Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016
3.5.2016 | 00:13
Óvenjuleg aprílstaða
Uppgjör Veðurstofunnar um tíðarfar í aprílmánuði sýnir ekki mjög afbrigðilegt veðurfar. Hiti var lítillega yfir meðallagi síðustu tíu ára um meginhluta landsins, en þó aðeins undir því austanlands. Úrkoma var í minna lagi um landið sunnan- og vestanvert - en þó þarf ekki að fara nema aftur til ársins 2008 til að finna lægri tölur. Vindur var hægari en að meðaltali á landinu - og loftþrýstingur frekar hár - en þó ekki langt í ámóta eða hærri tölur í fortíðinni. Snjóalög voru víðast hvar undir meðallagi - nema inn til landsins norðaustanlands - þar sem þau voru reyndar óvenjumikil - mest þó fyrningar fyrri mánaða vetrarins. - Lengst af fór vel með veður - helst að leiðindahret í síðustu vikunni hafi spillt ásýnd mánaðarins.
Jú, og ekki gerði neinar hitabylgjur - gróður fór ekki á stökk. Enda voru norðlægar áttir ríkjandi. En hvers vegna var þá ekki kalt?
Lítum fyrst á sjávarmálsþrýsting við Norður-Atlantshaf og vik hans frá meðallagi áranna 1981 til 2010 - í greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Jafnþrýstilínur eru heildregnar - vik eru sýnd í lit, neikvæð í bláu, en jákvæð í bleikgráu. Hæðin yfir Grænlandi var í öflugra lagi og við sjáum af dreifingu vikanna að norðanáttarauki er töluverður. - Þetta ætti að vera ávísun á kulda.
Háloftakort (500 hPa) sýnir óvenjulegri stöðu.
Hér má sjá gríðarsnarpan háloftahrygg skammt vestan við land. Vikahámarkið er rétt tæpir 150 metrar. Meðalhæð yfir Íslandi miðju er 5430 metrar - hefur nokkrum sinnum orðið hærri í apríl - en aftur á móti aðeins einu sinni jafnmikil í norðanátt. Það var í apríl 1973 - muni einhver eftir þeim góða mánuði. [Hann fékk dóminn: Lengst af hagstæð tíð, hiti nærri meðallagi - svipað og mánuðurinn nú]. Sá er þó munur á þessum tveimur mánuðum að 1973 ríkti vestanátt við sjávarmál - en allsterk austanátt nú.
Bylgjumynstur sem þetta hefur mikil áhrif á hitafar á stórum svæðum - það sést vel á næstu mynd. Hún sýnir þykktarvik mánaðarins. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.
Þótt ekki sé alltaf sem best samband á milli þykktarinnar og hitafars við sjávarmál er vikamynstrið hér þó svipað og mynstur hitavika á landinu. Það var hlýrra vestanlands heldur en austan.
Við sjáum hér greinilega hin dæmigerðu vik sem fylgja þaulsetnum háloftafestum - þetta er kennslubókardæmi. Hlýtt er í hryggjunum - hlýjast í sunnanáttinni vestan við - en hlýindin leka yfir hrygginn inn í norðanáttina austan við - næst miðju hryggjarins. Kuldi fylgir lægðardrögunum, mestur rétt vestan við miðju þeirra - en kuldinn lekur þó líka austur fyrir.
Vikin yfir Grænlandi eru sérlega mikil nú, nærri 120 metrar þar sem mest er, loftið er 6 stigum hlýrra en að meðaltali. Enn hafa ekki borist fréttir af því hvort mánaðarhitamet hafi verið slegin þar um slóðir. - En kalt hefur verið á Bretlandi og við Vestur-Noreg, þykktarvikin segja frá því að hiti hafi verið meir en 2 stig undir meðallagi aprílmánaðar - varla þó svo mikil við sjávarmál.
Síðasta myndin er gömul hungurdiskalumma - úr pistli frá 27. október 2011 - og sýnir dæmigerða stóra háloftabylgju og hitafar samfara henni - sunnanhlýindin eru svo mikil að þau leka yfir hryggjarmiðju. Við nutum góðs af því í apríl - þrátt fyrir að þessi hlýindi nái ekki fullu taki á norðankuldanum við Austur-Grænland - hann stingur sér undir fái hann til þess nokkurt færi.
Það er líka rétt og holt að hafa í huga að lega hryggjarmiðjunnar - frá suðri til norðurs er auðvitað tilviljun hverju sinni - hefði hryggurinn t.d. legið 10 gráðum vestar en nú hefði allt landið legið vel inni í neikvæðu vikunum - sem hefðu þá líka trúlega verið enn meiri en þau voru nú - eftir mikla upphitun hlýsjávar milli Íslands og Noregs. - Hefði hann legið 10 gráðum austar (álíka öflugur og af sömu lögun) hefði verið möguleiki á methlýjum aprílmánuði. - En við fengum óvenjuhlýjar norðanáttir - og sæmilega hagstætt veðurlag - verðum að þakka fyrir það - eða er það ekki?
1.5.2016 | 23:53
Reynsluleysi
Nú ætlar ritstjórinn að ræða af reynsluleysi um nýlega gerð veðurspáa. Lesendur eru beðnir um að taka því sem hér fer á eftir með sérstakri varúð.
Evrópureiknimiðstöðin reiknar tvisvar á dag 50 spár 15 daga fram í tímann og þuklar jafnframt á útkomunni og segir frá ef farið er nærri eða fram úr því sem mest hefur orðið í samskonar spám sem ná til síðustu 20 ára. Oft er ein og ein af spánum 50 með eitthvað útogsuðurveður - og telst það ekki til tíðinda.
En stundum gefur stór hluti spánna 50 til kynna að eitthvað óvenjulegt kunni að vera á seyði. - Líkur á því að svo sé raunverulega aukast eftir því sem styttra er í hið óvenjulega.
Gallinn er hins vegar sá að í reynd þarf þó nokkra reynslu til að geta notað þessar upplýsingar í daglegum veðurspám. Sú reynsla mun byggjast upp - og til munu þeir sem orðnir eru vanir menn. Ritstjóri hungurdiska er því miður ekki einn þeirra - en ætlar samt að sýna svona spá sem evrópureiknimiðstöðin hefur gert fyrir þriðjudaginn 3. maí.
Kortið sýnir hana.
Hér er reynt að spá fyrir um hvort 24-stunda úrkomumagn er nærri metum. Tveir vísar eru sýndir - hér kallaðir útgildavísir (lituðu svæðin) og halavísir (heildregnar línur). Líkanið veit af því að úrkoma er að jafnaði í lágmarki hér á landi á þessum árstíma - sömuleiðis veit það að úrkoma á vestanverðu Norðurlandi er að jafnaði mun minni heldur en sunnanlands.
Það úrkomumagn sem verið er að spá (20 til 40 mm - ekki sýnt hér) er ekki meira en svo að vísitölurnar væru nær örugglega lægri ef um haust væri að ræða - og sömuleiðis hreyfir þetta magn varla útgildavísa sunnanlands. - En reiknimiðstöðin veit af árstíðasveiflu og að úrkoma er meiri á Suðurlandi en nyrðra - og tekur tillit til þess.
Hér verða vísarnir ekki skýrðir frekar, en þess þó getið að veðurfræðingum er sagt að hafa varann á ef útgildavísirinn fer yfir 0,9 - og sömuleiðis ef halavísirinn (nafnið vísar til hala tölfræðidreifingar) nálgast 2,0 - hér er hann yfir 2 inn til landsins í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, 0,0 er hins vegar algengt.
En - líkan evrpópureiknimiðstöðvarinnar er ekki með full tök á landslagi - og við skulum því eins og venjulega láta Veðurstofuna alveg um raunverulegar spár um þriðjudagsúrkomuna - og muna að auki að ritstjórinn nær reynslulaus í túlkun útgildaspáa reiknimiðstöðvarinnar.
En það er samt fróðlegt að sjá hvað verið er að reyna að gera.
1.5.2016 | 00:25
Heimshiti - hiti hér á landi - fleiri hugleiðingar
Þessi pistill er enn meiri þrautaganga en sá fyrri - meira að segja þrekmenn hljóta að mæðast. - En veðurfarsnörd ættu að reyna lestur - aðrir bíða bragðbetri afla.
En endurtökum fyrst síðustu mynd fyrra pistils - til upprifjunar.
Hér hefur hitavikum í Stykkishólmi (grænir krossar) og heimshitavikum (bláir hringir) verið troðið á sömu mynd - auk þess má sjá 10-ára keðjumeðalöl sömu vika - Stykkishólmur bleikur, en heimurinn rauður. Troðslan fellst í því að heimshitakvarðinn (til vinstri) er aðeins þriðjungur stærðar Stykkishólmskvarðans (til hægri) - breytileikinn á bæði ára- og áratugakvarða er miklu meiri í Stykkishólmi heldur en á heimsvísu - á slíkt sjálfsagt við flesta staði heimsins - en mismikið þó.
Næsta mynd sýnir sömu 10-ára keðjur - nema hvað nú eru kvarðarnir þeir sömu fyrir báða ferlana.
Stykkishólmsferillinn er hér grár, en heimshitavikin rauð. Þegar við horfum á myndina skulum við hafa í huga að vikin eru stillt á tímabilið 1961 til 1990 - við hefðum getað miðað við eitthvað annað tímabil - t.d. annað hvort allan tímann frá 1850 - eða hlýskeiðið mikla 1931 til 1960. Samanburðarsýn okkar ræðst mjög af því hvaða tímabil er valið. Á þessari mynd skera hlýskeiðin sig úr - þau virðast mun afbrigðilegri heldur en kuldaskeiðin - og krefjast þar með sérstakra skýringa - en við sjáum þó vel að hlýnunin milli kuldaskeiða í Stykkishólmi fylgir um það bil hnatthlýnun.
Við skulum líta á það sama - en einblína á hlýnun milli hlýskeiða.
Nú - hlýnun í Stykkishólmi milli tuttugustualdarhlýskeiðsins og þess núverandi virðist fylgja hnatthlýnun - rétt eins og hlýnunin milli kuldaskeiða - en hér æpa kuldaskeiðin á okkur - er það landsins forni fjandi sem heldur hitanum hér svona niðri? Eða er þetta bara sjónarhornið?
Við megum (helst) ekki reikna línulegt samband á milli keðjumeðaltala - en við megum taka stök 10-ára meðaltöl tímabilsins, velja tíundahvert meðaltal og bera saman raðirnar tvær. Útkomunni er ekki alveg sama hvaða áratugi við veljum - og gallinn er sá að sjálfstæðir samanburðaráratugir eru aðeins 16 - það er fulllítið. Hér veljum við áratuginn 1855 til 1864 sem þann fyrsta og 2005 til 2014 sem þann síðasta og búum til mynd.
Fylgnin er býsna góð - hlýir áratugir ofan og til vinstri við línuna - en þeir köldu hinum megin. Eins stigs hækkun á áratugarhita á heimsvísu þýðir hér tæplega 1,9 stiga hitahækkun í Stykkishólmi. Annað val á áratugaröð gefur svipaða útkomu.
Ekki allt búið enn. Á næstu mynd eru sýndar fjórar keðjur, 10-ára keðjan (sama mynd og að ofan), en einnig 30-, 50- og 100-ára keðjur. Myndin skýrist mjög sé hún stækkuð.
Áratugasveiflurnar stóru í Stykkishólmi jafnast smám saman út, 10-ára keðjurnar eru í efra vinstra horni, 30-ára keðjurnar til hægri, 50-ára keðjurnar í neðra vinstra horni, og loks eru 100-ára keðjurnar neðst til hægri.
Á 100-ára myndinni má sjá að bratti Stykkishólmslínunnar (hún er grá) er nokkru meiri en bratti heimshitans (rauð). Aldarheimshitinn hækkaði um 0,3 stig á meðan hitinn í Stykkishólmi hækkaði um 0,6 stig á sama tíma.
En er nokkur glóra í að halda að þessi hallamunur haldi sér? - Á næstu 30 árum koma mjög hlý ár inn í hinn enda aldarhitans í Stykkishólmi - eigi aldarhitaferillinn ekki að beygja af (í átt til heimshitans) verða næstu 30 ár (í framtíðinni) að verða mjög hlý (alveg sama hvað heimshitinn gerir) - hlýindin verða eiginlega að verða með ólíkindum eigi hallinn 1,9 að haldast.
Nú veit ritstjóri hungurdiska auðvitað nákvæmlega ekkert um framtíðina (frekar en aðrir) - en samt læðist sú skoðun að honum að 1,9 sé líklega of há tala þegar til lengdar lætur - myndirnar að ofan sem sýndu hlýnun milli kuldaskeiða annars vegar - og hlýskeiða hins vegar benda til lægri margföldunartölu - kannski hún sé 1,3 eða eitthvað svoleiðis?
En heimshitaraðir hadleymiðstöðvarinnar eru fleiri - hlutfall milli norðurhvelshlýnunar og Stykkishólmshita er ívið lægra en heimshitahlutfallið - og þurrlendishitavikahlutfallið (gott orð) enn lægra.
Tilefni er til enn frekari vangaveltna - mishitun í austri, vestri, norðri, suðri, og þurrlendis og sjávar getur skipt miklu máli fyrir hitaþróun hér á landi - eigum við að taka það mál síðar eða þegja?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 2
- Sl. sólarhring: 110
- Sl. viku: 888
- Frá upphafi: 2461206
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 772
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010