim til Siglufjarðar. Bátar misstu reknet sín, og snurpuskip báta og björguðust nauðuglega.

Verkamaðurinn 29. ágúst:

Aðfaranótt þriðjudagsins síðasta gekk yfir Norðurland ofsa norðaustan stormur, með afskaplegu regni. Var sem náttúran öll færi berserksgang. Hafrótið var eins og mest er i haustgörðum. Veður þetta olli miklum skemmdum á landi og sjó og áttu margir von á mannskaða. Drifneta bátarnir voru flestir úti. Misstu þeir sumir netin algerlega. Hjá öðrum skemmdust þau mikið. Sumstaðar, þar sem skipin lágu í höfn, urðu þau að hafa vélar i gangi. Vélskipið Lottie var statt hér úti í fjarðarmynninu, er veðrið skall á. Vél þess var eitthvað í ólagi. Hrakti það undan sjó og vindi og var nærri komið upp í Hvanndalabjörg. Helgi magri bjargaði skipshöfn af færeyskum kútter, er var að reka á land vestur við Skagaströnd og fleiri skip voru nauðuglega stödd. Nokkur misstu bátana. Flóðbylgjan var svo mikil að sjór gekk langt á land upp.

Hér flóði yfir stóran hluta Oddeyrarinnar. Fiskstakkar á reitunum stóðu í sjó og blotnuðu og við lá að flóðið gengi inn í kjallara i sumum húsunum. Frammi í Eyjafjarðarhólmnum var mikið af slegnu heyi úti. Sópaðist það allt í burt og er þar um mörg þúsund króna skaða fyrir bæinn að ræða. Skriður féllu viða úr fjöllum og eyðilögðu engjar.

Slide10

Í septemberhefti Veðráttunnar (og blöðum) er getið um ferð sem listmálararnir Tryggvi Magnússon og Finnur Jónsson fóru yfir hálendið dagana 17. ágúst til 15. september. Þeir gengu sunnan af Landi á Rangárvöllum norður óbyggðir til Fnjóskadals. Veðurskýrslu sendu þeir Veðurstofunni og sýnir myndin aðra síðu hennar - nokkuð snjáða sem vonlegt er. Athugið að dagsetningarnar á efri hluta blaðsins eiga við september, en þær á neðri hlutanum segja frá ágústmánuði. Þann 11. september lentu þeir í umbrotafæri og hríð, snjór í kálfa. Þá voru þeir á Sprengisandi, vestan við Tungnafellsjökul og sunnan Fjórðungskvíslar.

Slide12

Eins og áður sagði var sérlega kalt í október. Á landsvísu hefur október ekki orðið kaldari síðan. Í Reykjavík og í Stykkishólmi var október 1981 lítillega kaldari. Á Akureyri var kaldara 1981, 1980 og 1968. Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í október 1926, meðalþykkt og vik þykktarinnar frá aldarmeðaltali októbermánaðar, 

Fyrstu þrjár vikur nóvember héldu kuldinn og norðanáttin áfram, veður voru oft ill. Versta veðrið gerði dagana 4. til 9. Þá dýpkaði lægð mikið fyrir sunnan og síðan austan land - sneri síðan við og þokaðist til vesturs fyrir sunnan landið. Ýmislegir skaðar urðu í þessu veðri. 

Slide8

Bandaríska endurgreiningin virðist ná þessu veðri allvel. Lægðin um 950 hPa í miðju þann 6.nóvember. 

Vísir 10.nóvember:

Ísafirði 9. nóv. FB. Snjóflóð í Hnífsdal. Afar miklum snjó hefir hlaðið niður á Vesturlandi. Snjóflóð hafa fallið í Hnífsdal innanverðum og tekið símalínuna á kafla á milli Hnífsdals og Bolungarvíkur. Fimm hestar fórust í sama flóði. Rekið hefir bryggjutimbur í Álftafirði, og vita menn ekki hvaðan það muni komið, en giska á, að snjóflóð hafi grandað bryggju á Hesteyri. [Svo reyndist vera]. 

Morgunblaðið 11. nóvember:

Símabilanir hafa orðið alveg óvenjumiklar í ofveðrinu undanfarna daga, enda sagt, að þær muni hafa verið með þeim allra verstu, sem komið hafa á Norðurlandi. Í Skagafirði er sagður ákaflega mikill snjór, og snjóflóðahætta víða. Annað snjóflóð féll aftur í dalnum fyrir ofan Hnífsdal, og sópaði burtu símanum á allstóru svœði 12 staurar alveg horfnir. Á Lágheiði í Ólafsfirði féll snjóflóð og tók línuna á nokkuð stóru svæði. Ófrétt enn af Heljardalsheiði  og svæðinu þaðan austur fyrir Akureyri. Ísing hefir lagt á símaþráðinn víða, einkum á láglendi Norðurlands, og valdið miklum skemmdum. Þannig féllu niður allar línurnar frá Sauðárkróki, austur að Héraðsvatnaós, og margir staurar brotnuðu. Vestan við Sauðárkrók féllu línurnar niður á 4 kílómetra svæði. Á Norðausturlandi hefir veðrið (ekki verið eins afskaplegt en kaldara, og því minni ísing lagt á vírana,. Er ritsíminn í lagi £rá Seyðisfirði vestur að Hólum í Laxárdal. Verða símamenn sendir héðan norður til fullkominna aðgerða, en vænta má að ritsímasamband komist aftur á alla leið til Seyðisfjarðar, eftir einn eða tvo daga, ef veður helst gott.

Vísir 15. nóvember:

Ofsaveður og flóðgangur aðfaranótt laugardags austanlands. Á Norðfirði brotnuðu um 30 árabátar, sumir í spón, smábryggjur og sjóhús brotnuðu allmikið. Um 20 kindur týndust í sjóinn, átta skippunda fiskhlaða tók út af þurrkreiti. Á Mjóafirði týndust í sjóinn 3 árabátar og á bænum Eldleysu 15 skíppunda fiskhlaði af venjulegum þurrkreit. Fiskhlaðinn var fergður með klöppum.

Akureyri 13. nóv. FB.: Bleytuhríðar undanfarið hafa víða orðið orsök að illum búsifjum. Torfbæir flestir orðnir blautir í gegn og lekir, og sama er að segja um hlöður og peningshús. Snjóflóð hafa fallið víða og valdið skaða. Mestur skaði af völdum snjóflóðs, er til spurst hefir, var á bænum Skeri á Látraströnd. Snjóflóðið tók fjárhús með 60 kindum og heyhlöðu og 4 báta og sópaði öllu á sjó út. Aðeins 9 kindum varð bjargað. Lá við, að flóðið tæki bæinn líka. Slapp fólkið nauðulega. Hefir það nú flúið hann og búpeningurinn hefir verið fluttur á næstu bæi. Maður úr Svarfaðardal, Dagbjartur Þorsteinsson, fórst í snjóflóði á Háagerðisfjalli. Var hann á rjúpnaveiðum.

Mjög illviðrasamt var framan af desember. Þá gengu stórgerðir sunnan- og vestanumhleypingar yfir landið. Töluvert tjón varð vegna sjávargangs á Suðurnesjum og sömuleiðis á Eyrarbakka.

Slide9 

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum að morgni 6. desember. Vaxandi lægð er suðaustur af Hvarfi og stefnir í átt til landsins. Dæmigerð illviðrastaða. Nýtt tungl var þann 5. og því stórstreymt þessa daga. 

Morgunblaðið 8. desember: 

Höfnum í gær. Hér er aftakaveður og stórhríð hefir verið fyrri hluta dagsins. Brim er afskaplegt, og gekk flóðbylgja á land í morgun. Sópaði hún burtu öllum görðum og bar grjótið langar leiðir á land upp. Einn bæ, sem heitir í Görðum, skall flóðbylgjan yfir og er hann nú á kafi í sjó. Þar bjó maður, sem Vilhjálmur Jónsson heitir og er hann um sjötugt. Kl. 5 í morgun var hann vakinn upp af mönnum, sem sáu að hverju fór og mátti það ekki tæpara standa að hann bjargaðist; varð hann svo naumt fyrir, að hann gaf sér ekki tíma til að slökkva ljós í baðstofunni. Missti hann þarna alla innanstokksmuni sína og vetrarbjörg, en nokkrum kindum, sem hann átti, var bjargað á bátum úr kindakofanum og urðu menn að vaða sjóinn í mitti inni í kofunum til þess að ná kindunum. Eigi hefir enn frést af bæjum hér fyrir sunnan, en ætla má að hafrótið hafi valdið þar spjöllum líkt og hér.

Breiðabólstað á Skógarströnd í gær: Hér er versta veður og hefir verið undanfarna daga. Eigi hefir það þó valdið öðrum skemmdum hér nærlendis, svo að kunnugt sé, nema hvað þak fauk af húsi í Eyrarsveit. Nákvæmar fregnir um það hafa þó eigi borist. Fé helst illa við hér vegna storma og umhleypinga.

Sjógarður brotnar á Eyrarbakka. Í fyrrinótt og gærmorgun gerði ofsabrim á Eyrarbakka. Brotnaði sjógarðurinn vestur frá kauptúninu á um 80 faðma svæði. Þá skemmdist og bryggja allmikið, og opinn bátur brotnaði allmikið á landi upp. Í gær klukkan að ganga 6 var sagt ægilegt brim á Eyrarbakka, og bjuggust menn þó við því, að það mundi aukast með kvöldinu og í nótt sem leið. Í Grindavík höfðu einhverjar smáskemmdir orðið á sjógörðum á stöku stað. En ekki var það sagt teljandi.

Ófærð var nokkur suðvestanlands um og eftir miðjan mánuð.

Morgunblaðið segir frá  17. desember;

Í fyrrinótt voru 10 bifreiðar við Ölvesárbrú, og komust ekki yfir Hellisheiði vegna snjóþyngsla. Um 30 manns varð að gista í Tryggvaskála í fyrrinótt, og ein bifreiðin varð að fara niður á Eyrarbakka því farþegar fengu ekki inni við Ölvesárbrú, vegna þrengsla. ... Hér hefir og kyngt niður miklum snjó, svo að ferðir hafa tafist á vegum hér í kring. Fór bíll frá BSR til Hafnarfjarðar kl.11 í gærmorgun og kom ekki suður fyrr en kl. 1 3/4. Varð að moka frá honum mest alla leiðina. 

Mikil hlýindi urðu um jólaleytið og gríðarleg úrkoma sunnanlands og vestan. 

Slide11

Endurgreiningin sýnir mjög hlýjan hæðarhrygg sunnan og suðaustan við land um hádegi á annan dag jóla. Beindi hann hingað mjög hlýju og röku lofti langt sunnan úr höfum. 

Vísir 29. desember:

Skriðuhlaupið undir Eyjafjöllum. Holti undir Eyjafjöllum 28. des. Kl. 2 á aðfaranótt annars jóladags vaknaði fólkið í Ytri-Steinum við það að vatnsflóð fyllti bæinn. Svonefndur Steinalækur hafði í stórrigningu hlaupið úr farvegi og stefndi á báða bæina. Bóndinn úr Suðurbæ fór til hesthúss með dóttur sinni. Komust þau ekki heim til bæjar það sem eftir var nætur, vegna vatnsgangs og grjótburðar. Þau fundu hestana á sundi í húsinu og björguðu þeim út um þekjuna. Í uppbænum var veik kona rúmföst. Bjargaði fólkið sér og henni og húsmóðurinni í Suðurbæ upp á baðstofuþekjuna og hafðist þar lengi við. Komst þaðan með naumindum á skemmuþekju, þaðan eftir langa stund til fjárhúss, er hærra stóð. Lét þar fyrirberast uns birti, en leitaði þá nágrannabæja. Vatn og skriða fyllti bæina báða á Ytri-Steinum og jafnaði aðra baðstofuna við jörðu ásamt bæjardyrum og flestum útihúsum. Fylltust bæjarstæðin og umhverfið stórgrýti og aur, fjós fylltust og stóðu kýr þar í vatni á miðjar síður. Bæirnir eru nú hrundnir að mestu. Það sem eftir stendur er á kafi í stórgrýtisurð.

Morgunblaðið 29. desember:

Úr Mýrdal. (Símtal 28. des.). Aðfaranótt sunnudags 26. þ.m. gerði sömu asahláku í Mýrdal sem þá, er var undir Eyjafjöllum og olli tjóni á Steinabæjum. Skriða féll úr brekkunni, sem er yfir kauptúninu í Vík og skemmdi eitthvað af útihúsum, en ekki stórvægilega. Óhemju vöxtur hafði komið í Víkurá; tók flóðið nokkuð ofan af stíflu rafveitunnar, svo að ljósin slokknuðu, og var stöðvarhúsið bætt komið. — Víða féllu niður skriður úr fjöllunum við Vík og ollu töluverðu tjóni á landi.

Morgunblaðið 31. desember:

Stórflóð í Borgarfirði. Borgarnesi í gær. Á annan jóladag kom hið mesta flóð í Borgarfirðinum, er komið hefir síðan 1882 (rétt eftir nýár). Norðurárdalurinn var allur eitt beljandi straumhaf hlíða á milli. Fyrir jólin hafði kyngt niður afskaplega miklum snjó, en svo komu úrhellis rigningar um jólin og asahláka og af því komu þessir miklu vatnavextir. Tók upp allan snjó, svo að alauð varð jörð upp á heiðar, en ár allar ruddu sig, og víða tók klaka úr jörð niðri í byggð. Eigi hafa vatnavextir þessir valdið neinu tjóni á skepnum né bæjum, svo að kunnugt sé, en allmiklar skemmdir hafa þeir gert á vegum víða. Í veginn hjá Ferjukoti braut flóðið 20 faðma skarð; (vegur sá var gerður 1921—'22). Á nýja veginum í Norðurárdal urðu og talsverðar skemmdir víða, en engar brýr fóru. Svo var vatnið mikið í Norðurá að nærri lá, að hún flæddi upp í brú, og seytlaði yfir veginn austan brúarinnar, en það hefir eigi komið fyrir áður síðan vegurinn var gerður.

Samtal við vegamálastjóra. Morgunblaðið hafði tal af vegamalastjóra í gær og spurði hann um þessar vegaskemmdir. Gerði hann eigi mikið úr þeim og sagði að tekist hefði að gera vegina færa aftur að mestu leyti. Nokkrar skemmdir kvað hann og hafa orðið á vegunum austan fjalls, t.d. í Ölfusi; leysingar hefði orðið eins ákafar þar og annarsstaðar og vatnið rofið skörð í vegina allvíða, en þær skemmdir væru nú endurbættar svo, að vegirnir væru bráðum bílfærir. Skriður hefði nokkrar fallið á, vegi, t.d. ein úr Ingólfsfjalli yfir veginn upp að Sogi. Austur í Hornafirði voru einnig miklir vatnavextir. Þar féll allmikil skriða á veginn í Almannaskarði.

Úrkoma mældist mikil í Vík í Mýrdal. Segir af því í Veðráttunni (desember 1926) að „milli venjulegra athugunartíma kl. 8—8 árdegis [hafi fallið] 122.5 mm þ.26. Það byrjaði að rigna kl. 23:30 þ.25., svo að þessir 122,5 mm voru aðeins eftir nóttina. En svo hélt rigningin áfram og þegar liðnar voru réttar 24 stundir frá því hún byrjaði (þ.26. kl.23:30) mældi athugunarmaður á ný. Á þessum 24 stundum hafði þá rignt 215,8 mm. Þetta er langmesta úrkoma eftir einn sólarhring, sem mæld hefir verið hér á landi svo kunnugt sé. Mesta sólarhringsúrkoma áður hefir verið 124,0 mm á Teigarhorni 12. ágúst 1916. En þess ber að gæta, að sú mæling er gerð á venjulegum athugunartíma og þess vegna ekki víst, að það sé mesta úrkoma, sem fengist hefði á öðrum tímum. Mánaðarúrkoman í Vík, 505,1 mm er og langmesta mánaðarúrkoma, sem þekkst hefir hér á landi til þessa tíma. Mesta mánaðarúrkoma áður er 390,5 mm á Fagurhólsmýri í október 1924“.

Víkurmælingin var bókfærð sem sólarhringsúrkomumet Íslands þegar ritstjóri hungurdiska fór að rýna í veðurtölur og allt fram til 28. febrúar 1968 þegar 233,9 mm mældust á Vagnsstöðum í Suðursveit. Það met stóð aftur til 1. október 1979 (242,7 mm í Kvískerjum) og það þar til núverandi met var sett 10. janúar 2002 (293,3 mm í Kvískerjum). Mánaðarmetið lifði skemur, það var slegið í Hveradölum í janúar 1933 þegar þar mældust 596,0 mm yfir mánuðinn. Núgildandi (2022) mánaðarmet er 971,5 mm mælt á Kollaleiru í nóvember 2002.

Við ljúkum hér þessari lauslegu yfirferð um það helsta í veðri á árinu 1926 - margt annað hefði mátt geta um. Í viðhenginu eru ýmsar tölulegar upplýsingar og fleiri atvika getið lauslega.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu 20 dagar marsmánaðar

Meðalhiti fyrstu 20 daga marsmánaðar er +1,0 stig í Reykjavík. Það er +0,2 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020, en -0,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 15. hlýjasta sæti aldarinnar (af 22). Dagarnir 20 voru hlýjastir árið 2004, meðalhiti þá 5,2 stig. Kaldastir voru þeir 2011, meðalhiti -1,4 stig. Á langa listanum er hiti dagana 20 í 64. hlýjasta sæti (af 150). Hlýjast var 1964, meðalhiti +6,4 stig, en kaldast 1891, meðalhiti -5,8 stig.
 
Á Akureyri hefur verið hlýtt, meðalhiti 20 fyrstu daga mánaðarins er +2,5 stig, +3,0 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +2,4 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Hita hefur verið nokkuð misskipt á landinu. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Austurlandi að Glettingi. Þar eru dagarnir þeir þriðjuhlýjustu á öldinni. Kaldast hefur verið vestanlands, frá Faxaflóa til Stranda og Norðurlands vestra, þar sem hiti hefur verið í 7. hlýjasta sæti.
 
Svo ber nú við að að tiltölu hafa dagarnir 20 verið kaldastir í Reykjavík, hiti -0,4 stig undir meðallagi síðustu tíu ára. Hlýjast að tiltölu hefur verið við Setur og við Mývatn, hiti +3,0 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkomumagn hefur verið mjög óvenjulegt á landinu suðvestanverðu. Í Reykjavík hafa mælst 166,6 mm, það langmesta sem vitað er um sömu daga. Næstmest mældist 1986, 114,7 mm. Þetta er um þreföld meðalúrkoma. Á Akureyri hafa mælst 33,6 mm og er það í meðallagi. Um helgina féllu sólarhringsúrkomumet marsmánaðar bæði á Reykjum í Hrútafirði og í Dalsmynni í Hjaltadal. Úrkoma er meiri á allmörgum stöðvum en áður hefur mælst þessa sömu daga.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 53,3 í Reykjavík. Það er í tæpu meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 74,0, rúmlega 30 fleiri en í meðalári.

Skörp skil - mikil úrkoma og leysing?

Þeir sem hafa fylgst með veðri í Evrópu undanfarna daga hafa vafalítið veitt athygli miklum strók sem borið hefur sand og hlýtt loft sunnan frá Afríku norður um Evrópu. Þar hefur nú byggst upp feiknaöflug hlý hæð og hefur hún orðið til þess að loft úr suðri sækir nú hingað til lands. Þótt í meginatriðum sé það ekki frá Afríku komið gera spár samt ráð fyrir því að ryk nái yfir Austurland - mjög hátt í lofti síðdegis á laugardag. 

Hæðin er óvenjuleg - hugsanlegt að marsþrýstimet Danmerkur sem staðið hefur af sér alla ásókn síðan 1880 falli. Þá mældist þrýstingur að sögn heimildamanna hungurdiska 1049,4 hPa, en gæti farið í 1050 hPa í nótt eða í fyrramálið.

Síðdegis hefur aðeins slaknað - rætist spáin á kortinu hér að neðan.

w-blogg180322a

Yfirlitskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 á morgun sýnir aðalatriðin. Hæðin mikla er nærri Danmörku - mjög hlýtt loft streymir til norðurs fyrir vestan hana - allt til Norður-Noregs. Við Ísland er lægð - ekki mjög djúp - en vegna þess að hæðin er svona mikil er mikill vindstrengur austan hennar allt vestur að skörpum skilum sem liggja yfir landinu. 

Þessi skil hafa verið í spánum í nokkra daga - en þar til í gær voru þær allar sammála um að þau kæmust aldrei inn á landið - hlýindin færu alveg hjá fyrir suðaustan land og úrkoma yrði einskorðuð við landið suðaustanvert. Síðan var það í gær að spárnar fóru að fara með skilin vestar og vestar. Svo virðist sem ekki hafi enn tekist að negla nákvæmlega niður hversu vestarlega skilin - og þar með úrkoman - úrkomutegund og ákefð - ásamt vindátt og vindstyrk raðast á landið. 

Loftið er mjög stöðugt - ýtir undir bæði skila- og fjallaþátt úrkomunnar. Fjallaþáttarins gætir langmest austan skilanna í hlýrri sunnanáttinni - en úrkoma er einnig umtalsverð í skilunum sjálfum og undir þeim að vestanverðu. Þar getur úrkoman orðið snjór - en annars rigning. 

Öfgaúrkomuvísar evrópureiknimiðstöðvarinnar eru háir á morgun, laugardag - sérstaklega yfir hálendinu og harmonie-reiknilíkanið sýnir líka nokkuð óvenjulega stöðu. Myndasafnið hér að neðan sýnir nokkur atriði. - Myndin skýrist talsvert sé hún stækkuð - en aðalatriðin eru ljós jafnvel í lítilli upplausn vegna þess hversu munur milli landshluta er mikill.

w-blogg180322b

Efst til vinstri má sjá breytingu í vatnsgildi snævar milli kl. 12 og 24 á laugardag (12 klukkustundir). Hún er jákvæð (bætir á snjó) á gráu svæðum myndarinnar, en neikvæð - snjór bráðnar - á bláu svæðunum. Tölur sýna að þá eiga um 9 cm að bætast við á Reykjanesi og allt upp í meir en 30 cm vestur í Dalasýslu. Aftur á móti á mikið að leysa á Suðurlandsundirlendinu öllu. 

Efst til hægri er síðan uppsöfnum tveggja sólarhringa úrkoma, frá hádegi í dag, föstudag, fram til hádegis á sunnudag. Mest af úrkomunni á reyndar að falla á laugardeginum. Hæsta talan, yfir 500 mm er á Eyjafjallajökli og 300 til 400 mm á stórum svæðum á Vatnajökli og þar í kring. Efst á jöklunum fellur þetta sem snjór - (allt það því 2 metrar á 12 klst á Mýrdalsjökli). Hvort þessar tölur raungerast er auðvitað öldungis óvíst.

Kortið neðst til vinstri sýnir „afrennsli“ - hér í 36 klst. Það er samsett úr rigningarhlut úrkomunnar og leysingunni. Þar eru tölur líka mjög háar. Hæsta talan er í Þórsmörk, rúmlega 300 mm, en einnig mjög mikið á hálendisbrúninni ofan Suðurlandsundirlendisins, allt að 100 mm. Við sjáum líka að einhver hluti úrkomunnar á snjókomusvæðinu verður í fljótandi formi (að mati líkansins) - sennilega þá blaut slydda. Boðar þá krapaelg - eins og hann er nú skemmtilegur eða hitt þó heldur - en hann bindur þó afrennslið og dregur úr líkum á miklum vatnavöxtum. 

Kortið neðst til hægri sýnir hitaspá sem gildir kl.16 síðdegis á laugardag. Vel sést hversu skörp skilin eru í nágrenni höfuðborgarinnar. Óvissa í legu þeirra er þó umtalsverð eins og kom fram hér að ofan. Hiti fer trúlega í tveggja stafa tölu víða norðan- og austanlands - en verður nærri frostmarki vestan skilanna - lengst af. 

w-blogg180322c

Síðasta mynd þessa pistils sýnir síðan vind- og mættishitasnið um landið þvert, frá vestri (til vinstri) til austurs (til hægri) og gildir kl. 17 síðdegis á morgun, laugardag. Hes heimskautarastarinnar liggur niður undir austanvert landið, vindhraði í 4 km hæð er um 50 m/s og fárviðrisstyrkur (brúnt) nær alveg niður undir hæstu fjöll - kannski neðar þar sem þannig hagar til. Rétt austan við 22 gráður vestur dettur vindur alveg niður, er nær enginn yfir norðanverðu Snæfellsnesi - og hæg norðanátt er þar útifyrir.

Við skulum líka taka eftir miklum halla á jafnmættishitalínunum - þar sjáum við hitamuninn þvert í gegnum skilin. 

Skilin verða í sinni vestustu stöðu síðdegis á morgun, laugardag. Síðan fara þau aftur til austurs og verða komin austur fyrir land um hádegi á sunnudag. Önnur skil - einnig skörp eiga síðan að fara yfir land á mánudag. 

Þess má geta að angi úr þessu sama kerfi á að valda gríðarlegri úrkomu í Norður-Noregi á laugardag. 


Fyrri hluti marsmánaðar

Fyrri hluti mars hefur verið umhleypingasamur og fremur hlýr. Sérlega úrkomusamt hefur verið um landið sunnanvert. Meðalhiti í Reykjavík er +1,6 stig. Það er +1,0 stigi ofan meðaltals sömu daga 1991 til 2020 og +0,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 9. hlýjasta sæti (af 22) á öldinni. Fyrri hluti mars var hlýjastur árið 2004, meðalhiti þá +6,0 stig, en kaldastur var hann 2002, meðalhiti -1,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 43. sæti (af 150). Hlýjast var 1964, meðalhiti þá +6,6 stig, en kaldast var 1891, meðalhiti -7,7 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú +2,8 stig, +3,4 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +3,1 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Þar er fyrri hluti mars sá næsthlýjasti á öldinni. Kaldast að tiltölu hefur verið við Faxaflóa, á Suðausturlandi og á Miðhálendinu þar sem dagarnir eru í 5. hlýjasta sæti aldarinnar.

Hiti er ofan meðallags síðustu 10 ára um land allt. Mest er vikið við Mývatn, +3,7 stig, en minnst á Garðskagavita, +0,4 stig.

Úrkoma hefur verið óvenjumikil í Reykjavík, 133,1 mm. Aldrei hefur mælst jafnmikil eða meiri úrkoma í Reykjavík í fyrri hluta mars. Næstmest mældist úrkoma þessa sömu daga árið 1931, 101,7 mm. Á Akureyri hefur úrkoma hins vegar verið lítil. Aðeins hafa mælst þar 7,0 mm, um fjórðungur meðalúrkomu. Það er þó ekki met.

Sólskinsstundir hafa mælst 42,5 í Reykjavík. Það er um 7 stundum neðan meðallags. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 42,4, 13 fleiri en í meðalári.


Gaumur gefinn

Í dag (þriðjudag 15. mars) og á morgun (miðvikudag 16.) er veðrið í námunda við okkur að jafna sig á hinni óvenjulega djúpu lægð sem kom að Suður-Grænlandi í gær og olli miklu illviðri hjá okkur. Svo virðist sem þrýstingur í lægðarmiðju hafi farið niður fyrir 930 hPa og á grænlandsströnd mældust lægst 934,1 hPa. Gæti verið lægsti þrýstingur sem nokkru sinni hefur mælst á norðurhveli jarðar í mars. Íslandsmetið er þó ómarktækt hærra, 934,6 hPa sem mældust í Reykjavík 4. mars 1913. 

Illviðrið sem gekk yfir landið í gær var einnig í flokki þeirra verri í vetur. Á hinum einfalda hlutfallsmælikvarða ritstjóra hungurdiska fékk það (bráðabirgða-)töluna 547 - öllu minna en verstu febrúarveðrin, en er samt í þungaviktarflokki. 

Ársvindhraðamet var slegið á veðurstöðinni Sátu norðan Hofsjökuls, fór 10-mínútna vindur þar í 46,9 m/s. Mánaðarmet (mars) var slegið í Sandbúðum þar sem vindur fór í 42,2 m/s. Mánaðarmet voru einnig slegin við Kárahnjúka, á Fagradal og á Hallormsstaðahálsi - svo aðeins hið merkasta sé talið. Gríðarlegur vindstrengur fór austur um landið - og gætti mest á hálendinu og á nokkrum stöðum vestanlands. 

Á eftir skilakerfi lægðarinnar fylgir hefðbundið éljaloft ættað frá Kanada og mótað af hlýjum sjó fyrir suðvestan land.

Það er alltaf athyglisvert að fylgjast með þeim lægðum sem koma í kjölfar þessara risalægða. Nái þær í hlýtt loft sunnan úr höfum verða þær afskaplega skæðar og mörg verstu veður sem yfir landið ganga eru einmitt þessarar ættar. Full ástæða er því alltaf til að fylgjast með. Nú á dögum getum við nokkuð treyst reiknilíkönum til að segja til um það hvort hlýtt loft næst inn í kerfin eða ekki. 

Lægðin sem næst kemur virðist ekki vera af þessari verstu gerð - en samt nægilega slæm til þess að gefa verður henni gaum og rétt að sýna fulla virðingu. 

w-blogg150322a

Spákortið sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna á hádegi á morgun (miðvikudag 16.mars). Gamla lægðin er þá enn að beina þéttum éljum til okkar með allhvössum vindi í éljunum. Kannski jafnvel eldingum á stangli. Nýja lægðin er um það bil að verða til nokkuð langt suðvestur í hafi. Hún á að vera um 990 hPa í lægðarmiðju, en dýpkar ört og stefnir til landsins. Flestar spár setja leið hennar rétt fyrir vestan land. Hún á ekki að ná í mjög hlýtt loft - það loft sjáum við sem úrkomubakka nokkuð suðaustan við lægðarmiðjuna - kerfin fara rétt á mis. 

Það sem gerir þessa lægð sérlega erfiða viðfangs er að í henni virðist loft vera mjög óstöðugt. Þáttur klakkaúrkomu er mjög hár í meginúrkomusvæði hennar. Líkön höndla slíka klakka nokkuð misjafnlega - það er talsverður munur á - sérstaklega þegar við erum að tala um meira en einn og hálfan sólarhring. 

w-blogg150322b

Evrópureiknimiðstöðin býr til nokkuð skemmtilegar gervi-gervihnattamyndir eftir spám sínum Hér er ein sem á að gilda annað kvöld (miðvikudag) kl.21. Lægðin nýja er þá um 700 km fyrir suðvestan land á leið norðnorðaustur. Mikill skýjabakki fylgir og nálgast hann landið hratt. 

w-blogg150322c

Klukkan 3 aðra nótt er veðrið að ná hámarki suðvestanlands. Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, hann er kominn niður í um 970 hPa, lægði hefur dýpkað um 20 hPa á 15 klukkustundum. Loftvog hríðfellur suðvestanlands. 

w-blogg150322d

Vindaspá harmonie-líkansins (100 m hæð) sýnir stöðuna kl.6. Þá er foráttuveður af suðaustri á landinu - en farið að ganga niður á höfuðborgarsvæðinu. Ein helsta spurningin varðandi þennan úrkomubakka er hvort að í honum verða miklar eldingar - hann hefur til þess alla burði - en mjög erfitt er þó að spá slíku. Verðum alla vega ekki hissa ef svo fer.

w-blogg150322e

Sneiðmyndin (Ísland þvert - frá vestri til austurs (vinstri til hægri á myndinni) - frá sjávarmáli og upp í 250 hPa (um 10 km hæð). Vindstrengurinn (litir og örvar) nær nánast frá jörðu og upp fyrir veðrahvörf. Flest illviðrin sem hafa plagað okkur að undanförnu hafa hins vegar átt eindregið hámark fremur lágt í lofti - í um 1500 til 2000 metra hæð. 

Gaman er að sjá ólíkt hitamynstur í miðju veðrahvolfs og síðan nærri veðrahvörfunum.

w-blogg150322f

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins, vind og hita (litir). Gríðarkalt loft fylgir í kjölfar lægðarinnar - hiti fer niður undir -45 stig í um 5 km hæð. Þetta er með því lægsta sem sést í mars (þó ekki met) - og sýnir hversu vel veðrahvolfið er hrært - um það sjá vindurinn og kyndingin að neðan. Ekki er nærri metkulda í neðstu lögum. Loftið er gríðarlega óstöðugt. Við skulum líka taka eftir því að hlý tunga (sem fylgir úrkomubakka lægðarinnar) teygir sig til vesturs norður af landinu. 

w-blogg150322g

Þetta kort sýnir stöðuna í 300 hPa á sama tíma - nærri veðrahvörfun. Þar er hlýjast við suðvesturland - en mjög kalt fyrir norðan land. Kuldinn verður til við lyftingu - kalda loftið að vestan (í neðri lögum) ryður garði á undan sér - það sem er þar fyrir ofan verður að lyftast - sé litið á næstu spákort á undan er fjólublái liturinn ekki til - hann bara birtist þarna upp úr þurru. Sýnir hins gríðarlegu lyftikrafta sem þarna eru á ferð. Loft kólnar við að streyma upp. Frostið er allt að -67 stig. Það er ekki heldur fjarri meti í marsmánuði. 

Skylt er að taka fram að bandaríska veðurstofan gerir talsvert minna úr þessar lægð - lætur hana renna hjá án stórkostlegra átaka - stundum hefur hún rétt fyrir sér. En veðurnörd ættu að gefa þessari lægð gaum - og auðvitað eiga þeir sem eitthvað eiga undir að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar. 


Spurt var

Í dag er mánudagur 14. mars og enn eitt slagviðrið að ganga yfir. Ritstjóri hungurdiska var spurður að því hvort á þessu ári hefði verið hvassara á mánudögum heldur en aðra daga - tilfinning manna, hér á suðvesturhorninu alla vega, væri sú. 

Jú, mánudagar hafa verið hvössustu dagar vikunnar bæði á landsvísu og á höfuðborgarsvæðinu. Meðalvindhraði höfuðborgarsvæðisstöðva hefur verið 7,8 m/s á mánudögum, en ekki nema 5,5 m/ á miðvikudögum - en þeir hafa á þessum tíma verið hægustu dagar vikunnar. Á eftir mánudeginum koma þriðjudagar (7,1 m/s)og laugardagar (7,0) m/s. Á landsvísu hafa mánudagar og laugardagar verið jafnhvassir, en miðvikudagar hægastir.  

Meðalvigurvindátt hefur verið af suðaustri á mánudögum - og reyndar alla aðra daga líka, nema þriðjudaga. Þá hefur verið suðsuðvestanátt að meðaltali. Á sunnudögum hefur verið austsuðaustanátt. 

Á Akureyri hefur meðalvindhraði einnig verið mestur á mánudögum, en á þriðjudögum á Egilsstaðaflugvelli - (veðrakerfi hreyfast oftast til austurs).

Á sama tíma í fyrra var að meðaltali hvassast á sunnudögum, hægast á þriðjudögum og í hitteðfyrra hvar hvassast á mánudögum - eins og nú. Þá var munur milli daga hins vegar lítill að öðru leyti en því að langhægast var á laugardögum. 

Sannleikurinn er auðvitað sá að veðrið „veit ekki“ hvaða dagur vikunnar er - eða er alla vega alveg sama. Aftur á móti er bylgjugang vestanvindabeltisins þannig háttað að hver meginbylgja er oft 4 til 7 daga að fara hjá á leið sinni - ekki er það þó nægilega reglulegt til að á sé byggjandi.


Óvenjuleg lægð

Nú er „óðalægð“ (tilraunaþýðing á enska hugtakinu „bomb cyclone“) á leið um Nýfundnaland. Spár gera ráð fyrir að þrýstingur í lægðarmiðju fari niður fyrir 935 hPa, og e.t.v. niður fyrir 930 hPa. Þetta er óvenjulegt hvar sem er við Atlantshaf, en þó enn óvenjulegra á þessum slóðum heldur en hér við land. Þar að auki er nú kominn marsmánuður - og almennt minnka líkur á svo lágum loftþrýstingi þegar komið er nærri jafndægrum. 

w-blogg120322a

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 síðdegis á morgun (sunnudag 13. mars). Lægðin á þá að vera við strönd Labrador, um 931 hPa í miðju. Ekki er víst að hún fari yfir veðurstöð þar sem þrýstingur er mældur reglulega, en fræðarar vestra telja ekki óhugsandi að kanadíska lágþrýstimetið (fyrir allt árið) verið slegið. Það er nú 940,2 hPa, sett 20.janúar 1977. (Upplýsingar um þetta met má rekja til Christopher Burt - hins þekkta metaskrásetjara). 

w-blogg120322d

Hér má sjá tillögu japönsku veðurstofunnar um metlægðina 1977. Hún er talin hafa verið um 934 hPa í miðju, en lægst mælt 940,2 hPa eins og áður sagði. Lægðin er mjög kröpp - og mælingar gisnar. 

Lægðin fer síðan frá Labrador til Grænlands. Þar er líka þrýstimet í hættu. Samkvæmt upplýsingum frá dönsku veðurstofunni (dmi.dk) er lægsti þrýstingur sem mælst hefur á Grænlandi 936,2 hPa. Hefur mælst tvisvar, í desember 1986 og í janúar 1988. Ritstjóri hungurdiska er þó ekki viss um að þrýstimetaskrá dönsku veðurstofunnar nái nema aftur til 1958 - hugsanlega leynast lægri gildi í eldri gögnum. 

w-blogg120322b

Kortið sýnir spá sem gildir kl. 6 á mánudagsmorgni 14.mars. Lægðin er þá samkvæmt spánni um 932 hPa í miðju - og mun höggva nærri Grænlandsármetinu - hvert marsmetið þar er liggur ekki á lausu - í bili að minnsta kosti - líklega verður það slegið. 

w-blogg120322c

Hér má sjá stöðuna í janúar 1988 þegar Grænlandslágþrýstimetið var sett. Ekkert stórlega ólíkt stöðunni nú. 

Svo virðist sem lægri tölur séu algengari við Ísland - og enn algengari yfir hafinu suðvestur og suður af landinu. Minnisstæð er auðvitað lægðin mikla 8. febrúar 1959 þegar togarinn Júlí fórst á Nýfundnalandsmiðum. 

w-blogg120322e

Sú lægð var enn dýpri heldur en þessar sem nefndar voru hér að ofan, japanska greiningin setur miðjuþrýstinginn í 924 hPa. 

Eins og áður sagði eru flest árslágþrýstimet á okkar slóðum sett í mánuðunum desember, janúar og febrúar. Tíðni þrýstings undir 945 hPa minnkar mjög í mars og eftir 1.apríl er slíkur lágþrýstingur sárasjaldgæfur. 

Við skulum nú rifja upp lægsta þrýsting í mars á Íslandi. Hann er 934,6 hPa. Kannski ekki nákvæmur nema upp á um 1 hPa en trúverðugur. Þótt bandarísku endurgreiningunni skjöplist oft á lágum þrýstingi nær hún þessu tilviki nokkuð vel - alla vega sú sem kölluð er v2c (v3 - sem er nýrri nær dýpt lægðarinnar heldur síður). 

w-blogg120322g

Línur sýna hæð 1000 hPa-flatarins - en auðvelt er að reikna sjávarmálsþrýstinginn út frá henni. Lægðarmiðjan um 933 hPa - mjög nærri tölunni í Reykjavík. Dagblaðið Vísir sagði: „Loftþyngdarmælir stóð svo lágt í morgun, að miðaldra menn muna ekki annað eins“.

Á 19.öld er vitað um eitt tilvik með lægri þrýstingi en 940 hPa hér á landi í mars, 937 hPa á Ketilsstöðum á Völlum 5. mars 1834. Gallinn er sá að við vitum ekki nákvæmlega hæð lofvogarinnar (þó er giskað). Það er hins vegar ljóst að þrýstingur var í raun mjög lágur þennan dag, mældist þá 944,7 hPa í Reykjavík (nokkuð áreiðanlegt). 

Þann 8.mars 1851 mældist þrýstingur á Akureyri 941,9 hPa þann 8.mars. Þennan sama dag var mælt bæði í Reykjavík og Stykkishólmi. Mjög lágur þrýstingur var á báðum stöðum, en Akureyrartalan er samt ekki alveg trúverðug í samhenginu - vonandi tekst að kanna hana nánar. 

Lægsti þrýstingur hér á landi í mars eftir 1913 er 942,0 hPa sem mældust á Keflavíkurflugvelli þann 22. árið 1994.

w-blogg120322f

Hér má sjá að evrópureiknimiðstöðin giskar á að þrýstingur í lægðarmiðju hafi farið niður í 939 hPa - rétt suðvestur af landinu. 

En þó lægðin mikla nú verði farin að grynnast þegar armar hennar ná hingað er samt gert ráð fyrir umtalsverðri úrkomu og hvassviðri af hennar völdum á mánudag. Síðan koma nokkrir dagar með möguleika á snörpum veðrum í kjölfar hennar. Minni lægðir, en geta orðið krappar og þar með skeinuhættar þar sem þær fara yfir. Umhleypingatíðin heldur því áfram - þó hiti sé nú talsvert hærri en var í illviðrakaflanum í febrúar. 

Lægsti þrýstingur í mars á Íslandi (tafla) í viðhengi:


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
***VILLA:*** DBD::Pg::db selectall_arrayref failed: ERROR: remaining connection slots are reserved for non-replication superuser connections CONTEXT: parallel worker at /home/webdba/perl5/site-perl/DBD/Mbl.pm line 269. Stack: [/home/webdba/perl5/site-perl/DBD/Mbl.pm:269] [/home/webdba/mason/bmm/lib/data/column/photos-recent-box:32] [/home/webdba/mason/bmm/lib/column/photos-recent-box:28] [/home/webdba/mason/bmm/lib/column/photos-recent-box:29] [/home/webdba/mason/bmm/lib/process_div_tree:36] [/home/webdba/mason/bmm/lib/process_div_tree:23] [/home/webdba/mason/bmm/lib/ah/default:214]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 11
  • Sl. sólarhring: 157
  • Sl. viku: 1932
  • Frá upphafi: 2412596

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1685
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband