Bloggfærslur mánaðarins, september 2014
18.9.2014 | 01:11
Mistur
| jan | feb | mar | apr | maí | jún | júl | ágú | sep | okt | nóv | des |
1779 | - | - | - | - | - | - | - | - | 0 | 0 | 0 | 0 |
1780 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
1781 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
1782 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
1783 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 17 | 33 | 32 | 9 | 1 | 11 | 0 |
1784 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 2 | 2 | 1 | 0 | 0 | 0 |
1785 | 0 | 0 | 0 | 1 | 3 | 1 | - | - | - | - | - | - |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
1789 | 3 | 0 | 0 | 0 | 8 | 6 | 1 | 3 | 0 | 1 | 0 | 0 |
17.9.2014 | 00:47
Heldur svalari suðlægar áttir ríkjandi næstu vikuna?
Fyrri helmingur september hefur verið hlýr, meðalhiti ofan meðaltals síðustu tíu ára um land allt. Hlýindin hafa að tiltölu verið mest austanlands. Þar hefur hitinn verið meir en 3 stig ofan meðallagsins 2004 til 2013 og fjórum til fimm stigum ofan meðaltalsins 1961 til 1990.
En mikil hlýindi standa ekki endalaust. Nú lítur út fyrir að síðari hluti mánaðarins verði ívið kaldari - líka miðað við meðallag. Þó ekki sé spáð neinum kuldum ætti veðrið samt að verða haustlegra heldur en að undanförnu.
Lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins næstu tíu daga [16. til 26. september] og strikalínurnar meðalþykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarvik eru sýnd í lit. Austurland er enn yfir meðallagi áranna 1981 til 2010 - eins og það er í líkaninu - en þykktin yfir Vesturlandi er í meðallagi.
Hlýjast er yfir Bretlandseyjum - að tiltölu - en kaldast yfir Baffinslandi. Hæðarhryggurinn fyrir austan- og suðaustan land hefur gefið eftir miðað við það sem hefur verið síðustu vikuna.
Höfum í huga að þetta kort sýnir tíu daga meðaltal - mikið getur vikið frá meðallaginu einstaka daga - jafnvel þó spáin sé rétt. Spáin er mun óvissari fyrir síðari fimm dagana heldur en þá fyrstu.
16.9.2014 | 01:01
Í leit að hausti 5 [alltaf á sama tíma?]
Negla má haustkomuna niður á sólarhæð, t.d. við jafndægur á hausti - málið leyst. Samt vitum við sem eitthvað fylgjumst með tíðinni að haustveðrið (hvað sem það nú er) kemur á misjöfnum tíma frá ári til árs. Stundum lifir eitthvað af sumrinu áfram vel frameftir - en stundum er haustið mjög snemma á ferð.
Við lítum nú örlítið á breytileikann og notum til þess meðalhita í byggðum landsins og haustsummu sem skilgreind var í fyrsta þætti þessarar yfirferðar. Dagar þegar meðalhitinn er undir 7,5 stigum fá haustpunkta (stig), því fleiri eftir því sem meira neikvætt víkur frá þessum hita. Síðan safnast þessir punktar fyrir smám saman með vaxandi þunga eftir því sem á líður.
Stungið var upp á því að telja haustið komið þegar summan næði 30 haustpunktum eða meira. Við skulum nú líta á gögnin. Hér er sem fyrr miðað við tímabilið 1949 til 2013.
Lóðrétti ásinn sýnir haustsummuna, en sá lárétti tímann frá 1. júlí til áramóta. Bláu línuna höfum við séð áður. Þetta er meðalhaustsumma daga tímabilsins. Hún fer framhjá 30 punktum þann 18. september og framhjá 100 punktum 12. október. Það hlýtur að vera komið haust 12. október. Að miða við 100 punkta er of mikið - 30 henta greinilega betur. Auk þess er ekki mikill munur á 30 punkta dagsetningunni og svo þeirri dagsetningu sem út kom þegar stungið var upp á að haustið væri komið þegar 50% líkur væru á því að dagurinn væri haustdagur (= dagur sem fær haustpunkt). Sjá um það mál í fyrri pistlum.
En við athugum líka hversu haustsumman hefur mest verið á hverri dagsetningu síðari hluta ársins. Rauða línan sýnir það. Hún sýnir þar með líka hvaða dag 30 punkta múrinn hefur fyrst verið rofinn. Á tímabilinu 1949 til 2013 gerðist það fyrst 31. ágúst. Það var 1970 - ekki síst vegna margra haustdaga í júlímánuði það ár. Hundrað punkta markinu var fyrst náð þann 21. september 1979 - það margfræga kuldaár.
Árið 1959 þurfti að bíða eftir 30 punktunum til 20. október. Harla óvenjulegt. Það munar því 50 dögum á haustkomunni 1970 og 1959.
Haustið 1959 náðust 100 punktarnir ekki fyrr en 4. nóvember, 44 dögum síðar en 1979.
Þá er það breytileikinn á milli tímabila. Síðari myndin sýnir samanburð á þremur 10-ára tímabilum.
Bláa línan sýnir meðalhaustsummu hvers dags 1949 til 1958 (fyrstu 10 ár þess tíma sem undir er), græna línan sýnir síðustu tíu ár (2004 til 2013). Sáralítill munur er á 30 punkta degi þessara ára, 1949 til 1958 er hann 24. september, en þann 23. síðustu tíu ár. Á kuldatímabilinu 1977 til 1986 náðust 30 punktar að meðaltali þann 9. september, haustið á kalda skeiðinu var eftir þessu um hálfum mánuði fyrr á ferð heldur en verið hefur að undanförnu - sem og fyrir um 60 árum.
Nú gætum við haldið lengra aftur - og leitað að snemm- og seinbærum haustum á fyrri tíð - og jafnvel reiknað fleiri meðaltöl. Við sjáum til með það.
15.9.2014 | 00:50
Skemmtileg spá - sem ekki rætist
Á hungurdiskum hefur verið minnst á spár sem fá varla staðist. Stöku spá evrópureiknimiðstöðvarinnar er af þessu tagi. Langoftast er hér um 7 til 10 daga spár að ræða. Nokkrar langtímaspár undanfarinna mánaða hafa lofað miklum hlýindum á Íslandi. Engin þeirra hefur ræst. Svo fer væntanlega með spána sem við lítum á hér og nú.
Hún er úr spárununni frá hádegi í dag (sunnudaginn 14. september) og gildir eftir tíu daga, miðvikudaginn 24. september - eftir að því er virðist trúlega framvindu veðursins í 9 daga.
Jafnþykktarlínur eru heildregnar. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mesta þykktin á kortinu er við Suðausturland - meiri en 5620 metrar. Litir sýna hita í 850 hPa. Hæsti hitinn er yfir Norðausturlandi, 13 stig.
Nú er það svo að þetta eru ekki alveg fráleitar tölur - mesta þykkt sem við vitum um í september yfir Keflavík er 5639 metrar, frá 4. september 1958 - hver man það? Hæsti hiti í 850 hPa yfir Keflavík er 12,6 stig og mældist 12. september 2009 [mælt frá 1951]. Mesta septemberþykkt í amerísku endurgreiningunni löngu á öllu svæðinu kringum Ísland er 5636 m, frá 23. september 1947 kl. 24.
En við skulum ekki taka þessa spá mjög hátíðlega - en gaman væri samt að sjá hana rætast.
14.9.2014 | 00:54
Vindáttatíðni í háloftunum [enn og aftur]
Við lítum nú á vindáttatíðni í háloftunum. Ætli tilefnið sé ekki vangaveltur um stór öskugos - ólíklegt ekki satt - nema hvað?
Við tökum nokkra þrýstifleti og teljum vindáttir í háloftaathugunum yfir Keflavík síðan 1973. Við byrjum uppi í 850 hPa - sá flötur er oftast í 1300 til 1500 metra hæð - stundum neðar. Hæstu fjöll landsins ná upp í hann og þess vegna er varla hægt að búast við því að vindáttatíðnin sé sú sama alls staðar á landinu og í kringum það.
Vanir menn sjá að hér er ekki um alveg venjulega vindrós að ræða - en hún sýnir samt það sama og þær venjulegu. Hvert 10-gráðu áttabil er merkt með punkti, því algengari sem áttin er því lengra er punktur hennar frá miðju myndarinnar. Bláar línur eru dregnar á milli punktanna - og miðjan að lokum lituð í gráum lit. Eins og langflestum tegundum vindrósa sýnir þessi hvaða átt vindurinn blæs ÚR. Við verðum að vara okkur á því að ekki er samband á milli flatarmáls litaða svæðisins og áttatíðninnar, hvorki á þessari gerð rósar né hinni hefðbundnu. Fjarlægðin frá miðjunni skiptir ein máli.
Í 850 hPa er vindur algengastur úr suðvestri, norðnorðaustri og austsuðaustri yfir Keflavík. Suðlægar áttir eru algengari heldur en norðlægar, 60% suðlægar á móti 40% norðlægum. Austlægar áttir eru ívið algengari heldur en vestlægar, 53% austlægar á móti 47% vestlægum. Norðvestlægar áttir eru ívið sjaldgæfari (17%) heldur en norðaustlægar (23%), suðaustlægar (30%) og suðvestlægar (30%).
Ekkert mjög afgerandi hér, 850 hPa-flöturinn er oftast niðri í svonefndu jaðarlagi lofthjúpsins - í góðu sambandi við neðri vinda og yfirborð jarðar. Niðri við sjávarmál eru austlægar áttir algengastar víðast hvar á landinu - nema í mjög hægum vindi. Uppi í 1400 metra hæð er austanáttin aðeins farin að tapa valdi sínu til vestlægu áttanna.
Öskumekkir og vindáttatíðni í 850 hPa? Ja, kannski segir hún ekki svo mikið - loðin sem hún er. En uppi í 500 hPa gegnir öðru máli.
Hér erum við í veðrahvolfinu miðju. Suðvestanáttin er orðin eindregnari, hirðir 40% athugana. Vestlægu áttirnar eru komnar upp í 64% - á kostnað þeirra austlægu. Stefnan liggur til Bretlandseyja í 24% tilvika (tíðni norðvestanáttarinnar).
Næst er það 300 hPa-flöturinn.
Þessi flötur er nærri veðrahvörfum hér við land, oft í 9 km hæð. Vestlægu áttirnar komnar upp í 70%, norðaustanáttin niður í 10%.
Upp fyrir veðrahvörfin - upp í neðri hluta heiðhvolfs þar sem þrýstingur er 100 hPa - aðeins 10. hluti þess sem er við sjávarmál. Við erum í 16 km hæð.
Hér eru vestlægu áttirnar allsráðandi, vindur blæs úr þeim áttum 83% tímans og langoftast úr geiranum milli suðurs og vesturs. Norðaustanáttin fær aðeins 5% í sinn hlut. Taka má eftir því að norðvestlægu áttirnar hafa breyst minnst - eftir að komið var upp úr jaðarlaginu. Hlutur þeirra er nánast sá sami í 500, 300 og 100 hPa-flötunum.
Efsti flöturinn sem við lítum á er 30 hPa, í 24 km hæð.
Hér ber annað við. Austlægu áttirnar áttu aðeins 17% í 100 hPa - en eiga hér 44%. Þetta kemur til af því að á sumrin skiptir algjörlega um átt í heiðhvolfinu - hungurdiskar hafa ítrekað sagt frá því. Vestanátt er ríkjandi á vetrum - en austanátt að sumarlagi.
Þetta dugar - í bili.
13.9.2014 | 01:27
Þurrt loft yfir landinu
Á morgun, laugardaginn 13. september, verður þurrt loft yfir landinu. Var það reyndar líka síðdegis í dag (föstudag). Sá þurrkur virtist koma með vestanáttinni hvössu ofan að frá Grænlandi. Þurrkur morgundagsins - alla vega sá yfir Vesturlandi er hins vegar eitthvað flóknara mál - við látum vera að fimbulfamba um það.
Fyrsta kortið sýnir rakastig eins og harmonie-spálíkan Veðurstofunnar segir það verða um kl. 15 á morgun, laugardag.
Hér er aðalþurrkurinn austanlands - eins og vera ber í suðvestan- og vestanáttinni. Þar sjást mjög lágar tölur (prósentur), jafnvel niður undir 20 prósent á Héraði og yfir eldgosaslóðum í Holuhrauni. Snæfellsnesfjallgarðurinn á Vesturlandi er hins vegar hulinn skýjum - en rakastig undir 70 prósentum í Borgarfirði og á höfuðborgarsvæðinu. Einkennilegir hárakablettir eru undan Austur- og Norðausturlandi - er líkanið í flippi - eða verður þetta svona?
Ef við hoppum upp um einn staðalþrýstiflöt og lítum á rakann í 925 hPa kemur í ljós að þar er skraufþurrt loft á ferð - rétt í Esjuhæð.
Ský eru á Snæfellsnesi - en yfir Faxaflóa er ævintýralega þurrt loft - rakastigið undir 10 prósentum. Svona nokkuð sést furðuoft í líkönum - en er á mörkum hins trúlega. Hér hlýtur að vera um mikið niðurstreymi að ræða - ekki sést úr hvaða hæð þetta loft er upphaflega komið. Líkanið fær það í fangið - nokkurn veginn í þessari hæð úr heimslíkani evrópureiknimiðstöðvarinnar.
En hversu þykkt er þetta þurra lag? Svar við því fæst á þriðju myndinni sem sýnir rakasnið sama tíma úr harmonie-líkaninu.
Sjá má legu þversniðsins á litlu myndinni í efra hægra horni, það liggur frá suðri til norðurs eftir 23. lengdarbaugnum. Litirnir sýna rakastigið - heildregnar línur jafngildismættishitann í sniðinu (höfum ekki áhyggjur af honum í þetta sinn) en hvítar strikalínur sýna eðlisraka - hversu mikil vatnsgufa (í grömmum) er í hverju kílói lofts. Myndin skýrist eitthvað við stækkun.
Hér sést þurra loftið sérlega vel - það rétt nær niður í 925 hPa (sjá lóðrétta kvarðann) og síðan upp í um 800 hPa, milli tveggja og þriggja kílómetra. Þar fyrir ofan er rakara - miðský (og háský) frá lægðakerfi sem nálgast annað kvöld. Þurrara loft er þar enn ofan við.
Rakara loft liggur sem klessa yfir Faxaflóa neðst vinstra megin á myndinni. Sunnan- og suðvestanátt er í lofti og býr til bylgju yfir Snæfellsnesi - hún nær að hræra þurrasta loftinu saman við rakara loft fyrir ofan. Rakastigið er talsvert hærra yfir Breiðafirði heldur en Faxaflóa.
Svona er það - segir líkanið.
12.9.2014 | 00:40
Enn af hlýindum
September hefur verið hlýr til þessa - sérstaklega um landið norðan- og austanvert. Meðalhiti á Akureyri það sem af er mánuði er nú rétt um 12 stig. Þetta er fjórða hæsta tala fyrir 11 fyrstu daga mánaðarins - allt frá 1941.
Sami tími 2010 gerði best - meðalhitinn var þá 13,9 stig, 1996 var meðalhitinn þessa daga 13,1 stig og 12,5 árið 2003. Af þessum mánuðum hafði 1996 einn gott úthald - endaði í 11,4 stigum, 2003 endaði í 8,3 en 2010 var öllu skárri og lauk í 9,7 stigum. September 1941 sem á 10,3 stig fyrstu 11 dagana bætti í og endaði svo í 11,6 stigum sem er hæsta septembertalan á Akureyri til þessa. September 1939 var nærri því eins hlýr - við eigum dægurmeðaltöl þess mánaðar ekki á lager í augnablikinu.
Næstu dagar verða hlýir - sé að marka spár evrópureiknimiðstöðvarinnar - við skulum líta á norðurhvelsspána fyrir laugardaginn 13. september kl. 18.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því hvassari er vindur í fletinum. Þykktin er sýnd í lit - kvarðinn batnar sé myndin stækkuð - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Brúnir og gulir litir sýna góðan sumarhita - við verðum þeim megin á laugardaginn.
Mörkin á milli bláu og grænu litanna er við 5280 metra. Þar neðan við má búast við næturfrosti um meginhluta landsins í björtu veðri. Hér getum við talið þrjá bláa liti, sá dekksti sýnir þykkt á milli 5160 og 5100 metra. Við viljum helst engan bláan lit yfir okkur í september en sleppum varla nú frekar en venjulega.
Fjórði blái liturinn, neðan við 5100 metra sést ekki á kortinu - en ætti að fara að blikka á okkur í mestu kuldapollunum mjög fljótlega - svo breiðir hann úr sér og fimmti blái liturinn birtist.
Gríðarleg flatneskja er yfir Vestur-Evrópu - en dálítill kuldapollur við Miðjarðarhaf. Óvenjudjúp lægð er þessa dagana við Alaska - hún fór víst niður í um 960 hPa.
Nú ætti að vera hámark fellibyljatímans á Atlantshafi - en lítið bólar á slíku - alla vega sér evrópureiknimiðstöðin ekki neitt í 10-daga spánni í dag. Reyndar fylgist fellibyljamiðstöðin í Miami með þremur bylgjum í dag - kannski verður eitthvað úr? Fellibyljir hafa sömuleiðis verið fátíðari en að meðallagi á Kyrrahafi vestanverðu - en óvenjuskæðir á því austanverðu (undan Mexíkó).
11.9.2014 | 00:57
Hlýjar bylgjur
Nú ganga hlýjar bylgjur hver á fætur annarri úr suðvestri yfir landið. Sú sem fór yfir í gær (þriðjudag) og í dag (miðvikudag) er varla horfin austur af þegar sú næsta tekur við. Kortið að neðan sýnir hæð, hita og vind í 850 hPa-fletinum á fimmtudagskvöld kl. 24 (föstudag kl. 00 - ef menn vilja það frekar).
Jafnhæðarlínur eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Við erum í 1400 metra hæð eða svo. Vindátt og vindhraði eru sýnd með hefðbundnum vindörvum. Mjög hvasst er af suðsuðvestri yfir Vestfjörðum - meir en 25 m/s.
Hiti er sýndur með litum - kvarðinn batnar sé kortið stækkað. Hlý tunga er yfir landinu. Í niðurstreyminu norðan Vatnajökuls er hitinn +12 stig - en áveðurs - reiknar líkanið mínus eitt stig. Ætli ástæða kuldans sé ekki blanda af stíflu og uppstreymi - trúlega aðallega uppstreymi.
Ekki er gott að segja hvort líkanið er að sýna raunveruleika eða sýnd. En mættishitinn á hlýju hlið bylgjunnar yfir Vatnajökli segir líkanið að sé 26,8 stig. Spurning hvort Seyðisfjörður, Dalatangi eða einhver önnur gæf stöð eystra nær í 20 stig - þótt um miðja nótt sé? Ef ekki - þá er aftur möguleiki á sunnudaginn þegar næsta hlýja bylgja reiknast yfir landinu og ámóta hlýtt loft rennur hjá.
Þegar bylgjan sem er á kortinu fer austur af lendum við inn í niðurstreymislofti frá Grænlandi - hugsanlega rífur það skýjahuluna þaulsetnu hér á Vesturlandi. Þurr vestanátt hefur ekki verið í tísku um hríð. Henni fylgir oftlega mikið saltmistur.
10.9.2014 | 00:57
Í leit að hausti 4 [munar á landshlutum?]
Enn af haustleit. Í síðasta pistli var haustdagur skilgreindur. Í framhaldi af því voru reiknaðar líkur á því að almanaksdagur væri haustdagur á landinu (í heild). Við tökum nú næsta skref og athugum hvort haustið kemur á misjöfnum tíma eftir því hvar er.
Megingalli við slíkan samanburð á milli veðurstöðva er sá að mjög fáar stöðvar landsins hafa haldið út allan þann tíma sem við notum í reikningana. Það má auðvitað bæta með splæsingum en verður samt ekki gert hér. Eru áhugasamir beðnir velvirðingar á leti ritstjórans.
En við byrjum á Reykjavík og Akureyri. Fyrri myndin sínir haustlíkur einstakra daga á stöðvunum tveimur.
Lóðrétti ásinn sýnir daga almanaksársins en sá lóðrétti haustlíkurnar. Við höfum ekki ákveðið við hvaða líkur haustið á að byrja - það er okkar val, en á landsmyndinni í pistli gærdagsins voru tvö þrep áberandi, það fyrra 25. ágúst en hið síðara 6. september.
Blái ferillinn á myndinni á við Reykjavík og sýnir að haustlíkurnar ná 50 prósentum þann 15. september - en 60 prósentum þann 27. Þrepið 25. ágúst er ekki mjög áberandi - en við getum samt séð að fyrir þann tíma eru haustlíkur nær engar - en fara mjög ákveðið vaxandi eftir það.
Á Akureyri er þrepið 25. ágúst mjög áberandi - þá fara haustlíkurnar í fyrsta sinn yfir 20 prósent. Þann 9. september verða líkurnar 50 prósent, en 60 prósent þann 20. Um það bil viku munar á haustkomu á Akureyri og í Reykjavík - sé þessi sameiginlegi mælikvarði notaður. Hvort hann er eðlilegur fyrir alla landshluta er ekki víst - en lítum á dæmi frá tveimur öðrum stöðvum, Grímsstöðum á Fjöllum og Dalatanga. Þessar stöðvar eru helstu fulltrúar meginlands og úthafs hér á landi.
Hér tökum við eftir því að vorinu á Dalatanga er varla lokið 1. júlí (rauður ferill). Ekki getum við talið háar líkurnar á myndinni til haustsins? En á Grímsstöðum (grár ferill) eru kaldir dagar að sumarlagi allmargir - þó færri heldur en á Dalatanga framan af júlímánuði. Það er að sjálfsögðu alveg á mörkunum að við getum kallað þessa júlí- og ágústdaga á Grímsstöðum til haustsins - en við látum það vera hér. Hægt væri að skilgreina hlýindadaga á móti - sem eyddu þá haustdögunum - en við látum slíkar æfingar eiga sig. Þetta er nægilega flókið eins og það er.
En haustlíkur (svona skilgreindar) á Grímsstöðum fara upp í 50 prósent þann 25. ágúst - kannski er eitthvað haustlegt við þann dag? Á Dalatanga gerist það hins vegar ekki fyrr en 13. september - á svipuðum tíma og í Reykjavík. Sjórinn kælir Dalatanga miðað við Grímsstaði fram í miðjan júlí - en strax upp úr því fer hann að ylja Austfirðingum og það er ekki fyrr en í desember sem líkurnar á stöðvunum tveimur verða aftur svipaðar (þær rekast upp í 100 prósentin).
Síðasta mynd dagsins á að sýna framhaldsleið haustleitarinnar. Við berum saman tvo hætti haustleitar. Hversu jafngildir eru þeir? Grái ferillinn sýnir haustlíkur í Stykkishólmi fyrir það sama tímabil og sýnt var á fyrri myndunum tveimur (1949 til 2013). Græni ferillinn sýnir hins vegar haustlíkur - reiknaðar á sama hátt - nema hvað í stað meðalhita sólarhringsins er miðað við hitann kl. 9 að morgni eingöngu.
Við sjáum að yfir sumarið - til þrepsins 25. ágúst (grár ferill) skilar morgunhitinn ívið of mörgum haustdögum miðað við meðalhita sólarhringsins. Þriðji ferillinn (sá rauði) sýnir haustdagahlutfallið - reiknað út frá morgunhitanum allt tímabilið 1846 til 2013. Það sem skiptir mestu máli á þessari mynd er að ekki er mikill munur á gráa og græna ferlinum (sem taka til sama tímabils). Grái ferillinn nær 50 prósenta mörkunum þann 9. september, en sá græni 6. september. Við 60 prósent mörkin eru ferlarnir tveir á sama stað.
Það að ferlarnir tveir eru svona líkir gefur okkur undir fótinn með það að við getum e.t.v. séð hvernig haustlíkurnar hafa breyst í tímanna rás - allt aftur á miðja 19. öld. Það er framtíðarviðfangsefni - þótt fáir hafi e.t.v. áhuga.
Það má rifja upp að munurinn á hita 19. og 20. aldar er einna minnstur í október.
9.9.2014 | 01:19
Í leit að hausti 3 [haustdagur - haustpunktar]
Enn er leitað að byrjun haustsins. Í dag er kynnt til sögunnar ný mælitala - byggð á landsmeðalhita. Við ákveðum að dagur þegar meðalhiti í byggðum landsins er lægri heldur en 7,5 stig kallist haustdagur. Þetta hefur auðvitað þá óværu í för með sér að allmargir dagar á sumrin teljast til haustdaga - við sjáum þá - en höfum ekki stórar áhyggjur.
Í framhaldinu ákveðum við að gefa haustdögum stig eða punkta. Ekkert stig er gefið sé landsmeðalhitinn 7,5 stig eða hærri. Sé hitinn á bilinu 6,5 til 7,4 stig fær dagurinn einn haustpunkt, sé hitinn á bilinu 5,5 til 6,4 stig fær dagurinn þar með tvo haustpunkta - og svo koll af kolli. Fáir dagar að sumri hala inn mjög mörg stig með þessari veiðiaðferð.
Síðan búum við til það sem við köllum haustsummu - það er fjöldi haustpunkta sem safnast hefur upp frá 1. júlí. Skítasumur geta því dregið nokkuð marga haustpunkta að landi - en gerir það nokkuð til?
Þessi aðferðafræði leiðir okkur á nokkuð víðar veiðilendur. En að þessu sinni lítum við aðeins á eina mynd - til umhugsunar.
Lárétti kvarðinn markar daga síðari hluta árs - frá 1. júlí lengt til vinstri og alveg til áramóta til hægri. Lóðréttu kvarðarnir eru tveir. Sá til vinstri sýnir líkur á því að ákveðinn almanaksdagur teljist til haustdaga. Grái ferillinn á myndinni sýnir tölur fyrir hvern dag. Allir almanaksdagar tímabilsins 1949 til 2013 hafa lent í því að minnsta kosti einu sinni að vera haustdagar. Líkur á haustdegi í júlí og framan af ágúst eru þó litlar - vel innan við 10 prósent.
Við sjáum að 25. ágúst aukast líkur á hausti mjög snögglega, hækka úr um það bil 10 prósentum upp fyrir 20 í einu þrepi. Svipað þrep er á myndinni 5. september. Þá hækka líkurnar snögglega úr 30 prósentum upp í 50 í einu þrepi. Þann 1. október eru líkurnar orðnar meiri en 70 prósent - og 1. nóvember um 95 prósent. Þetta segir okkur eitthvað um haustkomuna - er hún við þessi þrep?
Lóðrétti kvarðinn til hægri sýnir meðalhaustsummu tímabilsins 1949 til 2013. Þetta er eðalmjúkur ferill - gerast vart mjúkari. Ekki er þar að sjá neitt áberandi þrep - hvar eigum við að setja haustbyrjun á hann? Eftir nokkra skoðun á málinu verður þeirri hugmynd varpað fram að haustið byrji þegar meðalsumman nær 30 haustpunktum. Það gerist 18. september.
Nú væri hægt að athuga hvenær einstakar veðurstöðvar eða landshlutar ná 30 haustpunktum að meðaltali. Sömuleiðis má athuga hver áraskipti eru - hvaða hausti hefur gengið best að forðast 30 punkta mörkin - og hvaða haust náði þeim fyrst? Er munur á milli tímabila? Er hægt að grennslast fyrir um haustpunkta lengra aftur í tímann en til 1949?
Þessar athyglisverðu spurningar bíða fleiri pistla - grunur leikur hins vegar á að ekki séu þeir lesendur margir sem iða í skinninu eftir svörum og því óvíst hvort svörin verða gefin upp á hungurdiskum.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.5.): 122
- Sl. sólarhring: 124
- Sl. viku: 1295
- Frá upphafi: 2464682
Annað
- Innlit í dag: 96
- Innlit sl. viku: 1100
- Gestir í dag: 89
- IP-tölur í dag: 84
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010