Smávegis hitabylgjumetingur

Hitabylgjan sem gengið hefur yfir landið undanfarna daga má nú heita liðin hjá. Hún skilaði nokkuð háum tölum. Hæsta hámarkshita á landinu síðan 2012 og hæsta hámarkshita í Reykjavík síðan 2008. Auk þess gætti hennar í marga daga - og það á nokkuð lýðræðissinnaðan hátt yfir landið - flestir landshlutar fengu að minnsta kosti einn mjög hlýjan dag. 

Spyrja má hversu algengt þetta er eða óvenjulegt. Svarið auðvitað nokkuð loðið, ekki beinlínis algengt, en ekki heldur sér í lagi óvenjulegt. Gerist sum sé endrum og sinnum. 

Breytingar á stöðvakerfi og fyrirkomulagi athugana gerir nákvæman samanburð langt aftur í tímann heldur þvælinn og það sem hér fer á eftir eru varla merkileg vísindi. Það er þó auðvelt að telja hlýja daga og hafa slíkar talningar oft komið við sögu hér á hungurdiskum, síðast fyrir rúmum mánuði, 21. júní. Það kom fram að á tíma sjálfvirka kerfisins hefur 27. júlí verið líklegastur hitabylgjudaga. 

w-blogg280717a

Eins og sagði frá í pistlinum þann 21. júní reiknar ritstjórinn daglega út hlutfall stöðva sem náð hafa 20 stiga hámarkshita - tilgangurinn aðallega að sjá hvort eitthvað óvenjulegt er á seyði eða ekki. 

Daglegt hlutfall má svo rissa upp á mynd eins og þá hér að ofan. Lárétti ásinn sýnir tímann allt aftur til 1997 - en þá varð sjálfvirka kerfið nægilega þétt til þess að eitthvað vit sé í að nota það til vísitölugerðar af þessu tagi. Lóðrétti ásinn sýnir svo „hitabylgjuhlutfallið“. Bláu súlurnar sýna svo einstaka daga. Súlurnar eru mjög gisnar - aðeins fáeinar á ári ná upp fyrir 200 þúsundustuhluta. Hlutfallið nú náði hæst í rúm 300 stig - reyndar tvo daga, þann 24. og 26. júlí. 

Svipaður árangur náðist síðast í júlí 2013, árin 2014, 2015 og 2016 voru hitabylgjurýr. Við tökum strax eftir því að tvær hitabylgjur, önnur í ágúst 2004, en hin í ágúst 2004 bera höfuð og herðar yfir aðrar. Nýliðin hitabylgja er svona rétt hálfdrættingur á við þær - þó góð hafi verið. 

Við sjáum jafnframt að á þessu 21 ári sem hér er undir hefur vísitalan náð 300 stigum á 9 sumrum (stundum þá oftar en einu sinni). Hitabylgjan nú er því eitthvað sem ekki gerist árlega - en varla mikið sjaldnar en annað hvert ár að jafnaði. Hvort niðurstaða sú telst upplífgandi eða niðurdrepandi fer eftir eðlislagi hvers og eins - rétt eins og dæmið með hálffulla eða hálftóma glasið. 

Flestum hinum fornu veðurnördum sem mótuðust á kuldaskeiðinu alræmda finnst (með réttu) að hitabylgjum hafi mjög fjölgað miðað við það sem áður var - en þeir sem aðeins muna nýju öldina hafa tilhneigingu til að finnast síðustu ár nokkuð gisin og skortur vera á hitabylgjum - telja jafnvel að þær „eigi“ að koma árlega eða oftar. Í pistlinum margtilvitaða frá 21. júní er mynd sem sýnir vel hversu umskiptin milli kalda skeiðsins og þess hlýja voru mikil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 404
  • Frá upphafi: 2343317

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 365
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband