Alþjóðaveturinn 2021-22

Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur vetur á norðurhveli ná til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Alþjóðaveturinn er því styttri en vetur á Íslandi, við teljum mars með - enda oft kaldasti mánuður ársins hér á landi. Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár reiknað meðalhita alþjóðavetrarins hér á landi og fjallað um niðurstöður þeirra reikninga.

w-blogg280222

Reiknaður er meðalhiti veðurstöðva í byggð aftur til 1874 - og árum aftur til 1823 bætt við (en landsmeðalhiti fyrstu áranna er mikilli óvissu undirorpinn). Meðalhiti í byggðum landsins síðustu 3 mánuði er -0,7 stig og telst það nokkuð hlýtt á langtímavísu (eins og sjá má á myndinni), en er samt -0,6 stigum undir meðaltali áranna 1991 til 2020, -0,9 stigum neðan  meðaltals síðustu 10 ára og fjórðikaldasti alþjóðavetur á þessari öld. Ekki munar miklu á hitanum nú og hita þeirra þriggja köldustu. 

Veruleg leitni reiknast yfir tímabilið, +1,5 stig á öld. Á 20. öld allri var meðalhiti alþjóðavetrarins 16 sinnum ofan við frostmark, en hefur 9 sinnum verið það nú þegar á þessari öld - þó veturnir séu aðeins orðnir 20. Slíkt væri mikil breyting frá fyrra ástandi. Á 19.öld þekkjum við ekki nema 3 vetur ofan frostmarks (gætu þó verið eitthvað fleiri - reiknióvissa er mikil) á 78 árum.

En sannleikurinn er þó sá að við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega. Rætist spár um hnattræna hlýnun að fullu verða hlýju veturnir væntanlega enn fleiri en 45 á 21.öld - en einnig er vel hugsanlegt að við höfum þegar „tekið út“ meiri hlýnun en okkur „ber“ og talan orðið nær 45 - jafnvel lægri.

Reiknuð leitni á myndinni er ekki síst há fyrir þá sök að vetur kuldaskeiðs 19. aldar voru almennt töluvert kaldari heldur en kaldir vetur kuldaskeiðs 20.aldar. Sömuleiðis hafa mjög kaldir vetur alls ekki látið sjá sig á nýrri öld. Minni munur er á hlýskeiðunum en samt voru kuldaköst 20.aldarhlýskeiðsins snarpari heldur en skyldulið þeirra á síðustu árum - eins og glögglega má sjá á myndinni. Er þetta allt í samræmi við ísrýrnun í norðurhöfum.

Veturinn nú er býsna ólíkur vetrinum í fyrra. Þá fór lengst af mjög vel með veður, óvenjusnjólétt var og lítið varð úr illu útliti. Veturinn nú byrjaði ekki illa, að vísu var umhleypingasamt í haust, en desember var sérlega hagfelldur. Um áramót skipti um og síðan hefur verið erfið tíð, sérstaklega í febrúar sem virðist ætla að verða með snjóþyngra móti, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Snjólétt hafði verið fram að því. Austanlands telja menn tíðina hafa verið allgóða, þrátt fyrir fáein skæð illviðri þar um slóðir.

Sem stendur virðast langtímaspár benda til þess að umhleypingatíðin haldi áfram - kannski verða austlægar áttir þó algengari en verið hefur og hiti ívið hærri. Við tökum þó hóflega mark á - oftast er ekki mikið á spár að treysta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekkert sérlega mikil hlýnun frá 1930.

Að taka (óvenju?) kalda tímabilið frá 1820-1930 með, hentar auðvitað ágætlega ef menn vilja sjá hressilega hlýnun.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2022 kl. 14:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 25
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 516
  • Frá upphafi: 2343278

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 468
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband