Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2021

Óvenjuhár meðalhiti

Meðalhiti á Akureyri fyrstu 25 daga júlímánaðar er 15,0 stig og sömuleiðis 15,0 stig síðustu 30 daga. Meðaltalið á Krossanesbrautinni er lítillega lægra, 14,5 stig það sem af er mánuði. Meðalhiti er álíka hár á Torfum í Eyjafirði og litlu lægri á Hallormsstað, á Reykjum í Fnjóskadal og við Mývatn. Vik frá meðallagi er sem fyrr mest á fjöllum um landið austanvert, +5,7 við Upptyppinga og +5,5 á Gagnheiði. Meðalhámarkshiti er einnig óvenju hár, meiri en 20 stig, hæstur á Hallormsstað 21,7 stig - sýnist ritstjóra hungurdiska í fljótu bragði. Líklegt er að þessar vægast sagt óvenjulegu tölur lækki heldur næstu daga, en þó lítur nokkuð vel út með að júlímeðalhitamet verði slegin á allmörgum stöðvum og sá möguleiki er einnig fyrir hendi að við fáum að sjá hærri mánaðarmeðalhita en sést hefur áður hér á landi á einhverri stöð. 

Hæsta nýleg tala - og alveg vafalaus - eru 13,7 stig á Hjarðarlandi í júlí 2019. Vafalítil er tala frá Egilsstöðum í júlí 1955, líka 13,7 stig. Því miður féllu mælingar niður á Hallormsstað sumarið 1991, rétt hugsanlegt er að meðalhiti í júlí hafi þar orðið hærri en þetta - og með hefðbundnum ágiskunaraðferðum reiknast hann 14,0 stig (en við getum ekki viðurkennt það sem fengið er með reiknikúnstum sem met). 

Hæsta júlítala á Akureyri hingað til er 13,3 stig, frá hinu sérlega óvenjulega sumri 1933. Í gömlum hungurdiskapistli er fjallað um fleiri háar mánaðarmeðalhitatölur.

Ágústmánuður á einnig fáeinar mjög háar meðalhitatölur, vafalaus eru 13,5 stig á Írafossi 2004 og trúlega eru 13,9 stig á Húsavík 1947 sömuleiðis rétt (eða þar um bil). Ágúst 1880 var mjög hlýr um land allt, og sérstaklega austanlands. Þar reiknast meðalhiti á Valþjófsstað 14,0 stig - en engu að síður vafasamt að viðurkenna það sem met - þó vafalaust hafi þar verið óvenjuhlýtt. 

Að 30-daga meðalhiti skuli nú hafa náð 15,0 stigum er harla óvænt - jafnvel þó ekki „hitti í“ almanaksmánuð. Nú verður að játa að ekki hefur verið kerfisbundið leitað í gegnum öll eldri 30-daga meðaltöl og svo lengi sem það hefur ekki verið gert er ekki alveg hægt að fullyrða að svona nokkuð hafi ekki gerst áður á þeim tíma sem hitamælingar hafa verið stundaðar hér á landi. Munurinn á þeim eldri háu hitatölum sem hér hafa verið nefndar og 15 stigunum er hins vegar svo mikill að líkur á að finna eitthvað ámóta í eldri gögnum eru ekki mjög miklar. Ritstjóri hungurdiska mun samt gefa þessu auga. 

Meðalhámarkshitatölur mánaðarins verða líka spennandi. Hæsti mánaðarmeðalhámarkshiti sem við hiklaust viðurkennum eru 18,7 stig, frá Hjarðarlandi bæði 2008 og 2019. Þær sem næst koma á eftir er fjallað um í gömlum hungurdiskapistli þar er einnig sagt frá (vafasamari eldri meðalhámarkstölum). 

Einhver spyr nú sjálfsagt um hæsta meðallágmarkshita mánaðar. Það met er frá Görðum í Staðarsveit - í júlí 1991, 11,0 stig. Hæsti meðallágmarkshiti mánaðar á Akureyri reiknast í júlí 1933, 10,4 stig (tala sem þarf reunar nánari rannsóknar við). Meðaltal fyrstu 25 daga júlímánaðar nú er sá sami. Spurning hversu vel það heldur þessa sex daga sem eftir lifa mánaðar. Hæsti mánaðarmeðallágmarkshiti í Reykjavík er 10,8 stig (líka í júlí 1991).    

 


Tilraun til breytinga

Veðurlag hefur nú verið í svipuðum skorðum hér við land í um það bil mánuð. Mikil hlýindi um landið norðan- og austanvert, en þungbúið á Suðvesturlandi og hiti þar nærri meðallagi. Úrkoma hefur á þessu tímabili verið lítil um land allt. 

Snemma í vikunni varð ljóst að allöflugur kuldapollur myndi stefna til landsins vestan yfir Grænland. Þó tölvuspár hafi verið sammála um komu pollsins hingað hafa þær verið heldur óvissar um framhaldið. Samkomulag hefur nú tekist að mestu um það að pollurinn fari fyrst lítinn hring um sjálfan sig fyrir vestan land á morgun (sunnudag 25.júlí) og á mánudag, en síðan taki hann á rás til suðausturs í átt til Bretlands og enn síðar til Danmerkur.

w-blogg240721a

Kortið sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á mánudag. Þá verður miðja pollsins við Vesturland. Óstöðugt loft fylgir - (það er mjög kalt í háloftunum) og úrkoma gæti orðið töluverð bæði á sunnudag og mánudag. Kannski rignir eitthvað eystra líka þegar frá líður og vindur nær að snúast til austurs í háloftunum. 

Litirnir á kortinu segja okkur af þykktinni, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Hún hefur upp á síðkastið lengst af verið á milli 5500 og 5600 metrar (jafnvel enn meiri suma daga), en dekkri græni liturinn segir af þykkt minni en 5400 metrum - og allt að tíu stigum kaldara lofti heldur en hefur verið yfir landinu að undanförnu. Það þýðir að erfiðara er að koma síðdegishitanum yfir 20 stigin (þykktartölurnar yfir Norðausturlandi eru ekki svona lágar). Hér á Suðvesturlandi munar minna á því sem verið hefur - yfir okkur hefur legið fremur svalt sjávarloft þó hlýindi hafi verið ofar. 

Þegar kuldapollurinn fer suður um sækir hlýja loftið aftur að - bara spurning um hvort það kemur úr austri eða vestri - og hvort einhverjar leifar af kaldara lofti lokast inni á milli þessara hlýju loftstrauma - og þar með tafið hingaðkomu þeirra. 

Komi hlýja loftið úr austri eru talsverðar líkur á að hiti komist síðar í vikunni yfir 20 stig á Suðurlandi. En um það vitum við lítið enn sem komið er.

Fleiri kuldapollar eru reikandi um í norðurhöfum - mislíklegir til áhrifa hér á landi. Sömuleiðis gæti farið að draga til tíðinda suður við hvarfbaug - en hlýr og rakur hroði þaðan getur líka valdið breytingum á veðurlagi hér á landi síðla sumars.  


Fyrstu 20 dagar júlímánaðar

Hið tvískipta veðurlag varir enn á landinu, óvenjuleg hlýindi um það austanvert, en dumbungsveður og mun svalara vestra. Meðalhiti fyrstu 20 daga júlímánaðar í Reykjavík er 11,1 stig. Það er -0,3 stigum neðan meðallags sömu daga 1991 til 2020, en -0,2 neðan meðaltals síðustu tíu ára og í 14.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Á langa listanum er hitinn í Reykjavík í 58.sæti (af 147).
 
Á Akureyri er meðalhiti þessa sömu daga 14,4 stig, meir en 1 stigi hærra en mest er vitað um sömu daga áður. Við eigum daglegar tölur á lager frá Akureyri aftur til 1936. Hiti nú er 3,6 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, en 3,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Mánuðurinn, það sem af er, er sá hlýjasti á öldinni um allt landið norðan- og austanvert, frá Ströndum og Norðurlandi vestra austur um og suður á Suðausturland. Sömuleiðis á Miðhálendinu. Á Suðurlandi og við Faxaflóa eru dagarnir í 10.hlýjasta sæti, í því 9. við Breiðafjörð og í því þriðjahlýjasta á Vestfjörðum.
 
Á einstökum stöðvum er jákvætt vik mest við Upptyppinga, +6,2 stig. Þar hefur þessa daga einnig verið hlýjasta veðurstöð landsins, meðalhiti 14,8 stig. Er óvenjulegt að hlýjast sé á hálendinu. Neikvæða vikið er mest á Garðskagavita -0,6 stig.
 
Þurrt hefur verið í veðri. Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 7,9 mm, aðeins fimmtungur af meðallagi og hefur aðeins tvisvar mælst jafnlítil eða minni sömu daga á þessari öld - og aðeins átta sinnum á þeim 125 árum sem við eigum til daglegar mælingar. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 2,4 mm og hefur mjög sjaldan verið minni sömu daga (minnst 1,3 mm 1940). Ekki hefur verið jafnþurrt alls staðar suðvestan- og vestalands og í Reykjavík.
 
Sólskinsstundir hafa aðeins mælst 64,3 í Reykjavík og er það um 50 stundum færra en í meðalári. Vitað er um 13 tilvik með færri sólskinsstundum sömu daga síðustu 111 ár, síðast 2018.

Þurrt - en drungalegt

Þó ekki sé beinlínis hægt að tala um sólarleysi á Suðvesturlandi að undanförnu hefur sólin samt ekki verið áberandi. Sólskinsstundir í Reykjavík voru 50,5 fyrri hluta júlímánaðar. Við vitum um 22 tilvik með enn færri stundum sömu daga síðustu 110 árin. Við búumst frekar við því að sólarrýrð fylgi úrkomutíð, en svo hefur ekki verið nú, alla vega ekki fram til þessa dags - hvað sem svo síðar verður. Úrkoma fyrstu 15 dagana mældist aðeins 4,6 mm og hefur aðeins 6 sinnum verið minni á sama tíma síðustu 100 árin. Sömuleiðis hafa suðlægar áttir verið ríkjandi á landinu. Við getum fylgst með vindi frá degi til dags síðustu 70 árin rúm (frá og með 1949) og á þeim tíma hefur sunnanáttin aðeins fjórum sinnum verið ákveðnari heldur en nú - sömu daga. Í þeim tilvikum öllum var úrkoma töluvert meiri í Reykjavík heldur en nú. Það má sjá á myndinni hér að neðan.

w-blogg160721a

Myndin er e.t.v. ekki alveg auðveld aflestrar - en batnar sé hún stækkuð. Lárétti ásinn sýnir sunnanþátt vindsins (í m/s) - neikvæð gildi tákna að norðanátt hefur verið ríkjandi á landinu. Norðanáttin var mest þessa daga, 1970, 1993 og 2010 (krossarnir lengst til vinstri). Sunnanáttin var aftur á móti mest 1955, 1989, 2005 og 1983 - í öllum þeim tilvikum var úrkoma mun meiri en nú. Svo vildi til að sunnanáttir héldu áfram 1955 og 1983 (fræg rigningasumur), en heldur dró úr 1989, og 2005 skipti um tíð með hundadögum. 

Dagarnir 15 í ár eru í nokkuð óvenjulegri stöðu, en á alveg sama stað og sömu dagar 1975. Þá var líka þurrt, en sólarlítið - en endaði í flokki rigningasumra. Við sjáum að oftast er norðanátt ríkjandi samfara þurrki framan af júlí. 

w-blogg160721b

Síðari sýnir sólskinsstundafjölda dagana 15 og úrkomuna. Þar eru dagarnir 15 í ár líka í heldur óvenjulegri stöðu - í ámóta úrkomuleysi hefði mátt búast við því að sólskinsstundirnar væru meir en tvöfalt fleiri en verið hefur - eða úrkoma 5 til 10 sinnum meiri. En við sjáum að dagarnir 15 eiga sér ættingja, annars vegar hinn sama og áður, 1975, en einnig 1978. Svo eru 1959, 1956 og 1936 ekki mjög fjarri - en sólskinsstundir þó ívið fleiri en nú.

Nú er spurning hvernig fer með síðari hluta mánaðarins, úrkoman er mjög fljót að rétta sig af, ekki þarf nema 1 eða 2 daga með sæmilegu úrhelli til að allt verði með felldu. Óvenjulegt ástand (sem það er) getur á örskotsstund orðið harla venjulegt. 

Það er svo annað mál að árið hefur verið þurrt í Reykjavík það sem af er, en við bíðum með að fjalla nánar um það þar til eftir mánaðamót (- en kannski rignir nóg til þess til þess tíma að við getum sleppt því). 


Fyrri hluti júlímánaðar

Fyrri hluti júlímánaðar hefur verið hlýr og þurr. Meðalhiti í Reykjavík er 11,5 stig, +0,3 stigum ofan meðallaganna 1991 til 2020 og síðustu tíu ára. Þetta er það 10.hlýjasta (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2007, meðalhiti þá var 13,2 stig, en kaldastir voru þeir 2013, meðalhiti 9,6 stig. Á langa listanum er hitinn í Reykjavík í 37.sæti (af 147). Hlýjast var sömu daga 1991, meðalhiti þá 13,5 stig, en kaldast var 1874, meðalhiti 7,7 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú 14,1 stig, það hlýjasta sem vitað er um þar á bæ að minnsta kosti síðan 1936. Hiti er 3,3 stig ofan meðallaganna 1991 til 2020 og síðustu tíu ára.
 
Fyrri hluti júlí er sá hlýjasti á öldinni um landið norðan- og austanvert og á miðhálendinu, en á Suðurlandi er hann í 9.hlýjasta sæti (af 21), í því 8. við Faxaflóa og 7. við Breiðafjörð. Hann er sá þriðjihlýjasti á Vestfjörðum. Hlýjast að tiltölu hefur verið við Upptyppinga, hiti þar 6,2 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára. Kaldast, að tiltölu, hefur verið á Patreksfirði og Garðskagavita þar sem hiti er -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.
 
Óvenjuþurrt hefur verið á landinu. Úrkoma hefur aðeins mælst 4,9 mm í Reykjavík og hefur aðeins 8 sinnum verið minni (125 ár), síðast 2016. Það sem gerir úrkomuleysið enn óvenjulegra er að suðlægar áttir hafa verið ríkjandi á sama tíma. Á Akureyri hefur verið enn minni úrkoma, þar hafa aðeins mælst 2,3 mm - sem er þó ekki met.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 50,5 í Reykjavík - 35 stundum færri en í meðalári - en þær hafa þó oft verið færri sömu daga, fæstar 15,5 árið 1980 og 18,0 árið 2018.

Hugað að árshámarkshita í Reykjavík

Það er ekki algengt að hiti nái 20 stigum í Reykjavík. Jafnvel geta liðið mörg ár á milli slíkra atburða. Sé miðað við síðustu 100 ár og opinberar tölur tengdar veðurstöðinni „Reykjavík“ hefur hæsti hiti ársins náð 20 stigum á þriggja ára fresti að meðaltali, 35 sinnum af 100. Tuttugu stiga tilvikin eru þó fleiri vegna þess að stundum mælist hiti 20 stig eða meiri oftar en einu sinni sama árið. Mælingar hafa verið gerðar á sjálfvirkri veðurstöð á „Veðurstofutúni“ í 25 ár. Á þeim tíma hefur hæsti hiti ársins 17 sinnum náð 20 stigum - eða í tveimur árum af þremur. Sömu ár náði hæsti hiti á kvikasilfursmæli í skýli 16 sinnum 20 stigum. Síðasti aldarfjórðungurinn hefur því verið talsvert gæfari á 20 stigin heldur en þeir næstu þrír á undan. 

Á þessum 100 árum hefur veðurstöðin ítrekað verið flutt - eða þá að einhverjar aðrar breytingar hafa orðið. Þó flestar þessara breytinga virðist ekki hafa haft teljandi áhrif á meðalhita ársins (að undantekinni veru stöðvarinnar á þaki Landsímahússins 1931 til 1945) er því ekki að neita að verulegar líkur eru á að áhrif á hæsta hita ársins geti verið nokkrar. 

Fyrir utan flutningana er hætt við truflunum sé mælibúnaði eða mæliháttum breytt. Hitamælaskýli hafa ekki alltaf verið sömu gerðar, mestar breytingar urðu þegar veggskýli voru lögð af og fríttstandandi skýli tekin upp í staðinn - og síðan á síðari árum þegar hefðbundin skýli hafa smám saman lagst af og sjálfvirkar mælingar tekið við. Mælihólkar sjálfvirku mælinganna eru miklu fyrirferðarminni heldur en skýli kvikasilfursmælanna - tregða þeirra gagnvart snöggum hitabreytingum er minni og líkur á að það takist að mæla skyndilegar, skammvinnar hitasveiflur eru meiri. Hólkarnir eru líka næmari fyrir óæskilegum varma- og stuttbylgjugeislaáhrifum heldur en skýlin. Samt virðist það vera svo að áhrif á meðalhita séu lítil - áhrif á hæsta hita ársins geta hins vegar verið töluverð.

Haustið 2015 var hætt að nota kvikasilfursmælingar í veðurskeytum frá Reykjavík. Allar hámarksmælingar veðurstöðvarinnar „Reykjavík“ síðan, eru því fengnar úr hólki sjálfvirku stöðvarinnar. Haldið hefur verið áfram að lesa hámarks- og lágmarkshita kvikasilfursmæla í gamla skýlinu - þó þær mælingar eigi formlega ekki lengur við veðurstöðina „Reykjavík“. Þessar mælingar eru þó ekki fullkomlega sambærilegar við eldri mælingar sömu mæla í sama skýli vegna þess að skýlið er ekki opnað nema tvisvar á sólarhring, en var opnað átta sinnum áður. Gætu þessir nýju hættir haft áhrif á mælingarnar. Annað hefðbundið skýli er í reit Veðurstofunnar. Í því er annar sjálfvirkur skynjari, sem líka mælir hámarkshita, og þar með hæsta hita ársins. Þessi mælir hefur verið í rekstri frá árinu 2005. Þetta skýli er ekki opnað reglulega (aðeins þegar einhvers viðhalds er þörf). 

skylin-i-gamla-reitnum_2013--08-07-DSCN0393

Myndin sýnir skýlin tvö (í ágúst 2013). 

Þessar fjölbreyttu mælingar gefa okkur kost á samanburði hæsta árshita skýlanna beggja og mælihólks sjálfvirku stöðvarinnar. 

Á árunum 1996 til 2015 var hæsti hiti ársins á kvikasilfursmæli í skýli að meðaltali 20,3 stig, á sama tíma var hann 20,6 stig á skynjara í hólki. Munar 0,3 stigum. Síðustu 5 ár (2016 til 2020) var meðalhámark ársins 21,5 stig á kvikasilfursmæli í skýli, en á sama tíma 22,0 stig á skynjara í hólki. Sömu ár var meðalhámark ársins 21,4 stig á sjálfvirkan skynjara í „lokaða skýlinu“. Á árunum 2006 til 2020 var meðalhámark ársins 21,6 stig á skynjara í hólki, en 20,9 stig á skynjara í skýli. 

Munur á árshámörkum þessara mæliraða er því ekki mikill, en hann er samt nægilega mikill til þess að metingur um hæsta hita getur átt sér stað. Að auki gæti líka virst að þessi munur sé heldur meiri þegar árshámarkið er hátt heldur en þegar það er lágt. Hæsti hiti sem mælst hefur á kvikasilfursmælinn á Veðurstofutúni er 25,7 stig (30.júlí 2008). Hæsti hiti sjálfvirka mælisins í hinu skýlinu (sem ekki er opnað) var þá 25,5 stig, en aftur á móti 26,4 stig á skynjarann í hólknum. Svipað var uppi á teningnum í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004. Þá var hæsti hiti á kvikasilfursmælinum 24,8 stig, en 25,7 á skynjaranum í hólknum. 

Svo virðist - ekki aðeins í Reykjavík heldur einnig annars staðar, að í logni og miklu sólskini verði hiti lítillega hærri í hólkum sjálfvirku stöðvanna heldur en í hefðbundnum skýlum. Við vitum hins vegar ekki með vissu hvort þessi „umframhiti“ er til kominn vegna þess að hlýrra er í hólknum heldur en í loftinu umhverfis (nokkuð sem við viljum alls ekki) eða vegna þess að blöndun lofts í kringum hólkinn er einfaldlega lítil í logninu. Slíkt ástand stendur þá e.t.v. ekki nægilega lengi til þess að mælir í skýli frétti af því - þó það sé alveg raunverulegt. Um þetta má þrasa að vild - en minna verður þó á að framleiðandi hólkanna segir að í glampandi sólskini og stafalogni sýni skynjararnir 1 til 3 stigum hærra en mælir í fullloftræstum hólki - en ekki er boðið upp á samanburð við skýli.

Hver er þá hæsti hiti sem mælst hefur á veðurstöðinni „Reykjavík“? Jú, formlega séð eru það 25,7 stig - en hefði sá mælir sem nú er notaður verið notaður við gerð skeytis væri hann 26,4 stig. Þetta setur okkur í ákveðinn vanda. Enn eitt þrastilefnið. Þetta kann líka að hafa áhrif á fjölda tuttugustigadaga - og tuttugustigaára. Við skulum bíða með það viðfangsefni - að minnsta kosti í bili, því enn fleiri flækjur bætast við. 

Eins og fram kom að ofan hafa tuttugustigaár verið mun fleiri síðustu 25 árin heldur en þau næstu 75 á undan. En hefðu tuttugustiga ár orðið fleiri áður hefði sjálfvirki mælirinn (og hólkurinn) verið notaður - en ekki kvikasilfursmælirinn. Við vitum raunar ekki mikið um það - skýlið á Veðurstofutúni var sett þar upp 1973. Áður var mælt á tveimur stöðum á flugvellinum - og þar áður við Sjómannaskólann, á þaki Landsímahússins og í bakgarði við neðanverðan Skólavörðustíg. Samfelldar hámarksmælingar hófust á síðastnefnda staðnum árið 1920. Á umsjónartíma dönsku veðurstofunnar var enginn hámarksmælir á Veðurstofunni í Reykjavík. Þar var aftur á móti hitasíriti og þegar hann var í lagi mátti lesa hámarkshita hvers dags af honum. Við höfum því sæmilega áreiðanlegar upplýsingar um árshámarkshita áranna 1886 til 1906 í Reykjavík - en ekki 1907 til 1919 og ekki fyrir 1886. Sex áranna 1886 til 1906 voru örugglega tuttugustigaár í Reykjavík - fleiri en allt tímabilið 1961 til 1990, þegar þau voru aðeins þrjú. Öll þessi ár (og dagsetningar) eru skilmerkilega nefnd í gamalli ritgerð ritstjóra hungurdiska, „Hitabylgjur og hlýir dagar“ sem finna má á vef Veðurstofunnar (á bls.23 og 24).   

Enn sem komið er (14.júlí) hefur hiti ekki náð 20 stigum í Reykjavík sumarið 2021, en enn eru þeir dagar eftir sem að jafnaði eru hlýjastir. Hámarkshiti til þessa í sumar (í hólknum) er 18,3 stig, (mældust 29.júní), í skýlinu mældist þá hæst 18,0 stig, en í lokaða skýlinu 17,9 stig. Í nýjum reit Veðurstofunnar („Háuhlíð“) mældist hiti hæstur 17,8 stig. Hæstur hiti á stöðvum á höfuðborgarsvæðinu í sumar er 19,8 stig (á Geldinganesi). Lægstur er hæsti hiti sumarsins til þessa á Suðurnesi á Seltjarnarnesi, 16,3 stig. Áhugasamir geta litið á lista í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úr Rímbeglu

Rímbeygla (eða rímbegla) er ævagömul samsuða handrita um tímatal og fleira - sem var svo prentað ásamt latneskri þýðingu og athugasemdum fyrir margt löngu - útgáfan sem ritstjóri hungurdiska horfir á er frá 1801 (fáanleg á bækur.is). Yngri prentun mun einnig til. 

Í ritinu er minnst á stjörnumerki dýrahringsins og þau tengd við sólargang og veður. Fróðleg lesning, þótt greinilega sé hún innflutt að mestu. Tilgangurinn er ábyggilega meðfram sá að auðvelda lesendum að muna röð þessara stjörnumerkja - muna auðveldlega hvort er á undan í árinu meyjar- eða  vogarmerkið, svo dæmi sé tekið af handahófi. Tölurnar eru kaflafyrirsagnir. Ég hef leyft mér að hnika stafsetningu til nútímahorfs (ekki endilega rétt gert). Ég hef sett nútímanöfn merkjanna í sviga séu þau önnur en við eigum að venjast. Höfum í huga að sumar dagsetninganna vísa til „gamla stíls“ og eiga ekki við nú. 

[66.] Þá hefur sól göngu sína â merki því er hrútur er kallaður, af því var það hrútsmerki haft, að þá snýst veðurátta á hinn hægra veg, sem hrútur hvílir á hægri síðu meir um sumar; en um vetur hvílir hann meir á vinstri hlið.

[67.] Sól gengur þá næst fyrir uxamerki (nautið); þar kemur hún átta nóttum fyrir gagndaginn enn eina að almannatali (yfirleitt kallast hann gangdagur - nú 25.apríl): því höfðu spekingar þar uxamerki, að þá er jarðir á flestum löndum best að erja; en yxn eru oftast fyrir arði höfð. Þá gengur hún næst fyrir tveggja bræðra merki; þar kemur hún XV nóttum eftir krossmessu að almennu tali, því var þar kallað tvíburamerki, að í því sólmerki verða sólhvörf um sumar; verða þá tveir dagar líkir að lengd; svo sem þeir menn verða líkastir er tvíburar eru. Þaðan gengur sól fyrir krabbamerki, þar kemur hún viku fyrir Jónsmessu, að alþýðu tali. Krabbi gengur öfugur löngum; enda snýr sól göngu sinni aftur, þá er hún kemur í það merki; því að þá þver göngu hennar.

[68.] Síðan gengur hún í hins óargadýrs merki (ljónsmerkið), þar kemur hún viku fyrir Jakobs messu; þá er sólarganga í kólnan; svo að minni hiti er af sól ofanvert það merki, heldur en öndvert, svo sem óargadýr hefur kaldara eðli aftur frá miðju, heldur en fram. Þaðan gengur sól fyrir meyjarmerki, þar kemur hún þrem nóttum eftir Maríumessu ena fyrri, því settu þeir það mark þar, að þá er engin fræ von hvorki grass né viðar; sem meyjar eðli er að geta ekki eðli af sér. Eftir það gengur sól fyrir skálamerki (vogin), þar kemur hún þrem nóttum eftir krossmessu; þá eru jafndægur að rímtali á því merki; nú af því að skálar eru jafn höfgar báðar, þá skildi af því jafndægurs merki vera kallað skálamerki. Síðan gengur sól fyrir sporðdreka merki, þar kemur hún tíu nóttum fyrir Símons messu; þann dag er Lúkas messa. Það dýr er sporðdreki er kallaður, hefur eitur í enum eftra hlut sínum; en meðan sól gengur um það merki, þá er von hríða og illviðra.

[69.] Eftir það gengur sól fyrir bogmanns merki, þar kemur hún VI nóttum eftir Marteinsmessu; þann mánuð er eldingaflug mest í lofti á suðurlöndum. Má af því að við þeim er óhægt að sjá, er vel kann skjóta, ef hann vill til meins; þá skyldi eldinga mánuðurinn vera af því í bogmanns líki, að við hvoru tveggju er illt að sjá, við eldingum og örvum. Þaðan hverfur hún fyrir steingeitar merki, þar kemur hún þrem nóttum fyrir Tómas messu; það er steingeitar eðli, að hún klifrar í hærri stað heldur en hún væri áður, og vill hún staðar nema í hæstu hömrum. Nú af því að sól gengur annan dag öðrum hærra, þá hún fylgir því merki; þá var af því það nafn gefið þeim sólmánuði.

{70] Eftir það gengur sól fyrir vatnsbera merki, þar kemur hún þrem nóttum fyrir Agnesar messu, þann mánuð telja menn á suðurlöndum vera öskursaman (harðan?); þann köllum vér þorra, og skyldi af því kenna mánuðinn við þann mann sem vatnsins gætir, að þá eru vötnin mest lokinn, þau er í himninum eru, en hér eru lokin með ísum. Síðan gengur sól fyrir fiska merki, þar kemur hún viku fyrir Péturs messu. Nú af því að þá skal gróði koma bæði í sjó og vötn, og þá er sækvikinda frævon mest; þá skyldi af því sá sólmánuður kenndur við fiska. Nú er komið til móts við hrútsmerki, sem upp var hafið að öndverðu þessu tali.

Rymbegla i. e. Computistica et chronologica varia veterum Islandorum“. Ár 1801 814s


Fyrstu tíu daga júlímánaðar

Fyrstu 10 dagar júlímánaðar hafa verið hlýir. Meðalhiti í Reykjavík er 11,8 stig, +0,6 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og í 8.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir tíu árið 2009, meðalhiti þá 13,4 stig, en kaldastir 2018, meðalhiti þá 9,1 stig. Á langa listanum er hitinn í 30.hlýjasta sæti. Hlýjastir voru dagarnir 10 árið 1991, meðalhiti þá 14,0 stig, en kaldastir voru þeir 1874, meðalhiti 7,6 stig.
 
Enn hlýrra hefur verið fyrir norðan, meðalhiti á Akureyri er 14,0 stig, +3,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +3,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er fimmtahlýjasta júlíbyrjun á Akureyri (við eigum daglegar tölur þaðan frá 1936).
 
Þetta er hlýjasta júlíbyrjun aldarinnar um landið norðaustan- og austanvert og á Miðhálendinu, sú næsthlýjasta á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og á Suðausturlandi, en sú sjöttahlýjasta á Suðurlandi, við Faxaflóa og Breiðafjörð.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á fjöllum um landið norðaustan- og austanvert, hiti fyrstu tíu dagana er 7,4 stigum ofan meðallags við Upptyppinga. Kaldast að tiltölu hefur verið á Patreksfirði, þar er hiti -0,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára - og í meðallagi á Garðskagavita.
 
Mjög þurrt hefur verið á landinu. Í Reykjavík hefur úrkoman aðeins mælst 1,5 mm og engin á Akureyri. Í Reykjavík er aðeins 8 sinnum vitað um minni úrkomu sömu daga, síðast 1994, en jafnlítil var hún 1996. Fyrstu 10 dagar júlímánaðar hafa tvisvar áður verið úrkomulausir á Akureyri svo vitað sé, 1963 og 1990.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 47,1 í Reykjavík og er það 10 stundum undir meðallagi.
 
Eins og minnst var á á þessum vettvangi fyrir nokkrum dögum hefur 20 stiga hiti mælst einhvers staðar á landinu í óvenju marga daga í röð, þeir eru nú (11.júlí) orðnir 18 - metlengdin er 23 dagar.

Löng syrpa

Ritstjóra hungurdiska telst svo til að nú sé tuttugustigasyrpan á landinu orðin 15 daga löng - og ekki er vitað um margar lengri - aðeins tvær - og byrjuðu þær báðar síðar að sumri en sú yfirstandandi. Lengsta syrpan - 23 dagar að lengd - endaði 18.ágúst 2012, en sú næstlengsta, 17 daga löng, endaði 1.ágúst 2010. Það vantar því enn 9 daga í metlengd (8 í jöfnun). Eins og spár evrópureiknimiðstöðvarinnar eru í dag (8.júlí) er ólíklegt að slíkt náist að þessu sinni - en enn er tími til að reyna aftur.

Við skulum hafa í huga að eftir því sem veðurstöðvum fjölgar aukast líkur á metum lítillega - alveg óháð almennri hlýnun.

Almennar upplýsingar um tuttugu stiga syrpur má finna í gömlum pistli ritstjórans á vef Veðurstofunnar.


Smávegis af júní

Þó nýliðinn júnímánuður eigi hafi verið klipptur og skorinn í stykki á ýmsan hátt (svalt mestallan mánuðinn suðvestanlands - en öfgakenndari kaflar, bæði hlýir og kaldir á Norðaustur- og Austurlandi) verður samt til meðaltal allra hluta - þar á meðal stöðunnar í háloftunum.

w-blogg020721a

Á meðalkorti evrópureiknimiðstðvarinnar eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, jafnþykktarlínur eru strikaðar (mjög daufar), en þykktarvik sýnd í lit. Jafnhæðarlínur segja frá ríkjandi vindáttum, en þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarvikin segja okkur frá því hvort hafi verið hlýrra eða kaldara en að meðaltali 1981 til 2010. Hiti er ofan meðallags á mestöllu kortinu - langmest þó austast, en þar fréttist af hlýjasta júní allra tíma í Finnlandi og Eystrasaltslöndum. Hjá okkur var hins vegar svalt - sérstaklega yfir Vesturlandi. 

Vestanátt mánaðarins var með öflugra móti - þó langt frá meti (1988). Sunnanáttin var vel ofan meðallags, en 500 hPa-flöturinn heldur lágur - en ekki nærri meti. Þessi samsetning þáttanna þriggja er hins vegar ekki algeng - sé 500 hPa-flöturinn mjög lágur á þessum tíma árs er fremur sjaldgæft að vestan- og sunnanáttirnar séu jafnstríðar og nú. En við finnum  þó ámóta tilvik, t.d. í júní 1992 (þegar jónsmessuhretið fræga gerði) - og ameríska endurgreiningin segir okkur að svipað hafi líka verið uppi á teningnum 1918 - en sú evrópska er ekki alveg sammála því. [Lauslega er sagt frá tíð í júní 1918 í árspistli hungurdiska fyrir 1918]. 

Landsdægurmet féllu til beggja handa í júní, þann 15. mældist frostið á Reykjum í Fnjóskadal -5,0 stig - það er mesta frost í byggð þann dag (og reyndar líka svo seint að vori). Þann 29. og 30. féllu landsdægurhámarksmet hins vegar, fyrri daginn mældist hiti 26,4 stig á Hallormsstað, og þann síðari 26,6 stig á Egilsstöðum. Það er hæsti hiti á landinu í júní frá 1988, en þá mældist hann 28,6 stig á Vopnafirði þann 25. Hingað til hefur aðeins eitt landsdægurlágmark fallið byggð á árinu, en sjö landsdægurhámörk. Ef við leyfum hálendisstöðvum að vera með í metunum (sem er hálfgert keppnisplat) hafa líka sjö landsdægurlágmarksmet fallið til þessa í ár. Hálendis- og fjallastöðvar munu smám saman hirða langflest landsdægurlágmörk sem í boði eru. 

Við þ0kkum Bolla P. að vanda fyrir kortagerðina.


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia
  • w-blogg261224d
  • w-blogg261224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.12.): 130
  • Sl. sólarhring: 181
  • Sl. viku: 3187
  • Frá upphafi: 2424682

Annað

  • Innlit í dag: 109
  • Innlit sl. viku: 2871
  • Gestir í dag: 102
  • IP-tölur í dag: 102

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband