Enn eitt landsynningsveðrið

Eftir nokkuð fallegan dag (fimmtudag 24.febrúar) nálgast enn ein lægðin - líklega ekki alveg jafn illskeytt og þær sem ollu vandræðum mánudaginn 7. og mánudaginn 21. - en samt umtalsverð. Veldur miklu hvassviðri, trúlega rigningu á láglendi, en hríð til fjalla - þar á meðal á flestum fjallvegum. Ekkert ferðaveður satt best að segja - og varla innanbæjar einu sinni - þá vegna vatnselgs og tilheyrandi skyggnisleysis. Gangstéttir og stígar meira eða minna ófær.

w-blogg240222ib

Kortið gildir kl.15 síðdegis á morgun (föstudag) - þá er stutt í að skil lægðarinnar komi inn á land. Þá dregur talsvert úr afli veðursins. Litafletirnir sýna loftvogarbreytingu á milli kl.12 og 15. Þar sem mest er hefur hún fallið um nærri 15 hPa - ekki ósvipaður fallhraði og var í mánudagslægðinni síðustu. 

Myndin hér að neðan ber saman suður/norður-þversnið við Vesturland í fjórum illviðrum í þessum mánuði (skýrist talsvert sé myndin stækkuð). Litirnir sýna vindhraða, vindörvar líka vindátt (eins og væri um hefðbundið veðurkort að ræða). Jafnmættishitalínur eru heildregnar.

w-blogg240222ia

Öflugur landsynningurinn er sameiginlegur myndunum fjórum. Efst til vinstri er spá fyrir veður morgundagsins (gildir kl.12 á hádegi). Vindröstin kemur fram eins og pylsa á myndinni. Á fjólubláa svæðinu er vindur meiri en 40 m/s, mest um 45 m/s í um 850 hPa-hæð (um 1200 metrar). Bæði ofan og neðan við er vindur minni. Efst á myndinni má sjá í heimskautaröstina sjálfa, í 300 hPa eða hærra. 

Efst til hægri má sjá samskonar snið frá því á mánudaginn (21.). Þá var enn meiri vindur í landsynningsröstinni, um 53 m/s þar sem mest var - en í svipaðri hæð (850 hPa). Í grunninn er það hallinn sem sjá má á jafnmættishitalínunum í námunda við röstina sem knýr hana - kaldara er hægra megin á sniðinu heldur en vinstra megin. Auk þessa verða til nokkur þrengsli þegar loftið þarf annað hvort að beygja frá landinu - eða þvingast yfir það. Gróflega er röstin samspil þessara tveggja þátta. Sé rýnt í - má einnig sjá halla á jafnmættishitalínum við veðrahvörfin - hjálpar til. 

Neðst til vinstri er illviðrið mánudaginn 14. febrúar. Það er minnst þessara veðra - en samt er það nákvæmlega sömu ættar. Vindur er mestur rúmlega 40 m/s - og umfang rastarinnar heldur minna en á hinum myndunum.

Neðst til hægri er hins vegar mánudagsveðrið 7.febrúar. Það var nærri því eins öflugt og það 21. Hér er vindur umhverfis landssynningsröstina líka meiri en á hinum myndunum - einhver lítilsháttar bragðmunur í upphæðum - niðurstaðan hér í mannheimum þó svipuð. 

Tíma þeirra sem áhuga hafa á veðri er ágætlega varið við skoðun á þversniðum - en ekki fást þó allir til þess. 

Svo er að sjá sem lítið lát sé á umhleypingatíðinni. Næstu lægðar (að afloknum morgundeginum) er síðan að vænta á aðfaranótt mánudags. Spár virðast þó benda til þess að hún kunni að fara fyrir austan land - ekki sama bragð af henni og þeim hér að ofan, líklega leiðindi samt. Síðan er minnst á enn eitt landsynningsveðrið um miðja næstu viku. 

En ritstjóri hungurdiska hvetur alla til að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar - þar er vel fylgst með. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þetta er veðrið sem ótrúlega margir útlendingar sækja í og mér varð á að tafsa á  fyrirsögninni "Enn eitt landkynningarveðrið". 

Helga Kristjánsdóttir, 26.2.2022 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5
 • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (22.4.): 52
 • Sl. sólarhring: 435
 • Sl. viku: 1816
 • Frá upphafi: 2349329

Annað

 • Innlit í dag: 40
 • Innlit sl. viku: 1632
 • Gestir í dag: 40
 • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband