Þegar frýs saman - sumar og vetur - þá hvað?

Við athugum málið. Búum til lista yfir lágmarkshita aðfaranætur sumardagsins fyrsta í Reykjavík 1922 til 2014 og vörpum honum upp á mynd á móti sumargæðavísitölu hungurdiska - fyrir sama stað.

Um þá vísitölu og skilgreiningu hennar má lesa í nokkrum eldri pistlum. Okkur nægir nú að vita að því hærri sem hún er - því betra er sumarið talið (mikið sólskin, hár hiti, lítil úrkoma og fáir úrkomudagar gefa hæstu tölurnar, en sólaleysi, kuldi, mikil og tíð úrkoma draga vísitöluna niður).

Meðalvísitala tímabilsins alls er 24 - hæsta mögulega einkunn er 48 en sú lægsta núll. Meðallágmarkshiti aðfararnætur sumardagsins fyrsta í Reykjavík er +1,1 stig. 

Svo er það myndin.

w-blogg230415-malnyta

Lágmarkshiti fyrstu sumarnætur er á lárétta kvarðanum - en sumargæðavísitalan á þeim lóðrétta. Lóðrétta, bláa strikið sýnir frostmark - sé hugmyndin um að sumargæði fylgi frosti rétt ættu bestu sumrin að raðast ofarlega til vinstri og neðri helmingur vinstri hluta ætti helst að vera auður - hægri hlutinn má vera hvernig sem er. 

Jú, það eru góð sumur á frostsvæðinu ofan við rauðu strikalínuna - en ámóta mörg neðan við. Frost mældist samtals 33 nætur - þeim fylgdu 20 sumur undir meðallagi - en 13 yfir því.

Þá hvað? - Svosem ekki neitt sérstakt -. Sumir gætu e.t.v. talið 20 vond: 13 góð vera marktæka niðurstöðu, þ.e. frjósi sumar og vetur saman í Reykjavík sé rétt að spá vondu sumri þar um slóðir. 

Tölfræðilega sinnaðir skulu upplýstir um að rauða strikalínan sýnir línulegt aðfall, fylgnistuðull er 0,01. Áhugasamir geta litið á fylgiskjalið - tölurnar eru þar - og gætu þeir t.d. farið í fimmtunga- eða þriðjungaleiki í gögnunum - eða reynt aðrar öflugri veiðiaðferðir - þeir fiska sem róa.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

er víst að í bændasamfélagi aldana að gott sumar sé eilíf sól þó í borgarsamfélagi sé það kostur

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 23.4.2015 kl. 10:36

2 identicon

Sæll Trausti

Mig langar að setja innlegg í þessa umræðu. Fyrir mörgum áratugum var fullorðið fólk, mér nákomið, að ræða um þá trú að gott sé að vetur og sumar frjósi saman. Það þýddi ekki alfarið að sumarið verði gott, heldur að þegar það gerist þá verði mjólkin betri, þ.e.a.s meiri rjómi og betur gangi  að „skilja“ mjólkina.  

Er ekki líklegt að fólk sé búið að einfalda kenninguna?

Kveðja

Stefán Eggertsson

 Laxárdal

 Þistilfirði

Stefán Eggertsson (IP-tala skráð) 23.4.2015 kl. 12:55

3 identicon

 Sæll Trausti og takk fyrir margan fróðleiksmolann.

Í æsku á Norð-Austurlandi var mér kennt að ef frysi saman vetur og sumar yrði gott undir bú það komandi sumar.

Skilningur manna, m.a. afa míns, var sá, að eftir kalt vor yrði gróðurinn kostbærari þegar fráfærnaærnar leituðu grasa og því málnyta kostameiri og betri en væri vorið og gróðurinn snemma á ferð og sölnaði fyrr.

Ólafur Eggertsson (IP-tala skráð) 23.4.2015 kl. 13:14

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er rétt Stefán og Ólafur að hin gamla „trú“ var sú að málnyta yrði góð, kýr og sauðfé myndu mjólka vel síðla sumars væri veður svalt um sumarmál. Hvort það er rétt verða þeir að athuga sem aðgang hafa að viðeigandi gögnum. Menn áttu að setja út skál með vatni - því þykkari sem frostskánin yrði á skálinni því feitari ætti mjólk sumarsins að verða. En - það er alveg sama hvað þessi útgáfa er tuggin ofan í fjölmiðla - þeir tala ætíð um gott eða vont sumar - og þá á nútímavísu - sólskin og (jafnvel þótt svo þurrt sé að gróður skaddist). Pistillinn er svar við þessum hugmyndum - en tekur ekki á upprunalegri gerð spásagnarinnar.

Trausti Jónsson, 23.4.2015 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 15
  • Sl. sólarhring: 437
  • Sl. viku: 2731
  • Frá upphafi: 2378307

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 2420
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband