Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016
29.5.2016 | 01:32
Háþrýstivika framundan
Hér er auðvitað átt við loftþrýsting við sjávarmál - en hvað ætti það svosem að vera annað? Tíu daga þrýsti- og þrýstivikkort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir þetta vel.
Meðalþrýstingur næstu tíu daga (fram til 7. júní) er sýndur með heildregnum línum, en vik eru sýnd í lit. Hér á landi á tíudagavikið að vera meira en 12 hPa - og er það mikið á þessum tíma árs. Trúlegt er að neikvæða vikið mikla suður í hafi sé þó enn óvenjulegra.
Þetta þýðir þó ekki að veðurlag sem þetta ríki alla dagana - á því eru alltaf einhver afbrigði - auk þess sem spáin getur verið röng.
Háþrýstingurinn á að ná hámarki á miðvikudag-fimmtudag (1. eða 2. júní). Ritstjóranum finnst spár reiknimiðstöðva í hærra lagi, t.d. sú hér að neðan - en hún gildir um miðnætti á aðfaranótt fimmtudags.
Hæðin er hér sýnd 1038 hPa í miðju og 1036 hPa jafnþrýstilínan nær til Íslands. Þrýstingur fer mjög oft yfir 1030 hPa í júní á Íslandi eða rétt tæplega annað hvert ár. En svo glöggt stendur að hann hefur ekki nema 6 sinnum farið í meir en 1036 hPa síðustu 140 ár - Nítján ár eru síðan hann fór síðast í 1036 hPa í júní og þar áður þarf að fara til 1971 til að finna svo háa tölu.
Háþrýstingur sem þessi er óþægilegur í júní. Hlýtt loft sem brýst til norðurslóða stuggar alltaf við heimaloftinu - því kalda - og það verður að koma sér undan. Rætist þessi háþrýstispá gerir t.d. leiðinda kuldakast í Norður-Noregi. Óljósara er hvað gerist hjá okkur í kjölfarið - við gætum alveg sloppið.
28.5.2016 | 02:29
Já, mikil úrkoma
Gríðarleg úrkoma var í dag (föstudag 27. maí) víða á Snæfellsnesi og sunnantil á Vestfjörðum. Þegar síðast fréttist var sólarhringsúrkoman á Grundarfirði komin í 133 mm. Það er meira en nokkru sinni hefur mælst í maí á mannaðri stöð, en sjálfvirki Grundarfjörður á sjálfur eina hærri maítölu, 147 mm sem féllu þar á einum sólarhring 26. maí 2012. Þá voru veðurskilyrði mjög lík því sem var í dag - öflug tunga af röku og mjög suðrænu lofti var kreist af uppstreymi og vindi yfir Snæfellsnesi - og úrkoman fauk svo yfir í mælinn á Grundarfirði. - Einhvern tíma í fornöld kallaði ritstjóri hungurdiska þetta fokhrif - heitir spillover effect á ensku.
Svo sýnist sem sjálfvirka stöðin á Tálknafirði hafi slegið maímet sitt rækilega - þar mældust í dag 60 mm - fyrra maímet var 39 mm, sett 2009. - Rétt er að geta þess að ekki hefur verið farið ítarlega yfir metatöflur sjálfvirku stöðvanna og í þeim geta leynst alvarlegar villur.
Evrópureiknimiðstöðin og harmonie-líkanið virðast hafa hitt vel á þennan atburð - harmoniespáin gerði ráð fyrir meir en 100 mm á Snæfellsnesi - og reiknimiðstöðin kveikti á útvísum sínum - eins og fjallað var um í pistli á hungurdiskabloggi fyrri dags.
Raka og hlýja tungan sést vel á kortinu hér að neðan. Það sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting og jafngildismættishita í 850 hPa kl. 18 í dag, föstudag (27. maí).
Jafngildismættishiti (við leitum enn að þjálara orði) sýnir hita lofts ef hægt væri að draga það úr 850 hPa (í dag í 1400 metra hæð) niður í 1000 hPa (í dag í 80 metra hæð) og þar að auki þétta alla vatnsgufuna í því og nota dulvarmann til að hita loftið.
Rakt og hlýtt loft sker sig mjög vel úr á kortum sem sýna jafngildismættishitann - hér sjáum við það sem mjóa gulbrúna tungu sunnan úr hafi berast með vindi í átt til landsins. Það vekur athygli hversu mjó tungan er - en það eru slíkar tungur oft.
Mikið úrkomumætti býr í tungunni - en til þess að það holdgerist þarf að lyfta loftinu og þar með kæla það. Það gerist þar sem vindur þvingar hana yfir fjöll - eins og á Snæfellsnesi.
Venja er að greina frá mættishita í Kelvingráðum á kortum - þá er minni hætta á að rugla honum saman við þann venjulega. Í dag var mættishiti í 850 hPa um 17 stig (290 K) á þeim stað sem örin bendir á á kortinu hér að ofan, jafngildismættishitinn er hins vegar um 40 stig (við drögum 273 frá tölunni) - dulvarminn er drjúgur.
27.5.2016 | 00:16
Mikil úrkoma?
Til að læra að lesa þarf að lesa - og helst mikið. Sama á við um lestur veðurkorta - til að læra á þau þarf að lesa oft og mikið. Þetta á jafnt við um ritstjóra hungurdiska sem aðra. Þegar nýjar gerðir af veðurkortum birtast þarf hann að sitja við og lesa sem flest - til að læra á þau. Fyrir nokkru (1. maí) var hér fjallað um nýja gerð korta úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar - kort sem ritstjórinn er harla óvanur (og illlæs á). Ekkert er við ólæsinni að gera nema lesa því meira.
Það sem hér fer á eftir er að miklu leyti endurtekning á fyrri pistli - nema að skipt er um spá.
Evrópureiknimiðstöðin reiknar tvisvar á dag 50 spár 15 daga fram í tímann og þuklar jafnframt á útkomunni og segir frá ef farið er nærri eða fram úr því sem mest hefur orðið í samskonar spám sem ná til síðustu 20 ára. Oft er ein og ein af spánum 50 með eitthvað útogsuðurveður - og telst það ekki til tíðinda.
En stundum gefur stór hluti spánna 50 til kynna að eitthvað óvenjulegt kunni að vera á seyði. - Líkur á því að svo sé raunverulega aukast eftir því sem styttra er í hið óvenjulega.
Reynslu þarf til að geta notað þessar upplýsingar í daglegum veðurspám. Sú reynsla mun byggjast upp - og til munu þeir sem orðnir eru vanir menn. Við lítum reynslulitlum augum á spá sem evrópureiknimiðstöðin hefur gert fyrir föstudaginn 27. maí.
Kortið sýnir hana.
Hér er reynt að spá fyrir um hvort 24-stunda úrkomumagn er nærri metum. Tveir vísar eru sýndir - hér kallaðir útgildavísir (lituðu svæðin) og halavísir (heildregnar línur). Líkanið veit af því að úrkoma er að jafnaði í lágmarki hér á landi á þessum árstíma - sömuleiðis veit það að úrkoma um landið vestanvert er meiri en t.d. norðaustanlands.
Hér verða vísarnir ekki skýrðir frekar, en þess þó getið að veðurfræðingum er sagt að hafa varann á ef útgildavísirinn fer yfir 0,9 - og sömuleiðis ef halavísirinn (nafnið vísar til hala tölfræðidreifingar) nálgast 2,0 - hér er hann yfir 2 á allstóru svæði vestur af landinu - jafngildislínan 2 nær þó ekki alveg landi, gildið 0,0 mun algengt. Það er því fyrst og fremst á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum sem verið er að spá afbrigðilegri úrkomu.
En - líkan evrpópureiknimiðstöðvarinnar er ekki með full tök á landslagi - og þar að auki er ritstjóri hungurdiska nær reynslulaus í túlkun útgildaspáa af þessu tagi. Hvort kortið er að vara við einhverju sérstöku verður reynslan að skera úr um.
En til að læra að lesa þarf að lesa - og helst mikið.
Orðið útgildavísir er þýðing á því erlenda extreme forecast index, EFI, en halavísir reynir að íslenska shift of tail, SOT. - Þýðingar þessar hafa ekki öðlast hefðarrétt (né annan) og aðrar (og vonandi betri) munu e.t.v. sýna sig síðar.
26.5.2016 | 00:03
Næstmestu hugsanlegu veðurfarsbreytingar
Í hungurdiskapistli fyrir nokkrum dögum var fjallað um mestu veðurfarsbreytingar sem hugsanlegar eru, aljöklun og óðagróðurhúsaáhrif. Þær eru til allrar hamingju nokkuð úti úr kortinu. Aðrar öfgakenndar breytingar eru nær - en teljast samt mjög ólíklegar.
Síðustu jökulskeið núverandi ísaldahrinu eru gjarnan notuð sem einskonar sviðsmyndir á kalda kantinum - þau gengu þrátt fyrir allt yfir tiltölulega nýlega, en á hlýja kantinum er gripið í einkennilega hlýskeiðahrinu á paleósen- og eósentíma snemma á nýlífsöld. Paleósenskeiðið hófst fyrir um 66 milljón árum og stóð í um 10 milljón ár, þá tók eósen við og stóð þar til fyrir um 34 milljónum ára.
Á þessum tíma var almennt mjög hlýtt á jörðinni - og veröld öll önnur en nú er. Þegar farið var í saumana á líklegu veðurlagi á þessum tíma kom í ljós að sérlega hlýtt hafði verið nærri mörkum paleósen og eósen, fyrir um 55 milljón árum. Mestu hlýindin stóðu ámóta lengi - eða heldur lengur en jökulskeið ísaldar - í 100 til 200 þúsund ár.
Þetta var nefnt paleocene-eocene thermal maximum skammstafað petm. Síðar hefur komið í ljós að svona skeið eru fleiri - alla vega á eósen - en ekki alveg jafnhlý. Tilhneiging hefur því verið til þess að kalla petm frekar eocene thermal maximum 1, etm-1, og síðan hin síðari (minni) hlýskeið í einhverri númeraröð.
Hlýindin á etm-1 voru hreint með ólíkindum og virðast hafa skollið á á aðeins nokkur þúsund árum - í mesta lagi. - Mjög hlýtt var í heiminum fyrir, miklu hlýrra en nú er, en skeiðið er 6 til 8 stigum hlýrra en tímabilin í kring. Talað er um að sumarhiti í Norðuríshafi (sem var auðvitað rangnefni) hafi verið allt að 23 stig - en var annars ekki nema um 15 stig almennt á eósen - 15 stigum hærri en nú. Munur á vetrarhita þá og nú var enn meiri norðurslóðum.
Hin almennu eósenhlýindi eru talin hafa verið tiltölulega meiri á norðurslóðum heldur en sunnar - hitamunur heimskauta- og hitabeltissvæða þar með minni en nú er. Sumir halda því fram að hamfarahlýnunin á etm-1 hafi verið miklu jafnari yfir heiminn.
Þessar tölur eru svo háar - bæði hinn almenni eósenhiti og á etm-1 að öfgatal um 6 stiga hlýnun á norðurslóðum af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa - og 2 stiga hlýnun í heiminum almennt - verður allt í einu að smámunum - og einhvern veginn miklu líklegri fyrir það eitt að svona nokkuð hefur í raun og veru átt sér stað.
Meginástæða hlýindanna? Jú, aukin gróðurhúsaáhrif. - Mjög margt er þó óljóst varðandi þessi hlýindi. Ekki hefur gengið vel að herma þau í líkönum - en betur þó nú en fyrir 20 árum.
Mikið þarf að ganga á til þess að hin almennu hlýindi eósenskeiðsins skelli á okkur - slíkt er sennilega útilokað - og mun ólíklegra heldur en skyndilegt, nýtt jökulskeið - þótt ólíklegt sé. En það eru hins vegar aukahlýindi etm-1 og snerpa þeirra sem valda mönnum hugarangri, 5 til 8 stig á heimsvísu. Losun gróðurhúsalofttegunda er nú enn hraðari heldur en sú losun sem virðist hafa orðið (af náttúrulegum ástæðmu) í upphafi þessa ógurlega hlýskeiðs.
Við munum í síðari pistli halda áfram að velta vöngum yfir mögulegum hlýindum (á sérviskulegan hátt).
25.5.2016 | 00:20
Vestanáttarhrinusumur - fer þeim fækkandi?
Fyrirsögnin er svona mátulega óskiljanleg - langa orðið hefur ábyggilega aldrei sést áður á prenti - og á sér varla langra lífdaga auðið. - En þeir sem grúfa sig ofan í veður- og veðurlýsingar ættu nú samt að átta sig nokkurn veginn á merkingunni.
Rigningasumur á Íslandi eru ekki öll sama kyns - þau sem plaga menn eystra eru gjörólík þeim sem íbúar suðvesturhluta landsins óttast mest. - En sum rigningasumur einkennast af stöðugum lægðagangi. Ritstjóri hungurdiska leitar leiða til að finna lægðagöngumánuði (og árstíðir) á einfaldan hátt og byggist ein þeirra á þrýstióróavísi sem hann hefur komið sér upp. Mælir sá breytileika loftþrýstings frá degi til dags.
Hér verður litið á þennan óróavísi og hvernig hann hefur hegðað sér að sumarlagi í nærri því 200 ár. Reiknað er meðaltal mánaðanna þriggja, júní, júlí og ágúst og verður að hafa í huga að mjög hár vísir í einum þeirra getur sett svip sinn á allt sumarið - jafnvel þótt lægðagangur hafi verið lítill - og veður ef til við hið besta í hinum tveimur. Við gætum síðar litið á einstaka mánuði.
Fyrsta mynd dagsins sýnir vísinn.
Lárétti ásinn sýnir árin - 1822 er það fyrsta, en 2015 það síðasta. Lóðrétti ásinn sýnir svo stærð vísisins, því stærri sem hann er því órólegri hefur loftþrýstingurinn verið.
Heldur er myndin skipulagslítil. Ártöl hafa verið sett á stangli inn á viðeigandi stöðum. Órólegast allra sumra er hið illræmda 1983 - hefur ekkert komist nærri því síðan. Almennt liggur óróleikinn fremur hátt í myndinni síðustu tvo áratugi 20. aldarinnar - en sveigir síðan skarpt niður á þeirri nýju.
Þá staðreynd skulum við nota okkur til lærdóms. Ef mæliröðin næði aðeins aftur til t.d. 1970 yrði niðursveigurinn mjög áberandi - og þar með yrði verulega freistandi að tengja hann veðurfarsbreytingum af völdum vaxandi gróðurhúsaáhrifa. - Og auðvitað erum við stöðugt að verða vitni af ámóta tengingum stuttra gagnaraða við afmannavöldum.
Í þessu tilviki er þessi ályktanagleði sérlega viðeigandi - vegna þess að þetta er einmitt það sem búast má við, hlýni meira á norðurslóðum heldur en sunnar - einmitt það sem hefur verið að gerast. En -
En, jú, þessi niðursveifla er með mesta móti, sú mesta síðan á þriðja áratugnum (þá hlýnaði reyndar líka meira á norðurslóðum heldur en sunnar), en - já meira en, - heildarleitnin (sem þó er ekki marktæk - bláa línan sýnir hana) er jákvæð. Fyrir 10 árum eða svo hefði sama ályktanagleði auðvitað fullyrt að hrinusumrum færi fjölgandi - og það af völdum vaxandi gróðurhúsaáhrifa - nema hvað?
Um vestanáttina sjálfa höfum við ekki svona áreiðanlegar upplýsingar nema rétt aftur fyrir 1950. Endurgreiningar ná til eldri tíma - en eru óáreiðanlegar, vonandi batnandi, en samt skulum við ekki taka mikið mark á í þessu samhengi.
Næsta mynd sýnir sumarvestanáttina yfir Íslandi. Tímabilið fyrir 1945 er fyrst og fremst með til að gera myndina ásjálegri -
Sumarið 1983 sker sig aldeilis úr - en við sjáum líka að botninn virðist alveg vera að fara úr vestanáttinni. Austanátt er ríkjandi í háloftunum fari gildið niður fyrir núll - það gerðist 1950 (mjög áreiðanlegt) - en frá og með 2007 hefur hvað eftir legið við borð að vestanáttin hyrfi - og meðaltal síðasta sumars (2015) var sérlega lágt.
Vestanáttin hefur verið sérlega lin á sumrin upp á síðkastið - rétt að 2013 næði eðlilegu máli. Er þetta bara í lagi?
Ekki er alveg létt að bera óróleikavísinn og vestanáttina saman á þessum myndum þannig að við lítum á eina enn - þar sem þeim er stillt saman.
Myndin batnar sé hún stækkuð - auk þess er skárra afrit í viðhengi. Lárétti ásinn sýnir sumarmeðaltal þrýstióróans, en sá lárétti vestanáttina. Við sjáum að býsnamikið samhengi er á milli (alla vega þætti dulvísindamönnum það). Austanáttarsumrin 1950 og 2015 skera sig þó nokkuð úr - og sömuleiðis 2008 - sem var í vestanáttarnúlli. - Greinlega er nokkur lægðagangur í austanáttinni líka.
Innfellda myndin sýnir 10-ára keðjumeðaltöl óróleikans og vestanáttarinnar á sama tímabili. - Reynt er til hins ítrasta að fella ferlana saman (án þess þó að svindla beinlínis). Við sjáum hér vestanáttarhrinusumrahámark á árabilinu 1970 til 1990 falla saman við óróleikahámark sama tíma - en lágmörk eru til beggja handa - síðasti áratugurinn er sérlega vestanáttalinur.
Ætli sé ekki kominn tími á nýja hrinuáratugi - með 5 til 8 suðvestanlandsrigningasumrum af hverjum tíu? Nema að það sé eitthvað til í þessu með afmannavöldum? Trú eða vantrú?
24.5.2016 | 00:57
Snarpur háloftavindstrengur
Nú hefur rignt smávegis vestanlands - og útlit fyrir meiri úrkomu næstu daga. Hlýju lofti af suðrænum uppruna hefur tekist að þrengja sér norður á Grænlandshaf - hefur reyndar verið mest áberandi hátt í lofti í flóknum blikuuppslætti sem búinn er að taka á annan sólarhring.
En spákort sem gildir um hádegi á morgun (þriðjudag 24. maí) lítur svona út:
Mikil hæð er fyrir austan land - yfir 1030 hPa, en svo háar tölur eru ekki mjög algengar á þessum slóðum svona seint í maí. - En málið er nokkuð flókið - því önnur hlý framrás er í gangi austur af Nýfundnalandi - og stefnir til okkar - en jafnframt kemur svo kalt loft úr vestri - mest reyndar á eftir lægðinni sem á kortinu er yfir norðurhluta Labrador.
Vestanloftið - það hlýja og það kalda munu síðan ganga nokkurn veginn samsíða norðaustur um Grænlandshaf á miðvikudag og fimmtudag svo úr verður snarpur háloftavindstrengur sem vel sést á 500 hPa spákorti sem gildir um hádegi á fimmtudag, 26. maí.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar - mjög þéttar milli Íslands og Grænlands - og er því spáð að vindstyrkur í um 5 km hæð verði yfir 50 m/s. Kalt loft er yfir Grænlandi - þykktin minni en 5160 metrar - en mjög hlýtt yfir Íslandi, bletturinn yfir Austurlandi sýnir meir en 5520 metra þykkt - gott tilefni til að ná 20 stigunum þar sem vel hagar til um landið austanvert - mun svalara verður í hafáttinni vestanlands.
Hversu hvasst verður niður í mannabyggðum er ekki alveg á hreinu ennþá - við látum Veðurstofuna alveg um að gera grein fyrir því.
Kalda loftið á ekki að ná undirtökunum aftur fyrr en á laugardag eða sunnudag. Reiknimiðstöðvar telja að á meðan á þessari baráttu stendur muni rigna mikið víða um vestan- og norðvestanvert landið - jafnvel tugi mm - óvissa er þó mikil í þeim spám.
22.5.2016 | 23:21
Mestu hugsanlegu veðurfarsbreytingar (nei - þær standa ekki til)
Hverjar eru mestu hugsanlegar veðurfarsbreytingar? - Það er auðvitað allt hugsanlegt - en við skulum þó miða við að jörðin haldist á braut sinni, snúningur hennar haldist í skorðum, sólin taki ekki upp á því að brjálast eða að eitthvað ljótt ráðist á sólkerfið að utan. Með þessar forsendur í huga má e.t.v. svara spurningunni.
Það er hugsanlegt að jörðin öll hyljist ís og snjó - höfin líka. Svo vill til að þetta hefur líklega gerst oftar en einu sinni í jarðsögunni. Það er orðið langt síðan - og reyndar líklegt að sólin eigi nokkurn þátt - talið er að útgeislun hennar hafi þá verið nokkrum prósentum minni en nú. - En einhvern veginn tókst að komast út úr þessari stöðu aftur.
Á erlendum málum er þetta ástand venjulega kennt við snjóbolta - snjóboltajörð - eða snjóboltann jörð. Þótt þetta sé óneitanlega skemmtilegt orð/hugtak vill ritstjóri hungurdiska samt nota aljöklun um leiðina að ástandinu og jafnvel tala um aljökul sem ástandið sjálft. - En ætli snjóboltinn vinni ekki vinsældakosningar? Líkanreikningar sýna ótvírætt að aljökullinn er stöðugt ástand - alveg á pari við núverandi veðurfar. Ef geislunarbúskapur einn og sér réði gæti aljökullinn varað endalaust ef hann yrði á annað borð til - jafnvel við núverandi geislunarstyrk sólar.
En jörðin virðist hafa lent í þessu oftar en einu sinni - og sloppið út aftur. Að vísu er deilt um ýmsa eiginleika aljökulsins og það hvort hann hafi nú verið alveg al. Þau mál skýrast væntanlega betur eftir því sem rannsóknum fleygir fram. Sömuleiðis eru enn nokkrar vangaveltur um það hvernig aljöklun byrjar - nýleg jökulskeið voru ekki nægilega köld til að koma henni af stað aftur. - Er eitthvað til sem við gætum kallað óðajöklun?.
Svo er það hin áttin á hitaásnum. - Þar er enn verri mynd. Á erlendum málum er talað um óðagróðurhúsaáhrif. Vatnsgufa er mjög öflug gróðurhúsalofttegund - og breyting á vatnsgufuinnihaldi lofthjúpsins með vaxandi hita er einn af mestu óvissuþáttum þegar spáð er fyrir um veðurfarsbreytingar vegna þeirra auknu gróðurhúsaáhrifa sem nú eru að eiga sér stað.
Þar koma mörg vandamál við sögu. Eitt er að mjög mikið vantar upp á að lofthjúpurinn sé mettaður vatnsgufu (til allrar hamingju er hann það ekki). - Þrátt fyrir það rignir stöðugt - það mikið að ef uppgufun stöðvaðist (sem hún gerir vonandi ekki) myndi mestöll vatnsgufa ganga til þurrðar á rúmri viku (ef áfram rigndi af sömu ákefð). Sagt er að ef öll vatnsgufa hyrfi úr lofthjúpnum væru aðeins 8 ár í aljöklun.
Hér má því sjá jafnvægi milli uppgufunar og úrkomumyndunar. Óþægilegt er að við vitum ekki hversu viðkvæmt það er - við vitum ekki hvert nýtt jafnvægi hlýrra veðurlags er. - En komi að því að úrkomumyndun fari að dragast aftur úr uppgufun getur verið illt í efni.
Sumir hafa af þessu áhyggjur - meiri vatnsgufa -> mun meiri gróðurhúsaáhrif -> enn meiri vatnsgufa -> enn meiri gróðurhúsaáhrif. Menn hafa leikið sér að því að reikna þetta gagnvirka ferli áfram allt til þess að heimshöfin fari að sjóða. Því er haldið fram að þetta hafi gerst á reikistjörnunni Venus í árdaga. Þar hafi verið vatn og höf (sem þó enginn veit með vissu) - en vegna nálægðar við sólu hafi Venus svo lent í óðagróðurhúsaáhrifum, höfin hafi soðið - vatn komist í heiðhvolf hennar, jónast þar og vetnið lekið burt. Um þetta er þó deilt, en nær ekkert vatn virðist þar nú að finna - og yfirborðshiti er um 500 stig - eina regnið er brennisteinssýra.
Þetta er ljót mynd - og ekki líkleg á jörðinni - fyrr en í mjög fjarlægri framtíð aukins sólarstyrks. Meginástæða þess að flestir eru fremur rólegir yfir þessu er sú að jörðin hefur sloppið við þetta hingað til (það má alveg fullyrða - því engin leið er út aftur þegar það loksins gerist - öfugt við aljöklunina). Jarðsagan geymir heimildir um mun hlýrra veðurfar en nú er - og hlýrra heldur en líklegast er að þeir gróðurhúsatímar sem framundan eru muni leiða okkur í. Þær hlýju stundir dugðu ekki til að kveikja á óðaferlinu.
En ef við nú sleppum þeim félögum Al og Óða? Hverjar eru mestar hugsanlegar veðurfarsbreytingar þar sem þeir koma ekki við sögu? Eðlilegar hliðarspurningar eru þá: Hversu hratt geta slíkar breytingar orðið? Hversu miklar breytingar gætum við séð á líftíma okkar sem einstaklingar? Hvað með íslenskt veðurfar?
Taka verður eftir því að hér er talað um mestar og hraðastar hugsanlegar breytingar - en ekki líklegustu breytingar. Á þessu tvennu er mikill munur. Mestu hugsanlegu breytingar eru miklu meiri en líklegar breytingar. - Ekki rugla með það.
Er rétt að ræða þetta frekar á þessum vettvangi? - Eins og venjulega er spurning um þrek og tíma ritstjórans - og ljóst að umfjöllun yrði býsna brota- eða jafnvel fjarstæðukennd. - Við sjáum til.
22.5.2016 | 02:09
Háloftavindaþróun - eitthvað til að velta vöngum yfir?
Haustið 2014 velti ritstjóri hungurdiska sér upp úr þróun hitafars í háloftunum yfir Keflavíkurflugvelli. Langminnugir muna býsna athyglisverða útkomu - en aðrir áhugasamir geta farið í flettingar gamalla pistla.
Nú lítum við á vindáttir háloftanna - hafa einhverjar merkjanlegar breytingar orðið á þeim að undanförnu? Að vetrarlagi eru austlægar áttir ríkjandi í allra neðstu lögum lofthjúpsins yfir Íslandi - en annars er vestanáttin allsráðandi - alveg upp úr. Að sumarlagi er þessu öðru vísi farið. Þá er austanátt ríkjandi í heiðhvolfinu, en vestanáttin heldur velli neðar - (og austanáttin neðst slaknar miðað við veturinn).
Aðalatriðin sjást vonandi á skýringarmyndinni - sem er einskonar þversnið af lofhjúpnum yfir Íslandi að sumarlagi.
Efsti hluti myndarinnar sýnir stöðuna í 90 km hæð - þar heita miðhvörf, þar er vestanátt á sumrin. Austanátt ríkir í heiðhvolfinu - vel niður fyrir 20 km - þar sem vestanátt tekur við - og vex hún niður á við í átt að veðrahvörfum þar sem hún er í hámarki. Síðan dregur úr eftir því sem neðar kemur - og greina má slaka austanátt neðst. Rétt er að taka fram að þetta eru meðaltöl - í veðrahvolfinu er mjög mikill breytileiki frá degi til dags og jafnvel frá ári til árs.
Þrátt fyrir breytileika er þetta ástand í aðalatriðum nokkuð stöðugt - og mjög miklar veðurfarsbreytingar þarf til að valda grundvallarröskun á því. - Hnattræn hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum er líklega ekki nægileg - það ætti e.t.v. að segja örugglega ekki nægileg - en aldrei að segja aldrei - alls konar skrímsli geta legið í leyni.
Þrátt fyrir stöðugleika megindráttanna eru ýmsar lúmskar breytingar mögulegar. Við skulum nefna þrjár.
i) Breytingar á rófi vestanáttarinnar í veðrahvolfinu - hún er ekki jafnstríð, heldur gengur hún í missterkum hrinum - jafnvel austanátt á milli. Hrinutíðni getur breyst - án þess að meðalstyrkurinn breytist að marki. Þessi möguleiki er mikið ræddur á fræðavettvangi - birtist sem vangaveltur um breytingar á tíðni kuldakasta og hitabylgna - og er þannig oft í fréttum.
ii) Hæð áttaskiptanna í neðri hluta heiðhvolfsins getur breyst. Austanáttin ofar gæti færst neðar - þessu er almennt lítill gaumur gefinn hér á norðurslóðum - varla neitt - satt best að segja. - En mjög mikið er rætt um áttaskil og hegðan þeirra yfir hitabeltinu - og tengsl við veðurfarsbreytingar. - Mjög erfið umræða og flókin - hefur staðið í áratugi.
iii) Breytingar á sumaraustanátt heiðhvolfsins - þá vegna ósoneyðingar - virðist hafa áhrif á suðurhveli jarðar - ritstjórinn ekki vel inn í þeirri umræðu hvað sumarið varðar, en engar fréttir hafa borist af slíkum áhrifum á norðurhveli - þau eru þó vel hugsanleg - sérstakalega við árstíðaskiptin haust og vor.
En hvað segja háloftaathuganir yfir Keflavíkurflugvelli um þetta - er eitthvað þar að sjá? Það er nú það. Rétt að fullyrða ekki neitt en lítum á eina mynd.
Lárétti ásinn sýnir árin frá 1950. Upplýsingar um stöðuna ofan við 15 km hæð eru ekki í gagnagrunninum nema aftur til 1973. Lóðrétti ásinn sýnir hlut austlægra átta í öllum athugunum sumarmánaðanna júní, júlí og ágúst. Því hærra sem þetta hlutfall er - því tíðari eru austanáttirnar.
Línurnar eru 7-ára keðjumeðaltöl. Græni ferillinn sýnir tíðni austanátta í 30 hPa - um 24 km hæð - vel inni í austanáttum heiðhvolfsins. Þarna virðist lítið hafa gerst - austanáttir ríkja meir en 90 prósent tímans - væntanlega skiptir í vestur á aðeins misjöfnum tíma seint í águst.
Blái ferillinn sýnir meðaltal heiðhvolfsins (100, 70, 50 og 30 hPa). Þarna hefur austanáttin aukið hlut sinn um 10 prósent síðustu 20 árin. Bleiki ferillinn (sá neðsti) sýnir fjarlægðina á milli græna og bláa ferilsins. - Hún hefur farið minnkandi. Er eitthvað á seyði?
Rauði ferillinn sýnir stöðuna í veðrahvolfinu (300, 500, 700 og 850 hPa) - þar hefur hlutur austanáttar líka aukist um nærri 10 prósent. Breytingar í neðsta hluta heiðhvolfs og í veðrahvolfi virðast fylgjast að.
Við höfum enga hugmynd um hversu marktækar breytingar þetta eru, hvort þær muni ganga til baka eða aukast enn frekar. Við vitum ekki heldur hvort þeirra gætir á norðurhveli öllu - eða hvort þær eru aðeins staðbundnar.
Mörgu þarf - og á - að gefa gaum - fleiru en meðalhita jarðar.
21.5.2016 | 02:17
Fyrstu 20 dagar maímánaðar 2016
Lítum á stöðu meðaltala eftir 20. fyrstu daga mánaðarins. Efri hluti töflunnar miðar við 1961 til 1990, en sá neðri við síðustu tíu ár.
1. til 20. maí 2016 | ||||||||
1961-1990 | mhiti | vik | úrk(mm) | prósent | þrýstingur | vik | sólskin | vik |
Reykjavík | 5,8 | 0,2 | 7,2 | 23 | 1013,3 | 1,6 | 104,7 | -14,9 |
Stykkishólmur | 5,1 | 1,0 | 5,7 | 24 | 1014,0 | 2,5 | ||
Akureyri | 5,4 | 1,0 | 11,9 | 110 | 1012,6 | -0,8 | ||
Dalatangi | 3,9 | 1,2 | 54,9 | 91 | ||||
2006-2015 | mhiti | vik | úrk(mm) | prósent | þrýstingur | vik | sólskin | vik |
Reykjavík | 5,8 | -0,6 | 7,2 | 25 | 1013,3 | 1,6 | 104,7 | -52,4 |
Stykkishólmur | 5,1 | -0,1 | 5,7 | 23 | 1014,0 | 1,0 | ||
Akureyri | 5,4 | 0,3 | 11,9 | 62 | 1012,6 | -0,9 | ||
Dalatangi | 3,9 | 0,4 | 54,9 | 60 |
Hitinn er rétt yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en rétt neðan meðallags síðustu tíu ára. Úrkoman er mjög lítil í Reykjavík og Stykkishólmi, aðeins fjórðungur meðalúrkomu, sama er hvort tímabilið er miðað við. Hún er líka vel undir meðallagi síðustu tíu ára á Akureyri og Dalatanga (um 60 prósent) - en nærri meðallagi 1961-1990 - maímánuðir síðustu tíu ára virðast hafa verið fremur úrkomusamir norðaustan- og austanlands miðað við það sem var á fyrra (og lengra) tímabilinu.
Þrýstingurinn er ekki fjarri meðallagi - þarf að líta betur á þrýstinginn eystra (ekki sýndur). Sólskinsstundir í Reykjavík eru færri en í meðalári - sérstaklega sé miðað við síðustu tíu árin.
Úrkoma til og með 20. maí - minni en áður hefur mælst á sama tíma | ||||
úrk (mm) | eldra ár | eldra met | byrjar | nafn |
5,7 | 1995 | 6,4 | 1988 | Stafholtsey |
9,8 | 2012 | 12,4 | 1995 | Hítardalur |
10,2 | 2007 | 16,5 | 1997 | Bláfeldur |
4,7 | 1968 | 8,4 | 1978 | Vatnsskarðshólar |
7,2 | 1997 | 9,8 | 1990 | Hjarðarland |
5,1 | 2012 | 10,3 | 1972 | Írafoss |
6,4 | 2005 | 10,1 | 1995 | Vogsósar |
Á nokkrum stöðvum er úrkoma nú minni en áður hefur mælst sömu daga í maí og sýnir taflan hvaða stöðvar þetta eru. - Rétt að taka fram að líka er leitað að lægri tölum á Loftsölum í Mýrdal - þar var athugað áður en byrjað var í Vatnsskarðshólum 1977 - næst kemst maí 1968 með 8,4 mm þar.
Mjög lítil úrkoma hefur mælst í Vestmannaeyjum (sjálfvirkar athuganir) - kannski minni en áður hefur fallið þar í maí. En óttalegt ólag hefur verið á þeim mælingum - en svona er kostnaðarvæðingin - algjörlega miskunnarlaus - og stoðar lítt að kveina. Vonandi að eitthvað hressist - en götin eru afleit og æpandi á stað þar sem mælt hefur verið í hátt í 140 ár.
En þurrkurinn er sum sé óvenjulegastur á syðstu veðurstöðvum landsins - ekki hefur verið lengi mælt í Önundarhorni og í Drangshlíðardal undir Eyjafjöllum - en þar er úrkoma nú minni en 3 mm það sem af er mánuði. - Ákveðið áhyggjuefni fyrir gróður, hlýtur að vera. - Nyrðra er blautara.
Sjálfvirkar mælingar hafa almennt gengið heldur betur á Siglufirði - alla vega á rigningarhluta ársins. Þar hafa nú komið 152,3 mm í mælinn - og 92,2 mm hafa mælst á Sauðanesvita. Á þremur stöðvum hefur úrkoma dagana 20 verið meiri en áður er þekkt sömu daga mánaðarins. Það er í Bolungarvík, Hnífsdal og á Ásbjarnarstöðum á Vatnsnesi. - Minnugir lesendur hungurdiska muna e.t.v. að evrópureiknimiðstöðin varaði sérstaklega við mikilli úrkomu á þessum slóðum um daginn - réttilega - kom á daginn.
19.5.2016 | 00:39
Af lítilli úrkomu
Úrkoma hefur verið með minnsta móti víðast hvar um landið sunnan- og vestanvert í maí. Ritstjóri hungurdiska vill þó ekki gera mikið úr því - að svo stöddu. Einn eða tveir úrkomusamir sólarhringar - eða jafnvel aðeins ein skúr - geta gjörbreytt stöðunni á meta- og metingslistum.
Það er þó í góðu lagi að líta á málið - og ekki er sérlega mikla úrkomu að sjá í reiknuðum veðurspám fyrir næstu vikuna - og þegar hún er liðin fer að styttast í mánaðamótin.
Úrkoman í Reykjavík það sem af er maí hefur mælst aðeins 7,2 mm. Það er þegar ljóst að ekkert met verður slegið. Við vitum af tveimur maímánuðum fyrri tíðar þegar úrkoma var minni en þetta - allan mánuðinn. Það var 1931 þegar mánaðarúrkoman var ekki nema 0,3 mm og 1946 þegar hún mældist 4,8 mm.
Síðan koma maí 1932 (heildarúrkoma 7,3 mm), 1958 (9,2 mm), 1949 (10,0 mm) og 7 mánuðir aðrir með minna en 15 mm. - Í raun og veru má sáralítið rigna til mánaðamóta til þess að þessi maí verði ofar á þurrklista en í 10. sæti (af 120).
Í Stykkishólmi hefur úrkoman það sem af er maí ekki mælst nema 5,7 mm. Við vitum um 5 mánuði þar sem úrkoma í maí öllum var minni (147 ár).
Mjög þurrir maímánuðir hafa ekki verið algengir á Suður- og Vesturlandi síðustu 30 ár. Á þurrkalista hungurdiska fyrir landið allt er maí 2005 þó í 5. sæti (frá 1924 að telja). Sá mánuður nær ekki inn á þurrkatopp-tíu fyrir Vesturland - en er í 4. sæti á Suðurlandslista (sem nær aftur til 1885) - fyrir ofan eru aðeins 1915, 1958 og 1894.
Segja má að maí 2005 hafi náð svona langt á endasprettinum - því þann 19. hafði úrkoman mælst 11,4 mm í Reykjavík, en lokatalan varð ekki nema 13,8 mm, síðasti þriðjungur mánaðarins skilaði ekki nema 2,4 mm og mánuðurinn endaði sem sá 10. þurrasti í Reykjavík.
Vorið hefur verið harla þurrt. Úrkoma í apríl var aðeins helmingur meðalúrkomu í Reykjavík og tæpur fjórðungur hennar í Stykkishólmi. Mars var hins vegar nærri meðalagi á báðum stöðum.
Úrkoma hefur mælst 16,7 mm síðustu 30 daga í Reykjavík og hefur frá 1949 aðeins einu sinni verið minni á sama tíma - það var einmitt 2005 (12,7 mm).
Myndin sýnir úrkomuspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu 10. daga (18. til 28. maí). Litir sýna hlutfall úrkomu af meðallagi.
Þetta er þurrkleg spá - gulir og brúnir litir sýna úrkomumagn undir meðallagi (kvarðinn skýrist sé myndin stækkuð). Megnið af Íslandi er undir lit sem sýnir 25 til 50 prósent af meðallagi. Tökum við spána bókstaflega (sem við skulum varla gera) er Reykjavík í rúmum 50 prósentum - meðalúrkoma 10 maídaga í Reykjavík er um 13 mm. Verði sú raunin ætti heildarúrkoma mánaðarins við lok þessa tímabils að vera komin í 20 mm (7+13) - og þrír maídagar eru þá enn eftir. Þetta magn skilar mánuðinum í um það bil 20. sæti þurrklistans - ámóta þurrt var síðast í maí 2012.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 11
- Sl. sólarhring: 185
- Sl. viku: 2458
- Frá upphafi: 2434568
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 2183
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010