Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2022

Illviðrametingur - mánudagsillviðrið

Ritstjóri hungurdiska telur illviðradaga. Hann hefur lengst af notað tvær aðferðir til að meta styrk illviðra - á landsvísu. Annars vegar telur hann á hversu mörgum veðurstöðvum í byggð vindhraði hefur náð 20 m/s (einhvern tíma sólarhringsins - 10-mínútna meðaltal) og hve hátt hlutfall sá fjöldi er af heildarfjölda veðurstöðva. Hins vegar reiknar hann meðalvindhraða allra veðurstöðva - allan sólarhringinn.

Til að komast á fyrri illviðralistann þarf fjórðungur veðurstöðva að hafa náð 20 m/s markinu, en til að komast á þann síðari þarf meðalvindhraði að vera meiri en 10,5 m/s. Sögulegar ástæður eru fyrir þessari pörun - hún þarf ekkert að vera nákvæmlega þessi. 

Þessar tvær flokkanir mæla ekki alveg það sama - sú fyrri (vindhraðahlutfallið) segir vel frá „snerpu“ veðra - skila sér vel á lista þó þau standi ekki lengi á hverjum stað. Hin síðari (sólarhringsmeðaltalið) mælir „úthald“ vel. Veður sem ekki er yfirmáta mikið getur komist á þann lista haldi það áfram allan sólarhringinn. 

Veðrið á mánudaginn (7.febrúar) skorar hátt á snerpulistanum, fær 620 stig (af 1000 mögulegum) í einkunn. Þetta er hæsta hlutfall síðan 14. febrúar 2020 - og sé farið lengra aftur komum við að 7. og 8. desember 2015 - og 14. mars sama ár. Töluvert tjón varð í þessum veðrum öllum. 

Á úthaldslistanum er veðrið miklu minna, meðalvindhraði 11,2 m/s, svipað og 22.janúar á þessu ári. Mánudagsveðrið varð því býsna snarpt, en hafði ekki mikið úthald (náði þó á listann). 

w-blogg090222a

Myndin sýnir hvernig dagar falla á þessa tvo flokkunarvísa. Lárétti ásinn sýnir snerpuna, en sá lóðrétti úthaldið. Við sjáum að allgott samband er á milli. Lóðréttu og láréttu strikalínurnar sýna mörkin áðurnefndu og skipta fletinum í fjögur svæði eða horn. Í horninu sem er efst til hægri eru 149 dagar áranna 1997 til 2020 - þetta eru dagar þegar illviðri höfðu bæði snerpu og úthald. Í neðra horninu til hægri eru 145 dagar - sem komast allir á snerpulistann - en skorti úthald. Í efra horni til vinstri eru 87 úthaldsgóðir dagar - sem komast ekki á snerpulistann. Í neðra horni til vinstri er svo afgangur daganna - sem gera ekki tilkall til að komast á illviðralistana (takið þó eftir því að vel má vera að hvesst hafi illa í einstökum landshlutum eða stöðvum þessa daga).  

Efst á snerpuleistanum er mikið vestanveður sem gerði í nóvember árið 2001. Efst á úthaldslistanum er norðaustanillviðri mikið í janúar 1999. Á myndinni bendir ör á veðrið á mánudaginn - það var greinilega „alvöru“. 

Til gamans eru líka merkt inn veður sem stóðu sig í öðrum hvorum flokknum - en illa í hinum. Norðaustanveður sem gerði 10. desember árið 2000 virðist hafa haft gott úthald - en ekki komist í stormstyrk víða. Þá fauk þó áætlunarbifreið út af vegi við Hafursfell á Snæfellsnesi. Veðrið sem við nefnum fyrir snerpu - en lélegt úthald gerði 11. desember árið 2007 - af suðaustri. Þetta var reyndar nokkuð minnisstætt veður og segir í atburðaskrá ritstjóra hungurdiska: 

„Talsverðar skemmdir af foki um landið suðvestanvert, mest í Hafnarfirði, Kópavogi og í Reykjanesbæ. Járnplötur fuku, rúður brotnuðu, bátur slitnaði upp, hjólhýsi tókust á loft og mikið af jólaskrauti skemmdist. Skemmdir urðu einnig í Vestmannaeyjum. Gámur og hjólhýsi fuku á hliðina í Njarðvík“.

Það er „skemmtilegt“ við þetta síðarnefnda veður að bæði 2006 og 2007 gerði svipuð veður nærri því sömu daga í desember - og ruglast í höfði ritstjórans (og hugsanlega fleiri). 

Hér hefur verið miðað við sjálfvirka stöðvakerfið eingöngu. Ritstjórinn á ámóta lista fyrir mönnuðu stöðvarnar. Báða flokka veðra aftur til 1949 - og snerpuflokkinn aftur til 1912. Á þessu langa tímabili hafa orðið miklar breytingar á stöðvakerfinu sem og athugunarháttum. Í ljós kemur að hlutfall illviðraflokkanna tveggja er ekki alveg það sama nú og það var fyrir 70 árum. Ástæðurnar eru kannski fyrst og fremst þær að athuganir voru miklu færri að nóttu á árum áður - sólarhringurinn var því „styttri“ en hann er nú - og síðan hefur mönnuðum stöðvum fækkað svo á síðustu árum að kerfið missir frekar af snörpum en skammvinnum veðrum heldur en áður var. Við erum komin á svipaðar slóðir og var fyrir 100 árum. En vindathuganir sjálfvirka kerfisins eru þó miklu betri heldur en var - þannig að við getum ekki beinlínis saknað mönnuðu stöðvanna vindsins vegna - heldur fremur af öðrum ástæðum. 

En lítum samt á samskonar mynd fyrir mönnuðu stöðvarnar - allt aftur til 1949.

w-blogg090222b

Hér sjáum við að fleiri veður eru í efra vinstra horni heldur en í því hægra neðra (öfugt við það sem er á fyrri mynd). Líkleg ástæða er hinn „styttri“ sólarhringur fyrri tíma. Versta veðrið í snerpuflokknum er hið illræmda veður 3. febrúar 1991, en í úthaldsflokknum annað, líka illræmt, 29. janúar 1966 (af norðaustri). Það veður stóð reyndar í meir en 3 sólarhringa - sérlega úthaldsgott. Um bæði þessi veður hefur verið fjallað nokkuð ítarlega hér á hungurdiskum. 

Eitt veður kemst í úthaldsflokkinn - án þess að skora stig í snerpuflokknum. Það er norðanveður 26.apríl 2015. Ritstjóri hungurdiska kvartaði þá um kulda og trekk í pistli (ekki alveg af ástæðulausu). 

Hinu megin eru tvö veður merkt, annað 13. janúar 1967 - af suðvestri, þetta er „afgangur“ af öllu harðara veðri daginn áður (og líklega fram eftir nóttu). Í því veðri varð foktjón. Þessir dagar eru minnisstæðir ritstjóranum fyrir mikla glitskýjasýningu norðaustanlands - hafði hann aldrei séð slík ský áður.

Hitt dagsetningin er 14. janúar 1982 - skilar sér vel í stormatalningu - en illa í meðalvindhraða vegna skorts á næturathugunum. Eitthvað rámar ritstjórann í þetta veður - var líklega á vakt öðru hvoru megin við það. 

Nokkur vinna fellst í því að tengja gagnaraðir mannaða og sjálfvirka stöðvakerfisins saman þannig að ekki verði ósamfellur til ama. Ólíklegt er að ritstjóra hungurdiska endist þrek til þess - og viðbúið að nútíminn finni einhverjar allt aðrar skilgreiningar á illviðrum. Í besta falli gæti ritstjórinn endurskrifað eða endurbætt langa ritgerð sem hann tók saman fyrir nærri 20 árum - tími til kominn.  


Leifar lægðarinnar

Lofthjúpur og haf eru fáeina daga að jafna sig eftir illviðrið. Kalda loftið úr vestri og sjórinn hafa ekki náð jafnvægi - miklir éljabakkar og klakkar á ferð. Öldugangur enn mikill - undiröldu mun ábyggilega gæta næstu daga langt suður eftir Atlantshafi - kannski til Brasilíustranda eða lengra. 

Eins og oft gerist í djúpum lægðum lokaðist hlýtt loft inni nærri lægðarmiðjunni. Tíma tekur fyrir það að kólna eða blandast umhverfinu. Það ber einnig í sér mikinn snúning (iðu) - sem ekki gufar upp á andartaki - munum að iða varðveitist (veldur margskonar skringilegheitum). 

w-blogg080222a

Hér sjáum við stöðuna kl.21 í kvöld (þriðjudag). Heildregnu línurnar sýna hæð 700 hPa flatarins. Innsti hringurinn í lægðarmiðjunni fyrir suðvestan land er í rúmlega 2400 metra hæð - það er lágt, en vantar þó um 100 metra niður í flatarmet febrúar yfir Keflavíkurflugvelli. Vindörvar sýna vindátt og vindhraða. Litir marka hitann. Hitinn í lægðarmiðjunni er um -12°C - um 5 stigum hærri en spáin yfir Keflavíkurflugvelli. Greinilega hlýkjarna lægðarmiðja á ferð - einskonar litlasystir fellibylja hitabeltisins. Hún er á ákveðinni leið til austurs og síðar suðausturs. Sé að marka spár heldur snúningurinn svo vel utan um hana að hægt á að verða að fylgja hlýja blettinum allt austur undir Hvítarússland (Belarus) á laugardaginn - en þó dregur smám saman úr mun á hita hans og umhverfisins. 

Lægðasveipir sem þessir sjást stundum ná upp í heiðhvolfið - og trufla veðrahvörfin - miklu fremur þó þeir sem eiga sér kalda miðju (öfugt við það sem hér er). Nú hagar þannig til að uppi í 300 hPa (í um 8500 m hæð) vottar ekkert fyrir lægðasveipnum.

w-blogg080222b

Þetta kort sýnir stöðuna í 300 hPa um hádegi á morgun (miðvikudag). Þá verður hlýja lægðarmiðjan stödd suður af Ingólfshöfða (við L-ið á myndinni). Svo sýnist sem þarna uppi sé öllum sama. Það sem er merkilegt við þetta kort er kuldinn við Vesturland. Spáin segir að frostið í 8400 metra hæð eigi að vera -65°C. Sé kafað í metalista kemur í ljós að kuldi sem þessi er ekki algengur í febrúar (og reyndar aldrei). Ekki vantar mikið upp á febrúarmetið í Keflavík (-66 stig, sett 1990). Sé rýnt í hitaritaspár (þær sýna hita í veðrahvolfs og neðri hluta heiðhvolfs yfir ákveðnum stað) kemur í ljós að um hádegi á morgun (miðvikudag) eru veðrahvörfin einmitt í 300 hPa. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að segja af eða á um orsakir þessa kulda - hann gæti verið kominn að norðan. Aftur á móti tók hann eftir því að óvenjumikil kólnun átti sér stað í 500 hPa í vestanstorminum í gær - svo virðist sem að illviðrinu hafi tekist að hræra upp í veðrahvolfinu öllu - þannig að mættishitastigull í efri hluta þess var með minna móti.  

Við skulum að lokum líta á eina erfiðari mynd - vind- og mættishitaþversnið í gegnum lægðarmiðjuna sunnan við land um hádegi á morgun. Reikningar harmonie-líkansins (lægðin er aðeins vestar heldur en hjá reiknimiðstöðinni - en eðli hennar nákvæmlega hið sama).

w-blogg080222c

Sniðið liggur frá suðri til norðurs (eins og litla kortið sýnir - þar eru heildregnar línur sjávarmálsþrýstingur). Sniðið til hægri á myndinni sýnir þó aðeins hluta þess - frá suðurjaðrinum rétt norður að suðurströndinni. Litir sýna vindhraða, vindörvar vindátt og vindhraða og heildregnar línur eru mættishiti. 

Fyrir sunnan lægðarmiðjuna (lengst til vinstri á myndinni) blæs vindur af vestri, um 25 m/s, allt frá jörð og upp í 550 hPa - nyrðri mörk vindstrengsins eru mjög skörp. Norðan lægðarmiðjunnar er annar ámóta strengur, nema hann er grynnri, nær ekki nema upp í um 800 hPa. Þar blæs vindur af norðaustri. Lægðarmiðjan er þarna á milli. Í henni er vindur mun hægari og áttin breytileg. 

Ef við rýnum í jafnmættishitalínurnar sést að kaldara er í vindstrengjunum báðum heldur en í lægðarmiðjunni - munar nokkrum stigum (hér er mælt í Kelvinkvarða, 283 = 10°C). Brúnu strikalínurnar marka gróflega jaðar kerfisins, en rauða punktalínan fylgir nokkurn veginn hlýjasta kjarnanum. Um lægðir af þessu tagi hefur verið margt og mikið ritað. Ritsjórinn fylgdist allvel með þeirri umræðu hér á árum áður, en en hefur slegið nokkuð slöku við á seinni árum. Ástæður „hlýindanna“ geta verið fleiri en ein, innilokun á lofti að sunnan, niðurstreymi á einhverju stigi lægðamyndunarinnar, blöndun á lofti úr heiðhvolfinu þegar óðadýpkunin átti sér stað, dulvarmalosun í kerfinu áður en lægðin var fullmynduð, dulvarmalosun í kerfinu eftir að leifalægðin varð til - eða jafnvel allt þetta og fleira til - þar sem orkusamskipti við yfirborð sjávar koma við sögu. Fyrir 35 árum voru menn jafnvel dónalegir við hvern annan þegar þetta var rætt. En ritstjórinn er farinn að dragast aftur úr fræðilegu umræðunni, segir því sem minnst og hefur lítt til mála að leggja - nema benda á. 


Fáeinir punktar um illviðrið

Nú stefnir enn ein lægðin til okkar. Hún er með dýpsta móti. Spár eru yfirleitt með tæplega 930 hPa í miðju, kannski 928 hPa. Þar sem lægðin fer ekki yfir landið verður þrýstingur samt ekki svo lágur hér á landi, kannski niður undir 956 hPa þegar lægst verður - þá annað kvöld (mánudag). Spár virðast sammála um að veðrið verði verst seint í nótt eða undir morgun á landinu suðvestanverðu - en eitthvað síðar annars staðar. Vindátt veður af suðaustri - eða landsuðri eins og oft er sagt. 

Það sem hér fer á eftir er ekki alveg fyrir hvern sem er - kannski enga. Aðrir lesendur hungurdiska eru beðnir forláts. 

w-blogg060222a

Hér má sjá stöðuna í 500 hPa, eins og evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir að hún verði kl.6 í fyrramálið, um þær mundir sem veðrið verður hvað verst hér suðvestanlands. Lægðin varð til - eins og margar systur hennar - í jaðri kuldapollsins mikla Stóra-Bola. Til allrar hamingju heldur hann sig þó að mestu vestan Grænlands - nóg eru leiðindin samt. Stóri-Boli hefur hingað til í vetur látið heimskautaröstina að mestu í friði hér við land - (kannski ekki alveg satt - en nógu satt) - enda var hann aðallega að plaga Alaskabúa (sem er algengt) og líka vesturströnd Kanada (sem er síður venjulegt). 

Við sjáum að stroka af köldu lofti (litir sýna þykktina að vanda) stendur frá Bola og til austurs fyrir sunnan Hvarf á Grænlandi - og í átt til okkar. Einnig hefur lægðin dregið nokkuð af hlýju lofti sunnan úr höfum hingað norður. Þetta er allt saman afskaplega stílhreint.

w-blogg060222b

Þetta er sama myndin - bara stækkuð til þess að við sjáum smáatriðin betur. Rauða strikalínan sýnir ás hlýja loftsins - þar er hlýjast á hverju hæðarbili - gráhvít strikalína sýnir aftur á móti ás kalda loftsins. Mest samsvörun er á milli háloftavinda og vinda niður undir jörð nærri slíkum ásum - eða þar sem mikil flatneskja er í þykktinni. Á svæðum þar sem þykktin vex með lækkandi hæð 500 hPa-flatarins er vindur í lægri lögum meiri heldur en háloftavindurinn gefur til kynna. Þannig er staðan sunnan við lægðarmiðjuna - hlýr kjarni í háloftalægð bætir í vind - kaldur kjarni dregur hins vegar úr honum. 

Hér á landi verður einna hvassast þegar hlýi ásinn fer hjá. Þá nær háloftaröstin sér hvað best niður - en þar að auki bætast áhrif kalda lofsins á undan við - því þarf að ryðja burtu - það tekur tíma - þar til stíflan annað hvort brestur - eða flyst til. Á eftir skilunum fylgir hins vegar svæði þar sem þykktarbratti dregur úr vindi - það er kaldara lægðar - en hæðarmegin. Spár gera enda ráð fyrir því að vindur gangi mjög niður til þess að gera snögglega eftir að hlýi þykktarásinn (skilin) eru farin hjá. 

Síðan nálgast kaldi ásinn - eins og við sjáum er þykktarbrattinn þar hlutlaus - nánast þvert á vindáttina. Þar geta háloftavindar náð sér niður - og norðan ássins er vindur nærri jörð meiri en háloftavindurinn. Það vill bara svo til að háloftalægðin mun síðan fara að grynnast og þá dregur úr vindi - þrátt fyrir þann vindauka sem hlý lægðarmiðjan gefur. 

Fyrir sunnan lægðarmiðjuna er gríðarleg vestan- og suðvestanátt sem magnar upp feiknaöldu á Grænlandshafi - þessi alda berst upp að ströndinni síðdegis á morgun (mánudag) og aðra nótt - rétt að hafa gæta sín við sjávarsíðuna. 

w-blogg060222c

Þriðja myndin er ekki auðveld - en sýnir snið meðfram vesturströnd landsins (smámynd í efra hægr horni) - frá jörð og upp í um 10 km hæð. Syðsti hluti sniðsins er lengst til vinstri - við sjáum Snæfellsnes og Vestfirði sem gráar hæðir neðst á myndinni. Litir sýna vindhraða í m/s, einnig má sjá vindhraða og vindátt á vindörvunum. Jafnmættishitalínur eru heildregnar. 

Hér sjáum við vel að lengst til vinstri eru skil lægðarinnar farin yfir - háloftavindstrengurinn mikli (efst á myndinni) nær ekki af fullu afli niður til jarðar (það svæði er inni í sporöskjunni á fyrri mynd - þar sem þykktarbrattinn vinnur á móti). Vindur er mestur í um 1500 metra hæð (svipað og hæstu fjöll) - um 50 m/s - um það bil nærri hlýja ásnum á fyrri mynd. Landsynningsveður eru af tveimur megingerðum - svona - þegar fyrirstaða er í köldu lofti norðan við (við getum greint það af halla mættishitalínanna) - en í hinni tegundinni nær meginröstin niður í átt til jarðar. 

Sjálfsagt er hér um einhverja blöndu af þessum tveimur megingerðum að ræða. 

Hvað sem öðru líður er margs konar óvissa tengd þessu veðri - við látum það vera hér að masa um hana - treystum Veðurstofunni til að fylgjast vel með og færa okkur nýjustu spár og fréttir á fati. 


Smávegis af janúar

Veður var heldur órólegt í janúar, Austurland slapp þó einna best - og þar var úrkoma minnst. Fokskaðar urðu þó þar snemma í mánuðinum. Þegar á heildina er litið virðist mánuðurinn hafa verið sá næststormasamasti á öldinni - á eftir janúar árið 2020. Meðan við bíðum eftir uppgjöri Veðurstofunnar fyrir einstakar stöðvar lítum við (óábyrgt) á meðalhitaröðun á spásvæðunum. 

w-blogg010222a

Hitinn er víðast nærri meðallagi, raðast í 10. til 12. hlýjasta sæti (af 22) á flestum svæðum. Vestfirðir skera sig þó aðeins úr. Þar var mánuðurinn í 19. hlýjasta (fjórðakaldasta) sæti aldarinnar - kannski í samræmi við það að lægðir fóru margar hverjar yfir landið þannig að sunnanhlýindi lægðanna náðu sjaldnar vestur á firði heldur en í aðra landshluta. 

Háloftauppgjör sýnir að langt er síðan vestanátt háloftanna hefur verið svona stríð í janúar. Við þurfum að fara aftur til janúarmánaðar 1981 til að finna svipað - og síðan benda endurgreiningar (bæði sú bandaríska og sú evrópska) á janúar 1923 sem eitthvað svipað. 

w-blogg010222b

Myndin sýnir meðalhæð hæð 500 hPa-flatarins í janúar. Hún var ekki fjarri meðallaginu hér á landi, en mikil jákvæð vik voru sunnan við land, en neikvæð norður og vestur undan. Þetta þýðir að vestanáttin var umtalsvert stríðari en venjulegt er. Við sjáum líka að áttin var sunnan við vestur (eins og reyndar er langalgengast). 

Í janúar 1981 var jákvæða vikið sunnan við land enn meira en nú - og staðan vestan Grænlands nokkuð önnur heldur en nú. 

w-blogg010222c

Illviðrasamt var í janúar 1981. Það gerðist nokkrum sinnum að bílar fuku af vegum og foktjón varð. Sömuleiðis urðu krapa- og vatnsflóð seint í mánuðinum. Minnisstæðast er framhlaupið við Lund í Lundarreykjadal, en það sópaði burt fjósi, hlöðu og litlu hesthúsi og drap nokkra gripi. Mál sem þyrfti sannarlega að rannsaka nánar (ég man ekki eftir sérstakri skýrslu um þetta). Sömuleiðis varð flóð á Sauðárkróki og krapahlaup á Bíldudal. 

Annars hurfu illviðri janúarmánaðar 1981 mjög í skuggann fyrir veðrinu mikla 16.febrúar en það var gjarnan kennt við Engihjalla í Kópavogi. Eitt af verstu veðrum síðari tíma. Fjallað var um það í sérstökum pistli hér á hungurdiskum fyrir nokkrum árum. 

w-blogg010222d

Kortið hér að ofan er ágiskun um stöðuna í janúar 1923. Þetta var afskaplega illviðrasamur mánuður, eins og lesa má um í yfirliti hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1923. Mikið tjón varð á Grandagarði við höfnina í Reykjavík þ.13. til 14. Tjón varð í fleiri veðrum. Í vestanáttinni reif ís úr Grænlandssundi og komust stakir jakar inn á Önundarfjörð undir lok mánaðarins. Mikil umskipti urðu um og fyrir miðjan febrúar og gerði eindregnar austanáttir og mátti heita afbragðstíð það sem eftir lifði vetrar. 

Hvað gerist nú í framhaldinu vitum við ekki - en við sjáum ekki enn enda háloftavestanáttasyrpunnar. Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 226
  • Sl. viku: 1927
  • Frá upphafi: 2350796

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1721
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband