Bloggfærslur mánaðarins, mars 2022

Fyrstu 10 dagar marsmánaðar

Eftir kaldan febrúar bregður svo við að fyrstu 10 dagar marsmánaðar hafa verið fremur hlýir. Meðalhiti í Reykjavík er +1,5 stig, +1,2 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, og +0,8 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu 10 árin. Dagarnir tíu eru í áttundahlýjasta sæti (af 22) á þessari öld. Hlýjastir voru dagarnir tíu árið 2004, meðalhiti þá +6,3 stig, en kaldastir voru þeir 2009, meðalhiti -2,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 45. hlýjasta sæti (af 150). Á því tímabili var hlýjast 2004, en kaldast 1919, meðalhiti þá -9,9 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga marsmánaðar +2,4 stig, +3,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, og einnig +3,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Þetta er næsthlýjasta marsbyrjun aldarinnar á þeim slóðum, en kaldast hefur verið við Faxaflóa, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og á Suðurlandi. Á þessum slóðum eru dagarnir þeir sjöttuhlýjustu á öldinni.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, mest við Mývatn, þar sem hitavikið er +4,2 stig. Að tiltölu hefur verið kaldast á Skagatá, þar er hitavikið +0,4 stig.

Úrkoma hefur mælst 95,3 mm í Reykjavík það sem af er mánuði, er það meir er þreföld meðalúrkoma sömu daga, það mesta á öldinni og hefur aðeins einu sinni mælst meiri sömu almanaksdaga. Það var 1931 (101,3 mm). Á Akureyri hefur úrkoma hins vegar aðeins mælst 4,3 mm (þó ekki met).

Sólskinsstundir hafa mælst 24,5 í Reykjavík og er það lítillega undir meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 21,3 og er það nærri meðallagi.


Hitahógvær mars á síðari árum

Það hefur komið gömlum veðurnördum nokkuð á óvart hvað mars hefur verið hógvær á hitaöfgar síðustu árin - þó oft hafi hins vegar blásið nokkuð. Í barns- og unglingsminningu var mars landnyrðingsnæðingamánuður hinn mesti - eða þá í undantekningartilvikum vorboði (raunar þá oftar en ekki með falsfréttir). 

w-blogg030322a

Línuritið sýnir ágiskaðan landsmeðalhita í mars - síðustu 200 árin eða svo. Ekki eru reikningar þó nákvæmir lengi framan af. Það hefur hlýnað heil ósköp í mars frá 19.öld - þrátt fyrir allgóðan hlýindakafla um miðja þá öld. Á hlýindaskeiði 20. aldar komu líka margir mjög hlýir marsmánuðir - en líka allmargir töluvert kaldir. Enginn verulega kaldur mars hefur sýnt sig frá 1979 að telja og enginn kaldur frá því rétt eftir síðustu aldamót. 

En það hefur líka verið skortur á mjög hlýjum marsmánuðum. Það var hlýtt í mars 2012 (en síðan eru - flestum að óvörum - liðin 10 ár). Síðan var mjög hlýtt í mars 2003 og 2004 - en þá hafði lítið borið á hlýjum marsmánuðum í 30 ár - allt frá þeim ofurhlýja 1974. Á hlýskeiðinu áðurnefnda voru hins vegar hátt í 10 marsmánuðir svo hlýir að við höfum ekki séð slíkt næstliðinn áratug (en líka fjöldi kaldra). 

Hvenær skiptir svo um? Engin ástæða er til að halda að hógværð síðasta áratugar sé eins konar varanlegt ástand - það hefur bara ekki hitt í - mikil vindáttavik hefur „skort“. Því það er eins með mars og við minntumst á með febrúar á dögunum að „skýra“ má meðalhita mánaðarins með einföldum stikum vindátta í háloftunum. 

w-blogg030322c

Tíðni sunnanátta og hæð 500 hPa-flatarins ráða meiru en styrkur vestanáttanna. Lárétti ásinn sýnir ágiskaðan hita, en sá lóðrétti þann sem við höfum mælt. Samræmið er nánast undragott (fylgnistuðull 0,88). Hér eru háloftavísar úr evrópsku endurgreiningunni notaðir. Ritstjórinn hefur líka reiknað sams konar samband fyrir bandarísku greininguna. Efnislega munar engu (fylgnistuðull sá sami) - en þó er nokkur munur á giski í einstökum marsmánuðum, sérstaklega fyrir upphaf háloftaathugana - er við slíku að búast. Svo er líka nokkur óvissa í reikningi á landsmeðalhitanum. 

Það er kaldast neðst til vinstri á myndinni - þar er ekki nokkurn nýlegan marsmánuð að finna - og svipað má segja um hlýindin efst til hægri - við borð liggur að hlýjasti mars þessarar aldar (2004) liggi inni í þéttu skýi með öðrum - 1929 og 1964 langt þar fyrir ofan. 

Við megum taka eftir því að nýlegir mánuðir eru fleiri ofan aðfallslínunnar heldur en neðan hennar. Þetta bendir til almennrar hlýnunar - einhvers sem þessi einfalda tölfræðiaðferð nær ekki til. Norðanáttir eru t.d. orðnar töluvert hlýrri heldur en lengst af hefur verið. 

Nú ber svo við að evrópureiknimiðstöðin spáir hita yfir meðallagi næstu vikur - við getum að sjálfsögðu ekki treyst því að rétt reynist. 


Smávegis af febrúar

Meðan við bíðum eftir tölum Veðurstofunnar lítum við á meðalstöðuna í háloftunum í febrúar.

w-blogg010322a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Jafnþykktarlínur eru strikaðar (mjög daufar), en þykktarvik eru sýnd í lit. Bláu litirnir eru kaldir, en gulir og brúnir hlýir. Við sjáum að þykktin yfir Íslandi var um -50 metra undir meðallagi. Neðri hluti veðrahvolfs því um -2,5 stigum kaldari en að meðallagi 1981 til 2010 (viðmiðunartímabil þessa korts). Mánuðurinn var ýmist næstkaldasti eða þriðjikaldaski febrúar á öldinni hér á landi. Við sjáum að kaldast - að tiltölu - var vestan við Grænland. Að sögn dönsku veðurstofunnar var óvenjukalt og úrkomusamt í Nuuk. Vindrastir háloftanna voru að mestu fyrir sunnan við Ísland - en þó var suðlæg átt ríkjandi í miðju veðrahvolfi yfir landinu. Þrýstingur var vel undir meðallagi og sömuleiðis voru háloftafletir lægri en venjulega, 500 hPa-flöturinn um 150 metrum neðar en að meðaltali, en hefur fjórum til fimm sinnum staðið neðar en nú frá upphafi háloftaathugana, meðaltalið yfir miðju landi var nú 5103 metrar. Á fyrstu starfsárum ritstjóra hungurdiska á Veðurstofunni höfðu svona lág meðalgildi aldrei sést í febrúar - allt frá því háloftaathuganir hófust. Febrúar 1989 kom honum því mjög á óvart - meðalhæðin þá var aðeins 5071 metri - og í febrúar árið eftir 5044 metrar - þótti honum þetta mikil tíðindi. Síðan komu 5069 metrar 1997, 5104 metrar í febrúar 2000 og 5085 metrar árið 2020. Síðustu 30 ár hafa því verið allt öðru vísi hvað þetta varðar heldur en 40 árin þar næst á undan. Eitthvað er með öðrum hætti. 

w-blogg010322b

Myndin sýnir þykktarvik þeirra fjögurra febrúarmánaða sem líkastir eru þeim nýliðna. Rétt að benda á að viðmiðunartímabil vikanna er öll 20. öldin í 3 eldri mánuðunum - það breytir þó ekki stóru. Við sjáum að jafnhæðarlínur liggja afskaplega svipað í þessum mánuðum öllum - þeir eru hins vegar aðeins miskaldir suðvestan- og vestan Íslands. 

Mánuðirnir allir fá svipaða dóma - fréttir áberandi af vondri færð og hrakningum:

[2020]: Tíð var óhagstæð og fremur köld. Úrkomusamt var á Norður- og Austurlandi. Samgöngur riðluðust margoft vegna óveðurs. 

[2000]: Umhleypingasamt og snjór óvenju þrálátur á jörð á Suður- og Vesturlandi og tíð þar talin erfið. Óvenju mikið var um samgöngutruflanir á höfuðborgarsvæðinu.

[1997]: Tíðarfar var fremur erfitt, veður rysjótt og víða var mikill snjór, einkum undir lok mánaðarins.

[1989]: Slæm tíð og stormasöm. Snjóþungt víðast hvar.

Í bleytuhríðinni í gær (mánudaginn 28. febrúar) fékk ritstjóri hungurdiska einhverja óskiljanlega apríltilfinningu - honum fannst sem þetta væri aprílhríð - en ekki á góu. Ekki nóg með það - þegar hann horfði á spákort morgundagsins (2.mars)

w-blogg010322c

datt honum í hug annað kort - sama dag fyrir 59 árum (2.mars 1963):

w-blogg010322d

Ekki eins - auðvitað - en ákaflega svipað. Samt er samhengið allt annað. Febrúar 1963 var gjörólíkur nýliðnum febrúar. Það var að vísu ekki alveg snjólaust - en nálægt því. Austlægar og norðlægar áttir voru ríkjandi lengst af - en síðasta vikan var nokkuð rysjótt og hvassviðrasöm - en ekki með hríðarveðri. Marsmánuður var allur meira og minna mildur og hagstæður - austanáttin gaf sig ekki. 

Nú er annað uppi, mikill snjór og krapaelgur á jörðu - miklu harðara veður - og umhleypingum spáð í mars. En höfum í huga að mars veit í rauninni ekki neitt af febrúar - hann er meir og minna frír og frjáls.

w-blogg010322e

Þessi mynd sýnir þetta. Lárétti ásinn sýnir meðalloftþrýsting í febrúar (í 200 ár), en sá lóðrétti í mars sama ár. Ártölin eru merkt - (og má sjá þau sum sé myndin stækkuð). Ekkert veit mars af þrýstingi í febrúar. Við sjáum t.d. lengst til hægri og neðantil árið 1986 - þá var þrýstingur hár í febrúar - en sérlega lágur í mars. Aldamótaárið 1900 var þrýstingur hár bæði í febrúar og mars - en 1989 (sem við minntumst á hér að ofan) var þrýstingur í mars líka lágur - það ár er í hópi með fáeinum öðrum (1832, 1868 og 1903) neðarlega til vinstri á myndinni. Hvar kemur mánaðaparið sér fyrir í ár (2022)? Við vitum nú þegar að það verður vel vinstra megin (meðalþrýstingur í febrúar var 988,5 hPa).  


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 34
  • Sl. sólarhring: 138
  • Sl. viku: 1783
  • Frá upphafi: 2348661

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1562
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband