Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017
15.7.2017 | 20:51
Tíðnidreifing júlíhita í Reykjavík og breytingar á henni
Hér verður litið á tíðnidreifingu sólarhringsmeðalhita í Reykjavík í júlí á ýmsum tímabilum og velt vöngum yfir breytingum. Breytileiki hita frá degi til dags er minni að sumarlagi heldur en á öðrum árstímum - en samt finnum við mjög greinilega fyrir honum.
Við teygjum okkur nokkuð langt í þessum pistli. Töluverð óvissa er í hitamælingum frá fyrri tíð - mánaðameðalhiti er þó öllu betur negldur niður en meðalhiti einstakra daga. En við látum okkur hafa það - skemmtunar og fróðleiks vegna.
Fyrst skulum við líta á meðalhita júlímánaðar í Reykjavík - nokkur ár á bilinu 1854 til 1865 eru þó nánast skáldskapur sem og tölur frá því fyrir 1820. Engin dægurmeðaltöl eru til frá þessum skáldaárum og koma þau því ekki við sögu í þessum pistli nema á þessari einu mynd.
Mislöng köld og hlý tímabil skiptast á með nokkuð áberandi hætti. Heildarleitni er ekki mikil. Stærð hennar er mjög háð vali á byrjunartíma - við gætum komið því þannig fyrir að hún reiknist veruleg.
Hver sem nú reiknuð leitni annars er fer þó varla á milli mála að minna hefur hlýnað í júlí en í flestum öðrum mánuðum ársins. Það væri gagnlegt að vita með vissu hvers vegna það er svo en varla samt tilviljun að hér er um þann mánuð ársins að ræða þar sem landið og sól ráða tiltölulega meiru um veður heldur en flutningur lofts um langar leiðir. Reykjavík er auk þess betur varin fyrir áhrifum kaldsjávar og hafíss heldur en flestir aðrir landshlutar.
Á myndinni hefur árabilið 1949 til 2016 verið afmarkað sérstaklega, en það er efni næstu myndar.
Hún sýnir hvernig júlísólarhringsmeðalhitinn féll á kvarðann á þessu árabili (bláar súlur). Hér er talið þannig að talan 10 vísar til alls bilsins frá og með 10 stigum að 11. Kaldasti júlídagur þessa tímabils var sá 23. árið 1963, sólarhringsmeðalhitinn ekki nema 5,8 stig. Sá hlýjasti var sá 31. árið 1980, meðalhiti 19,2 stig. Meðalhiti júlímánaðar alls á þessu tímabili er 11,1 stig. Taka má eftir því að nærri helming daga (46 prósent) er meðalhitinn annað hvort 10 eða 11 stig og fjóra daga af hverjum fimm er hann frá 9 stigum upp að 13. - aðeins tíundihver dagur er kaldari og tíundihver hlýrri.
Af fyrri myndinni sjáum við að júlímánuðir þessara ára spanna mjög breitt bil, á það falla bæði mjög kaldir og hlýir mánuðir.
Til gamans má líka sjá á myndinni sömu dreifingu - sé meðalhiti 2 stigum hærri, væri þá 13,1 stig en ekki 11,1. Skyldi þetta geta orðið venjulegt í framtíðinni? Hvað sem annars má um það segja er nokkuð ljóst að langt verður þangað til 70 ára meðaltal júlíhita nær 13,1 stigi. Enginn mánuður fortíðar hefur enn með vissu náð slíkum hæðum - tveir, 1991 og 2010 komust að vísu nærri því - meðalhitinn í þeim báðum var 13,0 stig. Svo reiknast meðalhiti í júlí 1829 13,6 stig - en trúlega er það of há tala miðað við staðalaðstæður mælinga nú, 13,0 stig sem reiknast meðalhiti júlí 1838 er heldur trúlegri.
Næst skulum við bera saman þrjú tímabil. Í fyrsta lagi öllum daglegum meðaltölum sem við eigum frá Reykjavík á 19. öld, í öðru lagi lítum við á hlýja tímann frá 1927 til 1960 og að lokum á tímabilið 1997 til 2016.
Bláu súlurnar sýna 19. öldina, þær brúnu hlýskeiðið gamla og þær grænu nýja hlýskeiðið - sem enn stendur. Töluverður munur kemur fram á tímabilunum. Á 19. öld var meðalhiti undir 10 stigum 35 prósent daga, 16 prósent á gamla hlýskeiðinu, en ekki nema 12 prósent á því nýja.
Á 19. öld var meðalhiti meiri en 14 stig um það bil 20. hvern dag (5 prósent), á gamla hlýskeiðinu líka um 5 prósent, en um 8 prósent á nýja hlýskeiðinu.
Þennan mun sjáum við betur á næstu tveimur myndum.
Hér má sjá tíðnimun hita á 19. öld og á nýja hlýskeiðinu. Skiptin eru við 11 stig. Dögum hlýrri en það hefur fjölgað að mun, en þeim kaldari fækkað að sama skapi. Fjöldi mjög hlýrra daga hefur nánast ekkert breyst - þeir hafa alltaf verið sárafáir og tilviljanakenndir. Kaldasti júlídagur sem við vitum um í Reykjavík á 19. öld var sá 6. árið 1840, meðalhiti 4,1 stig, en sá hlýjasti var sá 19. árið 1842, meðalhiti 18,6 stig, ámóta hlýtt var daginn áður og sömuleiðis 2. júlí 1894.
Minni munur er á hlýskeiðunum tveimur, því gamla og nýja.
Hér eru skiptin við 12 stigin. Er þetta hin hnattræna hlýnun? Kaldasti júlídagur gamla hlýskeiðsins var sá 1. 1954, þá var meðalhitinn 6,5 stig. Sá hlýjasti var sá 21. árið 1944, meðalhiti 17,8 stig. Á nýja hlýskeiðinu er kaldasti júlídagurinn sá 23. árið 1998, meðalhiti 7,2 stig, en sá hlýjasti sá 30. árið 2008, meðalhiti 17,5 stig.
13.7.2017 | 00:09
Hundadagakvíði
Hefjum umræðu dagsins á beinni tilvitnun í fornan pistil hungurdiska [17. júlí 2012]:
Hundadagar nefnist tímabil á miðju sumri, hér á landi talið frá og með 13. júlí til 23. ágúst. Þetta er að meðaltali hlýjasti tími ársins. Sömuleiðis er úrkomulágmark vorsins liðið hjá og þar með aukast almennar líkur á rigningatíð.
Þegar sunnanvert landið var hvað mest plagað af rigningasumrum, einkum á tímabilinu frá 1969 og fram yfir 1990 litu íbúar þess landshluta með nokkrum kvíða til hundadaga. Sagt var að ef rigndi fyrstu þrjá dagana myndi rigna þá alla. Út af fyrir sig var nokkuð til í þessu því oft rigndi allt sumarið og alveg eins þessa þrjá daga eins og aðra.
Eftir að þetta var ritað lagði ritstjórinn í þá vinnu að búa til mikinn lista yfir úrkomutíðni - eða -hlutfall einstakra daga á landinu allt aftur til 1924 - bæði fyrir landið í heild sem og hluta landsins. Talinn var fjöldi stöðva sem athugaði á hverjum degi og athugað á hversu mörgum þeirra úrkoma mældist. Varð þá til hlutfall - þúsundustuhlutar eru þægilegir. Ef úrkoma mælist hvergi fær dagurinn hlutfallið núll, ef úrkoma mælist á öllum stöðvum er hlutfall dagsins talið þúsund.
Um þessa skrá hefur verið fjallað áður á þessum vettvangi. Landinu var líka skipt í þriðjunga. Suðurland telst frá Reykjanesi í vestri austur í Breiðdal, Vesturland frá Reykjanesi norður í Húnavatnssýslur austanverðar, en Norðurland þar austan við.
EFtir að þessi skrá hafði verið gerð var mjög auðvelt að reikna úrkomuhlutfall þetta fyrir þrjá fyrstu hundadaga hvers árs (meðaltal) og bera saman við hlutfall þeirra allra sama ár.
Við skulum líta á niðurstöðurnar á myndum:
Sambandið er best á Suðurlandi. - Myndin skýrist nokkuð sé hún stækkuð - mun skýrara afrit er í pdf-skrá í viðhengi. Úrkomuhlutfall fyrstu þrjá hundadagana skýrir um fjórðung breytileika þeirra allra - það er furðumikið. Lárétti ásinn sýnir meðalúrkomuhlutfall stöðva á Suðurlandi 13. til 15. júlí ár hvert - en sá lóðrétti meðaltal hundadaga allra. Við sjáum að fáein ár hefur rignt nær allstaðar dagana þrjá (við hægri jaðar myndarinnar) og sömuleiðis hafa komið ár þegar dagarnir þrír eru þurrir að mestu (við vinstri jaðar hennar).
Mestu rigningahundadagarnir eru efst í áraskýinu - þar er 1969 á toppnum, en 1937 og fleiri rigningasumur skammt undan. Ofarlega - en fremur langt til vinstri má sjá 1926, það ár hafa fyrstu þrír hundadagarnir ekki verið sérlega úrkomusamir - en heildin mjög rigningasöm. Öfugt var það 1927, þá rigndi víðast hvar dagana þrjá - en tímabilið í heild var ekki sérlega rigningasamt.
Úrkomuhlutföll á Suður- og Vesturlandi fylgjast nokkuð að en landshlutamyndirnar eru samt ekki eins. Hundadagar 1955 eru efstir - þá rigndi oftast og víðast þessa daga - og líka rigndi fyrstu dagana þrjá. Fyrstu þrír hundadagar voru nærri því alveg þurrir vestanlands 1975 (lengst til vinstri) - en samt eru hundadagar í heild fremur ofarlega það ár. Úrkomuhlutfallið fyrstu þrjá dagana skýrir um sjöttahluta breytileika hundadaga allra. Það skýrir auðvitað svosem ekki neitt í raun og veru - en tölfræðilega heitir það svo.
Norðanlands er sambandið nánast alveg horfið. Þar var úrkomuhlutfallið hæst á hundadögum 1985 - og 2015.
Er einhver niðurstaða? Ritstjóri hungurdiska sér lítið samband á milli úrkomuhlutfalla þessara - en hann sér líka illa. Kom honum þó heldur á óvart hversu há fylgnin reiknast á Suðurlandi. Hvað skyldi búa þar að baki? Er gagnaröðin í lagi?
Nördin leggjast auðvitað yfir skýrari myndir fylgiskjalsins - en aðrir hafa þegar snúið sér að öðru.
12.7.2017 | 01:59
Snorrahátíð 1947
Nú minnast menn þess að 70 ár eru liðin frá því að stytta Gustav Vigeland af Snorra Sturlusyni var afhjúpuð í Reykholti í Borgarfirði. Þá var haldin þar eftirminnileg hátíð - og var veðrið sérlega hagstætt.
Þetta sumar er reyndar í hópi frægra rigningasumra á Suður- og Vesturlandi - harla fáir þurrir dagar og stytti varla upp fyrr en langt var liðið á haust. Austan- og norðaustanlands fær það hins vegar hina bestu einkunn - eitt af óskasumrum þeirra landshluta.
Norðanáhlaup hafði þó gert dagana 6. til 8.júlí - með mikilli veðurhæð miðað við árstíma. Þá var sagt að snjóað hefði niður undir byggð á Þingvöllum - rétt eins og í öðru frægu kasti í júlí 1970. Óvenjumikið rigndi á Norðausturlandi þessa daga.
Dagblaðið Tíminn segir í lítill frétt á forsíðu þann 8. júlí:
Í fyrradag og alla fyrri nótt geisaði ofviðri mikið um land allt, sem algerlega er einsdæmi á þessum tíma árs, eftir því sem Veðurstofan tjáði blaðinu í gær.
Víkverji segir skemmtilega frá í Morgunblaðinu sama dag:
Skemtiferðir bæjarbúa um helgina verða mörgum minnisstæðar. Á Þingvöllum og fleiri stöðum, sem ferðafólk leitar til, stóðu menn i höm allan sunnudaginn, eins og útigangshross á Þorranum. Annaðhvort er almanakið orðið hringavitlaust, eða að það verður að snúa öllu tímatali við. Kalla það vetur, sem við nú nefnum sumar og sumar vetur. Það er rjettnefni. Jeg hitti kunningja minn i gær, sem var að koma úr sumarfríi. Hann bölvaði þeim illu forlögum, sem höfðu rekið hann til að eyða sumarfríinu sínu þetta snemma. Annan hitti jeg, sem var að fara í sumarfrí. Hann krossbölvaði yfir að hafa ekki farið fyr í frí.
Svo var eldgosið mikla í Heklu auðvitað í fullum gangi.
Dagana 20. til 22. gerði síðan óvenjulega hitabylgju. Hennar gætti um mestallt land.
Snorrahátíð var haldin sunnudaginn 20. júlí - laugardagshátíðir eru seinni tíma fyrirbrigði. Við skulum líta á Íslandskort sem gildir kl. 18 þann dag.
Myndin skýrist nokkuð sé hún stækkuð. Rauðu tölurnar sýna hitann, 20 stig í Síðumúla í Borgarfirði og sjálfsagt meira þegar best lét í Reykholti. Það er óvenjulegt að sjá 20 stiga hita á Loftsölum í Mýrdal og 19 stig á Fagurhólsmýri og á Dalatanga í austanáttinni. Austur í Fagradal í Vopnafirði má sjá 22 stig. Hiti fór þar í 23,7 stig og 25,0 á Hallormsstað.
Næsti dagur, sá 21. varð enn merkari um landið vestanvert. Hiti fór þá í 20,4 stig í Reykjavík og í 24,8 stig vestur í Stykkishólmi - hæsti hiti sem þar hefur nokkru sinni mælst. Þann dag hafði þokan hins vegar tekið mestöll völd á Norðurlandi.
Svo gekk hann aftur í rigningar syðra.
7.7.2017 | 23:21
Óþreyju gætir
Kuldapollurinn mikli sem plagaði Vestur-Grænland fyrr í vikunni er enn á sveimi. Hann verpti kuldaeggi sem er um það bil að fara til austurs rétt fyrir sunnan land þegar þetta er skrifað (föstudagskvöldið 7. júlí). Ekki er hægt að segja að mikil grimmd hafi verið í því - en olli samt staðbundnum skúradembum og svölu veðri - sérstaklega um landið sunnanvert.
Við að skjóta eggi til austur hrökk meginhluti kuldapollsins í öfuga átt - til vesturs - og hörfaði mesti kuldinn þar með frá Vestur-Grænlandi. Nú virðist annað varp vera að eiga sér stað - og enn verður til lítill kuldapollur sem fer til austurs í stefnu á okkur. - Hálfgert örverpi að vísu - en nægilegur samt til þess að tefja hlýnun hér á landi um að minnsta kosti nokkra daga.
Við lítum á stöðuna eins og evrópureiknimiðtöðin telur hana verða á sunnudag.
Hér er aðalkuldapollurinn merktur með stórri blárri ör og tölustafnum 1. Hann er kominn vel vestur fyrir Baffinsland en afkomendur hans ganga greiðlega til austurs. Sá fyrri - fór framhjá rétt fyrir sunnan okkur í dag er hér kominn austur undir Noreg (merktur tölustafnum 2) en örverpið, bróðir hans er á kortinu yfir Grænlandi og hreyfist í átt til okkar. Engin sérstök illindi fylgja - en harla svalt veðurlag. Enn fleiri sendingar eru svo væntanlegar frá Kanada síðar meir - að vísu er kuldinn að færast aftur í aukana yfir íshafinu og gæti truflað aðalhringrásina eitthvað þegar fram líða stundir.
Hér Atlantshafsmegin á norðurhveli ganga lægðir nú greiðlega til austurs - furðugreiðlega satt best að segja (held að ameríkumenn kalli það framsóknarveðurlag). Mikil hlýindi sækja aftur á móti til norðurs hinum megin heimskauts - mjög hlýir hæðarhryggir sem rauðu örvarnar benda á (þvergirðingar). - Sýna nákvæmlega engan áhuga á okkur.
Sem stendur sér ekkert fyrir endann á þessari stöðu. Hún er í grunninn ekki svo slæm (segir Pollýanna) - en samt má heyra að margir eru farnir að þreytast á henni og gætir töluverðrar óþolinmæði. Það er um að gera að njóta í botn þeirra gæðastunda sem bregður fyrir - þó hlýindi skorti.
Viðbótarupplýsingar - settar inn 8. júlí:
Spurt hefur verið um hita- og úrkomufar það sem af er júlí. Ekki eru þó liðnir nema 6 dagar af honum. Meðalhiti þessa sex daga er 10,4 stig í Reykjavík og því nákvæmlega í meðallagi sömu daga 1961 til 1990, en 11,4 á Akureyri. Í Reykjavík er hiti allmikið undir meðallagi síðustu tíu ára, eða -1,6 stig. Á Akureyri er meðalhitinn 1,5 stigum yfir meðallagi 1961 til 1990 og +0,5 yfir meðallagi síðustu tíu ára.
Úrkoma hefur verið í meðallagi á Akureyri, en hún hefur hins vegar verið óvenjulítil í Reykjavík, aðeins 4 mm og er það um þriðjungur meðalúrkomu, sú næstminnsta sömu daga á þessari öld - en sú röðun þarf ekki nema einn mjög blautan dag til að breytast verulega. - Það hefur verið frekar sólarlítið.
Hiti þessa sex fyrstu júlídaga er sá 14.hæsti á öldinni, þrisvar hafa þeir verið kaldari en nú, 2014, 2013 og 2006. Sé samanburður látinn ná til lengri tíma er hitinn þessa daga í Reykjavík í 86. sæti (af þeim 143 sem við höfum greinargóðar upplýsingar um). Að þriðjungatali telst hitinn því í meðallagi þess tíma alls. Á Akureyri eigum við daglegan hita aðeins á lager 82 ár aftur í tímann - þar lendir hitinn nú í 22. sæti og er þar með í hlýjasta þriðjungi.
Hitanum hefur sum sé verið nokkuð misskipt á landinu þessa daga. Að tiltölu hefur verið hlýjast eystra, hiti 1,6 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára á Eyjabökkum, 1,3 yfir því í Papey og 1,2 á Egilsstöðum. Kaldast að tiltölu hefur verið í Reykjanesfjallgarðinum, -2,4 stig undir meðallagi síðustu tíu ára á Skarðsmýrarfjalli og -2,1 undir í Hellisskarði og í Bláfjöllum.
En það er fremur skortur á hlýjum dögum sem einkennt hefur júní- og júlímánuð á þessu ári frekar en að meðalhiti hafi verið sérlega lágur. Hiti náði þó 20 stigum þann 30. júní austur á Borgarfirði eystra. Sú tala verður tekin góð og gild - en þó verður að geta þess að stöðin hefur aðeins verið starfrækt mjög skamma hríð og þarf strangt tekið lengri tíma til að sanna stöðugleika.
Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík til þessa á sumrinu er 17,1 stig - mældist hann 21.maí. Tvisvar áður á þessari öld hefur hámarkshitinn í borginni ekki verið kominn hærra á öldinni 7. júlí, það var 2014 (16,5 stig - fór hæst í 19,7 stig það sumar) og 2001 (15,7 stig - fór hæst í 17,2 stig það sumar). Á þeim tíma sem hámarkshiti hefur verið samfellt mældur í Reykjavík (98 ár) hefur hann 51 sinni verið orðinn hærri en nú þann 7. júlí - við erum því nærri miðjum hóp nú. Það gerist endrum og sinnum (fjórum sinnum síðustu 100 árin) að hæsti hiti ársins mælist í maí í Reykjavík, síðast 1988.
Vísindi og fræði | Breytt 8.7.2017 kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.7.2017 | 14:43
Júní kaldari en maí á nokkrum veðurstöðvum
Maímánuður var óvenjuhlýr, ekki síst um landið norðaustanvert. Eins og fjallað var um í pistli hungurdiska fyrir nokkru voru því töluverðar líkur á því að hann yrði hlýrri en júní. Þó júní væri ekki sérlega kaldur var hann samt nægilega kaldur til þess að svona færi á nokkrum stöðvum.
Júní 2017 kaldari en maí | ||||||
stöð | ár | maíhiti | júníh | mism | nafn | |
4275 | 2017 | 2,53 | 1,58 | -0,95 | Gagnheiði | |
3596 | 2017 | 5,68 | 5,26 | -0,42 | Rauðhálsar | |
3474 | 2017 | 4,67 | 4,27 | -0,40 | Vaðlaheiði | |
4500 | 2017 | 6,48 | 6,17 | -0,31 | Þeistareykir | |
4830 | 2017 | 6,65 | 6,34 | -0,31 | Möðrudalur | |
2636 | 2017 | 2,33 | 2,04 | -0,29 | Þverfjall | |
5960 | 2017 | 4,85 | 4,57 | -0,28 | Hallormsstaðaháls | |
3490 | 2017 | 6,21 | 5,95 | -0,26 | Gæsafjöll | |
4323 | 2017 | 6,76 | 6,53 | -0,23 | Grímsstaðir á Fjöllum | |
4300 | 2017 | 7,57 | 7,37 | -0,20 | Mývatn | |
4019 | 2017 | 6,21 | 6,02 | -0,19 | Upptyppingar | |
3242 | 2017 | 8,25 | 8,08 | -0,17 | Nautabú | |
3007 | 2017 | 5,79 | 5,65 | -0,14 | Austurárdalsháls | |
1679 | 2017 | 5,67 | 5,58 | -0,09 | Skarðsheiði Miðfitjahóll | |
3223 | 2017 | 8,17 | 8,1 | -0,07 | Brúsastaðir | |
3292 | 2017 | 6,44 | 6,39 | -0,05 | Svartárkot | |
3380 | 2017 | 7,88 | 7,83 | -0,05 | Reykir í Fnjóskadal | |
5970 | 2017 | 3,89 | 3,86 | -0,03 | Hallsteinsdalsvarp |
Langmestur munur var á Gagnheiði - enda maí alveg sérlega hlýr þar á bæ. En af listanum má sjá að stöðvarnar eru annað hvort á háfjöllum eða langt inni í landi. Helst að athygli veki að sjá Brúsastaði í Vatnsdal og Nautabú á listanum.
Vegagerðarstöðvarnar sýna svipað landfræðilegt mynstur:
stöð | ár | maíhiti | júníh | mism | nafn | |
34087 | 2017 | 5,2 | 4,80 | -0,40 | Oddsskarð | |
34382 | 2017 | 5,23 | 4,88 | -0,35 | Vatnsskarð eystra | |
33424 | 2017 | 5,88 | 5,56 | -0,32 | Þverárfjall | |
34326 | 2017 | 5,79 | 5,50 | -0,29 | Biskupsháls | |
32097 | 2017 | 4,98 | 4,73 | -0,25 | Holtavörðuheiði | |
33495 | 2017 | 6,55 | 6,31 | -0,24 | Hólasandur | |
33431 | 2017 | 5,97 | 5,75 | -0,22 | Vatnsskarð | |
34413 | 2017 | 6,5 | 6,28 | -0,22 | Mývatnsöræfi | |
33394 | 2017 | 6,33 | 6,15 | -0,18 | Mývatnsheiði | |
33451 | 2017 | 8,62 | 8,49 | -0,13 | Miðsitja í Skagafirði | |
34148 | 2017 | 6,02 | 5,94 | -0,08 | Jökuldalur | |
33357 | 2017 | 5,38 | 5,31 | -0,07 | Öxnadalsheiði | |
34348 | 2017 | 5,28 | 5,21 | -0,07 | Vopnafjarðarheiði | |
33576 | 2017 | 6,28 | 6,22 | -0,06 | Víkurskarð | |
34733 | 2017 | 5,6 | 5,55 | -0,05 | Hálsar | |
34238 | 2017 | 4,94 | 4,92 | -0,02 | Möðrudalsöræfi II | |
32390 | 2017 | 4,74 | 4,73 | -0,01 | Ennisháls |
En á öllum öðrum stöðvum var júní hlýrri en maí - eins og vera ber. Á landsvísu munaði 0,9 stigum, mun minna en að meðaltali 1961 til 1990. Þá hlýnaði venjulega um +3,1 stig frá maí fram í júní. - En slíkt var mjög ólíklegt nú, þá hefði júní orðið sá langhlýjasti frá upphafi mælinga, +0,8 stigum hlýrri en hlýjasti júnímánuður sem vitað er um til þessa, en það er 2014 sem situr í því sæti.
En aðstæður eru fjölbreyttar frá stöð til stöðvar, að þessu sinni hlýnaði um +3,0 stig á einni stöð, Setri, suðvestan Hofsjökuls.
stöð | ár | maíhiti | júníh | mism | nafn | |
6748 | 2017 | 1,62 | 4,63 | 3,01 | Setur | |
6760 | 2017 | 4,11 | 6,11 | 2,00 | Þúfuver | |
6176 | 2017 | 8,08 | 9,99 | 1,91 | Skarðsfjöruviti | |
5777 | 2017 | 5,21 | 7,08 | 1,87 | Papey | |
6472 | 2017 | 4,11 | 5,96 | 1,85 | Laufbali | |
1361 | 2017 | 7,82 | 9,62 | 1,80 | Grindavík | |
5988 | 2017 | 5,48 | 7,27 | 1,79 | Vattarnes | |
5872 | 2017 | 6,29 | 8,07 | 1,78 | Teigarhorn | |
5210 | 2017 | 6,97 | 8,74 | 1,77 | Ingólfshöfði | |
5316 | 2017 | 7,59 | 9,36 | 1,77 | Kvísker | |
5885 | 2017 | 5,18 | 6,94 | 1,76 | Kambanes | |
6012 | 2017 | 7,64 | 9,37 | 1,73 | Surtsey |
Taflan sýnir þær stöðvar þar sem mest hlýnaði milli mánaðanna. Ekki er alveg víst að maítala Seturs sé rétt - þetta var kaldasta stöð landsins að tiltölu í maí. En víst er að þar var óvenjumikill snjór í maí og hefur bráðnun hans áreiðanlega haldið hita mánaðarins í skefjum. Svipuð tilhneiging er í Þúfuveri og við Laufbala, þó munurinn sé þar stiginu minni en í Setri. Aðrar stöðvar eru við sjávarsíðuna um landið sunnan- og austanvert þar sem sjór heldur hita niðri á vorin.
Við skulum að lokum líta á mestu hitabreytingar sem vitað er um á milli mánaðarmeðalhita maí - og júnímánaðar. Fyrst þau tilvik þegar júní var kaldari en maí.
röð | stöð | ár | maíhiti | júníh | mism | nafn | |
1 | 495 | 1928 | 6,5 | 3,74 | -2,76 | Grímsstaðir | |
2 | 468 | 1928 | 7,48 | 5,10 | -2,38 | Reykjahlíð | |
3 | 477 | 1928 | 8,05 | 6,05 | -2,00 | Húsavík | |
4 | 295 | 1928 | 6,45 | 4,64 | -1,81 | Grænhóll | |
5 | 295 | 1946 | 5,99 | 4,24 | -1,75 | Kjörvogur | |
5 | 562 | 1928 | 6,35 | 4,60 | -1,75 | Dratthalastaðir | |
7 | 477 | 1946 | 9,05 | 7,35 | -1,70 | Húsavík | |
8 | 564 | 1928 | 6,35 | 4,70 | -1,65 | Nefbjarnarstaðir | |
9 | 284 | 1946 | 5,45 | 3,90 | -1,55 | Horn á Hornströndum | |
9 | 402 | 1946 | 6,65 | 5,10 | -1,55 | Siglunes |
Júní 1928 hefur valdið miklum vonbrigðum eftir hlýjan maí. Svipað hefur verið 1946. Þessir tveir mánuðir taka öll sætin á listanum, kólnunin á Grímsstöðum mest, -2,8 stig á milli maí og júní 1928. Stöðvarnar eru annars vegar á svipuðum slóðum og á lista ársins í ár, en hér eru líka nefndar stöðvar á Ströndum - og svo Siglunes.
Hinn endi listans - mest hlýnun frá maí til júní er hér að neðan.
röð | stöð | ár | maíhiti | júníh | mism | nafn | |
1 | 490 | 1906 | -1,46 | 9,77 | 11,23 | Möðrudalur | |
1 | 495 | 1906 | -1,58 | 9,65 | 11,23 | Grímsstaðir | |
3 | 490 | 1909 | 1,24 | 11,87 | 10,63 | Möðrudalur | |
4 | 490 | 1979 | -4,26 | 6,30 | 10,56 | Möðrudalur | |
5 | 542 | 1979 | -3,51 | 6,96 | 10,47 | Brú á Jökuldal I | |
6 | 468 | 1979 | -2,87 | 7,54 | 10,41 | Reykjahlíð | |
7 | 462 | 1979 | -3,48 | 6,88 | 10,36 | Mýri | |
8 | 490 | 1891 | 0,49 | 10,82 | 10,33 | Möðrudalur | |
8 | 495 | 1891 | 0,37 | 10,70 | 10,33 | Grímsstaðir | |
10 | 490 | 1888 | -1,61 | 8,57 | 10,18 | Möðrudalur | |
10 | 495 | 1888 | -1,73 | 8,45 | 10,18 | Grímsstaðir |
Gríðarlega kalt var í maí 1906 og 1979 og gott tilefni til stökks yfir í júní. Svipað var uppi á teningnum 1891 og 1888. Árið 1909 var það júní sem var óvenjuhlýr frekar en að maí væri óvenjukaldur. Á þessum lista eru aðeins stöðvar langt inni í landi norðaustanlands.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2017 | 19:10
Þrýsti- og þykktarvik júnímánaðar
Austlægar áttir voru ríkjandi í júní - talsvert umfram meðallag. Venjulega njóta vestlendingar góðs af slíku ástandi meðan úrkomusamt er eystra. Nú brá hins vegar svo við að loftþrýstingur var talsvert neðan meðallags - sá lægsti í júní síðan 1994. Lægðasveigju fylgir gjarnan óstöðugt loft og það sér landslag ekki nærri því eins vel og það stöðuga. Austlægu áttirnar voru því venju fremur blautar vestanlands - heildarúrkoma mánaðarins um eða yfir meðallag - og sólskinsstundafjöldi líka í meðallagi. En - þrálát austanáttin skilaði óvenjumikilli úrkomu austanlands - júnímeti á nokkrum stöðvum.
En lítum á þrýstivikakort evrópureiknimiðstöðvarinnar - miðað er við árin 1981 til 2010.
Heildregnu línurnar sýna meðalsjávarmálsþrýsting í nýliðnum júní, en litirnir vik frá meðallagi - bláir neikvæð vik. Það vekur athygli að varla sér í marktæk jákvæð vik á öllu svæði því sem kortið nær yfir. Lágþrýstingur hefur ekki verið í tísku í júní á þessari öld og þarf að fara aftur til 1994 til að finna hann jafnlágan eða lægri á þessum árstíma.
Síðara kort dagsins sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykkt og þykktarvik. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því minni sem hún er því kaldara er loftið. Allmikið neikvætt vik sat í mánuðinum fyrir suðvestan land - og viðvarandi háloftalægð. Þykktarvikið yfir landinu er í kringum -20 metrar. Neðri hluti veðrahvolfs um -1 stigi kaldari en að meðaltali 1981 til 2010. - Mikil jákvæð þykktarvik voru hins vegar ríkjandi á meginlandi Evrópu - og hiti neðri hluta veðrahvolfs þar um +3 stig yfir meðallagi. Hins vegar var kalt í Finnlandi og þar austur af.
Meðalhæð 500 hPa-flatarins hefur ekki staðið svona neðarlega í júní hér á landi síðan 1994. Aftur á móti var þykktin jafnlág og nú í júní 2012 og mun lægri en nú í júní 2011. Í þessum mánuðum tveimur var norðanátt eindregnari en í nýliðnum júní og allt annað veðurlag.
1.7.2017 | 13:22
Sumardagar og sumareinkunn það sem af er
Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár búið til lista yfir það sem hann kallar sumardaga í Reykjavík og á Akureyri. Skilgreininguna má finna í eldri pistli (20. júní 2013).
Niðurstaða talningar fyrir maí og júní í ár kemur nokkuð á óvart miðað við það hvaða umtal veðráttan hefur fengið. Sumardagarnir í Reykjavík eru 8 til þessa (þar af 3 í maí), en 16 á Akureyri (þar af 9 í maí). Á árunum 1961 til 1990 var heildarfjöldi sumardaga hvers árs að meðaltali 13 í Reykjavík, en 35 á Akureyri. Á þessari öld hefur veðurlag verið hagstæðara og meðalsumardagafjöldi í Reykjavík 35, en 43 á Akureyri. Um samanburð og úttekt á því besta og versta má lesa í uppgjörspistli ársins í fyrra (3. september).
Ritstjórinn reiknar einnig það sem hann kallar sumareinkunn. Hún miðast við meðalhita, úrkomu, úrkomudaga- og sólskinsstundafjölda. Einstakur mánuður getur hæst náð 16 stigum. Júnímánuður 2017 fær líklega 8 í Reykjavík - ekkert sérlega gott, en ekkert sérlega slæmt heldur.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 13
- Sl. sólarhring: 156
- Sl. viku: 1934
- Frá upphafi: 2412598
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 1687
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010