Hugsað til ársins 1971

Árið 1971 þótti yfirleitt hagstætt. Ritstjóra hungurdiska þykir það eiginlega nýliðið - en hrekkur nokkuð við þegar hann áttar sig á því að þetta ár var jafnlagt aftur til 1920 og til nútímans. Fáeinna atburða ársins hefur verið getið nokkuð ítarlega hér á hungurdiskum og verður það ekki endurtekið hér. [Pistill þar sem dagar í febrúar 1971 koma við sögu og annar þar sem fjallað er um óvenjulega „hitabylgju“ í nóvember - fleira hefur líka sýnt sig hér - í framhjáhlaupi].

Í janúar var frosthart með köflum, en snjólétt og yfirleitt hæglátt. Kalt. Í febrúar var mjög umhleypingasöm tíð - en þótti samt hagstæð víðast hvar. Í mars þótti tíð einnig hagstæð. Apríl var einnig hagstæður - einkum sunnanlands. Þó gerði eitt afgerandi illviðri. Við lítum nánar á það hér að neðan. Svipað var með maí. Tíð var hagstæð um land allt, fyrir utan stutt hret undir lok mánaðarins - við lítum á það líka. Júní var með afbrigðum þurrviðrasamur um mestallt land, svo háði gróðri. Mjög minnisstæður mánuður. Júlí var (í minningunni) sérlega góður. Heldur háar úrkomutölur komu ritstjóra hungurdiska á óvart - en einhvern veginn úrkoma mánaðarins aðallega á vinnutíma í miðri viku. Ágúst var einnig hagstæður, nema hvað mikið illvirði gerði undir lok mánaðar - þess gætti þó mest norðaustan- og austanlands. Við lítum nánar á það hér að neðan. Í september var votviðrasamt og í október var óstöðugt veðurlag. Nóvember þótti hagstæður eystra, en var heldur síðri vestanlands. Desember þótti einnig hagstæður eystra, en var í snjóasamara lagi suðvestanlands.

Talsverður hafís var við Norðurland, þó minni en verið hafði árin á undan og óhagstæðra áhrifa hans gætti ekki eins mikið. Þetta reyndist síðasta ísárið í syrpunni sem staðið hafði frá 1965 og kom það mjög á óvart að svo skyldi verða. Útlitið í norðurhöfum var slæmt haustið 1971 og virtist stefna í enn eitt ísárið - en svo varð ekki. Nær enginn ís kom 1972. Hann lét svo sjá sig í talsverðu magni 1979, en síðan eiginlega ekki söguna meir - fyrir utan fáeinna daga hrafl nokkrum sinnum, síðast 2005.

Eins og áður sagði var janúar kaldur - alveg í stíl ríkjandi kuldaskeiðs og hafísa - en veðrið var samt ekki vont. Það var snjólítið - sérstaklega á Suður- og Vesturlandi og lengst af fór vel með veður (ekki þó alveg tjónlaust). Fáeinir dagar skáru sig þó úr fyrir kulda sakir. Fyrst í kringum þann 20. og síðan aftur undir lok mánaðarins. 

Lágmarkshitinn í Reykjavík að morgni þess 30. janúar var -19,7 stig. Þetta var lægsti lágmarkshiti sem mælst hafði í bænum síðan 1918 - og hiti í Reykjavík hefur ekki farið svona neðarlega aftur síðan. Sólarhringsmeðalhitinn í Reykjavík þann 29. var sá lægsti síðan 1919 og sá lægsti í janúar frá 1918. Kuldinn varð afbrigðilegastur suðvestanlands, fór í -25,7 stig á Hólmi (rétt ofan Reykjavíkur) og -26,1 stig á Þingvöllum. Frostið fór í -30,3 stig í Reykjahlíð við Mývatn, en það er ekki alveg jafn óalgengt og -19 stig í Reykjavík. Meðallágmarkshiti á landinu að morgni þess 30. var -18,1 stig, það lægsta sem við vitum um í janúar (þau gögn ná aftur til 1949, við vitum um eina lægri tölu í febrúar og apríl og tvær í mars). 

Slide12 

Kortið sýnir athugun kl.9 að morgni þess 30.janúar. Við megum taka eftir því að snjókoma og 400 metra skyggni er í éljabakka á Stórhöfða í Vestmannaeyjum - boðaði mikla breytingu á veðurlagi. Febrúar var mun órólegri. 

Í Tímanum 30.janúar 1971 er nokkuð skondin frétt. Athugum að hún er skrifuð þann 29., daginn fyrir köldustu nóttin. Ritstjóri hungurdiska á reyndar bágt með að trúa því að nákvæmlega sé vitnað í veðurfræðinginn - en látum þetta samt standa. Spádeild Veðurstofunnar - og hitamælingar voru þarna á Reykjavíkurflugvelli. 

Kaldasti dagur vetrarins reyndist vera i dag hér í Reykjavík, en þá mældist 15 stiga frost í tveggja metra hæð á hitamæli Veðurstofunnar á Reykjavíkurflugvelli. Ekki er þó ótrúlegt, að frostið hafi verið töluvert miklu meira til dæmis í Breiðholti og Árbæjarhverfi, enda er oftast nokkurra stiga munur á hitanum í þessum úthverfum og á Reykjavíkurflugvelli. Veðurfræðingur á Veðurstofunni sagði, að ekki hefði komið til tals að hafa fleiri mæla en flugvallarmælinn hér í Reykjavík til þess að gefa upp hitastigið á, þar sem þá yrði ekki lengur hægt að tala um neinn einn Reykjavíkurhita eða kulda. Til gamans sagði hann okkur að á efstu hæð flugturnsins á vellinum væri hita mælir, og á honum var aðeins 10 stiga frost.

Margskonar atburðir urðu í febrúar - verða þeir ekki raktir hér (sjá atburðaskrána neðarlega í viðhenginu). Þó verður að nefna að þann 14. féll snjóflóð á húsið Hlíðarveg 1d á Siglufirði og hálffyllti það af snjó. Mannbjörg varð. Síðar í sömu hrinu drápu snjóflóð 75 kindur í fjárhúsum sunnar í fjallinu og sumarbústaður eyðilagðist. Að kvöldi 28. febrúar og aðfaranótt 1. mars gerði gríðarhart landsynningsveður. Tjón varð á gróðurhúsum í Reykholtsdal, bátar fengu á sig brotsjói við Eyjar og Þrír bílar fuku út af veginum yfir Holtavörðuheiði. Hlöður og hesthús skemmdust á Leirubakka á Landi. 

Einnig urðu alvarleg snjóflóð í mars. Þann 22. fórust tveir menn í snjóflóði á Skipadal við Hrafnseyrarheiði. Snjóflóð féll á bæjarhúsin í Munaðarnesi við Ingólfsfjörð og braut niður vélageymslu, annað flóð tók þar 8 símastaura í sjó fram. Flóð féll svo þann 24. í Hamragili sópaði með sér kofa og skíðalyftu við skíðaskála.

Um miðjan apríl virtist vorkoman í fullum gangi, en þá varð nokkurra daga bakslag. Eftirminnilegt fyrir sjóslys sem þá varð auk mikillar breytingar á veðri. Veðurspáin sem var lesin í útvarp að morgni þess 16. minnir okkur óþyrmilega á það hversu skammt veðurspár náðu á þessum tíma - þar gætir varla gruns um það hversu illt þetta veður varð og það aðeins hálfum sólarhring síðar. Lægðin var að vísu fundin og ljóst að hún færi til austurs. Þessu lík var staða veðurspámála einnig 8 árum síðar þegar ritstjóri hungurdiska fór að reyna við spár hjá Veðurstofunni. 

Spá 16.apríl 1971 kl. 10:10:

Grunn lægð á Grænlandshafi mun hreyfast austsuðaustur. Suðvesturland til Vestfjarða, Suðvesturmið til Vestfjarðamiða: Sunnan gola eða kaldi og þykknar upp í dag. Sums staðar snjómugga eða rigning síðdegis, léttir síðan til með norðaustankalda. 

En klukkan 16:15 höfðu vaktmenn áttað sig og farið var að spá hvassviðri af norðaustri og kl.22:15 kom inn stormviðvörun fyrir Vestfjarðamið og kl.04:30 (spá gerð á Keflavíkurflugvelli) var spáð stormi um land allt (enda veðrið skollið á). 

Slide1

Staðan sést mjög vel á endurgreiningu japönsku veðurstofunnar. Þetta er 500 hPa-hæðar og þykktarkort sem gildir kl.18 föstudaginn 16. apríl 1971. Hér hafa spámenn áttað sig vel á alvöru málsins. Öflugt, kalt lægðardrag er að koma suðaustur yfir Grænland og um leið og það far hjá skellur köld gusa af miklu afli suður yfir landið - auk þess sem lægð grefur um sig og dýpkar ört. 

Slide2

Um hádegi daginn eftir er lægðin við Suðausturland. Hvöss vestanátt (sem menn voru nánast alveg grunlausir um) er sunnan hennar náði að umturna sjó áður en norðanáttin skall svo á á móti. Þessar aðstæður áttu stóran þátt í alvarlegu (en samt tilviljanakenndu) slysi austur við Hornafjarðarós. 

Morgunblaðið segir frá þessu daginn eftir, 18. apríl 1971:

Hörmulegt slys varð á Hornafirði rétt fyrir hádegi í gær, er Sigurfara SF 58 hvolfdi á innsiglingunni í höfnina — í þann mund er hann var á leið inn í Ósinn. Tíu eða ellefu manns voru á bátnum og samkvæmt þeim upplýsingum, er Mbl. hafði um nónbil, höfðu tveir menn bjargazt um borð í Gissur hvíta og gúmbátur hafði sézt á hvolfi. Fjöldi manns sá er slysið varð og fékk ekkert að gert.

Í gærmorgun var aftakaveður við Höfn á austan, en vindur snerist er leið á daginn og var orðinn á vestan um hádegisbil. Slysið varð um kl. 11.30 og voru bátarnir þá að koma inn einn af öðrum vegna veðurs. Aðfall var og straumur mikill í innsiglingunni — getur hann þá er hann er harðastur orðið allt að 9 mílur. Slysið sáu menn í landi, svo og menn um borð í bátum, sem voru fyrir utan ósinn.

Slide3

Kortið gildir kl.18 þann 17.apríl. Vonskuveður er um mestallt land. Enn ekki stytt upp á Suðurlandi, skyggni innan við 100 metrar í skafhríð á Hæli í Gnúpverjahreppi - en hægviðri komið á Þingvöllum. Ritstjóri hungurdiska var staddur á Laugarvatni. Þar voru í heimsókn sjónvarpsmenn undir forystu Magnúsar Bjarnfreðssonar og áttu í ákveðnum myndrænum vandræðum með veðrabrigðin. Verið var að gera mynd um skólasetrið - kannski sést eitthvað af veðrinu í henni (minnið ekki alveg nógu gott til að fullyrða um það). En snjórinn var alla vega nægilegur til að bílar áttu í vandræðum - mikil viðbrigði frá ljúfu vori dagsins áður. 

Í næstu viku á eftir var eftirminnilegur dagur, miðvikudagurinn 21. apríl þegar handrit Flateyjarbókar og Konungsbókar Eddukvæða komu til landsins og voru formlega afhent. Þá var bjart og fagurt veður, síðasti vetrardagur. Daginn eftir, á sumardaginn fyrsta gerði hins vegar talsverða hríð um landið sunnanvert - einnig eftirminnilegt. Hríðin sú stóð þó ekki lengi og vorið hélt framsókn sinni áfram. 

Annað óvænt norðanskot gerði síðan í lok maí. Andvökunótt hjá ritstjóranum á Laugarvatni - vindgnauð mikið - en líka einhver aukahávaði í húsinu - reyndist um morguninn vera bárujárnsplata sem losnað hafði af þakinu en ekki fokið burt. Ekki hríð en ofsafengin norðanátt víða um Suðurland - hríð á Vestfjörðum og sums staðar nyrðra.

Slide4

Þessi lægð tengdist einnig lægðardragi sem kom úr norðvestri yfir Grænland 25. maí og sneri upp á sig yfir landinu og norðanstrengur gekk yfir landið. Ólíkur aprílveðrinu að því leyti að aðstæður gáfu tilefni til bylgjuhreyfingar yfir og undan fjöllum. Þykktin í greiningu japönsku veðurstofunnar er minni en 5280 metrar - en við hana eru þumalputtamörk rigningar og snjókomu á landi. Kortið gildir kl. 6 að morgni 26. maí.

Slide5

Sjávarmálskortið sýnir krappa lægð skammt fyrir suðaustan land. Ekki af fullum vetrarstyrk, en hún var samt fljót að dýpka. Ekki gekk sérlega vel að spá þessu veðri:

Spá lesin í útvarp kl.22:15:

Faxaflói til Vestfjarða, Faxaflóamið til Vestfjarðamiða: Norðan eða norðvestan stinningskaldi og stöku él í nótt, en úrkomulaust á morgun. 

Um nóttina kl.04:30 var fyrst minnst á storm: „Gert er ráð fyrir stormi víða á spásvæðunum“, en veðrið hafði þá þegar nærri því náð hámarki. 

Slide6

Kortið sýnir stöðuna um hádegið. Hiti 2,7 stig í Reykjavík. Það er ekki mikið um hádag í maílok. Hiti var um frostmark á Vestfjörðum - og reyndar aðeins neðan þess í hríðarveðri í kringum Húnaflóa. Þótt hafísinn þar væri reyndar bráðnaður fyrir nokkru var sjávarhiti mjög lágur.

Daginn eftir, þann 27. birtist frétt um veðrið í Tímanum - gærkvöldið sem minnst er á er reyndar þriðjudagskvöldið 25 - fréttin - eins og venjulega - skrifuð daginn áður en blaðið kom út. 

Tíminn 27.maí:

Þegar ísfirðingar sátu í gærkvöldi, inni í hlýju stofunum og hlýddu á veðurfræðing skýra frá því í sjónvarpinu, að á Ísafirði væri vindhraðinn kominn upp í 6 stig, var þar skollin á norðaustan stórhríð með allt að 10 stiga vindhraða og á miðunum fyrir utan var vindhraðinn kominn upp í allt að 12 stig. Þannig hélzt veðrið þar vestra í alla nótt og fram á hádegi í dag, en þá birti til og dró úr vindhraðanum. Snjóskaflar voru þá á götum Ísafjarðar og fjallvegir þar um slóðir orðnir ófærir.

Norðanveðrið herjar nú um allt landið, en að sögn Veðurstofunnar í kvöld, hefur það nú náð hámarki. Snjóað hefur í fjöll alls staðar á landinu í nótt og dag og á norðurhluta landsins hefur snjóað niður í byggð. Hvassviðrið hefur valdið tjóni á mannvirkjum, gróðurhúsum fyrir austan fjall og hluti af hlöðum fuku á a.m.k. tveimur býlum á Snæfellsnesi, áttu bændur í erfiðleikum með fé sitt í dag. Í dag var stórhríð í Strandasýslu og fjallvegir þar um slóðir voru orðnir þungfærir í kvöld. Á Norðurlandi varð leiðin um Mánárskriður ófær í dag litlum bílum. Óttazt var í kvöld að Oddskarð yrði ófært í nótt, ef héldi áfram að snjóa í fjöll á Austurlandi. Slydda eða snjóhraglandi hefur verið í allan dag nyrðra. Hvasst var í allan dag um allt land, en vindhraðinn komst þó óvíða yfir 7 stig. Mest frost, eða
5 stig, mældist í nótt á Hveravöllum.

Undir lok hagstæðs sumars gerði óvenjulegt hret seint í ágúst. Þá var ritstjóri hungurdiska reyndar kominn til Noregs og varð að lesa um hretið síðar í blöðum sem þangað bárust seint um síðir - og svo auðvitað líka í Veðráttunni - sem er reyndar aðalheimildarit árapistla ritstjórans frá og með 1925. 

Slide7

Um hádegi þann 25.ágúst var snarpt háloftalægðardrag að grafa um sig við landið og hreyfðist jafnframt austur. Ört dýpkandi lægð var skammt fyrir sunnan land á leið norðaustur. Þetta er ekki mjög ósvipuð staða og sú sem kom upp fyrir septemberfjárskaðaveðrið fræga 2013 - en meir en hálfum mánuði fyrr á ferð og loftið sem kom við sögu því heldur hlýrra.

Slide8

Daginn eftir, þann 26. var mjög djúp lægð skammt austan við land. Með þeim dýpri og krappari sem sjást á þessum árstíma, um 971 hPa í lægðarmiðju. Mikill norðanstrengur lá yfir landið með mikilli úrkomu um landið norðaustanvert. Þó talsvert hvasst væri vestanlands var þar ekki aftakaveður og úrkoma var lítil.

Miklir skaðar urðu í í þessu veðri, einkum norðaustanlands. Rúmlega fjögur þúsund fjár mun hafa farist. Mest fjártjón varð í Vopnafirði. Slydduísing hlóðst á rafmagnsstaura og víða varð rafmagnslaust á Norðausturlandi. Fjallvegir urðu ófærir og ferðamenn lentu í hrakningum. Skriður féllu á vegi á Austurlandi. Snjó festi á sjö veðurstöðvum.

Slide9

Íslandskortið sýnir stöðuna kl.18 þann 26. Þá var hríðarveður á öllum heiðum norðaustanlands, en mikli slydda eða rigning í byggð. Sé litið á lista yfir þrýstispönn á landinu (mismun hæsta og lægsta loftþrýstings á hverjum athugunartíma) kemur í ljós að hann hefur, allt frá 1949 að minnsta kosti verið jafnmikill í ágústmánuði og í þessu veðri, 26,9 hPa á hádegi þann 26. Næst þessari tölu kemst illviðri þann 18. ágúst 1955. Sú lægð var enn dýpri en þessi, en fór vestar og olli ekki hríðarveðri. 

Við grípum niður í pistla í dagblaðinu Tímanum 28. ágúst og er þar fjallað um veðrið.

Óveðrið, sem geisað hefur á Norður- og Austurlandi, er nú heldur í rénun. Samt hafði hann ýft sig upp aftur í Mývatnssveit seinni hluta dags og var kominn éljagangur þar. Í veðrinu, sem geisaði Norðurlands í nótt, slitnuðu rafmagnslínur á mörgum stöðum eins og t.d. í Mývatnssveit, í Skagafirði og á Vaðlaheiði, og var Akureyri rafmagnslaus þegar síðast fréttist. Víða gekk mjög illa að gera við slitnar línur vegna veðurs. Menn í Mývatnssveit óttast líka, að fé hafi fennt. Pétur Jónsson í Reynihlíð sagði, að þetta væri eitthvert versta sumarhret sem komið hefði. Úrkoman frá því í fyrradag hefði mælzt 48 millimetrar og væri það ekkert smáræði. Mest væri það krapasnjór, sem kyngt hefði niður, og hefði hann lagzt þungt á rafmagns- og símalínur. Línur slitnuðu niður og þar sem mýrlent er lögðust staurar á hliðina. Af þessum sökum var hálf Mývatnssveit rafmagnslaus í gær og í nótt. í dag hefur verið hægt að gera við allar bilanir og voru allir bæir komnir með straum seinnihluta
dags. Margir bílar voru við Mývatn í nótt, t.d. dvöldu fulltrúar, sem voru að fara á fund Stéttarsambands bænda á Hornafirði, þar í morgun lagði svo veghefill af stað austur fjöllin og fylgdu bílarnir á eftir. Annar veghefill lagði af stað austur úr Jökuldal og fylgdi bílalest honum eftir. Ferðin yfir öræfin gekk ágætlega, en búast má við að færð versni aftur með kvöldinu, þar sem éljagangur var skollinn á. Að lokum sagði Pétur, að óttazt væri að fé hafi fennt, reyndar hafi ekki fennt í skafla þar í sveit, en uppi til fjalla var miklu kaldara, og á þeim slóðum hélt féð sig, og þar má reikna með að skeflt hafi og fannir  komið.

Þormóður Jónsson á Húsavík sagði, að þar væri leiðindaveður, en ekki hefði það valdið neinu tjóni, svo hann vissi. Gránað hafði í fjöll þar í kring. Um fjallvegi þar um slóðir sagði hann að Vaðlaheiði væri illfær og það sama væri að segja um heiðarnar þar í kring. Ekki er talið að bændur hafi orðið fyrir heytjóni, þar sem þeir voru flestir búnir að hirða. — Síðasta sólarhring hefur verið mjög slæmt veður, sagði Guttormur Óskarsson á Sauðárkróki. — Raflínur hafa víða slitnað og það sama má segja um símalínur. Núna í augnablikinu er t.d. Lýtingsstaðhreppur rafmagnslaus og var ekki byrjað að gera við línur þar, síðast þegar vitað var. Úrkoman hefur verið geysimikil í gær og í nótt, en sem betur fer voru bændur búnir að hirða eða setja í sæti, svo tjón af völdum úrkomunnar er ekki teljandi. — Veðrið hér á Austurlandi er að ganga niður, sagði Jón Kristjánsson á Egilsstöðum. - Núna er búið að ryðja fjallvegi t.d. voru Fjarðarheiði og Oddsskarð rudd í morgun og í dag fór veghefill norður yfir Möðrudalsöræfi. Í óveðrinu, sem hér geisaði, mun tjón ekki hafa orðið núkið, þó er símasambandslaust við Hallormsstað, en á leiðinni þangað féllu tveir staurar um koll. Vonazt er til að hægt verði að gera við það í dag.

Eins og frá var skýrt í blaðinu í gær, var óttazt um tvær danskar konur, sem vinna hjá Orkustofnun. Höfðu þær lagt upp frá Hrafnkelsdal í fyrrakvöld og lent í óveðrinu, sem geisaði á Austur1andi í gær. Seinnihluta dags i gær lagði bíll af stað frá Orkustofnun og tók hann stefnu á Laugarfell, en þangað höfðu konurnar ætlað sér. Sóttist bílnum ferðin seint vegna ófærðar, og brauzt hann áfram í alla nótt og fram á dag. Eftir hádegi í dag fundu mennirnir í bílnum konurnar og voru þær við sæmilegustu heilsu. Var von á þeim niður í Hrafnkelsdal í gærkvöldi. Þá voru tveir íslenzkir jarðfræðingar fastir á jeppa uppi á Fljótsdalsheiði. Létu þeir fyrirberast í jeppanum í allan gærdag og í alla nótt, en þegar veður batnaði í dag, lögðu þeir af stað gangandi niður í Fljótsdal, og voru komnir þangað um kl. 17 í gær. Voru þeir við beztu heilsu, enda vel búnir, og í jeppanum höfðu þeir hitunartæki, þannig að þeim þurfti ekki að verða kalt. Þá er og fólk inni í Krepputungu, Hvannalindum og Grágæsadal. Mun ekkert ama að fólkinu, sem þar er, en það mun bíða þar þangað til. veður lægir, þannig að hægt verði að ryðja veginn þangað inn eftir, eða komast áfram á annan hátt.

Síðasta veðrið sem við fjöllum hér um sérstaklega er allt annars eðlis. Mikill gæðadagur á Suðvesturlandi þann 11. september. Þá mældist hámarkshiti á Mógilsá 21,9 stig. Er það hæsti hiti sem vitað er um á höfuðborgarsvæðinu í septembermánuði. - Met sem e.t.v. liggur vel við höggi nú þegar veðurstöðvum á svæðinu hefur fjölgað svo um munar. 

Hiti fór í 20 stig víðar þennan dag, á Þingvöllum, Jaðri í Hrunamannahreppi, Hæl í Gnúpverjahreppi, Ljósafossi og á Hólmi fyrir ofan Reykjavík. Daginn áður náði hiti 20 stigum á Sámsstöðum. Hiti á Reykjavíkurflugvelli fór í 18,2 stig, sem telst nokkuð gott á þessum tíma árs - en hámarkshiti hefur þó nokkrum sinnum orðið hærri í Reykjavík í september. 

Slide10 

Háloftakortið er dæmigert fyrir hlýindi á Suðvesturlandi. Austanátt færir okkur hlýindi frá Evrópu. 

Slide11

Á sjávarmálskortinu er vindur enn ákveðnari af austri. Að flestu leyti óskastaða undir sumarlok. 

Afgangur ársins varð ekki tíðindalaus í veðri. Geta má óvenjuhárrar sjávarstöðu við suðvesturströndina þann 5. október, þegar allkröpp lægð fór hratt til norðurs skammt fyrir vestan land í stórstreymi. Minniháttar tjón varð á Eyrarbakka og í Grindavík. 

Í nóvember mynduðust klakastíflur í Jökulsá á Fjöllum og í Hörgá og urðu talsverðar vegaskemmdir þegar árnar ruddu sig. Talsvert var um umferðartruflanir vegna snjókomu og hríðarveðra í nóvember og desember, m.a. í Reykjavík. Sumir muna e.t.v. bylinn sem gerði um miðjan aðfangadag þetta ár, en stóð þó ekki mjög lengi. 

Í viðhenginu má finna ýmsar tölulegar upplýsingar frá árinu 1971 og þar er getið fleiri atburða.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

var júní 1971 í Reykjavík ekki þurrasti og sólríkasti júní í mannaminnum ? Ég ferðaðist þá um Evrópu í rigningu upp á hvern dag.

JÓN GUNNAR SÆMUNDSSON (IP-tala skráð) 28.3.2022 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 1491
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1298
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband