Bloggfærslur mánaðarins, mars 2021
31.3.2021 | 13:49
Af árinu 1819
Talið meðalár á sínum tíma - en heldur kalt nú á dögum. Reglubundnar hitamælingar voru aðeins gerðar á einum stað á landinu svo vitað sé, Víðivöllum í Skagafirði. Út frá þeim mælingum giskum við á meðalhita í Reykjavík (4,7 stig) og í Stykkishólmi (3,8 stig). Veturinn var ekki frostamikill, fremur hlýtt var í mars, en kuldi í apríl og síðari hluta maímánaðar spilltu heldur fyrir. Sumir sögðu vorið þó hagsstætt. Rigningar spilltu sumrinu mjög á Suður- og Vesturlandi og gætti þeirra líka fyrir norðan - en eyfirðingar segja að hlýtt hafi verið í ágúst. Þó tókst að koma heyjum í garða - en þau voru vond. Haustið var fremur hagstætt.
Þegar horft er á myndina þarf að hafa í huga að mælingarnar eru gerðar í morgunsárið - á kaldasta tíma dags. Að sumarlagi var einnig mælt um miðjan dag, en þá skein sól stundum á mælinn - en þær mælingar hafa verið felldar brott á myndinni.
Aðalprentheimildir um tíðarfar og veður eru fengnar úr Klausturpóstinum og Brandstaðaannál og fáein bréf geta einnig um tíðarfar. Árbækur Espólins eru rýrar þetta ár - en gagnorðar. Tíðavísur Jóns Hjaltalín eru upplýsandi að vanda. Dagbækur eru nokkrar aðgengilegar, en erfiðar aflestrar (eins og venjulega). Hér að neðan má finna það helsta sem tekist hefur að ná saman um tíðarfar og veður á árinu. Stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Þíða og góðviðri hélst til 15. jan., að snjó og frostveður gjörði, oftast stillt veður og jarðsælt. Jarðskjálfti varð á þorraþrælinn. Í mars óstöðugt; hláka 4.-5. og 13., en 16. fyrsta innistaða og vikufönn og aftur mikil páskahríð á norðan, 11. apríl. Varð að öllu afferðagóður vetur og hvergi þungur. Hross úti gengin í besta standi. Á þessum vetri var aldrei jarðskortur.
Espólin er heldur stuttorður um tíðarfar á árinu:
Espólín: CIII. Kap. Þá var góður afli syðra öndverðan vetur, en lítill um vertíð, og höfðu menn þó sótt langt að, og allt norðan af Sléttu; var ofanverður vetur góður og vorið, nema lítið kast um páskatímann, en eigi rættist þó vel úr vorinu. (s 111). CV. Kap. Sumar það var votsamt og eigi gott. Um vorið var drepið á ís mikið af vöðuselum í Norður-Múlasýslu. (112).
Klausturpósturinn 1819 (II, 4, bls 60) segir af vetrartíð, aflabrögðum og fleira:
[...] Vetur má þá segja hér, einhvern hinn besta og mildasta, frosta- og snjóa-lítinn, en storma og hretviðrasaman mjög, um allt Suðurland, fram yfir nýár [1818/19]. Hey reynast nú víða dáðlaus til holda og mjólkur, líka stórum skemmd um Suðurland og víðar, og því illa fóðurgæf; enda er gagn af kú sár-rýrt, og bjargarskortur víða almennur, nema syðra við sjá, hvar aflabrögð allgóð bættu úr kaupstaðaörbyrgð matar. Nyrðra er velmegun almennt góð sögð; en vestra, einkum undir Jökli, bágindi meðal fólks, vegna sérlegs aflabrests af sjó, kringum Jökulinn. Nú er fyrir nokkru besta aflavon líkleg með öllu Austurlandi, á Suðurnesjum og í Norðvíkum, og þegar í blóma væntist og, að hún þá og þegar færast muni inn með Strönd og öllum Nesjum. Aflalítið fyrir Norðurlandi næst afliðið ár, nema af hákarli og seli í vissum plássum. Góður afli varð þó í Suðurmúlasýslu, en rýr í þeirri nyrðri árið sem leið [1818]. Ofsastormur af norðaustri tjáist, þann 23ja janúar þ.á. að hafa til muna skemmt höndlunarhús í Siglufirði nyrðra. [...] [Hér kemur síðan langur kafli um alls konar slys ekki tengd veðri þar til]: Í miðjum september [1818] króknaði unglingsmaður til dauðs, við fjárgöngur, á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu. Þann 22.janúar 1819, drukknuðu 7 menn af skipi við Ólafsvík; formaðurinn einn komst af.
Klausturpósturinn heldur áfram í 6.hefti 1819 (II, 6, bls 93):
Vetrarvertíð umliðin fyllti engan veginn þá líklegu aflavon, sem menn víðast um Suðurland gjörðu sér við hennar byrjun, en hún varð í flestum veiðistöðum austan með í Vestmannaeyjum þó góð í rýrasta meðallagi: sunnan með allvíðast aum; á Innnesjum og Akranesi sáraum, og sama var frá Jökulveiðistöðum vestra að heyra. Af Vestfjörðum fréttast harðindi mikil, allt að sumarmálum, og þar mikill hafís og eins nyrðra fyrir. Bráðdauði mikill á mönnum og skepnum, 8(?) menn bráðdauðir í Önundarfirði, nokkrir annarstaðar vestur um firði, og 3 í Hornafirði austur, allir, að menn halda, af óhollri nautn illa þurrkaðs verkaðs og nýlegs hákarls, sem bágindi þrýsta of mörgum til í ótíma, og heldur frekt í einu, sér til munns að leggja, máski sem einmeti.
Um seinan er mér nú kunngjörður skiptapi, þann 28.apríl 1818, á sundinu milli Vestmannaeyja og lands; fórust þar 8 menn, en 2 varð bjargað úr landi. Þann 10da sama mánaðar drukknuðu 2 menn í lendingu undir Eyjafjöllum ...
Brandsstaðaannáll [vor]:
Vorið gott. Sást með maí gróður og kýrgras um krossmessu á láglendi. Kuldakast fyrir fardaga, svo þurrkasamt með góðviðrum. Fráfærur voru í fyrra lagi, um sólstöður og lestir fóru í júlíbyrjun.
Sveinn Pálsson getur um tvo væga jarðskjálftakippi 16.apríl.
Klausturpósturinn 1819 (II, 7, bls 110) segir af vortíð og síðan í næsta tölublaði frá hafís og fleiru:
Veðurátt hefir fallið hin besta á umliðnu vori; grasvöxtur varð því víðast ágætur, svo skepnur tóku bráðri bröggun, nema hvar létt, skemmd og óholl hey á næstliðnum vetri stóðu þeim fyrir þrifum, sem allvíða reyndist svo um Suðurland, að óvenja þótti að sjá fjölda fullorðins nautpenings, kúa og nauta vella í lús, tálgast og dragast við það í hor; en þetta varð þó almennt um mýrarjarðir, hvar hey voru slæm og skemmd. Nokkrir reyndu að kaffæra pening í sjó eða vatni, til að eyða henni, en forgefins, því aðeins við langt sund drepst þessi vargur til fullnustu. Besta meðalið verður því ítrekaður þvottur gripsins í keitu og ösku, sem skerpir lútina, eða, hvar föng eru til, í kalkblöndnu vatni, hver skerpa er þeim illyrmum banvæn. Vorafli syðra varð af ýsu í meðallagi á lóðum, en mjög rýr á færi. Á Suðurnesjum var nú með góðri heppni reynd hákarlalóð, ...
Klausturpósturinn 1819 (II, 8, bls 127)
Sá hafís, hvers No. 6. á bls.94 getur fyrir Vestfjörðum, og nyrðra, kom og við fyrir austan, en aðeins um stutta hríð þar og nyrðra, og ýmsum héruðum til óvenjulegra heilla; því á þessum hafísi kom þvílík mergð af vöðuselum og kópum, að í Þingeyjarsýslu urðu 491 veiddir í nótum, en 664 rotaðir á ísnum. Í Norður-Múlasýslu er talan enn þá óviss, þó tjáir prófastur Hr. Guttormur Pálsson, að þar muni rotaðir vera á ísum af vöðuselum og kópum, full 2000 eða fleiri. Eitt bjarndýr var þar og fellt, en 12 hreindýr í Þingeyjarsýslu, við hvað þessu þó sást lítið fækka. Heyrt hefi ég kunnuga reikna 1 vætt fisks af hverjum meðal vöðuseli fullorðnum, en miklu meira af þeim stærstu.
Slysfarir og voveiflega dánir. [...] Þann 17da júní þ.á., týndist fiskafarmsskip fyrir Eyrarsveit vestra, með 4 mönnum. Þann 26ta f.m. [?] drukknuðu 2 danskir farmenn af slúffu á Reykjarfirði. Þann 7da júlí fórust 2 menn af báti fyrir Leirársveit í Borgarfirði, í svo kölluðum Ósum. [...]
Brandsstaðaannáll [sumar]:
1.-22. júlí stórrignt og seinast hret mikið. Tóku síðbúnir lestamenn út neyð vegna ófærðar og snjóa i fjöllum. Sláttur hófst á miðsumri. Ekki varð grasvöxtur meiri en í meðallagi, regnsamt um töðuslátt til 2.-3. ágúst, að góður þerrir kom, svo rekjusamt til 10. ágúst, að mikið hey var sætt. 3 daga eftir það (með sunnanátt) rigndi ákaflega í sífellu, svo skemmdir urðu miklar á þurru heyi, er olli sóttardrepi á fé síðar. Eftir það lítið um þurrk, þó hljóp (s80) mesta vatnið af og varð nýting sæmileg. Til Mikaelsmessu oftar vætusamt en frostalaust að mestu.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Fyrst í október hörkufrost vikutíma, svo óstöðugt með slyddum og þíðu og síðari helming hans þurrt og stillt. Í nóvember sunnanátt og þíður til 15., þá hríð og snjór, óstöðugt, harka og blotar. Með desember snjór af suðvestri allmikill, 5.-9. góðhláka; 13. norðanhríð og stórhríðar fyrir jólin með fannlögum, svo fé kom á gjöf. Varð þá krafsjörð móti austri, þó snjókyngja væri hins vegar. Árferði var nú gott og blómguðust sveitabúin með vaxandi lifandi pening og heyjanægtum. (s81)
Klausturpósturinn 1819 (II, 12, bls. 189) lýsir sumar- og hausttíð
Á veðráttufar og árferði frá vetrarkomu 1818, allt fram á slátt 1819, minntist ég á bls. 61,61,93-94, 110 og 127. Úr því reyndist sumarið kalt og vætusamt um mest allt Suður- og Vesturland, grasvöxtur góður en nýting slæm, svo töður og hey hröktust og skemmdust víða í haustrigningum. Í Húnavatnssýslu var og vætusamt, betri heyjafengur í Skagafirði, ágætur og árgæska norðar og um allt Austurland. Haustveðrátta góð, mild, en vindasöm, svo sjógæftir urðu bágar, sumar og haustafli mjög rýr, hvar af og af algjörlegu þroti allra lífs-nauðsynja í kaupstöðum Suðurlands (...) við útsiglingu skipa, og póstskipsins útvist ennþá þ. 2. desember, sem menn vonuðu, að þó bæta kynni bágindi og almennan bjargræða útvega hnekkir, komist það ekki hingað í ár. Að vestan fréttist betri haustafli undir Jökli, þó sjaldgæft væri. Mælt er að nálægt því 100 smáhvalir hefi hlaupið á land við Þingeyrarsand en hér um 16 náðust í Hrútafirði; líka að ósamheldi og ágreiningur um upprekstursstaðinn hafi opnað stórvöðum nokkurra þúsunda smáhvala í haust, aðkrekktum af upprekstarmönnum nálægt Vogastapa, útgöngu leið það til hafs um greipar þessara. ... Eystra tjáist Skeiðarárjökull syðri, enn þótt oft svo áður, mjög svo ókyrrlátur í sumar og hlaupsamur; sem afsprengi eldjökla, en enginn eldjökull sjálfur, boðar hann máski minna, á meðan umbrot ekki sjást í eldjöklunum norður og austur af honum, við hver hann oft áður hefir mjög órór sést. En mjög gjósa nú eldfjöllin Vesuvius á Vallandi, og Etna í Sikiley, sem oft hafa samfara orðið eldgosum hér, hverjum Drottinn oss forði!
Bessastöðum 31. ágúst 1819 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s71): Sífelldar rigningar hafa fordjarfað flestra töður, en rétt nú kom þerrir.
Gufunesi 15. september 1819 (Bjarni Thorarensen): Sumarið hefir hér syðra verið eitthvert hið argasta og nú er enn kominn óþerrir, nyrðra hefir alltaf verið besta tíð. Þú getur þá nærri að heyskapur hefir orðið að ganga hér illa.
Jón á Möðrufelli talar vel um veður á árinu - (að því er virðist) af þessum fáu orðum sem ritstjóri hungurdiska gat lesið. Í almennu yfirliti í lok árs 1839 segir hann 1819 hafa verið meðalár:
Febrúar mikið stilltur og hægviðrasamur, mars mikið góður, apríl yfir höfuð góður, fyrripartur kaldur. Maí, fyrri partur dágóður, síðari partur í kaldara lagi. Gróður í meðallagi. Júní andkaldur um tíma. Júlí allur rétt góður að veðráttufari, ágúst allur sérlega hlýr. September óstöðugur. Október mikið góður. Nóvember góður, snjólaust að kalla.
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1819
Vetur góður var í ár
víðast hér á landi
hjalls um rjóður hópur fjár
hlaut því fóður stór og smár.
Vorið svalt en veður hreint
vökvan jörðu sparði
lagði kalt um loftið beint
láðið allt því greri seint.
Spruttu túnin þegna þæg
þó í betra lagi
mörk tilbúna mild og væg
mána rúna vermdi næg.
Stormi blandið hret og hríð
hæst oss sumar færði,
baga vanda veitti lýð
voru landi óþörf tíð.
Svall um haga hlýrnis sút
heyja nýting gjörði
hunda-daga alla út
Ýmis baga hvarma lút.
Veðrið harða vítt um bý
vinnu arði spillti
haddur jarðar hrakinn því
haugaðist garða fólksins í.
Tíð á hausti valla vær
var, en hörkulítil
tregðulaust því fóður fær
fíls um naustið jór og ær.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1819. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur má finna í viðhengi.
30.3.2021 | 23:07
Veðurstofuveturinn
Að vanda lítum við nú á meðalhita veðurstofuvetrarins í byggðum landsins. Veðurstofuveturinn nær til mánaðanna desember til mars, er mánuði lengri heldur en alþjóðaveturinn - Mars er víðast á norðurhveli talinn til vorsins - en við getum það varla. Hitinn nú endar í 0,3 stigum. Það er nákvæmlega í meðallagi síðustu 10 ára - og vetra það sem af er öldinni, en +0,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020. Á tímabilinu 1965 til 2002 voru aðeins tveir vetur hlýrri heldur en sá nýliðni - en tíu eftir 2002 (19 ár). Svona eru umskiptin milli þessara tveggja tímabila mikil.
Umskiptin sjást vel á myndinni hér að ofan - sömuleiðis umskiptin sem urðu frá og með vetrinum 1964 til 1965. Á tímabilinu 1923 til 1964 (41 ár) voru tíu vetur hlýrri heldur en sá sem nú er nýliðinn. Meðalhiti síðustu 20 ára er þó hærri heldur en hann var á fyrra hlýskeiði - munar mest um það að kalda vetur hefur alveg vantað á þessari öld, en þeir sáust einn og einn á hlýskeiðinu fyrir 1965. Það hlýtur að koma að því að kaldur vetur sýni sig - það á að gerast þrátt fyrir almennt hlýnandi veðurlag í heiminum. Kröfur okkar um það hvað kaldur vetur er linast með hverju árinu.
Veturinn í fyrra var heldur kaldari en þessi (-0,3 stig á móti +0,3 nú) en flestir munu þó væntanlega sammála um að veður hafi verið mun betra nú heldur en þá. Mun minna hefur borið á illviðrum í vetur heldur en í fyrra. Loftþrýstingur hefur verið talsvert hærri. Við lítum e.t.v. á hann síðar.
Janúar var kaldasti vetrarmánuðurinn nú, eins og algengast er. Meðalhiti á landsvísu í janúar var -1,6 stig. Það er mjög ólíklegt að apríl nái að slá þá tölu út og verði þar með kaldasti vetrarmánuðurinn - meðalhiti í apríl hefur ekki orðið svo lágur síðan 1917. Þeir sem vilja velta vöngum yfir apríl - sem vetrarmánuði - geta rifjað upp gamlan pistil hungurdiska.
28.3.2021 | 22:42
Af árinu 1818
Árið 1818 var fremur svalt, veturinn 1817 til 1818 var þó ekki frostamikill en snjór talsverður og áfreðar spilltu beit. Vorið var illviðrasamt en gróður komst vel á legg um síðir. Rigningar þvældu síðan heyskap um landið sunnan- og vestanvert. Litlar upplýsingar eru um hitafar. Giskum þó á að ársmeðalhiti hafi verið 3,1 stig í Stykkishólmi og 3,6 í Reykjavík. Erfið hret gerði um sumarið, síðast og verst seint í september. Hlýtt virðist hafa verið í desember. Hafís kom að Norðurlandi seint um sumarið - sem er óvenjulegt, en hann stóð ekki lengi við.
Ágætar samantektir birtust í bæði Íslenskum sagnablöðum sem og Klausturpóstinum og fáein bréf geta einnig um tíðarfar. Árbækur Espólins tína einnig til. Tíðavísur Jóns Hjaltalín eru sömuleiðis upplýsandi að vanda. Dagbækur eru nokkrar aðgengilegar, en erfiðar aflestrar (eins og venjulega). Hér að neðan má finna það helsta sem tekist hefur að ná saman um tíðarfar og veður á árinu. Stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Íslensk sagnablöð lýsa tíð 1818 [3. deild 1818 (s1-2)]
[M]eð nýári 1818 gerðist vetur strax mjög snjóasamur um allt land, sló í blotum á milli, frysti svo að og gerði jarðbönn mikil allstaðar; varla muna menn til þeirra langvinnari og almennari um Suðurland en þau urðu þá. Á Vestfjörðum, samt í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum var vetur nokkuð vægari en annarsstaðar. Víða förguðu bændur fénaði sínum, en færri fyrr en í ótíma á útmánuðum, og margir felldu pening til muna helst á austurlandinu. Sunnanlands hefði fellirinn orðið meiri en varð, hefði ei (s1-2) bati komið þar fyrir sumar, og flestir verið heybirgir. Vorið bætti ei um fyrir vetrinum, það var víða kalt og votsamt, sem olli því að ær, er gengu magrar undan týndu lömbum, og urðu arðlitlar sumartímann. Gróðurleysi var langt fram eftir vorinu, og lítill grasvöxtur; þó varð víðast meðal grasvöxtur syðra en vestur um land í minnalagi, þar á mót austur í Skaftafellssýslu, og eystri parti Rangárvallasýslu í bestamáta. Sumarið varð yfirhöfuð að tala kalt og votsamt framan af slætti, nema nyrðra og eystra, svo töður voru annaðhvort hirtar svo votar að í görðum skemmdust, eða hröktust á túninu til mikils skaða fyrir bændur. Haustið varð aftur votsamt og veturinn eins allt fram að nýári, en varla lagði nokkurn tíma snjó á jörðu, og frost voru heldur ekki að kalla.
Votviðri sem byrjaði að kalla strax í vertíðarlokin gerði afla ... mjög ódrjúgan; fiskurinn skemmdist víða til muna, og varð sumstaðar hartnær óætur, vegna meltu og slepju enn rýrnaði til muna allur, þegar ei varð þurrkaður í tækan tíma. Verst var sagt af skemmdum fisks í Vestamannaeyjum, og sumstaðar í Snæfells nes sýslu, þar sem góð þerripláss munu ei vera; í Njarðvíkum og Vogum varð og nokkuð af afla skemmt, meðfram vegna þess að fólk gat ei komist yfir að hirða, sem þurfti, þann mikla fisk er þar hafði á land borist. (s3-4)
Brandsstaðaannáll [vetur]:
[Árið] Byrjaði með hláku og góðviðri. 9.-12. janúar hríðarkafli, er lagði fönn og gadd til hagleysis í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, er við hélst til krossmessu [3.maí], en þar var næstliðinn vetur betra en hér og gott grasár fyrir rekjum um töðusláttinn. Hér, einkum til framsveita, var gott vetrarfar, mild og stillt veður og snjóalítið. Í fyrstu viku góu kom lognfönn. Hélst þó jörð lengst af, einkum móti austri og veður stillt.
Klausturpósturinn lýsir vetri frá áramótum [I, 1818, 4 (bls 62)]
Veðráttufar
Þetta hefir frá nýári 1818 til 1ta apríl, um allt Suðurland, mikinn hluta Vesturlands, og Norðurlands nyrðri part, nefnilega: Vaðla- og Þingeyjarsýslur, verið mjög svo þungbært, vegna snjóþyngsla, en einkum áfreða, sem gjörðu langvinnar jarðbannir víðast hvar, allt til nefnds tíma. Útigangspeningur er því víða sárdreginn orðinn og að falli kominn; heybjörg margra, einkum fyrir austan Þjórsá, lítil, og ýmsir hafa þar, og víðar, neyðst til að lóga peningi talsverðum í ótíma. Í Húnavatns- og Hegranessýslum, og nokkrum hluta Vesturlands varð vetur þarámót hinn mildasti og jarðir auðar. Frost þar hjá allstaða væg. Veðurátt stirð, tók fyrir sjógæftir syðra, hvað allt að aprílkomu ekki varð í Faxafirði fiskvart, en, þó nokkuð austanmeð, í Rangárvalla- og Skafta- [hér endar textinn allt í einu]
Þann 22. [janúar], í vökulok, sló loftelding niður í baðstofu í Kross-hjáleigu í Landeyjum, innan Rangárvallasýslu, og deyddi þar 4 ára gamalt barn í rúmi, en öðru barni í sama rúmi varð þó ekki meint. Foreldrar hins dána barns féllu í öngvit. Mælt er að hár á höfði þessa barns hafi lítið eitt sviðnað. Flest bramlaðast eða sundraðist í húsinu, en rjáfri þess feykti ofviðri og éljagarri eins útá hlað. Þann 19da mars þ.á., er mælt að 2 menn hafi orðið úti á Fróðárheiði í Snæfellsnessýslu. Þann 4ða [apríl ?] forgekk 6æringur frá Hafnarfirði, á suðurleið til netafiskiafla, fyrir Vatnsleysuströnd, með 8ta mönnum á, sem týndust allir.
Klausturpósturinn [1818 4 s.64] Við landskjálfta, þó hæga, hefir nokkrum sinnum í vetur vart orðið eystra, líka þrisvar hér syðra á Innnesjum.
Veðráttufar og Fiskiafli [5-78] Í No. 4, bls. 63 og 64, er vikið á veðráttu og fiskiafla. Vetur varð, sem mælt, harður mjög eystra, helst í Skaftafellssýslum, góður og mildur vestanlands í Ísafjarðar, Barðastrandar og Dalasýslum: þungur í Snæfellsness- og Strandasýslum, og í þeirri síðari mikill bjargræða skortur, matur tjáist nógur vera við Kúvíkna höndlun, fátækir fá ei leyst með 1 tunnu lýsis fyrir hverja tunnu rúgs, eða 60rbdli ... sem hér á landi er óheyrilegt verð á þessu ári. Síðan apríl mánaðar byrjun, allt til hvítasunnu, hefir veðurátt hér á Suðurlandi verið stillt, en þurr og köld, með hörðu frosti á nóttum, og jörð þess vegna enn þá gróðurlaus. Hvað fiskiaflanum viðvíkur, þá varð hann góður í Vestmannaeyjum og Landeyjum, og loks nú seint á vertíð, sunnan og austan með, hvar víða komu megn fiskihlaup, þó ekki á Suðurnesjum fyrr en undir vertíðarlok. Þarámóti kom mikil fiskigengd í Garð, Leiru, Keflavík, Njarðvíkur, undir Vogastapa, inn með Strönd, en einkum í Hafnarfjörð, hvar, og á Strönd, nú teljast 6hundraða hlutir hæstir, minna miklu í Ytri-Njarðvík, Leiru og Garði. þar hæst, vart 4 hundruð. Á Seltjarnarnesi lengst af fiskilítið, nema með sókn í Hafnarfjörð, teljast á þessu nesi 2 til 3 hndr. hæst. Á Akranesi sáraum fiskibrögð; einn einasti telur þar 2 hundr., en flestir um hundrað og minna. Fyrir vestan Snæfellsjökul tjáðist góður afli á útmánuðum, en síðan hafa þaðan engar áreiðanlegar fiskifregnir hingað borist.
Klausturpósturinn heldur áfram með vetrar og vorfréttir [1818 (6 bls.94]
Voveifleg tilfelli og slysfarir. [líklega eftir bréfi úr Ísafjarðarsýslu, 10. maí 1818]
Nóttina milli þess 19da og 20ta mars þ.á. féll snjóskriða á bæinn Augnavelli í Skutulsfirði, hvar 9 naktar manneskjur lágu í fasta svefni. Tók hún nokkuð af baðstofunnar viðum og þaki með sér 150 faðma langt, en braut hitt niður ofan á fólkið sem engu bolmagni viðkom, en varð þannig nakið að pressast undir viðum, torfi og klaka í full fjögur dægur, eða til þess um morguninn þann 22. sama mánaðar, þá umbylting þessi sást af næsta bæ. Mönnum var þegar í hasti safnað, og, í blindbyl af kafaldi, farið til bæjarins með verkfærum. Reyndust hjónin þá lifandi, 2 börn þeirra og vinnukerling, en 3ja barnið lá dautt á fótum foreldranna. Varð nú ekki meira aðgjört þenna dag fyrir myrkri og þreytu manna. Þann 23ja mars, fannst 4da barnið dautt og 1 ungmenni, en gamalmenni 1 enn þá tórandi, sem deyði samdægris. Líkt því fólki sem deyði, þoldi það, er af komst, harmkvæli mikil, og tórir enn þann 10da maí flest sængurliggjandi við sár og örkuml. - Sömu nótt tók snjóflóð hjall að veggjum á Bæ í Súgandafirði, með miklu af matvælum í og flutti út í sjó, og fjárhús á Gelti í sömu sveit með 20 fjár í, sem allt fórst. Annað fjárhús á Vatnadal í sama firði fórst og, með fé öllu. Varð fyrir snjófallinu maður, er gekk frá húsinu heim til bæjar, en hverjum þó bjargað varð með litlu lífi. Jökla- og skriðuhlaup féllu hættuleg á tún á Neðri-Miðvík í Aðalvík þessa sömu nótt.
Þann 22. apríl drukknaði stúlka ofan um ís á Belgsholtsvog í Borgarfjarðarsýslu. Þann 9da maí drukknuðu 2 menn úr Kjós af báti, við landsteina á Kjalarnesi. ... Í þessum sama mánuði drukknaði maður í Bugsósi í Snæfellsnessýslu, og í Örnudalsá í Þverárhlíð flakkari úr Kjós. Piltur 12 til 14 ára, drukknaði og í gili við kinda yfirsetu, ... .
Espólín: XCV. Kap. [vetur og vor]
Vetur hafði verið þungur syðra og eystra, en góður vestra, einkum í Húnavatnsþingi, og allt í Skagafjörð; svo var og sjógæftalítið, þó varð góður vetrarafli syðra, en spilltist af rigningum, og gjörðust þær miklar með sumrinu. XCVIII. Kap. Um vorið í mars tók snjóskriða Augnavelli í Skutulsfirði, og voru níu manneskjur naktar í svefni; hún tók nokkuð af baðstofunni 150 faðma með sér, en braut annað ofan á fólkið, lá það undir viðum, torfi og klaka í fjögur dægur, en síðan urðu menn af næsta bæ varir við, heimtu að sér fleiri, og fóru til bæjarins í blindhríð með verkfærum, ..., fleiri snjóflóð gjörðu skaða, og drukknuðu nokkrir menn. (s 105).
Reykjavík 6. mars 1818 (Geir Vídalín biskup):
Haustið var hér gott og vetur í betra meðallagi allt til jóla, á gjörði hér snjó og illt til jarðar, en þann snjó tók allan upp með nýári. En með þrettánda kom veturinn alskapaður með snjókyngi og áfrerum, úr því hér jarðlaust að öllu fyrir allar skepnur til þess 16. febrúar, kom þá bloti, svo að hér skaut upp snöp hér við sjóinn, en engri til sveita, þar sem snjóþyngslin (s160) voru meiri. Sama vetrarfar er að frétta úr Árnes-, Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslum, þó bágast úr þeirri síðast nefndu, því þar heyjaðist illa í sumar eð var vegna votviðra. Í Borgarfjarðarsýslu hafa verið nokkrar jarðir, einkum til dala, og í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum besti vetur, hér harður bæði í Skagafirði, Eyjafirði og fyrir vestan. Frost hafa ekki verið mikil og veðurátt oftast sæmileg, ef jarðir hefðu verið. ... Um veturnæturnar komu hér tvö áhlaupaveður af suðaustri og það þriðja þann 2.-3. janúar af sömu átt. Gjörði það fyrsta víða skaða á heyjum, húsum og skipum. Óvenjulegt skrugguveður kom á Rangárvöllum þann 21. janúar (si recte memini), sló þá þruma niður í baðstofuna í Krosshjáleigu og drap barn í rúminu hjá móður sinni, en bæði hún og bóndinn, sem var á ferð í göngunum, féllu í óvit. Við þetta veður varð hér ekki vart. Í fyrstu vetrarvikunni og síðan oftar í vetur hefur hér orðið var til jarðskjálfta, þó alla hæga, og hvergi hef ég frétt, að mein hafi orðið af þeim. (s161)
Bessastöðum 5. mars 1818 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s55):
... eins var veturinn fram að jólum hinn besti, en síðan hefur oftast verið haglaust og líka þar, sem jörð hefur ekki brugðist í 30 ár. Frostlítið hefur oftast verið.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Eftir miðjan einmánuð kom sólbráð og eftir sumarmál kuldar og frostamikið. Ekki kom hláka eða gróður fyrr en eftir 22. maí. Leysti þá fljótt gadd af heiðum og hálsum, ásamt uppsveitum, er þangað til höfðu aðeins snapir. Þar eftir var vorið gott, en regnsamt, einkum lestatímann, er byrjaði 4. júlí. (s79) Ís kom um vorið seint [festist ei við land (neðanmáls)] og varð á honum mikið seladráp á Austurlandi og Ísafirði. (s80)
Klausturpósturinn (6 bls.96) er sagt af vortíðinni:
Frá vordögum skipti um vetrarharðindi, sem gengu, einkum yfir Suðurland, með mestu stórhretum og óveðrum fram undir Jónsmessu, svo sjaldan gaf á sjó; enda varð vorafli víðast sáraaumur, eins fyrir vestan Jökul, og skemmdist líka töluvert af vetrar- og vorafla manna, af langvarandi óþurrkum. Snjó lagði um vorið svo mikinn víða í Ísafjarðarsýslu, að jarðbönn gjörðu, hvar af leiddi sumstaðar horsóttir af fóðurþröng fénaðar, og víða þar og um Suðurland unglambadauða mikinn, hvar fé var mjög grannt og dregið orðið. Kúpeningur, sármagur allvíða, dró ekki ljóst, og nokkrar kýr króknuðu úti í óveðrum, bæði í Árness- og Ísafjarðarsýslum, en fleiri geltust öldungis upp af fóðurþröng og óveðráttu. ... Úr Norðurlandi heyrist þar á mót sérleg árgæska og bestu peningshöld, en kvillasamt með fólki. Við Ísafjarðardjúp eru í vetur skutlaðir hér um 400 vöðuselir, hver, yfir höfuð reiknað með vættar spiki á.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Voru þá fjöll lítt fær [4.júlí]. Grasvöxtur varð í meðallagi. Sláttur byrjaður á miðsumri. Var lengst rekjusamt, þó þurfti ekki ónýting að verða á heyi norðanlands. Í 16. viku náðust töður lítt skemmdar.
Klausturpósturinn 1818 (I 10 bls. 154) - rekur sumartíð og fleira:
Veðráttufar og heyskapur. Það má heita satt; að vér, í þessu harðviðrasama landi, eigum í ár, seint og snemma, af litlu sumri eða sumarblíðu að segja. Í No.4, bls.63 lýsti ég því, víða um land, þungbæra vetrarfari, til marsmánaðar loka; en á vorveðráttu frá aprílbyrjun til Jónsmessu, minntist ég í No. 5 og 6 bls. 78 og 96. Voru stormar þeir, stórhret og ákafar rigningar, einlægt frá hvítasunnu fram á messur orsök þess, að málnyta hefir mjög svo gagnslítil verið þetta sumar víða á Suðurlandi. Í rigningum þessum féllu víða óttalegar skriður úr fjöllum, en stórum skemmdu beitilönd; en ekki er þess getið, að sérleg óhöpp eða fjárskaðar hafi af þeim skriðum orsakast, nema á Bleiksmýrardal í Þingeyjarsýslu afrétt Fnjóskdælinga hvar meint er að farist hafi af skriðuföllum hér um 500 (eða 300), sem ofan eftir öllum dal hafi rekið upp úr Fnjóská. Aldrei fundust hér í ár nein náttúruleg sumarhlýindi, þó veðurátt skánaði nokkuð og stilltist frá messum fram á sláttarbyrjun. Með honum hófst á ný mánaðar óveðra- og rigningakafli um meiri hluta Suðurlands, hvar þó grasvöxtur var nálægt meðallagi, en góður og vægri rigning Norðanlands, eins um Austurland, einkum fyrir austan Mýrdalssand, hvar heyfengur skal vera ágætur. Um Suður- og Vesturland hröktust töður og svívirtust, og fæstir hirtu tún fyrr enn um höfuðdag. Kuldasamur norðanstorma kafli um engjaslátt, bætti að sönnu þar mörgum góðan útheyjafeng, hvar gras og engjar gáfust þar til, en færði undir eins norður og vestur ströndum á öldungis óvenjulegum árstíma, megn hafþök af hafís, af hverjum, þann 23. ágúst, mikill hroði dreif inn á Skagafjörð og Húnaflóa, og bægði Hofsóss- og Skagastrandarskipum þar frá höfnum, og tálmaði mikið heyvinnu fólks, uns hann, þann 9da september rak aftur til hafs, komst þá Skagastrandarskip á höfn, en hitt til Hofsóss var ókomið þegar seinast fréttist. Frá 27da ágúst og framundir Michalelismessu hefur sjaldan linnt norðan bálkum með ofsa stormum og köföldum í fjöllum, og snjókomu ofan að flæðarmáli, en einkum var hér framúrskarandi áhlaupa norðanbylur, nóttina milli þess 18da og 19da september, með grófustu fannfergi og ofsaveðri, í hverjum kvikfé kaffennti á nokkrum fjallbæjum sunnan Skarðsheiðar í Borgarfirði, er að sönnu náðist lifandi, en þó fenntu til dauðs hér um 20 sauðkindur heim við stöðulból á Hlíðarfæti í Svínadal. Sauðfjárheimtur urðu víða slæmar, einkum lamba, í þeim plássum hvar fjallgöngum ekki var lokið fyrir nefndan kafaldsbyl; fé reyndist nú annars bæði rýrt og mörlítið, sem öll von er á, eftir svo hretviðrasamt og stutt sumar; því með höfuðdegi mátti vetur langan og óttalegan telja hér í garð genginn. Vor stutta og lélega jarð- og garðyrkja sem eins með kálgresi öll, rætur og jarðepli, hefir í ár sérlega mislukkast, svo langt, sem ég hefi tilfrétt, var á endaður 2ur mánuðum fyrri en venjulega. ... Þann 23ja september næstliðinn, voru rúmlega 100 marsvín rekin á land í Hlíðarhúsa og Örfarseyjarlóð við Reykjavík, af nágrönnum þar.
Bessastöðum 23. ágúst 1818 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s58)
Grasvöxtur var sumstaðar í betra meðallagi og eins víða verri. En dæmalaus óþurrkur hefur gengið sífellt síðan sláttur byrjaðist. Alla hundadagana hefur komið einn þurrkdagur.
Bessastöðum 5. september 1818 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s64): ... því hörð norðanveður ganga nú.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Hretalaust þar til í göngum á mánu- og þriðjudag. Föstudag í réttum gjörði hríð mikla og fönn á fjöllum, svo kaupafólk snéri frá Sandi ofan í Vatnsdal. Varð réttafærsla. Á föstudaginn fannkoma svo mikil, að sléttfenni varð yfir fé í dilkum við Stafnsrétt. Eftir 4. okt. þíður og góðviðri, í nóvemberbyrjun frostakafli, 6.-14. hláka mikil. Eftir það var jarðbert og oft þíður, besta vetrarfar til nýárs.
Klausturpósturinn 1818 (I, 12, bls. 191) segir af hausttíðinni:
Í No. 10 minntist ég á bls. 155-56, að með höfuðdegi mætti vetur hér telja í garð genginn. Snjóa- og harðviðraköst gjörði og um og skammt eftir veturnætur víða um Suðurland og undir Eyjafjöllum; eins fréttist af snjókomu mikilli og harðviðri úr Húnavatnssýslu litlu seinna; en frá veturnóttum varð annars víðast um Suðurland veðurátt þýð og mild, en vindasöm til baga sjógæftum og haustafla, sem því varð harla rýr. Úr Skaftafellssýslum fréttist seinast mesta árgæska til lands og sjóar, og allra besti hákarlaafli á afliðnum sumri í hennar eystra parti. Um kvöld þess 10da október strandaði mitt í Eyjafirði, undan Gáseyri, kaupfar Kaupmanns J. L. Buschs, nefnt: Det gode Haab (góð von), í innsiglingu þangað frá Reykjarfirði í Strandasýslu, með ull og ullarvöru, og um 100 tunnur lýsis. Mönnum og vöru varð bjargað.
Espólín [sumar og haust] (að mestu dregið úr Klausturpóstinum):
C. Kap. Þá var óblítt sumar eftir eigi góðan vetur, veður mikil og rigningar, frá hvítasunnu að messum fram, og spillti mjög málnytu sunnanlands og austan, en víða hleypti fram skriðum; tók af mjög mikið af Bleiksmýrardal, og týndist allmargt sauðfé, hugðu menn nær þrem hundruðum hafa rekið dautt upp úr Fnjóská hið efra og neðra. Aftur spillti með slætti, og gjörði stórar rigningar, mest sunnanlands, og urðu heyskemmdir miklar. Afli var enginn norðanlands, en þó var þá eigi öllu betur ært annarstaðar en í Húnavatnsþingi og Skagafirði, kom þó engin sigling á Skagafjörð, en lítil í Höfðann. (s 106). Heyskapur varð sæmilegur norðanlands, en vel fyrir austan Mýrdalssand, en suður og vestur hröktust töður, var þá og lítið fiskifang fyrir Jökli, og allill tíð. Kuldi var um engjasláttinn, og komu hafísar miklir; og þótti þá óvenjulegt; rak nokkuð af þeim inn á Húnaflóa, Skagafjörð og Eyjafjörð, en eftir hundadaga og fram til Mikjálsmessu gjörði snjóa, og mest nóttina milli hins 28da og 29da september, svo að kaffennti fénað á fjallbæjum við Skarðsheiði í Borgarfirði, og 20 sauðkindur til dauðs við stöðulból að Hlíðarfæti í Svínadal. Menn urðu og úti við göngur í Húnavatnsþingi um þann tíma og dó einn af kulda, er heim var kominn; var þá lítil kályrkja þeirra er á það stunduðu. Litlu síðar var vel 100 marsvína rekið á land við Reykjavík, á Hlíðarhúsa- og Örfarseyjarlóð. Eftir veturnætur gjörði væga veðurátt, og síðan vetur hinn besta. (s 107).
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1818
Flestum sveitum Íslands í
orma bana liðin stund
mátti heita hörð af því
hún gaf djúpa fönn á grund.
Frosta-hægur hér um svörð
horfinn vetur oft var samt
snjór harðdrægur huldi jörð
hjörðum veitti rýran skammt.
Vorsins gróður varð og smár
vatn þó drypi skýjum af
Þrymshold fóður þetta ár
þó í meðallagi gaf.
Nýting versta vítt um bý
var í sumar lýðum send
hey hjá flestum heita því
hrakin mygluð eða brennd.
Sumarstíða hretin hér
hver eð baga fengu léð
endti síðast september
svellu snjóa kasti með.
Hér á svæði held ég enn
heiti nýjar fréttirnar
fennti bæði fé og menn
fjúk í haust um réttirnar.
Það sem vetri af nú er
ekki getur kallast strítt
fáein hret þó fyndum vér
frosthæg veður gengu títt.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1818. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur má finna í viðhengi.
27.3.2021 | 21:57
Skemmtideildirnar leika sér
Páskaspár reiknimiðstöðvanna eru heldur krassandi þessa dagana. En við skulum að vanda hafa í huga að öfgaspár eru oftast rangar þegar reynt er við marga daga fram í tímann. Líklegt er að svo sé einnig að þessu sinni. Bandaríska veðurstofan býður í dag upp á háþrýstimet á páskadag, 1056 hPa á Vestfjörðum. Slær eiginlega út allt sem sést hefur hér á landi áður (nema eina mælingu frá 19.öld). Líkur á því að þetta rætist eru afskaplega litlar (en miði er möguleiki).
Þrýstingur er ekki alveg jafnhár í spá evrópureiknimiðstöðvarinnar - fer nú í hádegisrennslinu hæst í 1048 hPa - sem er óvenjulegt - en ekki líkt því eins óvenjulegt og 1056 hPa. Á móti kemur að evrópska spáin er talavert kaldari en sú bandaríska - eins og sjá má á kortinu hér að neðan.
Hér er boðið upp á nærri því metkulda. Þykkt yfir Vestfjörðum er 4890 metrar og -22 stiga frost í 850 hPa yfir Keflavíkurflugvelli. Við eigum aðeins örfáar ámóta lágar tölur á þessum tíma árs. Frost hefur aðeins þrisvar mælst meira en -22 stig í apríl í þessari hæð yfir Keflavík, það var 1.apríl 1968, 11.apríl 1963 og 2.apríl 1953. Veðurnörd kannast vel við þessar dagsetningar. 1.apríl 1968 er kaldasti apríldagur sem við þekkjum á síðari tímum, 11. apríl 1963 er í miðju páskahretinu illræmda og 2.apríl 1953 var einnig mjög illur á allan hátt (um illviðrabálkinn þann var ritað sérstaklega hér á hungurdiskum fyrir nokkrum árum).
En eins og áður sagði eru ólíkleg veður ólíkleg - og jafnlíklegt að þessi aftök verði horfin strax og næstu spár birtast. Vonandi fer svo. Hitt er svo annað mál að það er greinilega ýmislegt á seyði í veðrahvolfinu um þessar mundir.
23.3.2021 | 22:22
Af árinu 1817
Árið 1817 er oftast talið til harðindaára, þó betur hafi e.t.v. farið en á horfðist. Við höfum litlar upplýsingar um hitafar. Einu mælingar sem tekist hefur að koma höndum yfir voru gerðar af séra Pétri Péturssyni á Víðivöllum í Skagafirði. Heldur ófullkomnar, en þó miklu betri en ekki neitt. Ritstjóri hungurdiska hefur leyft sér að nota þær til að áætla hita í Stykkishólmi og Reykjavík og giskar sú ófullkomna áætlun á 2,5 stig í Hólminum, en 3,6 stig í Reykjavík. Kalt var fyrstu þrjá mánuði ársins og var þá jafnframt kvartað undan umhleypingum og hríðarveðrum. Aprílmánuður virðist hins vegar hafa verið mjög hlýr, en aftur á móti var kalt í maí og fram eftir júní. Heyskapur gekk yfirleitt vel þó kalt væri nyrðra í ágúst og allgóð tíð var síðan um haustið eftir hret seint í september.
Samantektir birtust í bæði Íslenskum sagnablöðum sem og Klausturpóstinum og fáein bréf geta einnig um tíðarfar. Árbækur Espólins tína einnig til. Tíðavísur Jóns Hjaltalín eru sömuleiðis upplýsandi að vanda. Dagbækur eru nokkrar aðgengilegar, en erfiðar aflestrar (eins og venjulega). Hér að neðan má finna það helsta sem tekist hefur að ná saman um tíðarfar og veður á árinu. Stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Íslensk sagnablöð B2.deild 1817 (s1 til s2) segja af tíð fram á vor - þar er minnst á hitamælingar sem ekkert er vitað um hver gerði (ekki heldur víst að þær hafi verið reglulegar eða færðar til bókar):
Þó árferði Íslands sé oft í tíðindi sett má þess ei vænta að hér verði nákvæmlega frásagt veðuráttufari, aflabrögðu, grasvexti og nýtingu hvert ár. Það nægir að geta þess, að öll þessi ár, til næstu vordaga [1817], frá nýári 1804, hafa verið meðalár, sum betri önnur lakari, þegar ég undantek næstliðinn vetur, sem vegna langsamara óverðra reyndist víða mjög skaðsamur; Frost voru þá, hörð með köflum, þó aldrei meir en 19° við sjó í Gullbringusýslu, og stóð sú frostharka mjög stutta stund. Það var ei heldur lengi vetrar að frost næði 16°, en köföld, umhleypingar og áfreðar, gjörðu vetur svo affara slæman. Margir, helst nyrðra og eystra, misstu fjölda af útigangspeningi; fyrir norðan land jukust harðindin mest vegna hafísa er inn að landi rákust, svo hvergi sá útyfir í kóngsbænadagsvikunni [mánaðamót apríl/maí], lá ís sá þar mestan hluta sumars, og þokaði sér að kalla kringum allt land. Mesta snjókyngja barst niður undireins á norðursveitum svo varla var mögulegt að komast milli bæja. Fjármissir mundi samt hafa orðið miklu meiri víða um land, hefði ei næst undangengið sumar verið eitthvert hið besta, og heyskapur góður.
Klausturpósturinn I, 1818, segir af árferði 1817 (bls 4):
Um þetta skal ég hér verða því fáorðari, sem fleirum lesendum þessa Pósts er árferði hér á landi gagnkunnugt og minnisstætt; þess vegna aðeins drepa lítið eitt á helstu þar að lútandi atriði eftirkomendum til minnis:
[Vetur] Frá nýári 1817, féll hér á einhver hinn þyngsti snjóa- og ofviðrasamasti vetur, einkum um allt Suðurland, og því þyngri austur eftir, einkum um báðar Skaftafellssýslur og Fljótshlíð, sem austar dró. Hér af leiddi mikinn hrossa- og fjárfellir, líka talsverðan kúa. Frá Hvalfirði um Kjósar- og Gullbringusýslur nokkurn, þó minni í Árnessýslu, mestan í nokkrum sveitum Rangárvallasýslu, einkum Fljótshlíð, og Skaftafellssýslum. Þó veturinn þætti víðar annarstaðar um land frá nýári, einkum frá þorrakomu, þungur og snjósamur, leiddi þó ekki sérlega stórfellir þar af, nema ... á einstökum bæjum. Stormar og köföld sífelld tóku víðast fyrir sjógæftir, og gjörðu því vetrarafla rýran austan með og um allt Suður- og Vesturland, nema í Vestmannaeyjum urðu hlutir, sem undanfarin ár, geysi háir. Vestfirðinga og Norðlendinga bagaði þar hjá mikill hafís og Múlasýslur, sem fyllti upp allt. Yfir Ísafjarðardjúp var fram á vor á ísum með hesta farið, eins firði norðan- og austanlands og urðu af honum svo mikil hafþök framundir miðsumar, að kaupför norðan- og austanlands seint náðu þar höfnum, og jafnvel þá varð vart við rekís austan með út fyrir Eyjafjöll og Vestmannaeyjar vestur eftir. Vorið varð því sárkalt og jörð seingróin, víða gróðurlaus fram á messur; sumargagn málnytu rýrt og stutt, fénaður víðast mörlítill um haustið, eftir stutt sumar.
[Afgangur ársins] Vorveðurátt og allt sumarið, haustið og veturinn árið út, var annars víða um land einhver hin mildasta, blíðasta, logna- og góðviðrasöm, en lengi of þurr langt fram á slátt, sem, ásamt hafíssins löngu spennu um svo mikinn hluta landsins, ollu sumstaðar rýrum grasvexti, þó mun hann víða náð hafa meðallagi, nema í eyjum, sem flestar brugðust nú stórum. Heyjanýting og fengur varð og víða nálægt meðallagi, nema á Austursveitum, hvar óþurrkar gjörðu hann auman, einkum seinni part sláttar, og þó bágastan austarlega í Rangárvalla- og Skaftafellssýslum, rýran á Vesturlandi, en góður varð hann Norðanlands. Frá fyrrnefndu vorsins blíðviðri er mælt, að Múlasýslur megi allt að messum undanskilja, og að þau miklu kuldahret, snjóa- og kafalda aðköst, sem frá því 12 vikur voru af vetri [þorrabyrjun], geisuðu þar með ofsastormum og byljum, og felldu hér og hvar töluverðan fénað, hafi langt fram eftir vorinu viðhaldist, jörð því verið gróðurlítil, og fjöll hvítleit fram á messur, þá hafísinn fyrst rak frá landi, er var alltaf á hrakningi fyrir Austfjörðum, frá liðnu nýári til Bænadags [2.maí], þá hann fyrst lenti þar. Fé varð því mjög grannt og arðlítið um vorið, og unglömb ásótt af óvenjulegum hrafnagrúa.
Vor-, sumar-, haust- og vetrar-afli til nýárs 1818, varð um mestallt Suðurland, einkum í Gullbringu-, Kjósar- og Borgarfjarðarsýslum, hinn allra besti, og óvenjulega mikill og góður, nema í veltiárum. Gekk fiskur hér allstaðar svo á grunn, að megnir hlutir tókust rétt við landsteina og inn um firði, við Akranes, Kjalarnes og allstaðar, djúpt og grunnt, og mælt er, að 7 til 8ta hundraða hlutir séu í haust og í vetur, það af er, komnir í Njarðvíkum og á Strönd, en 4 til 5 hundruð á Innnesjum. Sami góður afli er sagður af Vestfjörðum; minni undan Jökli. Að norðan hefi ég ekki greinilega um afla frétt, eða úr Múlasýslum. Það er merkilegt, og haldinn boði mikils fiskiafla eða máski réttara sagt, þessum samfara, að á afliðnu sumri, rak sumstaðar hér syðra, einkum í Kollafirði, inn til Sunda og víðar, ótöluleg mergð af smokkfiski, eftir hverjum, sem ljúffengustu beitu, mikill fiskigangur sótti hér uppá grunn. Líka má þess geta; að þó laxveiði þetta ár, yrði með rýrasta móti allvíða, einkum í Elliðaám, gafst hún þó á Hvítárvöllum í Borgarfirði óvenjulega vel, með þar uppfundinni nýrri veiðiaðferð, í stuttum, en mörgum fljótandi laxagripneta stúfum, lögðum út frá vöðum í Hvítá, hvar aðdjúpt er og iðukast straums ber netstúfinn beint út frá landi, við hvert festur er annar endi hans. Gáfust þar með þessari veiðiaðferð, fleiri en 1000 laxar á land, svo stórir að hver, að meðalvigt, var liðugur fjórðungur, þá hver bætti annan upp. Veiðiaðferð, sem óskandi væri, að víðar um land yrði reynd og notuð, einkum í straum- og jökulvötnum, sem fyllast ár hvert af ríkulegri mergð stórlaxa, hverra veiði mönnum oft er sýnd, en ekki gefin, vegna aðburðaleysis, og snýr því sú mikla blessan, er forgefins býður sig mönnum fram, víða ónotuð aftur til hafs, hvar álíka veiði þó vel mætti viðhafa.
Klausturpósturinn segir síðan frá nokkrum skipreikum:
Nokkurra tjón, annarra happ gjörðu: Skipreikar 1817.
1) Þann 13da mars lagði út frá Hafnarfirði Íslands póstskip, slup-skipið Dorothea kallað, fært af Skipara-Knúti Clausen, á heimleið aftur til Danmerkur. Ofsastormar, sem af suðvestri (útsuðri) strax eftir uppákomu, gjörðu, að þetta skip skammt eftir, nefnilega á skírdag (3.apríl), fannst strandað, sundurliðað og nokkrir partar þess fastir í bjargskorum, við Saxahóls bjarg hjá Öndverðarnesi undir Snæfellsjökli. Menn allir sem á voru, týndust með því alls 9, þar á meðal einn af kennendunum við Bessastaða Latínuskóla adjunct Jón Jónsson, sem mælt var, að í áformi haft hefði að sækja um Breiðabólstað í Fljótshlíð.Hann lét eftir sig ekkju með 4 ungum börnum. Af líkömum skipverja fannst ekkert, nema ein hönd, og mjög lítið af farmi skipsins, eða af góssi þeirra, kom á land. Margir hrepptu töluverðan skaða við þessa skips ströndun, einkum reiðari þess, riddari B. Sívertsen og sonur hans.
2) Þann 14da nóvember sama ár, fann hreppstjórinn í Öræfasveit í Austur-Skaftafellssýslu, Jón Árnason, stórt útlenskt skip mannalaust, rekið á Hnappavallafjöru, með einu mastri uppistandandi, en öðru brotnu. Af 4 patent-kúlum, eða 2 á hvert borð, sem líklegast er að sjá, að verið hefi innsettar í þilfarið ofanvert, til að bera birtu ofan í káetuna í glugga stað, fannst einungis 1 eftir, hér um ¼ álnar í þvermælir, og löguð sem hálfkúla, af skæru gleri, við hvers rönd stóð orðið; Patent [löng neðanmálsskýring á fyrirbrigðinu fylgir en er sleppt hér]. Nafn Skipsins: The Rover **) of Newcastle. (Það er: Víkingurinn frá Newcastle, stórum höndlunarstað í Norðymbralandi á Englandi, nafntoguðum einkum fyrir útfærslu bestu steinkola) sýnir að það muni [** Orðið Rover þýðir líka Ráfari] engelskt verið hafa, og engelsk bók á því fundin styrkir sömu tíðindi. Það var hlaði með stórtrjám af furu og beyki (ég vil þó heldur trúa af eik), brimgarðar og boðaföll höfðu afbrotið þess káetu, stýri og undirhluta skutsins, þegar það fyrst fannst, en síðan liðað það svo í sundur, að parta þess allmarga, og töluvert af farmi, tók út aftur og bar víðs vegur um sjó og fjörur, þar ekki varð hægt, í brimróti, að festa eða bjarga því undan þar á eyðiplássum; svo að af 302 bjálkum, sem Sýslumaður J. Guðmundsson hafði þegar uppskrifað, bjóst hann ekki við að fleiri en hér um 200 mundu í vor eftir verða. Það er ekki ólíklegt, að þessum skipsfarmi vera kunni þau mörgu stórtré, sem í vetur rekið hafa syðra í Gullbringusýslu, einkum á Suðurnesjum og í Höfnum og máski víðar. Enginn bátur og engin skipsskjöl fundust með þessu skipi. Af því varð bjargað nokkrum bútum af akkertogum, 2 akkerum og 30 faðma langri járnhlekkjafesti, hvar af sérhver vegur nálægt ½ pundi, en 8ta liðir eru í alin.
3) Þann 29da október sama ár, er þrímastrað fregátuskip, að nafni F. Strombole, strandað og rekið á Starmýrar fjöru í Álftafirði í Suður-Múlasýslu, mastralaust, líka án bugspjóts, stýris og segla, en að öðru heilt, þó laskað í botni, fullt með timbur, stórvið af eik og furu, eikarplanka og mestu mergð af eikarstykkjum. Með því voru engir lifandi menn, en dauðir 5, allir alnaktir nema 1, haldinn að vera skipari, á hverjum fundust 27 heilar enskar, aðrir segja spanskar, speciur og 3 hálfar, 7 gull guineur, nokkrir bankóseðlar (máski enskir), úrfesti, með nokkrum hringum og signeti við, allt af hálfgulli (semidor). Nafn hans er haldið verið hafi Thomas Nicolay, eftir 2ur á honum fundum bréfum frá konu hans í Skotlandi, hvaðan hann sigldi í fyrra eftir nýár, líklega til Norður-Ameríku, hvaðan enskir nú flytja mikla trjáviðar farma, og er trúlegt, að bæði þessi skip hafi með þessa útvöldu timburfarma þaðan komið, en í ofsastormum hrakist áfram hjá siglingu heimleiðis ofnærri Íslands austurbyggðum, hvert trjáviðarlausa og fátæka land nú má sanna, sem margir ella: að eins dauði er oft annars brauð. Þó þessar strandanir séu nú allar hingað suður sannfréttar, er lesendum þessa blaðs miður annt um ýtarlegri frásögu sérhvers af þessum skiprofum rekins eða bjargaðs, framyfir það hértalda markverðasta.
4) Fiskiskip íslensk forgengu árið 1817: Sexæringur í Njarðvíkum, á vetrarvertíð, með 7 mönnum á, og annar um vorið frá Staðarsveit í Snæfellsnessýslu, með 6 mönnum, og týndust menn allir af báðum. Þriðja skip er mælt að farist hafi í Dritvik, með 7 mönnum á, hvar af 5 drukknuðu, og annar af 2ur, sem bjargað varð, deyði litlu síðar. Báti frá Helgafellssveit skal syðra hafa hvolft, hvarvið annar maður af honum fórst. Á áliðnu sumri fórst og annar bátur á blindskeri við Akranes skaga, og drukknaði annar maðurinn. Um fleiri ófarir annarra á sjó í öðrum landhéruðum, er mér enn ókunnugt, ef fleiri eru.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Í janúar kafaldasamt af öllum áttum, jarðlítið, frostasamt og ekki gott veður fyrr en 5 síðustu daga hans. 1. febr. mesta stórrigning 2 dægur, er víða ollu skemmdum á heyjum. Á eftir sletti í og bólgnaði yfir allt með svellalögum. Fylgdi því versta veður og sífelld köföld, mest af norðri. Mánudag síðasta í þorra [17.febrúar] kom harður bylur, svo fé hrakti, þar snapir voru í Skagafirði. Á góu blotar og sami hríðarbálkur og jarðleysi. Frá jólum (s75) til skírdags [3.apríl] var óvíða messað vegna illviðra. Karlmenn höfðu sífellt nóg að starfa við peningahirðing og og snjómokstra. Víða voru hross inntekin fyrir þorra.
Espólín [vetur]:
LXXXIV. Kap. Byljir voru þann vetur margir og skyndilegir, og höfðu menn víða tjón af; hafði sagt Sæmundur prestur Hólm, að sá mundi verða manndrápa-vetur, en hann fór oft nærri um bylji. Mánudaginn seinastan í þorra, er var hinn 17. febrúar, gjörði byl, varð þá úti piltur í Skagafirði, og sauðfé hrakti víða og misstist; urðu menn úti í ýmsum stöðum vestra. Margir menn urðu úti um veturinn, og týndist víða fé. (s 92).
Brandsstaðaannáll [vor]:
Á páskum, 6. apríl, blotaði með rigningu. Eftir það kom bati góður. Í síðustu vetrarviku varð vatnsgangur voðalegur. Hlupu lækir á tún og bæi, svo sem á Eiríksstöðum og Gili. Komu og víðar skriður. Jörð var auð og allgott veður til maí, þá kuldar og frost mikið, því hafís var mikill út fyrir, kom góu og lá til fardaga. 16., 17., 18., og 19. [maí] var minnilegasta stórhríð með fannkyngju. Eftir það var 5 daga bjargleysi neðra, svo lambfé var inni gefið, þar hey var til; án þess töpuðust lömbin. Þraut það nú víða. Af 13 bæjum var sótt hey að Eiríksstöðum og ýmsir voru aflögufærir. Úr hvítasunnu [25.maí] kom bati 28. maí.
Snemmsumars var mikið ísrek við Suðurland. Sveinn Pálsson segir af stöðunni við Vík í Mýrdal frá degi til dags. Það sem hér fer á eftir er endursögn ritstjóra hungurdiska. Kann hann Björk Ingimundardóttur á Þjóðskjalasafni bestu þakkir fyrir að hafa brotist í gegnum dagbókarfærslur Sveins.
Fyrsta frétt Sveins af ísnum er frá 22.maí. Þá getur hann þess að menn segi ís kominn til Djúpavogs. Þann 6.júní fréttist að íshrafl sé komið á Meðallandsfjörur. Þann 9. júní rak mjóa ísspöng framhjá Vík úr austri til suðvesturs - kom síðan með aðfallinu að landi og varð landföst um kvöldið. Þann 10.sést aðeins út yfir ísinn, sem að sögn hafi farið milli Vestmannaeyja og lands. Þann 11. kom nokkuð los á ísinn - en 12. var ís með öllu landi, mest á Víkinni. Þann 13. rak ísinn til hafs en kom aftur úr austri þann 14. og var útifyrir þann 15. og 16. Þann 17. lá hann í langri mjórri ræmu og stórir jakar þar á meðal austan við. Þann 18. var mikill ís á Víkinni og sama ástand þann 19. Þann 20. þétt hella að austan. Þann 21. losnaði nokkuð frá landinu, en rak fram og aftur. Alla vikuna ríkti kaldur austanvindur með ísþoku og súld, stundum rigningu. Þann 22. rak ísinn nokkuð til hafs - þá var alsnjóa á fjöll. 23. kom ís aftur að landi og stórir jakar um allt. Þann 24. var ísinn landfastur og Víkin full. 25. Sama, en sagður minni utan við Jökulsá og hlaup í henni. 26. Óbreytt ástand. 27. Var öll víkin full til hafs - en rak nokkuð frá með fallinu - en kom aftur. Þann 28. rak hann til hafs - en kom aftur úr austri. 29. Minni úti í hafi. 30. Sást fyrst ekkert vegna þoku, en síðan var engan ís að sjá nema á ströndinni - loks kom hrafl að austan. Þann 1. júlí var allmikill ís og 2. var mikill ís, fastur, á Víkinni og sama þann 3. Þann 4. rak hann með ströndinni. Þann 5. var minna, og um tíma enginn rekís, en síðan stakir jakar. Þann 6. var enginn ís á reki og eins þann 7. Þann 8. var allur ís farinn nema á ströndinni við Meðalland og annars staðar á grynningum við ströndina.
Espólín [vor og sumar]:
LXXXVI. Kap. Hinn 13.maí, og helst hinn 16., gjörði hríð svo mikla norðanlands, að varla vissu menn dæmi til slíks í þann tíma, varð að grafa sig niður að fjárhúsum á útsveitum, og svo var þar snjórinn djúpur, að ekkert varð komist til að leita heybjargar fyrir pening; féll þá mikill kvikfénaður á Tjörnesi og í Axarfirði, í Ólafsfirði, Fljótum og Sléttuhlíð og víðar. Rak þá hval fertugan á Höfðaströnd, annan lítinn á Reykjaströnd; einn á Skagaströnd; hvalur var og í ísi framundan Höfðahverfi, og náðist ei fyrr en hann var líttnýtur orðinn, hann var níræður að álnatali; hrognkelsisveiði hjálpaði mönnum á Tjörnesi mest. Refar höfðu um veturinn gengið inn í hús, og drepið sauðkindur; en allt var vorið kalt og gróðurlítið, og gagnaðist illa kálrækt, lá ís fyrir Vesturlandi og Norðurlandi um allt vor, og til miðsumars. (s 94). LXXXVIII. Kap. Þá var mikil ótíð af rigningum um Austurland allt, og hið syðra og nyrðra, skriðuföll og jarðarspillingar, og hey blaut borin út; bjó það undir mikil harðindi síðan, og mest í Múlasýslum og Skaftafellssýslum, og um hið eystra Suðurlandið.
Íslensk sagnablöð 3. deild 1818 (s1 til s2) segja frá tíðarfari frá sumarmálum og út árið:
Árferði á Íslandi var, yfir höfuð að tala, frá sumarmálum 1817 til jafnlengdar 1818 lakara en í meðallagi. Vorið 1817 þurrt og kalt allvíða: olli því eftir sem almennt er haldið, hafís sá er lá við landið óvenjulega langt fram á sumar, og hraktist kringum það mest allt til og frá, kom jafnvel suður fyrir land að austanverðu, útfyrir Eyrarbakka í júnímánuði, grasvöxtur varð af þessu, eins og nærri má geta, harla rýr, einkum eystra, og víða við sjó. Heyföng urðu þó um sumarið í meðallagi að vöxtum, nær ég undantek austursveitir, helst Skaftafellssýslu, hvar dæmalaus óþerrir var allt sumarið; en að gæðum reyndist heyafli betri en í meðallagi, vegna hagstæðrar veðráttu, og þurrvirðra langt fram eftir sumri. Seinni partur sumars varð syðra votsamur og eins haustið. ... Vetrarfar fram að nýári 1818 var gott, allvíðast, nema í Norðursýslu [Þingeyjarsýslur] þar lagðist vetur snemma að.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Varð mikið fardagaflóð. Leysti þá fyrst gadd af heiðum og fjöllum. 7. júní kólnaði aftur og hélst lengi norðanátt, þurrkar og næturfrost, en hretalaust og stillt til sláttar. Í júnílok fært frá við lítinn gróður og fóru ei lestir suður fyrr en 8.-10. júlí vegna ófærðar og gróðurleysis. Gaf þeim æskilega. Af því gadd leysti seint, urðu vorflæði orsök til góðs grasvaxtar á votlendi og flæðiengi, líka allvíða móti austri, en graslítið á túni og þurrlendi. Sláttur hófst 23.-24. júlí. Gafst besta veður allan sláttartímann og fengu margir gott og mikið hey í tómar tóftir, en töðuskortur varð almennur. Vestan Blöndu var göngum frestað um viku og jókst heyafli mikið við það.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
25. sept. kom hret og snjór, er varði vikutíma; úr því gott haust, þíður og og þurrviðri, stundum hvasst mjög, en frostalítið til 18. nóv., að snjó gjörði um tíma. Jólafasta góð. 24. des. lagði sunnanhríð á snjó mikinn, svo fé kom á gjöf allvíða. (s76) ... Aflaleysi norðanlands, því ísinn lá við til júlí, ... (s77)
Reykjavík 10. september 1817 (Bjarni Thorarensen): Udsigterne for Oplandsbonden i Island ere for Tiden ikke behagelige, thi Græsvæxten har slaaet meget Feil, og vedholdende Regn siden denne Maaneds Begyndelse lader befrygte at Höeslætten ikkun giver lidet Udbytte.
(s21) Í lauslegri þýðingu: Útlitið er ekki þægilegt fyrir íslenska (upplands-)bændur um þessar mundir, því grasvöxtur hefur brugðist mjög og viðvarandi rigning frá byrjun þessa mánaðar veldur mönnum ugg um að heyskapur verði harla rýr.
Reykjavík 6.október 1817 (Geir Vídalín biskup):
Veturinn sem leið verður þá fyrsta umtalsefnið. Hann (s148) lagðist snemma að með frostum og kuldum, samt snjókomum hér sunnanlands, en norðan og austanlands var öndvegis vetur (teste [vitnast af] sjálfum síra Árna Thorst.) allt fram yfir jól. Þó voru hér jarðir sæmilegar til mið-kyndilmessu, úr því til páskaviku [páskar voru 6.apríl] einn sá harðasti vetur með fannfergjum, umhleypingum og harðindablotum á milli. Var um allan þann tíma að mestu jarðlaust og veður svo óstöðugt, að varla var óhætt bæja á milli. Urðu og menn víða úti, suma kól og sumir misstu fé sitt. Ekki voru frost um þenna tíma venju framar nema alls tvisvar, og stóðu þau í hvorugt sinn lengi. Í miðri páskaviku gerði hláku, þó kom hér ekki jörð upp til gagns fyrr en í áliðinni vikunni eftir páska, svo mikil voru snjóþyngslin. Hafís kom fyrir norðan strax í febrúar, en rak burt aftur í byrjun af apríl. Frá páskum til kóngsbænadags [2.maí] var veður gott, og tóku menn nú að búast við góðu vori. En varla var farið að biðja fyrir kónginum fyrr en hér kom mesta norðanveður með frosti og snjó. Rak þá hafís aftur inn fyrir norðan etc., svo fréttin sagði, að hafþök hefðu verið hjá Látrabjargi, vestan Breiðafjörð allt austur að Horni. Í þessum byl rak og niður óvenjulegan snjó sumstaðar norðanlands, svo ekki varð komist bæja á milli. Frá þessum tíma var vorið kalt með stöðugum næturfrostum allt til Jónsmessu, var þá varla komin sauðagróður á túnum, og sumstaðar til sveita var enn nú snjór á þeim, og þeir, sem heyráð höfðu, gáfu enn nú kúm sínum vikuna fyrir Jónsmessu, en þeir voru þá orðnir fáir. Ekki féll stórkostlega af peningi, því margir voru vel undirbúnir að heyjum frá fyrra sumri og heyin góð, en víða hróflaðist nokkuð af, og svo voru hestar horaðir, að sagt var, að hér í næstu sveitum væri varla nokkur ferðafær. Þar hjá var mikill fjárfellir í Skaftafells- og Rangárvallasýslu ofanverðri, og allstaðar hvar til fréttist dó fjöldi af unglömbum. Frá Jónsmessu var veður sérílagi þurrt allt til höfuðdags, grasvöxtur í lakasta og minna meðallagi á þurrlendi, en sæmilegur sumstaðar í mýrum, en nýting sú besta. Síðan með höfuðdegi hafa gengið regn, en þorni nú aftur, sem menn vona, held ég margir fái bjargleg hey. Frá hafísnum er það að segja, að þegar hann losnaði frá Austurlandi, fór hann langs með Skaftafells-, Rangárvalla- og Árnessýslu, og loks komst hann allt út í Grindavík, og var í (s149) heilan mánuð ófært fyrir ís milli lands og Vestmannaeyja. Líka skemmdi hann nokkuð sölin á Bakkanum, en þegar minnst varði hvarf hann allur í einu. Norðanlands lá hann allt fram á slátt, þó var hann burtu þaðan, þegar seinast til fréttist. ... Einn sexæringur týndist í Njarðvíkum með sjö manns ... Tveir bátar týndust og undir Jökli ... Prófastur síra Hákon var á vegi frá annexíu sinni fyrir snjóflóði. (s150)
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín árið 1817:
Vetur harður hjá oss varð
hrönnum fönnin djúpa
gripum sparði grundararð
gaf í hjarðir líka skarð.
Hafís grár um hvala-krár
hauðrið snauður girti
varð því mara básinn blár
bjargarsmár það hálfa ár.
Vorsins tíð var þurr óþýð
þráði láðið raka
grasið fríða fróns um hlíð
fannst því víða smátt hjá lýð.
Töðubrest á túnum mest
tíðan lýðir segja
engi flest sem orðað sést
arðarhrest þó greru best.
Nýting þæga þjóðin fræg
þáði fjáð á töðum
hríð óvæg þó heyja sæg
hausts um dægur vætti næg.
Haustveðráttan hefur mátt
heita neyt að gæðum
Kári þrátt þó góma gátt
glennti hátt með afl ósmátt.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1817. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Þakka Björk Ingimundardóttur fyrir lestur á ísfréttum i veðurbók Sveins Pálssonar í Vík í Mýrdal. Örfáar tölur má finna í viðhengi.
21.3.2021 | 03:19
Fyrstu 20 dagar marsmánaðar
20.3.2021 | 14:49
Tími frá síðasta gosi?
Ritstjóra hungurdiska finnst einkennilegt að eldvirkni á Reykjaneshrygg - til þess að gera nærri landi - skuli ekki vera talin með þegar fjallað er um þann tíma sem liðinn er frá síðasta gosi. Jú, land er land og sjór sjór - en gosreinarnar halda áfram og enginn munur á þeim sem næst landi liggja og þeim sem (svo vill til að) eru á þurru. Þetta á alla vega við svæðið kringum Eldey og Geirfuglasker. Á þeim slóðum var mikil virkni fyrir um 200 árum. Frægt er gosið 1783 sem myndaði Nýey, eyju sem reis þarna úr sjó - en hvarf aftur. Aftur urðu allmiklar hræringar, jarðskjálftar og eldgos á árunum 1830 til 1831. Virknin virðist hafa verið viðloðandi á annað ár - en með hléum og ekki stórfelld. Þó hrundu leifar Geirfuglaskers og þrengdi enn að geirfuglastofninum sem verpti á þessum slóðum. Einnig er að sjá sem að gosið hafi á sömu slóðum 1879.
Sigurður Þórarinsson segir í Surtseyjarriti frá heimildum um gosið 1783 - og verður það ekki endurtekið hár.
Minnst er á jarðskjálfta og gos í fáeinum heimildum frá 1830 til 1831. Fram kemur að gosið byrjaði líklega í mars 1830 og stóð með hléum fram á fyrstu mánuði ársins 1831. Þá urðu einnig jarðskjálftar á Reykjanesi - en þeirra virðist lítt hafa gætt í Reykjavík eftir því sem Jón Þorsteinsson veðurathugunarmaður segir, alla vega ekki eftir 1.september 1830 - en e.t.v. fyrr. Á fylgiblaði skýrslu sem hann sendi frá sér í lok febrúar 1831 (og nær til 6 mánaða) segir - í lauslegri þýðingu:
Engir jarðskjálftar hafa fundist hér um slóðir þessa mánuði, en hins vegar viðvarir af og til reykur sá sem í fyrra tók að stíga upp úr hafi u.þ.b. 14 til 15 mílur suðvestur frá Reykjanesi, án þess, að því er virðist, að hafa nokkrar afleiðingar.
Suðurnesjaannáll (höfundur er Séra Sigurður Br. Sívertsen í Útskálum. Annállinn er prentaður í Rauðskinnu) getur um jarðskjálfta - en talar ekki um eldgosið. 1830: Jarðskjálftar miklir á Reykjanesi og út af því á hafsbotni. Þá sukku Geirfuglasker ... sem voru um kýrfóðursvöllur að stærð, með 17 faðma háum björgum. Mjög fróðlega eldri lýsingu á Skerinu má einnig finna í Rauðskinnu.
Ingibjörg Jónsdóttir á Bessastöðum (móðir Gríms Thomsen) segir í bréfi 5.ágúst 1830: Fiskirí hefur í vor verið í minna lagi og venju fremur horaður fiskur. Sumir geta til, að hann hafi gleypt töluvert af vikur, þegar eldurinn var uppi í vor fyrir Reykjanesi.
Gunnar Gunnarsson prestur í Laufási við Eyjafjörð segir í bréfi 19.ágúst 1830: Fiskur sá er á Suðurlandi aflaðist í vor og seint í vetur, skal hafa verið ærið magur, og liggur fólki þar við að kenna um það Vulcan-útbroti, sem í næstl. marsmánuði hafði uppkomið úr hafi fyrir Suðurnesjum vestur af Blindafugla skerum. Hafi reykur sá, er þar skaut upp, glöggt sést frá Reykjavík, hafa og vikurkol víða rekið þar syðra.
Magnús Stephensen segir í bréfi sem ritað er í Viðeyjarklaustri 5.mars 1831: ... vulcansk eruption [eldgos], lík þeirri í fyrra, hér á ný byrjuð fyrir mánuði síðan á sama stað í suðvestri frá Fuglaskerjum, en menn segja langt úti í hafi sem í fyrra.
Bjarni Thorarensen segir í bréfi sem ritað er í Gufunesi 19.mars 1831: Ild har der nu som i Fior været i Havet udenfor Reikenes.
Síðar á 19.öld, 1879, bárust einnig fréttir af eldgosi á svipuðum slóðum, með vikurreki - varla er ástæða til að efast um að gosið hafi.
Í 6.tölublaði Heilbrigðistíðinda 1879 stendur þetta:
Eldsuppkomu fyrir Reykjanesi þann 30. maí nálægt Geirfuglaskerjum sáu menn vel frá Kirkjuvogi í Höfnum, og eins daginn eftir, þann 31., á að giska þaðan 12 vikur sjávar, en skemmstu leið frá ysta tanga á Reykjanesi 8 vikur [50-60 km]. Með júnímánuði komu vestan-útnyrðings-bræluvindar með svartaþoku, samfleytt í 1314 daga, svo að ekki var ratfært á sjó né landi nema á vissum vegum, en þokulaust allstaðar fyrir innan, í Keflavik, Njarðvíkum og Garði, og eins í Grindavík, sem menn héldu að stæði af eldinum. Rétt áður en upp birti, kom öskufall, sem vel sá á grasi; gjörði þá þéttar skúrir og birti upp með sífelldum þurrki síðan. Sást þá verða vart við eldinn að eins og svo ekki oftar mánuðinn út. Í Grindavík og einkanlega í Höfnum hefur verið einstakt fiskileysi frá lokum og til lesta, að menn muna ekki slíkt, eins á Miðnesi, en góður afli strax fyrir innan Skaga og einkanlega inn á Sviði allt vorið; svo það lítur út fyrir að fiskurinn hafi flúið undan eldinum. Ekki hefur verið getið um, að menn hafi orðið varir við vikur, og ekki heldur jarðskjálfta við þessa eldsuppkomu, og heldur engin vissa fyrir, hve nærri Geirfuglaskerjum að eldurinn var að brenna. Ritað 12. júlí 1879. B. Guðmundsson.
19.3.2021 | 17:20
Af árinu 1830
Tíð þótti almennt hagstæð á árinu 1830, en var samt misskipt, talsvert hagstæðari syðra heldur en norðanlands, enda var hafís að flækjast þar fyrir ströndum. Meðalhiti í Reykjavík var 4,9 stig en reiknast 3,8 stig í Stykkishólmi. Svo hlýtt var í Reykjavík í maí að talan er ótrúverðug (10,0 stig). Tölur frá Ketilsstöðum á Völlum staðfesta að maí var hlýr, meðalhiti mánaðarins þar reiknast lauslega 7,6 stig (óstaðfest tala), í flokki mjög hlýrra maímánaða þar um slóðir. Aftur á móti eru tölur úr Eyjafirði lægri - kannski hafísáhrif. Einnig var hlýtt í Reykjavík í janúar og júní, en fremur kalt í febrúar, mars apríl, júlí, nóvember og desember, nóvember kaldastur að tiltölu. Á Ketilsstöðum var júní hlýrri en bæði júlí og águst - sá síðastnefndi var mjög kaldur þar. En allar þessar mælingar þyrftu nánari athugunar við.
Í Reykjavík voru 15 dagar mjög kaldir, flestir í febrúar og mars (sjá má lista í viðhengi). Kaldastur að tiltölu var 11.mars. Sautján dagar voru mjög hlýir. Hiti fór 6 sinnum í 20 stig, mest 22,5 stig þann 30.júlí og var sá dagur einnig sá hlýjasti að tiltölu. Framan af ágúst var mjög hlýtt í Reykjavík. Þá sömu daga var hins vegar lengst af kalt austanlands.
Árið var fremur úrkomusamt. Úrkoma í Reykjavík (Nesi) mældist 883 mm. Óvenjuþurrt var í desember, úrkoma mældist aðeins 18 mm og hefur aldrei mælst minni í þeim almanaksmánuði. Aftur á móti var úrkoma sérlega mikil í mars, 180 mm, og hefur aðeins einu sinni mælst jafnmikil, það var 1923. Höfum þó í huga að þessar gömlu mælingar eru ekki alveg samanburðarhæfar við þær síðari þegar að metametingi kemur.
Loftþrýstingur var óvenjulágur í júlí og september og einnig lágur í mars, apríl og nóvember. Hann var hins vegar óvenjuhár bæði í janúar og desember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 13.nóvember, 942,3 hPa. Hæstur varð hann 17.desember, 1038,2 hPa.
Eldgos varð undan Reykjanesi og virðist hafa staðið með hléum fram á næsta ár.
Hér að neðan eru helstu rituðu heimildir um árið teknar saman. Annáll 19.aldar getur fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri.
Skírnir 1831 (bls. 73-74) segir af veðri 1830:
Á Íslandi var vetur blíður í fyrra [1830], en þegar útá leið lagði að með hríðum og frostum, og rak hafís að norðurlandinu og vesturlandinu og austurlandinu um sumarmál; varð því vorhart, einkum þar sem ísinn lá við land. Í áttundu viku sumars [12.júní] gerði svo mikla snjóhríð, að sauðfé fennti í Skagafirði og Húnavatnsýslu. Sú hríð hélst í viku. Á Suðurlandi var hvervetna mesti fiskiafli, og góður grasvöxtur, og góð nýting, og mátti þar heita veltiár, en fyrir vestan, norðan og austan hélt hafísinn kulda að landinu, og kippti vexti úr grasinu, en nýting var góð allt til ágústmánaðar loka; þá versnaði veðrið snjóaði mjög í fjöll, þó fengu menn bjargað heyi sínu. Afli var þar í betra lagi. Hafísinn rak eigi burt með öllu fyrri en í septembermánuði.
Suðurnesjaannáll:
Jarðskjálftar miklir á Reykjanesi og út af því á hafsbotni. Þá sukku Geirfuglasker ... sem voru um kýrfóðursvöllur að stærð, með 17 faðma háum björgum. ... Skipstapi frá Bakkakoti í Leiru, 29. nóv. um haustið, af brimi. Drukknuðu 5 menn.
Jón á Möðrufelli talar vel um janúar, segir frá snjó í febrúar, telur apríl harðan. Í síðustu viku maí segir hann merkilega stillta og góða og gróður í betra meðallagi. Fyrsta vika júní var líka stillt, en andköld og sú næsta líka hlý og góð fram að hretinu þann 12., en síðan allgóð tíð. Júlí segir hann í kaldara lagi. Hann hrósar ágúst og talar einnig um september og október sem allgóða mánuði. Snjóþungt og hart var hins vegar í nóvember.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Í janúar þíður miklar. Í febrúar lengst stillt og gott vetrarfar. Aftur með mars þíða mikil og svo þægilegt vetrarveður til 28.-30., að norðanhríð gerði fönn allmikla. Áður varð ei innistaða. Hafís rak þá inn og með honum við mikinn í Þingeyra-og Hjaltabakkasand. Allgóður reki varð líka kringum Skaga.
Espólín: [vetur]
CLXI. Kap. Vetur þessi hinn næsti var afargóður til miðs, svo at enginn mundi slíkan, frusu varla mýrar, og lagði lítt ár, voru ýmist staðviðri frostlaus, eða með litlum stirðnanda, eða hlákur hægar. (s 168). CLXII. Kap. Hinn 10da dag [febrúar] féll aurskriða á Ráeyri í Siglufirði, mikil og breið, tók hún bæinn allan og eina konu gamla inni, og kvikfénað allan nema 6 ær, og túnið allt, en menn aðrir gátu borgið sér sem nauðuglegast, og hey náðist síðan ótekið. (s 170). Selafli var þá fyrna mikill á Siglunesi og víðar í útfjörðum. (s 170). Þá gjörði vetur rysjóttan frá imbruviku, með snjóum og umhleypingum, drukknuðu 22 menn syðra, var þar með Grímur bóndi Árnason í Þingholti og Hannes Gizurarson snikkari, er nefndist Ólsen;
Gufunesi 2. mars 1830 (Bjarni Thorarensen): Veturinn hefir enn verið hér sá besti, en allir eru hræddir við Heklu, því nú í mikið rigningasömu ári, hafa lækir næstum þornað kringum hana, og af og til fundist hræringar þar. (s186)
Bessastöðum 13. mars 1830 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s124) Vetur var góður þangað til í miðjum febrúar, þá kom eitt frostkast. Nú er hér nógur snjór og umhleypingar.
Brandsstaðaannáll [vor]:
... Mannskaðabylur varð á þriðjudag fyrir páska [6.apríl]. Á Álftanesi fórust 8 bátar og 1 fjögramannafar. (s103) Ísinn fór aftur með maí. Í miðjum apríl vorgæði og snemmgróið. Túnavinna búin um krossmessu, þar sem hún er stunduð. Besta tíð allt vorið, utan mikið hret 12.-13. júní.
Bessastöðum 2. júní 1830 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s126) Þann sjötta apríl gjörði hér ofsaveður af landnorðri. Fórust þá 8 bátar og eitt skip frá Reykjavík og í grennd við hana.
Espólín: [vor, sumar og haust]
kom íshroði nyrðra, og batnaði þó veður seint í apríl, og voru kópar mjög margir drepnir á jökum hvervetna um Skagafjörð og víðar. (s 171). CLXIII. Kap. Vor var einkar gott á sjó og landi, og höfðu allir menn nægtir, en kólnaði þegar fram kom á sumarið; komu skip að vanda, og sögðu þá frið, og var kauphöndlun engu lakari en hið fyrra árið. Sumarið var gott syðra, kalt nyrðra, en þó nýtingagott, grasvöxtur minni á engjum en túnum, spratt lítt í Þingeyjarþingi. Ár var enn gott til sjávar, og haustið gott. (s 172). CLXV. Kap. Þá gjörði kast og snjókomu mikla á allraheilagramessu, og jarðbönn mikil norður undan og á útkjálkum, og var lengi að leysa upp; var lógað allmiklum peningi nyrðra, (s 174).
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Lestir fóru um Jónsmessu. Sláttur byrjaði 16. júlí. Gafst æskileg heyskapartíð, rekjur og þurrkar á víxl, ásamt grasvexti besta á túni og þurrlendi.
Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir af veðri hretdagana í júní:
10. Oftast suðlægur fyrst, þá hafgola, stundum sólskin og hiti.
11. Sama veður, skúraleiðingar áliðið.
12. Norðan hvass, mikil krapahríð og regn [Ísinn kominn inn á Poll].
13. Norðan hvass, mikið kaldur, þykkur og þokufullur, stundum með regnkrapi.
14. Norðan sárkaldur og þokufullur.
15. Kyrrt og sólskin fyrst, svo hafgola. Mikið næturfrost.
Bessastöðum 5. ágúst 1830 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s127) Árferði er í meðallagi. Þó er hér stór grasbrestur. Fiskirí hefur í vor verið í minna lagi og venju fremur horaður fiskur. Sumir geta til, að hann hafi gleypt töluvert af vikur, þegar eldurinn var uppi í vor fyrir Reykjanesi.
Laufási 19. ágúst 1830 [Gunnar Gunnarsson]: (s39) Vetur var hér mikið góður, allsstaðar allt fram til þorraloka, síðan áhlaupa- skakviðra og snjóasamur allt til sumarmála, svo hjá mörgum gafst meiri partur heyja upp. Eins hefur verið á Suðurlandi besti vetur og árgæska bæði til sjós og lands og heybirgðir þar nægar, eins hefur vor og sumar verið þar hið æskilegasta. Lítið eitt af hafís kom hér inná Eyjafjörðinn í vor, en fór skömmu seinna alfarinn aftur, og var hér síðan frameftir vorinu æskileg veðrátta og teiknaði vel til góðs grasvaxtar, en síðan fóru að koma kuldar, sem kipptu úr því öllum vexti, svo hann er hér víðast hvar lítill, og norður undan mjög svo vesæll. .... Fiskur sá er á Suðurlandi aflaðist í vor og seint í vetur, skal hafa verið ærið magur, og liggur fólki þar við að kenna um það Vulcan-útbroti, sem í næstliðnum marsmánuði hafði uppkomið úr hafi fyrir Suðurnesjum vestur af Blindafugla skerum. Hafi reykur sá, er þar skaut upp, glöggt sést frá Reykjavík, hafa og vikurkol víða rekið þar syðra.
Gufunesi 20. ágúst 1830 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hefir víða verið í lakasta lagi og næturfrost í sjálfum júlí hverri nóttu þá heiðskírt hefir verið. (s187)
Bessastöðum 28. ágúst 1830 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s129) Sumarið hefur verið kalt og þurrt og nýting á heyi hin besta.
Reykjavík 1.september 1830 (Jón Þorsteinsson athsemd):
Denne Sommer anses ellers for at have været meget tör, vinteren derimod meget mild, og kun i Marts noget kold. Í lauslegri þýðingu: Sumarið hefur þótt mjög þurrt, veturinn aftur á móti mjög mildur og aðeins kaldur í mars.
4. september 1830 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973):(bls 184)
Árferðissögur frá hólma vorum hafa sunnanlandsskipin svo glögglega fært yður, að ég get það ekki eins vel, því síður betur. Seinni hluti vetrarins varð hér um pláss miklu harðari en hinn fyrri, hafís og vorkuldar þar á eftir. Sumarið til höfuðdags frá sláttarbyrjun yfir höfuð þurrt og kalt með iðuglegum næturfrostum. Tún spruttu víðast í meðallagi og betur, en engjar og úthagi allvíðast í sáraumasta lagi, nema í einstökum plássum, hvar aldrei er vant að bregðist grasvöxtur. Nýting heyja til höfuðdags hin besta, en síðan bág vegna rigninga.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Sama blíða hélst um haustið til 21. okt., að fyrsta hret gjörði og svo þann 30. snöggleg fönn, 5.-25. nóv. fönn og kafaldasamt, þó lengst nóg jörð, síðan þíða og besta tíð til nýárs. Árgæska fór nú stöðugt vaxandi til lands og sjóar. ... 9.-10. nóv. urðu miklir fjárskaðar, svo sem Háagerði, Harastöðum, Kambakoti, Mýrum, Ystagili, Kolugili, Þóreyjarnúpi og frá Hausakoti urðu úti 2 kven- (s101) menn, er fóru til fjár, því ei var maður þar heima. (s102)
Bessastöðum 19-11 1830 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s130) Haustið hefur verið gott, en nú er vetur kominn með frosti, stormi og nokkrum snjó.
Brot úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1830:
Síðast liðinn vetur hálfur var hér góður
hross og hjarðir fengu fóður
fram um grösug jarðar-rjóður.
Vetrar partur var hinn seinni víða harður
hjörðum byrgðist hagans arður
heyja svengdist margur garður.
Eitt stórkast með einmánuði ýmir sendi
sem að feikna fönnum renndi
fölnað yfir hnikars kvendi.
Þurrt kom vorið, þegar vetur þá var liðinn
hafís nyrðra hafði biðin
höldum færði sel og viðinn.
Júníus tólfti él gaf nyrðra jarðar-breiðum,
grasa fólk svo heim af heiðum,
hrakið komst úr byljum leiðum.
Talinn var á túnum sumum töðu-brestur
oft þó þerrir yrði bestur
engja skortur þótti mestur.
Nóvember hinn níundi varð nærskta slæmur,
hörku bylur norðan næmur
nokkrum gjörðist óhagkvæmur
Hrakti og fennti féð á köldum foldar rana,
fjórir menn og fengu bana,
fundnir síðan andarvana.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1830. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
18.3.2021 | 14:22
Óvenjuhlýtt (án spurningamerkis)
[Breytt - 2] Óvenjuhlýtt hefur verið á landinu undanfarinn sólarhring. Þegar síðast fréttist (upp úr kl.15 þann 18.mars) hafði hiti komist í 20,4 stig á Dalatanga og 20,2 stig í Neskaupstað. Hiti fer sárasjaldan svona hátt á landinu í mars. Metið er 20,5 stig, sett á Kvískerjum í Öræfum þann 29. árið 2012.
Ljóst er að slatti af stöðvahámarksmetum fyrir marsmánuð hafa einnig fallið. Við skulum þó ekki gera það upp fyrr en hrinan er alveg gengin hjá.
Það sem er líka merkilegt er að marsmet féllu líka í háloftunum yfir Keflavíkurflugvelli. Hiti fór hærra en nokkru sinni áður í 400, 500, 700 og 850 hPa-flötunum og í 925 hPa hefur aðeins einu sinni mælst hærri hiti í mars. Athuganir eru samfelldar (í gagnagrunni ritstjóra hungurdiska) í 925 hPa síðan 1993, en frá 1952 í hinum flötunum fjórum.
Til gamans er hér mynd sem sýnir hæsta hita hvers dags á landinu (dægurhámörk) frá jafndægrum að hausti til jafndægra að vori. Hiti hefur aldrei áður mælst meiri en 20 stig hér á landi frá vetrarsólstöðum til jafndægurs á vori. Síðustu 20 stig sem vitað er um að hausti mældust 26.nóvember - 2013. Eftir metið í dag er 20-stigalausi tíminn hér á landi kominn niður í 113 daga. Eins og sjá má á línuritinu eru enn allmargir dagar sem ekki hafa skilað 15 stigum, og nokkrir sem ekki hafa náð 14. Sá sem situr mest eftir er hlaupársdagurinn, 29.febrúar. Hiti þann dag hefur aldrei mælst meiri en 12,0 stig - enda má segja að hann fær bara tækifæri til að bæta sig fjórða hvert ár. Næstaumastur er 5.mars - með 12,3 stig. Hitinn í dag er líka sá mesti sem mælst hefur á góunni hér á landi.
Það má nefna að allar háu tölurnar sem eru nefndar sérstaklega á línuritinu eru mælingar frá Dalatanga - sá staður er sérlega vænlegur til meta að vetrarlagi. Það hefur komið fyrir að vetrarhámark á Dalatanga er jafnframt hæsti hiti ársins á staðnum.
Sé aldur metanna athugaður kemur í ljós að 88 (tæpur helmingur) eru sett eftir aldamót og 127 eftir 1990. Enn lifa 19 dægurmet frá því fyrir 1961 - það elsta sett á Seyðisfirði 1907. Þrjátíu og níu metanna 184 eru sett á Dalatanga og 40 á Seyðisfirði. Skjaldþingsstaðir eiga 20 og aðrar stöðvar í Vopnafirði 6.
Þessi texti verður uppfærður telji ritstjórinn tilefni til.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2021 | 19:57
Af árinu 1829
Tíð var mjög hagstæð á árinu 1829 að öðru leyti en því að slæm vorhret gerði nyrðra og þar kom talsverður hafís. Kulda gætti þar einnig framan af sumri. Árið var hlýtt, meðalhiti í Reykjavík 5,0 stig og er áætlaður 4,1 stig í Stykkishólmi. Hafa verður í huga að nokkur óvissa er í þessum tölum. Um mitt ár var veðurstöðin í Nesi (við Reykjavík) uppfærð, mælingar auknar og urðu að því er virðist nákvæmari. Mánaðarmeðalhiti í Reykjavík í júlí og ágúst er þó með nokkrum ólíkindum (13,6 stig). Kann það að stafa af mæliaðstæðum - lágmarkshiti var sérlega hár marga daga í júlí. Við höfum þó vitnisburð Ingibjargar Jónsdóttur (móður Gríms Thomsen) sem vitnað er í hér neðar: ... fyrripart júlímánaðar var hér ofboðslega heitt, svo ég, sem þó hvorki er í blóð eða mergur, ætlaði að bráðna í sundur.
Við byrjum ekki talningu kaldra og hlýrra daga í Reykjavík (Nesi) fyrr en 1.júlí. Eftir það voru köldu dagarnir aðeins þrír, 5. til 7. október. Nítján dagar voru mjög hlýir, 6 í júlí og 13 í ágúst. Í júlí var það lágmarkshiti næturinnar sem skar sig úr, nánast jafnhlýtt var dag og nótt, lágmarkshiti fór ekki niður fyrir 15 stig þessa 6 hlýju daga. Hæsti hámarkshiti sumarsins var 22,5 stig, 17. júlí og 14. og 15. ágúst.
Úrkomumælingar hófust í Nesi þann 1.júlí. Júlí var mjög þurr, heildarúrkoma ekki nema 3 mm. Einnig var þurrt í september, en aftur á móti var úrkoma mjög mikil í nóvember og desember.
Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þ.19. október, 970,3 hPa, en hæstur þann 31.október, 1032,2 hPa. Lægsti þrýstingur ársins hefur aldrei verið jafnhár - en höfum í huga að aðeins var mælt á einum stað einu sinni á sólarhring. Lægri tölur hefðu örugglega komið fram ef víðar og tíðar hefði verið mælt. Munur á hæsta og lægsta þrýstingi ársins hefur heldur aldrei verið jafnlítill og 1829. Þrýstiórói var með meira móti í maí og október - bendir það til umhleypingatíðar, en aftur á móti var óróinn með minna móti í mars.
Hér að neðan eru helstu rituðu heimildir um árið teknar saman. Annáll 19.aldar getur fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri.
Svo er að skilja að Jóni á Möðrufelli hafi þótt árferði gott, apríl og maí þó í lakara lagi og andkalt framan af sumri. Heyskapartíð mjög hagstæð í ágúst.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Hláka eftir þrettánda, annars frostalitið, óstöðugt, blotasamt og svellaði jörð i janúar. 3. febr. storka og jarðleysi til 11., þá hláka, svo stillt og gott. Gaf þá vermönnum mikið vel. Með mars þíður og góðviðri, með 4. viku góu [15.mars] hríð og fannlög af norðri, eftir það stillt veður, stundum frostmikið. 6.-7. apríl innistaða, en ei tók upp á heiðum.
Espólín: CLVIII. Kap. [vetur]
Veturinn var svo góður, að aldrei kom eitt öðru hærra til góuloka, og varla dóu grös, var hákarlsafli hinn mesti á útsveitum nyrðra, og róið var þá frá Reynistað, og allstaðar var hið mesta bjargræði af sjó, hvar sem til spurðist, var enginn svo gamall að myndi svo góða tíð jafnlanga; sumir höfðu fengið á 17da hundrað fiska syðra fyrir vertíð, og hlaðafli var vestra, en geðveiki gekk víða yfir, helst á konum. (s 166).
Skýrsluár Jóns Þorsteinssonar landlæknis endar ætíð í lok febrúar - skýrslan komst þá með fyrstu skipum til Hafnar. Hann sendir þá stundum athugasemdir með. Þann 28.febrúar 1829 segir hann [lausleg þýðing neðar]:
Denne Aargang er i den Henseende den Mærkeligste, at denne Vinter hidintil er en af de mildeste noget Menneske kand erindre heri Landet; den sidste Sommer var ligeledes, i alle henseender udmærket god. Overhoved have vi i de sidste 12 Maaneder havt et Clima, som ofte ikke er mildere i det nordlige Tyskland. I denne Tid ere de fleste Fjelde af mindre end middelmaadig Höjde fra 2 til 3 Tusinde Fod höje næsten uden Snee, i det mindste her paa den sydlige kant af Landet.
Den 21de Febr om Aftenen kl: 9 ¾ mærkedes tvende Jordskjælv, som gik fra Ost til Vest, Stödene var ikke stærke, men dog fuldkommen fölelige, og det varede vis ikke over 1 Minut i mellem dem. Den samme Nat kl: 5 skal og have været et noget stærkere Jordstöd, men som undertegnede ikke mærkede da jeg sov. Ingen af disse Stöd var saa stærke at de kunde giöre nogen Skade.
Í lauslegri þýðingu: Þetta ár er að því leyti hið merkilegasta að veturinn hefur hingað til verið einn hinn mildasti sem nokkur maður hér á landi man, síðasta sumar var sömuleiðis á allan hátt sérlega gott. Yfirhöfuð hefur tíðin hér síðustu 12 mánuði verið ámóta og oft er í norðanverðu Þýskalandi. Nú (þ.e. í febrúarlok) eru flest meðalhá fjöll, 700 til 1000 metra há, nærri snjólaus, að minnsta kosti hér um suðurhluta landsins.
Um kl. 9:34 að kvöldi 21.febrúar fundust tveir jarðskjálftar, sem gengu frá austri til vesturs. Höggin voru ekki sterk, en fundust vel og ekki leið meir en 1 mínúta milli þeirra. Sömu nótt, um kl.5 mun hafa orðið nokkru sterkari skjálfti, en undirritaður var sofandi og fann hann ekki. Enginn þessara skjálfta var svo sterkur að skaði hlytist af.
Magnús Stephensen ritar úr Viðeyjarklaustri 4.mars. Frændi hans og alnafni (sonur Stefáns Stephensen) var eystra í jarðskjálftunum og stökk ber út um glugga að sögn Magnúsar eldri, hann var þá sýslumaður Skaftfellinga:
(s80) Við höfum í vetur haft einungis sumar, aldrei að kalla frost, varla 3°, eða nokkurntíma hesthjarn, aldrei snjó í skóvörp, en þíður, logn, sólskin og allstaðar góðan afla ... (s81) En þessi sífellda blíða í sumar, í fyrra og nú, næstum dæmalaus, óttumst vér boði megn eldsumbrot í vændum, því vissar, eftir álíkum tíðum á undan oft fyrri, sem nú þann 21. febr. um nóttina kl. 10-11 gengu megnustu jarðskjálftar eystra, helst undan Heklu nágrenni, á Rangárvöllum, hvar við margir bæir hrundu niður og löskuðust. Sýslumaður Magnús Stephensen var þá (sem nú constitúeraður [settur] til dóma í Rangárvallasýslu) á embættisferð gestur í Odda, hjá mági sínum prófasti Sr. Helga Thordarsen, hrökk upp úr fasta svefni, þá bærinn eða stofan ætlaði ofan að hrynja, og stökk ber, sem hann lá í rúminu, út um glugga á henni. Allstaðar hér syðra fundust þeir jarðskjálftar og, en vægt, og ei síðan né enn önnur elds umbrota merki.
Bjarni Thorarensen ritar í Gufunesi 9.mars. Hann óttast að blíðan boði Heklugos í kjölfar jarðskjálftanna:
Fiskeriet er fortræffeligt, Vinteren Neapolitansk men et frygteligt Jordskielv Natten imellem den 21de og 22de Febr. især i Nærheden af Hekla hvor to Böndergaarde ere ganske nedstyrtede, men utallige beskadigede og en Mængde enkelte Hytter nedfaldne. Man frygter for Hekla og Veiret har ved tyk Luft og uagtet stærke Aspecter til Blæst, været unaturlig stille, thi i disse Dage har det dog været en Smule koldt.
Í lauslegri þýðingu: Afli er með ágætum. Veturinn napólíanskur [þess tíma orð yfir það sem við nú köllum mæjorkaveður eða bongó], en hræðilegur jarðskjálfti nóttina milli 21. og 22.febrúar, sérstaklega í nágrenni Heklu, þar sem tveir bæir hrundu alveg og ótal fjöldi skemmdist og fjöldi stakra kofa féll. Menn óttast Heklu og veðrið hefur, þrátt fyrir þykkvíðri og hvassviðraútlit, haldist ónáttúrulega kyrrt, því þessa dagana hefur það þó verið nokkuð kalt.
Ingibjörg Jónsdóttir ritar frá Bessastöðum 12.mars 1829. Hún óttast að hann hefni fyrir blíðuna.
(s120) Héðan er að frétta árgæsku þá mestu, sem ég man, bæði til lands og sjávar, sumir eru ekki án ótta, að þetta muni betalast síðar. Þeir bæir, sem næstir voru Heklu, hafa hrunið af jarðskjálfta og fleiri hafa laskast. Lítið varð hér vart við þessa hræring. Þó þóttust nokkrir finna hana um kvöldið 21. febrúar.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Fimmtudag 30. apríl gjörði mestu norðanhríð 3 daga í sífellu, svo enginn mundi þá slíka á þeim tíma og fannkyngju. Þó lifði fé úti, er ei náðist heim á nokkrum heiðarjörðum, en fjártjón varð í Víðidalstungu, Fitjunum og Húki og víðar fennti það og fraus niður við Kvíslarnar. Sumstaðar króknaði nokkuð. Eftir það sólbráð og góðviðri. 10.-12. maí var leysing mikil, 13.-19. norðanharka og snjóhret. Eftir það var unnið á túnum. Var þá rosasamt með vestanátt og kalsarigningum. Hélst lengi vatnsgangur og hættur til hálsa og heiða.
Espólín [vor]
Með imbruviku skipti um, og var hríðasamt til páska [imbrudagar hófust 11.mars 1829], var þá ís kominn, en páskadagur var þá seinasti sunnudagur í vetri [19.apríl]. Síðan fyllti allt með ísi, og gjörði hríð svo mikla hinn seinasta dag apríl og 1. maí, að menn mundi ei slíka á þeim tíma, urðu stórfannir og hinir mestu fjárskaðar víða, týndist 70 frá í Valdarási í Húnavatnsþingi og 100 samtalið frá fleiri bæjum í Víðidalstungu, svo að dó, eða var dauðvona; spilltust þá öll andvirki, og varð óhagnaður mikill af bleytum, og fannaleysingum, en kalt syðra. Margir urðu þá heylausir, þó ólíklegt þætti, því jörð og hey höfðu verið harla létt, en hvalkoma var nokkur sumstaðar, og nádust marsvín í ísnum;
Lýsing Ólafs Eyjólfssonar á Uppsölum í Öngulstaðahreppi á hretinu í apríllok:
27. apríl: Fyrst sunnan kul, mikið frost og heiðríkt, þá loftgrár, kyrrt, stundum fjúk, norðan áleið.
28. apríl: Ýmist sunnan eða norðan. Kuldi og frost, oftar sólskin, stundum hríðarél.
29. apríl: Sunnan þykkur. Morguninn frost, þá fjúk, svo regn, ... stundum regnlaust.
30. apríl: Norðvestan, mikið frost og kuldi, hríðarkólga, dimmur áliðið, stundum sólskin fyrst.
1. maí: Sama veður fyrst, þá kyrrt og drífa, svo norðanhríð mikil og snjókoma.
2. maí: Sama norðan hríð og frost nokkuð bjartari.
Í dagbók Ólafs kemur fram að oft var kalsamt þar um slóðir fram eftir júlímánuði og þegar leið á ágúst voru næturfrost alltíð.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní allgott, en þó 13.-20. kuldakafli, 17. mikið hret og varð bjarglaust af fönn, þaðan gott veður, seint fært frá, í júnílok og með júlí byrjuðu suðurferðir. Um lestatíma þokur miklar, fór grasvexti seint fram. Sláttur byrjaði 23. júlí. Gekk seint á tún, því breiskjur voru miklar. Hélst þurrviðri lengst um allan sláttinn um allt land. Varð heyfengur góður og mikill, helst á votengi, (s99) er nú varð allt þurrt.
Espólín [sumar og haust]
þó varð enn árgott, nema helst fyrir norðan, þar batnaði og með miðju sumri og urðu nýtingar góðar. (s 166). CLIX. Kap. Batnaði þá fyrst undir mitt sumar, og varð kálvöxtur nær enginn, en grasvöxtur lítill á túnum, sæmilegur á engjum, og nýtingar góðar. (s 167). Haustið var hið besta, og fiskafli hvarvetna, og inni í sundum syðra. Hval rak í Þorlákshöfn, sá er sagt at væri 90 álnir milli sporðs og höfuðs. (s 168).
Bessastöðum 2-8 1829 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s118) Hér hefur vorið verið þurrt og mikið kalt á nóttunni, en fyrripart júlímánaðar var hér ofboðslega heitt, svo ég, sem þó hvorki er í blóð eða mergur, ætlaði að bráðna í sundur. Grasbrestur er hér víða, þó helst á útengi.
Gufunesi 12-8 1829 (Bjarni Thorarensen): Þar [fyrir norðan] hefir grasvöxtur verið rýr sökum hafíss, en hér fyrir sunnan í betra lagi og nýting á heyi það sem af er hin besta líka var bágur grasvöxtur á Vesturlandi. Vetur einhver hinn allrabesti, vorið um stund nokkuð kalt. Fiskiafli sérlega góður, svo þú sérð að árið má kallast gylliniár. (s184)
Gufunesi 11-9 1829 (Bjarni Thorarensen): Norðanveðrið kom hér syðra líka og var ógurlegt á Kjalarnesi, þó hafa menn ekki frétt um mikla heyskaða þar, enda vara Kjalnesingar sig öðrum betur á slíkum veðrum. (s201)
13. september 1829 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973):(bls. 183)
Næstliðið haust og vetur var hér góðviðrasamt, og í annarri viku góu fór að sjást gróður í kringum bæi, en með mið-góu, eða þó helst með 15. mars, tók að kólna, og síðan hefir hér norðanlands vorið og sumarið verið mikið kalt, nema um sjálfa hundadagana voru miklir hitar og þurrkar á daginn, en næturfrost tíð, grasvöxtur því yfir höfuð í minna lagi, en nýting heyja góð allt til skamms tíma. Fiskirí gott víðast, heilbrigði manna góð, og allir nafnkenndir lifa, það ég til veit.
Saurbæ Eyjafirði 26-9 1829 [Einar Thorlacius] (s35) Vorið var kalt með hafísum, sem aldrei hafa algjörlega landinu horfið, sumarið gróðurlítið, en þó frá miðju sumri hagstætt og þurrkasamt.
Laufási 26-9 1829 [Gunnar Gunnarsson] (s37) ... þar seinni partur næstliðins vetrar var mikið frosta- og snjóasamur, í hverju hafís var mikil skuld, þar hann var að flækjast hér langt fram á sumar. Sláttarbyrjun varð því almennt mikið sein og þarhjá stór grasbrestur á túnum ...
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haust allgott, í október norðanátt og frostasamt, með litlum snjó til þess 13., síðan út mánuðinn þítt og frostalítið, snjólaust. 4.-6. nóv. kom mikill snjór, er lá á til 15., þaðan góð tíð og autt orðið 25., að lognfönn gerði, en hún fór fljótt við hláku mikla og rigningu. Eftir það óstöðugt, blotar og éljagangur, snjólítið utan 5 daga fyrir jólin, á þeim þíða og góðviðri og auð jörð. Hélst nú ársæld og peningsfjölgun með góðum notum og kýr í bestu nyt, heyjagnægtir og mikið sett á af ungfénaði. (s100).
Bessastöðum 18-11 1829 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s122) Veðrátta er hér góð, en oftast sunnanvindur og rigning, fiskirí þegar að veður leyfir.
Gufunesi 21-11 1829 (Bjarni Thorarensen): Póstskipið tilheyrir Jacob Holm og Clausen á að koma suður í þeirri Anledning [vegna þess að], það missti báða báta sína í ofveðri hér á Faxafirði á sunnudaginn var.
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1829:
Vetur góðan þjóðin þáði
þann til hlítar veitti arð
hauðurs gróða hjörðin náði
haga lítið sjaldan varð.
Lifðu jórar lands á reitum,
líða réðu hors ei blak
þó kom snjór í sumum sveitum
sem þar féð að húsum rak.
Vorið sparði varmann jörðu,
veiktist ylur gróandans
hafís varði vog og fjörðu
vestan til og norðanlands.
Kast óhent um krossmessuna
kunni hlaða niður snjá
hrakti og fennti fé til muna
fengu skaða margir þá.
Gott var sumar, garpar fengu
góða nýting heyjum á
Örir gumar oft því gengu
útí flýtir til að slá.
Heyföng þjóða heita máttu
hér þau bestu forn og ný
fyrning góða af því áttu
ítar flestu görðum í.
Haust með órum veður vakti,
vindamengið hart um sló.
fönnum stórum frónið þakti,
feikna regn var stundum þó.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1829. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 120
- Sl. sólarhring: 144
- Sl. viku: 955
- Frá upphafi: 2420770
Annað
- Innlit í dag: 111
- Innlit sl. viku: 843
- Gestir í dag: 106
- IP-tölur í dag: 105
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010