Af árinu 1814

Ekki voru öll ár mörkuð harðindum á öðrum áratug 19.aldar. Meira mættum við þó vita um veðurlag ársins 1814 heldur en raun ber vitni. Hita- og þrýstimælingar voru gerðar á Akureyri allt til 18.ágúst en þá yfirgáfu dönsku strandmælingamennirnir höfuðstöðvar sínar eftir nærri því sjö ára dvöl (og ferðalög). Af annálum og aðgengilegum dagbókum má ráða að árið hefur verið tiltölulega hagstætt eftir því sem gerðist. Giskað er á að meðalhiti í Stykkishólmi hafi verið um 3,6 stig (nærri meðallagi 1961-1990), en ef til vill nærri 5 stigum í Reykjavík. Janúar var mjög kaldur um land allt, meðalhiti á Akureyri -11,0 stig, hiti í febrúar virðist hafa verið nærri meðallagi, en hlýtt var í mars. Sumarið var einnig hlýtt. 

ar_1814t

Myndin sýnir hita á Akureyri fram til 18.ágúst 1814. Mjög hörð frost voru í janúar. Sveinn Pálsson mældi hita dag og dag í Vík í Mýrdal um veturinn (ekki þó svo að hægt sé að reikna meðaltöl). Mesta frost sem hann getur um þar er -12,5°R [-15,6°C] þann 16.janúar og hart frost var í nokkra daga. Í athugsemd (sem væntanlega hefur verið bætt við síðar) nefnir hann -17 til -18 stiga frost í Reykjavík þennan sama dag [-21 til -22°C]. Kannski hefur Mr. Park gert mælinguna. Í frostakaflanum var mjög bjart veður í Vík og mikilla norðurljósa getið dag eftir dag. 

Síðari hluti vetrarins var hlýr, kuldakast nokkuð um miðjan apríl og aftur undir lok maímánaðar eftir mikil hlýindi fyrir norðan um 10.maí - um þær mundir var hann þykkur í Vík í suðvestanátt. Í kuldakastinu í maílok gerði næturfrost í Vík og vart varð við snjóleiðingar. Sveinn getur um næturfrost í Vík 22.september. Frostlaust var flesta daga eftir 8. desember í Vík. 

ar_1814p

Myndin sýnir loftþrýsting á Akureyri frá ársbyrjun fram til 18.ágúst. Hár þrýstingur fylgdi kuldunum í janúar (mönnum virðist bera saman um að þeir hafi verið stilltir). Þrýstingur var sömuleiðis hár í maí, en með lægra móti frá því fyrir miðjan júní og þar til mælingunum lýkur - bendir kannski til þess að einhvers staðar á landinu (að minnsta kosti) hafi verið votviðrasamt.  

Annáll 19.aldar lýsir tíð og veðri svo: 

Veturinn frá nýári var víðast allgóður, þó var mikið ofviðri syðra 24.janúar er ásamt sjógangi gjörði mikinn skaða á húsum og skipum. Vorið var gott, en þurrt til þingmaríumessu [2.júlí], kom þá hagstætt grasviðri og heyjaðist vel í meðallagi með nýtingu ákjósanlegri. Haustið var hagstætt fram í nóvember, gjörði þá hinn 7. ofviðri nyrðra er vann mikinn skaða á sauðfé, húsum, heyjum og förum. Frá því til jóla linnti víða eigi hríðum og jarðbönnum. Svo var besta tíð síðustu viku ársins. Fiskafli var mjög rýr kringum allt land nema í Múlasýslum, þar var hann talinn góður. Sex hundruð marsvín rak í Breiðuvík undir Jökli, hundrað í Nesvogi hjá Stykkishólmi og nokkur í Veiðileysu á Ströndum. 

Það er eitthvað lítið um heimildir af illviðrinu 24.janúar og skaða í því, ekki var illt í Eyjafirði þennan dag - en allhvass um kvöldið í Vík. Sveinn getur hins vegar um norðaustanstorm í Mýrdalnum þann 7.nóvember. 

Annállinn telur fjölda mannskæðra slysa. Aldrei þessu vant er margra dagsetninga getið og því getum við þeirra hér. Fjórir drukknuðu þann 25.janúar af fari af Akranesi, þrír komust lífs af. Þann 22.mars fórust fjórir af fari frá Hlíð á Álftanesi. Þann 9.apríl drukknuðu 8 menn af fari frá Gufuskálum, einn bjargaðist - hálfum mánuði áður fórust fimm menn þar í sömu lendingu. 16.apríl hröktust mörg skip af Hjallasandi og rak inn með landi. Þann 25.apríl fórust átta af skipti frá Tröðum í Staðarsveit og þann 30. fórust þrír menn af báti frá Króksósi. Þann 14.nóvember fórust sex menn af skipi af Skagaströnd. Talsvert fleiri slys urðu á sjó og menn urðu úti - en dagsetninga ekki getið. 

Við reynum að rekja okkur í gegnum árstíðirnar með hjálp samtímaheimilda - tíðarvísur Þórarins í Múla og Jóns Hjaltalín eru þó aftan við. 

Vetur:

Brandsstaðaannáll: Í janúar stillt og frostamikið veður, lítil snöp til þorra, en þá komu hross á gjöf fram í miðgóu. Þar hjá var nóg hrossajörð í lágsveitum. Nokkrum sinnum í febrúar og mars gjörði ofsaveður af suðri, bæði hríð og blota. Seint á góu kom gæðabati og besta vortíð á einmánuði utan snjókast á skírdag [7.apríl] og þriðja í páskum [12.apríl]. Vetur varð góður og mildur í lágsveitum og yfir allt heyfyrningar, þar sem þær eiga sér stað.

Espólín: LXI. Kap. Vetur lá harla misjafnt á og voru blotar, slösuðust margir menn af hálkum um hann miðjan, en í Jökulsá í Skagafjarðardölum drukknaði Árni bóndi Jónsson sáttamaður, ..., hann hafði gengið á ána nokkru utar en ísbrú, sú er undir var. Víðast varð veturinn góður og vorið, og varð mönnum það til mikillar líknar, svo erfiðlega sem áhorfðist; var sótthætt mjög og kvefsamt allan veturinn, og allt það ár, dóu enn fleiri en fæddust, og drukknuðu af þeim 48, en nokkrir dóu í harðrétti. (s 70). Þá var harla lítill fiskafli fyrir sunnan, og dýrtíð mikil og harðindi, en fyrir vestan hjálpuðust innlendir af hvalfeng hinum mikla er þar var, og svo aðrir úr öðrum sveitum við höndlun í Stykkishólmi; var þar keypt mikil matvara frá Norðurlandi og víðar að, þó að ærið dýr væri, og kom það mörgum manni til lífs, með góðviðrum þeim er gengu. (s 71). 

Það er helst að ráða af dagbókum Jóns Jónssonar á Möðrufelli í Eyjafirði að janúar hafi verið merkilega stilltur að veðráttu og jörð hafi verið góð (þrátt fyrir frostin miklu). Hann getur þess að hafíshroði hafi verið við Hrísey, en meira útifyrir. Febrúar var allur yfir höfuð góður segir hann, fyrstu dagarnir þó óstilltir og mars góður að veðráttu, sífelldar þíður og blíðviðri. 

Vor:

Brandsstaðaannáll: Um sumarmál mátti rista og stinga til veggjagjörðar, ásamt alvinna að túni, en það var mót landsvenju að lúka því fyrr en í fardögum. Vorgæðin héldust til sláttar.

Jón á Möðrufelli talar vel um apríl og að maí hafi verið í meðallagi. Segir þó um undangengna viku þann 28.að hún hafi verið sárköld. 

Sumar:

Brandsstaðaannáll: Þá varð grasvöxtur ei meiri en í meðallagi, því löngum voru þurrkar og stundum næturfrost. Sláttur byrjaði 15. júlí. Varði hann nú í lengsta lagi, til gangna ... [vantar inn í handritið] september eður 8 vikur. Heyskapartíðin var hagkvæm, oftar þurrt og góður þerrir stundum, þó rekjur góðar meðfram. Graslítið þótti á árlega slegnu þurrengi.

Espólin: LXV. Kap. Þá lögðu margir menn sig eftir kályrkju og jarðeplarækt, meir en fyrr hafði verið, en sumir sáðu byggi, og spratt það nokkuð; var gott sumarið víða, en þó grasbrestur sumstaðar. (s 75). 

Bjarni Thorarensen tekur saman veðurlag ársins fram í ágúst í bréfi:

Reykjavík 26-8 1814 (Bjarni Thorarensen): Veturinn var harður og frostamikill allt fram í febrúarmánuð en síðan kom hvorki snjór né frost svo það mætti heita, og vorið hefir verið það besta menn muna. Grasvöxtur í meðallagi, en það sem af er slætti hefir nýting verið hin besta. Fiskafli í vetur enginn, en vorfiskerí sæmilegt. Fyrir vestan hefir undanfarið ár verið hið besta og þar hefir verið svo mikill hvalreki svo innbyggjarar hafa varla getað torgað ... (s69) 

Jón á Möðrufelli segir að júní hafi verið sæmilegur allt að sólstöðum, en oft næturfrost og nokkuð andkalt. Ekki var lágmarkshitamælir á Akureyri, en ekki getið um frost þar í júní. Júlí segir Jón góðan, en þurran og ágúst allan stilltan og góðan, aldrei mikil hvassviðri eða regn - og september talar hann líka vel um. 

Haust:

Brandsstaðaannáll: 26. september, mikið hret með storku og hagleysi 4 daga á eftir til útsveita. Berjavöxtur varð nú í mesta lagi. Fengu margir fylli sína af þeim í slægjunni. Gadd tók úr fjöllum venju fremur og ei síður en en árið 1800. Haustið var mikið gott til 7. nóvember. Skipti þá um með snjó og frostum. 26. varð jarðskarpt. Á jólaföstu stöðugar hörkur og sífelld köföld ytra. Þó hér yrði ei innistöður, var oft lítt beitandi. Um jólin sunnan góðviðri og auðir hnjótar. Ei var fremra almennt farið að gefa fé. Árferði fór nú batnandi. Gagn af sauðfé í besta lagi og heyafli nægur.

Espólín: LXVII. Kap. Á því hausti rak enn 100 smáhvali, samkynja þeim er áður komu vestra, við Þingvelli í Helgafellssveit, 500 fyrir sunnan Jökul. (s 76). LXVIII. Kap. Veðursældir voru miklar til þess á jólaföstu, þá gjörði snjóþyngsli fyrir norðan og víða annarstaðar. (s 77). 

Magnús Stephensen ritaði í ágúst 1815 bréf sem birtist í Annals of Philosophy 1815 (s395). Þar segir um árið 1814 - í lauslegri þýðingu:

Undragóðu sumri (1814) fylgdi illviðrahaust, með miklu regni og hrakviðrum. Frá októberbyrjun til loka desember kom mikill snjór og skörp frost og illviðratíðin hélst. 

Jón á Möðrufelli talar vel um haustið, segir m.a. að alautt hafi verið upp í háfjöll í október. Jón segir að lokum um árið að það hafi yfir höfuð verið gott í betra lagi upp á landið og stillt. 

Í tíðavísum Jóns Hjaltalín stendur m.a. þetta:

[Vetur telur hann góðan - en frosthörku þó í byrjun árs]:

Vetur góður gjörði ala
gripi best um landið vítt
þó var fóður fram til dala
fé og hestum gefið títt.

Frostin svæði fengu spenna
frónið hála varð sem gler
mátti bæði ríða og renna
rjáfur ála víða hér.

[Um vor, sumar og haust segir hann]:

Vorið stríðu varna náði,
vór innlenda jarðarfar,
sumarblíðu þjóðin þáði
því til enda hundadags.

Nýting góð á töðum tærðist
tún þó víða hétu snögg,
engja flóða fóður færðist
friðum hríða rakt af dögg.

Gott var haust en frónið fæddi,
fénað þann er úti gekk
Kára raustin næm þó næddi
norðan rann um skýja bekk.

Þórarinn í Múla hefur líka góð orð um árið (aðeins brot hér) og lætur þess m.a. getið að sumarið hafi verið eitt fárra alveg snjólausra í hans sveit (S-Þingeyjarsýslu):

Tóku' að sóast teiknin hörð
tæpum dró af kvíðann
færði' úr snjóafötum jörð
fögur góu blíðan.

Ísaklastri' á engan fjörð
ók hér fast að grundum
á hann brast og aldrei jörð
en ærið hvasst var stundum.

Veðurátt laða velsemd kann
voru glaða' aðsetri
einmánaðar öldin fann
árferð þaðan af betri.

Gæfu nýja görpum ól
gleði' af því og yndi
að hita skýjuð sumarsól
sveif með hlýjum vindi.

Sólskin mesta sælt og heitt
sveitin flest við undi
vorið besta eitthvert eitt
auðnu' ei bresta mundi.

Ljenti kæti loftið hreint
lítill nætur sorti
gróður rætast sýndist seint
samt, því vætur skorti.

Vikur tíu værðin léð
vífum hlý og þegnum
þingmaríu messu með
miðluðu skýin regnum.

...
Auðnan slynga eyddi móð
við útréttingu flesta
heynýting varð hýrri þjóð
hauður um kring sú besta.

Þar að gá ef þenktum vér
þrautum sjáum fróa
sumar af fáum eitt það er
að ei þágum snjóa.

...
Veitti lýðum votan koss,
við oss kvíða náði,
haustið síðan hagkvæmt oss
harkan stríð ei þjáði.

...
Lét þá hrapa loftið snjó
lánið skapa tíðir
fóðurtapan frekast bjó
frost á krapa-hríðir.

Sauðum fólu víðan vang
veslum skjóla-fúsum
fyrir jólaföstu-gang
fákar róla' að húsum.

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1814. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr árbókum Espólíns. Smávegis af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 150
  • Sl. viku: 1760
  • Frá upphafi: 2348638

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1541
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband