Kaldur jóladagur?

Ritstjórinn hefur ekki þrek til þess að fara að ræða krýsuvíkurkuldaveiki evrópureiknimiðstöðvarinnar (umfram þau dæmi sem hann hefur þegar nefnt á fjasbókarsíðunni - og fjölmargir fjasarar og tístarar aðrir hafa líka fjallað um) - en það stefnir samt í kaldan jóladag á landinu. 

Þegar flett er upp í skrám kemur í ljós að mjög kaldir jóladagar hafa ekki verið í tísku á undanförnum árum - á landinu í heild. Eiginlega þarf að fara aftur til jóla 1995 til að finna kulda sem að kveður. Þá reiknaðist landsmeðalhiti í byggð -10,7 stig, 2001 er kaldastur jóladaga síðan, með meðalhita -4,5 stig, það er vissulega kalt - en samt ekki alveg eins kalt og var á landinu fyrir rúmri viku, svo dæmi sé tekið. 

Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að neðan sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykkt eins og þær reiknast um hádegi á jóladag.

w-blogg221215a

Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Meðalþykkt í desember (1981 til 2010) hér við land er um 5250 metrar. Litirnir á kortinu (kvarðinn batnar sé kortið stækkað) sýna að þykktin yfir landinu er um 5100 metrar - meiri suðvestanlands - en niður í 5040 metra við norðausturströndina. Þetta þýðir að hiti í neðanverðu veðrahvolfi á að vera 7-8 stigum neðan meðallags. Kuldapollurinn Stóri-Boli hefur teygt krumlu sína yfir Grænland - en það er frekar óvenjulegt - venjulega er hann frekar að slá sér suður með austurströndinni - í mestu kuldaköstum hérlendis. 

Landsmeðalhiti í byggð í desember er rétt neðan frostmarks (reiknast -0,5 stig fyrir 1981 til 2010) - það er því greinilega verið að spá kaldasta jóladegi frá 1995 - á landinu í heild. Nú - dokum við. Þykktarspáin er ekki endilega rétt (4 dagar enn til jóladags þegar reiknað var) - svo er samband þykktar og meðalhita á landinu auðvitað langt í frá hreint - það var t.d. talsvert kaldara 1995 heldur en þykktin þá gaf ein og sér til kynna (gerist það nú?) - síðan er auðvitað allur gangur með einstakar stöðvar - á einhverjum stöðvum gæti jóladagur orðið sá kaldasti síðan fyrir löngu-löngu. 

Sólarhringsmeðalhiti í Reykjavík á jóladag 1995 var -8,5 stig (býsna kalt það) - komumst við niður fyrir það nú þarf að leita allt aftur til 1901 eftir lægri tölu [-10,3 stig] - kaldastur jóladaga í Reykjavík var 1880, sólarhringsmeðalhiti reiknaðist -14,2 stig - og sólarhringslágmarkið var þá -15,9 stig - það lægsta á jóladag í Reykjavík. 

Jóladagur 1995 er einnig sá kaldasti sem við vitum um á síðari árum á Akureyri, sólarhringsmeðalhitinn var -12,6 stig, en lágmarkið -16,0 stig. Ekki var mælt (opinberlega) á Akureyri um jólin 1880, en lægsta lágmark jóladags þar er -18,4 stig sem mældust 1906. Aftur á móti fór frostið á annan í jólum 1995 í -20,6 stig á Akureyri.

Staðarhitaspár hrökkva mikið til frá einni spárunu til annarrar - og við sleppum því auðvitað að ræða tölur einstakra stöðva marga daga fram í tímann - en þó má geta þess, fyrir þá sem eru að fylgjast með staðarspám (hvort sem er á vef Veðurstofunnar - eða þá á vef norsku veðurstofunnar) að krýsuvíkurkuldaveiki evrópureiknimiðstöðvarinnar nær ekki til Akureyrar - en reyndar til fleiri bletta á landinu heldur en Reykjanesskaga (sjá dæmi á fjasbókarsíðu hungurdiska). Varist að fá kal á sálina af krýsuvíkurveikinni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Trausti! Hvað merkir þetta orð krýsuvíkurveiki og hvernig kom það til?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 22.12.2015 kl. 08:39

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Orðið krýsuvíkurveiki er orðaleppur sem ég nota um ákveðna tegund villu í hitaspám evrópureiknimiðstöðvararinnar. Misgengi er á milli landhluta líkansins og lofthlutans - stafar bæði af ófullkomnu landlíkani og því að flatarupplausn líkanhlutanna gengur ekki í takt. Landhluti líkansins hefur ekki verið endurnýjaður lengi - og misræmi þetta reyndar aukist - og oft verið mjög slæmt í haust. Villan kemur fram í hægviðri og heiðríku veðri. Hún er einna verst á sunnanverðum Reykjanesskaga - í punkti nærri Krýsuvík (þess vegna nafnið) - en líka stór í punktum vestur við Patreksfjörð, á utanverðum Tröllaskaga og á bletti í Öræfum. Villan skilar sér í alla framleiðslu sem tekur gögn beint út úr 2m hitaspá reiknimiðstöðvarinnar - þar á meðal sjálfvirkar spár Veðurstofunnar (>66 klst fram í tímann) og spár yr.no. - Hún lekur ekki yfir í vind og þrýsting. Í febrúar verður reiknilíkanið endurnýjað - og að sögn er þá von um að eitthvað lagist. - Vonandi er það rétt. En veikin er búin að valda töluverðu hugarangri og misskilningi. Nafnið er mitt - valið til að vera sláandi. 

Trausti Jónsson, 22.12.2015 kl. 11:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 20
  • Sl. sólarhring: 114
  • Sl. viku: 1511
  • Frá upphafi: 2348756

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 1317
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband