Smávegis af júní

Þó nýliðinn júnímánuður eigi hafi verið klipptur og skorinn í stykki á ýmsan hátt (svalt mestallan mánuðinn suðvestanlands - en öfgakenndari kaflar, bæði hlýir og kaldir á Norðaustur- og Austurlandi) verður samt til meðaltal allra hluta - þar á meðal stöðunnar í háloftunum.

w-blogg020721a

Á meðalkorti evrópureiknimiðstðvarinnar eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, jafnþykktarlínur eru strikaðar (mjög daufar), en þykktarvik sýnd í lit. Jafnhæðarlínur segja frá ríkjandi vindáttum, en þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarvikin segja okkur frá því hvort hafi verið hlýrra eða kaldara en að meðaltali 1981 til 2010. Hiti er ofan meðallags á mestöllu kortinu - langmest þó austast, en þar fréttist af hlýjasta júní allra tíma í Finnlandi og Eystrasaltslöndum. Hjá okkur var hins vegar svalt - sérstaklega yfir Vesturlandi. 

Vestanátt mánaðarins var með öflugra móti - þó langt frá meti (1988). Sunnanáttin var vel ofan meðallags, en 500 hPa-flöturinn heldur lágur - en ekki nærri meti. Þessi samsetning þáttanna þriggja er hins vegar ekki algeng - sé 500 hPa-flöturinn mjög lágur á þessum tíma árs er fremur sjaldgæft að vestan- og sunnanáttirnar séu jafnstríðar og nú. En við finnum  þó ámóta tilvik, t.d. í júní 1992 (þegar jónsmessuhretið fræga gerði) - og ameríska endurgreiningin segir okkur að svipað hafi líka verið uppi á teningnum 1918 - en sú evrópska er ekki alveg sammála því. [Lauslega er sagt frá tíð í júní 1918 í árspistli hungurdiska fyrir 1918]. 

Landsdægurmet féllu til beggja handa í júní, þann 15. mældist frostið á Reykjum í Fnjóskadal -5,0 stig - það er mesta frost í byggð þann dag (og reyndar líka svo seint að vori). Þann 29. og 30. féllu landsdægurhámarksmet hins vegar, fyrri daginn mældist hiti 26,4 stig á Hallormsstað, og þann síðari 26,6 stig á Egilsstöðum. Það er hæsti hiti á landinu í júní frá 1988, en þá mældist hann 28,6 stig á Vopnafirði þann 25. Hingað til hefur aðeins eitt landsdægurlágmark fallið byggð á árinu, en sjö landsdægurhámörk. Ef við leyfum hálendisstöðvum að vera með í metunum (sem er hálfgert keppnisplat) hafa líka sjö landsdægurlágmarksmet fallið til þessa í ár. Hálendis- og fjallastöðvar munu smám saman hirða langflest landsdægurlágmörk sem í boði eru. 

Við þ0kkum Bolla P. að vanda fyrir kortagerðina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5
 • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (22.4.): 242
 • Sl. sólarhring: 442
 • Sl. viku: 2006
 • Frá upphafi: 2349519

Annað

 • Innlit í dag: 223
 • Innlit sl. viku: 1815
 • Gestir í dag: 220
 • IP-tölur í dag: 216

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband