Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2019

Af árinu 1814

Ekki voru öll ár mörkuð harðindum á öðrum áratug 19.aldar. Meira mættum við þó vita um veðurlag ársins 1814 heldur en raun ber vitni. Hita- og þrýstimælingar voru gerðar á Akureyri allt til 18.ágúst en þá yfirgáfu dönsku strandmælingamennirnir höfuðstöðvar sínar eftir nærri því sjö ára dvöl (og ferðalög). Af annálum og aðgengilegum dagbókum má ráða að árið hefur verið tiltölulega hagstætt eftir því sem gerðist. Giskað er á að meðalhiti í Stykkishólmi hafi verið um 3,6 stig (nærri meðallagi 1961-1990), en ef til vill nærri 5 stigum í Reykjavík. Janúar var mjög kaldur um land allt, meðalhiti á Akureyri -11,0 stig, hiti í febrúar virðist hafa verið nærri meðallagi, en hlýtt var í mars. Sumarið var einnig hlýtt. 

ar_1814t

Myndin sýnir hita á Akureyri fram til 18.ágúst 1814. Mjög hörð frost voru í janúar. Sveinn Pálsson mældi hita dag og dag í Vík í Mýrdal um veturinn (ekki þó svo að hægt sé að reikna meðaltöl). Mesta frost sem hann getur um þar er -12,5°R [-15,6°C] þann 16.janúar og hart frost var í nokkra daga. Í athugsemd (sem væntanlega hefur verið bætt við síðar) nefnir hann -17 til -18 stiga frost í Reykjavík þennan sama dag [-21 til -22°C]. Kannski hefur Mr. Park gert mælinguna. Í frostakaflanum var mjög bjart veður í Vík og mikilla norðurljósa getið dag eftir dag. 

Síðari hluti vetrarins var hlýr, kuldakast nokkuð um miðjan apríl og aftur undir lok maímánaðar eftir mikil hlýindi fyrir norðan um 10.maí - um þær mundir var hann þykkur í Vík í suðvestanátt. Í kuldakastinu í maílok gerði næturfrost í Vík og vart varð við snjóleiðingar. Sveinn getur um næturfrost í Vík 22.september. Frostlaust var flesta daga eftir 8. desember í Vík. 

ar_1814p

Myndin sýnir loftþrýsting á Akureyri frá ársbyrjun fram til 18.ágúst. Hár þrýstingur fylgdi kuldunum í janúar (mönnum virðist bera saman um að þeir hafi verið stilltir). Þrýstingur var sömuleiðis hár í maí, en með lægra móti frá því fyrir miðjan júní og þar til mælingunum lýkur - bendir kannski til þess að einhvers staðar á landinu (að minnsta kosti) hafi verið votviðrasamt.  

Annáll 19.aldar lýsir tíð og veðri svo: 

Veturinn frá nýári var víðast allgóður, þó var mikið ofviðri syðra 24.janúar er ásamt sjógangi gjörði mikinn skaða á húsum og skipum. Vorið var gott, en þurrt til þingmaríumessu [2.júlí], kom þá hagstætt grasviðri og heyjaðist vel í meðallagi með nýtingu ákjósanlegri. Haustið var hagstætt fram í nóvember, gjörði þá hinn 7. ofviðri nyrðra er vann mikinn skaða á sauðfé, húsum, heyjum og förum. Frá því til jóla linnti víða eigi hríðum og jarðbönnum. Svo var besta tíð síðustu viku ársins. Fiskafli var mjög rýr kringum allt land nema í Múlasýslum, þar var hann talinn góður. Sex hundruð marsvín rak í Breiðuvík undir Jökli, hundrað í Nesvogi hjá Stykkishólmi og nokkur í Veiðileysu á Ströndum. 

Það er eitthvað lítið um heimildir af illviðrinu 24.janúar og skaða í því, ekki var illt í Eyjafirði þennan dag - en allhvass um kvöldið í Vík. Sveinn getur hins vegar um norðaustanstorm í Mýrdalnum þann 7.nóvember. 

Annállinn telur fjölda mannskæðra slysa. Aldrei þessu vant er margra dagsetninga getið og því getum við þeirra hér. Fjórir drukknuðu þann 25.janúar af fari af Akranesi, þrír komust lífs af. Þann 22.mars fórust fjórir af fari frá Hlíð á Álftanesi. Þann 9.apríl drukknuðu 8 menn af fari frá Gufuskálum, einn bjargaðist - hálfum mánuði áður fórust fimm menn þar í sömu lendingu. 16.apríl hröktust mörg skip af Hjallasandi og rak inn með landi. Þann 25.apríl fórust átta af skipti frá Tröðum í Staðarsveit og þann 30. fórust þrír menn af báti frá Króksósi. Þann 14.nóvember fórust sex menn af skipi af Skagaströnd. Talsvert fleiri slys urðu á sjó og menn urðu úti - en dagsetninga ekki getið. 

Við reynum að rekja okkur í gegnum árstíðirnar með hjálp samtímaheimilda - tíðarvísur Þórarins í Múla og Jóns Hjaltalín eru þó aftan við. 

Vetur:

Brandsstaðaannáll: Í janúar stillt og frostamikið veður, lítil snöp til þorra, en þá komu hross á gjöf fram í miðgóu. Þar hjá var nóg hrossajörð í lágsveitum. Nokkrum sinnum í febrúar og mars gjörði ofsaveður af suðri, bæði hríð og blota. Seint á góu kom gæðabati og besta vortíð á einmánuði utan snjókast á skírdag [7.apríl] og þriðja í páskum [12.apríl]. Vetur varð góður og mildur í lágsveitum og yfir allt heyfyrningar, þar sem þær eiga sér stað.

Espólín: LXI. Kap. Vetur lá harla misjafnt á og voru blotar, slösuðust margir menn af hálkum um hann miðjan, en í Jökulsá í Skagafjarðardölum drukknaði Árni bóndi Jónsson sáttamaður, ..., hann hafði gengið á ána nokkru utar en ísbrú, sú er undir var. Víðast varð veturinn góður og vorið, og varð mönnum það til mikillar líknar, svo erfiðlega sem áhorfðist; var sótthætt mjög og kvefsamt allan veturinn, og allt það ár, dóu enn fleiri en fæddust, og drukknuðu af þeim 48, en nokkrir dóu í harðrétti. (s 70). Þá var harla lítill fiskafli fyrir sunnan, og dýrtíð mikil og harðindi, en fyrir vestan hjálpuðust innlendir af hvalfeng hinum mikla er þar var, og svo aðrir úr öðrum sveitum við höndlun í Stykkishólmi; var þar keypt mikil matvara frá Norðurlandi og víðar að, þó að ærið dýr væri, og kom það mörgum manni til lífs, með góðviðrum þeim er gengu. (s 71). 

Það er helst að ráða af dagbókum Jóns Jónssonar á Möðrufelli í Eyjafirði að janúar hafi verið merkilega stilltur að veðráttu og jörð hafi verið góð (þrátt fyrir frostin miklu). Hann getur þess að hafíshroði hafi verið við Hrísey, en meira útifyrir. Febrúar var allur yfir höfuð góður segir hann, fyrstu dagarnir þó óstilltir og mars góður að veðráttu, sífelldar þíður og blíðviðri. 

Vor:

Brandsstaðaannáll: Um sumarmál mátti rista og stinga til veggjagjörðar, ásamt alvinna að túni, en það var mót landsvenju að lúka því fyrr en í fardögum. Vorgæðin héldust til sláttar.

Jón á Möðrufelli talar vel um apríl og að maí hafi verið í meðallagi. Segir þó um undangengna viku þann 28.að hún hafi verið sárköld. 

Sumar:

Brandsstaðaannáll: Þá varð grasvöxtur ei meiri en í meðallagi, því löngum voru þurrkar og stundum næturfrost. Sláttur byrjaði 15. júlí. Varði hann nú í lengsta lagi, til gangna ... [vantar inn í handritið] september eður 8 vikur. Heyskapartíðin var hagkvæm, oftar þurrt og góður þerrir stundum, þó rekjur góðar meðfram. Graslítið þótti á árlega slegnu þurrengi.

Espólin: LXV. Kap. Þá lögðu margir menn sig eftir kályrkju og jarðeplarækt, meir en fyrr hafði verið, en sumir sáðu byggi, og spratt það nokkuð; var gott sumarið víða, en þó grasbrestur sumstaðar. (s 75). 

Bjarni Thorarensen tekur saman veðurlag ársins fram í ágúst í bréfi:

Reykjavík 26-8 1814 (Bjarni Thorarensen): Veturinn var harður og frostamikill allt fram í febrúarmánuð en síðan kom hvorki snjór né frost svo það mætti heita, og vorið hefir verið það besta menn muna. Grasvöxtur í meðallagi, en það sem af er slætti hefir nýting verið hin besta. Fiskafli í vetur enginn, en vorfiskerí sæmilegt. Fyrir vestan hefir undanfarið ár verið hið besta og þar hefir verið svo mikill hvalreki svo innbyggjarar hafa varla getað torgað ... (s69) 

Jón á Möðrufelli segir að júní hafi verið sæmilegur allt að sólstöðum, en oft næturfrost og nokkuð andkalt. Ekki var lágmarkshitamælir á Akureyri, en ekki getið um frost þar í júní. Júlí segir Jón góðan, en þurran og ágúst allan stilltan og góðan, aldrei mikil hvassviðri eða regn - og september talar hann líka vel um. 

Haust:

Brandsstaðaannáll: 26. september, mikið hret með storku og hagleysi 4 daga á eftir til útsveita. Berjavöxtur varð nú í mesta lagi. Fengu margir fylli sína af þeim í slægjunni. Gadd tók úr fjöllum venju fremur og ei síður en en árið 1800. Haustið var mikið gott til 7. nóvember. Skipti þá um með snjó og frostum. 26. varð jarðskarpt. Á jólaföstu stöðugar hörkur og sífelld köföld ytra. Þó hér yrði ei innistöður, var oft lítt beitandi. Um jólin sunnan góðviðri og auðir hnjótar. Ei var fremra almennt farið að gefa fé. Árferði fór nú batnandi. Gagn af sauðfé í besta lagi og heyafli nægur.

Espólín: LXVII. Kap. Á því hausti rak enn 100 smáhvali, samkynja þeim er áður komu vestra, við Þingvelli í Helgafellssveit, 500 fyrir sunnan Jökul. (s 76). LXVIII. Kap. Veðursældir voru miklar til þess á jólaföstu, þá gjörði snjóþyngsli fyrir norðan og víða annarstaðar. (s 77). 

Magnús Stephensen ritaði í ágúst 1815 bréf sem birtist í Annals of Philosophy 1815 (s395). Þar segir um árið 1814 - í lauslegri þýðingu:

Undragóðu sumri (1814) fylgdi illviðrahaust, með miklu regni og hrakviðrum. Frá októberbyrjun til loka desember kom mikill snjór og skörp frost og illviðratíðin hélst. 

Jón á Möðrufelli talar vel um haustið, segir m.a. að alautt hafi verið upp í háfjöll í október. Jón segir að lokum um árið að það hafi yfir höfuð verið gott í betra lagi upp á landið og stillt. 

Í tíðavísum Jóns Hjaltalín stendur m.a. þetta:

[Vetur telur hann góðan - en frosthörku þó í byrjun árs]:

Vetur góður gjörði ala
gripi best um landið vítt
þó var fóður fram til dala
fé og hestum gefið títt.

Frostin svæði fengu spenna
frónið hála varð sem gler
mátti bæði ríða og renna
rjáfur ála víða hér.

[Um vor, sumar og haust segir hann]:

Vorið stríðu varna náði,
vór innlenda jarðarfar,
sumarblíðu þjóðin þáði
því til enda hundadags.

Nýting góð á töðum tærðist
tún þó víða hétu snögg,
engja flóða fóður færðist
friðum hríða rakt af dögg.

Gott var haust en frónið fæddi,
fénað þann er úti gekk
Kára raustin næm þó næddi
norðan rann um skýja bekk.

Þórarinn í Múla hefur líka góð orð um árið (aðeins brot hér) og lætur þess m.a. getið að sumarið hafi verið eitt fárra alveg snjólausra í hans sveit (S-Þingeyjarsýslu):

Tóku' að sóast teiknin hörð
tæpum dró af kvíðann
færði' úr snjóafötum jörð
fögur góu blíðan.

Ísaklastri' á engan fjörð
ók hér fast að grundum
á hann brast og aldrei jörð
en ærið hvasst var stundum.

Veðurátt laða velsemd kann
voru glaða' aðsetri
einmánaðar öldin fann
árferð þaðan af betri.

Gæfu nýja görpum ól
gleði' af því og yndi
að hita skýjuð sumarsól
sveif með hlýjum vindi.

Sólskin mesta sælt og heitt
sveitin flest við undi
vorið besta eitthvert eitt
auðnu' ei bresta mundi.

Ljenti kæti loftið hreint
lítill nætur sorti
gróður rætast sýndist seint
samt, því vætur skorti.

Vikur tíu værðin léð
vífum hlý og þegnum
þingmaríu messu með
miðluðu skýin regnum.

...
Auðnan slynga eyddi móð
við útréttingu flesta
heynýting varð hýrri þjóð
hauður um kring sú besta.

Þar að gá ef þenktum vér
þrautum sjáum fróa
sumar af fáum eitt það er
að ei þágum snjóa.

...
Veitti lýðum votan koss,
við oss kvíða náði,
haustið síðan hagkvæmt oss
harkan stríð ei þjáði.

...
Lét þá hrapa loftið snjó
lánið skapa tíðir
fóðurtapan frekast bjó
frost á krapa-hríðir.

Sauðum fólu víðan vang
veslum skjóla-fúsum
fyrir jólaföstu-gang
fákar róla' að húsum.

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1814. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr árbókum Espólíns. Smávegis af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar

Lítum nú sem snöggvast á stöðu fyrstu tíu daga ágústmánaðar. Meðalhiti í Reykjavík er 11,8 stig. Það er +1,0 stigi yfir meðallagi sömu daga áranna 1961-1990, og +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 11.hlýjasta sæti (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2003, meðalhiti þá +13,5 stig, kaldastir voru þeir 2013, meðalhiti 10,4 stig. Á langa listanum er hitinn í 40.sæti (af 145). Á þeim lista eru sömu dagar 2003 líka í efsta sæti (ásamt 1944), en lægstur var meðalhiti þeirra árið 1912, +6,4 stig (um það skelfilega kuldakast hefur verið fjallað á síðum hungurdiska).

Á Akureyri hefur verið kaldara, meðalhiti fyrstu 10 dagana er 9,6 stig, -1,1 neðan meðallags 1961-1990 og -1,4 neðan meðallags síðustu tíu ára:

Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á nokkrum stöðvum á hálendinu, jákvæða vikið er mest +1,4 stig í Veiðivatnahrauni, en kaldast að tiltölu er á Sauðárkróksflugvelli þar sem hiti er -2,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Engin úrkoma hefur mælst í Reykjavík það sem af er mánuði - við vitum til þess að það hafi gerst að minnsta kosti þrisvar áður, 1952, 1965 og 1966. Á Akureyri hefur til þessa aðeins mælst 2,0 mm úrkoma, en eitthvað er að bæta í þá tölu þessa stundina.

Sólskinsstundir eru orðnar 96,9 í Reykjavík það sem af er mánuði og hafa aðeins 7 sinnum mælst fleiri sömu almanaksdaga, flestar 1929, 114,7.

Loftvog hefur til þessa staðið fremur hátt í mánuðinum - meðaltal í Reykjavík 1016,6 hPa, í 20.hæsta sæti af 198.

 


Leiðinlegt veður - skemmtileg lægð

Norðanhryssingurinn sem gengur yfir landið nú og næstu daga er heldur leiðinlegur. Einhver sagði þó (sennilega afkomandi Pollíönnu) að verra gæti það verið - og verra hafi það orðið á þessum tíma árs. Það er svosem satt - en leiðinlegt er þetta samt. Hins vegar er kerfið sem þessu veldur býsna skemmtilegt. Kuldapollur kom á dögunum norðan úr Ballarhafi í átt til landsins.

w-blogg100819a

Myndin sýnir tvö spákort úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Á þeim báðum má sjá hefðbundnar jafnþrýstilínur heildregnar (með 4 hPa bili). Af þeim ráðum við vindstefnu og vindhraða. Litir sýna hæð 500 hPa-flatarins (en ekki þykktina), skipt er um lit með 60 metra bili. 

Kortið til vinstri sýnir stöðuna síðdegis á morgun, laugardag 10.ágúst, en það til hægri stöðuna sólarhring síðar, síðdegis á sunnudag. Í báðum tilvikum má sjá mjög greinilega háloftalægð, miðja hennar er í græna litnum. Lægðin nær upp í veðrahvörf og er þar ámóta skörp og í 500 hPa. En á laugardagskortinu gætir lægðarinnar nær ekkert við jörð - að vísu má sjá lægðardrag norðan háloftalægðarinnar, en annars virðast jafnþrýstilínurnar lítið vita af háloftalægðinni. Ritstjóri hungurdiska hefur stundum minnst á það sem hann (en enginn annar) kallar þverskorna kuldapolla. Á vetrum (þegar mun meira afl er í veðrakerfinu heldur en að sumarlagi) eru þeir vandræðavaldar á okkar slóðum - oft meira að segja stórvarasamir. 

Þessi sem heimsækir okkur nú er ættingi hinna illu - svipmótið furðumikið þó hásumar sé. Enda fer ekki sérlega vel. Aðeins sólarhring síðar er komin bærilega öflug lægð skammt undan Norðausturlandi - hefur dýpkað um nærri 15 hPa á einum sólarhring - það er mikið á þessum tíma árs - og mjög mikið þegar heimskautaröstin kemur ekkert við sögu. 

Rætist þessi spá verður vonskuveður kringum lægðarmiðjuna og hugsanlega nokkuð vestur og suður fyrir hana. Við vitum ekki hvort spáin rætist - né heldur hversu vestarlega mesti vindurinn og veltingurinn nær. Rétt að fylgjast með spám Veðurstofunnar í því sambandi. 

En þetta er ein gerð sumarhroða. Í kaldara veðurlagi fyrri tíma hefði vafalítið snjóað niður undir sjó norðanlands við ámóta árás að norðan. Dæmi eru um slíkt snemma í ágúst (og auðvitað fjölmörg eftir 20. - meira að segja ekki svo mjög gömul).  


Af árinu 1877

Sumir sögðu árið 1877 vera meðalár, aðrir að það hafi verið í harðara lagi - alla vega harðara en það undangengna. Veturinn var umhleypingasamur, harða skorpu gerði um páskana, en síðan voraði - fyrst vel - en síðan laklega. Sumarið var kalt, en síðasti hlutinn þótti mjög hagstæður. Mikil illviðri gerði í október og skyndilega kólnaði. 

Meðalhiti í Reykjavík reiknast 3,3 stig, en 2,3 stig í Stykkishólmi. Giskað er á 2,2 stig á Akureyri, en þar voru engar mælingar. Einn mánuður ársins, september, var hlýr, hiti var ekki fjarri meðallagi í október (kalt þó á okkar tíma mælikvarða), en allir aðrir mánuðir teljast kaldir. 

Engin veðurstöð var á vegum dönsku veðurstofunnar inni í landi. Þess vegna eru útgildi ársins ekki sérlega há. Hæsti hámarkið mældist á Djúpavogi þann 19.september, 19,8 stig, í Reykjavík fréttist mest af 19,4 stigum þann 22.júlí og sami hiti mældist þann sama dag í Hafnarfirði. Hámarksmælar voru ekki á þessum stöðvum og vel hugsanlegt að hiti hafi náð 20 stigum. Sömuleiðis er líklegt að hiti hafi náð 20 stigum inn til landsins á Suðurlandi. Lægsti hiti sem við vitum um á árinu mældist -18,2 stig. Það var á Skagaströnd 27.febrúar, frostið fór í -18,1 stig í Hafnarfirði á 2. dag jóla, þann sama dag fréttist af -16,6 stigum í Reykjavík. Frost fór líka í -16,6 stig í Reykjavík 26.febrúar. Frost hefur örugglega farið í meir en -20 stig inni í sveitum bæði á Norður- og Suðurlandi. 

ar_1877t

Hér má sjá daglegt hitafar. Efri línan (oftast) sýnir hæsta hita hvers dags (ekki hámarkshita) í Reykjavík, en sú neðri meðalhita hvers dags í Stykkishólmi. Enginn dagur telst mjög hlýr í Reykjavík - og ekki heldur í Stykkishólmi, en allmargir kaldir, að tiltölu voru 10.ágúst og 26.desember kaldastir í Reykjavík. Í þessu harða ágústkuldakasti var sagt að snjóað hafi niður undir láglendi á Akrafjalli, Esju og Bláfjöllum - það hefur sjálfsagt verið mjög stutta stund. Listi yfir mjög kalda daga er í viðhenginu. 

Á myndinni er eftirtektarvert hversu hlýtt er fram í október - eystra varð svo hlýtt snemma í þeim mánuði að mönnum þótti sem þeir sætu við eld, en mjög snögglega kólnaði þann 10. Urðu á ýmsir skaðar og vandræði. 

ar_1877p

Myndin hér að ofan sýnir morgunþrýsting í Stykkishólmi. Hann var ítrekað mjög lágur frá því fyrir miðjan janúar og þar til viku af febrúar, enda gengu yfir mörg illviðri og skaðar urðu af sjávarflóðum. Aftur á móti var þrýstingur óvenjuhár og stöðugur í ágúst. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 18.janúar, 948,4 hPa, en hæstur varð hann á Akureyri 29.apríl, 1039,1 hPa, lesið var reglulega af loftvog þar á bæ á vegum dönsku veðurstofunnar (þó hiti hafi ekki verið mældur utandyra).

Loftþrýstingur var óvenjuhár í ágúst, og einnig hár í apríl, maí og september, en tiltölulega lágur í janúar, júní, júlí og þrjá síðustu mánuði ársins. 

Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1877 og vitnað í samtímablaðafréttir og fleira. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Sem fyrr má finna tölulegt yfirlit í viðhenginu. 

Úrkoma var aðeins mæld á 3 stöðvum, í Stykkishólmi, í Grímsey og á Djúpavogi. Í ágúst og september var úrkoma með minna móti. 

Valdimar Briem tekur saman yfirlit sem birtist í Fréttum frá Íslandi 1877.

Veðráttufar var í harðara lagi það ár, er hér segir frá, og árið að því leyti með hinum lakari fyrir ýmsa bjargræðisvegi manna. Þegar eftir áramótin skipti svo um, að þar sem áður höfðu gengið þíður og blíðviðri, komu nú kuldar og hríðir. Fyrstu viku ársins gjörði frosthörkur miklar víða, einkum sunnanlands, en upp frá því tók að snjóa; kyngdi þá niður snjó miklum dag eftir dag og viku eftir viku, með smáblotum á milli, svo að tók fyrir haga alla í mörgum sveitum. Gekk svo lengi vetrar, og mögnuðust harðindin eftir því sem á leið. Þó voru sjaldan frost mjög mikil; hörðust urðu þau framan af janúarmánuði og síðari hluta febrúarmánaðar (á Suðurlandi 16 stig R, en norðanlands yfir 20 stig R [-25°C]). Aftur voru hríðaráfellin mjög tíð, og stundum ofsaveður. Mest voru veðrin í miðjum janúarmán., og aftur 3. febrúar; tók þá upp skip, og fé hrakti víða nyrðra. Annars var veðráttufarið nokkru vægara á Norður- og Austurlandi, en sunnan- og vestanlands, enda voru hríðarnar oftast nær af útsuðri.

Í stöku útkjálkasveitum, svo sem á Ströndum og sumstaðar í Þingeyjarsýslu, var þó fram eftir vetrinum allgóð tíð, eins og stundum kemur fyrir í hörðum vetrum. Framan af marsmánuði gjörði sumstaðar nokkurn bata, en hann stóð eigi lengi, og um næstu mánaðamót eða páskaleytið gjörði harðasta áfellið. Þá kom hin grimmasta stórhríð, er stóð í nokkra daga, og náði nálega yfir allt land. En upp frá því fór veðuráttan að batna, og nálægt miðjum aprílmánuði eða skömmu fyrir sumarmál brá algjört til bata. Þó hlánaði hægt og seint, því að vorið var fremur kalt hvervetna.

Íshroði hafði lengi vetrar verið fyrir Norðurlandi, en aldrei varð hann landfastur, og loksins rak hann frá í júnímánuði, og gjörði þá hlýindi um tíma. 12.júní gjörði ofsaveður mikið fyrir sunnan og vestan land. Í veðri þessu hrakti bát undan Jökli vestur yfir þveran Breiðafjörð, og lenti hann á fjórða degi í bœjarósi á Rauðasandi; mennirnir komust lífs af; er svo sagt, að sjóhrakningur þessi sé einn hinn mesti, er sögur fara af. Hásumarið var fremur kalt víðast hvar, en þó var veðrátta mjög misjöfn. Sunnanlands og vestan gengu þurrkar og hagstœð veðurátta lengi sumars, en norðanlands og austan var mjög úrkomusamt; snjóaði þar oftlega til fjalla, og stundum niður í byggð. 24.júlí og nóttina eftir var dœmafá rigning sumstaðar norðanlands. Hlupu þá víða skriður úr fjöllum til stórskemmda fram til Dala í Eyjafirði, og í Yxnadal og Hörgárdal; tók sum engi af, en tún og bithagar skemmdust meira og minna.

Að áliðnu sumri eða snemma í septembermánuði skipti algjörlega um veðuráttu. Gjörði þá þurrviðri og hlýindi norðanlands og austan, en sunnanlands og vestan brá til rosa og rigninga. Haustið var víðast umhleypingasamt og veðrátta næsta óstöðug. Veturinn lagðist mjög snemma að á Norður- og Austurlandi, og jafnvel komu harðindi sumstaðar fyrir veturnætur; 6. okt. og aftur 10. og 11. okt. gengu stórhríðar með miklu frosti og fannkomu yfir Norðurland og Austurland. Þá urðu bæði mannskaðar og fjárskaðar víða, og sömuleiðis sleit upp skip og báta fyrir mörgum. Í hinum landsfjórðungunum lögðust harðindin eigi að fyrr en með jólaföstu; þá gengu snjóar miklir um tíma, svo að haglaust varð; nokkuð hlýnaði raunar aftur og tók upp jörð sumstaðar, en þó var víðast fremur hart veður og hryðjusamt allt til ársloka.

Eigi þótti grunlaust um, að eldur mundi einhverstaðar uppi vera um haustið. Milli ofsaveðranna í októbermánuði fannst á Austfjörðum volgur vindur standa af fjöllum, og hugðu menn stafa af jarðeldi. Þá urðu menn og varir öskufalls, svo að jarðrót gránaði, og sumir þóttust heyra dynki sem af eldsumbrotum. Um sama leyti fundust jarðskjálftar sumstaðar norðanlands, og aftur nokkru síðar, einkum í Bárðardal. Var giskað á, að enn væru eldsumbrot í Dyngjufjöllum, en að öðru leyti hafa eigi í þetta sinn farið sögur af jarðeldum.

Heyskapur landsmanna varð nú að öllu samtöldu minni en í meðalári. Sökum vorkuldanna, er gengu nálega um allt land, var grasvöxtur eigi orðinn mikill, þegar heyannir byrjuðu, og var þó víða tekið til sláttar í seinna lagi. Þó rættist nokkuð úr þessu sunnanlands og vestan, svo að óvíða varð þar grasbrestur til muna. Tún urðu þar í meðallagi. Harðlendi utantúns spratt mjög seint, en varð að lokum í betra lagi. Aftur voru mýrlendi og votengi venju fremur snögg. Miklu meiri grasbrestur var norðan- og austanlands, einkum á votlendum engjum. Nýting á heyjum fór eftir veðuráttunni. Syðra og vestra varð hún ágæt um túnaslátt og framan af engjaslætti, eða þangað til brá til rigninganna í september; úr því hröktust hey manna meira eða minna, og varð heyskapurinn endasleppur. Nyrðra og eystra var þvert á móti; þar nýttust hey illa framan af, en vel síðari hluta engjasláttar. Heyforðinn varð að haustinu til í minna lagi hjá mörgum, með því líka að fyrningar voru litlar frá vetrinum áður, og hey höfðu víða verið gefin upp.

(s19) Aflabrögð úr sjó urðu mjög misjöfn, en þó mikil víðast. Fyrrum var lengi fiskisælast við Suðurland, og sóttu menn árlega sjó þangað úr öðrum landsfjórðungum, einkum af Norðurlandi. Nú er orðið annað um fiskisældirnar syðra, og virðist svo sem fiskurinn hafi yfirgefið sínar gömlu stöðvar fyrir sunnan land, en leitað norður fyrir land, hvað sem því veldur.

(s20) Rekar urðu nokkrir sumstaðar norðanlands. Á stöku stöðum rak hvali og höfrunga um veturinn. Trjáreki nokkur varð á Langanesi og í Þistilfirði eftir nýár, og mikill á Ströndum um haustið. ... Laxveiðar í ám urðu í góðu meðallagi víða, og sumstaðar afbragðsgóðar, einkum í Hvítá í Borgarfirði og Þverá í Mýrasýslu.

(s26) Slysfarir urðu nú í mesta lagi, bæði á sjó og landi, sakir illviðranna, er gengu um veturinn og eins haustið eftir. Mestar urðu slysfarirnar þó á sjó, og hlekktist mörgum skipum á. 11. mars lagði þiljubáturinn Hekla frá Kaupmannahöfn og átti að fara hingað til lands til þorskveiða; hefur eigi spurst til hans síðan; á honum voru 4 menn íslenskir, og formaðurinn var Jón Bjarnason, sá er getið var um í fyrra árs fréttum að leyst hefði af hendi stýrimanns próf með fágætum orðstír. 2.apríl (2. páskadag) rak íslenskt kaupfar í strand við Mýrdalssand í ofsaveðri og brotnaði í spón. Skipverjar voru 6 og komust allir í land; þetta bar til fjarri mannabyggðum, en hríð var dimm, og frost og ofviðri mikið; urðu 4 skipverjar úti þar á sandinum; einn þeirra var eigandi skipsins, Hákon kaupmaður Bjarnason frá Bíldudal; þar lést og annar maður íslenskur, Sigurður Bjarnason að nafni, söðlasmiður. Skipstjóri og stýrimaður, danskir menn, komust til mannabyggða (að Höfðabrekku) eftir 38 stunda hrakning í hinu mesta illviðri. Fiskiskúta úr Reykjavík (Fanny) lagði frá Seyðisfirði seint í september með afla sinn, og ætlaði til Reykjavíkur; hún lenti í hrakningum miklum og náði loks landi við Færeyjar 19. okt. eftir mikið sjóvolk og þrautir; af henni komust allir lífs nema einn maður, er tekið hafði út, en eigi náðst. Skip strönduðu víða um haustið, eitt á Papós í sept, eitt á Grafarós í okt., eitt á Sauðarkrók, eitt fyrir Ólafsfjarðarmúla (Gefjun), bæði í nóvember, eitt á Ströndum litlu síðar, enn fremur hákarlaskip af Langanesi við Seyðisfjörð í október. Af flestum þessum skipum varð mönnum bjargað. Af opnum skipum og bátum drukknuðu margir á árinu; í febrúar drukknuðu 6 á Ísafirði, 7 við Vatnleysuströnd, í apríl 7 frá Útskálum í Garði; í júní 7 við Akranes, 2 við Skógarströnd, 2 á ísafirði, 5 í Borgarfirði austur, í ágúst 2 úr Garði; í september 3 af Akureyri; í október 2 á Reyðarfirði, 4 á Hrútafirði, og víðar; í desember 4 fyrir Skriðunesenni. Nokkrir fleiri drukknuðu í sjó, og nokkrir sömuleiðis í vötnum á landi; í Grímsey drukknuðu 2 börn í brunni; einn kafnaði í brunni af loftleysi eða eitruðu lofti. 2 menn hröpuðu til bana í Öxnadal í janúar, og einn í Drangey í júní. Margir urðu úti í illviðrum um veturinn; þar af 1 nálægt Reykjavík, 2 á Suðurnesjum, 1 á Holtavörðuheiði, 1 á Valafjalli, 1 í Bárðardal, 1 á Hallormstaðahálsi, 1 í Skriðdal, og aftur um haustið í október: 1 í Eskifirði, 1 í Vopnafirði, 1 í Eyjafirði (Lárus bóndi Thorarensen á Hofi). Nokkrir réðu sjálfum sér bana, flestir í Árnessýslu.

Ísafold dregur tíðarfar ársins 1877 saman í pistli 1.janúar 1878:

Eftirmæli ársins 1877. Veturinn framan af þessu ári var snjóavetur mikill og harðinda víðast um land; vægari þó nokkuð fyrir norðan en annarstaðar, með því að útsynningar voru tíðir. Frostakaflar voru mestir fyrstu vikuna eftir nýár og síðustu vikuna af febrúar: fram undir 16°R syðra og 20°R fyrir norðan. Harðindin héldust fram undir sumarmál, en þá (13. apríl) brá til góðs bata og hagstæðrar veðuráttu um hríð; en síðan var vorið kalt mjög og þurrviðrasamt allt fram undir sólstöður. Þá héldust hlýindi nokkur um hríð sunnanlands og vestan, og þótt nokkuð brygði til kalsa aftur og sjaldnast væri mikil blíðviðri að staðaldri, var veðrátta þó einhver hin hagstæðasta meiri hluta sumars í þessum landsfjórðungum; en fyrir norðan og austan var sumarið eitthvert hið kaldasta, er menn muna, allt fram í septembermánuð; þá brá þar til sunnanáttar og hlýinda, en til óþurrka á Suðurlandi, og hryðjuveðráttu og rosa með haustinu. Vetur lagðist snemma að fyrir austan og norðan, fyrir miðjan október, með snjóum, stórviðrum og frostum allmiklum, en syðra með umhleypingum og hretviðrum, en frostum eigi miklu fyrr en um jól og þá hleypti niður snjóum miklum, mest af útsuðri; gengu ákafir útsynningar alla jólaföstu. Var árið þannig að veðráttu til eitt með hinum óblíðari.

Janúar: Kulda- og umhleypingatíð. Vatnslindir þraut í Húnavatnssýslu.

Þjóðólfur segir af tíð þann 18.janúar:

Um öll jólin stóð hér sunnanlands óvenjuleg veðurblíða, hreinviðri með meiru og minna frosti, oftast heiðríkja og logn, tunglskin á nóttum, snjóleysi, gangfæri hið besta. En 1. viku hins nýja árs komu hér allmiklar frosthörkur, frá 12—18°C, er má heita fyrsta frostkoma á vetrinum.

Norðanfari lýsir tíð þann 9.janúar:

Tíðindi eru fá, tíðin ágæt þangað til á gamlársdag; síðan frost um 16 gr. mest, og stundum þokumugga. Fremur hart á jörð, sumstaðar. — Um fiskafla er lítið talað, 60 tunnur af síld öfluðust í Krossanesvíkinni rétt fyrir jólin. Grímseyingar eru hér og segja ógæftir og stormasamt út í norðurhafinu, og gátu um langan tíma eigi fengið leiði í land, fyrr enn á jóladaginn.

Og enn segir Norðanfari frá 31.janúar:

Mestan hluta af þessum mánuði, hefir veðráttan mátt heita fremur góð, þó hafa stundum verið talsverð frost, og hvassviður einkum dagana 13., 16., 22. og 27. Hinn 16. (þ.m.) var hér á Akureyri hið mesta stórflóð, er komið hefir lengi, og gekk sumstaðar fast upp að stéttum og grindum er standa fyrir framan húsin, nær sjávarmáli, og á Oddeyri upp að og í milli sumra húsanna og kringum þau. — Flestar sveitir millum Holtavörðu- og Yxnadalsheiða, eru sagðar meira og minna snjólausar, en hér fyrir norðan snjóa- og svellameira, svo sumstaðar varð hagskart fyrir áfreða og svellalög, þangað til hinn 16. að sunnan hvassviðrið hreinsaði nokkuð úr, svo nú er víða sagt allgott til beitar.

Með manni vestan úr Húnavatnssýslu, er nýskeð var hér á ferð, hefir frést að fokið hafi hey til muna, einn hinna fyrirfarandi hvassviðurs daga 13. þ.m., á Hjallalandi í Vatnsdal, hafði og vindurinn komist undir þak á fjárhúsi og svipt því gjörsamlega af, svo féð stóð í opnum krónum er að var komið. Sama daginn fauk og bæjarþil og talsvert af frambænum á Hnjúki í sömu sveit.

Ísafold segir 31.janúar:

Fyrstu vikuna eftir nýár voru hér frosthörkur allmiklar um 16°C mest. Síðan tóku við útsynningshroðar, með fannkomu allmikilli, og hefir eigi á öðru gengið síðan að jafnaði; stundum aftakaveður, svo sem laugardaginn 27.þ.m. Hefir því hér verið gæftalaust með öllu fram undir mánuð, en í syðri veiðistöðunum orðið stöku sinnum komist á sjó, og þá reyst dálítið. Eina björgin, það teljandi er að Inn-nesjamenn hafi úr sjó fengið það sem af er vetrar, var fyrstu dagana eftir nýárið, er þeim gaf suður í Garðsjó og Leiru; höfðu flestir gott af þeirri ferð, sumir jafnvel fram undir 100 í hlut, en sumir komu tómhentir aftur eða misstu jafnvel veiðarfæri sín í tilbót, með því að veður fór þegar að spillast.

Þann 8.febrúar birti Norðanfari bréf úr Húnavatnssýslu dagsett 24.janúar:

Allt að þessum tíma hefir vetrarfar verið hið besta, eins og kunnugt er, og gengur það næst því er var 1847, en þá var aftur haustið jafnlakara, úrfella- og stormasamara. Um og eftir nýárið voru mikil frost og jafnvel einhver hin mestu, er menn muna í svo að segja snjólausri jörð, upp á fjallatinda. Frostið varð 7. þ.m. allt að 20°R. Um miðjan mánuðinn brá til rosa, gjörði stórviðri með krapableytum og varð óhreint á jörð og mjög ónotaleg beit, fyrir útigangspening, en nú er það alveg hreinsað. Í stormum þeim, sem gjörði um fyrri helgi [13. til 14.janúar], urðu skaðar nokkrir á húsum, heyjum og skipum. Á Márstöðum í Vatnsdal tók stórt stykki af fjárhús heyi með freðnu torfi og grjóti og slengdi á fjárhús þar við og braut inn aðra hliðina og svipti síðan öllu af henni, en ekki sakaði féð er var þó inni. Á Hnjúki í sömu sveit, sleit einnig burt bæjarþilið, og víðar urðu meiri og minni skaðar, 2 skip á Skagaströnd og önnur 2 á Súluvöllum á Vatnsnesi fuku og ónýttust að mestu eða öllu. Í frostunum eftir nýárið þraut vatn í brunnum og flestir smálækir frusu af og urðu að því mestu vandræði á sumum stöðum og muna menn ekki að slíkt hafi fyrri orðið jafnalmennt. Þó fiskafli væri hér í sýslu tregur og óverulegur næstliðna haustvertíð varð þó að lokum, sökum hinna fágætu staðviðra og sjógæfta afli víðast í fullkomnu meðallagi, nema á Hrútafirði og á innanverðum Miðfirði, varð hann þó með rýrasta móti; einn maður á Skagaströnd og fáeinir á Vatnsnesi hafa fengið 16—17 hundruð af fiski. Á Steingrímsfirði og víðar á Ströndum, eru sagðir allgóðir hlutir. Þegar á allt er litið má telja þetta næstliðna ár [1876] með bestu árum, hér norðanlands, þótt seinni hluti næstliðins vetrar, væri nokkuð harðviðrasamur, vorið ekki rétt gott og hafís tálmaði nokkuð afla af sjó.

Þann 26.mars birti Ísafold fregnir úr bréfi ritauðu á Héraði 24.janúar:

Vetrarfar var hagstætt til nýjárs, en síðan ýmist frost (frá 10—17°R) eða umhleypingar af suðaustri til suðvesturs, og þess vegna oftlega jarðbönn. Þessa dagana er aftur hægviðri af suðri með þíðu. Lagarfljót lagði þegar fyrstu dagana eftir nýjárið, nema efst á Héraði, enda er eigi við því að búast enn, þar sem það víða er 100 faðma djúpt og fjórðungur mílu á breidd. 

Febrúar: Illviðra og snjóatíð.

Norðanfari segir enn af sjávarflóðum nyrðra í pistli þann 8.febrúar:

Laugardaginn 3. þ.m. var hér nyrðra á útsveitum norðan stórhríð með brimi og óvanalegu stórflóði, svo að út hafði tekið beggjamegin Eyjafjarðar 16 báta og byttur, sem flest mölbrotnuðu; lengra að hefir enn eigi frést. Veður þetta og sjórót, hafði gengið næst skaðaveðrinu 12. og 13. okt. 1869.

Ísafold lýsir febrúarveðráttu í tveimur pistlum:

[14.] Fyrstu vikuna af þessum mánuði gengu hér sífelldar kafaldshríðar af ýmsum áttum, en síðan hefir verið fjúklaust að mestu og frostlítið síðan 10. þ.m. Eru komnir snjóar í meira lagi, og jarðbann fyrir löngu allstaðar, er til spyrst.

[26.] Hin sama harðindaveðrátta helst enn. Gjörsamlegt jarðbann hvar sem til spyrst og farnar að heyrast sögur um heyskort sumstaðar. Afli enginn enn hér á Inn-nesjamiðum, en reytingur nokkur syðra, þá sjaldan róa gefur. Akurnesingar fóru í hákarlalegu fyrir skemmstu og urðu vel varir, en gæftaleysið bannar alla björg. Þilskipin lögðu út héðan í miðjum þ.m., en urðu að hverfa inn jafnharðan aftur fyrir veðurs sakir.

Norðanfari birti þann 7.mars bréf úr Fljótum, dagsett 17.febrúar:

Tíðarfarið hefir mátt heita gott hér í vetur, þó óstillt hafi verið síðan um nýárið, og er nú óvanalega snjólítið.

Þjóðólfur segir þann 17. og 28.:

[17.] Veðrátta hefir nú lengi gengið all-stirð, oftast umhleypingar, byljir og fannkomur, frosthörkur litlar; jarðlaust víða síðan snemma á þorranum.

[28.] Vetrarfar gengur nú í harðara lagi; hvervetna jarðbann, og farið — eins og vant er — að brydda á heyskorti í vissum sveitum. Jagtir þær, sem lögðu út á dögunum urðu strax að hleypa inn aftur.

Í pistli sem birtist í Ísafold 26.mars segir af tíð á Skógarströnd í janúar og febrúar:

Janúar byrjaði frá 1. til 8. með hreinviðrum og frosthörkum frá 8 til 16°R; upp frá því voru allan mánuðinn út sífelldir sunnanútsunnan umhleypingar, blotar og köföld á víxl með stórflóðum og ofveðrum á milli, meðal annars þann 27.; þá var eitt hið versta útsynnings bleytukafaldsofviðri og féll þá þyngdarmælirinn niður í 26" [938,5 hPa]. — Af þessum illviðrum leiddi fannþyngsli og jarðleysur. Meðaltal kuldans -5 ... Febrúarmán. byrjaði með áþekku veðráttufari, sem hélst til hins 9.; þá gjörði hægviðristilgöngur til þess 17.; úr því umhleypingar til þess 24.; þá hörku-norðangarður til þess 28., þá sunnan fjallsperra og stórbloti. Meðaltal -5°... Jarðbönnin hafa haldist þar til i dag [1.mars], nú er nokkur jörð komin upp sumstaðar.

Í sama blaði birtist bútur úr bréfi úr Strandasýslu, dagsettur 19.febrúar:

Jarðir fyrir fé og hross héldust fram yfir jól, snöp þangað til viku af þorra, síðan alveg jarðlaust sakir áfreða, en snjóþyngsli með minnsta móti.

Norðanfari birti þann 5.apríl fréttir úr Austur-Skaftafellssýslu, dagsettar 27.febrúar:

Héðan er fátt að frétta, nema veturinn féll vel til jóla, en síðan hefir verið óstöðug tíð og útsunnan umhleypingar. Nú sýnist hann genginn í norðanátt og kulda. Hér hefir sumstaðar á fjörum orðíð vart við bjálkareka, hafa hér í austursýslunni rekið milli 10 og 20, og í Suðursvelt rak fleka úr mjög stóru skipi.

Ísafold segir þann 23.mara: „Hinn 1. [febrúar] fórst skip í fiskiróðri frá Hnífsdal við Ísafjörð, með 6 mönnum“.

Mars: Nokkuð góð tíð framan af en síðan harðindi.

Norðlingur birti þann 9.apríl bréf úr Norður-Múlasýslu, dagsett 12.mars:

Tíðin var her fremur góð og jarðir nógar fram að nýári, en þann 3. janúar keyrði hér niður svo mikinn snjó að fádæmum gegndi, man engin meira snjófall á einu dægri, hefir hér í fjörðum verið alveg jarðlaust síðan, ég held allt suður að Reyðarfirði, og þar þó áfreður nokkrar; aftur mun nóg jörð á útsveitum, og Fljótsdalur mikið til auður.

Norðanfari birti þann 19.apríl bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 2.mars:

Frá því viku eftir nýár, hefir tíðarfar verið mjög óstöðugt, oftast með suðvestan rosum, blotum og snjókomu á víxl, svo um mánaðamótin var orðið nokkuð hagskart af svellalögum og áfreðum, og sumstaðar fram til dala alveg jarðlaust. Af öllu Vesturlandi eru sögð dæmafá snjóþyngsli og jarðbannir, frá því snemma á þorra. 3.febrúar var hér stórhríð á norðvestan og sjávarflóð afarmikið, tók þá út borðvið og skip af Þingeyrasandi og rak upp fyrir austan Húnaós, lítt eða ekkert skemmt, Á Illugastöðum á Vatnsnesi braut 3 skip og báta.

Norðanfari birti þann 5.apríl bréf úr Reyðarfirði dagsett 12.mars:

Tíðarfarið hefir verið stirt síðan um nýár, og víðast mátt heita jarðlaust, meira af áfreðum en snjóþyngslum. Hafa því allar skepnur staðið stöðugt á gjöf, og hey eyðst mjög, þó þola flestir þó eigi batni fyrri en um páska, og sumir geta gefið til krossmessu og lengur.

Norðanfari birti 19.apríl úr bréfi ritað í Núpasveit í Norður-Þingeyjarsýslu dagsett 18.mars:

Tíðin hefir verið svo góð í vetur, að ekki er enn búið að kenna öllum lömbum át í Presthólum og á 2 ystu bæjum í Núpasveit; eldra fé aldrei verið gefið, en einu sinni byrgt inni (í stórhríðinni 26.[febrúar], þá var frost hér 16 gráður. Talsverður hafíshroði er kominn hér inn á fjörðinn; 4 selar eru fengnir á Grjótnesi og 2 í Hraunhöfn.

Þjóðólfur segir af tíð þann 20. og 24. mars:

[20.] Nokkra undanfarna daga hefir staðið norðan stórviðri mikið og hefir því hvergi gefið á sjó. Hér á Suðurlandi hefir vetur verið allharður síðan á nýári, víðast haglaust síðan í miðjum janúar í efra parti Rangárvalla- og Árnessýslu, er tekið að tala um heyskort, einkum þó á Rangárvöllum, þar sem sumra útigangsmeðferð á sauðfé heldur enn sínu upprunalega en öldungis ótæka lagi, og fé er orðið mjög svo úrkynja.

[24.] Vestanpóstur kom 21. þ.m. eftir erfiða ferð og kostnaðarsama. Almenn tíðindi góð og meinhæg; sviplík veðurátt um Vesturland og hér syðra, en nyrðra hefir vetur verið léttari og miklu snjóaminni; hlaðfiski var um tíma (Bolungarvík), en var minna þegar póstur fór af Ísafirði, ætluðu menn að hafís mundi vera í nánd, en að honum hverfur oft fiskur sá, sem í göngu er.

Ísafold segir þann 26.:

Síðustu vikuna af [febrúar] var hér norðankólga og harðneskja, mest frost 27. f.m. 15° á C. Fyrstu 3 dagana af þessum mánuði [mars] var hláka allgóð, er bætti talsvert úr hagleysum. þá brá til útsynninga, er skipst hafa á síðan við landnyrðings-storma með fjúki og frosti nokkru.

Norðanfari birti þann 19.apríl bréf að sunnan, dagsett 24.mars:

Allan desember f.á. [1876], var hin mesta veðurblíða, dagana 16. og 17. var 4° hiti, svo kólnaði nokkra daga og var 4° frost dagana 20. til 23. s.m., á gamlaársdag var 9° frost. Með nýárinu brá til frosta og hreinviðra, er hélst til 8. jan., varð frost hæst 11—15° dagana 6. og 7.; eftir það gekk í sunnan- og vestanstorma með verstu hrakviðrum ýmist kraparigning eða útsynningséljum, með frosti á milli, er öllu hleypti i gadd og jarðleysur, var þetta veðurlag út allan janúar. Aðfaranóttina hins 13. var ofsastormur af suðri og enn aftur nóttina 17. fylgdi honum sjógangur mikill og brim, er gekk venju hærra, og brotnuðu skip nokkur á suðurnesjum af sjóganginum; 10° frost var 30. dag mánaðarins. Með febrúar stillti nokkuð til og dagana frá 9.—20. var hægviðri og þíða þann 17., hinn 20. var norðanstormur og kólga með 10° frosti, 21. og 22. var gott veður, en með þeim 24. kom aftur kólguveður með norðangaddi, varð frostið hæst 15° þann 27. Í lok mánaðarins kom góð hláka, er hélst í 3 daga, eða til hins 2. þ.m.,- tók þá upp snjó að nokkru og svell eyddust svo að hagar komu dálítið upp til sveita, bæði eystra og upp um Borgarfjörð. Hinn 4. þ.m. gekk í hægan útsynning með éljagangi er spillti högum þeim, er upp hefðu komið, og var til þess 12., þá kom norðanátt með stormi og frosti, og hélst sú veðurreynd til hins 22., frostið varð mest 8° þann 15. og 21. Þann 19. var hríð af landnorðri, og 22. var fyrst austan skafrenningur og síðan bleytuhríð; í gær og dag þýðvindi á landsunnan.

Norðanfari rekur þann 5.apríl fréttir að austan:

Austanpóstur kom hingað 31. [mars], hafði hann á leiðinni fengið ill veður og fannfergju, frá því af Seyðisfirði og að Jökulsá á Fjöllum, og ófærðina víða nær því ókleyfa; en frá Jökulsá og yfir Mývatnsöræfi góða færð, því þá var nýafgengin norðan stórhríð, sem hafði rifið fönnina í stórskefli, en þá kom ofan í Laxárdalinn hófst fannfergjan og ófærðin að nýju og alla leið hingað. — 3. febrúar næstliðinn fennti og hrakti í sjó til dauðs 52 kindur fullorðnar á Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Deginum áður varð drengur úti á Hallormsstaðahálsi í Skriðdal eystra, er hét Finnbogi Jónsson frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal.

Apríl: Batnandi tíð, sérstaklega eftir miðjan mánuð.

Jónas Jónassen lýsir aprílveðri 1877 í pistli þann 27.apríl 1887: „Norðan-ofsarok með hörku gaddi frá 1. apríl til 10.; síðan oftast gott og hlýtt veður mánuðinn út“.

Þjóðólfur segir þann 5.apríl undir fyrirsögninni „Harðindi“:

Síðan um páskahelgarnar [páskadagur 1.apríl] hefir geisað eitthvert hið grimmasta norðanveður, er menn muna; hefir ekki enn frést, hverjum slysum það hefir valdið, en mjög eru menn óttaslegnir bæði um skip þau, sem nærri löndum hafa verið, svo og um net almennings (í Garðsjó) og skip o.fl. Einnig eru menn á milli vonar og ótta, að nokkuð verði hér um aflabrögð eftir þetta hafrót, og — er þá Suðurland í voða. Allt kann þó að lagast. Þilbátur Reykvíkinga, „Sjófuglinn“, skipstjóri Jón Gunnlögsson, slitnaði upp hér á höfninni og rak upp, og komust menn lífs af og skipið lítið skemmt, einkum fyrir dugnað og forsjá skipstjóra og bróður hans. Mennirnir voru dusaðir mjög. Úti eru 2 þilskip, „Reykjavíkin“ og „Ingólfur“, og vona menn að þau hafi getað sett til hafs, sem hér er oft eina ráðið i ofviðrum.

Þjóðólfur segir þann 4.maí af strandi þann 2.apríl (Reykjavíkin sem strandaði er ekki sama skip og minnst var á hér að ofan):

Skipstrand og manntjón. 29.[apríl] kom Ólafur bóndi Pálsson austan frá Höfðabrekku hingað suður með 2 skipbrotsmenn danska, skipstjóra og stýrimann. Segja þeir þessi sorgartíðindi: Snemma morguns á 2. dag páska rak skipið „Reykjavík“ á land í ofviðri því, er hófst þá daga; það var austarlega á Mýrdalssandi. Skipverjar komust allir á land frá brotnu skipinu. Veður var afskaplegt með frosti og kafaldi en menn ókunnugir og staddir á eyðiströnd fjærri mannabyggð. Lögðu þeir þegar af stað til að leita byggða. Þeir voru 6 saman og náðu aðeins tveir að halda lífi (þeir áður nefndu) og komust eftir 38 klukkutíma hrakning að Höfðabrekku. Þeir sem úti urðu voru: Hákon Bjarnason kaupmaður frá Bíldudal, eigandi og reiðari skipsins; Sigurður Gunnlögsson söðlasmiður frá Eyrarbakka — hann sigldi í fyrra héðan með konu sinni, og varð hún eftir í Khöfn.; 2 skipverjar danskir. Hákon kaupmaður hafði farið votur og lítt klæddur frá skipinu og varð því fyrstur yfirkominn, gekk þó óstuddur þar til hann hneig niður örendur. Sigurður lifði þeirra lengst en þeir, sem af komust, voru best búnir við kulda. Skipið með hinum skemmda farmi var selt við uppboð, og mennirnir jarðaðir, og beið skipstjóri þar eystra uns því öllu var lokið.

Norðanfari segir þann 12.apríl:

Veðrátta hefir nú verið hörð um þessar mundir hér um sveitir, oftast meira og minna hríðarveður síðan fyrir páska; snjókyngi er að frétta úr öllum áttum, og menn eru farnir að verða heylausir, þó eigi sé fagurt til frásagna.

Þjóðólfur segir þann 23.apríl:

Eftir einhvern hinn harðasta vetur síðan árið hófst, virðist nú veðráttufari fyrst hafa brugðið nú undir sumarmálin, eða viku fyrir sumar. Mun nú í dag — sumardaginn fyrsta — [sumardaginn fyrsta bar upp á 19.apríl árið 1877] víðast hvar vera komnir upp hagar fyrir hross og geldfé, enda hafa menn og viða verið komnir að þrotum með heyföng, og er líkt og nokkur vorkunn þar, sem nálega aldrei í manna minni koma hálfsvetrar innistöður.

Hér á höfninni hefir daglega legið floti mikill af frönskum fiskiskútum, sem leitað hafa hafnar eftir hina miklu páskastorma; hafa flestar þeirra verið brotnar og bilaðar meira og og minna; Þykjast þeir aldrei hafa mætt hér meiri ofviðrum. Eitt skipið kom með 16 skipbrotsmenn, er það hafði tekið af tveimur flökum úti á hafi. Í fyrra mánuði strandaði frönsk dugga austur við Meðalland; bar sjórinn skipið upp á þurrt, og komust allir menn af; skipið með farmi var selt, en mennirnir 21 fluttust hingað suður. 15. þ.m. strandaði franskt skip hér austanvert við nesið á flúð, en menn komust af allir. Með „Valdimar“, skipi Fischers, 6. þ.m. sigldu rúmir 20 Frakkar, en aðrir skipbrotsmenn bíða hér í húsum þeim, sem byggð eru þeim til viðtöku. Hin innlendu þilskip, er úti voru í storminum, komust klaklaust og óskemmd til hafnar, höfðu þau hleypt eða rekið í haf 50 - 70 mílur.

Frá hinum hörmulega mannskaða frá Útskálum, viljum vér skýra með orðum húsbónda þeirra, sem drukknuðu, herra Helga Sigurðssyni á Útskálum: „Síðla dags þann 7. þ.m. varð hér að Útskálum hörmulegt og sviplegt manntjón, er 6 mannvænlegustu menn frá heimili mínu drukknuðu allir hér á sundinu „Króksjó“. Strax á eftir að þeir voru komnir frá landi, hleypti í ógurlegri brimólgu með ósjó (sem oft á sér stað hér fyrir framan í svæsinni norðanátt og umhleypingum)“.

Ísafold rekur tíðarfar í pistli þann 29.apríl:

Frá því á skírdag (29.mars) og til föstudags næsta eftir páska [6.apríl] stóð hér eitthvert hið grimmasta norðanveður, er menn muna. Urðu af því talsverðar skemmdir bæði á sjó og landi, einkum á fiskinetum, er margir áttu í sjó (syðri veiðistöðunum); — þar var þá nýfarið að fiskast; — en þó varð skaðinn minni en við mátti búast. Síðan gengu hægviðri með frostum nokkrum til hins 13.; þá gerði ágæta hláku, og komu þá allstaðar upp jarðir á svipstundu. Hefir verið besta vorveðrátta síðan, en þó frost að mun oftast á nóttunni. Af aflabrögðum er það að segja, að enn mun að miklu leyti gjörsamlega þurr sjór hér um innanverðan Faxaflóa, en í syðri veiðistöðunum (Garði, Leiru, Njarðvíkum og Vogum) hefir verið góður afli í net af mjög vænum og feitum þorski síðan fyrir páska, og hefir almenningur héðan af Innnesjum uppsátur þar syðra með allan sinn veiðiskap. Mjög er þó kvartað um misfiski. 

Maí: Fremur kalt og óhagstætt.

Skuld [Eskifirði] segir frá tíð: 

[8.] Að austan. Tíðin, sem heldur var hörð í vetur hér eystra (síðast ómuna stormur á norðan um páskana), gekk til þíðu og sunnanáttar um sumarmálin; en hefir nú síðustu vikuna aftur harðnað með norðanátt og kulda, einkum hörðum næturfrostum, en nú síðast dálítilli snjókomu. — Bjargartæpt víða orðið fyrir skepnur.

[24.] Að sunnan. Harður vetur á Suðurlandi frá nýári til sumarmála; brá til bata um sumarmál; hagar uppkomnir fyrir hross og geldfé. Að austan. Frá því síðasta blað kom út hefir verið heldur kalsasöm tíð (enda hefir frést að norðan að hafísinn væri kominn að Langanesi); nú síðustu dagana aftur hlýviðri.

Þjóðólfur hefur eftir póstum þann 17.maí:

Póstar komu ekkí fyrr en 4. þ.m., höfðu fengið færð illa þeir færðu all-bærileg almenn tíðindi hvervetna frá; vetur víða í harðara lagi til sumarmála, en úr því hefir gengið góð tíð yfir land allt, þó eigi hlý, enda liggur snjór mikill á öllu hálendi; hafís hefir og verið á hrakningi kringum Hornstrandir. Páskaveðrið hafði allsstaðar orðið afar-hart, og eru menn enn hræddir um nokkur skip að farist hafi, er smásaman fréttist til fulls.

Nú er þá vetrarvertíð hér við Faxaflóa liðin svo í annað sinn, að svo má kalla að enginn þorskur hafi fengist úr sjó öllum innanverðum flóanum, eða á miðum þeim, sem liggja undir Akranes, Seltjarnar- og Álftanes. Má og svo að orði kveða, að þær 6—7 þúsund sálir, sem búa á nesjum þessum og í næstu sveitum hafi nú í tvö ár verið að miklu og sumar að öllu leyti atvinnulausar.

Þann 25.maí segir í veðurbók úr Hvammi í Dölum: „Fennti í sjó niður að nóttu“. 

Júní: Hlýindi um tíma, en annars mjög köld og óhagstæð tíð.

Þjóðólfur segir af tíð í júní:

[14.] Síðan i miðjum maí hefir gengið kuldatíð mikil, svo að kýr hafa víðast verið á gjöf; gróður nær engi kominn enn; ætla menn að hafís sé sjálfsagt mjög nærri landi. Nú er eins og að byrja mildara veðurlag. Aflaleysi nálega um allt Suðurland, og vorvertíð varla teljandi hjá öllum almenningi.

[27. - en pistill dagsettur 24.] Veðrátta hefir verið hin blíðasta síðan leið að sólstöðunum, og hefir því gróður mjög aukist þessa síðustu viku, en allt um það heitir varla að sumarhagar séu komnir upp enn í hærri sveitum hér sunnanlands, er það afleiðing hinna stöðugu kulda, sem gengið hafa í allt vor oftast nær með þurrkum og útnyrðingum, eða þá með norðan stormum; jörð er þurr mjög (þó óvíða kalin) og sprettur valllendi eflaust illa, ef ekki fer að skipta um til skúra og jafnra hlýinda. Fjárhöld mega góð heita hvervetna, en kýr víða magrar og mjólkurlitlar er kúm útbeitt á þurra og gróðurlausa jörð, því fæstir eiga töðu til að gefa kúm fram til Jónsmessu, en af því veitir þó ekki, eins og nú hefir vorað, já, nú er tekið að vora ár eftir ári því það er mjög eftirtektarvert, hve árferði nú liðin síðastliðnu 10—20 ár hefir verið sjálfu sér samkvæmt með að gefa mönnum haustveðráttu langt fram á vetur og aftur vetrarveðráttu langt fram á sumur. Stendur slíkt tíðarfar alveg öfugt af sér við þörf og þægindi manna og skepna, en við þessu virðist nú einsætt að búast; er því helsta ráðið, að leita svo að hafa aldrei fleiri fénað en svo, að hey geti enst til fardaga og það svo, að þá séu allar skepnur i góðum holdum.

[30.] Þriðjudaginn 12. júní drukknaði skip með 7 mönnum á af Akranesi, á leið úr beitifjöru; ... því hvorki var skip ofhlaðið eða menn ógáðir, en rokviðri var og sjógangur mikill, sem á einhvern hátt sjálfsagt hefir valdið tjóninu.

Þjóðólfur segir þann 25.júlí af hrakningi í sama veðri [12.júní]:

Þriðjudaginn 19.júní [Ísafold segir þann 12.júní - báðir þriðjudagar, þann 12.var illviðri] sigldi af Hellissandi undir Snæfellsjökli 10 róið skip til Flateyjar, með 4 mönnum á er komu úr veri. Formaður Árni Gíslason úr Hergilsey, sonur hans Árni á 13. ári, Guðlaugur Guðmundsson úr Miklaholtshrepp, og Sigurður Guðmundsson úr Flatey, hásetar; sigldu þeir djúpleið, en er þeir höfðu siglt um stund, brast á fjarskalegt sunnan rok-veður, með svo miklum sjógangi — er þeir voru svo djúpt fyrir — að ekki mátti leggja skipinu við vindi, heldur sigla djúpt til að verja skipið  stór-áföllum; sáu þeir ekki land, fyrr en dýpra af Siglunesi sem er fremst á Barðaströnd; var rokið þá upp á það mesta. Tók formaðurinn þá það ráð að setja skipið beint undan vindi, (er þá stóð austan) vestur fyrir háu Skor, var þar þá alstaðar ófært að landi að leggja sökum brims, enda er þar ekki lending. Lögðust þeir þá við dreka á 10 faðma djúpi, en brátt færðist vindur til útsuðurs svo ófært var að liggja sökum grunngöngu sjóar, var þá seglbúið með skauti og var til hafs, í þeirri von, að ná fyrir Skor í bakaslag, en það mistókst, var þá kastað dreka hér um bil mílu undan landi. Skipverjar voru allir skinnklæðalausir og drykkjarlausir, brauð og smjör höfðu þeir lítils háttar en brauðin urðu ónýt af sjógangi, urðu þeir því mjög máttfarnir af þorsta hungri og vosbúð, þar alltaf mátti standa í stampaustri. Um sólarlag á föstudagskvöldið, slitnaði skipið upp, átti þá að tréreisa, en þá voru menn svo máttfarnir og þrekaðir að það tókst ekki, bárust þeir þá að landi af straum og vindi, og hittu á Bæjarós [á Rauðasandi], var í honum aðfallsstraumur, svo skipinu varð stýrt gegnum hið ógurlega brim, og náðu þar loks landi.

Skuld birti þann 7.júlí úr bréfi frá Ísafirði, dagsett 12.júní:

Nú í 3 vikur hefir tíðarfarið verið sérstaklega kalt og stormasamt; allstaðar þurft að gefa kúm inni til þessa dags, og menn því almennt heylausir orðnir. Enginn misst nokkuð það teljandi sé, en hætt við að kýr og ærpeningur verði gagnslítið í sumar sakir megurðar. — Nú fyrst í dag kom sunnanrigning, og er vonandi, ef sú átt helst, að tún og úthagi fari að grænka.

Skuld segir af tíð þann 15.júní:

Síðan 21. [maí] næstum sífelldir stormar, kuldar miklir, og stundum snjóhraglandi; snjóaði þó meir í héraði en fjörðum. Hefir vor verið eitthvert hið kaldasta og vesta, er menn muna. Gróður enginn að kalla enn og tún varla farin að litkast að mun. Afli virðist nú kominn góður, ef gæfi á sjó. Að norðan: Póstur sagði íslaust nyrðra og hlaðafla á Eyjafirði.

Norðlingur segir þann 29.júní:

Austanpóstur kom hingað 23.þ.m., sagði hann harða tíð eystra og snjófall mikið á Fjarðarheiði og gróðurlítið viðast, þó hafði fé gengið vel undan vetri.

Júlí: Talið gott tíðarfar suðvestanlands, en þó var mjög kalt, þurrt var um vestan- og sunnanvert landið en úrkomusamt norðaustanlands.

Skuld segir þann 7.júlí:

Hér hafa síðan síðast verið sömu rosarnir og kuldarnir með litlu hlé á milli. 

Ísafold lýsir tíð síðastliðna mánuði í pistli þann 14.júlí:

Maímánuður var kaldur og þurrviðrasamur, oftast frost á nóttu og stundum snjódrífa til fjalla (9.—10., 27.—30.); nema dagana 11.—16. og 18.—24. góðviðri og logn. Rúma viku framan af júnímánuði hélst sama kalsaveðráttan, norðan og landnorðan og festi snjó á fjöll, sumstaðar ofan í byggð; 10. gekk hann í austur, og 12. í sunnanátt, en með krapa- og éljahryðjum; 15.—21. voru góðviðri: logn og hlýindi; 20. fyrstu reglulegar gróðrarskúrir á sumrinu, og fór jörð þá fyrst að lifna til sveita; 21.—27. heiðríkjur, logn og hitar; 28.—29. landnorðanstormur með kraparigning til fjalla; 30. hlýviðri með gróðrarskúrum. Fyrstu dagana þrjá af júlímánuði var kuldastormur á norðan með éljaleiðingum til fjalla; 4.—7. góðviðri og hægð; 8.—9. sunnanrigning; 10.— 12. kuldaveður á norðan; 13. blíðviðri.

Þjóðólfur segir af tíð þann 14.júlí:

Veðrátta er sífellt köld og vætulítil, þó hefir töluvert dregið úr grasvaxtarskorti þeim, sem vofði yfir flestum héruðum landsins eftir hið sárkalda vor. Lakastar ætla menn votengjar verði því þær eru svo gagnþurrar, að öll hin litla úrkoma hverfur óðara í jörð niður.

Norðanfari greinir frá rigningu og skriðuföllum í pistli 1.ágúst:

Veðuráttan hefir enn verið köld og úrkomusöm, þó yfirtæki i næstliðinni viku (24. júlí) með hvassviðri og stórrigningu; féllu þá víða skriður í byggðum og afréttum, er ollað hafa hér og hvar miklum skemmdum, sér í lagi á túnum, er vér vonum seinna að geta sagt gjörr frá. Víða er mjög kvartað um grasbrest, einkum á öllum hálfdeigum mýrum. Málnyta var sögð allt að því í meðallagi áður en rigningarnar byrjuðu, en nú aftur minni.

Norðanfari birti frekari fréttir af skriðuföllunum þann 22.ágúst:

Úr bréfi úr Öxnadal, 5. ágúst: „24. júlí næstliðinn var hér töluverð rigning og einkum næstu nótt á eftir, og féllu þá skriður hér í Yxnadal á nokkrum bæjum til stórs skaða, einkum á Efstalandi, þar fór grjótskriða mikil fast að bænum, svo að fólk flúði á aðra bæi, tók hún þar býsna part af túni þar sem best var við bæ og hlaðbrekku, svo að hér um þriðjungur af töðuvexti (á að giska eftir sögn l/2 kýrfóður) tapaðist og töluvert af engjum; á Miðlandi einnig partur af túni, og nálægt helmingur af því litla engi, sem þar var, og á Neðstalandi féll lítið eitt á túnið, en mikið á engjareitur. Á Efstalandskoti tapaðist 10 hesta engi, á Steinstöðum féll dálítið á engi, en ekki til stórra skemmda. Á Bási í Hörgárdal féll skriða, sem tók yfir engjadagsláttustærð af besta enginu. — 14 skriður höfðu fallið í hinum svonefnda Þúfnavallasveig í Barkárdal, sem er afréttarland, þykir mönnum líklegt, að þar hafi tapast eitthvað af kindum". 

Úr bréfi úr Eyjafirði, 11. ágúst 1877: „Aðfaranótt hins 25. f.m. var hér um nærsveitirnar dæmafá rigning, féllu þá skriður svo tugum skipti víðsvegar til dala framarlega í Eyjafirði, og skemmdu þær meira og minna tún, engjar og bithaga. Mest kvað að þeim í Hvassafelli, hvar mælt er, að nálægt þriggja daga sláttur af góðu túni hafi orðið fyrir miklum skemmdum, einnig féll talsvert mikið á engjar á Strjúgsá, og fyrir framan Litladal féll stór skriða, sem ekki varð komist yfir nema að sneiða fyrir hana yfir um á. — Töðufall mun vera nálægt þriðjungi minna en í meðalári, og sama mun verða upp á teningnum með útheysskapinn".

Ágúst: Þurr og allgóð tíð um sunnan- og vestanvert landið, en úrkomusamt norðaustanlands framan af.

Þann 10.ágúst segir í veðurbók úr Hvammi í Dölum: „Snjóaði að nóttu og hádag allan á fjöll og byggð“. 

Norðanfari segir 22.ágúst:

Veðráttan hefir nú um tíma verið þurrviðrasöm en fremur köld. Graspretta er hvervetna lítil, og gengur því heyskapurinn i lakara lagi. Flestir munu þó vera búnir að ná töðum sínum.  

Norðanfari birti þann 8.september bréf úr Reykjavík, dagsett 30.ágúst:

Veðráttufar á Suðurlandi hefir verið mjög hagstætt þennan mánuð, sífelldar norðanáttir með þurrviðrum, og hefir nýting á heyjum orðið afbragðsgóð. Oftast hefir verið frost meir og minna á nóttum til fjalla, en hitar miklir um daga, mestur hinn 4. og 16. um 16 gr. í skugga.

September: Votviðrasamt sunnan- og vestanlands, en betri tíð norðaustanlands.

Norðanfari birti þann 18.september bréf úr Grímsey, dagsett þann 4.:

Þurrkar hafa verið góðir síðan 17 vikur af sumri og besta tíð yfir höfuð. Ungatekja með betra móti, mikið aflast af fiski, því nú um tíma hafa verið góðar gæftir. [17.vika hófst 9.ágúst]. 

Norðanfari birti 16.október bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 19.september:

Nú er þá hér um bil heyanna-tíminn á enda, og hefir heyafli orðið vonum framar eftir sem á horfðist. Grasvöxtur á túnum og engjum var að vísu yfir höfuð í lakara meðallagi, þó sumstaðar allgott. Útheyslægjur víða sársnöggvar nema það sem var í sinu eða á flæðiengjum, sem hvortveggja var viðast vel í meðallagi. — Flóð úr stórám, svo sem Vatnsdalsá og Héraðsvötnunum í Skagafirði, brugðust nú venju framar, sökum þess hvað vatnavextir urðu litlir í vor, og yfir höfuð hefir grasvöxtur í Skagafirði orðið rýrari en hér í sýslu. En þótt hann hafi allstaðar þótt með minna móti, hefir hin góða nýting bætt það svo upp, að víðast hér um sveitir má telja heyafla í meðallagi, enda þótt sumstaðar væri ekki byrjað að slá fyrr en í 14. viku sumars [vikan hófst 21.júlí]. Yfir höfuð hefir sumar þetta verið með kaldasta móti, og oft frost á nóttum, sér í lagi í næstliðnum mánuði [ágúst], er oft voru grimmdarfrost svo stöku sinnum var vart, eða ekki sláandi þess vegna fyrr en um sólaruppkomu, og spratt þá harðvelli þar til 20. ágúst eða lengur, en þó var mýrgresi farið að falla löngu fyrri.

Þjóðólfur segir af sumri í pistli þann 27.september:

Síðan fyrir byrjun fjallgangna hefur veðrátta verið þerrirlítil, og þó rigningalítil; má heita að allt til þessa hafi haldist hin fágæta veðurblíða, sem búin er að standa 3—4 mánuði nálega dags-daglega. Fyrir norðan og austan land gengu suddar og votviðri fram í ágústmánuð, en úr því varð þar hagstæð tíð. Grasvöxtur batnaði hvervetna furðu vel úr því sem áhorfðist, og mun víðast hvar um land hafa náð minna meðalári, en allsstaðar hér syðra hefur nýting orðið hin besta, og má því álíta, að heyforði landsmanna þegar á gæðin er litið, sé orðinn í betra lagi, og sumstaðar í besta lagi. Sökum veðurblíðunnar virðist sem haustskurður muni verða með besta móti.

Þann 6.október gerir Ísafold upp sumarið:

Hér um Suðurland var veðrátta hin hagstæðasta meira hluta sumars, utan kuldasöm nokkuð, svo að oft var frost til fjalla á nóttu og stundum jafnvel ofan til sveita, t.d. nóttina milli 29. og 30. ágúst. 11.ágúst varð alsnjóa til fjalla og nær ofan til sjávar á suðurfjöllum, Akrafjalli og Esju. Í öndverðum september tók heldur að bregða til óþurrka og hafa þeir haldist síðan lengst af, með rosum og hryðjuveðráttu núna síðustu vikuna. Um Norðurland og Austurland hefir sumarið verið eitthvert hið kaldasta, er menn muna, allt fram í september; þá brá þar til sunnanáttar og hlýinda. „Framan af í sumar var mjög hretasamt, snjóaði oftast í hverri viku ofan í mið fjöll og stundum meir" segir í bréfi úr Skagafirði 16. [september], og í bréfi af Austfjörðum 30. ágúst: „Hér hefir varla liðið svo nótt í allt sumar, að eigi hafi snjóað eða fryst til fjalla og enda í byggð; þessa dagana hefir snjóað ofan í mið fjöll, og lítið sem ekkert tekið upp á daginn, því alltaf hafa gengið snjóa- eða krapaleiðingar um allt héraðið, svo sólar hefir eigi notið". Sakir kuldanna framan af sumrinu varð grasvöxtur í rýrara lagi um allt land, en þó langmest brögð að grasbresti fyrir norðan og austan, einkum á túnum. Nýting á töðum varð góð um allt land og ágæt sunnanlands, en sakir grasbrests varð töðufall fyrir norðan og austan, allt að þriðjungi minna en í meðalári og útheyskapurinn lítið betri, bæði vegna grasbrests og misjafnlegrar nýtingar. Um Suðurland mundi heyskapur hafa orðið í betra lagi, sakir afbragðs nýtingar meira hlut sumars framan af, hefði eigi brugðið til óþurrkanna að engjaslættinum rúmlega hálfnuðum, svo hey hröktust mjög fyrir mönnum. — Sjávarafli hefir verið góður kringum allt land í sumar, nema við Faxaflóa. ... Laxveiði var afbragð í sumar í öllum veiðiám á landinu, þó mest að tiltölu í Hvítá í Borgarfirði og Þverá í Mýrasýslu. — Haustskurður mun reynast í góðu meðallagi hér syðra að því er hold snertir, en fé fremur rýrt á mör; fyrir norðan og austan fé með rýrasta móti. Víða er kvartað um slæmar heimtur af fjalli, sakir þoku og dimmviðra um leitirnar.

Október: Harðindi um landið norðanvert, en skárra syðra.

Þjóðólfur segir þann 4.október: „Tíðarfar ágætt yfir allt land - rigningar miklar ganga nú hér syðra“. 

Skuld (Eskifirði) segir af tíð þann 4.október:

Veðrátta blíð mjög í septembermánuði, heit og þurr. Nú um mánaðamótin gengin til suðvesturs með rigningu af og til.

Þann 12. segir Skuld af skaðaveðrum:

Veðrátta hefir síðan síðast verið ýmist bráð ofsaveður eða lygnt á milli. Á þriðjudag og miðvikudag 2. og 3. þ.m. var svarta rigning og vesta veður, einkum á miðvikudaginn, vindstaða á suð-vestan. Á miðvikudaginn vildi það slys til, að tveir vinnumenn Hans hreppstjóra Beck sigldu inn Reyðarfjörð (konu utan frá Karlskála frá sjó), en milli Eyrar og Hólma tók ein rokan bátinn og hvolfdi og fórust þar báðir mennirnir. ... Á laugardaginn 6. þ.m. skall aftur á í einni svipan annað manndrápsveðrið; urðu þá margir bátar hafnreka hér í fjörðunum, en eigi hefir frést til að neinir hafi farist. En á Seyðisfirði fuku í því veðri 5 bátar. Þegar lygnt hefir verið á milli, hefir verið hlýtt, og á mánudaginn [8.] var hér volgur vindur, um kvöldið jafnvel svo ylvolgur eins og maður stæði álengdar nálægt báli. Þegar þurrt hefir verið, hefir verið hér talsvert öskufall og jarðrót öll gránað; það hefir enda mátt merkja talsverða ösku inni í lokuðum húsum, svo smágert er dustið. Ýmsir þykjast hafa heyrt elddynki um þetta mund. Miðvikudag 10. þ.m. tók að snjóa hér, fyrst með frostleysu, en um kvöldið gekk í versta veður og nokkuð frost með. Vindstaða á norð-vestan. Fé hefir að líkindum viða fennt.

Þann 18.október segir Þjóðólfur:

Það sem af er mánuðinum hefur verið stormatíð mikil, ýmist á norðan með frosti eða rigningum og vestanveðrum. Fyrir rúmum hálfum mánuði lögðu ... Fiski- og gæftaleysi hér syðra hið mesta, en hlaðfiski víðast á landi hér í öðrum héruðum. Á Ísafirði hafa fiskiskip aflað ágæta vel í sumar. 

Norðurland segir af tíð í pistli þann 16.október:

Frá því með byrjun næstliðins septembermánaðar og til hins 3. þ.m., var hér fágæt öndvegistíð, svo að allir munu hafa náð heyjum sínum, sem að undanförnu í sumar, með bestu nýting og nokkrir eldivið; eftir það og til hins 10. þ.m. var sunnanátt og stundum stórviður og í nokkrum dalasveitum rosar og stórrigningar; 11. var hér landnorðan stórhríð með mikilli fannkomu, svo að hér um nærsveitirnar er sögð mikil fönn komin, hvað þá í hinum snjóþyngri sveitum og á útkjálkum. Fé manna mun viðast hvar hafa verið óvíst og hætt við að eitthvað af því hafi fennt eða hrakið í ár og vötn.

Norðlingur segir af októberillviðrunum þann 1.nóvember:

Austanpóstur kom hingað 28. f.m., sagði hann haustið þar eystra mjög óstöðugt og stormasamt, og nú upp á síðkastið stórhríðar og mestu fannkomu og höfðu bæði orðið skaðar á mönnum og fé, í Eskifirði hafði kvenmaður orðið úti og annar í Vopnafirði. Á Reyðarfirði hvolfdi bát með 2 mönnum á í fellibyl og fórust báðir. Á Seyðisfirði hafa ofviðrin lamið og tekið út 10 báta og þar af 5 á einum bæ hjá Jóni Hall á Brimnesi. Strandað hafði líka á Seyðisfirði í ofviðrinu hákarlaskip af Langanesi. Fjárskaðarnir höfðu orðið mestir á Úthéraði, Fellum og Jökuldal; og svo var harkan mikil, að póstur fór Jökulsá á Fjöllum á ís, en hana leggur ekki nema í aftökum. Við Mývatn hafa og orðið nokkrir fjárskaðar, einkum á Hofstöðum. Skuld segir að á milli þessara ofsaveðra hafi verið hlýtt og jafnvel „volgur vindur“ og talsvert öskufall, svo jarðrót jafnvel gránaði, og þóttust ýmsir hafa heyrt elddynki um sama leyti. Þessu ber vel saman við jarðskjálfta þá er vér höfum sjálfir orðið hér varir í sama mund, en ekkert höfum vér ennþá frétt um með vissu, hvar eldur muni uppi. Mannskaðaveðrið mikla byrjaði jafn snemma eystra og hér, að kvöldi þ. 10. f.m. Fyrir norðan Reykjaheiði er sagt að hafi fallið lítill snjór.

Ísafold segir af veðrunum í október í pistli þann 28.nóvember (október segir timarit.is en það er ekki rétt):

Að norðan og austan komu póstar 21.[nóvember] (vestanpóstur ókominn enn), og sögðu harðindaveðráttu mikla, og skaða á mönnum og fé, einkum eystra. 6. [október] var manndrápsveður víða um land. Það var þá, að upp sleit skipið á Grafarós, er getið er í síðasta bl. það hét „Lucy", 94 smálestir að stærð, og skipstjóri Larsen. Við Seyðisfjörð tók út 10 báta, þar af 5 á einum bæ, Brimnesi, hjá Jóni Hall, sem þar býr, og 7 í Vopnafirði, og talsvert af fiski, sem Færeyingar og aðrir áttu. Hákarlaskip af Langanesi strandaði við Seyðisfjörð. Kvenmaður varð úti við Eskifjörð, og annar í Vopnafirði. 11. [október] gerði stórhríð með talsverðu frosti. Urðu þá víða skaðar á fé, einkum í Úthéraði, Fellum og Jökuldal. Þá varð maður úti í Eyjafirði, Lárus bóndi Thorarensen á Hofi, Ólafsson læknis, Stefánssonar amtmanns Þórarinssonar. 19. [október] var kominn svo mikill ís á höfnina á Akureyri, að saga varð þar út 2 kaupskip, er legið höfðu ferðbúin síðan fyrir hríðarnar. Um sama mund fór pósturinn frá Seyðisfirði að Akureyri Jökulsá á ís með hesta sína.

Norðanfari birti þann 2.nóvember bréf af Jökuldal, dagsett 18.október:

Þó sumarið væri kalt og vætusamt, varð þó nýting hin besta, með því hagstæðir þurrkdagar komu á milli; gras var að spretta fram undir 20. viku [ágústlok] og varð allt að því í meðallagi og heyskapur einnig, þar eð hausttíðin var svo afbragðs góð fram til 10. þ.m., að menn gátu verið við heyskap viku til hálfsmánaðar lengur en venjulega, þar sem engjar voru til. Tún og harðvelli brugðust, en heiðarflóar voru með betra móti. Að kvöldi hins 9. þ.m., kom mikil rigning og síðan snjór og dreif í logni allan daginn hinn 10., en hinn 11. brast á stórhríð, er hélst við hvíldarlítið til hins 16. Það var litlu lagi búið að koma á göngur, er hríðin brast á, þar eð flestir voru þá í sitthverjum önnum, svo hætt er við, að margir hafi beðið tjón af veðrinu upp til sveita, þó óvíst sé enn, hversu mikið. Við Vopnafjörð hafði 7 báta tekið út, 2 í kaupstaðnum og 5 í Leiðarhöfn; í Vopnafirði hafði og kvenmaður orðið úti, en ég veit hvorki um nafn hennar né heimili. Á Brimnesi við Seyðisfjörð tók 5 báta út og 2 á Vestdalseyri, sem Sigurður verslunarstjóri átti, þar hafði og tekið út talsvert af fiski, er Færeyingar og ýmsir aðrir áttu. Snjór er mikill i fjörðunum, en minni hér, þó er talsvert skefli.

Nóvember: Fremur óhagstæð tíð. Talin allgóð sums staðar suðvestanlands.

Skuld segir enn af illviðrunum í pistli þann 2.nóvember:

Í áfellinu, er vér gátum um síðast, (í nr. 11) hafa orðið talsverðir skaðar hér eystra, einkum (að því er virðist) hér í Reyðarfirði og norður af, en síður fyrir sunnan. — Bátar fuku víða, eða tóku út af sjó, vér höfum frétt um 6 hér í hreppi og 7 í Norðfirði (en nokkrir þeirra hafa aftur fundist meir eða minna skemmdir); á Seyðisfirði munu og 6—7 bátar hafa tapast. Fé fennti helst hér í hreppi, nokkuð á innsveit í Reyðarfirði, en mest hér í Eskifirðinum. Einn bóndi mun hafa misst um 100 fjár, og tveir um eða nær 40 hvor. — Snjó hafði tekið nokkuð af láglendi hér, uns aftur er tekið til að snjóa hér í dag (1.nóv.) Fjöll öll ófær með hesta og færðin fyrir gangandi ekki góð á Eskifjarðarheiði.

Þann 6.febrúar 1878 birti Norðanfari bréf úr Steingrímsfirði, dagsett 12.nóvember:

Sumarið var framan af kalt og gróðurlítið. Fyrir sláttarbyrjun hófust blíðviður og þerrrar, er hélst við allt fram um fjallgöngur, grasspretta varð furðanlega mikil, heyskapur góður og nýting eins. Eftir fjallgöngur breyttist tíðarfarið, mjög til hins lakara, með fellibyljum og fannkomu. 10.október gjörði hér mesta hastbil, þann dag drukknuðu 4 menn úr Hrútafirði, sem voru héðan á heimleið, hlaðnir með kolkrabba, bátinn rak upp í Guðlaugsvík, þar er hann átti heima.

Skuld segir þann 17.nóvember:

Síðan síðasta blað kom út hafa hér gengið umhleypinga-rosar og rigningar. Nokkuð af fé því, er fennti í áfellinu í haust, er nú daglega að koma undan fönn, flestallt dautt.

Þjóðólfur segir þann 27.nóvember:

Haustveðráttan hefur verið mjög köld um allt land; einkum eru stormarnir fyrri hluta október minnisstæðir; héldu þeir „Diönu“ inni á Seyðisfirði til hins 17. s.m. Hér um Suðurland og víðar gengu samt blíðviðri mikil fyrir og eftir mánaðamótin, október og september, og stöðug fjallátt með hrími og hélu. Jörð hefur því snemma orðið köld, létt og óholl.

Ísafold segir af tíð og strandi þann 30.nóvember [er væntanlega 30.október]:

Veðrátta hefir verið stirð hér syðra (og víðast um land) í haust og vetur það sem af er; umhleypingar með stórviðrum og frosti öðru hvoru, eigi miklu þó (um 6°R mest), og fjúk allmikið núna síðustu vikuna.

Hinn 12. þ.m. sleit upp á Sauðárkrók kaupskipið „Germania" (skipstj. Lehnkul), nýfermt 600 tunnum af kjöti, og miklu af tólg og gærum. Strengirnir slitnuðu hver eftir annan og hleypti skipstjóri því upp í sand; kaðalstreng var fleytt í land á ár, og á honum voru svo skipverjar allir 6 dregnir í land, gegnum brimgarðinn, hver eftir annan. Morguninn eftir molaðist skipið í spón og náðist eigi af farminum óskemmt nema einar 4 tunnur af kjöti. Skipverjar voru fluttir hingað suður undir eins, nema skipstjóri varð eftir. — Enn fremur strandaði i haust, 27. september, verslunarskip á Papós.

Skuld birti þann 16.febrúar 1878 bréf úr Skagafirði, dagsett 24.nóvember:

Næstliðið sumar var mjög kalt oftast, grasvöxtur í minna lagi, en nýting góð; heyskapur þó víðast með minna móti; haustið í betra lagi, með sunnan þíðum til þess 10. [október], þá gekk veðrið til norðurs með mikilli snjókomu, síðan hefir oftast verið norðan- og austanátt, stundum með bleytum af þeirri átt, og svo snjókomum á milli, svo það má heita jarðlaust að kalla.

Þjóðólfur segir þann 8.janúar 1878 af strandi á Ströndum þann 28.nóvember:

Kjötskip hinna norðlensku kaupmanna hafa haft litlu láni að fagna haustið sem leið. 28. nóv. rak í strand fram undan Þaralátursnesi á Ströndum skipið „Verðandi“, ... ; það kom frá Borðeyri með sláturfarm, og ætlaði til Björgvinjar. Skipverjar komust lífs af, en 12 stundir höfðu þeir orðið að fyrirberast á skeri því, er skipið strandaði á, áður en þeir björguðust til lands. Litlu af farminum þótti líklegt að yrði bjargað, enda var skipið mjög brotið. Ætlaði sýslumaður ísfirðinga að takast þá torveldu ferð á hendur að halda þar uppboð; staðurinn liggur mjög nærri sýslumótum, og eru vegir þar um Strandirnar illfærir eða ekki á vetrardag. 

Þann 6.febrúar 1878 segir Þjóðólfur enn af strandi - þann 27.nóvember:

Seint í nóvember strandaði enn eitt af haustskipum Norðlendinga, það var Gránufélagsskipið „Gefjun“, skipstjóri Ludvig Petersen (sonur hins alkunna gamla sjógarps, er stýrir Gránu). Fórst þetta skip eftir langa hrakninga 27.nóvember við svonefnd Æðarsker út og vestur af Siglufjarðarmúla. Varð engu borgið, en fátt eitt af varningi rak í land, svo og lík stýrimanns. Fórust þar skipverjar allir 5, og einn íslendingur, Eggert Jónsson, sonur séra Jóns á Mælifelli.

Desember: Snjóasamt með köflum og hryðjusamt veður, sérlega síðari hlutann.

Norðlingur segir fréttir hingað og þangað að þann 5.desember:

Fyrir nokkrum dögum kom hingað maður vestan úr Eyrarsveit við Breiðafjörð; sagði hann fremur harða tíð á Vesturlandi, snjólétt víða en áfreður miklar, og það bœði vestra og í nær sýslunum; en varðist að öðru leyti allra frétta nær sem fjœr. — Fyrir þrem dögum kom hingað maður vestan úr Skagafirði og sannaði hann sögu vestanmanns um áfreður nokkrar í Skagafirði, einkum í Hólminum en hafi hlákan (2. þ.m.) náð þangað, þá hélt hann að þar mundi nú auð jörð, því snjór var hvergi teljandi. — Af strandinu á Sauðárkrók sagði hann, að einum 9 kjöttunnum hefði orðið bjargað, þó nokkuð brotnum, en ketstykkin og gæruræflarnir hefðu rekið víðsvegar um sandinn, og skip brotið í spón; og mun þetta strand, hvað varning snertir eitt með hinum hroðalegustu. Rétt fyrir næstliðna helgi kom hingað maður norðan af Langanesi og sagði hann allgóða tíð þar nyrðra og næga jörð á Sléttu, í Þistilfirði og á Langanesi, og hinar síðarnefndu sveitir því nær blóðrauðar. — Í Vopnafirði er oss skrifað að hafi brotnað í ofviðrinu í haust nálægt 25 bátar, 100 fjár hafði farist frá einum bæ í Hróarsstungum, (Rangá) í Lagarfljót, og um 70 fjár frá Hallgilsstöðum á Langanesi, sem fennti og hrakti til dauðs. 

Skuld lýsir tíð í nokkrum pistlum í desember:

[1.] Hér hafa þessa viku gengið snjóblotaveður, síðan lítið frost og fannkoma, og er nú altekið fyrir jörð hér um firðina.

[8.] Veðráttan var vikuna sem leið, eins og vant er í vetur, frost, steypirigning, rosa-stormur með fjúki og frosti. Þetta, á víxl upp og aftur látlaust, er sú veðrátta, sem við höfum haft síðan síðari hluta októbermánaðar.

[15.] Veðráttan hefir verið lík og að undanförnu, þar til í fyrradag að gekk í frost og hreinviðri. Reki. Það er óvanaleg rekatíð hér í Reyðarfirði um þessar mundir. Timbur stærra og smærra en sumt mjög stór tré, hefir verið að reka hér á suðurbyggð í Reyðarfirði, allt inn undir Hafranes; mest hefir kveðið að rekanum á Vattarnesi. Í Hafnarnesi í Fáskrúðsfirði hefir og rekið eitthvað af trjám og jafnvel í Vík, að oss er sagt. Því miður hafa engir af þessum bæjum, hvorki hér né í Fáskrúðsfirði skrifað oss um þetta.

[31.] Síðan miðjan þ.m. hafa verið stöðug frost, og að mestu leyti hreinviðri; grimmast varð frostið dagana fyrir jólin og um þau sjálf, 12 til 13 gr. á Réaumur hér á Eskifirði, en 14 til 16 gr. í Fljótsdal. — Stálfæri kom um fjöll og byggðir fyrir menn og hesta. — En 28. þ.m. gekk til þíðu, og 29. í húðarrigningu, og mun færð á fjöllum hafa mjög spillst við það. Í gær og dag hægt frost.

Skuld birti bréfbút úr Skriðdal þann 31.desember, bréfið dagsett þann 13.:

Harðindalegt er tíðarfarið og enn er hér sumstaðar orðið rétt að segja haglaust. Það má kalla að hér sé ókleyfur snjór bæja milli, hvað þá yfir fjöll.

Skuld birti þann 4.mars 1878 tíðarlýsingu ársins 1877 úr Norðfirði:

Fréttir af árinu 1877 úr Norðfirði. Fyrsta janúar var norðan-snjógarður með frosti allmiklu; en nóttina milli 2. og 3. gjörði svo mikinn snjó á 12 tímum, að menn mundu varla annan eins á svo stuttum tíma, og upp frá því var fremur hart; einkum var voðalegur kafaldsbylur á laugardaginn fyrir páska, og þaðan frá til sumarmála mestu snjókomur. En með sumarmálum gekk til sunnan-hláku og gjörði góðan bata, enda voru margir komnir í þröng með hey. En fremur varð kalt vorið, en gripahöld góð. Sumarið var allt kalt og oft frost á nóttum, bæði í júlí og ágúst; en með septemberbyrjun kom regluleg sumartíð, sem hélst til 10. október. Gekk þá í stóran kafaldsbyl með miklum sjógangi og ofsa hvassviðri; brotnuðu þá 6 bátar alveg, en 4 löskuðust. Fjárheimtur urðu úr því fremur bágar hér í sveit, en enginn úrtöku missir. Með vetri gekk til snjó-bleytna, en alveg til hláku með Marteinsmessu [11.nóvember], sem hélst til sólstöðva. Þá gekk til frosta og snjóhríða, svo það mátti kalla jarðlaust á gamlársdag yfir allan hreppinn. ... Tún spruttu i meðallagi og eins mýrarengi, en vallarengi illa. Heyskapur varð laklega í meðallagi, en nýting fremur góð; en hætt er við að hey hafi skemmst í haust-hröngviðrunum hjá mönnum, og hjá flestum nóg sett á, ef veturinn gengu nú í garð. Trjáreki hefir verið talsverður á kirkjulandinu Búlandi, og svo er líka sagt að rekið hafi talsvert í Viðfirði og nokkuð í Sandvík og Barðsnesbæjum, svo það hefir ekki í nokkur undanfarin ár eins mikið rekið. Að endingu má segja að þetta hafi verið meðalár. Skrifað á gamlársdag 1877.

Þjóðólfur segir þann 21.desember:

Síðan viku áður en póstar fóru hafa hér gengið útsunnan hroðar miklir; þó var hér allgott veður 12.—15. þ.m., fóru þá nokkur skip í fiskileitir suður í Garðsjó; hafa sumir orðið vel varir, sem aftur eru komnir, svo menn ætla, að nokkur fiskur sé kominn, en gæftir hindra.

Norðanfari birti þann 6.febrúar 1878 bréf úr Fljótum, dagsett 31.desember:

Hér í Fljótum hefir verið jarðlaust síðan um veturnætur, að heita má, því þá dyngdi niður þeirri fjarska fönn, að blotinn á dögunum varð að litlu eða engu liði, en við sjóinn hafa sauðir fengið dálitla björg úr fjörum allt að þessum tíma. Nokkuð varð vart við trjáreka í hríðunum fyrir jólaföstuna, en minna en viða annarstaðar, af því að sjóarjarðirnar hér liggja illa við í austrænum; á Keldum í Sléttuhlíð rak mjög mikið og víðar þar inn með töluvert.

Þann 23.desember 1885 segir Jónas Jónassen frá jólaveðri í Reykjavík 1877: „Hvass á norðan með skafrenningi; 10° frost; nokkur snjór eftir undangangandi útsynninga“.

Lýkur hér að sinni yfirferð hungurdiska um veðurfar ársins 1877. Ýmsar tölulegar upplýsingar eru í viðhengi.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Leiðindi frá skemmtideildinni

Skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar sendir ekki aðeins frá sér öfgafullar (örvæntingar-) hitaspár heldur bregður óttalegum kulda stundum fyrir þar líka. Þannig er það nú - hitaspár háloftanna eru heldur kuldalegar þessa dagana. Sem dæmi er hér spáin sem gildir á sunnudaginn kemur, 11.ágúst.

w-blogg070819a

Jafnþykktarlínur eru heildregnar, en litir sýna hita í 850 hPa. Hvort tveggja er í allra lægsta lagi fyrir fyrri hluta ágústmánaðar. Lægsti hiti sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli á þeim tíma er -4,5 stig (6.ágúst 1983) og minnsta þykktin 5290 metrar (3.ágúst 1958). Í endurgreiningum eru lægstu þykktartölur yfir landinu fyrri ágústmánaðar 5280 metrar (9.ágúst 1949). Allt neðar en -4 stig í 850 hPa er því sárasjaldgæft yfir Keflavík og þó sú þykkt sem hér er verið að spá, 5310 m, sé ekki met (í fyrri hluta ágúst) er hún samt sérlaga lítil. Bandaríska spáin er ekki alveg jafnköld - en gerir „betur“ á þriðjudag eftir viku og spáir þá metkulda. 

Öfgavísir reiknimiðstöðvarinnar sýnir líka óvenjulegan kulda á laugardag og sunnudag - og reyndar líka óvenjulega úrkomu sums staðar um landið norðanvert á sunnudag. 

Nú er það svo að spár svona marga daga fram í tímann gera meira úr bæði hita og kulda (og stundum úrkomu líka) heldur en náttúran sjálf lætur síðan eftir sér. Við skulum vona að sú verði líka raunin nú. Landið er hlýtt og sjórinn líka.  


Smákuldapollafjöld

Svo virðist sem nú taki eitthvað kaldara tímabil við í veðrinu. Fjöldi lítilla kuldapolla er á sveimi á stóru svæði á Norður-Atlantshafi og langt í mjög hlýtt loft.

w-blogg040819c

Þeir sjást vel á korti sem sýnir mættishita í veðrahvörfunum (mældur í Kelvinstigum) síðdegis á morgun (spá evrópureiknimiðstöðvarinnar). Hann er að nokkru mælikvarði á það hversu langt er frá 1000 hPa upp i veðrahvörfin. Því kaldara sem loftið er undir þeim því lægra liggja þau. Örvarnar benda á köldu blettina - þar sem veðrahvörfin liggja neðarlega. Raunar koma aðeins tveir þeirra við sögu hér á landi í bili að minnsta kosti. Sá sem er fyrir vestan land er að fjarlægjast - olli ekki miklu veðri hér á landi - en tók þó frá okkur mesta hitann. 

Hinn kuldapollurinn sem skiptir okkur máli er sá stærsti þeirra. Er á kortinu norðaustur af Jan Mayen og þokast næstu daga í átt til okkar - og kemur með mun kaldara loft með sér heldur en það sem við höfum notið upp á síðkastið. Langt er í mikil hlýindi. 


Fleiri sundurlausar júlítölur - (meðalhámarkshiti og fleira)

Á dögunum huguðum við að hæsta meðalhita júlímánaðar - en í dag lítum við á hæsta meðalhámarkshita mánaðarins. Það er þannig fengið að reiknað er meðaltal hámarkshita alla daga hans. Lítið var um hámarksmæla á íslenskum veðurstöðvum fyrir 1925. Aðalástæðan er sú að þeir brotna mun oftar en aðrir mælar - það þarf að taka þá út úr mæliskýlinu eftir hvern aflestur og slá þá niður - rétt eins og þá hitamæla sem notaðir voru til að mæla sótthita (og stöku maður notar til þess enn þann dag í dag). Tíma tók að koma tilkynningum um mælabrot til Danmerkur - og að senda nýjan mæli á stöðina í stað þess brotna.

Auk þessa hefur verið nokkuð hringl í gegnum árin með það sem kallað er aflestrarhættir - við höfum fjallað um það vandamál nokkrum sinnum hér á hungurdiskum. Tímaraðir meðalhámarksmælinga eru því oftast bæði gisnar auk þess sem í þeim eru alls konar brot og beyglur. - Þó mælir alþjóðaveðurfræðistofnunin með því að mánaðarmeðalhiti skuli reiknaður sem meðaltal meðalhámarks- og meðallágmarkshita - sem er svosem í lagi ef engar breytingar eru gerðar á lestrarháttum og nýir mælar ætíð til staðar þegar slys verða. En - til viðbótar þessu er hámarkshiti hvers dags „viðkvæmasti“ hiti dagsins - við höfum líka fjallað um geislunarvandamál og þess háttar í alllöngu máli hér á hungurdiskum. Sú er skoðun (en bara skoðun) ritstjóra hungurdiska að (smámunasamur) hámarkshitametingur sé aðallega (gott) skemmtiatriði sem ekki megi taka allt of alvarlega. 

Það sem hér fer á eftir er heldur ruglingsleg staðreyndahrúga - beðist er velvirðingar á framsetningu. 

Við reynum að spyrja hver sé hæsti meðalhámarkshiti júlímánaðar á landinu - en jafnframt sættum við okkur við það að svarið sé kannski ekki mjög áreiðanlegt. 

Við flettum hæsta meðalhámarkshita júlímánaðar upp og fáum svarið, 21,8 stig á Grímsstöðum á Fjöllum í júlí 1927. Næsthæsta talan er frá Húsavík árið áður, í júlí 1926 20,8 stig og þriðja hæsta talan 19,7 stig á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði - líka í júlí 1927. 

Tíð var góð á landinu í júlí 1927 - og sólin skein glatt norðaustanlands - kannski of glatt fyrir hámarkshitamæla og skýli. Þó mælarnir á Grímsstöðum og Þorvaldsstöðum hafi alls ekki komið illa út í samanburði við aðra mæla (í ísvatni) er afskaplega grunsamlegt - svo ekki sé meira sagt - hve mikill munur er á hámarkshita dagsins og hita sem mældur var með venjulegum mæli kl.15 (að okkar tíma). Yfir hásumarið er þessi munur venjulega ekki mörg stig. - En það er óþægilegt að sitja uppi með meðaltöl af þessu tagi í fanginu. 

Hæstu meðalhámarkstölur sem við sjáum síðar eru heldur lægri. Í hitabylgjumánuðinum júlí 2008 var meðalhámarkshiti á mönnuðu stöðinni í Hjarðarlandi í Biskupstungum 18,7 stig og 18,5 stig á sama stað í júlí 1991.  Hæsta tala á sjálfvirku stöðvunum er frá Þingvöllum 2008, 18,5 stig, og 18,4 í Hjarðarlandi sama ár (0,3 stigum lægra en meðaltal mönnuðu stöðvarinnar í sama mánuði). Á vegagerðarstöðvunum er hæsti meðalhámarkshitinn í Skálholti 17,4 stig - en „hámarkslestrarhættir“ vegagerðarstöðvanna skila ívið lægri meðalhámörkum heldur en hinar hefðbundnu sjálfvirku stöðvar gera (það eru strangt tekið engar hámarksmælingar á vegagerðarstöðvunum). Ritstjórinn hefur ekki reiknað þennan mun út (en hann eða einhver annar ætti kannski að gera það). 

Hæsti hámarksmeðalhita í júlí í Reykjavík er 17,0 stig - í nýliðnum júlí. Hann var litlu lægri 2010, 16,9 stig. Meðallágmarkshiti í Reykjavík í júlí var 10,7 stig, var 10,8 stig í júlí 1991. 

Lægsti meðalhámarkshiti á veðurstöð í byggð í júlímánuði er 6,8 stig. Þannig var staðan í Grímsey 1879. Á fjöllum er lægsta meðalhámarkið 3,4 stig, reiknast á Gagnheiði í júlí 2015.

Meðallágmarkshitinn í Reykjavík 1991 er sá næsthæsti sem vitað er um á landinu, sá hæsti er frá Görðum í Staðarsveit í sama mánuði, júlí 1991, 11,0 stig. Hann var jafnhár (11,0 stig) í Surtsey í júlí 2012. Á fyrri tíð er hæsti meðallágmarkshiti júlímánaðar frá Lambavatni 1950, 10,7 stig. Í júlí (og ágúst) 2010 fór lágmarkshiti sólarhringsins aldrei niður fyrir 10 stig í Surtsey í 33 daga í röð [frá og með 18.júlí til og með 19.ágúst]. Trúlega lengsti samfelldi tími ofan 10 stiga á íslenskri veðurstöð. 


Af tveimur reikniaðferðum

Í pistli dagsins lítum við á nokkuð skrýtið - hvað það er kemur ekki í ljós fyrr en aftast í pistlinum - eftir þó nokkurn þrautalestur. 

Hægt er að reikna mánaðarmeðalhita á ýmsa vegu. Íslenska og danska veðurstofan hafa ætíð notað aðferðir sem byggja á athugunum á föstum athugunartímum (kannski sú danska sé hætt því - ekki er ritstjórinn alveg viss). Þessum aðferðum hefur verið lítillega breytt í tímans rás en þær hafa gefist vel, og til þess að gera auðvelt er að samræma þó breytingar eigi sér stað, t.d. í athugunartímum. Á stöðvum þar sem athuganir eru gerðar á þriggja stunda fresti allan sólarhringinn er mánaðarmeðaltalið einfaldlega meðaltal allra athugana mánaðarins. Þannig hefur meðalhiti í Reykjavík verið reiknaður allt frá 1949 að telja. Árin á undan - allt frá stofnun Veðurstofunnar var meðalhitinn reiknaður út frá mælingum með sírita sem kvarðaður var með samanburði við athuganir á hverjum degi. Eftir hver mánaðamót var mánaðameðaltal hita á 12 föstum tímum sólarhrings og mánaðameðaltalið var þá meðaltal þeirra 12 talna. Sáralítill munur er á meðaltali 8 og 12 athugana á sólarhring - og líka 24 athugana. 

Þessi danska hefð var þó aldrei alveg alþjóðleg. Aðrar aðferðir voru notaðar, bæði kom fyrir að meðaltöl náðu alls ekki til næturhitans (og veldur því að oft þarf að gera allstórar leiðréttingar eigi þau meðaltöl að vera sambærileg við þau sem nú eru reiknuð). Víða er meðaltal reiknað með því að taka einfaldlega meðaltal meðaldægurhámarkshita og lágmarkshita sólarhringsins. Við samanburð kemur í ljós að litlu munar á aðferðum dönsku hefðarinnar og hámarks- og lágmarksmeðaltalsins. 

Af einhverjum ástæðum tók alþjóðaveðurfræðistofnunin upp á því fyrir fáeinum áratugum að mæla sérstaklega með hámarks- og lágmarkshitaaðferðinni (við kennum hana hér eftir við stofnunina (WMO)). Eitthvað mun hafa verið um að veðurstofur féllu frá eldri aðferðum og tóku upp þá sem mælt var með - það er miður - finnst ritstjóra hungurdiska. 

Fyrir 1949 var nokkuð hringl í gangi hér á landi (og víðar) með það hvernig sólarhringhámörk og lágmörk voru skráð (aflestrarhættir misjafnir). Það þýðir að mánaðameðaltöl hámarks- og lágmarks eru ekki alveg sambærileg hér á landi fyrir og eftir þann tíma. Hver stöð þarf sérmeðhöndlun í slíkum samanburði. Í Reykjavík virðist þó ekki vera ástæða til stórra vandræða þessa vegna. Meðalhitavandamál í Reykjavík tengjast fyrst og fremst flutningum stöðvarinnar. 

En við skulum nú bera saman þessar tvær reiknireglur - danskættuðu aðferðina (sem við kennum þó við Veðurstofu Íslands) og aðferð WMO. Fyrri mynd dagsins nær aðeins aftur til 1949.

w-blogg040819a

Hér má sjá júlíhita í Reykjavík - nokkuð línukraðak. Bláu súlurnar sýna hitann reiknaðan með aðferð Veðurstofunnar, rauðu krossarnir hita sömu mánuði með aðferð WMO. Við sjáum að hefði Veðurstofan notað síðarnefndu aðferðina hefði meðalhiti júlí 2019 reiknast 13,8 stig, en ekki 13,4 eins og hann þó var. Þetta er út af fyrir sig í lagi - hefðum við alla tíð (aftur á 19.öld) notað sömu aðferð - svo virðist alla vega í fljótu bragði. Á myndinni má líka sjá 10-ára keðjumeðaltöl, græn og bleik lína. Svo virðist sem græna línan (WMO-meðaltöl) fjarlægist smám saman þá bleiku (VÍ). Ef við reiknum leitnina (athugið samt að hún er merkingarlaus hér - t.d. vegna hlýskeiðsins á undan - sem við sleppum). Samkvæmt VÍ-meðaltölunum reiknast hlýnunin 1,7 stig á öld, en 2,1 stig beitum við aðferð WMO. 

Síðari myndin sýnir hvernig þessi munur aðferðanna hefur þróast. Vegna þess að nú er okkur sama um meðaltölin sjálf - við höfum aðeins áhuga á mismun aðferðanna - getum við farið alveg aftur til 1920 - þegar byrjað var að mæla hámarks- og lágmarkshita í Reykjavík á svipaðan hátt og nú - og byrjað var að reikna mánaðarmeðalhita nærri því eins og nú er gert.

w-blogg040819b

Þessi niðurstaða kemur nokkuð á óvart - (eitthvað er einkennilegt við annað hvort meðaltalið í júlí 1928 og athuga má það nánar), en annars virðist sem munur á aðferðunum tveimur aukist nokkurn veginn jafnt og þétt í gegnum tíðina. Þetta hleypir að þeirri óþægilegu hugsun að hefði Veðurstofan alla tíð notað aðferð WMO (enginn hefði gert athugasemd við það) væri meðalhiti júlímánaðar síðustu 10 ára um 0,4 stigum hærri en hefðbundnir reikningar segja okkur - reikningar sem við erum viss um að eru réttari. 

Hvort þessi niðurstaða á aðeins við um júlímánuð - og aðeins Reykjavík skal alveg ósagt látið. Ekki skal heldur fimbulfambað hér um ástæður þessa. 


Fyrstu 14 vikur sumars

Ritstjóri hungurdiska var spurður um það hver meðalhiti í Reykjavík hefði verið frá sumardeginum fyrsta í ár. Hér að neðan verður þeirri spurningu svarað - sömuleiðis lítum við á fjölda sólskinsstunda á sama tíma. Hentugt var að reikna meðalhita og sólarsummu fyrstu 14 vikur sumars, 15. vika byrjaði á fimmtudaginn (1.ágúst). Tvo hlýja daga vantar þá upp á allan tímann (þegar þetta er skrifað). Við verðum að hafa í huga í samanburðinum hér að neðan að árið 2019 hefur ákveðna forgjöf umfram mörg önnur ár því sumardagurinn fyrsti var seinn í ár, bar upp á 25.apríl. - En hvað um það.

w-blogg030819a

Svarið er einfalt - fyrstu 14 vikur sumars eru þær hlýjustu á mælitímabilinu í Reykjavík, meðalhiti var 10,5 stig, næsthæstur var hann 10,3 stig 1941. Þá bar sumardaginn fyrsta upp á 24.apríl - þannig að árin keppa nokkurn veginn á jafnréttisgrundvelli hvað þetta varðar. Kaldastar voru vikurnar 14 árið 1979 - kemur svosem ekki á óvart, en rétt að taka fram að þá bar sumardaginn fyrsta upp á þann 19.apríl - sem dregur meðaltalið trúlega nokkuð niður í þessum samanburði. Aftur á móti er hitinn 1979 (5,9 stig) svo langt fyrir neðan næstlægsta gildið (6,3 stig, 1887) að vart kemur að sök (1887 bar sumardaginn fyrsta upp á 21.apríl).

w-blogg030819b

Sólskinsstundafjöldinn er líka mikill í ár (763), en þær hafa þó örfáum sinnum áður verið fleiri sömu vikur, flestar 1924 (852) og einnig mjög margar 2012 (848). Fæstar voru þær í fyrra, aðeins 344, ámóta og 1984 þegar þær voru 361. Mikil viðbrigði, og ólík eru þessi sumur tvö, nú og í fyrra. 


Meira um júlí

Þó hlýtt hafi verið í júlí var hitafar á landinu ekki óvenjulegt nema um landið suðvestanvert. Eins og fram hefur komið í fréttum var þetta hlýjasti júlímánuður mælisögunnar í Reykjavík, sá 11.hlýjasti (af 174) í Stykkishólmi, og 22.hlýjasti á Stórhöfða - á Austurlandi var hann í miðjum leik, í 33.sæti af 65 á Egilsstöðum. Á Hveravöllum var hiti mánaðarins hins vegar í 3.hlýjasta sæti (af 55) og telst í 3. til 4. sæti (af 140) í Árnesi. Meðalhiti í byggðum landsins reiknast 11,2 stig, 1,6 stig ofan meðallags júlímánaðar á árunum 1961-1990 og 0,6 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki enn reiknað þykktina yfir Keflavíkurflugvelli - en hún segir til um það hversu hlýtt hefur verið í neðri hluta veðrahvolfs. Í endurgreiningum reiknimiðstöðva lendir hún hins vegar í kringum 15.sæti síðustu 70 árin. Hér er því ekki um einstök hlýindi á landsvísu að ræða - vindáttir hafa verið íbúum á Suðvesturlandi hagstæðar. 

Það sjáum við líka á þrýstivikakorti evrópureiknimiðstöðvarinnar. Bolli Pálmason fær að vanda bestu þakkir fyrir kortagerðina. 

w-blogg010819ib

Jafnþrýstilínur (við sjávarmál) eru heildregnar, af þeim ráðum við ríkjandi vindáttir, en þrýstivik eru sýnd með litum, þau jákvæðu eru bleikleit, en þau neikvæðu blá. Norðaustanáttin greinilega talsvert sterkari en venjulega í júlí - hæðin yfir Grænlandi í öflugra lagi. Miðað við þessi vik getur komið á óvart að ekki skuli hafa verið kaldara norðaustan- og austanlands en raun ber vitni. Lauslegur samanburður (án ábyrgðar og nákvæmra útreikninga) virðist benda til þess að hiti hafi verið 1-2 stigum hærri en venjulega í þessari stöðu - og munar um minna. Meðalhiti á Egilsstöðum var 10,6 stig nú, kannski hefði hann átt að vera um 9 stig. 

Að einhverju leyti má finna ástæður hlýindanna suðvestanlands og þess að hiti var ofan væntinga norðaustanlands í háloftunum.

w-blogg010819ia

Hér má sjá stöðuna í 500 hPa, meðalhæð og vik. Hæðin yfir Grænlandi var sum sé af hlýju gerðinni að þessu sinni. Gríðarmikil jákvæð vik við Grænland norðaustanvert - og vestanátt mun veikari en venjulega yfir Íslandi - algjör áttleysa raunar. Það segir e.t.v. ekki mikið en síðustu 70 ár hefur vestanáttin aðeins 9 sinnum áður verið jafnveik í júlí og nú, þar af 6 sinnum á síðustu 13 árum, en aðeins þrisvar 57 árin þar á undan - allt auðvitað gæðamánuðir á Suðvesturlandi - sístur þó júlí 1988. Aftur á móti mikill skítur oftast eystra. Fyrir veðurnördin skal hinna getið líka: 1950, 1960, 2007, 2008, 2009, 2010, 2015, 2016  - auk júlí nú. 

Það er um það talað að umframhlýnun á norðurslóðum valdi veikingu á vestanvindabeltinu - ekki síst að sumarlagi. Þó þær vangaveltur séu á veikum grunni er því ekki að neita að hin endurtekni slaki í vestanáttinni í júlí hér við land á þessari öld ýtir frekar undir grun um að eitthvað kunni að vera til í þessu. - En rétt eins má búast við að hér sé aðeins um tilviljanakennda „tískubólu“ að ræða. Vestanáttin var í allgóðu lagi í júlí í fyrra. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 22
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 513
  • Frá upphafi: 2343275

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 465
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband