Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016
17.5.2016 | 23:24
Mildari svipur á norðurslóðum en í fyrra
Talsvert mildari svipur er nú á norðurslóðum heldur en var í fyrra - og reyndar alveg síðan á sama tíma árið 2012. Við skulum til gamans líta á tvö háloftakort - annað frá því nú og hitt sama dag 2015. Kortin eru úr greiningu bandarísku veðurstofunnar.
Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins - en litir þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Það er býsna kalt við Ísland - ekki hættulega samt - og enn kaldara er fyrir norðaustan land þar sem þykktin er minni en 5160 metrar á nokkuð stóru svæði. - En við sjáum að jafnþykktar- og jafnhæðarlínur eru ekki mjög misgengar þannig að þetta versnar líklega ekki - en nokkuð langt er í hlýtt loft.
Þótt blái liturinn sé auðvitað áberandi á norðurslóðum eins og vera ber - er ekki tiltakanlega kalt yfir Íshafinu og í námunda við norðurskautið. Það sjáum við best af samanburði við stöðuna sama dag í fyrra.
Þá var miklu kaldara á þessum slóðum og lægsta þykkt norðurhvels minni en 4980 metrar, að minnsta kosti 140 metrum, eða 7 stigum lægri en lægst er nú. Auk þess var almennt afl í kerfinu í fyrra miklu meira.
Einnig var kalt - þó ekki alveg eins og í fyrra bæði 2013 og 2014, en árið 2012 aftur á móti e.t.v. svipað og nú - það er að segja á norðurslóðum. Mesta frost sem mælst hefur hér á landi 17. maí mældist einmitt 2012, -16,6 stig (á Brúarjökli). Þannig hagaði til 2012 að býsna öflugur kuldapollur hafði sloppið út úr Íshafinu - og til okkar - og kuldinn þar hafði ekki byggst upp aftur. Þeir sem vilja rifja það upp geta gripið til gamalla hungurdiskapistla - þar með þess frá 15. maí 2012.
Við gerum auðvitað ekkert úr þessu - hér eru aðeins svipmyndir af einum degi í nokkur ár - segja einar og sér ekkert um framhald vors og sumars.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2016 | 00:55
Svalt undir hlýindum
Ritstjórinn hikstar dálítið á birtingu háloftarita á hungurdiskum - þau eru mjög sérhæfð og þarfnast oftast langra skýringa fyrir þá sem ekki þekkja til - og þannig er auðvitað farið með langflesta. Út af fyrir sig væri sú lausn möguleg að fjalla ekki um neitt annað langtímum saman í þeim tilgangi að fjölga áhangendum slíkra upplýsinga. - En ekkert verður þó úr slíku.
Í dag lítum við þó á bút úr háloftariti sem sýnir athugun yfir Keflavíkurflugvelli á hádegi í dag, laugardaginn 14. maí 2016. Myndin af bútnum er birt tvisvar hér fyrir neðan í þeirri von að einhverjir glöggvi sig á skilaboðunum.
Hvað í ósköpunum sýnir þetta svo? Þykka, rauða línan sýnir hita sem háloftaritinn mældi á 5 sekúndna fresti á leið sinni upp í háloftin - upp á myndinni sýnir vaxandi hæð. Í stað þess að merkja hæðina í hinum venjulegu metrum inn á ritið er notaður þrýstingur.
Rauði ferillinn byrjar í stöðvarhæð (um 50 m yfir sjávarmáli). Hann fer fljótlega yfir svarta línu sem liggur þvert yfir myndina og er merkt sem 1000 hPa. Um hádegið var sá þrýstingur í um 180 metra hæð yfir sjávarmáli í Keflavík - svo er áfram haldið. Næsta lína er við 850 hPa - í dag í um 1500 metra hæð yfir Keflavík.
Aðrar svartar heildregnar línur eru lagðar á ská upp á við til hægri. Þær sýna hitann. Þykk svört lína sýnir frostmark 0°C en einnig má sjá 10°C og 20°C lengra til hægri - og bútur úr -10°C línunni er líka sjáanlegur (efst til vinstri).
Með lagni getum við séð að hitinn á hádegi í Keflavík hefur verið um 7 stig við háloftastöðina, hann fellur mjög hratt með hæð rúma hálfa leið upp í 850 hPa - upp í um 800 metra, og er þar rétt undir frostmarki þar sem kaldast er. Þá rís hann aftur og nær hámarki í 1400 til 1500 metra hæð - við sjáum að þar er hann í kringum 5 stig. Fellur síðan aftur og fer framhjá frostmarkinu í um 2800 metra hæð.
Einnig má sjá bláa þykka heildregna línu og sýnir hún daggarmark. Þar sem lítill munur er á hita og daggarmarki er loftið rakt, þar sem hann er mikill er það þurrt. Á ritinu klessast daggarmark og hiti saman þar sem kaldast er í um 800 metra hæð. Þar eru ský. Neðar er stutt á milli - og þar er rakt.
Á bilinu þar sem hiti hækkar með hæð er svo mikill munur á hita og daggarmarki að bláa línan hverfur út úr myndinni til vinstri. Þarna er greinilega sérlega þurrt.
Ef vel er að gáð má sjá þrjá bókstafi, a, b og c sem ritstjórinn hefur bætt inn á myndina. Við bókstafinn a er rauða línan bröttust, sá bútur hennar nær ekki nema upp að 1000 hPa-fletinum - í um 180 metra hæð yfir sjávarmáli. Síðan tekur við bútur sem merktur er með bókstafnum b - þar er bratti línunnar aðeins minni. Bókstafurinn c sýnir það bil sem hitinn hækkar með hæð - þar eru svokölluð hitahvörf.
Ritstjórinn notar ætíð fleirtölumynd orðsins - hitahvörf - en ekki hitahvarf. Skylt er að geta þess að ekki er samkomulag meðal íslenskra veðurfræðinga um þetta - en ritstjórinn er samt mjög stífur á sínu.
Á ritinu eru fleiri línur - við þurfum líka að vita hvað rauðu strikalínurnar merkja. Með því að fylgja þeim getum við séð hvernig hiti lofts breytist sé það á hreyfingu lóðrétt. - Við getum t.d. séð að loftið sem er í 850 hPa-hæð yrði um 18 stiga heitt ef hægt væri að ná því óblönduðu niður í 1000 hPa. - Farið þar sem heildregna rauða línan sker 850 hPa - og rennið ykkur síðan niður samsíða rauðu strikalínunni (halda sömu fjarlægð frá henni alla leið).
Ef við leikum sama leik rétt neðan hitahvarfanna - í 800 metra hæð endum við í 8 stigum í 1000 hPa.
Þetta var nokkuð snúið. Sama mynd aftur:
Aðalatriðið er þetta: Kalt og rakt loft lá í dag undir mjög hlýju og þurru. Staða sem þessi er ein hin algengasta hér á landi á þessum árstíma.
En áhugasamir ættu að kynna sér háloftarit betur - gætu t.d. byrjað á einföldum skýringarkafla á vef Veðurstofunnar.
Háloftaathuganir hvers dags eru aðgengilegar á vef Veðurstofunnar.
Þeir sem vilja geta einnig reynt að lesa viðhengið.
14.5.2016 | 01:52
Hvítasunnuhiti - fortíðar
Þar sem hvítasunnan er ein af hræranlegum hátíðum ársins er ekki auðvelt að bera saman hita á hátíðinni frá ári til árs. Það er líklegra að hvítasunnudagur í júní sé hlýrri en í maí. - Það hlýnar býsna hratt á þeim rétt rúma mánuði sem hvítasunnan getur fallið á. Þau ár sem hér verður litið á bar hvítasunnuna fyrst upp á 11. maí, 1845 og 1913, en síðast 13. júní, 1886 og 1943. - Hér að neðan er hroðvirknislega litið yfir hitafar horfinna hvítasunnudaga - óreiðuhrúgur.
Fyrstu tvö gröfin sem hér eru sýnd eru því sett upp þannig að dagur ársins er sýndur á lárétta ásnum - en hiti á þeim lóðrétta. Ártöl eru síðan sett við hvern hvítasunnudag fyrir sig. - Auðvitað verður mikil hrúga úr - en auðvelt er þó að greina hlýjustu og köldustu dagana.
Fyrri myndin á við Reykjavík og sýnir hámarkshita sólarhringsins - hún skýrist sé hún stækkuð - hún er líka í viðhengi. Rauða strikalínan sýnir mánaðamót maí og júní - tölurnar ná allt aftur til 1831 - en flestöll árin 1854 til 1871 vantar - og auk þess 1917. Hugsanlegum tvöföldum hámörkum hefur ekki verið útrýmt.
Samkvæmt þessu voru hlýjustu hvítasunnudagarnir 6. júní 1954 og 26. maí 1901. Bláa strikalínan sýnir eins konar væntihámark - sem háð er dagsetningunni, það er um 12 stig síðustu dagana, en rétt undir 10 stigum sé hvítasunnan um miðjan maí - eins og nú.
Sjá má slæðing af dögum þar sem hámarkshitinn hefur ekki náð 8 stigum - þau ósköp gerðust síðast 1995, hámarkshitinn var aðeins 6,3 stig - þó hátíðin væri frekar seint á ferðinni það árið, 4. júní. Hiti náði ekki 4 stigum á hvítasunnu 1834 (18. maí) og 1838 (3. júní) - en ritstjórinn hefur ekki athugað þær tölur nánar - með tilliti til mögulegra villa - margt er ógert.
Við lítum líka á meðalhita hvítasunnudags í Stykkishólmi - ekki hámarkið - á sama hátt.
Hér er farið aftur til 1846. Meðalhiti á hvítasunnu 2004 (30. maí) var hæstur - síðan kalda vorið 1979 (3. júní - ekki vænlegt að giska á almenna kuldatíð eftir þessari einu töku). Köldust var hvítasunnan í Stykkishólmi árið 1858 - meðalhiti undir frostmarki 23. maí. Við þurfum ekki að fara nema aftur til 2007 (27. maí) til að finna meðalhitatölu undir 5 stigum og til 1993 (30. maí) til að finna tölu undir 4 stigum - og til 1952 (1. júní) til að finna lægri meðalhita en 3 stig. - Íslensk vorhret eiga sín nöfn - hvítasunnukast er eitt þeirra. Alhvítt var á Stórhöfða í Vestmannaeyjum að morgni annars dags hvítasunnu 1952 - 2. júní. Dagana áður urðu fjárskaðar og samgöngutruflanir víða um land.
Að lokum skulum við skella stöðvunum saman á blað - þá vantar auðvitað árin fyrir 1846 og flest ár tímabilsins 1854 til 1871.
Klessuverk - já, en við sjáum þó að allgott samkomulag er á milli stöðvanna - þótt í öðru tilvikinu sé um hámarkshita að ræða (sem vill helst logn og sólskin til að verða hár - kannski kalt að nóttu) en í hinu meðalhita sólarhringsins - sem er helst lágur í skýjuðu veðri, úrkomu og trekki. - Munum líka að Reykjavík er oft í skjóli fyrir norðaustanþræsingnum sem oft plagar vestanvert landið að öðru leyti að vorlagi.
Vonandi verðum við sem lengst laus við hvítasunnudaga eins og þá sem liggja neðst til vinstri á myndinni, hámarkshita í Reykjavík um eða undir 6 stigum - og meðalhita í Stykkishólmi undir 2.
Ef við viljum getum við greint tvær þyrpingar á myndinni - aðfallslínan (sú rauða) liggur milli þeirra á 8 til 13 stigabilinu í Reykjavík. Neðri þyrpingin (tiltölulega kalt í Stykkishólmi - en skárra í Reykjavík) sýnir e.t.v. daga þegar sólin hefur náð hámarkshita Reykjavíkur upp yfir hádaginn í annars kaldari tíð. - Við gerum ekki neina tilraun hér til að staðfesta eða afsanna þá kenningu.
12.5.2016 | 23:54
Og enn af sjávarhita
Enn skal róið á sjávarhitamiðin - þótt margir hafi tapað þræði - og sakna hans sjálfsagt ekki. Við látum okkur nægja að líta á þrjár myndir - ekki sérlega skýrar en þær skána við stækkun - og eru svo auðvitað aðgengilegar í frumheimildum - þær má allar finna á netinu eftir tilvísun í myndartextum.
Fyrsta mynd er úr grein sem ritstjóri hungurdiska á reyndar aðild að. Þar var kynnt til sögunnar hitaröð sem búin er til úr ársmeðalhita fjögurra stöðva, einni á Íslandi, annarri á Grænlandi, þeirri þriðju í Svíþjóð og fjórðu við Hvítahaf í Rússlandi. Hitaröð þessi nær aftur til 1802.
Kortið sýnir Norður-Atlantshaf - allt suður fyrir hvarfbaug. Litirnir sýna fylgni á milli hitaraðarinnar áðurnefndu og sjávarhita á svæðinu. Eins og vænta mátti er fylgnin góð við sjávarhita í Noregshafi og kringum Ísland - næst mælistöðvunum. Þar sunnan við er stórt svæði þar sem fylgni er lítil sem engin - hiti þar segir ekkert til um hita norðar - sama hvort hlýtt er eða kalt. Þar enn fyrir sunnan er hins vegar svæði þar sem fylgni er mun meiri. - Þess má geta að mjög hlýtt er á þessu svæði um þessar mundir - þótt kalt sé á ósamhengissvæðinu fyrir suðvestan land.
Ekki er rétt að taka fylgnimyndir sem þessa allt of hátíðlega - þótt það sýnist oft gert með miklum þunga - sýni þær eitthvað sem menn svo túlka sem spá um yfirvofandi kulda. -
En hvað um það - Atlantshafið er mjög oft röndótt á fylgnimyndum - breiðir borðar liggja frá vestri til austurs - þar sem mikil og lítil - eða jafnvel gagnstæð fylgni skiptast á. Á langflestum myndanna má greina þrjá - eða fjóra - borða. Staðvindasvæðin (sunnan háfylgnisvæðisins) á myndinni hér að ofan - og svæðið sunnan Grænlands fylgjast gjarnan að í sama lit - en kjarnasvæði Golfstraumsins suðurjaðar hans eru úr takti - í öðrum lit. Norðurslóðir - hugsanlegur fjórði borði - fylgir Golfstraumslitnum.
Farið er að kalla þetta mynstur North Atlantic Sea Surface Tempterature Tripole - við látum vera að þýða nafngiftina - í bili. Þeir sem leita geta fundið það á fjölda mynda og í greinum á netinu. Ekki eru þessar myndir þó eins - jafnvel nokkuð ólíkar - og ekki alltaf vísað á sömu þrjá borðana - sem þrípólinn.
Kannski er eitthvað til í þessu. - Ritstjóra hungurdiska finnst þó tilefni til ákveðinnar varúðar í ályktanagleði - sérstaklega hvað varðar löng tímabil - eða þá framtíðina. - En sé þetta rétt er meir en full ástæða til þess að taka fullyrðingum um að hiti í N-Atlantshafinu í hreyfist í einhverjum heildartakti sameiginlegrar hlýnunar og kólnunar sem teygir sig til allra þess skanka af varúð.
En lítum á fleiri myndir. - Næst er mynd sem sést nokkuð vitnað til - eða ættingja hennar.
Hér má sjá hitavik á mismunandi dýpi í Labradorhafi á árunum frá 1950 fram á árið 2014. Blái ferillinn tekur til 0 til 200 metra, sá græni á við 200 til 500 metra og sá rauði 500 til 1000 metra dýpis. Í greininni eru sams konar myndir sem sýna seltu og skynvarma. Áhugasamir geta rýnt í þessa mynd og séð sitthvað athyglisvert - en hér skulum við aðeins líta á stærsta einstaka atburðinn.
Munum að hlýskeiðið mikla á 20. öld endaði hér á landi með braki á árinu 1965 (gallar voru komnir í það aðeins fyrr) - og mjög kalt var hér síðan á árunum 1966 til 1971 - við tölum um hafísárin. Fyrri hluti þess tímabils var sérlega hlýr í Labradorhafi - allt frá yfirborði niður í þá 1000 metra sem mest sjást hér. - Ekki er nokkur leið að sjá að hiti þar hafi á nokkurn hátt haft forspárgildi um hita hér á landi - heldur miklu fremur hið gagnstæða.
Síðan verður mjög snögg kólnun - og er hiti í yfirborðslögum kominn í lágmark árið 1970 - en takið eftir því að þá er hlýjast í neðri lögunum - langan tíma tekur fyrir fréttir að ofan að berast niður - enginn sjór sekkur. Ástæðan er ferskur sjór sem kom inn á svæðið - sá sjór kom alla leið norðan úr Íshafi - um Framsund, svo Grænlandssund og suður fyrir Hvarf.
Það var ekki fyrr en 1972 að fréttir fóru aftur að berast niður - en þá hafði einmitt gengið til þrálátra norðvestanátta á svæðinu sem tókst með kulda og trekki að kæla sjóinn nægilega til þess að hann fór aftur að missa flot og blöndun gat hafist að nýju.
En eftir ferskvatnsgusuna og blöndunina var heildarsaltmagn efstu 1000 metranna samt minna en áður - og langan tíma tók að jafna það ástand út aftur. Þá velta menn vöngum yfir því hvort enn dýpri blöndun hafi stöðvast um lengri tíma - og þar með hafi orðið heildaraflminnkun á veltuhringrásinni (sjá fyrri pistil) - en ekkert sérstakt bendir þó til þess að svo hafi orðið.
Neðst á myndinni er línurit sem sýnir breytileika NAO-tölunnar á sama tímabili - nokkur líkindi má sjá með því og hitalínuritunum - enda er fylgni milli tölunnar og hita á Vestur-Grænlandi mjög mikil - hiti á Vestur-Grænlandi segir einn og sér mikið um norðvestanþræsinginn í Labradorhafi - og þar með kælingu yfirborðs sjávar á þeim slóðum. Samband NAO-tölunnar og hita á Íslandi er hins vegar ekkert - enda er NAO-talan ekki einhlítur mælikvarði á hringrás lofthjúpsins á svæðinu - þótt því sé allt of oft haldið fram - auðvitað af þekkingarleysi.
NAO-talan er hins vegar allrar athygli verð og hefur verið mjög óróleg síðustu árin - reyndar efni í sérstakan hungurdiskapistil - kannski við lítum á það mál síðar.
Þriðja og síðasta mynd dagsins lítur til fortíðar - hér má sjá ágiskun um sumaryfirborðshita sjávar síðustu 200 árin á svæði langt suðvestur á Reykjaneshrygg. - Ágiskunin er gerð með hjálp samsætugreiningar á sjávarbotnskjarna og birtist í tímaritinu Climate Dynamics fyrir nokkrum árum (sjá tilvitnun á mynd).
Því er ekki að neita að ritstjóri hungurdiska hrökk nokkuð við þegar hann leit á myndina. Ferlarnir eiga að sýna sjávarhitann á tímabilinu 1770 fram yfir árið 2000. Hann leitar heldur upp á við þegar á heildina er litið (hnattræn hlýnun?), en eitt sérlegt hámark er þó mest áberandi. Það á sér stað á tímabilinu 1860 og rétt fram yfir 1880.
Þetta vekur mikla furðu satt best að segja - því þetta er einmitt kaldasta skeið mælisögunnar hér á landi - ásamt árunum í kringum 1810. Getur verið að sjórinn fyrir suðvestan land hafi í raun og veru verið svona hlýr - og Íslandshitinn engar fréttir haft af því? Það er nú það.
Hér er alla vega rétt að halda sönsum og hrapa ekki um of að allsherjarályktunum. Túlkun á tengslum veðurvitna við raunverulegt veður fer oft illa úrskeiðis - mörg dæmi sanna það - en þar til meiri gögn berast - eða einhver til þess bær fræðimaður skýtur þetta línurit í kaf - skulum við samt gefa því möguleika á að vera rétt.
Þarf endilega að hafa verið kalt á þessum slóðum þegar kalt var hér á landi? Slæðingur er til af sjávarhitamælingum frá þessum tíma - og styðja þær heldur við myndina frekar en hitt. -
Við sáum á fyrstu mynd dagsins að samband hita við norðaustanvert Atlantshaf við sjávarhita suðvestur af Íslandi er almennt rýrt. Við sáum af annarri myndinni að hlýtt var sunnan Grænlands í nokkur ár eftir að kuldarnir byrjuðu hér á landi á 6. áratug 20. aldarinnar. - Ekkert samband var þau árin á milli hita á þeim slóðum og hér á landi. Ef við tökum þriðju myndina alveg bókstaflega verðum við að draga þá ályktun að hiti hér á landi spái ekki heldur fyrir um sjávarhita fyrir suðvestan land - hér geti verið kalt langtímum saman án þess að eitthvað óhjákvæmilegt gerist sunnan Grænlands.
Heildarlærdómur myndanna þriggja er margvíslegur - t.d. sá að ekki sé rétt að vera með altæka spádóma á grunni staðbundinnar kólnunar eða hlýnunar - þótt um raunveruleg merki eða markverða atburði að ræða vitum við ekki endilega hvað þeir hafa síðar í för með sér. Kerfið er flókið.
12.5.2016 | 01:30
Nærri 20 stig - en ekki alveg
Í dag (miðvikudaginn 11. maí 2016) mældist 19,9 stiga hiti í Önundarhorni undir Eyjafjöllum, 19,6 við Gígjukvísl og 18,7 stig í Skaftafelli. Þetta eru hæstu hitatölur ársins á landinu til þessa. Hiti er nú mældur á mun fleiri stöðvum en á fyrri tíð og þess því að vænta að tuttugustigamörkum sé að meðaltali náð fyrr á vorin heldur en áður.
Í bloggpistli á hungurdiskum sumarið 2014 var þess getið að meðaldagsetning fyrstu 20-stiga ársins á árunum 1997 til 2014 hafi verið 14,maí - breytileikinn er hins vegar gríðarlegur, fyrsta dagsetning 29. mars - en sú síðasta 26. júní. Á mönnuðu stöðvunum þurfti hins vegar að bíða 10 dögum lengur að meðaltali eftir 20 stigum á þessu sama tímabili.
En hámörkin í dag verða varla slegin alveg næstu daga. En tilefnið var ágætt - mjög hlýtt var yfir landinu. Kortið hér að neðan sýnir þykktina (heildregnar línur) og hita í 850 hPa um hádegið - samkvæmt greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Þykktin yfir Suðausturlandi var meiri en 5520 metrar - góður sumarhiti í neðri hluta veðrahvolfs. Eins og sjá má á myndinni er ekki langt í mun kaldara loft, þykktin ekki nema 5180 metrar við norðurjaðar hennar. - Þessi kuldapollur rúllar til suðausturs - en á að fara að mestu framhjá okkur. Heldur kólnar þó meðan hann fer hjá - og varla losnum við við næturfrostið.
Svo er aftur spáð hlýnandi - þó ekki þykkt yfir 5500 metrum á næsta 10-daga spátímabili. - En þegar sólargangur er langur eins og nú er - og jörð víðast að verða auð í byggðum geta hagstæð vindaskilyrði gefið okkur 20 stig með lægri þykkt, jafnvel niður undir 5450 metra - en slíkt telst þó heppni.
En þar til í dag hafði hæsti hiti ársins til þessa verið 13. mars - tími til kominn að slá þá annars góðu tölu út af borðinu og rýma fyrir einhverju hærra og vorlegra.
10.5.2016 | 23:40
Veltihringrás Atlantshafs
Varla er hægt að ætlast til þess að meginþorri lesenda haldi þræði í raðpistlum ritstjóra hungurdiska - en fyrir þá fáu sem enn vilja sækja til sjávar má spinna lengi enn.
Síðast var fjallað um það sem kallað er AMO (eða AMV). Sem vonlegt er er þessari skammstöfun (fjölárahitasveiflur Atlantshafs) oft ruglað saman við aðra, AMOC (Atlantic Meridional Overturning Circulation) - veltihringrás Atlantshafsins.
Vindar ráða mestu um yfirborðsstrauma hafsins - þeir vekja líka lóðréttar hreyfingar - ekki aðeins með blöndun yfirborðslaga, heldur geta þeir líka dregið sjó úr djúpinu. Breytingar á vindi geta þannig haft mikil áhrif á yfirborðshita heimshafanna.
Kuldi ríkir í undirdjúpum allra heimshafanna, í hitabeltinu líka - það ástand er ein af furðum náttúrunnar. Þótt varmastreymi um botn hafanna sé lítið nægir það samt til þess að hita höfin öll upp á tugum árþúsunda, Jarðsagan er löng, alveg nógu löng til þess að sjá um slíka upphitun - en samt ríkir kuldi. Það þýðir einfaldlega að honum er viðhaldið á einhvern hátt. Eini kælimöguleikinn er á yfirborði sjávar - á þeim hafsvæðum sem eru nægilega sölt og lofthiti nægilega lágur til að kæla sjóinn það mikið að hann getur sokkið og haldið kulda undirdjúpanna við. Hafísinn er í nokkru jókerhlutverki - hann getur bæði ýtt undir og dregið úr djúpsjávarmynduninni - allt eftir aðstæðum hverju sinni.
Á jarðsögulegum tíma hafa heimshöfin ýmist verið köld eða hlý. Samheiti er til fyrir kalda sjóinn á erlendum málum - psychrosphere - af gríska orðinu psychros sem mun þýða kaldur. Við gætum notað orðið kuldahvel - ritstjórinn leitar stöðugt að betur hljómandi orði sem skilar merkingunni - en hefur ekki fundið.
Andardráttur kuldahvelsins hefur verið misöflugur - en það getur kafnað - og þá hlýnar það smám saman. Það er þó álitamál hvort köfnun þess væri fagnaðarefni - því þá er hætt við súrefnisneyð í hafinu.
Við kælingu (og saltskiljun við hafísmyndun) missir yfirborðssjórinn flot og sekkur þar til hann finnur sjó þar sem flotið er enn minna. Nú á tímum myndast djúpsjór bæði við Suðurskautslandið og í Norður-Atlantshafi - en ekki í Norður-Kyrrahafi. Svo naumt stendur að lítilsháttar hallarekstur er á ferskvatnsbúskap Atlantshafs - miðað við Kyrrahafið - meira gufar upp en rignir við Atlantshafið - úrkoman skilar sér á vatnasvæði Kyrrahafs og lækkar yfirborðsseltu þess lítillega - nægilega þó til þess að djúpsjávarmyndun á sér ekki stað í því norðanverðu.
Djúpsjórinn sem myndast í suðurhöfum er lítillega þyngri en sá sem myndast í Norður-Atlantshafi. Allt djúphaf sunnan Íslands er upprunnið í suðurhöfum. Norræni djúpsjórinn leggst ofan á. Samskipti norræna og suðræna djúpsjávarins geta raskast á löngum tíma - og hugmyndir eru uppi um að það gerist öðru hvoru á jökulskeiðum ísaldar - risavaxnir atburðir eru vel hugsanlegir. - En slíkt mun varla yfirvofandi.
Mjög lítill varmaflutningur á sér stað milli norður- og suðurhvels jarðar í Kyrrahafi - en aftur á móti flytur Atlantshafið varma yfir miðbaug. Að greina ástæðurnar í þætti er ekki einfalt - en uppgufunarjöfnuðurinn áðurnefndi kemur við sögu - sem og geislunarbúskapur jarðarhvelanna tveggja.
Í ljós hefur komið að býsnaöflugir djúpsjávarstraumar liggja til suðurs í Atlantshafi vestanverðu - einhvern veginn verða þeir til í vindleysi undirdjúpanna. Með bókhaldsuppgjöri (og fleiri kúnstum) má sýna fram á að þeir hljóta að vera afleiðing af djúpsjávarmyndun norðurhafa. Sú hugsun kemur þá upp að djúpsjávarmyndunin sé einhvern vegin völd að því að meira geti borist af hlýsjó að sunnan norður í höf en væri án hennar.
Nú kann þessi síðasta hugsun að vera rétt - menn eru meira að segja farnir að ganga út frá því að svo sé. - En sannleikurinn er samt sá að dæminu hefur ekki alveg verið lokað.
En aftur að nafni og skammstöfun, AMOC (Atlantic Meridional Overturning Circulation). Við ættum nú að skilja öll orðin. Atlantshafið vitum við auðvitað hvað er, en bendum á að hér er það allt undir - líka sá hluti þess sem er sunnan miðbaugs. Meridional þýðir lengdarbundin - bókstaflega hádegisbaugabundin - í stefnuna norður-suður. Overturning, orðið þýðir nokkurn veginn umsnúningur vísar til veltu. Sjór kemur til norðurs að sunnan, hluti hans missir flot, sekkur og snýr síðan aftur til suðurs í undirdjúpum (þó ofan á suðurhafasjónum). Circulation þýðir hringrás. AMOC er því hin lengdarbundna veltuhringrás Atlantshafsins.
AMOC er efri hluti (leggur) hinnar almennu veltihringrásar heimshafanna allra (MOC) og andar fyrir efstu 2 km kuldahvelsins - neðri hlutinn (leggurinn) á uppruna sinn við Suðurskautslandið - og sér um að anda fyrir það sem dýpra liggur.
Hvernig í ósköpunum getum við mælt þessa hringrás? Atlantshafið er gríðarstórt og margur hliðarlekinn hugsanlegur út úr meginstraumakerfunum. - Jú, það er helst að menn reyni að mæla styrk Golfstraumsins við austurströnd Norður-Ameríku - og djúpstrauma neðarlega í landgrunnshlíðinni þar undir. Einnig leggja menn út mikil snið um Atlantshafið þvert og reyna að gera upp bókhaldið.
Flestar þessar mælingar eiga sér ekki langa sögu - varla nógu langa til að af þeim verði dregnar mjög víðtækar ályktanir. Það hefur þó komið í ljós að breytileiki þess sem verið er að mæla (ekki endilega heildarstyrkur veltuhringsins) virðist mun meiri frá ári til árs en menn höfðu áður talið. Þegar þessi mikli breytileiki kom fyrst í ljós birtust margar fréttir um hrun hringrásarinnar og fleira í þeim dúr. - En svo kom í ljós að þessi breytileiki virðist hluti af eðlilegu ástandi kerfisins.
Í vetur birtist mjög góð yfirlitsgrein (sjá vísun hér að neðan) þar sem farið er í saumana á því sem nú er best vitað um veltihringrásina. Það væri ástæða til að ræða þessa grein frekar - en vafasamt að slík yfirferð gagnist nema mjög fáum lesendum hungurdiska. Það er líka nær vonlaust að halda löngum og flóknum frásagnarþræði á bloggi. - Við lítum þó á eina beina tilvitnun (s.9):
[N]o observational study to date has successfully linked SST changes to AMOC variability. Í gróflegri þýðingu: Engum rannsóknum hefur enn tekist að tengja saman sjávarhitabreytingar og breytileika veltihringrásarinnar. Með öðrum orðum engin haldföst tengsl hafa enn fundist milli AMOC og AMO.
Við skulum samt hafa í huga að þótt það hafi ekki tekist er ekki þar með sagt að tenging sé engin. Skotheldar mælingar á hringrásinni hafa varla verið gerðar - og þær sem þó eru til hafa aðeins staðið í stuttan tíma.
Ritstjóri hungurdiska mun e.t.v. skrifa nokkra fleiri sjávartengda pistla á næstunni.
Vitnað var í: Buckley og Marshall (2016), Observations, inferences and mechanisms of the Atlantic Meridional Overturning Circulation: A review. Reviews of Geophysics, 2016.
10.5.2016 | 01:18
Meira um sjóinn
Við hugum nú að fyrirbrigði því sem oftast er kallað AMO og oft birtist í umræðum (þrasi) um veðurfarsbreytingar - ekki er alltaf varlega með það farið. Mjög oft er því ruglað saman við annað - AMOC. Varla er hægt að segja að sá ruglingur sé óvæntur - skammstafanirnar líkar - og koma gjarnan við sögu í sama þrasi (eða umræðu) - en samt er þetta ekki það sama. Víkjum að AMOC í síðari pistli (leyfi forsjónin slíkt).
Skammstöfunin AMO stendur fyrir Atlantic Multidecadal Oscillation - fjöláratugasveifla (hita) Atlantshafs. Fyrirbrigðið á sér ágæta umfjöllun á Wikipediu og geta áhugasamir sótt þangað fróðleik. Gagnaraðir má fá á vef Earth System Research Laboratory (ESRL) - þar er sérstök AMO-síða - sem skýrir út hvernig gagnaröðin er búin til - og þó kannski ekki alveg.
Á netinu má mjög víða finna vísanir í AMO. Þar er yfirleitt gengið í myndir sem sýna gagnaröðina eftir útjöfnun og leitnieyðingu. Allt í fína með það - jafnvel betra. Ef við tökum ERSL bókstaflega sýnir AMO gagnaröðin í grundvallaratriðum (basically í þeirra orðalagi) meðalhita á N-Atlantshafi. N-Atlantshaf er í grundvallaratriðum (líka basically í þeirra orðalagi) allt hafsvæðið frá miðbaug norður að 70. breiddarstigi (skrýtið orðalag).
Þetta er ógnarstórt svæði - breytileikinn er mestur á norðurjaðri Golfstraumsins sem og norðan Íslands (þau svæði eru svo lítill hluti heildarinnar að þau skipta litlu) og svo er allstórt svæði suður af Grænlandi - sem þar með ræður nokkuð miklu - þrátt fyrir að vera smátt miðað við heildina. Sömuleiðis er nokkur breytileiki á staðvindasvæðunum - þau eru mjög stór og breytileiki þar ræður því töluverðu.
Hitavik svæðisins alls fylgjast ekki að - nema trúlega þau sem tengjast hnattrænni hlýnun - þótt því sé stundum (glannalega) haldið fram - heldur má greina athyglisvert mynstur sem reyndar á líka sérstakt (klunnalegt) nafn: North Atlantic Sea Surface Temperature Tripole [norðuratlantshafssjávaryfirborðshitaþrípóllinn (?-he-he) - við gætum rætt hann síðar (leyfi þrek ritstjórans það).
Þar sem Ísland er hluti af þessu svæði (þótt lítill sé) má finna samband á milli AMO og ársmeðalhita hér á landi. Sé það reiknað skýrir AMO þó aðeins brot af breytileikanum frá ári til árs og á lengsta tímakvarða er hnattræn hlýnun sameiginleg.
Þar sem svo víða má ganga í myndir af leitnilausa og útjafnaða AMO á netinu - og umfjöllun - skulum við beina sjónum að tölunum eins og þær koma beint af skepnunni. - Ekki að það sé endilega betra eða réttara - en alla vega mun sjaldséðara.
Lárétti ásinn sýnir tíma - lóðrétti ásinn til vinstri ársmeðalhita í Stykkishólmi, sá lóðrétti til hægri aftur á móti AMO-hitann - líka selsíusstig. Kvarðabil eru hér hin sömu. Bláu krossarnir sýna hita hvers árs í Stykkishólmi, bláa línan er 10-ára keðja. Grænir hringir sýna AMO-hitann og græna línan er 10-ára keðja hennar.
Við sjáum að breytileiki Stykkishólmshitans er margfaldur á við AMO-hitann - en hlýskeiðið mikla á 20. öld og hlýnun síðustu áratuga eru býsna sameiginleg sé litið á 10-ára keðjurnar. Ástandið á 19. öld er eitthvað annað. Nítjándualdarhitinn í Stykkishólmi er nokkuð skotheldur - alla vega aftur fyrir sameiginlega tímabilið - og vel má vera að AMO-hitinn haldi líka - en það er þó ekki nærri því eins víst. Alla vega voru mælingar á breytileikasvæðinu suður af Grænlandi ekki miklar eða þéttar á þessum tíma - og skothríð er stöðugt haldið uppi á sjávarhitamælingar á 19. öld almennt. - En við skulum bara trúa þeim þar til annað kemur í ljós.
Næsta mynd sýnir ársmeðalhitann í Stykkishólmi á móti AMO-hitanum.
Jú, samband er á milli, höfum þó í huga að við erum með leitnilausu gagnaröðina - og hnattræn hlýnun er sameiginleg - sú samstaða skilar fáeinum stigum í fylgnisjóðinn. Takið sérstaklega eftir því að faðmur Stykkishólmskvarðans er fjórfaldur á við AMO-faðminn.
Í umfjöllun hungurdiska um heimshita fyrir nokkru var samskonar mynd sýnd - og líka settur hringur sem tengdur var hafíseinhverju - sá Stykkishólmskuldi virðist alls ótengdur AMO. Einnig má taka eftir því að köldustu AMO-árin (krossarnir lengst til vinstri) eru í nærri því í meðallagi hvað hita varðar í Stykkishólmi. - Hlýjustu árin eru meira samstíga - enda almenn hlýnun í heiminum.
Síðasta mynd þessa pistils sýnir 10-ára keðjurnar eingöngu - reynt hefur verið eftir bestu getu að fella þær saman.
Athugið mun á spönn kvarðanna. Bæði AMO og Ísland sjá 20.aldarhlýskeiðið, hlýskeið síðustu ára - og kuldann á milli. AMO á hins vegar hámark þegar hitinn hér á landi er í lágmarki á árunum 1860 til 1890 - og heldur sér svipuðum eftir að lágmarkstími AMO gengur yfir í upphafi 20. aldar. - Við getum ekki treyst samræmi til fullnustu. -
Erfiðara er að negla niður tímamun sem kemur fram í uppsveiflum hlýskeiðanna - og varlegt að fullyrða um að hann sé raunverulegur. Fyrra hlýskeiðið byrjar fyrr hér á landi en í AMO-röðinni. - Aftur á móti byrja nýju hlýindin fyrr í AMO-röðinni en hérlendis. Ekki skulum við gera mikið úr því - en láta það þó segja okkur að spávirði annarrar raðarinnar gagnvart hinni er harla bólukennt.
Margir vísindamenn eru á því að AMO sé rangnefni - og vilja heldur tala um AMV - Atlantic Multidecadal Variability - fjöláratugabreytileika frekar en fjöláratugasveiflu. Ritstjórinn er hjartanlega sammála - íslenskan ætti þó lausn með því að nota alltaf fleirtölumynd - fjöláratugasveiflur Atlantshafs - r-ið gefur til kynna það sem rétt er, að hún er ekki reglubundin. Sé þessi síðari merking lögð í orðin (á hvoru máli fyrir sig) verður ljóst að mjög vafasamt er að tala um AMO sem fyrirbrigði eins og um einhverja skepnu væri að ræða. - En ritstjórinn stynur bara mæðulega yfir slíku þrasi - og er svosem nokkuð sama.
Ætli verði svo ekki síðar að fjalla um AMOC, NASSTT og sitthvað því tengt - hver veit?
9.5.2016 | 00:27
Reykurinn frá Kanada
Eldarnir í Kanada vekja mikla athygli og mun reykjaslóðans frá þeim trúlega um síðir verða vart hér á landi - það er vaninn þegar miklir eldar brenna þar vestra. En sem stendur er hringrás lofthjúpsins mjög lengdarbundin sem kallað er á svæðinu milli eldanna og okkar. Það þýðir að reykjarslóðinn sveiflast frekar norður og suður (eins og lengdarbaugar) heldur en að hann haldi aðallega í stefnu til austurs - eins og algengast er.
Ýmsir aðilar reyna að mæla slóðann og spá fyrir um ferðir hans næstu daga. Þar á meðal er evrópskt verkefni sem nefnist Copernicus atmosphere monitoring service, CAMS, notar spár evrópureiknimiðstöðvarinnar og mælingar gervihnatta.
Spár eru svo birtar um lýsiþykkt (optical depth) - reynt er að greina á milli uppruna mengunar - lífefnaösku (biomass burning), sjávarseltu, ryks og súlfata. Ekki gott að segja hvernig það tekst - eða hver áreiðanleikinn er.
En lítum á spá um lýsiþykktarauka vegna lífefnaösku yfir Norður-Ameríku á morgun (mánudag 9. maí). Því meiri sem lýsiþykktin er því meiri er mengunin.
Kortið sýnir norðurhvel mestallt - örvar benda á kanadaelda og Ísland. Eldar virðast einnig í gangi á fleiri en einum stað í Austur-Asíu og sömuleiðis í Miðameríku. Eins og sagði í upphafi pistilsins er líklegt að um síðir muni eitthvað af reyknum að vestan berast til okkar - það sést þá á sólinni og fróðlegt að fylgjast með því ef af verður (sem aldrei er víst). Spá þeirra CAMS-liða nær mest 5 daga fram í tímann - og sé hún rétt verður reykurinn þá enn ekki kominn hingað.
8.5.2016 | 01:02
Kaldur sjór - (á eitthvað að vera að ræða hann?)
Ritstjórinn er í vafa - en þegjum ekki alveg.
Fyrst er kort sem sýnir meðalyfirborðssjávarhita í apríl síðastliðnum - eftir greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar. Ætti að vera sæmilega nærri réttu lagi - nema í námunda við ísjaðarinn þar sem alls konar álitamál koma upp.
Litakvarðinn skýrist sé kortið stækkað. Fjólubláu svæðin sýna hvar yfirborðshitinn er undir frostmarki (ferskvatns), bláir litir ná svo upp í +5 stig og guli liturinn markar +10 stigin. Fjögur rauð strik hafa verið sett inn á myndina, tölumerkt til áherslu.
Strik 1 sýnir að mjög mikill hitamunur er á örmjóu svæði suðaustur af Nýfundnalandi, 10 stig á aðeins nokkur hundruð kílómetrum (og það í mánaðarmeðaltali). Þetta er við norðvesturbrún Golfstraumsins. Þar eru miklir sveipir og hlykkir - og lítil hnik geta þýtt stór hitavik - en að jafnaði ekki mjög merkingarbær.
Ívíð meiri þýðingu hafa vik við strik 2 - þar jafngildir 1 stig í viki færslu marka hlý- og kaldsjávar um 70 til 100 km. Við strik 3 er flatneskja mun meiri og 1 stigs vik til eða frá eru býsna merkingarbær - tilfærsla um 100 til 300 km í kerfinu. Við straumamótin austur og suðaustur af Ísland eru svo líka skörp skil.
Við skulum líka hafa hitatölur í huga. Á megninu af svæðinu er hiti meiri en 4 stig - og sumarhlýnun varla hafin.
Næsta kort sýnir svo vik - miðað við 1981 til 2010.
Strikin eru hér líka. Vikin við strik 1 eru mjög stór - en mjög hlykkjótt og tengjast greinilega einstökum sveipum Golfstraumsbrúnarinnar - erfitt að segja hvað nákvæmlega er hvað. Við strik 2 og 3 er hins vegar engin sjáanleg tenging við legu jafnhitalínanna á fyrra korti. Svæðin eru einfaldlega kaldari en meðaltalið. - Í því er einhver merking. Svæðið þar sem vikin eru meiri en -1 stig er nokkuð stórt - en á megninu af bláa svæðinu eru vikin þó aðeins -0,2 til -1,0 stig. - Það er þó vel marktækt - og munar um.
Við strik 4 er almennt hlýrra en venjulega - en þó virðast aðalskilaboðin e.t.v. felast í því að skilin séu veikari en að meðaltali - hlýrra að tiltölu norðan þeirra heldur en sunnan.
Þessi neikvæðu vik hafa nú lifað í rúm tvö ár - byrjuðu vestan til á svæðinu og hafa síðan þokast austur á bóginn. En lifa þau áfram - og hvers vegna urðu þau til?
Lítum á fleira - nokkuð flókna mynd.
Ja, hérna. Fyrst er að geta þess að myndinni er nappað úr grein eftir Kieke og Yashayaev (2015 - sjá tilvitnun í myndarhaus). Staðurinn sem gögnin sýna er í Labradorhafi - suðvestan Grænlands.
Lárétti ásinn sýnir tíma, byrjar á miðju sumri 2002 (lengst til vinstri) og endar á miðju sumri 2014 (til hægri). Lóðrétti ásinn sýnir þrýsting - í desibörum. Desibarið er hentug þrýstieining í sjó vegna þess að gróflega má segja að þrýstingur aukist um 1 bar á hverja 10 metra dýpis, eða 1 dbar á 1 metra. Desibarakvarðinn samsvarar því nokkurn veginn metrum í sjávardýpi.
Þetta er sum sé tímaþversnið - sjávardýpi á lóðréttum ás, en tími á láréttum. Litirnir sýna hins vegar mættishita (enginn friður fyrir honum). Mættishiti er í þessu tilviki sá hiti sem sjór fengi ef hann væri dreginn upp af dýpi (til minni þrýstings) til sjávarmáls. Rétt eins og í lofthjúpnum segir mættishitinn mikið um stöðugleika.
Mættishiti fellur með dýpi í sjónum - kaldasti sjórinn liggur neðst. Til að við áttum okkur betur á því sem myndin sýnir skulum við líta stækkaða búta úr henni (neðan við meginmyndina).
Sá sem er til vinstri sýnir okkur vel að árstíðasveifla er í hitanum. Strikin við efri brún myndarinnar sýna áramót - þá gerist eitthvað - alltaf. Út úr þessum bút klippum við svo annan - þann til hægri - sem sýnir árið 2011 - frá sjávaryfirborði og niður á um 700 metra dýpi.
Hér ættu megindrættir að sjást vel. Sólarylur hitar sjávaryfirborðið að vori og sumri - ylurinn hækkar mættishitann og smám saman blandast hann niður á meira dýpi - það gengur þó illa sé vindur hægur um lengri tíma - hlýr sjórinn flýtur vel. Hraði blöndunarinnar vex þegar kemur að hausti - þá fara haustlægðirnar og öflugir vindar þeirra að hjálpa til - hlýindin eru svo enn á leið niður í djúpið þegar yfirborðið fer um síðir að kólna þegar langt er liðið á haust. - Í desember tekur kuldinn svo völdin - þá fellur hiti (og mættishiti) ört og loks missir yfirborðsjórinn flot og fer að sökkva. Ofsaveður vetrarins auðvelda auk þess blöndun kuldans niður á dýpið.
Myndin sýnir að þessi kæling blandar sjóinn á hverjum vetri - en mjög mislangt niður. Á aðalmyndinni má sjá að veturnir 2008 og 2014 skera sig úr - þá nær blöndunin miklu dýpra - yfirborðssjórinn hefur kólnað mun meira en aðra vetur. Kólnunin síðarnefnda árið var þó mest. - Og síðan þá hefur sumarhitinn ekki alveg náð sömu hæðum og áður (sést ekki á myndinni), veturinn 2015 bauð upp á svipuð skilyrði - en við vitum ekki enn um þann nýliðna, 2016.
Við ættum að sjá af þessari mynd að svo getur viljað til að sumarylurinn blandist seint niður - flotið sé gott. Sé sjórinn tiltölulega ferskur aukast líkur á slíku ástandi. Þá gætum við fengið að sjá jákvæð vik í yfirborði yfir sumarið. Gerist það í sumar eru það ekki endilega sérlega jákvæð tíðindi - kuldinn liggur þá trúlega enn í leyni rétt undir og kemur aftur í ljós þegar vindblöndun hefst í haust.
Sú þróun sem við vildum helst sjá er að hægt og rólega dragi úr vikunum - slíkt gæti bent til þess að sumarylurinn sé hægt og bítandi að vinna á kuldanum - og að ferskvatnslagið sé ekki að styrkjast (það vilja menn ekki).
Þessi seta er nú orðin nógu löng - en við skulum samt taka eftir því að lokum að til að ná lóðréttri blöndun þarf yfirborðshiti að falla niður fyrir 3,5 stig - eða þar um bil. Sú tala er ekki mikið hærri austar í Atlantshafinu - flotsamskipti milli yfirborðs og dýpri laga eru því illmöguleg þar - til þess þyrftum við að sjá -5 stiga sjávarhitavik. Eins og áður var bent á er það svæði sem hiti er lægri en 4 stig lítið miðað við flatarmál hafsvæðisins alls.
En abbast þetta eitthvað upp á okkur - og þá hvernig? Það er svo önnur saga - og enn lengri - og ekki allt sem sýnist í þeim efnum.
7.5.2016 | 00:03
Háþrýstisvæði og hlýrra loft (?)
Þótt hretið að undanförnu nái vart máli sem slíkt - (alla vega meðal pollíönnuaðdáenda sem og veðurtrúbræðra ritstjóra hungurdiska - skiljum skýrt hér á milli) hefur veðrið verið heldur dauflegt. Landsmeðalhiti undanfarinna daga er á bilinu 3 til 4 stig - sem er að vísu ekki nema einu til einu og hálfu stigi undir meðallagi síðustu tíu ára - en við viljum meira.
Nú hagar svo til að hlýtt loft stefnir í átt til landsins - en því miður bæði úr suðvestri og suðaustri - kalda loftið lendir kannski bara undir báðum sóknum - króast af? - En reiknimiðstöðvar gera samt ráð fyrir því að suðvestansóknin nái landi.
Ef rétt reynist er það auðvitað fínt - sérstaklega fyrir landið austanvert, en aftur á móti er vestanáttin sjaldnast fagnaðarefni á Vesturlandi á þessum árstíma - en við sjáum til með það.
Kortið sýnir sjávarmálsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á sunnudag (8. maí) - einnig fylgir hiti í 850 hPa.
Hér er kalda loftið enn yfir landinu - en vindur er afskaplega hægur og veður meinlítið. En þó eru einhverjir grænir smáblettir yfir landinu - og tákna úrkomu. Hlýja loftið úr suðaustri virðist ekki eiga langa leið til landsins - en sú sókn virðist renna út í sandinn hvað okkur varðar vegna hlýindanna sem stefna til norðurs austur af Nýfundnalandi.
Meginás kalda loftsins hrekst því fyrst til vesturs undan austansókninni - en áður hlýindi ná til okkar stuggar suðvestansóknin kuldanum aftur til austurs og framlengir dvöl hans í nágrenni okkar. - En svo kemur vestanáttin víst um síðir. - Reynist þær spár réttar verður athyglisvert að sjá hana rífa í hafísinn á Grænlandssundi - sem reyndar er með minnsta móti.
Tíu daga þykktarvikaspá reiknimiðstöðvarinnar sýnir vel austur- og vesturhitann - og hvernig við liggjum að meðaltali á milli. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og vik hennar frá meðallagi eru allgóður vísir á hitafar við jörð.
Þetta er nú talsvert betra en verið hefur (ef rétt reynist) - og spárnar í kvöld gefa jafnvel von í mestu hlýindi ársins til þessa. Tími til kominn - því marsmánuður á enn fjóra hlýjustu daga þess.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.11.): 29
- Sl. sólarhring: 426
- Sl. viku: 2391
- Frá upphafi: 2410693
Annað
- Innlit í dag: 23
- Innlit sl. viku: 2106
- Gestir í dag: 23
- IP-tölur í dag: 23
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010