Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Hlýjar suðvestanáttir ríkjandi næstu vikuna?

Heldur daufleg var helgin á Suðvesturlandi í sunnanátt og sudda - en mun betri á landinu norðan- og austanverðu. Að sögn evrópureiknimiðstöðvarinnar verður svipað uppi á teningnum næstu viku til tíu daga. 

w-blogg080914a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins næstu tíu daga [7. til 17. september] og strikalínurnar meðalþykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarvik eru sýnd í lit. Við Austurland er mesta vikið 102 metrar. Það þýðir að hiti verður um 5 stigum ofan meðallags - reikni líkanið rétt. Þetta er stórt vik - fyrir svona langt tímabil.

Hér hefur oftlega verið bent á að mjög hlý þykktarvik skila sér illa til jarðar og þannig fer væntanlega aftur nú. Á móti kemur að nokkuð hvasst verður í lofti og við slík skilyrði er hitinn líklegri að ná sér niður þar sem vindur stendur af háum fjöllum. 

Spáin er mun óvissari fyrir síðari fimm dagana heldur en þá fyrstu. Hámark fyrri hluta hlýindanna verður náð á þriðjudaginn (sé eitthvað að marka spána yfirleitt). Þá er því spáð að mættishiti í 850 hPa komist yfir 22 stig yfir Austurlandi. Sól er farin að lækka á lofti og minnka við það líkur á mjög háum tölum. Til þess að þriðjudagurinn sýni okkur hæsta hita ársins þarf landshámarkshiti að komast yfir 23,3 stig. Til þess er ekki mikil von - en samt ekki alveg vonlaust. 

Talan á kortinu yfir Suðvesturlandi er +55 - það segir að hiti sé +2,5 stigum ofan meðallags septembermánaða áranna 1981 til 2010. Meðalhiti í september í Reykjavík þetta sama tímabil er 8,0 stig. Að hiti þar verði að meðaltali ofan 10 stiga þessa tíu daga er hugsanlegt - en fremur ólíklegt. 

Hlýindin eru tengd fyrirstöðuhrygg yfir Bretlandseyjum og Skandinavíu og hann er aftur studdur af afskorinni lægð austan Asóreyja. Kulda er spáð yfir Baffinslandi, fjórum stigum undir meðallagi.

Höfum í huga að þetta kort sýnir tíu daga meðaltal - mikið getur vikið frá meðallaginu einstaka daga - jafnvel þó spáin sé rétt.  


Sumardagafjöldi í Reykjavík 2014

Sumarið 2013 birtist hér á hungurdiskum talning á sumardögum í Reykjavík. Skilgreiningin var nokkuð sérviskuleg og ströng - nokkuð með grilltíðina í huga. Þeir sem vilja rifja hana upp geta lesið skilgreiningarpistilinn sjálfan. Hann var dagsettur 20. júní 2013

Nú er sumarið ekki alveg búið - Akureyri er t.d. búin að hala inn þrjá sumardaga það sem af er september. Á að meðaltali 5 sumardaga í þeim mánuði - en Reykjavík 0 til 1. Við höfum hugsanlega viðbót í huga - en lítum samt á tölur sumarsins 2014 eins og þær standa nú.

w-blogg070914a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Enn á ný sést hversu nýja öldin sker sig frá tímabilinu 1961 til 1990. Meðaltal þess tímabils er sýnt með blárri strikalínu - en meðaltal síðustu tíu ára (2004 til 2013) er sýnt með rauðri. Sumarið 2013 var við kuldaskeiðsmeðaltalið - með fæsta sumardaga frá 1996 að telja. Sumarið í sumar var mun gæfara með 33 daga - 20 fleiri en meðaltalið kalda. En er þó þremur dögum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Sumarið sem er að líða (2014) var líka gott á Akureyri eins og sjá má á síðari mynd dagsins.

w-blogg070914b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á Akureyri eru sumardagar ársins 2014 nú orðnir 52 - og veðurspár næstu daga gefa tilefni til þess að vona að þeir verði enn fleiri.  


Sumareinkunn Reykjavíkur 2014

Um þetta leyti í fyrra reiknaði ritstjóri það sem hann kallar sumareinkunn Reykjavíkur. Nú hefur sumarið 2014 bæst við þá reikninga. Rétt er að líta á niðurstöðuna. Um það hvernig reiknað er má lesa í eldri pistlum

Sumarið 2013 kom mjög hraklega út - fékk aðeins 9 stig af 48 mögulegum. Nú ber svo við að þegar reiknað er upp á nýtt - frá grunni - bættist eitt stig við þetta sumar þannig að það telst nú hafa fengið tíu stig. Sömuleiðis kemur í ljós að 2009 missir eitt stig og er nú með 40 - ásamt 1928 og 1931. 

w-blogg060914-Sumareinkunn-rvk1922til2014 

Sömuleiðis datt eitt stig inn á 1983 - það var með núll stig í sama uppgjöri í fyrra. Ástæða þessara einkennilegu hræringa er svipuð og hringekja þingmanna á kosninganótt - troði árið í ár sér inn í stigaflokk verður annað að víkja þaðan í staðinn (oftast). En höfum ekki áhyggjur af því.

Sumarið (júní til ágúst) 2014 fékk 20 stig - tvöfalt fleiri en sumarið 2013. Þetta er nákvæmlega í meðallagi áranna 1961 til 1990 - en 12 stigum minna heldur en meðaltal síðustu tíu sumra (2004 til 2013). Klasinn 2007 til 2012 er einstakur í allri röðinni - hvergi í henni eru svona mörg sumur í röð jafn góð. Sumarið 1930 spillti til dæmis klasanum 1927 til 1931 - það var aðeins í meðallagi. 

Það var ágúst sem bjargaði sumrinu. Halaði einn og sér inn 13 stig af 16 mögulegum. Júní fékk 4 stig, en júlí 3. Aðeins fjórir ágústmánuðir skiluðu betri skor og 7 til viðbótar sömu. Meðaltal síðustu tíu ágústmánaða er 10. Ágúst var sum sé í 5. til 12. gæðasæti af 93.

En fyrir alla muni farið ekki að taka þessa einkunnagjöf alvarlega - hún telst alls ekki vera vísindalegur gerðardómur en er aðeins til gamans gerð.

Sumardagar voru taldir í fyrra - og verður talning fyrir sumarið 2014 birt hér fljótlega.  


Í leit að haustinu 2

Við höldum áfram leitinni að haustinu meðal annarra árstíða. Alþjóðaárstíðirnar fjórar eru jafnlangar: Vetur = desember til febrúar, vor = mars til maí, sumar = júní til ágúst og haust = september til nóvember. Óþægindi þessarar skiptingar fyrir okkur er að mars getur varla talist vormánuður, svo oft er hann kaldasti mánuður ársins. 

Hér einbeitum við okkur að skiptingu í árstíðir eftir hita. Eigi árstíðirnar fjórar að vera jafnlangar er ekki óeðlilegt að þeir 91 dagar sem eru að meðaltali hlýjastir á landinu á árinu grípi sumarið og þeir 91 sem kaldastir eru teljist til vetrar. Í síðasta pistli reiknuðum við meðalhita hvers almanaksdags ársins og notum nú þann reikning áfram - og teljum. Í ljós kemur að um það bil 91 dagur er að meðaltali hlýrri en 7,5 stig. Það er þá sumarið. Vetrarmegin eru 91 dagur kaldari en -0,4 stig. Þetta má sjá á mynd.

w-blogg040914-haustleit-2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á myndinni má sjá að 7,5 stiga tímabilið byrjar þann 8. júní - það er þá upphaf sumars - en endar 11. september. Það eru fleiri dagar en 91 - en sumarið „stelur“ aukadögunum frá vori og hausti. Þetta er skiljanlegra varðandi veturinn. Landsmeðalhitinn dettur niður fyrir -0,4 stig 16. desember og fer upp fyrir hann aftur 27. mars. Ef við rýnum í línuritið sjáum við að nokkrir dagar inni í miðjum vetri, einkum í febrúar og líka um miðjan mars, eru með vorhita - við getum varla talið þá til vorsins vegna þess hversu stakir þeir eru - þetta er suð í gögnunum. 

Þar sem bæði sumar og vetur eru að stela dögum frá vori og hausti verða milliárstíðirnar aðeins styttri heldur en hinar. Sérstaklega á þetta við um vorið sem er á myndinni ekki nema tveir og hálfur mánuður - það stelur ekki dögum í staðinn eins og haustið gerir. Haustið er nefnilega rétt rúmir þrír mánuðir að lengd. Stendur frá 11. september til 16. desember. Ekki er fráleitt að sætta sig við að haustið byrji 11. september. En kannski er það of snemmt. Er sumarbyrjun 8. júní eðlileg?

Eins og öll veðurnörd vita telur Veðurstofan vetur ná yfir mánuðina fjóra frá desember til mars og sumarið telst líka fjórir mánuðir, júní til september. Þetta þýðir að vor og haust eru aðeins tveir mánuðir, hvor árstíð. Sumarið fær nú 120 daga, til að þeir náist í hús þarf að lækka inntökugjaldið niður í 6,0 stig, einu og hálfu stigi neðar heldur en 7,5 stig 90 daga sumarsins. Eru þær kröfur orðnar of linar? Í nágrannalöndum okkar í austri taka menn ekki í mál að telja neitt til sumarsins sem lægra er heldur en 10 stig. 

Til að innbyrða 120 daga þarf aðeins að hækka vetraraðgöngugjaldið um 0,4 stig, úr -0,4 upp í 0,0. Þetta sýnir vel hversu flatur vetrarhitinn er (það er varmabirgðum sjávar mest að þakka). Vor og haust verða síðan að skipta afgangi daganna á milli sín.

w-blogg040914-haustleit-3

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er sama myndin - nema árstíðirnar eru merktar upp á nýtt. Hér hættir veturinn 3. apríl, sumarið byrjar 22. maí og því lýkur 25. september. Þá byrjar haustið og stendur til 3. desember. Umskiptin á vorin eru svo glögg að nú fær veturinn nokkurn veginn nákvæmlega sína fjóra mánuði. Sumarið er rétt rúmir fjórir, haustið tveir og vika að auki. Vorið er styst - ætli þeir dagar hafi farið til haustsins? 

Skyldi þetta línurit ekki sýna okkur að veturinn á að vera fjórir mánuðir - frekar en þrír.

En erum við búin að finna haustið? „Rannsóknir“ okkar fram til þessa benda til þess að það byrji einhvern tíma í september. Sennilega er of snemmt að láta það byrja 1. september (sé miðað við hita eingöngu) - og sömuleiðis fullseint að draga upphaf þess til 1. október. 

Leitinni verður haldið áfram - ef þrek ritstjórans brestur ekki - miðin eru full af haustmerkjum - og enginn kvóti enn settur á veiðar úr stofninum - og fáar reglur um veiðarfæri eru í gildi. 


Í leit að haustinu

Eitthvað ósamkomulag er í gangi með það hvenær sumri lýkur og haustið taki við. Hugmynd ritstjórans er að velta þessu fyrir sér á lausblöðum hungurdiska á næstunni. Hvort það upplýsir málið eitthvað verður bara að koma í ljós. 

Í dag lítum við eingöngu á landsmeðalhita - reynum að finna haustinu stað í árstíðasveiflu hans. Grunnurinn er byggðarlandsmeðalhiti sem ritstjórinn hefur reiknað og nær til tímabilsins 1949 til 2013. Menn ráða því hvort þeir taka mark á tölunum. 

Við lítum á nokkrar myndir (nærri því eins).

w-blogg040914-haustleit-1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti kvarðinn sýnir hita - en sá lárétti árstímann og er hann látinn ná yfir eitt og hálft ár. Það er til þess að við getum séð allar árstíðir í samfellu á sömu mynd. 

Árslandsmeðalhitinn er 3,6 stig. Dökku fletirnir ofan til á myndinni sýna þann tíma ársins þegar hiti er yfir meðallagi þess og þeir neðan við sýna kaldari tímann.

Eitt megineinkenni íslensks veðurfars er sú hversu lítill munur er á meðalhita einstakra mánaða á vetrum. Hitinn er næstum sá sami frá því um miðjan desember og fram til marsloka. Tilsvarandi sumarflatneskja stendur mun styttri tíma - og víkur meir frá ársmeðaltalinu. Þetta hefur þær afleiðingar að hiti er ekki ofan meðallags nema 163 daga ársins - en er aftur á móti undir því 202 daga. Gleðilegt - eða sorglegt - það fer væntanlega eftir lundarfari hvort mönnum þykir. 

Það er 6. maí sem hitinn á vorin fer upp fyrir ársmeðaltalið - en 16. október dettur hann niður fyrir að að nýju. Við gætum skipt árinu í sumar og vetrarhelming eftir þessu og er það mjög nærri því sem forfeður okkar gerðu - ef við tökum fáeina daga af vetrinum til beggja handa og bættum við sumarið erum við býsna nærri fyrsta sumardegi gamla tímatalsins að vori og fyrsta vetrardegi að hausti. 

En í þessari skiptingu er ekkert haust og ekkert vor. Vilji menn hafa árstíðirnar fleiri en tvær verður að skipta einhvern veginn öðru vísi.

Eitt af því sem kæmi til greina væri að nota „vendipunkta“ á línuritinu - það er dagsetningar þar sem halli ferilsins breytist. Að minnsta kosti fjórir eru mjög greinilegir. Fyrst er til að taka á mörkum vetrar og vors, vetrarflatneskjunni lýkur greinilega um mánaðamótin mars/apríl, kannski 3. apríl - eftir það hækkar hiti óðfluga. Í kringum 15. júlí hættir hitinn að hækka, nær þá 10 stigum - og hin stutta sumarflatneskja tekur við. Staðbundið hámark er 8. ágúst og frá og með þeim 14. er hitinn aftur kominn niður í 10 stig. Kannski byrjar haustið þá? En þá verðum við eiginlega að kyngja því að sumarið sé ekki nema mánaðarlangt. 

Hitafall haustsins stendur síðan linnulaust þar til næsta vendipunkti er náð - 15. desember. Þá tekur hin langa vetrarflatneskja við. Við höfum hér fengið út árstíðaskiptinguna: Vetur 15. desember til 3. apríl, vor 3. apríl til 15. júlí, sumar 15. júlí til 14. ágúst, haust 14. ágúst til 15. desember. Þetta hljómar ekki mjög vel - en er þó í stíl við almannaróm sumarloka og haustlægða.

Sé vel að gáð má sjá tvo vendipunkta til víðbótar - en erfitt er að negla þá niður á ákveðnar dagsetningar. Sá fyrri er um það bil 25. maí - þá hægir aðeins á hlýnuninni. Sá síðari er í kringum 15. nóvember - þá hægir á kólnun haustsins. 

Við gætum svosem byrjað veturinn 15. nóvember og sumarið 25. maí, fundið hitann þessa daga og leitað að svipuðum hita vor og haust til að nota til að draga tímamörk á móti. Byrji sumarið 25. maí ætti það að hætta þegar svipuðum hita er náð í september. Sú dagsetning er 20. september.

Þessi nýja skipan yrði því svo: Vetur 15. desember til 3. apríl, vor 3. apríl til 25. maí, sumar 25. maí til 20. september, haust 20. september til 15. desember. 

Vendipunktaárstíðir gætum við kallað náttúrulegar - einhver umskipti eiga sér stað í náttúrunni á reglubundinn hátt.  

Við höldum leitinni að haustinu áfram síðar.  


Umhleypingar (eða kannski umhleypingur?)

Orðið „umhleypingar“ er gamalt og gott og er notað um veðurlag. Í umhleypingum eða umhleypingatíð hleypur hann stöðugt til á áttinni. Þegar mest gengur á er hvasst af öllum áttum sama daginn. Ekki dugir samt að tala um umhleypinga þegar ein lægð fer hjá - síðan ekki söguna meir. Þær þurfa helst að vera margar hver á fætur annarri - ekkert endilega daglega - en helst tvær eða fleiri sömu vikuna. 

En - föst skilgreining er auðvitað engin. Erfitt er að spá umhleypingatíð - til að gera það heiðarlega þarf helst (- mikið helst í dag) að vera sýn viku fram í tímann - séu þeir ekki byrjaðir. Auðveldara er að spá því að umhleypingarnir haldi áfram - að minnsta kosti tvo til þrjá daga - kannski lengur. 

Þetta er gamalt og gott orð - kannski fornt meira að segja. Síður er að merking þess fari alveg á flot. 

Ekki meir um það. Svo virðist sem reiknimiðstöðvar séu að spá umhleypingum. Von er á slatta af nærgöngulum lægðum næstu vikuna - hverjar þeirra teljast haustlægðir og hverjar ekki veit ritstjórinn ekki. 

Kortið hér að neðan er af lager evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir um hádegi á fimmtudag, 4. september. 

w-blogg030914a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ísland er rétt neðan við miðja mynd - hún þekur mestallt norðurhvel norðan hvarfbaugs. Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Vanir geta séð að þeim fer nú hægt fjölgandi - eins og gerist þegar sumri hallar. Þykktin er sýnd í lit - kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Sumar á Íslandi er lengst af á mörkum grænu og gulu litanna, þar heitir þykktin 5460 metrar. Góðir sumardagar eru oftast í gula litnum - en bláa litinn viljum við alls ekki sjá að sumarlagi. Haustlegt verður á örskotsstund ef bláir litir setjast að - þó ekki sé nema í tvo til þrjá daga. 

Bláu litirnir á kortinu eru þrír - sjá má örsmáan blett þar sem þykktin er minni en 5160 metrar rétt sunnan við (he-he) norðurskautið. 

Á fimmtudaginn verður lægðakerfið sem hefur ráðið okkur í dag (þriðjudag) komið austur af og skammær hæðarhryggur er á kortinu rétt fyrir vestan land - kannski með björtu veðri.  

Síðan segir reiknimiðstöðin að hver bylgjan á fætur annarri eigi að berast til okkar úr vestri - hver með sína lægð. Vindáttir hlaupa um - en verða að sögn þó aðallega á bilinu frá suðaustri (landsynningur) og suðvesturs (útsynningur) - og öðrum áttum bregður fyrir. Oftast verður hlýtt austanlands, geta samtímis verið umhleypingar á Vesturlandi - án þess að þeirra verði vart eystra? Það er nú það. 

En orðið - og merkingu þess ættu allir að þekkja - þeir sem vilja geta líka notað það í yfirfærðri merkingu um menn og málefni. Gjörið svo vel. 


Fjórða hlýjasta sumarið á landinu?

Sumarið er reyndar ekki búið, ágúst er nýliðinn og Veðurstofan telur septembermánuð ætíð til sumarsins. Það er þó tæplega hinn almenni skilningur. Þegar ritstjórinn var í æsku byrjuðu skólar á landsbyggðinni aldrei fyrr en 1. október. Þá stóð sumarið alltaf fram til þess tíma, nú byrja skólar um 20. ágúst - ætli sumrinu þá lokið? Kannski kemur að því að skólahald verður allt árið - hvað verður um sumarið þá?

Ritstjóranum er svo sem nákvæmlega sama um hvort september er með í sumrinu eða ekki. Í þau tæplega 60 sumur sem enn hanga í minningu hans hélt sumarið oft áfram linnulaust allan september - en stundum hefur haustið skollið á miklu fyrr - á kuldaskeiðinu 1961 til 1995 var það oftar svo að skítkast haustsins byrjaði fyrr.

En ákafi nútímamannsins er nú orðin slíkur að alltaf verður að fá að kíkja í pakkann strax. Hvernig stendur sumarið 2014 sig í samanburði við fyrri sumur? Hungurdiskar munu á næstunni reikna út sumarvísitöluna eins og í fyrra - en þó ekki fyrr en eftir nokkra daga.

Hér lítum við eingöngu á hitann á landinu í heild. Veðurstofan hefur nú birt yfirlit um stöðu sumarsins á nokkrum veðurstöðvum. Þann pistil má finna grafinn aftan við tíðarfarsyfirlit ágústmánaðar á vef Veðurstofunnar. Lesendum er bent á hann. En þar kemur í ljós að tímabilið júní til ágúst 2014 var óvenjuhlýtt í langtímasamhengi.

Við norður- og austurströndina var þetta hlýjasta eða næsthlýjasta „sumar“ frá upphafi mælinga. Það staðfesta bæði Grímsey (hlýjast) og Teigarhorn (næsthlýjast) en á báðum stöðvum hefur hiti verið mældur í rúmlega 140 ár. Inn til landsins, t.d. á Akureyri var árangurinn litlu síðri og syðra, í Reykjavík, var hitinn á tímabilinu sá níundi hæsti frá upphafi samfelldra mælinga 1871.

En hvað þá með landið í heild? Ritstjórinn hefur soðið saman línurit sem sýnir landsmeðalhita sumarsins - í stuttu merkingunni - allt frá upphafi mælinga. Reyndar er lítið að marka það fyrr en kemur fram yfir 1870 - en tíminn þar á undan fær að fylgja með til gamans.

w-blogg020914

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti ásinn sýnir landsmeðalhita í júní til ágúst en sá lárétti tímann. Það er einn höfuðgalli við reikninga á landsmeðalhita að alltaf er verið að breyta honum - öll tímaröðin - allt til upphafs - vill hnikast til þegar einhverjar breytingar verða á stöðvakerfinu. Þetta á reyndar líka við um þær tilraunir til reikninga á heimsmeðalhita sem alltaf er verið að færa okkur á fati - þær raðir geta aldrei orðið óbreytanlegar og það þýðir lítið að gera kröfu um slíkt. Lands- nú eða heimshiti - ársins 1915 (t.d.) verður aldrei föst stærð. 

Hvað um það. Á myndinni eru aðeins þrjú sumur hlýrri en sumarið 2014. Það eru 1933, 2003 og 1880. Hitinn 1880 og nú - er reyndar nærri því sá sami - en þar sem um keppni er að ræða notum við ofurnákvæmni tveggja aukastafa - þótt ekkert vit sé í því. 

Á myndinni má einnig sjá 10- og 30-ára keðjumeðaltöl - þau enda 2014. Síðasta tala tíu-ára meðaltalsins nær því yfir 2005 til 2014, en síðasta tala 30-ára meðaltalsins sýnir meðalhita sumranna 1985 til 2014. Hæst varð 10-ára meðaltalið á árunum 2003 til 2012, en 30-ára meðaltalið hefur aldrei verið hærra heldur en einmitt nú. 

Ath: Tvær meinlegar innsláttarvillur hafa verið leiðréttar frá upphaflegri birtingu. Leki [afrita-líma] varð á milli tveggja pistla um hitafar - eftir smáhremmingar ritstjórans í ritli bloggsins. Lesendur eru beðnir velvirðingar á mistökunum. 


Hinn norræni svipur

Lægðin sem hungurdiskar hafa fjallað um undanfarna daga - sú sem tengdist fellibylnum Cristobel hefur nú fengið sinn norræna svip - og tekur þá við hefðbundin hrörnun - langt norðaustur í hafi.

Við skulum ekki sleppa því að líta á skýjakerfi lægðarinnar eins og það var á gervihnattarmynd kl. 21:03 í kvöld, sunnudaginn 31. ágúst.

w-blogg010914a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lægðarmiðjan er skammt fyrir suðvestan Vestmannaeyjar - um 965 hPa djúp. Hún hefur nú náð að hringa sjálfa sig í sveip og flýtur síðan átakalítið til norðausturs næstu daga. 

Fréttir hafa borist af foki húsbíla og húsvagna í veðrinu - sömuleiðis varð mikið vatnstjón í Reykjavík - enda var þar óvenjulegt úrfelli (úrhelli). Þess er getið á fjasbókarsíðu hungurdiska:

https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/

En betri grein verður gerð fyrir því líka hér bloggmegin eftir nokkra daga. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 210
  • Sl. sólarhring: 328
  • Sl. viku: 2035
  • Frá upphafi: 2350771

Annað

  • Innlit í dag: 193
  • Innlit sl. viku: 1821
  • Gestir í dag: 188
  • IP-tölur í dag: 188

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband