Bloggfærslur mánaðarins, mars 2021
16.3.2021 | 00:16
Óvenjuhlýtt?
Spár fyrir næstu daga eru mjög hlýindalegar. Þó hlýindi af þessu tagi hafi sést áður í mars er samt rétt að gefa þeim gaum.
Kortið gildir á miðvikudagskvöld, jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Á gulbrúna svæðinu er henni spáð meiri en 5520 metrum - rétt eins og á allgóðum sumardegi. Þar sem snjór er á jörðu víða um landið norðan- og austanvert - og sól ekki enn mjög hátt á lofti verður hiti þó varla eins hár og verða myndi við svipuð skilyrði að sumarlagi - og ekki er heldur spáð mjög hvössum vindi. Líklegast er því að mestu hlýindin fljóti ofan á - þannig að möguleiki á metum í háloftunum er ívið meiri heldur en niðri í mannheimum.
Við þurfum að fylgjast með háloftaathugunum, hugsanlega gætu marsmet fallið t.d. í 700 hPa (3 km hæð) og í 500 hPa. Mættishita í 850 hPa er spáð upp í 27 stig í niðurstreymi vatnajökulsbylgjunnar - en það er mest fyrir augað - aftur á móti er honum spáð ofan 20 stiga á allstóru svæði - meira að segja yfir Færeyjum.
En við höfum séð tölur af þessu tagi áður, síðast líklega 2016 og svo árið 2012 þegar hitamet marsmánaðar féll eftirminnilega og hiti fór í 20,5 stig í Kvískerjum í Öræfum - eina skiptið sem 20 stigum hefur verið náð í mars hér á landi. Allt yfir 16 stigum telst frekar óvenjulegt um miðjan mars. Metið milli 11. og 20. er 17,6 stig sem mældust á Siglufirði þann 13. árið 2016 - en þá var þykktin svipuð og sú sem nú er spáð. Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík 11. til 20.mars er 12,3 stig - það var þann 20.árið 2005. Áttin hentar varla nú til meta í Reykjavík, en þó má geta þess að dægurmet þess 18. er aðeins 9,3 stig - og liggur því vel við höggi (ef svo má segja).
En hlýindi á þessum tíma vetrar lofa engu um framhaldið. Á topplista yfir mikla þykkt á þessum tíma eru t.d. dagar í mars 1979 (18.) og 1953 (20.) - 1979 var um nokkra undantekningu að ræða á köldum vetri, en 1953 hafði vetur verið hlýr - en gerði síðan illkynja hret upp úr 20. mars. Apríl varð þá kaldasti mánuður vetrarins - eins og oft hefur verið fjallað um hér á hungurdiskum áður. Stuttur lýsing Páls Bergþórssonar á veðrabrigðunum miklu í góulokin 1953 var eitt af því sem vakti æskuáhuga ritstjóra hungurdiska á sínum tíma. Þessa lýsingu Páls má finna í hinu indæla pistlasafni hans Loftin blá. Öll veðurnörd ættu að lesa þá bók.
Meðalhiti fyrri hluta mars er +2,5 stig í Reykjavík, +1,9 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +1,7 ofan meðallags síðustu tíu ára. Hiti er í fjórðahlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2004, meðalhiti þá +6,0 stig, en kaldastir voru þeir 2002, meðalhiti -1,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 25.hlýjasta sæti (af 147). Hlýjast var 1964, meðalhiti þá +6,6 stig, kaldast var hins vegar 1891, meðalhiti -7,7 stig.
Meðalhiti á Akureyri það sem af er mánuði er +0,8 stig, +1,4 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en +1,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið hlýjast um landið sunnan- og vestanvert. Þar er mánuðurinn yfirleitt í 4.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast að tiltölu hefur verið á Austurlandi og Austfjörðum, þar er hiti í 8.hlýjasta sæti.
Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðum, á Fáskrúðsfirði reyndar í meðallagi, en mest er jákvæða vikið við Búrfell þar sem hiti er +2,7 stig ofan meðallags.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 22,6 mm og er það nærri helmingur meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 32,1 mm, um 20 prósent ofan meðallags.
Sólskinsstundir hafa mælst 41,6 í Reykjavík og er það í tæpu meðallagi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 03:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2021 | 22:37
Af árinu 1828
Árið 1828 var sérlega hlýtt og hagstætt um meginhluta landsins. Meðalhiti í Reykjavík var 5,5 stig. Hafa verður í huga að mikil óvissa er í mælingunum og hvergi var mælt annars staðar á landinu (svo vitað sé með vissu). Giskað er á að meðalhiti í Stykkishólmi hafi verið um 4,7 stig. Árið gæti verið það næsthlýjasta á allri 19.öld, lítillega kaldara heldur en 1847. Veturinn var mildur og frostalítill, vorið hagstætt, og sumarið mjög hlýtt, (nema júnímánuður). Október var einnig mjög hlýr og enginn mánaða ársins var kaldur.
Við sjáum hér morgunhitamælingar Jóns Þorsteinssonar, gerðar í Nesi, um hálfellefu að morgni að okkar tíma (9 að sólartíma). Skammvinnt kuldakast gerði upp úr páskum, en þeir voru 6.apríl. Verulega hlýnaði seint í júní og síðan var lítið lát á hlýviðri fyrr en um 20.september. Stutt kuldakast gerði eftir miðjan nóvember.
Loftþrýstingur var óvenjulágur í desember og fremur hár í mars og september. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þann 10.desember 956,6 hPa, en hæstur 1037,3 hPa þann 30.október.
Hér að neðan eru helstu rituðu heimildir um árið teknar saman. Annáll 19.aldar er mjög stuttorður um veðrið á árinu 1828 (rúmar 2 línur). Hann getur hins vegar fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri.
Jón á Möðrufelli segir árið dágott í heild og flesta mánuði segir hann ýmist góða eða sérlega góða eða merkilega góða.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Í janúar stillt og frosthægt veður og jarðlag gott, snjólítið og smáþíður. 12. febr. hláka og ofviðri 4 daga. Urðu allar ár þíðar. Vermenn fóru flestir Tvídægru. Eftir það sömu góðviðri. Í marsbyrjun aftur (s97) hláka, seinni helming góu snjór með vestanéljagangi og seinast norðanhríð, síðan góðviðri.
Espólín [vetur]: Veður voru góð.
Saurbæ Eyjafirði 8.febrúar 1828 [Einar Thorlacius]: (s20) Vetur allt hingað til yndislega góður.
29.febrúar 1828 ritar Jón Þorsteinsson athugasemd með veðurathugunum sínum:
Ved et blik paa denne Liste [veðurskýrslan], bemærkes meget Let det Islandske Climats Særkjende, nl: at det er saa liden Forskjel mellem Sommer og Vinter: thi et stormfuldt Efteraars Vejrlig, vedvarer næsten uafbrudt det heele Aar; 6° Kulden er den stærkeste Frost vi endnu have havt denne Vinter, men den kand giærne blive stærkere in Martz, som ofte er den haardeste Maaned.
Í lauslegri þýðingu: Af athuganaskránni sést sérkenni íslensks veðurlags vel, nefnilega að lítill munur er á sumri og vetri, stormasamt haustveður stendur næstum látlaust allt árið. 6°R frostið er það mesta sem við enn höfum fengið í vetur, en það verður gjarnan meira í mars, sem oft er harðasti mánuðurinn.
Bessastöðum 28. mars 1828 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s112) Hér er nú árferði gott, vetur því nær snjólaus, lítil frost, en geysi austanstormar voru oft í janúar. Stórflóð merkust hér tvö, það fyrra í desember, það seinna þann 19. janúar. Þau brutu og brömluðu nokkur skip, byrgi og túngarða við sjávarsíðuna.
Gufunesi 28-3 1828 (Bjarni Thorarensen): Vinteren har i det hele været paa de allerbedste. [Veturinn hefur í heild verið með því besta].
Brandsstaðaannáll [vor]:
Aftur eftir páska (6. apríl) snjór og frost vikutíma. Aldrei innistaða og hross með haustholdum. 13. apríl byrjaði besta vorveður, aldrei hret né mikil rigning. Æskileg tíð til allra vorverka.
Espólín [vor og sumar]:
Var þá harla vorgott, og betra og betra (s163). Þá var harla gott sumar, og grasvöxtur sem mestur og nýting, en þó urðu hey létt (s164).
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Eftir Jónsmessu stórrigning, 28. júní farið suður og gaf vel, 11.-16. júlí mest kauptíð í Höfða í sláttarbyrjun, töðufengur sá mesti, er menn höfðu til vitað og nýting góð, norðanátt lengst til 11. ágúst, svo sunnan-og vestanátt með rekju og nægum þerri. Í september þurrkar og bjartviðri. [neðanmáls: Fyrsta hret gjörði 26. sept.] Engi spratt í besta lagi líkt og 1825.
Sveinn Pálsson minnist á 2 jarðskjálfta í Vík 11.júní.
Saurbæ Eyjafirði 21-6 1828 [Einar Thorlacius]: (s21) Það veit almennast til að greina er einhver hinn besti vetur, sem næstliðinn er, og þó vorið því ágætara, svo nú er kominn gróður og gras líkt og í meðalári þá byrjað er með heyskap, enda hefur veturinn sem leið mest líkst sumri, en vorið framyfir það að gæsku sem elstu menn muna.
6. ágúst 1828 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973):(bls. 182) Héðan frá landi er ekki sérlega neitt í frásögur færandi, það ég veit eða man, nema árgæska yfir höfuð að kalla til lands og sjávar frá því um þetta leyti í fyrrasumar. Sumar þetta er þurrt og oftar heitt, með góðum grasvexti á túnum og valllendi, en mýrar og flóaslægjur bregðast vegna ofurþurrka.
Bessastöðum 18-8 1828 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s114) Hér er nú í stuttu máli það æskilegasta sumar, sem ég man til, hey fáum við nú meiri en nokkurntíma áður.
Gufunesi 18-8 1828 (Bjarni Thorarensen): Það sem liðið er af sumrinu hefir í alla staði verið uppá það æskilegasta, grasár hið besta og nýting rétt góð af túnum, um eld hafa menn talað í Öræfajökli eða Grímsvötnum, en ég veit ekki sönnur á því, svomikið er víst að í Rangárvallasýslu hefir enginn var orðið við neitt öskufall. (s179)
Gufunesi 15-9 1828 (Bjarni Thorarensen): Árferði hefir hér verið í sumar og á næstliðnum vetri eitthvert hið allra besta sem menn tilmuna ... (s231)
Saurbæ Eyjafirði 25-9 1828 [Einar Thorlacius]: (s25) Sumarið hefur hér og um allt land verið minnisstætt fyrir veðráttublíðu og ríkulegustu uppskeru alls þess, sem land þetta getur gefið af sér ...
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haustið gott, svo kýr fóru út til 20. okt. Þá gjörði 5 daga hret og snjó, er brátt tók upp. Eftir það þíður, svo torf var þítt til 5 nóv., svo stillt veður. 24. nóv, íkast um vikutíma, jólafasta og góð og stillt, 14.-16. des. hláka, auð jörð og blíðviðri um jólin. ... Afli varð nú alstaðar nokkur, því íslaust var, ... (s98)
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín [1828]
Vetur besta þáði þjóð
þar með vor og sumar
heyskap mesta lands um lóð
lýði hressti nýting góð.
Haustið góða veðrið víst
veitti drótt á láði
heilla gróður höldum líst
hjarðir fóður vantar síst.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1828. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Vísindi og fræði | Breytt 15.3.2021 kl. 02:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.3.2021 | 15:52
Af árinu 1845
Árið 1845 þótti hagstætt lengst af. Meðalhiti í Reykjavík var 4,4 stig, 0,5 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Reiknaður meðalhiti í Stykkishólmi var 3,6 stig. Mælingar hófust þar svo í nóvember. Vorið var óvenjuhlýtt suðvestanlands, maí í hópi þeirra hlýjustu og einnig var hlýtt í mars, apríl og júlí. Fremur kalt var aftur á móti í janúar, nóvember og desember. Enn hefur ekki verið unnið úr hitamælingum að norðan og austan.
Níu dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, að tiltölu var kaldast þann 28.janúar. Tíu dagar voru óvenjuhlýir, þar af 6 í maí og fjórir í júlí. Hiti náði 20 stigum níu sinnum, mest 23,8 þann 12.júlí. Listi yfir hlýja og kalda daga er í viðhenginu.
Ársúrkoman var nærri meðallagi í Reykjavík, fremur þurrt var í ágúst og október, en úrkoma vel ofan meðallags í maí.
Þrýstingur var nokkuð hár í júlí og ágúst, en lágur í júní og nóvember. Þrýstiórói var með mesta móti í maí. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þann 10.janúar, 952,5 hPa, en hæstur mældist þrýstingurinn 1038.7 hPa, þann 7.apríl.
Mjög stórt Heklugos hófst 2.september. Megingjóskugeirinn lá til austurs, yfir sunnanvert hálendið og sveitir Skaftafellssýslu. Öskufall varð einnig á Suðurlandi síðar. Gosið stóð í tæpt ár, en var lítið úr því er kom fram á vorið 1846.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur - og þá í mjög stuttu máli. Við getum því vel áttað okkur á veðri frá degi til dags þetta ár, en menn virðast ekki hafa haft mjög mikið um það að segja. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið.
Gestur Vestfirðingur segir frá tíð um landið vestanvert á árinu 1845 í 1.árg 1847:
Ár 1845 er talið með mestu árgæskuárum landsins. Átta mánuðir þess voru blíðir og góðviðrasamir. Frostrigningar tóku fyrir haga í 6 vikur um og eftir miðjan vetur. Fjórir síðustu mánuðirnir voru vætumiklir og veðurharðir með köflum en aldrei frost að kalla til ársloka. Svo var vorgott vestra, að fuglar fundust orpnir eggjun á sumarmálum. Þegar í apríl tók að gróa vestanlands, og öndvert í maí var bæði sprungin út sóley, fífill og fífa. Grasár hefði orðið í besta lagi, ef sífelldir þurrkar hefðu ei valdið því, að gras brann sumstaðar af túnum og harðvelli, því varð ei nema gott meðal-grasár, en nýting hin besta þangað til í september, þá rýrnuðu óhirt hey af vætum. Sjávarafli góður undir Jökli. Steinbítsafli allgóður vestra.
Í janúar týndust 6 menn í fiskiróðri af skipi undir Jökli, en þremur varð bjargað; um sumarið drukknuðu við Ísafjarðardjúp menn allir af einni fiskiskútu; sökk skútan, en náðist upp aftur; þá fórst og skip á Hrútafirði með 6 mönnum; maður datt út úr bát og drukknaði á leið frá Stykkishólmi til Bjarneyja; fiskiskúta, nýfarin út af Ísafirði, fórst á heimleið til Hafnar í október við Straumnes hjá Patreksfirði, og týndust þar menn allir.
[Neðanmálsgrein: Sama daginn og Hekla tók að gjósa, heyrðust á Vesturlandi dynkir miklir. Voru þeir áþekkir skothríðardunum en þrumuskellum, þótti og sumum þeir líkir því, þá mjög tekur undir í klettum af járnrekstri. Þess urðu menn og varir, að jörðin var ókyrr undir fótum þeirra. Þó fannst glöggvar skjálfti heima, ef menn lögðu sig niður.
Brot úr dagbók Jóns Jónssonar í Dunhaga í Hörgárdal (mjög erfitt er að lesa bókina)
Janúar 1845 - mikið harður(?), ákafur snjór og jarðlaust, febrúar meðalgóður að veðráttu, mars - í heild góður og stilltur, apríl góður og stilltur, gróður orðinn í besta lagi í lok mánaðar. Maí ágætur, júní (mjög í kaldara lagi), júlí í meðallagi(ei óstilltur né óhægur) - grasvöxtur yfrið misjafn, ágúst ... loftkaldur og náttfrost síðari part. September heldur í stirðara lagi veðrátta óstöðug, október má kallast í betra lagi að veðráttu, nóvember fyrri partur góður en síðari hluti stirður með snjókomum.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Sama góðviðri á auðri jörð hélst til þorra. Á honum var snjór og frost og 8. febr. var sumstaðar jarðlaust vikutíma; alla góu stillt og gott veður, oftar sólhlýindi, en aldrei snjór né óveður. Komu þá þrotnu bæjarlækirnir niður. Á einmánuði stöðug vorgæði, svo tún grænkaði í miðjum apríl.
Eremittassen (Möðruvöllum) 5-2 1845 [Grímur Jónsson] (s153) Langt fram yfir nýár og nærri því að þorrakomu var hér hinn mesti gyllinivetur er ég man, sífelld þíð- og linviðri, með kyrrð, staðviðri (oftast) og hægum frostum milli, svo varla sást héla á glugga. Á jólum lukum við upp öllum gluggum með 5 gráða varma. Merkilegt hefur það þótt, og sjaldgæft, að veðurstaðan að minnsta kosti allt fram að þessu (máski fyrir viku síðan) hefur verið svo þrá norðaustan, austan og suðaustan (landsunnan), og mér hefði ekki komið óvart, þó vetrarfar í Danmörku hefði í haust verið úfnara en vant er, ... - Síðan [um miðjan janúar] hefur veturinn lagst hér að með æði svæsnum hríðum og frostum og vita jarðlaust mun nú hér um pláss.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Var nógur sauðgróður á sumarmálum og mátti þá vera búið að vinna á túnum. Oft var í apríl hiti á daginn og frostlaust á nætur. Í maí þurrksasamt til 15., að vel rigndi jörð til vökvunar, eftir það góðviðri.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní 8. daga frost og kuldi, síðan gott og þurrkasamt. Eftir sólstöður stundum kalsaúrfelli, 5.-13. júlí breiskjur miklar. Byrjaðist þá sláttur, helst í úthaga. Þurrkar héldust lengi, svo brann af hörðum (s151) túnum, keldur og flóar þornuðu upp, svo vatnslaust var utan í uppsprettum. Leið fénaður víða nauð af því. Jökulár voru bláar í júní, en um sláttinn stöðugt afarmiklar. 31. ágúst mikið vestan-skaðaveður. Sláttur gekk seint. Þó varð heyafli góður. Gras dofnaði með september. Þann 2. sept. varð Heklugosið.
(s152) Þann 2. sept. heyrðu menn með undrun skelli mikla og drunur, er heyrðust í næstu klettum, fjöllum eða giljum í suðri, austar eða vestar eftir stefnu til klettanna. Var hljóðið því ógnarlegra sem klettar voru nær eða meiri. Höfðu menn ei fyrr heyrt eldsumbrot og aðeins lítið af skruggum og hugðu því, að yfirtaksskruggur mundu vera, en þeir reyndari fundu það ei geta verið. Þetta gekk frá hádegi til kvölds, en ei heyrðist það oftar. (s153)
Frost var við sólarupprás á Hvammi í Dölum dagana 10. til 13.júlí, mest -2°C þann 11. og 12. Þann 24.ágúst sást frá Hvammi eldhnöttur fara skáhalt frá austri til vesturs kl. 11 e.m. að stærð miklu minna en fullt tungl Þann 3.september segir Þorleifur í Hvammi: Ákaflegur bulningur í fjöllum og hálsum sem fallbyssuskot væri, öðru hvoru frá kl. 10 f.m. til kl. 1-2 e.m.. Aftur heyrði hann dunur þann 22.september. Þann 1.nóvember og 10.desember fann hann brennisteinsþef.
Hiti mældist 26°C á Valþjófsstað þann 21.júlí og þann 1.september segir athugunarmaður af jökladynkjum. Spurning hvort dagsetningin hefur skolast til - því Heklugosið hófst þann 2. og víða heyrðist í því. - En einnig er hugsanlegt að dynkir hafi komið úr einhverjum skriðjökla Vatnajökuls.
Laufási 9. september 1845 [Gunnar Gunnarsson] (s165) Mjög svo hefur misfallið með grasvöxt hér í sumar, því bæði hafa hólatún og þurrlendar engjar brunnið víða til stórs skaða bæði af sólarhita og þyrkingum ...
Bessastöðum 10. nóvember 1845 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s222) Hekla byrjaði að gjósa annan september. Kom fyrsta gosið austur í Skaftafellssýslu og skemmdi þar mikið. Gekk þá veður upp í norður. Skemmdi þá aska og sandur flestar sveitir í Rangárvallasýslu. Um alla Árnessýslu er aska komin. Lítið eitt hefur hér orðið vart við sandfall, en ekki til skaða. ... Sumar var hér það besta, hvað (s223) nýting snerti, en hér er þó heldur sjaldgæft, en sumarið kvaddi okkur með þeim ofsastormi, að stórskemmdir urðu bæði hér og annars staðar. [Sennilega er hér átt við veðrið 22. eða 23.október.]
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
17.-20. sept. kom hret með miklu frosti og aftur sunnudaginn 28. Gjörði ógnarfönn á þeim tíma, er frestaði seinni göngum. Kaupafólk úr Stafnsrétt hreppti nauð mikla. Eftir þann snjó haustblíða mikil um 3 vikur. Fimmtudag síðasta í sumri [23.október] sunnanhríð og svo bloti með ofsaveðri, svo víða reif hús og hey. ... Eftir það snjór, 1.-3. nóv. hláka, síðan stillt frostveður til 14., þá sunnan-stórrigning og vikuhríð á eftir með allra mestu fannkyngju, einkum á útsveitum og 25. varð þar jarðlaust. Aftur 29. fannkomuhríð um 4 daga. Sást þá ei í lágsveitum á mel eða stein. Hafði enginn séð áður slíka fönn á þeim tíma, en minni var hún til framdalanna. 18. des. hleypti bloti snjó í gadd og voru þá hross öll á gjöf komin. Leit þá út fyrir harðan vetur ofan á Heklugosið.
Frost [-2°] var í athugunum á Ofanleiti í Vestmannaeyjum dagana 18. til 20. september og þann 22. október segir séra Jón Austmann: Nóttina til þessa dags var hið mesta óveður í meir 18 ár hér á pláss.
Páll Melsteð skrifar Jóni Sigurðssyni um upphaf Heklugossins:
Hjálmholti 8.september 1845. ... Margt hefi ég séð stórkostlegt, en ekkert Heklu líkt, þegar hún er í almætti sínum. ... við Sigurður bróðir minn brugðum okkur austur á Rangárvelli til að komast sem næst henni og skoða hana augliti til auglitis. Um dagmálabil 2.september heyrðu menn þyt mikinn, og héldu margir að það væri reiðarþruma, en urðu þess skjótt varir að það voru eldsumbrot; hver dynkurinn fylgdi á eftir öðrum og tvisvar fundu menn, sem næstir búa Heklu, að jörðin skalf, en ekkert féll, hvorki hús né annað, menn sáu ekki til fjallsins, því þokumökkur var yfir því. Vindur var hægur á útsunnan. Rétt í þessu kom ógna þytur og það var fyrsta og mesta gosið, sem menn ætla að úr henni hafi komið. Það héldu menn hafa staðið allt að hálfri stundu; sortanum sló langt á loft upp móti golunni, og það sögðu menn mér að orðið hefði hálfrokkið á bæjum hér í uppsveitum. En ekki féll aska eða viku niður í byggðina, heldur feykti golan því austur á loftið aftur, og hefur það vafalaust lent allt austur í óbyggðir; þykir mér ekki ólíklegt að nokkuð hafi lent af því í Skaftafellssýslu og máski í Múlasýslum. Nú voru dunur og brestir allan þriðjudaginn [2.september] og þegar dimma tók, sáu menn logana (en á degi sjást þeir aldrei, nema ef vera kann rétt við fjallið). Upp úr fjallinu stóð loginn langt í loft upp, en svo var það allt í ljósum loga að sjá norðan og vestan, niður að rótum, og svona var það þegar ég komst næst því, en það var á fimmtudagskvöldið [4.september]; ég get til að ég hafi átt 2 mílur vegar [um 15 km] upp að logunum. ... Strax fyrsta kvöldið fylltist Ytri-Rangá af vikri og vatnið í henni óx meir en um helfing; varð vikurinn svo þykkur ofan á henni, að bátur ætlaði ekki að ganga í hann, en áin varð logandi niðri en volg ofan á; dó silungur sem í henni var og fannst dauður í lónum þegar vatnið fjaraði, og soðinn, því roðið var laust á honum. Á fimmtudaginn var áin orðin köld. Sagt er að vikur hafi komið í Eystri-Rangá og Markarfljót. Þjórsá var og full af vikrinum, en allur var hann smærri en sá í Ytri-Rangá. ... Mann hafa nú aldrei séð til fjallsins fyrir þokum og svækjum, og sést það, að það er ekki satt sem sagt er að aldrei rigni þegar eldfjöll gjósa. Tveir menn fóru á föstudaginn [5.september] inn á afrétt til að grennslast fyrir um hvað gosið hefði gjört að verkum, og sögðu þeir þær fréttir, að þegar þeir komu inn yfir Fossá, þá kom á þá öskubylur úr fjallinu, víðlíka eins og sterkt útsynningsél á vetrardegi, féð varð svart og jörðin dökk, rann féð um afréttina jarmandi og tók ekki niður.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1845. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2021 | 02:25
Fyrstu tíu dagar marsmánaðar 2021
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu daga marsmánaðar er +3,6 stig, +3,3 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og einnig 3,3 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin og í þriðjahlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2004, meðalhiti þá +6,3 stig. Kaldastir voru þeir 2009, meðalhiti -2,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 14.hlýjasta sæti (af 147). Hlýjast var 2004, en kaldast 1919, meðalhiti þá -9,9 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú +2,1 stig, +3,0 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og 3,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið kaldast á Austfjörðum, en þar eru dagarnir tíu í 6.hlýjasta sæti aldarinnar, en á flestum spásvæðum eru dagarnir tíu þeir þriðjuhlýjustu á öldinni.
Hitavik, miðað við síðustu tíu ár, eru jákvæð á öllum stöðvum. Mest er vikið á Kolku, þar er hiti +4,5 stig ofan meðallags, en kaldast að tiltölu hefur verið á Fáskrúðsfirði, en þar er hiti +0,7 stig ofan meðallags.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 20,6 mm, og er það um 70 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 7,4 mm og er það um 40 prósent meðalúrkomu sömu daga.
Sólskinsstundir hafa mælst 14,5 í Reykjavík, um 19 stundum neðan meðallags, en hafa alloft verið færri sömu almanaksdaga.
4.3.2021 | 21:58
Af árinu 1844
Árið 1844 þótti almennt hagstætt. Meðalhiti í Reykjavík var 4,3 stig, en reiknast 3,4 stig í Stykkishólmi, +0,4 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Mjög kalt var í febrúar og einnig var nokkuð kalt í apríl, en hlýtt í maí, júní, ágúst og desember. Ekki hefur enn verið unnið úr veðurmælingum frá Norður- og Austurlandi.
Fjórtán dagar voru mjög kaldir í Reykjavík (sjá lista í viðhengi), kaldastur 24.apríl (síðasti vetrardagur). Þá fór frost í -10 stig í Reykjavík og hámarkshiti dagsins var -5,0°C. Átta dagar voru mjög hlýir og komst hiti í 20 stig 14 sinnum um sumarið. Hafa verður í huga að nákvæmni í aflestri var ekki mikill, átta þessara daga var hitinn nákvæmlega 20 stig. Allur kaflinn frá 20. til 30.júní hefur verið óvenjugóður.
Árið var úrkomusamt í Reykjavík, mældist úrkoman 992 mm. Einna þurrast var í febrúar, júní og júlí, en úrkoma í nóvember óvenjumikil.
Þrýstingur var sérlega lágur í apríl og þá var þrýstiórói einnig mjög mikill. Miðað við meðallag var þrýstingur einna hæstur í maí og júní. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 959,3 hPa, þann 26.nóvember, en hæstur 1028,7 hPa þann 26.maí.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Við getum sum sé vel áttað okkur á veðri frá degi til dags þetta ár, en menn virðast ekki hafa haft mjög mikið um það að segja. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið.
Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1844, en ekki fyrr en í 1. árg 1847:
Ár 1844, gott ár, frostlítið, en veðrátta ókyrr og úrfellamikil. Hagabann fyrir útigangsfénað varð hvergi langvinnt. Grasár gott, helst á úthaga, og nýting hagfeld. Hlutir við sjó í betra lagi, vetrarhlutir undir Jökli frá hálfu þriðja til fimm hundraða. Í Dritvík mjög lítill afli, vegna ógæfta, 60 fiska hlutir hæstir. Aftur aflaðist betur í veiðistöðvum vestra. Ennþá var kvefsótt í landinu. Árið 1844 engir skipskaðar [á Vesturlandi].
Suðurnesjaannáll:
Skipstapi á Vatnsleysuströnd í marsmánuði. ... Ofsaveður með sjávarangi 2. apríl, svo að skip tók upp og brotnuðu. Skipstapi um vorið frá Landakoti að Miðnesi. Drukknuðu þrír menn. ... 50 fjár flæddi á Býjaskerjum og 80 í Leiru. Ufsaveiði mikil í Hafnarfirði. Þá fórust tveir bátar með ufsafarm þaðan í ofsaviðri. Annar var úr Njarðvíkum, en hinn úr Keflavík.
Jón Jónsson í Dunhaga í Hörgárdal er erfiður í lestri að vanda - en vonandi hér í stórum dráttum rétt eftir honum haft (ekki þó orðrétt):
Janúar má teljast í betra lagi, febrúar allstilltur að veðráttufari og oftast nægar jarðir, áköf frost. Lagís mikill á Eyjafirði en hafís utar. Marsyfirlitið er torlesið en að sjá sem hart hafi verið með köflum - en ekki alslæm tíð. Fyrri hluti apríl sæmilega góður, en síðan mjög óstöðug tíð. Að sjá sem maí hafi ekki verið harður - en samt stormasamur og erfiður að því leyti. Júní góður. Júlí heldur kaldur. Ágúst sæmilega hagstæður. September í meðallagi, en heldur óstilltur. Heyskap má yfirhöfuð telja í meðallagi, sumstaðar í betra lagi. Október má kallast mikið góður. Góð veðrátta í nóvember og næg jörð. Desember merkilega stilltur að veðurátt, oft þíðviðri og jörð auð.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Veður stillt og frostamikið til 13. jan., þá 4 daga hláka og aftur þítt 21.-24. Í febrúar óstöðugt, köföld og hart frost á milli, 19. jarðleysi allvíða og hross tekin á gjöf, en í lágsveitum gengu þau af. Alla góu harðviðrasamt og gaddmikið til dalanna.
Einar Thorlacius skrifar: Saurbæ 6.febrúar 1844 (s110) Vetur allt að þessu í betra lagi með jarðsæld, engin teljandi illviðri né sterk frost, síst lengi, og ekki yfir 12 gráður hafa enn komið, en óstöðugt heldur veðráttufarið.
Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 13. mars 1844 (s214) Vetur er í meðallagi.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Með einmánuði bati góður og blíðviðri, sólbráð og stillt veður, 5 daga fyrir sumar frostmikið og sumardag fyrsta [25.apríl] sunnanhríð mikil, en föstudag [26.] hastarlegur norðanbylur; brátt aftur hláka. 4. maí heiðarleysing og flóð í ám og allan þann mánuð (s148) vorblíða og góður gróður.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní lengi náttfrost með norðanátt og stilltu veðri. Seint fært frá og í júlíbyrjun sterkir hitar 6 daga, þá til 16. þokur og hretviðrasamt og gaf illa í kaupstaðarferðum, en vel í lestaferðum suður, er stóðu yfir seinast í júní. Sláttur byrjaði 18.-20. júlí. Var þá rekjusamt og lítið um þerri til 7. ágúst. Skemmdust töður mjög, þar miður voru hirtar. Þá notagott veður til 25. ágúst. Á sunnudagskvöld [25.], upp á góðan þerri, kom hret og eftir það votviðri til 3.-5. sept. Þann 10. kom ógnarrigning, mörgum til skemmda, þar sæti var óhirt, sem þó víða var. Um gangnatímann mátti hirða allt hey. Þó ónýting yrði allvíða, varð nýting góð hjá þeim, er haganlega notuðu stuttan þerri og litlar flæsur og ekki geymdu hey sitt í föngum, eins og mörgum er tamt sér til skaða. Nú varð gangnafærsla austan Blöndu vegna rímspillis-sumarauka. Annars bar nú réttardag á 25. sept.
Jón Austmann í Ofanleiti segir að 5.júní hafi hiti farið niður í 2° í norðvestan kafþykkum slyddubyl og að snjóað hafi á fjöll.
Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 8. júlí 1844: (s216) Hér er nú heldur gott í ári.
Hiti fór í 24°C á Valþjófsstað 28.júlí og þann 4.september varð þar jarðskjálfti um kvöldið.
Páll Melsteð fer snjöllum orðum um landsynninginn í bréfi til Jóns Sigurðssonar: Landakoti, 22.september 1844 Ég kom hér suður [til Reykjavíkur] eins og kjörstjóri í besta veðri með 3 hesta. Nú fer ég héðan af stað eins og förukarl, búinn að missa frá mér 2 hesta, og veðrið svo illt að varla er sigandi út hundi fyrir regni og stormi. Minnir þig nokkuð til þess hvernig landsynningurinn var á stundum, þegar hann hafði lengi legið undir fyrir norðanvindinum, en reis á fætur aftur. Ekki hefir honum farið aftur síðan. Og því skyldi honum fara aftur núna í þessu landi sem nú er nýbúið að fá alþing, og þar sem allt er að lifna við og byrja nýjar framfarir.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haustið varð mikið gott, eitt hret 9. okt. Frá veturnóttum til 7. nóv. blíðviðri besta, svo berja og ausa mátti af túnum. 8.-12. nóv. hart frost, svo lækir botnfrusu mörgum til vandræða og náðu ei farveg aftur lengi. Veður var stillt og gott, snjólítið oftast, auð jörð og hláka á jólunum, allvíða ei farið að gefa lömbum. Ár þetta má kalla, sem 6 ár undanfarin, hagsældar- og blómgunarár, þeim sem notuðu tíðina réttilega. (s149)
Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 10. nóvember 1844: (s220) Haustið hefur verið heldur gott ...
Grímur Jónsson segir í bréfi dagsettu á Möðruvöllum 6.febrúar 1845 (lengri kafli úr bréfinu er hér settur á árið 1845]: Á jólum lukum við upp öllum gluggum með 5 gráða varma.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1844. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaða- og Suðurnesjaannála. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2021 | 23:51
Af nýliðnum febrúar
Eins og kemur fram í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar var nýliðinn febrúar hlýr og tíð var hagstæð. Hann fer einnig í bækur sem veðragóður mánuður. Meðalvindhraði var undir meðallagi, á landsvísu sá minnsti í febrúar í nokkur ár - eða frá 2010. Illviðradagar voru einnig fáir.
Þetta riss sýnir stormavísitölu febrúarmánaða aftur til 1949. Fjallað hefur verið um gerð hennar áður á þessum vettvangi. Há vísitala bendir til þess að mánuður hafi verið óvenjuillviðrasamur - en lág vísitala segir frá góðviðrum. Þó ekki sé allt einhlítt má sjá greinilegan mun á milli mánaða. Við sjáum t.d. að síðustu árin, frá 2015 til 2020, hefur febrúar lengst af verið illviðrasamur og að febrúar 2013 aftur á móti ámóta hægur og nú. Enga leitni er að sjá á myndinni - allt harla tilviljanakennt þó votti fyrir klasamyndun.
Skipti frá mönnuðum athugunum yfir í sjálfvirkar valda smávegis tengivanda - en í aðalatriðum eru vísitölur beggja kerfa samhljóða að mestu. Hálendisstöðvar eru ekki inni í talningunni. Ritstjórinn fylgist sérstaklega með þeim. Vísitala hálendisstöðvanna var nú hin lægsta í febrúar frá 2010. Græna strikalínan sýnir vísitölu sem reiknuð er frá stöðvum Vegagerðarinnar. Fyrstu árin sýnir hún áberandi hærri gildi en hin stöðvakerfin - en verður síðan samstíga. Ástæðan er líklega sú að fyrstu árin var vegagerðarstöðvunum beinlínis komið fyrir á sérlega vindasömum stöðum - en eftir því sem árin hafa liðið hefur stöðvum á stöðum þar sem vindur er venjulegri fjölgað og svo virðist nú sem munur á kerfunum sé ekki mjög mikill hvað þetta varðar. Meðalvindhraði vegagerðarstöðvanna er þó að jafnaði lítillega hærri en að meðaltali í byggðum landsins - þrátt fyrir að hæð mælis sé lægri (6 m í stað 10 m).
Hér má sjá stöðuna í háloftunum í febrúar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, daufar strikalínur sýna þykktina, en litir vik þykktarinnar frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Hún var undir meðallagi á bláu svæðunum, en yfir því á þeim gulu og rauðbrúnu. Með afbrigðum hlýtt var í norðanverðum Labrador. Hér á landi ríkti eindregin sunnanátt - út frá legu jafnhæðarlína einni og sér hefði mátt búast við að úrkoma væri vel yfir meðallagi, en svo var ekki. Mánuðurinn var frekar þurr - nema á Austfjörðum og Suðausturlandi. Þó áttin hafi verið jafneindregin af suðri og hér er sýnt var hún mun austlægari við sjávarmál - eins og sunnanáttin hafi staðið í stöðugri baráttu við kalt loft úr norðri - en langoftast haft svo miklu betur að ekkert varð úr átökum.
Leit að nánum ættingjum skilar ekki miklu. Þetta virðist vera fremur óvenjuleg staða. Nánastur ættingjanna er febrúar 1926. Á svæðinu næst landinu var staðan þá afskaplega svipuð og var nú, en þegar litið er lengra til beggja átta sést skyldleikinn síður.
Rétt að benda á að viðmiðunartímabil þykktarvikanna er ekki hið sama og á fyrri mynd - hér nær hún til allar 20.aldarinnar. Jákvæðu vikin væru heldur minni á síðari myndinni væri sama tímabil notað.
Veðráttan (tímarit Veðurstofunnar) gefur þetta yfirlit um febrúar 1926:
Einmuna veðurblíöa um allt land. Tíðin mjög hagstæð fyrir landbúnað og einnig fyrir sjóróðra fyrri hluta mánaðarins. Fremur óstöðugt síðari hlutann.
Við gætum notað svipað orðalag um þann nýliðna - alla vega þvældist veðrið fyrir fáum og flestir hafa vonandi notið þess til fulls. Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.
1.3.2021 | 22:52
Smávegis af jarðskjálftum 1789
Ekki þarf að fletta lengi eða mikið í gömlum blöðum til að finna eitthvað um jarðskjálfta á Reykjanesskaganum. Það er þó misjafnt hvar meginvirknin hefur verið hverju sinni. Ritstjóri hungurdiska er ekki fræðimaður á þessu sviði, veit lítið og ætti því að segja sem minnst um málið. Honum finnst þó freistandi að minnast á jarðskjálftana 1789, en snemma sumars það ár gekk mikil jarðskjálftahrina yfir landið suðvestanvert. Hún er almennt talin hafa átt upptök sín á Hengilssvæðinu - en ekki þar sem nú skelfur. Þorvaldur Thoroddsen nefnir í riti sínu Landskjálftar á Suðurlandi ýmsar heimildir um skjálftana og segir meðal annars (s.36):
Miklir jarðskjálftar i Árnessýslu og víðar um suðvesturlandið svo hús hrundu á allmörgum bæjum; þó voru jarðskjálftar þessir ekki nærri eins harðir eins og kippirnir 1784. Landskjálftarnir byrjuðu 10. júní, og í viku á eftir var varla nokkurn tíma kyrrt nótt eða dag, og voru varla 10 mínútur milli hræringanna; oft urðu menn síðan varir við jarðskjálftana fram eftir sumri.
Síðan lýsir Þorvaldur ýmsum breytingum sem urðu við skjálftana, einna mestar virðast þær hafa orðið á Þingvöllum og sökum skemmda og breytinga þeirra, sem urðu, varð jarðskjálfti þessi meðfram tilefni til þess, að alþingi var flutt frá Þingvöllum og breyttist í yfirrétt i Reykjavík. Væntanlega hefur Þorvaldur þetta síðasta eftir Magnúsi Stephensen.
Í bókinni Sendibréf frá íslenzkum konum 1784-1900, sem Finnur Sigmundsson bjó til prentunar (Rvk, 1952) er að finna bréf sem Guðrún Skúladóttir (landfógeta) ritar Sveini Pálssyni, en hann var þá náttúrufræðinemi í Kaupmannahöfn:
Viðey 16. ágúst 1789: Þann 8. júní um kvöldið komu þrír jarðskjálftar, og (s16) þar eftir aftur og aftur nætur og daga í heila viku. Þann 10. taldi eg 108, en nóttina þar eftir taldi stúlka, sem vakti, 39. Flestir voru þeir smáir, þó nokkrir æði miklir, en hér um pláss varð ei skaði af þeim. Hér og hvar duttu og skemmdust gömul hús. Í Ölvesi féll bær, sem heitir Þurá, og í Selvogi annar, heitir Hlíð, nema eitt hús stóð, og þar lá í vanfær manneskja, sem ei gat hrært sig. Fólkið þorði ekki að liggja í bæjunum á nóttunni, meðan á þessu stóð, og lá úti í tjöldum og undir berum himni. Í Þingvallahrauni urðu stórar umbreytingar, 2 gjár komu í Þingvallatún, Öxará er orðin þurr hjá Þinginu, því hún rennur ofan í jörð, en vatnið rennur uppheftir farvegnum langtum lengra en fyrri, því að er orðið miklu dýpra Þingvallamegin en það var, en hitt landið á móts við sjást upp úr því steinar, þar sem var 7-8 faðma djúp. Í jarðskjálftunum kom upp á Hellisheiði vellandi hver og 3 austur í Ölvesi, þar enginn var áður. Eftir þetta sást hér nokkra daga jarðeldsreykur eða einhver móða honum lík, og sagt var að eldur væri í Krýsivíkurfjalli. En norðanvindur kom, og þá hvarf móðan, og síðan hefur ei verið getið um eldinn. Síðan vindurinn kom á austan, hefur móðan sézt öðru hverju.
Þorvaldur segir (og hefur eftir Mannfækkun af hallærum eftir Hannes Finnsson):
Grundvöllur Þingvallavatns sökk að norðan og dýpkaði það þeim megin og hljóp á land, en suðvestan grynnkaði það svo, að þar sem áður var 4 faðma dýpi var þurrt á eftir.
Trúlega er ítarlegustu upplýsingar um jarðskjálftana sjálfa að finna í athugasemdum Rasmusar Lievog stjörnuathugunarmeistara í Lambhúsum við Bessastaði. Þó ritstjóri hungurdiska eigi í ákveðnum erfiðleikum með að lesa skrift hans er hún þó mun viðráðanlegri en flestir þeir dagbókartextar og bréf sem hann hefur séð frá þessum árum. Ekki leggur hann þó í uppskrift - slíkt ætti að vera vanari augum auðvelt verk. Myndin sýnir blaðsíðu úr skýrslu Lievog. [Þann 6.júní segist hann sjá Snæfellsjökul - [Vester-Jökelen saet] - eins og slíkt sé viðburður.
Fyrsta hræringin sem Lievog minnist á þetta vor (1789) er 31.maí. Þá segir hann að kl.1 1/4 að kvöldi hafi komið temmelig stærkt Jordstød, eller Rystelse. Nokkuð sterkur jarðskjálfti eða hræring. Síðan kemur að 8. júní. Þá segir hann (lauslega eftir haft): Kl. 9:42 að kvöldi. Kom fyrst lítill, en eftir fáeinar sekúndur, nokkuð meiri jarðskjálfti, sem virtist koma úr suðvestri.
Mest var síðan um að vera þann 10.júní. Lýsing á atburðum þess dags tekur hátt á þriðju síðu í yfirliti Lievog. Segir að hann hafi talið 88 nokkuð sterka skjálfta þennan dag - en ábyggilega hafi þeir verið fleiri. Hálfleiðinlegt veður var þennan dag, sunnanstrekkingur með skúrum eða rigningu - en svo virðist sem hann hafi samt ákveðið að sofa í tjaldi - morguninn eftir vakti skjálfti hann kl.6 og frá kl.10 árdegis til 6 síðdegis hafi komu að sögn 6 skjálftar. Næstu daga voru einhverjir skjálftar á hverjum degi, til og með 16. Síðan kom nokkurra daga hlé, til þess 21. að vart varð við hræringar.
Magnús Ketilsson sýslumaður í Búðardal (á Skarðsströnd) getur skjálftanna í dagbók sinni í júní 1789:
Jarðskjálftar oft til þess 14da svo stundum brakaði í húsinu.
Í dagbókum Sveins Pálssonar er sagt að vart hafi orðið jarðskjálfta í Viðey bæði 1785 og 1786 - ekki er vitað hvar upptök þeirra kunna að hafa verið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 34
- Sl. sólarhring: 152
- Sl. viku: 1955
- Frá upphafi: 2412619
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 1708
- Gestir í dag: 33
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010