Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Samkeppnisstaða

Eftir helgina er gert ráð fyrir því að hlýtt loft sæki í átt til landsins - en á sama tíma kólnar norðurundan. Það skerpir á hitabratta á svæðinu. 

Kortið hér að neðan sýnir stöðuna á sunnudag (13. desember) að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg121215a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin er sýnd í lit, en hún mælir (meðal)hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli bláu og grænu litanna er við 5280 metra og skipt er um liti á 60 metra bilum. Það er því 5220 metra jafnhæðarlínan sem liggur yfir landið suðvestanvert en þykktin yfir landinu er almennt lítillega lægri en það.

Meðalþykkt í desember er um 5250 metrar hér á landi - þykkt á sunnudaginn er því í rétt tæpu meðallagi. Í hægviðri getur mun kaldara loft legið niðri við yfirborð, á vetrum er það algengt yfir landi - en yfir sjó að sumarlagi. Þegar þannig hagar til hlýnar oft mikið um leið og hreyfir vind og kalda loftið annað hvort hrekst burt eða blandast því hlýrra ofan við. 

Á kortinu má sjá hvernig hlýrra loft sækir að og þegar þetta er skrifað (á föstudagskvöldi) reiknar evrópureiknimiðstöðin með því að að við verðum undir græna litnum allt fram á fimmtudag/föstudag - en bandaríska veðurstofan heldur þeim græna fram á sunnudag þar á eftir. Báðar reiknimiðstöðvar eru þó ekkert sérlega vissar í sinni sök og töluverður hringlandi hefur verið frá degi til dags með hérveru hlýja loftsins. Við tökum því bara eins og það verður. 

Eins og sjá má á kortinu er mjög kalt fyrir norðan okkur, það sýnir hinn helkaldi fjólublái litur heimskautaloftsins - þetta er þó enginn metkuldi. 

En veðurnörd með augun úti sjá mjög spennandi átakadaga framundan (sé að marka evrópureiknimiðstöðina) - vonandi þó án teljandi illviðra. Slík átök eru best. Útgáfa dagsins frá bandarísku veðurstofunni er klisjukenndari og ekki eins mikil nördaskemmtun - en kannski verður allt viðsnúið á morgun. 


Meiri veðrametingur

Eins og fram hefur komið í fréttum var vindhraði mikill á landinu síðastliðna nótt. Meðalvindhraði á athugunartíma á sjálfvirkum stöðvum í byggð komst í 19,9 m/s þegar mest var (kl.23). Leit í gagnagrunni Veðurstofunnar finnur fjögur önnur ámóta veður á tímabili sjálfvirku stöðvanna (frá og með 1997) - veðrið nú er því hið fimmta á 19 árum. 

Veður þessi eru mjög ólík. Á myndinni hér að neðan hefur meðalvigurvindátt veðranna verið reiknuð fyrir hverja klukkustund þegar meðalvindhraði var meiri en 18 m/s.

Veðrin fimm

Lórétti ásinn sýnir stefnuna norður-suður, en sá lárétti austur-vestur. Dagsetningar eru við hverja punktaþyrpingu og tölurnar sýna klukkustundir. 

Veðrið sem gekk yfir 16. janúar 1999 var norðanveður - meðalvigurstefna var úr norðnorðaustri - og hélst stöðug allan tímann sem meðalvindur í byggðum landsins var meiri en 18 m/s (frá kl.1 til 8). Norðanveður eru að jafnaði stöðugri en þau sem koma af öðrum áttum. 

Næst kom ámóta veður 10. nóvember 2001. Það var eins og sjá má af vestsuðvestri og var verst síðla nætur (frá kl.2 til 8). Vindátt snerist smám saman meira í vestlæga stefnu.

Síðan þurfti að bíða allt til 2008 til þess tíma að klukkustundarmeðalvindhraði í byggð næði aftur 18 m/s. Fjölda illviðra gerði þó í millitíðinni - en voru annað hvort ekki jafnhörð - nú, eða þau náðu ekki sömu útbreiðslu þó jafnhörð væru á hluta landsins. Veðrið 8. febrúar 2008 var úr landsuðri - hallaðist meir til suðurs þegar leið á kvöldið (20 til 23). 

Svo var það 14. mars á þessu ári (2015) sem gerði eftirminnilegt veður af suðri, byrjaði af suðsuðaustri, náði hámarki kl.9 - meðalvindhraði þá aðeins sjónarmun meiri en var í veðrinu nú, 20,2 m/s.

Veðrið í gærkvöldi og nótt er svo hið fimmta í röðinni. Það var af austnorðaustri eða austri - hallaðist meir til austurs eftir því sem á leið (kl.21 til 01 merkt á myndina).

Veðurharka á hverjum stað er að jafnaði mjög bundin vindátt. Vestanveðrin koma illa niður á öðrum stöðum en austanáttin. Samtals eru veðrin fimm búin að koma víða við. Þótt meðalvindhraði á landsvísu í veðrinu í gær hafi kannski ekki verið nema sá sem búast má við á 3 til 5 ára fresti að jafnaði - er líklegt að þeir staðir þar sem aldrei hvessir að ráði nema í austnorðaustanátt hafi fengið á sig vindhraða sem má aðeins búast við á 10 til 20 ára fresti. - Við skulum þó láta reiknimeistara um að meta það.

En svo er annað mál að þetta tímabil, 1997 til 2015, hefur verið frekar rólegt (þar til 2015) miðað við mörg önnur tímabil sem ritstjórinn og fleiri muna og þekkja. Höfum það í huga. Höfum líka í huga að illveðralagerinn er ótæmanlegur - þótt eitt eða fleiri illviðri gangi hjá fækkar ekkert þeim sem eftir eru - ekkert sér á lagerstöðunni.

Næsta ámóta veður - eða sýnu verra - gæti þess vegna komið strax - nú, eða látið bíða eftir sér í áratug eða meir.  


Nokkar tölur úr illviðrinu

Illviðrið nær býsna hátt á metingslistum - stormhlutfall dagsins í byggð var 69 prósent - sama og í illviðrinu 14. mars s.l. Meðalvindhraði sólarhringsins (í byggð) var meiri í mars, en hitti þá betur í daginn en nú, hæsta klukkustundarlandsmeðaltal landsins var nánast hið sama í veðrunum tveimur. Annars eru þetta eðlisólík veður.

Frést hefur af ársmetum 10-mínútna vindhraða á 15 stöðvum (vegagerðastöðvar taldar með) sem athugað hafa í 5 ár eða meira. Fara þarf yfir mælingar á ýmsum stöðvum - og rýna í hugsanlegar villur. Mesta hviða dagsins (séu mælingar réttar) mældist á Hallormsstaðahálsi 72,6 m/s og þar var einnig mestur 10-mínútna vindur 50,9 m/s - en þetta eru óstaðfestar tölur - höfum það í huga. Fárviðri (>32,6 m/s) mældist á 33 stöðvum - flestar þeirra á fjöllum og hálendi - en á láglendi í Æðey, á Fagurhólsmýri, Þyrli í Hvalfirði, við Markarfljót og á Kjalarnesi - við freistumst líka til að telja Hólmsheiði í Reykjavík til byggðastöðva. Nokkrar stöðvar duttu út - annað hvort vegna bilunar í mælum rafmagns- eða fjarskiptatruflana - það kemur í ljós.

En veðrið er ekki alveg búið þegar þetta er skrifað. 

En þökkum vakt Veðurstofunnar fyrir góðar og snarpar spár - takk krakkar. 


Mánudagsillviðri (7.desember)

Eins og ritstjórinn er eilíflega að taka fram eru ekki gerðar veðurspár á hungurdiskum - heldur aðeins fjallað um veður og veðurspár. Veðurstofan (og aðrir til þess bærir aðilar) sjá um spárnar - taka ber mark á þeim. 

En hér verður rýnt í nokkur misskiljanleg (jú, það má líka misskilja þau) spákort. Öll eru úr síðdegisrunu harmonie-líkansins og gilda kl.21 á mánudagskvöld.

Fyrsta kortið sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur), úrkomu (litafletir), hita í 850 hPa (strikalínur) og vind (hefðbundnar vindörvar).

w-blogg061215a

Lægðin er mjög djúp, hér er reiknað niður í 949 hPa í lægðarmiðju. Hér á að taka eftir því að úrkomusvæðið er alveg slitið í sundur - mikil úrkoma er í norðaustanáttinni vestan við lægðina og sömuleiðis á landinu suðaustanverðu, en þar á milli er hún minni. Þetta er ekkert óvenjulegt þegar úrkomusvæði koma úr suðri - landið slítur þau í sundur. Væntanlega er hríðarveður í norðaustanáttinni og sömuleiðis í austanáttinni til að byrja með. 

Hér er settur sporbaugur um „eyðuna“ í úrkomusvæðinu. Þeir sem rýna í kortið (það er stækkanlegt) munu taka eftir því að þrýstilínur eru þar síst þéttari heldur en annars staðar - heldur gisnari ef eitthvað er - auk þess sem alls konar beyglur eru í þrýstisviðinu. Vindur er þó að sjá mikill eða meiri en annars staðar. 

Þessi hegðan vindsins sést enn betur á kortinu hér að neðan.

w-blogg061215b

Sporbaugurinn er nokkurn veginn á sama stað á myndunum. Hér má sjá vindhraða líkansins í 100 metra hæð yfir yfirborði. Athugið að þetta er meiri vindur heldur en er í 10 metra hæð hefðbundinna vindmælinga - og tölur því almennt hærri en við munum sjá í veðrinu. Þetta eru auðvitað skelfilega háar tölur - hæsta gildið er meira en 48 m/s (10-mínútna meðalvindur). Tölur í litlum litakössum sýna líklegar vindhviður. 

Þegar spákort fyrir klukkustundirnar fyrir og eftir eru skoðuð (ekki sýnt hér) kemur í ljós að vindhraðahámarkið innan sporöskjunnar virðist vera sérstök eining innan lægðarkerfisins - tengd samskiptum skila þess og landsins sjálfs. 

Þetta sést betur á næstu mynd - sem er þversnið um veðrahvolfið frá suðurjaðri kortanna hér að ofan (til vinstri á sniðinu) norður um til norðurjaðars (til hægri).

w-blogg061215c

Það þreytir sjálfsagt flesta að rýna í þetta. Litirnir sýna vindhraðann eins og áður - sami litakvarði, vindörvar sýna vindátt á hefðbundinn hátt - en heildregnu línurnar sýna mættishitann. 

Hér sést vel að aðalvindstrengurinn er í neðstu 2 km veðrahvolfsins (undir 800 hPa) - og hann liggur meðfram fjöllunum (gráu fletirnir). Sniðið liggur frá suðri til norðurs eins og áður er sagt - og austanáttin blæs því nokkurn veginn beint inn í myndina í vindstrengnum. Það er ekki auðvelt að sjá jafnmættishitalínurnar - þrautseigustu lesendur ættu þó að geta séð að 278K (Kelvinstig) - línan (ómerkt) hjúfrar sig sunnan við Mýrdalsjökul - undir mesta vindstrengnum - þar rétt vestan við liggja línurnar nánast beint upp - en hallar síðan upp á við til hægri, 288K er þannig í um 1 km hæð rétt suður af landinu - en í meir en 2,5km yfir miðju landi. 

Giska má á (ágiskun að vísu - ritstjórinn reiknar svona nokkuð ekki út í hausnum) að þessi stífla (hlýja loftið ryðst hraðar að en það kalda nær að hörfa) bæti 10 til 15 m/s við vindinn - sem er ekki búinn að ná fullum tengslum við örar breytingar þrýstisviðsins - hann missir fótanna.

 

Þetta má líka sjá á næstu (klám-)mynd - (hún er einungis fyrir fullorðna).

w-blogg061215d

Hér má sjá úr- og ístreymi í 950 hPa-fletinum. Í grófum dráttum má segja að í úrstreyminu (rautt) sé loft að missa fótanna - meira fer burt en kemur í staðinn - í ístreyminu er einhver fyrirstaða - meira safnast fyrir en fer burt. Neðst í veðrahvolfinu fara að jafnaði saman úrstremi og niðurstreymi - en ístreymi og uppstreymi. Uppi er þessu að jafnaði öfugt farið. [Takið eftir orðunum „að jafnaði“ - þeim er ætlað að bæta fyrir ónákvæmni ritstjórans]. Við sjáum vel af lögun úr- og ístreymisflekkjanna að landið ræður miklu um legu þeirra. 

Nú - spurningin er svo auðvitað hvort þetta kalda loft verði þarna þegar ráðist verður á það? Sleppur það kannski burt áður? Á þessu smáatriði hangir spá um ofsaveður eða fárviðri - jú, það er alveg efni í 20 til 25 m/s hvort sem kalda loftið verður til staðar eða ekki - en þessir 10 til 15 m/s til viðbótar sem gera eiga veðrið óvenjulegt hanga alveg á því (alveg er kannski fullsterkt orð - en látum það hanga). 

En fleira er það en vindurinn sem gerir þetta veður leiðinlegt - blotar ofan í mikinn snjó eru aldrei skemmtilegir - munið t.d. að tryggingar ná illa til vatnstjóns að utan. Svo er annar vindstrengur tilheyrandi lægðarmiðjunni - í kringum hana sjálfa er snarpur vindur - af suðaustri, suðri og suðvestri. Suðvestanáttin gæti orðið stríð og æst upp sjó undir morgun á þriðjudag - séu spár réttar. 

En látum þetta duga - og munið enn að hér er engu spáð - við fylgjumst með Veðurstofunni. 


Lægðardrög - eða lægðir

Inni í kalda vestanloftinu myndast lægðardrög og smálægðir. Miklir éljaklakkar verða til þegar kalt loft streymir út yfir hlýjan sjó. Myndun þeirra er tilviljanakennd - en stöku sinnum leggjast þeir í fylkingar - sem jafnvel ná upp lægðasnúningi - sérstaklega ef þeir ná að teygja sig upp í veðrahvörfin.

Stundum má ráða í stöðu veðrahvarfanna með því að horfa á gervihnattamyndir sem teknar eru á vatnsgufurásinni svonefndu. Við lítum á eina slíka mynd sem tekin er kl. 23 í kvöld (miðvikudag 2. desember).

w-blogg031215a

Á dökku svæðunum sést best niður í átt til jarðar - oftast eru veðrahvörfin þar neðar en annars staðar. Langa dökka svæðið sem græna örin bendir á er niðurstreymi í norðvesturjaðri heimskautarastarinnar - hvít, ógagnsæ háský hinu megin hennar. 

Gulbrúna örin efst til hægri bendir á niðurstreymi við miðju lægðarinnar sem olli illviðrinu á Norðausturlandi í dag - þar hafa veðrahvörfin dregist verulega niður. Gulbrúna örin við Suðurland bendir á miðju éljasveips sem í dag hefur reynt að ná snúningi - svæði í miðju hans sem er dekkra en umhverfið bendir til þess að einhver árangur hafi náðst. 

Þriðja gulbrúna örin bendir svo á svæði sem líka er dekkra en umhverfið - kannski liggja veðrahvörfin þar eitthvað neðar en umhverfis - hugsanleg aðstoð fyrir næsta éljagarð til að ná upp snúningi. 

Bláa örin neðst til vinstri bendir svo á jaðar skýjakerfis föstudagslægðarinnar - en reiknimiðstöðvar eru ekki alveg búnar að ná taki á henni - þrátt fyrir að innan við 2 sólarhringar séu til stefnu - harla óþægilegt staða með allan þennan lausasnjó á jörð. 


Umræður um loftlagsbreytingar

Flestir (en ekki allir) virðast nú ganga út frá því sem gefnu að miklar loftslagsbreytingar séu yfirvofandi af manna völdum, þó skiptar skoðanir séu um magn og eðli. En eins og algengt er með flókin mál vill umræða stundum fara fram úr sjálfri sér.

Of lítill greinarmunur er gerður á loftslagsbreytingum sem vísindalegu viðfangsefni annars vegar og pólítískum og efnahagslegum aðlögunar- eða mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga hins vegar. Sumum finnst þó augljóst að séu engar loftslagsbreytingar í pípunum sé engra aðgerða þörf vegna þeirra. En er það rétt ályktun?  

Æskilegt er að greinarmunur sé gerður á veðurfarsbreytingum annars vegar og svokölluðum hnattrænum umhverfisbreytingum hins vegar. Þær fyrrnefndu eru aðeins hluti af þeim síðarnefndu. Greinarmun verður einnig að gera á veðurfarsbreytingum almennt og þeim breytingum sem taldar eru vera af manna völdum. Umhverfisbreytingar af manna völdum eru mjög umfangsmiklar, sumar þeirra kunna að hafa áhrif á veðurfar, beint eða óbeint - aðrar ekki. Ekki er almennt samkomulag um hversu stór hlutur mannsins er í þeim breytingum sem þegar hafa orðið og ræður afstaðan til þess oft afstöðu til framtíðarhorfa.

Fjölmargir mótunarþættir ráða loftslagi, bæði staðbundið og á heimsvísu. Einfaldast þykir að kenna auknum gróðurhúsaáhrifum af mannavöldum um hlýnunarhrinu síðustu 35 ára, enda er magn gróðurhúsalofttegunda sá mótunarþáttur varmajafnvægis lofthjúpsins sem mest og reglulegast hefur breyst á þessum tíma. Ef rekja á hlýnunina eftir 1980 eingöngu til náttúrulegra orsaka - en ekki aukningar gróðurhúsaáhrifa - þýðir það jafnframt að næmi veðurkerfisins í heild gagnvart breytingum er ískyggilega mikið.

Og hér byrjar flækjan, alveg ofboðsleg flækja. Flækjustigið stafar ekki síst af því hversu nátengd öll náttúran er, ótrúlegt dæmi sem flestir þekkja er þetta með flúorkolefnin og ósonið. Það magn sem sleppt er af þessum efnum virðist í öllum skilningi sáralítið, en óheft losun þeirra getur samt haft gríðarlegar (óbeinar) afleiðingar í lífríkinu - og reyndar á veðurfar líka. Allir vita að aukið magn koltvísýrings og þar með aukin gróðurhúsaáhrif stafa af inngripi manna í náttúrulega hringrás kolefnis, en minna fer fyrir umræðu um þau stórkostlegu inngrip sem eiga sér einnig stað í hringrás allra annarra efna sem koma við sögu lífsins. Yfirsýn yfir afleiðingar athafna mannsins á t.d. nitur-, brennisteins- og fosfórhringina er af ískyggilega skornum skammti - og umræður utan þröngs hrings sérfræðinga og umhverfisverndarsinna nær engar. 

Því miður vill umræðan um bæði veðurfarsbreytingar og hnattrænar umhverfisbreytingar almennt, oft þrengjast í einn farveg: Hækkun hita af völdum losunar á koltvísýringi, það er það sem málið virðist snúast um. En eru þá umhverfisbreytingar einungis fall af hita? Sennilega sjá flestir að það getur varla verið, fleira hlýtur að koma við sögu. Ef til vill má finna einhverja málamiðlun sem gengur út á það að segja að því meiri sem hitabreytingar verða, því líklegri verði umhverfisbreytingar. En getum við komið í veg fyrir umhverfisbreytingar með því að halda hitaaukningu einni og sér í skefjum? Hversu miklar breytingar komum við í veg fyrir með því að halda hitaaukningu í skefjum? Er leiðin til baka örugglega til minnkandi umhverfisbreytinga eða leiðir hún til enn meiri breytinga, sem ella hefðu ekki orðið? Eða er sú leið að draga úr hita - eða að koma í veg fyrir hugsanlega hækkun hans - einungis friðþæging sem fær okkur til að líta framhjá öllum öðrum breytingum sem e.t.v. eru hættulegri?

Svipaðar vangaveltur koma upp þó við hættum að tala um umhverfisbreytingar, en einbeitum okkur að veðurfarsbreytingunum einum. Fyrsta spurningin er hvort veðurfarsbreytingar séu mælanlegar með einni tölu, svokölluðum meðalhita jarðar eða norðurhvels? Ég held að flestir átti sig á því að svo er ekki. Það er reyndar ekki svo auðvelt að reikna meðalhita jarðar og þeir sem reyna fá út mismunandi tölur.

Allir þeir sem sjá ógn í einhvers konar Golfstraumshiksta átta sig á því að fullgróft er að nota eina tölu fyrir heim allan, svæðisbundið getur þróun hitafars verið með talsvert öðrum hætti en meðaltalið. En þá er aftur komið að því sama, vex svæðisbundinn breytileiki eingilt með hækkandi hita? Er hugsanlegt að einhver ákveðin hitahækkun sé hættulegust hvað hringrás sjávar áhrærir? Það veit auðvitað enginn.

Spurt hefur verið hvers vegna stjórnmálaskoðanir komi við sögu þessa máls. Eru náttúruvísindin ekki laus við stjórnmál, er ekki eitthvað sem heitir bara staðreynd málsins, óháð hægri, vinstri, upp og niður? Í sumum tilvikum innan náttúruvísindanna er það svo, lögmál varmafræðinnar eru t.d. algjörlega ópólítísk. Staðreyndir þessa máls eru þær að á undanförnum árum og áratugum hafa verið skrifaðar hundruð þúsunda greina sem varða veðurfarsbreytingar, sumar eru þokukenndar og aðrar skýrar, en enginn hefur lesið þær allar. Fjölmenn alþjóðanefnd (IPCC) vinnur nótt og dag við það að draga saman niðurstöður rannsókna og tekur saman þykka, loðna- og oft mótsagnakennda doðranta, sem stöku maður les lesa eða flettir.

Er hægt að ætlast til þess að maður finni einfaldan sannleika, já eða nei, í svona miklum skrifum, jafnvel í tveggja síðna útdrætti fyrir stjórnmálamenn og framkvæmdastjóra? Sá sem fær í hendur 5 þúsund síðna bók þar sem sýnt er fram á að 2 plús 2 séu fjórir verður ófær um að dæma það sjálfur. Ég verð að taka stökk og trúa því sem mér finnst og það er fullkomlega eðlilegt að næsti maður komist að annarri niðurstöðu. Ég kemst fyrst og fremst að þeirri niðurstöðu að ég verði að taka ákvörðun sjálfur, allar ákvarðanir í umhverfismálum byrja hjá mér, mér er síðan frjálst að velja mér stjórnmálamenn til að gera mér ákvörðunina bærilega feli hún á annað borð í sér einhverja fórn.

Efnislegt framhald þessa texta verður óhjákvæmilega pólítískt eða siðfræðilegt og lesendur verða því að leita þess annars staðar en hjá þeim sem þetta skrifar.


Opið Atlantshaf

Nú hefur vestanloftinu tekist að hreinsa Atlantshafið nánast austur úr norðan 50. breiddarstigs. Það hitnar hins vegar fljótt yfir sjónum og til verða smálægðir og éljagarðar - auk hefðbundinna éljaflóka (sem við kennum við útsynning). - Leiðindaveðurlag - þótt aðalhættan felist í fyrirgjöf hlýrra lofts að sunnan - þá getur allt orðið vitlaust. 

Kortið sýnir stöðuna síðdegis miðvikudaginn 2. desember - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg021215a

Lægðin sem sá um snjókomuna suðvestan- og vestanlands í dag er vestast á Grænlandshafi - snjókomubakkinn sjálfur er enn í fullu fjöri á korti þessu - blátt, mjótt svæði fyrir norðan land - og lægðin sem ólmast við Norðausturland varð til síðdegis (á þriðjudag) og er þegar þetta er skrifað að fara norður með Austurlandi í örum vexti - með mjög skæðri vestan- og norðvestanátt í kjölfarinu. 

Næstu lægðardrög eru suðvestur í hafi og benda rauðu örvarnar á þau. Í þeim tveim næstu eru éljagarðar - sem spurning er hversu öflugir verða. Þegar þetta er skrifað (seint á þriðjudagskvöldi 1. desember) eru óljósar háskýjaslæður í fylgd með þeim - og það boðar ekkert sérstaklega gott - á bilinu 5 til 20 cm gætu bæst við snjóinn með hvoru lægðardraginu um sig nái skipulagt úrstreymi í efri hluta veðrahvolfs að hjálpa uppstreymi því sem verður óskipulega til yfir hlýjum sjónum.

Lengst í burtu, suður af Nýfundnalandi er svo næsta fyrirgjöf af hlýju lofti. Reiknimiðstöðvar eru um það bil að ná taki á málinu - og það verður djúp lægð úr þessu - en við vitum ekki enn hvort hún fer fyrir suðaustan land eða verður nærgöngulli. Alla vega verður fylgjast nördheimar með af athygli - og auðvitað vaktin á Veðurstofunni. 


Flókin staða (rétt einu sinni)

Myndin sýnir lægð í foráttuvexti nú í kvöld (30. nóvember) - skýjakerfi hennar er mjög flókið. Lægðarmiðjan hreyfist til norðvesturs - og fer því ekki hér yfir - en skýjaskaflinn sem hún ýfir upp austan við sig gerir það hins vegar. 

w-blogg011215a

Þetta er erfitt veður viðfangs - lausasnjór á jörðu skapar hættu á miklum skafrenningi þegar hvessir - spurning hvort nær að hlána og rigna um stund á láglendi - sums staðar? - en mjög mikil úrkoma fylgir kerfinu - sérstaklega í þann mund að lægir. Spár eru auðvitað ekki sammála um magnið - en það er þó nægilega mikið til þess að geta skapað umferðaröngþveiti - þótt ekki skafi. 

Ískalt loft úr vestri streymir út yfir Atlantshafið - ávísun á bæði efnismikla éljagarða - sem og öflugar lægðir á svæðinu næstu vikuna.

Við skulum bara halla okkur aftur í sófanum og láta Veðurstofuna um að sjá um sagnir. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband