Meira um sjóinn

Við hugum nú að „fyrirbrigði“ því sem oftast er kallað AMO og oft birtist í umræðum (þrasi) um veðurfarsbreytingar - ekki er alltaf varlega með það farið. Mjög oft er því ruglað saman við annað - AMOC. Varla er hægt að segja að sá ruglingur sé óvæntur - skammstafanirnar líkar - og koma gjarnan við sögu í sama þrasi (eða umræðu) - en samt er þetta ekki það sama. Víkjum að AMOC í síðari pistli (leyfi forsjónin slíkt). 

Skammstöfunin AMO stendur fyrir „Atlantic Multidecadal Oscillation“ - fjöláratugasveifla (hita) Atlantshafs. „Fyrirbrigðið“ á sér ágæta umfjöllun á Wikipediu og geta áhugasamir sótt þangað fróðleik. Gagnaraðir má fá á vef Earth System Research Laboratory (ESRL) - þar er sérstök AMO-síða - sem skýrir út hvernig gagnaröðin er búin til - og þó kannski ekki alveg. 

Á netinu má mjög víða finna vísanir í AMO. Þar er yfirleitt gengið í myndir sem sýna gagnaröðina eftir útjöfnun og leitnieyðingu. Allt í fína með það - jafnvel betra. Ef við tökum ERSL bókstaflega sýnir AMO gagnaröðin í grundvallaratriðum („basically“ í þeirra orðalagi) meðalhita á N-Atlantshafi. „N-Atlantshaf“ er í grundvallaratriðum (líka „basically“ í þeirra orðalagi) allt hafsvæðið frá miðbaug norður að 70. breiddarstigi (skrýtið orðalag). 

Þetta er ógnarstórt svæði - breytileikinn er mestur á norðurjaðri Golfstraumsins sem og norðan Íslands (þau svæði eru svo lítill hluti heildarinnar að þau skipta litlu) og svo er allstórt svæði suður af Grænlandi - sem þar með ræður nokkuð miklu - þrátt fyrir að vera smátt miðað við heildina. Sömuleiðis er nokkur breytileiki á staðvindasvæðunum - þau eru mjög stór og breytileiki þar ræður því töluverðu. 

Hitavik svæðisins alls fylgjast ekki að - nema trúlega þau sem tengjast hnattrænni hlýnun - þótt því sé stundum (glannalega) haldið fram - heldur má greina athyglisvert mynstur sem reyndar á líka sérstakt (klunnalegt) nafn: „North Atlantic Sea Surface Temperature Tripole“ [norðuratlantshafssjávaryfirborðshitaþrípóllinn (?-he-he) - við gætum rætt hann síðar (leyfi þrek ritstjórans það). 

Þar sem Ísland er hluti af þessu svæði (þótt lítill sé) má finna samband á milli AMO og ársmeðalhita hér á landi. Sé það reiknað skýrir AMO þó aðeins brot af breytileikanum frá ári til árs og á lengsta tímakvarða er hnattræn hlýnun sameiginleg. 

Þar sem svo víða má ganga í myndir af leitnilausa og útjafnaða AMO á netinu - og umfjöllun - skulum við beina sjónum að tölunum eins og þær koma beint af skepnunni. - Ekki að það sé endilega betra eða réttara - en alla vega mun sjaldséðara. 

w-blogg100516-amo_sth_allt

Lárétti ásinn sýnir tíma - lóðrétti ásinn til vinstri ársmeðalhita í Stykkishólmi, sá lóðrétti til hægri aftur á móti AMO-hitann - líka selsíusstig. Kvarðabil eru hér hin sömu. Bláu krossarnir sýna hita hvers árs í Stykkishólmi, bláa línan er 10-ára keðja. Grænir hringir sýna AMO-hitann og græna línan er 10-ára keðja hennar. 

Við sjáum að breytileiki Stykkishólmshitans er margfaldur á við AMO-hitann - en hlýskeiðið mikla á 20. öld og hlýnun síðustu áratuga eru býsna sameiginleg sé litið á 10-ára keðjurnar. Ástandið á 19. öld er eitthvað annað. Nítjándualdarhitinn í Stykkishólmi er nokkuð skotheldur - alla vega aftur fyrir sameiginlega tímabilið - og vel má vera að AMO-hitinn haldi líka - en það er þó ekki nærri því eins víst. Alla vega voru mælingar á breytileikasvæðinu suður af Grænlandi ekki miklar eða þéttar á þessum tíma - og skothríð er stöðugt haldið uppi á sjávarhitamælingar á 19. öld almennt. - En við skulum bara trúa þeim þar til annað kemur í ljós.

Næsta mynd sýnir ársmeðalhitann í Stykkishólmi á móti AMO-hitanum.

w-blogg100516-amo_sth_skot-ar

Jú, samband er á milli, höfum þó í huga að við erum með leitnilausu gagnaröðina - og hnattræn hlýnun er sameiginleg - sú samstaða skilar fáeinum stigum í fylgnisjóðinn. Takið sérstaklega eftir því að faðmur Stykkishólmskvarðans er fjórfaldur á við AMO-faðminn.

Í umfjöllun hungurdiska um heimshita fyrir nokkru var samskonar mynd sýnd - og líka settur hringur sem tengdur var hafíseinhverju - sá Stykkishólmskuldi virðist alls ótengdur AMO. Einnig má taka eftir því að köldustu AMO-árin (krossarnir lengst til vinstri) eru í nærri því í meðallagi hvað hita varðar í Stykkishólmi. - Hlýjustu árin eru meira samstíga - enda almenn hlýnun í heiminum. 

Síðasta mynd þessa pistils sýnir 10-ára keðjurnar eingöngu - reynt hefur verið eftir bestu getu að fella þær saman.

w-blogg100516-amo_sth_10-ara-km

Athugið mun á spönn kvarðanna. Bæði AMO og Ísland sjá 20.aldarhlýskeiðið, hlýskeið síðustu ára - og kuldann á milli. AMO á hins vegar hámark þegar hitinn hér á landi er í lágmarki á árunum 1860 til 1890 - og heldur sér svipuðum eftir að lágmarkstími AMO gengur yfir í upphafi 20. aldar. - Við getum ekki treyst samræmi til fullnustu. -

Erfiðara er að negla niður tímamun sem kemur fram í uppsveiflum hlýskeiðanna - og varlegt að fullyrða um að hann sé raunverulegur. Fyrra hlýskeiðið byrjar fyrr hér á landi en í AMO-röðinni. - Aftur á móti byrja nýju hlýindin fyrr í AMO-röðinni en hérlendis. Ekki skulum við gera mikið úr því - en láta það þó segja okkur að spávirði annarrar raðarinnar gagnvart hinni er harla bólukennt. 

Margir vísindamenn eru á því að AMO sé rangnefni - og vilja heldur tala um AMV - „Atlantic Multidecadal Variability“ - fjöláratugabreytileika frekar en fjöláratugasveiflu. Ritstjórinn er hjartanlega sammála - íslenskan ætti þó lausn með því að nota alltaf fleirtölumynd - fjöláratugasveiflur Atlantshafs - r-ið gefur til kynna það sem rétt er, að hún er ekki reglubundin. Sé þessi síðari merking lögð í orðin (á hvoru máli fyrir sig) verður ljóst að mjög vafasamt er að tala um AMO sem „fyrirbrigði“ eins og um einhverja skepnu væri að ræða. - En ritstjórinn stynur bara mæðulega yfir slíku þrasi - og er svosem nokkuð sama. 

Ætli verði svo ekki síðar að fjalla um AMOC, NASSTT og sitthvað því tengt - hver veit?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Trausti og þakka þér kærlega fyrir góðar útskýringar og upplýsandi línurit!

Brynjólfur Þorvarðsson, 10.5.2016 kl. 05:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 353
  • Sl. sólarhring: 359
  • Sl. viku: 1927
  • Frá upphafi: 2350554

Annað

  • Innlit í dag: 270
  • Innlit sl. viku: 1719
  • Gestir í dag: 256
  • IP-tölur í dag: 255

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband