Hugsað til ársins 1926

Við rifjum nú upp helstu veðuratburði ársins 1926. Hlýskeiðið sem við kennum við 20. öld nýhafið - en af því vissi þó enginn. Minnisstæðir veðuratburðir voru margir og fjölbreyttir. Hér verður stiklað á stóru. 

Þetta var tímamótaár í sögu Veðurstofunnar. Hún varð sjálfstæð stofnun 1. júlí og þangað kom til starfa fyrsti veðurfræðingurinn, Jón Eyþórsson. Móttaka veðurskeyta frá útlöndum jókst og farið var að teikna fleiri og ítarlegri veðurkort en verið hafði. Þ.1. nóvember var í fyrsta sinn farið að skipta landinu upp í spásvæði (8) og veðurspá látin ná til sólarhrings en ekki aðeins til næsta dægurs (dags eða nætur). Veðurspám var þannig dreift að símstöðvar fengu veðurspá fyrir sitt hérað og nágrannahéruðin. 

Fyrstu tveir mánuðir ársins fengu góða dóma til landsins en oft var ógæftasamt. Mjög snjólétt var á Suður- og Vesturlandi. Í mars var talsverður snjór framan af, en mjög hagstæð tíð í apríl. Kuldahret gerði í maí, en júní var almennt hagstæður. Upp úr því lagðist í rigningar, talið með verri rigningasumrum á Suðurlandi, og norðaustanlands varð tíð mjög einnig stirð þegar á leið. Haustið var kalt, sérstaklega október. Snjóþyngsli voru nyrðra. Desember var illviðra- og umhleypingasamur. Skástur austanlands. Síðla sumars og um haustið gekk mikil jarðskjálftahrina yfir Reykjanestá - einskonar framhald á hrinu árið áður.

Fyrstu mánuðir ársins voru stórtíðindalitlir. Snjóleysi á Hellisheiði þótti þó tíðindum sæta um miðjan janúar og fyrir miðjan janúar féll skriða á Akureyri, líklega þann 12. Dagsetningar er þó ekki getið í flestum fréttum:

Dagur segir frá 4. mars:
Skriðuhlaup á Akureyri. Fyrir nokkru féll skriða úr brekkunni í suðurbænum og gerði talsverðar skemmdir á húsi þeirra Aðólfs Kristjánssonar og Jónasar Franklíns [Morgunblaðið (11.febrúar) segir þetta hús vera númer 20 við Aðalstræti]. Brotnaði skúr er stóð að húsbaki, gluggar er að brekkunni sneru og urðu talsverðar skemmdir innan húss. Hafði vatn hlaupið úr skurði uppi á brekkunni og losað um jarðveginn uns fylla allmikil, ásamt snjó, hljóp fram. Dagur hefir áður bent á, að hús þau er undir brekkunni standa eru meira og minna háð þeirri hættu, að brekkan hlaupi fram og valdi skemmdum og jafnvel slysum. Þurfa forráðamenn bæjarins að gefa því máli gaum.

Það er enn svo að gefa þarf skriðuhlaupum á Akureyri gaum - þó sjaldgæf séu. Sjóslys voru tíð á árinu, hvað eftir annað fórust menn og bátar en ekkert eitt skaðaveður sker sig úr. Afi ritstjóra hungurdiska drukknaði í stórbrimi í sjóróðri frá Grindavík 14. mars ásamt 9 mönnum öðrum. 

Fyrri hluti mars var nokkuð snjóþungur, ekki síst á Suðurlandi. Tvær fréttir eru dæmigerðar: 

Morgunblaðið 9.mars: Austan úr Mýrdal var Mbl. símað í gær, að þar væri snjókyngi svo mikið, að samgöngur um sveitina mættu kallast að mestu tepptar. Pósturinn, sem er á norðurleið, hefir verið 3 daga tepptur í Vík; er Mýrdalssandur talinn ófær og vötn öll svo spillt, að ógerningur er að komast yfir þau.

Ísafold 10.mars: Snjóþyngsli allmikil eru austur í sveitum nú. Keyrði mikinn snjó þar niður á föstudag sl. [5.mars] , svo að nú er þar nærri hnésnjór á láglendinu. Sömu snjóþyngsli eru austur í Mýrdal.

Snjódýpt mældist 54 cm í Vík í Mýrdal þann 7. og 42 cm á Stórhöfða í Vestmanneyjum þann 9. 

Snjóinn tók að mestu upp um miðjan mánuð, þó allmikið hríðarveður gerði norðanlands undir lok mánaðar. Getið var um fjárskaða. Alautt var í Reykjavik allan apríl. Einn alhvítur dagur var hins vegar í maí í Reykjavik (9.) - og síðan varð alhvítt að morgni 9. september. Samfelldar snjóathuganir hófust í Reykjavík í janúar 1921. Síðan þá hafa aldrei liðið jafnfáir dagar á milli síðasta alhvíta dags að vori og þess fyrsta að hausti og var 1926, 122 dagar. Meðaltalið er 205. 

Maíhríðin var nokkuð snörp og olli einhverjum fjársköðum á Suðurlandi og norðanlands varð foktjón og skemmdir urðu í höfnum. Flest bendir til þess að mjög kalt háloftalægðardrag hafi komið úr norðvestri eða vestri yfir Grænland og lægð tengd því síðan grafið um sig skammt fyrir suðvestan land. [Minnir ritstjóra hungurdiska á kast upp úr miðjum apríl 1971 - kannski verður fjallað um það hér síðar]. 

Slide1

Bandaríska endurgreiningin giskar á stöðuna í háloftunum í þessu veðri. Kalt lægðardrag er við Vesturland og lægð er þar að grafa um sig. 

Slide2

Þann 10. var lægðin orðin alldjúp (endurgreiningin vanmetur þó dýpt hennar). 

Dagblað segir 12.maí: 

Aðfaranótt sunnudagsins (9.maí) skall á norðanhríð, einhver sú mesta sem komið hefir um langt skeið. Veðurhæðin var ekki ýkja mikil en snjókoman mjög mikil og nokkurt frost. Hélst veðrið allan sunnudaginn og fram á næstu nótt án þess að nokkurn tíma rofaði til. Telja má víst að þetta veður hafi valdið miklu tjóni víðsvegar um land þótt ljósar fregnir séu ekki komnar um það ennþá. Hefir þegar frést um mikla fjárskaða hér sunnanlands, en annars vita menn ekki ennþá um hve mikið fé hefir farist, því það var komið víðsvegar vegna hins ágæta tíðarfars sem verið hefir í alt vor. Hefir féð bæði fennt og hrakið i ár og sjó og eru t.d. ljótar sögur sagðar austan úr Árnessýslu um að fé hafi farist þar í hópum í ám og lækjum, þótt vonandi séu þær sagnir eitthvað orðum auknar. — Í Álfsnesi á Kjalarnesi hröktu um 30 ær í sjóinn og einnig kvað margt fé hafa farið i Leirvogsá og aðrar ár þar upp frá.

Þilskipið Hákon héðan úr Reykjavik strandaði á sunnudagsnóttina fram undan Grindavík, og björguðust mennirnir við illan leik eftir 9 tíma volk í skipsbátnum. Vegna veðursins sáu þeir ekki hvar landtaka var möguleg og lentu um síðir í vör rétt hjá Reykjanesvita allmjög þjakaðir, en þó sjálfbjarga, þótt lending væri vond, og var þeim ágætlega tekið hjá vitaverði og voru þar næstu nótt. Einnig hefir frést um skemmdir á skipum norðanlands, og á Eyrarbakka brotnaði einn bátur í lendingu og fleiri voru hætt komnir. Ekkert manntjón hefir orðið af völdum veðursins svo frést hafi.

Ísafold segir 15. maí: 

(Símtal við Ölfusá 12. þ.m. - (þéttbýlið Selfoss var ekki komið til sögunnar)) Það var við því að búast, því miður, að fregnir ættu eftir að berast hingað um fjárskaða af völdum hríðarveðursins, sem svo snögglega skall á, aðfaranótt sunnudags s.l. Og því miður lítur út fyrir, að fjárskaðarnir hafi orðið all tilfinnanlegir sumstaðar, einkum í Árnessýslu neðanverðri. Ísafold átti tal við Ölfusá nýlega, til þess að spyrjast fyrir um fjárskaðana. Vantar enn fjölda fjár í Flóa, Ölfusi og Grímsnesi. Féð hafði hrakið í skurði og gil, og hefir verið að finnast þar ýmist dautt, hálfdautt eða lifandi. Enn er ekki unnt að segja neitt «m það með fullri vissu, hversu mikil brögð eru að fjársköðum þar um slóðir. En á sumum bæjum hefir þegar komið í ljós, að þeir eru æði miklir. T.d. á einum bæ Völlum í Ölfusi, hafa fundist milli 20—30 kindur dauðar í Forunum, og vantar enn annað eins frá sama bæ. Á öðrum bæ Árbæ í sömu sveit, vantar 30 kindur á flestum bæjum eitthvað. Á Oddgeirshólum í Flóa, hafa fundist 16 kindur dauðar og vantar enn fleiri frá sama bæ. Á mörgum bæjum hafa fundist 3—10 kindur dauðar, og víða vantar enn margt fé. Einstaka bæir hafa heimt alt sitt, en þeir eru mjög fáir. Úr uppsveitum Árnessýslu eru enn óljósar fregnir komnar, en margt fé hafði vantað þar, þegar síðast fréttist.

Morgunblaðið 21. maí: 

Stórfenglegar sögur hafa gengið hér í bænum undanfarið um mikinn fjárskaða í Grímsnesi, er átt hefði að vera í bylnum á dögunum. — Sem betur fer, eru sögur þessar tilhœfulausar. Mbl. átti í gær tal við bónda úr Grímsnesi, og sagði hann, að fjárskaðar þar um slóðir hefðu orðið mjög litlir; aðeins fáar kindur á einstaka bæ.

Morgunblaðið 12. maí:

Akureyri F.B. 10. maí. Skaðar á skipum og bátum. Ofsarok gerði hér í nótt á norðvestan, og olli talsverðum skemmdum á skipum og bátum á höfninni. Eitt skip rak á land lítið skemmt. Vélbátur sökk. Annar brotnaði í spón. Síld eyðilagðist í kastnótum.

Verkamaðurinn 18.maí:

Í sunnudagstorminum urðu víða spjöll á eignum manna. Á Siglufirði fuku tvö hús, sem voru í smíðum; símastaurar brotnuðu og rafljósakerfið skemmdist svo, að ekki er búist við að það komist í lag fyrr en eftir langan tíma. Víðar að hefir og frést um nokkrar skemmdir.

Slide5

Hríðin 9. september var minni. Mjög kalt lægðardrag kom úr vestsuðvestri frá Grænlandi sunnanverðu og gekk síðan saman við kuldapoll norrænnar ættar. Endurgreiningin sýnir aðalatriðin líklega allvel. 

Slide6

Myndin sýnir kort Veðurstofunnar að morgni þess 9. Þá snjóar í Reykjavík. Úrkomusvæðið gekk síðan til austurs. Autt var fyrst um morguninn í Húnavatnssýslu, en alhvítt var um miðjan dag - síðan tók af. 

Vísir segir frá 9.september: „Snjó festi aðeins hér í bænum í nótt“.

Vísir 10.september:

Alsnjóa var í Þingvallasveit í gærmorgun og langt fram á dag, en ökklasnjór á Mosfellsheiði, að sögn manna, sem að austan komu í gær.

Íslendingur á Akureyri segir að þar hafi líka orðið alsnjóa um hádegi þann 10. september. Víða varð alhvítt á veðurstöðvum, jafnvel um miðjan dag þann 9. Þann dag heyrðust þrumur á Eyrarbakka, í Vík í Mýrdal og Hraunum í Fljótum. Loft greinilega mjög óstöðugt. 

Ritstjóri hungurdiska bað oft gamla borgfirska bændur um að nefna við sig verstu rigningasumrin sem þeir mundu eftir. Flestir voru sammála um að 1955 og 1913 væru þau verstu, en nefndu einnig 1926, 1937 og 1947. Sumarið 1926 varð einnig mjög endasleppt í heyskap norðanlands. Lagðist þar í rigningar í ágúst svo segja mátti að óþurrkarnir næðu um mestallt landið. Mesta vatnsveðrið gerði þó dagana 23. til 25. Þá urðu margvíslegar skemmdir vegna flóða og skriðufalla. því miður voru úrkomumælingar heldur rýrar norðanlands, t.d. engar í Eyjafirði, en mikið rigndi í Fljótum og austur í Bakkafirði þar sem voru alláreiðanlegar mælingar. Blöðin birtu fréttir af tjóni. Páll Jónsson, veðurathugunarmaður á Grænavatni í Mývatnssveit, segir að þann 24. hafi verið dæmafátt vatnsveður. Víða snjóaði í fjöll og sömuleiðis undir lok mánaðarins. 

Slide3

Veðráttan segir að lægð að vestan hafi dagana 22. til 25. gengið austur eftir sunnanverðu landinu og austur fyrir það. Fyrri 2 dagana hafi verið suðlæg átt sunnanlands en austan og norðaustan norðanlands. Síðan hafi hann allstaðar snúist í norðrið. Kortið sýnir veðrið að morgni þess 24. Þá er lægðin yfir landinu austanverðu og úrfellið í hámarki fyrir norðan. 

Slide4

Um kvöldið var lægðin komin austur fyrir land. Mjög hvöss norðanátt var vestan við lægðarmiðjuna, eins og glögglega sést á bandarísku endurgreiningarkorti. 

Morgunblaðið 29. ágúst:

Skemmdir af vatnavöxtum. Á þriðjudagsnóttina var og þriðjudaginn (24. ágúst) gerði hið mesta foraðsveður á Norðurlandi. Hljóp þá svo mikill vöxtur í Eyjafjarðará, að hún flæddi yfir hina svokölluðu Hólma og tók þaðan allt hey, sem þar var, bæði bæjarbúa og sveitarmanna. Þá flæddi hún og yfir Staðarbyggðarmýrar og bar þangað leir og sand, svo talið er að engi sé þar ekki sláandi. Í Svarfaðardal fór á sömu leið. Áin flæddi þar yfir svonefnda Bakka, geysimikið engjasvæði, og tók allt hey, sem þar var og ónýtti allt sem óslegið var. Nemur tjónið af þessu gífurlega miklu í hey- og engjatapi.

Skriðuhlaup. Í sama veðri varð skriðuhlaup í Eyjafirði og ónýtti mjög tún og engjar á þrem bæjum, Möðruvöllum, Kálfagerði og Helgastöðum.

Dagur 26.ágúst:

Ofsaveður og stórrigningu af norðri gerði á þriðjudagsnóttina var. Er langt að minnast slíks úrfellis og slíkrar veðurhæðar í norðanátt. Ár allar umhverfðust sem þá er leysing verður mest á vordaginn. Skaðar miklir hafa orðið af völdum skriðufalla og vatnavaxta í óveðrinu síðastliðinn þriðjudag. Vötn æstust svo mjög, að jafnvel tók yfir það, sem mest verður á vordaginn. Í hólmum Eyjafjarðarár og engjum meðfram henni flutu burt öll þau hey er laus voru, en það spillist, sem eftir sat. Nokkuð af heyi situr í röstum við brautina og stíflugarða engjanna og á þar hver sinn skerf í sameiginlegri bendu. Engjaskemmdirnar tóku þó heyskemmdunum fram. Þverárnar úr fjöllunum beggja megin héraðsins urðu hamslausar en skriður urðu lausar og ultu þverárnar og svo sjálf Eyjafjarðará fram þykkar af leir og sandeðju. Barst leirinn og sandurinn um allar engjar þær er undir vatn komu, en svo mátti telja að hólmar og engjar inn af botni fjarðarins yrðu samfelldur flói. Mikill hluti engjanna er því talinn óvinnandi á þessu sumri. — Skriðuhlaup urðu víða hér í grennd. Hefir blaðið heyrt um þessar skemmdir af völdum þeirra: Á Helgastöðum í Eyjafirði hljóp skriða á túnið og tók af nálægt þriðjungi þess. Á Möðruvöllum (fram) og Kálfagerði hljóp skriða og urðu af miklar skemmdir á engjum. Þá hefir og heyrst að skriður hafi hlaupið í Öxnadal og Hörgárdal, en ekki hafa borist um það greinilegar fregnir.

Íslendingur 27. ágúst: 

Aðfaranótt þriðjudagsins (24. ágúst) brast á aftaka norðaustanveður með afspyrnuúrfelli. Urðu af veðri þessu hin mestu spjöll til lands og sjávar. Ár allar runnu fram með feikna vatnsgangi og aurburði, gerði skaða á slegnu grasi og óslegnu. Þverá í Garðsárdal braut varnargarð, sem nýgerður var norðan við farveg hennar, og flæddi yfir engi Kaupangssveitar, og gerði á þeim illan usla. Munkaþverá óx svo, að flæddi inn í rafstöðvarbyggingu Munkaþverár, svo að aflvélarnar stöðvuðust. Tekur það tíma langan og tilfinnanlegan kostnað að koma því í lag aftur. Eyjafjarðará flæddi yfir flæðiengi bæjarins norðan Staðareyjar, og verða engjaleigjendur fyrir stórtjóni af völdum þess. Allvíða hlupu fram aurskriður, og eyðilögðu að meiru og minnu engjar og tún. Urðu allmiklar skriðuhlaupsskemmdir á engjum Möðruvalla í Eyjafirði og Kálfagerðis. Um þriðjungur af túni Helgastaða í Eyjafirði eyðilagðist og þannig. Heyrst hefir og, að skemmdir hafi orðið af skriðum í Öxnadal og Hörgárdal, en af því hafa ekki nánar fregnir fengist. Á Steindyrum á Látraströnd hljóp stór skriða og eyðilagði mikinn hluta af enginu og er álitið, að fé hafi farist í þeirri skriðu. Norskt síldveiðiskip rak á land nálægt Staðarhóli austan Siglufjarðar, og er talið eyðilagt. Við Skagaströnd hafði færeyskt veiðiskip nær rekið á land, en Helga Magra tókst við illan leik að ná mönnunum, og kom þeim til Siglufjarðar. Bátar misstu reknet sín, og snurpuskip báta og björguðust nauðuglega.

Verkamaðurinn 29. ágúst:

Aðfaranótt þriðjudagsins síðasta gekk yfir Norðurland ofsa norðaustan stormur, með afskaplegu regni. Var sem náttúran öll færi berserksgang. Hafrótið var eins og mest er i haustgörðum. Veður þetta olli miklum skemmdum á landi og sjó og áttu margir von á mannskaða. Drifneta bátarnir voru flestir úti. Misstu þeir sumir netin algerlega. Hjá öðrum skemmdust þau mikið. Sumstaðar, þar sem skipin lágu í höfn, urðu þau að hafa vélar i gangi. Vélskipið Lottie var statt hér úti í fjarðarmynninu, er veðrið skall á. Vél þess var eitthvað í ólagi. Hrakti það undan sjó og vindi og var nærri komið upp í Hvanndalabjörg. Helgi magri bjargaði skipshöfn af færeyskum kútter, er var að reka á land vestur við Skagaströnd og fleiri skip voru nauðuglega stödd. Nokkur misstu bátana. Flóðbylgjan var svo mikil að sjór gekk langt á land upp.

Hér flóði yfir stóran hluta Oddeyrarinnar. Fiskstakkar á reitunum stóðu í sjó og blotnuðu og við lá að flóðið gengi inn í kjallara i sumum húsunum. Frammi í Eyjafjarðarhólmnum var mikið af slegnu heyi úti. Sópaðist það allt í burt og er þar um mörg þúsund króna skaða fyrir bæinn að ræða. Skriður féllu viða úr fjöllum og eyðilögðu engjar.

Slide10

Í septemberhefti Veðráttunnar (og blöðum) er getið um ferð sem listmálararnir Tryggvi Magnússon og Finnur Jónsson fóru yfir hálendið dagana 17. ágúst til 15. september. Þeir gengu sunnan af Landi á Rangárvöllum norður óbyggðir til Fnjóskadals. Veðurskýrslu sendu þeir Veðurstofunni og sýnir myndin aðra síðu hennar - nokkuð snjáða sem vonlegt er. Athugið að dagsetningarnar á efri hluta blaðsins eiga við september, en þær á neðri hlutanum segja frá ágústmánuði. Þann 11. september lentu þeir í umbrotafæri og hríð, snjór í kálfa. Þá voru þeir á Sprengisandi, vestan við Tungnafellsjökul og sunnan Fjórðungskvíslar.

Slide12

Eins og áður sagði var sérlega kalt í október. Á landsvísu hefur október ekki orðið kaldari síðan. Í Reykjavík og í Stykkishólmi var október 1981 lítillega kaldari. Á Akureyri var kaldara 1981, 1980 og 1968. Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í október 1926, meðalþykkt og vik þykktarinnar frá aldarmeðaltali októbermánaðar, 

Fyrstu þrjár vikur nóvember héldu kuldinn og norðanáttin áfram, veður voru oft ill. Versta veðrið gerði dagana 4. til 9. Þá dýpkaði lægð mikið fyrir sunnan og síðan austan land - sneri síðan við og þokaðist til vesturs fyrir sunnan landið. Ýmislegir skaðar urðu í þessu veðri. 

Slide8

Bandaríska endurgreiningin virðist ná þessu veðri allvel. Lægðin um 950 hPa í miðju þann 6.nóvember. 

Vísir 10.nóvember:

Ísafirði 9. nóv. FB. Snjóflóð í Hnífsdal. Afar miklum snjó hefir hlaðið niður á Vesturlandi. Snjóflóð hafa fallið í Hnífsdal innanverðum og tekið símalínuna á kafla á milli Hnífsdals og Bolungarvíkur. Fimm hestar fórust í sama flóði. Rekið hefir bryggjutimbur í Álftafirði, og vita menn ekki hvaðan það muni komið, en giska á, að snjóflóð hafi grandað bryggju á Hesteyri. [Svo reyndist vera]. 

Morgunblaðið 11. nóvember:

Símabilanir hafa orðið alveg óvenjumiklar í ofveðrinu undanfarna daga, enda sagt, að þær muni hafa verið með þeim allra verstu, sem komið hafa á Norðurlandi. Í Skagafirði er sagður ákaflega mikill snjór, og snjóflóðahætta víða. Annað snjóflóð féll aftur í dalnum fyrir ofan Hnífsdal, og sópaði burtu símanum á allstóru svœði 12 staurar alveg horfnir. Á Lágheiði í Ólafsfirði féll snjóflóð og tók línuna á nokkuð stóru svæði. Ófrétt enn af Heljardalsheiði  og svæðinu þaðan austur fyrir Akureyri. Ísing hefir lagt á símaþráðinn víða, einkum á láglendi Norðurlands, og valdið miklum skemmdum. Þannig féllu niður allar línurnar frá Sauðárkróki, austur að Héraðsvatnaós, og margir staurar brotnuðu. Vestan við Sauðárkrók féllu línurnar niður á 4 kílómetra svæði. Á Norðausturlandi hefir veðrið (ekki verið eins afskaplegt en kaldara, og því minni ísing lagt á vírana,. Er ritsíminn í lagi £rá Seyðisfirði vestur að Hólum í Laxárdal. Verða símamenn sendir héðan norður til fullkominna aðgerða, en vænta má að ritsímasamband komist aftur á alla leið til Seyðisfjarðar, eftir einn eða tvo daga, ef veður helst gott.

Vísir 15. nóvember:

Ofsaveður og flóðgangur aðfaranótt laugardags austanlands. Á Norðfirði brotnuðu um 30 árabátar, sumir í spón, smábryggjur og sjóhús brotnuðu allmikið. Um 20 kindur týndust í sjóinn, átta skippunda fiskhlaða tók út af þurrkreiti. Á Mjóafirði týndust í sjóinn 3 árabátar og á bænum Eldleysu 15 skíppunda fiskhlaði af venjulegum þurrkreit. Fiskhlaðinn var fergður með klöppum.

Akureyri 13. nóv. FB.: Bleytuhríðar undanfarið hafa víða orðið orsök að illum búsifjum. Torfbæir flestir orðnir blautir í gegn og lekir, og sama er að segja um hlöður og peningshús. Snjóflóð hafa fallið víða og valdið skaða. Mestur skaði af völdum snjóflóðs, er til spurst hefir, var á bænum Skeri á Látraströnd. Snjóflóðið tók fjárhús með 60 kindum og heyhlöðu og 4 báta og sópaði öllu á sjó út. Aðeins 9 kindum varð bjargað. Lá við, að flóðið tæki bæinn líka. Slapp fólkið nauðulega. Hefir það nú flúið hann og búpeningurinn hefir verið fluttur á næstu bæi. Maður úr Svarfaðardal, Dagbjartur Þorsteinsson, fórst í snjóflóði á Háagerðisfjalli. Var hann á rjúpnaveiðum.

Mjög illviðrasamt var framan af desember. Þá gengu stórgerðir sunnan- og vestanumhleypingar yfir landið. Töluvert tjón varð vegna sjávargangs á Suðurnesjum og sömuleiðis á Eyrarbakka.

Slide9 

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum að morgni 6. desember. Vaxandi lægð er suðaustur af Hvarfi og stefnir í átt til landsins. Dæmigerð illviðrastaða. Nýtt tungl var þann 5. og því stórstreymt þessa daga. 

Morgunblaðið 8. desember: 

Höfnum í gær. Hér er aftakaveður og stórhríð hefir verið fyrri hluta dagsins. Brim er afskaplegt, og gekk flóðbylgja á land í morgun. Sópaði hún burtu öllum görðum og bar grjótið langar leiðir á land upp. Einn bæ, sem heitir í Görðum, skall flóðbylgjan yfir og er hann nú á kafi í sjó. Þar bjó maður, sem Vilhjálmur Jónsson heitir og er hann um sjötugt. Kl. 5 í morgun var hann vakinn upp af mönnum, sem sáu að hverju fór og mátti það ekki tæpara standa að hann bjargaðist; varð hann svo naumt fyrir, að hann gaf sér ekki tíma til að slökkva ljós í baðstofunni. Missti hann þarna alla innanstokksmuni sína og vetrarbjörg, en nokkrum kindum, sem hann átti, var bjargað á bátum úr kindakofanum og urðu menn að vaða sjóinn í mitti inni í kofunum til þess að ná kindunum. Eigi hefir enn frést af bæjum hér fyrir sunnan, en ætla má að hafrótið hafi valdið þar spjöllum líkt og hér.

Breiðabólstað á Skógarströnd í gær: Hér er versta veður og hefir verið undanfarna daga. Eigi hefir það þó valdið öðrum skemmdum hér nærlendis, svo að kunnugt sé, nema hvað þak fauk af húsi í Eyrarsveit. Nákvæmar fregnir um það hafa þó eigi borist. Fé helst illa við hér vegna storma og umhleypinga.

Sjógarður brotnar á Eyrarbakka. Í fyrrinótt og gærmorgun gerði ofsabrim á Eyrarbakka. Brotnaði sjógarðurinn vestur frá kauptúninu á um 80 faðma svæði. Þá skemmdist og bryggja allmikið, og opinn bátur brotnaði allmikið á landi upp. Í gær klukkan að ganga 6 var sagt ægilegt brim á Eyrarbakka, og bjuggust menn þó við því, að það mundi aukast með kvöldinu og í nótt sem leið. Í Grindavík höfðu einhverjar smáskemmdir orðið á sjógörðum á stöku stað. En ekki var það sagt teljandi.

Ófærð var nokkur suðvestanlands um og eftir miðjan mánuð.

Morgunblaðið segir frá  17. desember;

Í fyrrinótt voru 10 bifreiðar við Ölvesárbrú, og komust ekki yfir Hellisheiði vegna snjóþyngsla. Um 30 manns varð að gista í Tryggvaskála í fyrrinótt, og ein bifreiðin varð að fara niður á Eyrarbakka því farþegar fengu ekki inni við Ölvesárbrú, vegna þrengsla. ... Hér hefir og kyngt niður miklum snjó, svo að ferðir hafa tafist á vegum hér í kring. Fór bíll frá BSR til Hafnarfjarðar kl.11 í gærmorgun og kom ekki suður fyrr en kl. 1 3/4. Varð að moka frá honum mest alla leiðina. 

Mikil hlýindi urðu um jólaleytið og gríðarleg úrkoma sunnanlands og vestan. 

Slide11

Endurgreiningin sýnir mjög hlýjan hæðarhrygg sunnan og suðaustan við land um hádegi á annan dag jóla. Beindi hann hingað mjög hlýju og röku lofti langt sunnan úr höfum. 

Vísir 29. desember:

Skriðuhlaupið undir Eyjafjöllum. Holti undir Eyjafjöllum 28. des. Kl. 2 á aðfaranótt annars jóladags vaknaði fólkið í Ytri-Steinum við það að vatnsflóð fyllti bæinn. Svonefndur Steinalækur hafði í stórrigningu hlaupið úr farvegi og stefndi á báða bæina. Bóndinn úr Suðurbæ fór til hesthúss með dóttur sinni. Komust þau ekki heim til bæjar það sem eftir var nætur, vegna vatnsgangs og grjótburðar. Þau fundu hestana á sundi í húsinu og björguðu þeim út um þekjuna. Í uppbænum var veik kona rúmföst. Bjargaði fólkið sér og henni og húsmóðurinni í Suðurbæ upp á baðstofuþekjuna og hafðist þar lengi við. Komst þaðan með naumindum á skemmuþekju, þaðan eftir langa stund til fjárhúss, er hærra stóð. Lét þar fyrirberast uns birti, en leitaði þá nágrannabæja. Vatn og skriða fyllti bæina báða á Ytri-Steinum og jafnaði aðra baðstofuna við jörðu ásamt bæjardyrum og flestum útihúsum. Fylltust bæjarstæðin og umhverfið stórgrýti og aur, fjós fylltust og stóðu kýr þar í vatni á miðjar síður. Bæirnir eru nú hrundnir að mestu. Það sem eftir stendur er á kafi í stórgrýtisurð.

Morgunblaðið 29. desember:

Úr Mýrdal. (Símtal 28. des.). Aðfaranótt sunnudags 26. þ.m. gerði sömu asahláku í Mýrdal sem þá, er var undir Eyjafjöllum og olli tjóni á Steinabæjum. Skriða féll úr brekkunni, sem er yfir kauptúninu í Vík og skemmdi eitthvað af útihúsum, en ekki stórvægilega. Óhemju vöxtur hafði komið í Víkurá; tók flóðið nokkuð ofan af stíflu rafveitunnar, svo að ljósin slokknuðu, og var stöðvarhúsið bætt komið. — Víða féllu niður skriður úr fjöllunum við Vík og ollu töluverðu tjóni á landi.

Morgunblaðið 31. desember:

Stórflóð í Borgarfirði. Borgarnesi í gær. Á annan jóladag kom hið mesta flóð í Borgarfirðinum, er komið hefir síðan 1882 (rétt eftir nýár). Norðurárdalurinn var allur eitt beljandi straumhaf hlíða á milli. Fyrir jólin hafði kyngt niður afskaplega miklum snjó, en svo komu úrhellis rigningar um jólin og asahláka og af því komu þessir miklu vatnavextir. Tók upp allan snjó, svo að alauð varð jörð upp á heiðar, en ár allar ruddu sig, og víða tók klaka úr jörð niðri í byggð. Eigi hafa vatnavextir þessir valdið neinu tjóni á skepnum né bæjum, svo að kunnugt sé, en allmiklar skemmdir hafa þeir gert á vegum víða. Í veginn hjá Ferjukoti braut flóðið 20 faðma skarð; (vegur sá var gerður 1921—'22). Á nýja veginum í Norðurárdal urðu og talsverðar skemmdir víða, en engar brýr fóru. Svo var vatnið mikið í Norðurá að nærri lá, að hún flæddi upp í brú, og seytlaði yfir veginn austan brúarinnar, en það hefir eigi komið fyrir áður síðan vegurinn var gerður.

Samtal við vegamálastjóra. Morgunblaðið hafði tal af vegamalastjóra í gær og spurði hann um þessar vegaskemmdir. Gerði hann eigi mikið úr þeim og sagði að tekist hefði að gera vegina færa aftur að mestu leyti. Nokkrar skemmdir kvað hann og hafa orðið á vegunum austan fjalls, t.d. í Ölfusi; leysingar hefði orðið eins ákafar þar og annarsstaðar og vatnið rofið skörð í vegina allvíða, en þær skemmdir væru nú endurbættar svo, að vegirnir væru bráðum bílfærir. Skriður hefði nokkrar fallið á, vegi, t.d. ein úr Ingólfsfjalli yfir veginn upp að Sogi. Austur í Hornafirði voru einnig miklir vatnavextir. Þar féll allmikil skriða á veginn í Almannaskarði.

Úrkoma mældist mikil í Vík í Mýrdal. Segir af því í Veðráttunni (desember 1926) að „milli venjulegra athugunartíma kl. 8—8 árdegis [hafi fallið] 122.5 mm þ.26. Það byrjaði að rigna kl. 23:30 þ.25., svo að þessir 122,5 mm voru aðeins eftir nóttina. En svo hélt rigningin áfram og þegar liðnar voru réttar 24 stundir frá því hún byrjaði (þ.26. kl.23:30) mældi athugunarmaður á ný. Á þessum 24 stundum hafði þá rignt 215,8 mm. Þetta er langmesta úrkoma eftir einn sólarhring, sem mæld hefir verið hér á landi svo kunnugt sé. Mesta sólarhringsúrkoma áður hefir verið 124,0 mm á Teigarhorni 12. ágúst 1916. En þess ber að gæta, að sú mæling er gerð á venjulegum athugunartíma og þess vegna ekki víst, að það sé mesta úrkoma, sem fengist hefði á öðrum tímum. Mánaðarúrkoman í Vík, 505,1 mm er og langmesta mánaðarúrkoma, sem þekkst hefir hér á landi til þessa tíma. Mesta mánaðarúrkoma áður er 390,5 mm á Fagurhólsmýri í október 1924“.

Víkurmælingin var bókfærð sem sólarhringsúrkomumet Íslands þegar ritstjóri hungurdiska fór að rýna í veðurtölur og allt fram til 28. febrúar 1968 þegar 233,9 mm mældust á Vagnsstöðum í Suðursveit. Það met stóð aftur til 1. október 1979 (242,7 mm í Kvískerjum) og það þar til núverandi met var sett 10. janúar 2002 (293,3 mm í Kvískerjum). Mánaðarmetið lifði skemur, það var slegið í Hveradölum í janúar 1933 þegar þar mældust 596,0 mm yfir mánuðinn. Núgildandi (2022) mánaðarmet er 971,5 mm mælt á Kollaleiru í nóvember 2002.

Við ljúkum hér þessari lauslegu yfirferð um það helsta í veðri á árinu 1926 - margt annað hefði mátt geta um. Í viðhenginu eru ýmsar tölulegar upplýsingar og fleiri atvika getið lauslega.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 157
  • Sl. viku: 1758
  • Frá upphafi: 2348636

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1539
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband