Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015
30.12.2015 | 19:37
Lægðin mikla
Þá er það ljóst. Lægsti sjávarmálsþrýstingur dagsins á landinu mældist á Kirkjubæjarklaustri kl. 5 í morgun, 930,2 hPa. Þetta er lægsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu frá því 24. desember 1989, þá mældust 929,5 hPa á Stórhöfða og 5, janúar 1983 mældist þrýstingur þar 929,9 hPa.
Til að finna enn lægri þrýsting þarf að fara mun lengra aftur - en um metin þau er fjallað í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar. Þessi lægð telst því mjög óvenjuleg - en þó skortir aðeins upp á að við getum notað allra þyngstu lýsingarorð um dýpt hennar. - Auk þess eru ámóta djúpar lægðir á sveimi á Atlantshafi - ekki oft - en nógu oft til þess að varla er rétt að tala um þessa lægð í einhverjum heimsendatón - eins og dálítið hefur sést á erlendum fréttamiðlum.
Þetta kort er af vef Veðurstofunnar og sýnir veður á landinu kl. 9 í morgun (miðvikudag 30. desember). Hér er lægðin um 931 hPa í miðju. Eins og sjá má á töflunni í viðhenginu fór þrýstingur á stöðvum á Norðurlandi lægst í 932,0 hPs á Akureyri og í Grímsey. Hugsanlega er þetta lægsti þrýstingur sem nokkru sinni hefur mælst á þessum stöðum - en málið er í athugun* - sömuleiðis hugsanleg stöðvamet víðar á landinu.
Kortið sýnir einnig að vindurinn er mestur yfir Austurlandi þar sem þrýstilínur eru þéttastar.
Þótt sjávarflóð séu sjaldgæfari á Austfjörðum en víða annars staðar við strendur landsins hefur samt alloft orðið þar umtalsvert tjón af völdum þeirra - en slíkt vill gleymast þegar langur tími líður á milli atburða. Ekkert þessara eldri flóðaveðra er þó eins og þetta - hvert veður hefur sín sérstöku einkenni.
Viðbót 30.12. kl.22:30. Við leit fannst ein lægri tala á Akureyri, 931,4 hPa, 3.janúar 1933 kl.8. Þá fór þrýstingur niður í 923,9 hPa á Stórhöfða.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.12.2015 | 01:08
Á mörkum hins trúlega (eða hvað?)
Nú (að kvöldi mánudags 28. des) hefur evrópureiknimiðstöðin heldur bætt í lægðina miklu sem á að heimsækja okkur á aðfaranótt miðvikudags (30.des) og reiknar miðjuþrýsting nú 931 hPa. Bandaríska veðurstofan vill enn betur og segir nú 924 hPa. Efri talan er auðvitað líklegri. Það er sárasjaldan að þrýstingur fer niður fyrir 930 hPa hér við land. Fullsnemmt er þó að fara að smjatta á slíku - enn er meir en sólarhringur til stefnu og reikningar bregðast oft á enn styttri tíma. Við bíðum því aðeins með einhverjar greinargerðir um lágþrýsting.
En harmonie-þrýstispákortið er nú svona - gildir kl.4 aðfaranótt miðvikudags:
Lægðin hér við Öræfi og hringar miklu úrkomusvæði í kringum sig. Stríðust er úrkoman á Austfjörðum - en líka mikil norður á Ströndum - og víðar. Mjög litlu má muna að verulegan hríðarbyl geri um landið vestanvert - fer eftir því hvoru megin frostmarks hitinn er - sú hætta stendur langt fram eftir miðvikudegi. Aldeilis rétt að fylgjast með spám Veðurstofunnar - nú ferðalög um fjallvegi eru auðvitað varasöm þegar svona stendur á. Krapi og snjór bíða í hliðum og sjór er líka úfinn og illur.
Kortið hér að neðan sýnir vindaspá - í 100 metra hæð yfir jörð - á sama tíma og kortið hér að ofan. Það er sett hér með til að sýna að bit er í þessari lægð - þótt auðvitað vonum við hið besta.
Svo eru fleiri lægðir í biðstöðu ef trúa má reiknimiðstöðvum - ekki eins djúpar, en gætu orðið skeinuhættar engu að síður - bæði hvað vind og úrkomu varðar.
Allt þetta til að koma hita í 850 hPa yfir norðurskautinu upp undir frostmark í 2 til 3 klukkustundir - það má reyna.
28.12.2015 | 00:16
Hversu lágt fer þrýstingurinn?
Þótt lægðir með miðjuþrýsting undir 940 hPa séu ekki mjög sjaldséðar á Atlantshafi gerist það ekki oft að þrýstingur mælist svo lágur hér á landi. - Reyndar þó í fyrravetur (7. janúar, 939,0 hPa á Gufuskálum) - en síðan þarf að fara aftur til 1999 til að finna jafnlágan sjávarmálsþrýsting á íslenskri veðurstöð.
Lægðin sem á að fara hjá landinu austanverðu aðfaranótt miðvikudags (þess 30.des.) er efnileg - og þegar þetta er skrifað (seint á sunnudagskvöldi, 27.) gera evrópureiknimiðstöðin og harmonie-spá Veðurstofunnar ráð fyrir því að þrýstingur í lægðarmiðju fari lægst í 937 hPa - og undir 940 hPa hér á landi. Sjá má tillögu harmonie-líkansins hér að neðan.
Fari lægðin þessa leið - og líti hún svona út - má segja að við sleppum nokkuð vel. Lægðin aðeins farin að fletjast í botninn og veðrið þar að auki verst austan við lægðarmiðjuna að þessu sinni - rétt strýkst við Austurland. -
En varla þarf að taka fram að þetta er allt mjög ótryggt og litlu má muna til að hlutir fari ekki á verri veg - svo verður víða hvasst á heiðum - auk hálku og skafrennings víða.
Bandaríska veðurstofan segir lægðina fara niður í 928 hPa og beint yfir landið - það er auðvitað verri gerð en þetta. En spár að vestan hafa verið heldur ótrúverðugar upp á síðkastið - eins og einhver veikindi séu viðvarandi í líkaninu hvað varðar dýpt sumra lægða - ekki aðeins í margra daga spám, en líka í þeim stuttu. Ekki skal fullyrt neitt um það hér hvort þessi sýki nær til þeirrar lægðar sem hér er fjallað um.
Danska hirlam-líkanið segir lægðina verða 935 hPa í miðju - og fara aðeins vestar en reiknimiðstöðin stingur upp á. Breska líkanið er sammála reiknimiðstöðinni og harmonie.
En allir þeir sem þurfa að taka mark á veðurspám fylgjast með vef Veðurstofunnar eða með upplýsingum frá öðrum til þess bærum aðilum - og láta ekki (frekar en venjulega) malið í ritstjóra hungurdiska trufla sig frá alvöru málsins.
27.12.2015 | 02:40
Óróleg vika á Atlantshafi
Eins og oftast á þessum tíma árs. Ekki tók nema einn dag (og tæplega það) að hreinsa megnið af köldu jóladagsloftinu af landinu.
Hiti hækkaði víða um meir en 20 stig á fáeinum klukkustundum - án nokkurra sérstakra átaka - kalda kápan var mjög þunn - þó þykkari en nýju fötin keisarans - og reyndar er frostið fljótt niður aftur þar sem bjart er og lygnt. Á Reykjum í Fnjóskadal - til dæmis - var frostið rétt eftir miðnætti -22,5 stig, milli klukkan 17 og 18 síðdegis komst hitinn upp í +1,1 stig - en var svo aftur kominn í -9,1 fyrir miðnætti - það er þó líka þunn kápa - ekki nema -3,7 stig í 580 metra hæð á Vaðlaheiði.
Svo kemur alvörusunnanátt í einn dag (sunnudag) - og blæs kápunni aftur burt - en hversu hlýindin að ofan slá sér til jarðar er óvíst - kostar mikinn varma að bræða snjó og ís, en mættishita í 850 hPa (þrýstileiðréttum hita) er spáð upp í +19 stig yfir Norðausturlandi aðfaranótt mánudags.
Kortið hér að neðan gildir kl.18 síðdegis á mánudag - þá er hlýja loftið komið alveg austur af landinu.
Loftið sem fylgir á eftir er þó ekki sérlega kalt - en úrkoma þó frekar slydda, él eða snjór heldur en hrein rigning. Á kortinu sést vel hversu gríðarmikil sunnanáttin er og stefnir norður til Norður-Íshafs og mun gera usla á þeim slóðum næstu daga - verða að mikilli hlýrri hæð sem snúast mun þar í nokkra daga - og reiknimiðstöðvar ekki sammála um örlögin - kannski endar hún yfir Síberíu?
Að vestan er gríðarköld stroka á leið austur á Atlantshaf - eins og oft - og leitar stefnumóts við nýja sunnanátt sem sjá má neðst á kortinu. Þar er lægð - foráttulægð auðvitað - sem ekki er vitað hvað gerir - hittir hún í kalda loftið? - eða fær hún það í hausinn - barin niður í ekkert?
Evrópureiknimiðstöðin sendir lægðina til norðurs rétt fyrir austan land á aðfaranótt miðvikudags (30.des.) - í kringum 940 hPa í miðju. Í síðdegisspárunu bandarísku Veðurstofunnar fer hún yfir Austurland þá um nóttina - líka í kringum 940 hPa í miðju.
En spár eru sérlega óstöðugar þessa dagana - miklar hræringar. Auðvitað fínar fyrir unga snarpa veðurspámenn - en þeir útbrunnu (eins og ritstjórinn) fyllast ákveðinni mæðu og þakka bara fyrir að þurfa ekki að skrifa spárnar.
26.12.2015 | 02:00
Kaldur jóladagur (án spurningarmerkis)
Jóladagur varð kaldasti dagur ársins á landinu í heild og kaldastur jóladaga frá 1995 að telja.
Bráðabirgðareikningar sýna að landsmeðalhiti í byggð var -8,4 stig, en reiknaðist -10,7 stig 1995. Þetta er þriðjikaldasti jóladagur tímabilsins frá 1949, lítillega kaldara var 1985 heldur en nú (auk 1995). Frostið í dag var það mesta á árinu á tæplega helmingi veðurstöðva landsins - þar á meðal í Reykjavík. Þar fór frostið á sjálfvirku stöðinni (sem nú hefur tekið völdin í hitamælingum borgarinnar) í -10,1 stig, en -9,9 á kvikasilfursmælinum í skýlinu. Mest frost á landinu í dag mældist við Kárahnjúka -28,0 stig og sýnist mesta frost ársins á landinu.
Jóladagslágmarksmet voru sett á 109 sjálfvirkum stöðvum (og 52 stöðvum Vegagerðarinnar að auki). Sömuleiðis voru ný lágmarksdægurmet sett á 5 mönnuðum stöðvum (af 20). Desembermet féllu á nokkrum stöðvum - m.a. við Kárahnjúka, á Eyjabökkum, á Brú á Jökuldal og í Ásbyrgi - á öllum þessum stöðvum hefur verið athugað í meir en 15 ár. Kuldinn á Brú í dag (-25,6 stig) sló þó ekki alveg út desembermet mönnuðu stöðvarinnar sem þar starfaði (-26,5 stig sem mældust þar 18.desember 1982). Það var aðeins á 3 sjálfvirkum stöðvum að hiti fór yfir frostmark í dag. Kuldakastavísitala hungurdiska fór í 417 stig (af 1000 mögulegum) - það langmesta í vetur (og líklega það mesta frá því í kuldakastinu mikla 5. til 6. desember 2013, en þá fór vísitalan í 590 stig.
Að tiltölu (miðað við meðallag síðustu tíu ára) var kaldast í dag við Upptyppinga en þar var hitinn -17,3 stig undir meðallagi. Hlýjast að tiltölu var við Skarðsfjöruvita, þar sem hiti var -4,2 stig undir meðallagi.
Þótt kalt hafi verið í Reykjavík í dag (jóladag) er samt vitað um sjö kaldari jóladaga frá 1871, síðast 1995, en þar áður þarf að fara aftur til 1965. Kaldasti jóladagurinn í Reykjavík var 1880.
Nú á að hlýna svo um munar. - Gleðileg jól.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2015 | 00:29
Kaldur jóladagur?
Ritstjórinn hefur ekki þrek til þess að fara að ræða krýsuvíkurkuldaveiki evrópureiknimiðstöðvarinnar (umfram þau dæmi sem hann hefur þegar nefnt á fjasbókarsíðunni - og fjölmargir fjasarar og tístarar aðrir hafa líka fjallað um) - en það stefnir samt í kaldan jóladag á landinu.
Þegar flett er upp í skrám kemur í ljós að mjög kaldir jóladagar hafa ekki verið í tísku á undanförnum árum - á landinu í heild. Eiginlega þarf að fara aftur til jóla 1995 til að finna kulda sem að kveður. Þá reiknaðist landsmeðalhiti í byggð -10,7 stig, 2001 er kaldastur jóladaga síðan, með meðalhita -4,5 stig, það er vissulega kalt - en samt ekki alveg eins kalt og var á landinu fyrir rúmri viku, svo dæmi sé tekið.
Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að neðan sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykkt eins og þær reiknast um hádegi á jóladag.
Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Meðalþykkt í desember (1981 til 2010) hér við land er um 5250 metrar. Litirnir á kortinu (kvarðinn batnar sé kortið stækkað) sýna að þykktin yfir landinu er um 5100 metrar - meiri suðvestanlands - en niður í 5040 metra við norðausturströndina. Þetta þýðir að hiti í neðanverðu veðrahvolfi á að vera 7-8 stigum neðan meðallags. Kuldapollurinn Stóri-Boli hefur teygt krumlu sína yfir Grænland - en það er frekar óvenjulegt - venjulega er hann frekar að slá sér suður með austurströndinni - í mestu kuldaköstum hérlendis.
Landsmeðalhiti í byggð í desember er rétt neðan frostmarks (reiknast -0,5 stig fyrir 1981 til 2010) - það er því greinilega verið að spá kaldasta jóladegi frá 1995 - á landinu í heild. Nú - dokum við. Þykktarspáin er ekki endilega rétt (4 dagar enn til jóladags þegar reiknað var) - svo er samband þykktar og meðalhita á landinu auðvitað langt í frá hreint - það var t.d. talsvert kaldara 1995 heldur en þykktin þá gaf ein og sér til kynna (gerist það nú?) - síðan er auðvitað allur gangur með einstakar stöðvar - á einhverjum stöðvum gæti jóladagur orðið sá kaldasti síðan fyrir löngu-löngu.
Sólarhringsmeðalhiti í Reykjavík á jóladag 1995 var -8,5 stig (býsna kalt það) - komumst við niður fyrir það nú þarf að leita allt aftur til 1901 eftir lægri tölu [-10,3 stig] - kaldastur jóladaga í Reykjavík var 1880, sólarhringsmeðalhiti reiknaðist -14,2 stig - og sólarhringslágmarkið var þá -15,9 stig - það lægsta á jóladag í Reykjavík.
Jóladagur 1995 er einnig sá kaldasti sem við vitum um á síðari árum á Akureyri, sólarhringsmeðalhitinn var -12,6 stig, en lágmarkið -16,0 stig. Ekki var mælt (opinberlega) á Akureyri um jólin 1880, en lægsta lágmark jóladags þar er -18,4 stig sem mældust 1906. Aftur á móti fór frostið á annan í jólum 1995 í -20,6 stig á Akureyri.
Staðarhitaspár hrökkva mikið til frá einni spárunu til annarrar - og við sleppum því auðvitað að ræða tölur einstakra stöðva marga daga fram í tímann - en þó má geta þess, fyrir þá sem eru að fylgjast með staðarspám (hvort sem er á vef Veðurstofunnar - eða þá á vef norsku veðurstofunnar) að krýsuvíkurkuldaveiki evrópureiknimiðstöðvarinnar nær ekki til Akureyrar - en reyndar til fleiri bletta á landinu heldur en Reykjanesskaga (sjá dæmi á fjasbókarsíðu hungurdiska). Varist að fá kal á sálina af krýsuvíkurveikinni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.12.2015 | 02:13
Víðáttumikið lægðasvæði
Gríðarmikið lægðasvæði ræður nú ríkjum á öllu norðanverðu Atlantshafi (eða því svæði sem við venjulega köllum svo).
Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum um hádegi á þriðjudag (22. desember). Við megum taka eftir því að yfir Íslandi er varla ein þrýstilína (þær eru hér dregnar með 4 hPa bili, að fornum breskum hætti).
Þrátt fyrir þrýstilínufátæktina hér um slóðir er ekki hægt að tala um gæðaveðurlag. Það er lítt á það að treysta til nokkurs hlutar. Inni í lægðarsvæðinu stóra eru margar smærri lægðir, sú við Færeyjar er nokkuð skæð - sömuleiðis er norðaustanáttin í Grænlandssundi skæð - en lægðarmiðjurnar tvær á Grænlandshafi halda henni mátulega í skefjum á þriðjudaginn. Svo leynast allskonar éljagarðar og leiðindi í smáatriðunum - fyrir utan möguleika á ísingu og hálku í blautu hægviðrinu.
En aðalillindin felast í lægðinni suður af Nýfundnalandi - hún er hér rétt að verða til. Reiknimiðstöðvar virðast sæmilega sammála um að hún fari til norðausturs skammt norður af Bretlandi á aðfangadag - með miklu illviðri þar um slóðir og í Noregi. Áhrifin hér á landi eru óbein - þegar lægðin er farin hjá gefst kalda norðanloftinu loks færi á að falla til suðurs um Ísland og jóladagurinn gæti því orðið býsna kaldur á landinu - og e.t.v. annar í jólum líka.
Eftir það er spáð nokkrum furðum - gríðarlega hlýrri sunnanátt á austanverðu Atlantshafi - aðallega austan við okkur en e.t.v. hér líka. En það er hálfgerð fásinna að vera að velta sér upp úr því á þessu stigi - og ritstjórinn haldinn þrálátri ritstíflu - rétt getur kreist þessi orð fram úr fingrunum ...
19.12.2015 | 21:11
Viðmiðunartímabil og fleira
Í athugasemd lesanda við pistli gærdagsins var enn minnst á óánægju með viðmiðunartímabilið 1961 til 1990. Rétt er að fara um það fáeinum orðum - sem og smávegis fleira sem vikið var að í sömu athugasemd.
Árin 1961 til 1990 eru enn aðalviðmiðunartími alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar - og verða það til 2020 þegar farið verður að miða við 1991 til 2020. Stutt er þangað til og varla ástæða til að breyta - aðalmálið er að viðmið sé eitthvað. Sumar veðurstofur og stofnanir miða nú við árin 1981 til 2010 sem meðalár - en breyta því væntanlega líka eftir 2020. Ástæða þess að hentugt þykir að miða við 1981 er trúlega sú að frá þeim tíma til 2010 má reikna meðaltöl mælinga gervihnatta á ýmsum umhverfisþáttum. Sömuleiðis þykja tölvugerðar endurgreiningar á veðri og veðurlagi nokkuð áreiðanlegar fyrir þetta tímabil og það því hentugt af þeim sökum.
En breytingar á veðurfari eru mjög örar og þannig hefur viljað til að viðmiðunartímabil þau sem hafa verið notuð hafa hér á landi aldrei verið í takti við veðurfar hvers tíma. Kannski verður það þannig áfram með næsta tímabil - það vitum við ekki. En þau tímabil sem notuð hafa verið hér á landi eru:
1. 1873 til 1922 (50 ár). Þetta var viðmið Veðurstofunnar fyrstu ár hennar. Svo hittist á að lengst af þann tíma sem það var notað var hiti langt ofan þess.
2. 1901 til 1930 (30 ár). Þetta viðmið var notað frá 1944 til 1960. Sömuleiðis nokkru kaldara en ríkjandi veðurfar á notkunarskeiðinu.
3. 1931 til 1960 (30 ár). Notað til 1990. Sem kunnugt er kólnaði talsvert upp úr 1960 - þannig að hiti var lengst af undir opinberu meðallagi allan tímann.
4. 1961 til 1990 (30 ár). Notað frá 1991. Upp úr 1995 hlýnaði svo um munaði og hefur verið hlýtt síðan - sérstaklega miðað við viðmiðunartímann.
Eins og áður sagði er líklegt að eftir 5 ár birtist nýtt viðmiðunartímabil, 1991 til 2020. Hvernig í ósköpunum hiti verður eftir það - og miðað við nýja tímabilið veit auðvitað enginn. Auðvitað væri hægt að taka lengri tímabil sem viðmið - en tilgangurinn með því er ekki sérlega skýr [sjá síðar í pistlinum].
Ritstjóri hungurdiska er veikur fyrir því að miða almennt við síðustu tíu ár - og gerir það töluvert - (sjá lata fjasbókarsíðu hungurdiska - og reyndar líka almanak Háskóla Íslands) þótt mörgum öðrum þyki það of stuttur tími. En það er samt sá tími sem flestir muna (þótt veðurminni sé almennt rýrt). En slíkt viðmið breytist á hverju ári, hungurdiskatímabilið sem árið 2015 var 2005 til 2014 verður frá næstu áramótum 2006 til 2015 (lifi hungurdiskar yfirhöfuð).
Eftir samkomulagið í París um 2 stiga hlýnunarviðmið rísa auðvitað upp deilur um það hvaða grunn sé þar miðað við, hvar núllið sé. Við eigum eftir að þurfa að hlusta á alls konar leiðindaþras um það næstu árin. Þetta viðmið er af þeim ástæðum einum (og reyndar mörgum fleirum) algjör brandari (grátlegur brandari). Talan tveir var þó skiljanleg sem táknræn - tákn fyrir eitthvað mikið (eða ekki svo óskaplega mikið) - en ekkert sem eitthvað nákvæmt. Hægt var að fallast á að slík tala væri nefnd. En þá þurfti endilega að fara að tala um 1,5 stig - þar með fauk allur trúverðugleiki út í veður og vind - og illskiljanleg þokan blasir við. Að halda því fram að hægt sé með alþjóðlegu samkomulagi að stilla hitafar heimsins með þvílíkri nákvæmni með samkomulag um losun á koltvísýringi eitt að vopni getur varla verið annað en fáránlegt - góðan vilja gætum við virt svo langt sem hann nær - en ...
Hér þarf að taka fram að ritstjóri hungurdiska er hlýnunarsinni í þeirri merkingu að hann trúir því að þær gríðarmiklu breytingar sem þegar eru orðnar - og þær sem virðast vera fyrirsjáanlegar á geislunarbúskap lofthjúpsins af mannavöldum geti boðið upp á gríðarlegar breytingar á veðurfari um heim allan á næstu áratugum - og séu þegar farnar að gera það. - Því ofbýður honum því meir ofurtrú á að hægt sé að greina á milli 1,5 og 2,0 stiga hlýnunar með samningum af því tagi sem nú er boðið upp á - og að hægt sé að stjórna henni af þeirri nákvæmni sem tölurnar gefa í skyn.
Haldi þessi nýi samningur að einhverju leyti fara í hönd mjög athyglisverðar vendingar á næstu áratugum (ólíklegt hins vegar að ritstjóri hungurdiska lifi það). Athyglisverðast verður þegar deilur hefjast af alvöru um það hvort samningurinn hafi gert gagn eða ekki - þá munu sumir núverandi andstæðingar hans (sem nú reyna að gera sem minnst úr hlýnun síðustu áratuga) reyna að sýna fram á að mikið hafi hlýnað - meira en samningurinn hafi gert ráð fyrir - og hann sé því gagnslaus - en þeir sem hafa reynt að gera sem mest úr hlýnun til þessa munu hins vegar reyna hvað mest þeir mega til að telja almenningi trú um að lítið hafi hlýnað því samningurinn hafi komið í veg fyrir það. Furðulegur viðsnúningur - nema hvað.
En aftur að aðalefni þessa pistils, viðmiðum. Eins og áður sagði er talan 2 stig ein og sér merkingarhógvær - hún getur verið táknræn og má halda fram að hún sé ekki nákvæm hvort eð er. Hins vegar um leið og farið er að greina á milli 1,5 og 2,0 stiga sem framtíðarhámarkshlýnun fer að skipta verulegu máli hvert grunnviðmiðið er og hvort það sé yfirleitt til. Er hægt í alvöru að byggja alþjóðasamning (þann mesta allra tíma - að sögn) á einhverju sem er ekki til?
Ekkert alþjóðlegt samkomulag er um það að miða við 1851 til 1900 (það er 1851) sem grunnstöðu fyrir iðnbyltingu. Kannski verður því viðmiði þvingað upp á okkur sem hinum rétta skilningi á tölum samningsins - eitthvað verður að gera í þeim efnum - svo tölurnar verði ekki fullkomin della.
Á þeim tíma sem ritstjóri hungurdiska var sjálfur á alþjóðamarkaði fyrir 20 til 25 árum var talsvert um þetta (núll-) viðmið rætt. Félagar hans í fræðunum - sem margir hverjir eru/voru í hópi þeirra sem mest vita í heiminum um hitamælingar fyrri tíma allt aftur fyrir miðja 18. öld - voru þá margir á þeirri skoðun að þetta viðmiðunartímabil væri óeðlilegt - hlýrra hefði verið á þeim stöðum sem mælingar voru stundaðar á fyrir 1850 (reyndar lítill hluti heimsins) heldur en á síðari hluta 19. aldar.
Ritstjórinn getur út af fyrir sig tekið undir þetta viðhorf gömlu félaganna varðandi 1851 til 1900. Það er vegna þess að stöðugt veðurfar finnst ekki í fortíðinni - sama hvaða tímakvarði er valinn, langur eða skammur. Við komumst ekkert nær einhverjum platónskum meðalhita staðar (eða jarðar) með því að lengja og lengja meðaltalstímabilið - hann er einfaldlega ekki til. Við getum ekki svarað spurningunni um hver meðalhiti í Reykjavík sé - nema tiltaka ákveðið tímabil í fortíðinni. En sú tala segir lítið um meðalhita þar í framtíðinni - með eða án hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum.
En hnattræn hlýnun af mannavöldum er engu að síður raunveruleg - en við vitum ekkert hver hún verður næstu áratugi - hvað sem Parísarsamkomulaginu líður. Það slær ryki í augu okkar á margan hátt. Í fljótu bragði sýnist það reyndar aðallega vera hluti af kapphlaupi stórfyrirtækja og spilltra stjórnvalda víða um heim um skattpening almennings með bíræfnum bókhaldstrixum og afleiðusölu. - En ritstjórinn vill samt láta það njóta vafans um hríð - honum gæti auðvitað skjátlast sökum pólitískrar blindu.
Ýmislegt jákvætt má líka finna varðandi samkomulagið. Mjög æskilegt er að dregið sé úr losun gróðurhúsalofttegunda - líka hér á landi. Samningurinn eykur trúlega meðvitund á því sviði - ekki amalegt það. Aukinn þrifnaður varðandi umgengni við náttúruna er líka bráðnauðsynlegur - kannski eykur samningurinn á umræður um hann og aðgerðir? Svo er líka hugsanlegt að hann rjúfi að einhverju leyti hina skelfilegu skotgrafaumræðu um hnattrænar umhverfisbreytingar af mannavöldum - nú eða breyti áherslum þeirrar umræðu. Svo sýnist t.d. að hann sé þegar búinn að kljúfa umhverfisverndarsinna í tvær eða þrjár fylkingar. Verði sá klofningur að fúlri alvöru mun umræðan breytast mikið.
19.12.2015 | 01:59
Liggur enn í leyni
Kalda loftið liggur enn fram á lappirnar fyrir norðan land - þótt ásókn þess í gær (fimmtudag) hafi ekki skilað því miklum landvinningum. Hlýja loftið leitar aðallega til austurs fyrir sunnan land - hver bylgja hálfgerðra sumarhlýinda gengur austur um Evrópu.
Á sunnudag verður enn ein hlýindatotan á leið til austurs fyrir sunnan land eins og sjá má á spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á sunndag (20. desember).
Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Þykkt er sýnd í lit - hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra - rétt yfir meðallagi árstímans hér á landi.
En við sjáum að töluverður þykktarbratti er fyrir norðan land - jafnþykktarlínur eru þéttar - þar skiptast ört á bláir litir - því dekkri og kaldari eftir því sem norðar dregur. Eins og sjá má er vindur í háloftunum hægur yfir landinu (langt á milli jafnhæðarlína) - en vindátt þó af vestri - nokkuð samsíða þykktarbrattanum - og slakar aðeins á norðaustanáttinni sem þykktarbrattinn er að búa til -
[Þeir sem rýna í kortið og reyna að slá á vindinn sjá að ljósbláa ræman yfir landinu norðvestanverðu býr til vind sem er meiri en 20 m/s - en jafnhæðarlínurnar (vestanáttin) slá á um kannski 5 m/s. Nettóniðurstaða er því 15 m/s - jæja - við erum bara að slá á þetta - skoðið frekar raunverulegar vindaspár á vef Veðurstofunnar].
Við sjáum í einn af stóru kuldapollum norðurhvels vestan við Grænland - þann sem við höfum gjarnan kallað Stóra-Bola, til aðgreiningar frá öðrum veigaminni. Hann er ekki mjög fyrirferðarmikill en býsna kaldur - þykktin í honum miðjum er minni en 4800 metrar. Grænland verndar okkur að mestu fyrir aðsókn - en samt er aðalóvissa jólahelgarinnar tengd hreyfingum hans - og hvort eitthvað af kuldanum brýst austur um og búi til jólasnjó.
Bandaríska veðurstofan er með þannig hugmynd þegar þetta er skrifað [10-20 cm í Reykjavík] - en evrópureiknimiðstöðin er mun hógværari (og hefur oftar rétt fyrir sér). Við tölum ekki meir um það - enda gæti jólasnjórinn þess vegna komið strax þar sem hann er ekki þegar kominn. Hér er engu spáð.
14.12.2015 | 23:24
Oftast ofan meðallags - en ekki langt í kalt loft
Nú gerir evrópureiknimiðstöðin ráð fyrir því að til jóla verði hiti ofan meðallags hér við land. Þrátt fyrir meðalyfirlýsingar af þessu tagi má samt gera ráð fyrir einhverjum köldum dögum - mjög stutt er í mjög kalt loft fyrir norðan land.
Kortið gildir næstu tíu daga - fram til aðfangadags jóla. Sjávarmálsþrýstingur er heildreginn - lægð fyrir sunnan land, strikalínur sýna hita í 850 hPa-fletinum. Litirnir sýna hins vegar vik 850-hPa hitans frá meðallaginu 1981 til 2010 - um landið sunnanvert um 1 til 2 stig ofan meðallags.
Miklum hlýindum er spáð í Vestur-Evrópu, meir en 6 stigum ofan meðallags þar sem mest er (kannski falla einhver hitamet) - en sérlega kalt er aftur á móti við Grænland. Kaldasta loftið er vestan þess - þar er hita spáð meir en -10 stigum undir meðallagi. Það er mikið í 10 daga meðaltali. Fyrir norðan okkur er neikvæða vikið meir en -6 stig þar sem mest er.
Þar sem óvissa er mikil í spánum - sérstaklega þegar á líður - er nærvera kalda loftsins óþægileg. Klasaspár evrópureiknimiðstöðvarinnar sýna kalda loftið ná undirtökum hér á landi í um 40 prósent tilvika - og gefa ekki til kynna að mjög hlýtt loft berist til landsins þessa tíu daga.
En fyrir flesta skiptir sjálfsagt aðalmáli á þessum tíma árs að veður sé friðsamt - hvort það verður það til jóla er fullsnemmt að segja til um.
[Einhver spurði fyrir nokkrum dögum hvað hPa stæði fyrir. Það er þrýstieiningin hektópascal. - Um hana má lesa í viðhenginu - en því stal ritstjóri hungurdiska úr hinu merka (en þvælna) riti Veðurbók Trausta - með semingssamþykki höfundar - farið ekki með það lengra].
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 10
- Sl. sólarhring: 272
- Sl. viku: 2389
- Frá upphafi: 2434831
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 2118
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010