Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017

Hlýr júlímánuður (á landsvísu)

Júlímánuður var hlýr á landi hér. Meðalhiti í byggð reiknast 10,9 stig sem er 0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og +0,9 yfir meðallaginu langa 1931 til 2010. Raðast mánuðurinn í 24. sæti á 144ára hlýindalista. 

Landsmeðalhiti í júlímánuði 1874 til 2017

Hér er tíminn frá 1874 sýndur á mynd. Fyrir 1930 er töluverð óvissa í reikningum, en samt má segja að töluvert hafi hlýnað á síðari árum. Tíu ára meðaltalið 2007 til 2016 er merkt inn sem lárétt lína þvert um myndina. Fyrir 30 árum voru fáir júlímánuðir ofan þess meðaltals - en fjöldinn allur síðan. 

Hlýindunum var þó aðeins misskipt að þessu sinni. Hlýjast var um miðbik Norðurlands, en kaldast á Reykjanesskaganum en þar náði hiti ekki meðallagi júlímánaða undangengins áratugar. 


Hásumar á norðurhveli

Við lítum nú sem oftar á stöðuna í veðrahvolfi á norðurhveli. Þar ríkir hásumar um þessar mundir. Spákortið hér að neðan gildir síðdegis þriðjudaginn 1. ágúst og er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg300717a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og má af þeim ráða vindstefnu og styrk. Litir sýna þykkt, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það fer lítið fyrir bláu litunum - á þessum tíma árs hverfa þeir nærri því - þó mjög sjaldan alveg. Mörkin milli grænu og gulu litanna eru við 5460 metra, nærri meðalþykkt hér á landi á þessum árstíma. Heldur viljum við þó vera í þeim gulu. 

Hér við land má sjá myndarlegan og hlýjan hæðarhrygg yfir Grænlandi, en mikið lægðardrag austan og sunnan við land. Væg norðaustanátt ríkir hér í veðrahvolfi miðju. 

Inn á kortið hafa verið lauslega merktir tveir bláir hringir. Þeir eiga að sýna tvo vestanstrengi. Sá nyrðri og þrengri liggur í kringum Norðuríshafið. Um hann hringsóla nokkrir snarpir kuldapollar. Syðri hringurinn afmarkar hina hefðbundnum heimskautaröst - þar nærri ganga lægðir og lægðadrög til austurs. 

Á milli hringjanna er ólreglulegra svæði þar sem er jafnvel tilefni til austanátta - sérstaklega þar sem lengst er á milli. Þessi tvískipta staða er algeng á norðurhveli. 

Einhverjar hreyfingar eru á hringjunum og þeir nálgast og fjarlægjast á víxl auk þess að „anda“. Nú er um vika í þann tíma að afl þeirra beggja sé í lágmarki sumars. Það er þó einungis meðaltímasetning - hún er ekki sú sama frá ári til árs. Auk þess eru hringirnir ekki endilega í lágmarksvirkni á sama tíma. 

Venjulega er minni hringurinn fljótari að hefja undirbúning árstíðaskipta - þegar sól lækkar ört á lofti á norðurslóðum. Þegar líður á ágúst fara fellibyljir og annar „hvarfbaugshroði“ að auka dælingu á raka úr neðri lögum og upp í efri hluta veðrahvolfs - þá losnar þar mikill dulvarmi sem belgir hæðarfleti upp og bratti á milli hlýtempraða og tempraða beltisins vex - það bætir í syðri hringinn á myndinni - og hann aflagast. Hvort tveggja eykur líkur á snertingu hringjanna og lægðir taka að dýpka. Að meðaltali rýkur tíðni slíkra samskipta upp í kringum höfuðdag - nánast í þrepi. - Þau geta þó orðið bæði fyrr og síðar. 

Þó spáð sé norðlægum áttum hér á landi á næstunni eru þær þó ekki sérlega „illkynjaðar“ og verða það ekki nema að einhver kuldapollanna í Norðuríshafinu sleppi út úr hringnum - eða þá að hringurinn sjálfur nálgist okkur mun meira en nú er - sem gæti svosem gerst eftir viku eða svo. - En eins og áður sagði er tilhneiging til vægra austanátta í háloftum þar sem fjarlægðin milli hringjanna er hvað mest - með slíkum áttum gæti sæmilega hlýtt loft borist til landsins. 

Að sögn er evrópureiknimiðstöðin þó helst á því að norðlægar áttir veri ríkjandi í ágúst - en ástæðulaust er að velta sér upp úr slíkum spám - þeim skjátlast svo oft. 


Smávegis hitabylgjumetingur

Hitabylgjan sem gengið hefur yfir landið undanfarna daga má nú heita liðin hjá. Hún skilaði nokkuð háum tölum. Hæsta hámarkshita á landinu síðan 2012 og hæsta hámarkshita í Reykjavík síðan 2008. Auk þess gætti hennar í marga daga - og það á nokkuð lýðræðissinnaðan hátt yfir landið - flestir landshlutar fengu að minnsta kosti einn mjög hlýjan dag. 

Spyrja má hversu algengt þetta er eða óvenjulegt. Svarið auðvitað nokkuð loðið, ekki beinlínis algengt, en ekki heldur sér í lagi óvenjulegt. Gerist sum sé endrum og sinnum. 

Breytingar á stöðvakerfi og fyrirkomulagi athugana gerir nákvæman samanburð langt aftur í tímann heldur þvælinn og það sem hér fer á eftir eru varla merkileg vísindi. Það er þó auðvelt að telja hlýja daga og hafa slíkar talningar oft komið við sögu hér á hungurdiskum, síðast fyrir rúmum mánuði, 21. júní. Það kom fram að á tíma sjálfvirka kerfisins hefur 27. júlí verið líklegastur hitabylgjudaga. 

w-blogg280717a

Eins og sagði frá í pistlinum þann 21. júní reiknar ritstjórinn daglega út hlutfall stöðva sem náð hafa 20 stiga hámarkshita - tilgangurinn aðallega að sjá hvort eitthvað óvenjulegt er á seyði eða ekki. 

Daglegt hlutfall má svo rissa upp á mynd eins og þá hér að ofan. Lárétti ásinn sýnir tímann allt aftur til 1997 - en þá varð sjálfvirka kerfið nægilega þétt til þess að eitthvað vit sé í að nota það til vísitölugerðar af þessu tagi. Lóðrétti ásinn sýnir svo „hitabylgjuhlutfallið“. Bláu súlurnar sýna svo einstaka daga. Súlurnar eru mjög gisnar - aðeins fáeinar á ári ná upp fyrir 200 þúsundustuhluta. Hlutfallið nú náði hæst í rúm 300 stig - reyndar tvo daga, þann 24. og 26. júlí. 

Svipaður árangur náðist síðast í júlí 2013, árin 2014, 2015 og 2016 voru hitabylgjurýr. Við tökum strax eftir því að tvær hitabylgjur, önnur í ágúst 2004, en hin í ágúst 2004 bera höfuð og herðar yfir aðrar. Nýliðin hitabylgja er svona rétt hálfdrættingur á við þær - þó góð hafi verið. 

Við sjáum jafnframt að á þessu 21 ári sem hér er undir hefur vísitalan náð 300 stigum á 9 sumrum (stundum þá oftar en einu sinni). Hitabylgjan nú er því eitthvað sem ekki gerist árlega - en varla mikið sjaldnar en annað hvert ár að jafnaði. Hvort niðurstaða sú telst upplífgandi eða niðurdrepandi fer eftir eðlislagi hvers og eins - rétt eins og dæmið með hálffulla eða hálftóma glasið. 

Flestum hinum fornu veðurnördum sem mótuðust á kuldaskeiðinu alræmda finnst (með réttu) að hitabylgjum hafi mjög fjölgað miðað við það sem áður var - en þeir sem aðeins muna nýju öldina hafa tilhneigingu til að finnast síðustu ár nokkuð gisin og skortur vera á hitabylgjum - telja jafnvel að þær „eigi“ að koma árlega eða oftar. Í pistlinum margtilvitaða frá 21. júní er mynd sem sýnir vel hversu umskiptin milli kalda skeiðsins og þess hlýja voru mikil. 


Tilfærsla veðurkerfa

Nú gera spár ráð fyrir nokkurri hliðrun á veðurkerfum. Hún kemur vel fram á tíu daga meðalkortum evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg270717a

Hér má sjá hina almennu stöðu síðastliðna tíu daga. Háloftahæðarhryggur fyrir austan og norðaustan land og mikið lægðasvæði við Baffinsland. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en hæðarvik sýnd í litum, neikvæð blá, jákvæð bleik. Þetta er dæmigerð hlýindastaða á hvaða tíma árs sem er - sérstaklega þar sem vindur stendur af landi. Ástandið í 5 km hæð segir þó lítið um stöðu sjávarlofts sem getur ráðist inn á land og haldið hita í skefjum. 

Næstu daga eiga að verða mikil umskipti - hæðin á að hrökkva til vesturs (er reyndar þegar farin af stað) - en mikið lægðasvæði mun þá setjast að fyrir suðaustan land.

w-blogg270717b

Kortið sýnir spá fyrir næstu tíu daga. Hæðarhryggurinn á að meðaltali að sitja nærri Grænlandi - býsna stór vik þar - en sérlega mikil neikvæð vik við Bretland. Þetta þýðir mikið leiðindaveður þar um slóðir og inn á meginlandið þar austan við. Hér á landi kólnar talsvert - en allmargir góðir dagar ættu þó að sýna sig um landið sunnanvert. Nyrðra verður kuldalegra veðurfar - þó ekki sé spáð neinum sérstökum kuldum þar verða viðbrigðin eftir undangengna viku mikil. 

En þetta er auðvitað meðalkort - og spá þar að auki - einstakir dagar sýna annan svip og spár bregðast oftast þegar frá líður. Ef þetta er rétt er margra góðra daga að vænta í innsveitum Grænlands - og þar hefur hiti reyndar nú þegar komist í meir en 20 stig allra síðustu daga rétt eins og hér á landi. 


Af hlýindunum

Í dag komst hiti í 27,7 stig á Végeirsstöðum í Fnjóskadal. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu frá því að 28,0 stig mældust á Eskifirði þann 9. ágúst árið 2012. Harla óvenjulegt. Heildarhitabylgjuuppgjör verður þó að bíða miðnættis (og lengur verði ritstjórinn farinn að sofa þegar það berst). 

En öllu svalara var á höfuðborgarsvæðinu, hiti í Reykjavík komst þó í 16.9 stig - fór ekki alveg jafnhátt og í gær. Sjávarloft komið úr suðaustri yfir Bláfjöllin hefur haldið hitanum niðri. Uppi í Hvalfirði og Borgafirði hefur það ekki átt jafn greiðan aðgang - suðaustur- og suðurfjöllin þar sjónarmun hærri en þau sem skýla Reykjavík. 

Staðan sést mjög vel á háloftaathugun úr Keflavík á hádegi.

w-blogg250717a

Hér má lesa vind, hita og raka upp undir 5 km hæð (lóðréttur ás). Eins og venjulega á háloftaritum liggja jafnhitalínur skáhalt upp yfir myndina - frá vinstri til hægri. Rauða línan sýnir þá hitann (sú bláa daggarmark). Við jörð er hiti um 12 stig, fellur svo hratt upp í um 700 metra (yfir Bláfjallahæð) og er þar nærri 6 stigum. Þá koma hitahvörf - hiti stígur ört með hæð og litlu ofar er hann orðinn meiri en við jörð - og væri hægt að draga loftið þaðan og beint niður til jarðar myndu 20 stigin sýna sig (það lesum við af rauðu strikalínunum) - loft í 3 km hæð yrði um 30 stiga heitt væri hægt að ná því niður (sem ekki er hægt). 

Lengst til hægri á myndinni má sjá (daufar) vindörvar sem sýna suðaustanáttina, hún sýnist um 15 m/s nærri hitahvörfunum - flæðir yfir Bláfjöllin - og lyftir hvörfunum væntanlega eitthvað yfir fjallshryggnum. Þar fyrir ofan er hiti væntanlega í kringum 6 stig - orðið 12 stiga heitt yfir byggðum Reykjavíkur og nágrennis. En sólin hjálpar til að koma 12 stigunum upp í 16 þegar komið er á þann „leiðarenda“. 

Þetta (frekar) kalda loft er ekki fyrirferðarmikið að sjá á kortum.

w-blogg250717b

Hér má sjá greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegisstöðunni í 925 hPa-fletinum á hádegi. Flöturinn er í um 780 metra hæð yfir Reykjavík. Blettur af 5 til 6 stiga heitu lofti liggur hálfstíflaður við Suður- og Suðvesturland - en yfir landinu er 17 stiga hiti í þessari hæð - hitahvarfalaust þýðir það 17+8 = 25 stig þar undir. 

En kaldi bletturinn virðist hörfa til vesturs og á morgun á hlýja loftið að vera komið niður í Bláfjallahæð. 

w-blogg250717c

Spáin gildir kl. 21 annað kvöld (miðvikudag) - en þá verður enn kaldara loft farið að nálgast Norðurland - ekki þó komið alla leið. 

En gefur þetta þá meir en 20 stiga hita á höfuðborgarsvæðinu á morgun (miðvikudag)? Það er alls ekki víst - því önnur hitahvörf - enn þynnri gætu legið úti á Flóanum (engin Bláfjöll til að verja gagnvart því lofti taki það upp á því að flæða inn). Nema að það loft myndi e.t.v. ekki ná upp í Bláfjöll.

Harmonie-spá Veðurstofunnar sem gildir kl.18 á morgun (miðvikudag) sýnir þetta örþunna lag vel.

w-blogg250717d

Örin bendir á leið þess inn sunnanverðan Faxaflóa og segir líkanið það vera 9 stig. En fyrst þarf að hreinsa kalda loft dagsins í dag á brott (með vindi og sól) - takist það er von um hlýindi - en aðeins ef flóaloftið kemur ekki til skjalanna áður en búið er að losna alveg við það. Hin harmonie-spáin - sú danska gefur hlýindunum enn minni tíma en þessi.

En það er svo annar möguleiki á fimmtudag - kannski verður hann hafgolulítill? 

Þess má geta - svona í framhjáhlaupi - að í gær (mánudag) fór hiti í Stykkishólmi í 20,9 stig. Það líður ár og dagur á milli þess að hiti nái 20 stigum þar á bæ - enn sjaldnar en í Reykjavík og gerðist síðast fyrir 10 árum, 7. júlí 2007. Líka í ofurhitabylgjunni í ágúst 2004 - rétt marði þá 20 stigin og líka í hitabylgjunni eftirminnilegu 9. júní 2002. Þá voru liðin 22 ár frá því að hiti komst í 20 stig. 


Meira af miðsumri

Í dag, sunnudag 23. júlí, er miðsumar að fornu tali. Við skulum nú líta á hvort forfeður okkar hafa hitt rétt á - varðandi hita. Í því skyni lítum við á fjölmörg línurit sem taka á málinu - línurit sem ekki margir hafa áhuga á - en látum samt slag standa.

w-blogg230717-tm

Fyrsta myndin sýnir daglegan meðalhita í byggðum landsins á tímabilinu frá 1. júní til 31. ágúst á árunum 1973 til 2016. Ástæða þess að þetta tímabil var valið er sú að á því eru til háloftaathuganir á Keflavíkurflugvelli - allt upp í hæstu þrýstifleti - við getum því borið saman hitasveiflur uppi og niðri á sameiginlegum tíma. Lóðrétti ásinn sýnir hita. 

Blái ferillinn sýnir meðalhita í byggð frá degi til dags. Hann hækkar nokkurn veginn jafnt og þétt allt fram yfir miðjan júlí. Svo vill þó til að 8. ágúst rétt mer það að vera hlýjastur - en það er líklega tilviljun, 26. júlí er nánast jafnhlýr.

Rauði ferillinn sýnir meðalhámarkshita á landsvísu (alltaf miðað við byggðir landsins). Hæsta meðalhámarkið fellur á 24. júlí. Græni ferillinn sýnir svo meðallágmarkshitann, hann er hæstur 26. júlí. 

Hér skulum við taka eftir því að í öllum tilvikunum er hlýrra 31. ágúst heldur en 1. júní. Ef við göngum út frá því að nægilega hlýtt sé orðið 1. júní til að vori sé lokið og sumar hafið hljótum við að viðurkenna að sumarið stendur vel fram í september. - Eða byrjar það ekki fyrr en á sólstöðum? 

Næst koma fjögur sjaldséð línurit - ef til vill þarf aðeins hugsa til að ná merkingu þeirra.

w-blogg230717mxtx

Búinn var til listi sem sýnir hæsta hita hvers dags á landinu á umræddu árabili - og meðaltal hvers almanaksdags svo reiknað. Lóðréttu strikin tvö sýna mánaðamót júní og júlí, og júlí og ágúst, einnig á næstu myndum. Hér má sjá að hæsti hiti landsins er að meðaltali um 15,5 stig í byrjun júní, um 16 stig í lok ágúst, en nær hámarki eftir miðjan júlí, á þessu tiltekna tímabili 18. júlí. Þessi vísir er þegar farinn að falla fyrir mánaðamót júlí/ágúst.

w-blogg230717mntn

Samsvarandi mynd fyrir meðaltal lægsta lágmarkshita hvers dags á landinu sýnir líka hámark sem fellur snemma á sumarið - en hér er meiri munur á meðaltalinu 1. júní og 31. ágúst en á hámarksmyndinni. Ef til vill má hér sjá árangur sumarhitans við upphitum lands og sjávar. Hann kemur betur fram í næturhitanum heldur en að deginum - þar sem sólargangur ræður meira. 

w-blogg230717-mntx

Nú þarf aðeins að hugsa. Þessi mynd sýnir meðaltal lægsta hámarkshita landsins. Fyrir hvern dag er leitað að lægsta hámarki landsins. Töluverður munur er á honum 1. júní og 31. ágúst. Sjávarkuldi og snjóleysing í innsveitum halda hámarkinu niðri á sumum svæðum landsins framan af sumri - jafnvel þótt sólin sé í ham. Þá má finna einhverja „kalda bletti“. Þessum svæðum fækkar þegar líður á sumarið, sjávarhiti hækkar og snjór hverfur alveg. Hér er „hlýjasti“ dagurinn seint á ferð, 8. ágúst - og ágústlok eru ámóta hlý og tíminn kringum 10. júlí - sumarið aldeilis ekki búið. 

w-blogg230717-mxtn

Svipað á við um hæsta lágmarkshitann - hann fer ekki að falla að marki fyrr en eftir 10. ágúst og um mánaðamót er meðaltalið komið niður á svipaðar slóðir og það var í júnílok - sumarið varla búið. 

w-blogg230717_txm-tnm

Hér hverfum við aftur til fyrstu myndarinnar og reiknum mismun rauða og græna ferilsins á henni, mismun meðalhámarkshita og meðallágmarkshita. Þessi munur er meiri í júní heldur en í hinum mánuðunum tveimur. Dægursveifla hitans er þá stærri - bæði vegna þess að sól er hærra á lofti, en líka vegna þess að loft er þurrara og skýjafar minna. 

w-blogg230717-dtx

Hér má sjá dægurhámörk hitans á landinu. Nær yfir allan þann tíma sem við þekkjum til. Landsmetið frá Teigarhorni (30,5 stig) er í júní. Tímabilið frá því um 20. júní og fram undir 15. ágúst virðist líklegast til stórræða. Það er 16. júlí sem enn hefur ekki náð 24 stigum - einn daga í júlí. Auðvitað kemur að því eitthvert árið. 

w-blogg230717dtn

Samskonar mynd sýnir dægurlágmörkin. Frost hefur orðið í byggð einhvers staðar á landinu alla daga ársins - tíminn frá því í júlíbyrjun fram til 10. ágúst sker sig þó úr. 

Þá snúum við okkur að háloftunum og lítum á þrjár þykktarmyndir. Þykkt á milli þrýstiflata mælir hita. Fyrsta myndin er næst okkur. 

w-blogg230717-vedrahv-nidri

Blái ferillinn sýnir góðkunningja okkar hér á bloggi hungurdiska, þykktina á milli 500 og 1000 hPa-flatanna. Hún rís nokkuð samfellt allt fram yfir 1. ágúst. Þá er miðsumar í neðri hluta veðrahvolfs. Í ágústlok er fallið hafið, hiti er þó svipaður og var í byrjun júlí. Rauði ferillinn mælir hita á milli 850 og 1000 hPa - fyrir neðan um það bil 1500 metra. Í heild er hegðun ferlanna beggja svipaður. 

w-blogg230717-vedrahv-uppi

Hér sýnir rauði ferillinn þykktina á milli 500 og 850 hPa og kemur í ljós að hiti á hæðarbilinu 1500 til 5500 metrar er hæstur nærri miðsumri, það er að segja í síðasta þriðjungi júlímánaðar. Á næsta þykktarbili ofan við, á milli 500 og 300 hPa er svipað uppi á teningnum. Veðrahvolfið virðist því mestallt vera á svipuðu róli - nema kannski má segja að neðsta lagið (undir 1500 metrum) sé seinast á ferðinni - enda að nokkru háð sjávarhitanum - en hann er hæstur í fyrsta þriðjungi ágústmánaðar.

w-blogg230717-heidhvolf

Þá förum við upp í heiðhvolfið. Þar ræður sólarhæð því meiru sem ofar dregur. Rauði ferillinn sýnir bilið á milli 300 og 150 hPa (neðsti hluti heiðhvolfs) og sá blái sneið úr neðri hluta heiðhvolfsins á milli 150 og 30 hPa. Hér bregður svo við að hiti í ágústlok er orðinn lægri en hann var í júníbyrjun - eina dæmi um slíkt á öllum þeim myndum sem við höfum hér litið á. Ferlarnir eru ekki eins að lögun. Sennilega stafar kólnunin sem hefst mjög snemma á bilinu sem rauði ferillinn sýnir af lyftingu heiðhvolfsins - vegna hlýinda niðri í veðrahvolfi. 

Þetta er orðinn langur pistill sem fáir hafa lesið til enda. Ritstjórinn þakkar þeim fáu fyrir þolinmæðina. - En niðurstaðan er sú að forfeðurnir hafi hitt vel í við val á miðsumri. Munum að miðsumar er miðsumar en ekki upphaf haustsins. 

Í eldri pistlum má einhvers staðar finna vangaveltur um árstíðasveiflu háloftavinda. Þeirra lágmark er í fyrstu viku ágústmánaðar eða þar um bil. 


Hár hiti

Á fimmtudaginn, þann 20. júlí, mældist hámarkshiti á Végeirsstöðum í Fnjóskadal 25,9 stig. Þetta er hæsti hiti til þessa á landinu á árinu og reyndar sá hæsti síðan 21. júlí 2013, en þá mældist hámarkið 26,4 stig í Ásbyrgi. Jafnhlýtt og nú (25,9 stig) varð í Veiðivatnahrauni 4 dögum síðar (hæsti hiti sem nokkru sinni hefur mælst á hálendinu). Á árunum 2014, 2015 og 2016 fór hiti hér á landi aldrei í 25 stig. - Í dag, laugardag 22. júlí, mældust svo aftur 25,0 stig á Végeirsstöðum. 

Tuttuguogfimmstigahiti er ekki algengur hér á landi - en „þurrkkaflarnir“ hafa þó oftast verið styttri en nú (fjögur ár). Þarf að fara meir en fjóra áratugi aftur í tímann til að finna jafnlangan kafla eða lengri án 25 stiga. [1. ágúst 1968 til 23. júní 1974] - Hefði sjálfvirka stöðvanetið fundið einhver 25 stig þá sem við ekki vitum um? 

En svo er ákveðið vandamál - framleiðandi hólka þeirra sem verja hitaskynjara sjálfvirku stöðvanna fyrir sólargeislum segja að hitinn inni í þeim verði hærri en lofthitinn í sterku sólskini og blankalogni. Að því mun koma að fara verður skipulega yfir met sem sett eru á sjálfvirkum stöðvum með þennan hugsanlega ágalla í huga - og merkja þau. Svo vill til að blankalogn er ekki algengt hér á landi og glampandi sólskin ekki svo sérlega algengt heldur. Ekki er því ástæða til að ætla að áhrifanna gæti í meðalhita - en trúlega hefur það áhrif á met. En - höfum líka í huga að hefðbundin mælaskýli - af hvaða tegund sem er - hafa líka ýmsa ágalla þegar um met er að tefla - mælar í þeim geta sýnt bæði meiri eða minni hita en einhver „fullkominn“ (Platónskur?) lofthitamælir myndi hafa sýnt. Við verðum líka að hafa í huga að við getum lent í „ofstöðlun“ mælinga. Það verður aldrei komist hjá einhverjum málamiðlunum. 

Dagurinn í dag, laugardagur 22. júlí var langhlýjasti dagur ársins til þessa á landinu. Meðalhiti í byggð var 13,2 stig. 


Miðsumar

Miðsumar nefnist fyrsti dagur „heyanna“ en sá er fjórði mánuður íslenska sumarsins að fornu tali, hefst ætíð sunnudag í 14. viku sumars sem að þessu sinni er 23. júlí. 

Við skulum nú líta á meðalhita í Reykjavík og á Akureyri fyrri hluta sumars, frá sumardeginum fyrsta til og með laugardags fyrir miðsumar á tímabilinu 1949 til 2017. 

w-blogg220717i

Í Reykjavík er meðalhiti fyrri hluta sumars í ár um 0,6 stigum ofan meðallags alls tímabilsins, en um -0,2 undir meðallagi síðustu tíu ára - enda um alveg sérlega hlýtt tímabil að keppa við. 

w-blogg220717ii

Fyrir norðan skera hlýindin 2014 sig nokkuð úr, en staðan í ár er alveg jafngóð og hefur verið í helstu gæðasumrum þar um slóðir fyrr á árum - rétt við 9 stigin eins og í Reykjavík, um 1,1 stigi ofan meðallags tímabilsins alls og um 0,6 stigum ofan meðallags sama tíma síðustu 10 árin. Fyrri hluti sumars 2015 var sérlega kaldur á Akureyri. 


Bleyta að sunnan

Að undanförnu hefur hlýtt loft haldið sig fjarri landinu - mjög kalt reyndar líka. Vestanátt á suðurjaðri kuldapollaleikvangs norðurslóða hefur ráðið mestu. Sunnar í Atlantshafi hefur vindur einnig verið úr vestri að undanförnu en lítið samband á milli. 

Nú gerist það hins vegar að raka loftið að sunnan reisti kryppu sína nægilega langt norður til þess að aðvífandi lægðardrag úr vestri tókst að krafsa í það og keyra norður til okkar. 

w-blogg170717a

Hitamynd sem tekin er klukkan 17 nú síðdegis sýnir kerfin tvö. Vestanlægðin er í austurjaðri kalda lægðardragsins - eins og venjulegast er - en önnur lægð kemur til móts við hana að sunnan. Sú er öllu óreglulegri á myndinni - blikubakkar hennar nokkuð tættir af háreistum dembuklökkum. Vestankerfið nær hluta af þessu og beinir til okkar.

w-blogg170717b

Háloftakortið sem gildir á svipuðum tíma og myndin sýnir að sama. Lægðardragið úr vestri hefur gripið hlýtt loft og dregur það til norðurs. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Þegar hlýja loftið rekst á fjalllendi Suðurlands lyftist það og neyðist til að skila raka sínum í formi úrhellisrigningar. Spár eru þó ekki alveg sammála um magnið - enda varla hægt að ætlast til þess. 

Svo fer í gang nokkuð spennandi samkeppni um yfirráð yfir landinu á milli kalda vestanloftsins og þess hlýja úr suðri. Undanfarna daga hafa spár gengið öfganna á milli. Allt frá því að spá töluverðri hitabylgju um mestallt land og yfir í ríkjandi vestansvala eins og að undanförnu. Niðurstaðan verður líklega einskonar samsuða - höfuðborgarsvæðið stendur einna verst allra landshluta í samkeppninni um að ná í hlýja loftið - suðvestanvert landið er næst suðvestansvalanum og aðsókn hans. 

En skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar heldur enn áfram iðju sinni - að þessu sinni má sjá á tjaldi hennar einhverja dýpstu lægð sem um getur í júlímánuði - um 960 hPa í miðju - eftir rúma viku. Það er eiginlega varla hægt að trúa þessu - verst að fyrir kemur að deildin hefur rétt fyrir sér. 

w-blogg170717c

Til að gera málið enn skemmtilegra er á sama korti sýnd mjög slæm lægð í flokknum sem Svíar kalla 5b á norðurleið yfir Skáni. - Þó mjög ólíklegt verði að teljast að spár sem þessi rætist er hún samt vitnisburður um ákveðinn óróleika í veðri á norðurhveli um þessar mundir. 


Enn frá skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar

Skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar og bandaríska veðurstofan hafa undanfarna daga verið að veifa hitabylgjuspám framan í okkur veðurnördin - auðvitað til ánægju. Hins vegar hefur lítt orðið um efndir - hitarnir horfnir á örskotsstund í næstu spárunu. En vegna þess að lítið hefur verið um hitabylgjur upp á síðkastið ylja þær í sýndarheimum manni aðeins um hjartarætur - sérstaklega meðan einhver von er um að eitthvað verði úr þeim.

w-blogg150717i-a

Kortið sýnir spá um hita í 850 hPa-fletinum (litir) og þykktina (heildregnar línur) á fimmtudagskvöld 21. júlí. Hér er þykktin yfir landinu víða meiri en 5580 metrar - dæmigert hæsta gildi sumars (þó við viljum meir) - og í sömu spárunu er þykktinni svo spáð upp fyrir 5620 metra nokkrum dögum síðar og upp í 5650 m við Austur-Grænland. 

Við getum svosem leyft okkur að vona - þar til næsta sýn birtist á tjaldinu. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 44
  • Sl. sólarhring: 147
  • Sl. viku: 1965
  • Frá upphafi: 2412629

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 1718
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband