Bloggfærslur mánaðarins, október 2017

Þó okkur komi það lítið við

Ritstjóri hungurdiska hefur oft fjallað um svona lægðir áður - veit þó ekki alveg hvað hann á að kalla þær þó auðþekktar séu. 

w-blogg041017b

Móðurlægðina sjáum við langt suðvestur í hafi - hægfara og lokaða inni af hæðarhrygg sem lagst hefur yfir úr vestri. Sunnanáttin austan við er nokkuð öflug og gefur hlýtt og rakt loft norður í háloftaröstina sem ber hlýindin og rakann hratt til austurs. Á sama tíma ber að kalt loft beint úr norðri. Kortið gildir kl. 6 í fyrramálið, miðvikudag 4. október og hefur smálægð náð að myndast þar sem hlýja loftið nær lengst til norðurs. 

w-blogg041017a

Háloftakortið sýnir stöðuna kl.18. Hér má vel sjá hvernig hlýja loftið myndar bylgju sem þrengir sér til móts við kuldann að norðan. Þó þetta sé ekki stór lægð er hún samt ákaflega varasöm og gæti valdið vonskuveðri, fyrst á heiðum og fjöllum Norður-Englands, og svo í Hollandi og Þýskalandi aðfaranótt fimmtudags og á fimmtudaginn. - Ekki er það þó fullvíst og kemur okkur varla við.

En lægðir þessarar ættar hafa mjög oft valdið mjög vondum veðrum hér á landi og leggjast illa í gamla veðurspámenn sem þykjast muna tímana tvenna í spáreikningum. Vonandi að tölvuspár nútímans hafi loks náð tökum á þeim flestum þannig að þær þurfi lítt að koma á óvart. 

En kalda loftið sem á þessu korti er yfir Íslandi er ekki svo óskaplega kalt, en þó rétt undir meðallagi árstímans. Síðan hlýnar aftur fyrir helgi - hvað sem það svo endist. Því haustið nálgast. 


Tvö septembervikakort

Við lítum nú á tvö kort sem sýna veðurlag í nýliðnum september - gerð eftir greiningum evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg021017a

Það fyrra sýnir meðalþrýsting við sjávarmál (heildregnar línur) og vik hans frá meðallagi septembermánaða áranna 1981 til 2010. Íslandslægðin svonefnda nokkuð öflugri en í meðalári, en þrýstingur með hærra móti yfir Skandinavíu norðanverðri. Þetta þýðir að sunnanátt var meiri en í meðallagi hér á landi. 

Þrýstingur var reyndar enn lægri í september í fyrra, en þá var lægðin austar en nú og sunnanátt ekki eins eindregin og nú (en var það aftur á móti í október). 

Sunnanáttin hefur valdið miklum hlýindum bæði hér á landi og ekki síður fyrir norðaustan land eins og sjá má á síðara kortinu.

w-blogg021017b

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins, en þær strikuðu (daufar) meðalþykkt mánaðarins. Litirnir sýna þykktarvik, en þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þar sem vikin eru mest er hiti meir en 6 stigum ofan við meðallag.

Svona mikil vik skila sér trauðla til yfirborðs. Hiti á Akureyri var 10,1 stig í september, 2,8 stigum ofan meðallagsins 1981 til 2010, en á myndinni er þykktarvikið á þeim slóðum um 3,0 stig. Hefði allt fallið á réttan stað (vikahámarkið lent yfir Íslandi) hefði meðalhiti á Akureyri e.t.v orðið meiri en 12 stig. Svo hár hefur septemberhiti aldrei orðið þar um slóðir - metið er 11,6 stig (1941). 

Það er erfiðara að hugsa sér að „hittingur“ af þessu tagi eigi sér stað um landið sunnanvert. Það er auðvitað alveg mögulegt að þykktarvikið verði þetta mikið, en hætt er við að það fái ekki notið sín syðra sökum skýja og rigningar. Hæsti septembermeðalhiti sem við vitum um í Reykjavík er 11,4 stig (1939) - meðalhiti 1981 til 2010 er 8,0 stig. Að meðalhiti septembermánaðar verði 6 stigum ofan við það (14 stig) er nánast óhugsandi.

Meðalþykkt yfir Íslandi í september er í kringum 5400 metrar. Stærstu septembervik sem við þekkjum við Ísland eru líklega um 80 metrar - samsvara um 4 stiga hitaviki. - Einmitt í september 1939 og 1941. Þá vantaði um 0,6 til 0.8 stig upp á að þykktarvikin skiluðu sé að „fullu“ í Reykjavík (þó ekki meira en það). Mestu vikin á kortinu hér að ofan eru nærri 130 metrar. Meðalmánaðarþykktin þarf að vera 5530 metrar til að ná þeim hér á landi, 50 metrum meiri en mest er vitað um - afskaplega ólíklegur atburður. Eigum við ekki samt að segja að 13-stigaseptember í Reykjavík bíði einhvers staðar í framtíðinni - en líkurnar á honum séu þó afarlitlar, nema að hnattræn hlýnun fari að bæta enn meira í en þegar er orðið. 


Fáeinar septembertölur

Og september endaði í 9,7 stigum í Reykjavík og 10,1 stigi á Akureyri. Úrkoma mældist 89,4 mm í Reykjavík og 73,2 mm á Akureyri.

Þetta eru nokkuð háar tölur, ritstjóranum sýnist að mánuðurinn sé í 9. til 12.hlýjasta sæti í Reykjavík og að á Akureyri sé aðeins vitað um fimm hlýrri septembermánuði.

Úrkoman í Reykjavík er um 30 prósent umfram meðallag áranna 1961-1990, en aftur á móti um 8 prósentum undir meðallagi septembermánaða síðustu tíu ára. Akureyrarúrkoman er hins vegar vel yfir meðaltölum beggja tímabila - en samt var talsvert meiri úrkoma þar bæði í september í fyrra og 2012.

Á Höfn í Hornafirði virðist úrkoma hafa mælst 337 mm í september - sú mesta þar í september og nánast sú sama og mest hefur mælst í október (337 mm, 1979), en heldur minni en mest í janúar (370 mm). Mælingar hófust á Höfn 1965 og stóðu til 1985, síðan var mælt í Hjarðarnesi og Akurnesi. Í Akurnesi mældist úrkoma í nóvember 2002 mun meiri en nú á Höfn, (583 mm) - þá mældist hún 672 mm í Hólum í sömu sveit. Septemberúrkomumet var nú einnig sett á Gilsá í Breiðdal, óstaðfest tala er 492 mm, talsvert meira en mest áður í september (415 mm, 1999), en mun minna en í nóvember 2002 (656 mm). Met var einnig slegið á Stafafelli í Lóni (383 mm), ómarktækt meira en eldra met (379 mm, 1990), og í Neskaupstað (tölur þó óstaðfestar).


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 13
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 504
  • Frá upphafi: 2343266

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 457
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband