Í leit að hausti 3 [haustdagur - haustpunktar]

Enn er leitað að byrjun haustsins. Í dag er kynnt til sögunnar ný mælitala - byggð á landsmeðalhita. Við ákveðum að dagur þegar meðalhiti í byggðum landsins er lægri heldur en 7,5 stig kallist haustdagur. Þetta hefur auðvitað þá óværu í för með sér að allmargir dagar á sumrin teljast til haustdaga - við sjáum þá - en höfum ekki stórar áhyggjur.

Í framhaldinu ákveðum við að gefa haustdögum stig eða punkta. Ekkert stig er gefið sé landsmeðalhitinn 7,5 stig eða hærri. Sé hitinn á bilinu 6,5 til 7,4 stig fær dagurinn einn haustpunkt, sé hitinn á bilinu 5,5 til 6,4 stig fær dagurinn þar með tvo haustpunkta - og svo koll af kolli. Fáir dagar að sumri hala inn mjög mörg stig með þessari veiðiaðferð.

Síðan búum við til það sem við köllum haustsummu - það er fjöldi haustpunkta sem safnast hefur upp frá 1. júlí. Skítasumur geta því dregið nokkuð marga haustpunkta að landi - en gerir það nokkuð til?

Þessi aðferðafræði leiðir okkur á nokkuð víðar veiðilendur. En að þessu sinni lítum við aðeins á eina mynd - til umhugsunar.

w-blogg090914a 

Lárétti kvarðinn markar daga síðari hluta árs - frá 1. júlí lengt til vinstri og alveg til áramóta til hægri. Lóðréttu kvarðarnir eru tveir. Sá til vinstri sýnir líkur á því að ákveðinn almanaksdagur teljist til haustdaga. Grái ferillinn á myndinni sýnir tölur fyrir hvern dag. Allir almanaksdagar tímabilsins 1949 til 2013 hafa lent í því að minnsta kosti einu sinni að vera haustdagar. Líkur á haustdegi í júlí og framan af ágúst eru þó litlar - vel innan við 10 prósent. 

Við sjáum að 25. ágúst aukast líkur á hausti mjög snögglega, hækka úr um það bil 10 prósentum upp fyrir 20 í einu þrepi. Svipað þrep er á myndinni 5. september. Þá hækka líkurnar snögglega úr 30 prósentum upp í 50 í einu þrepi. Þann 1. október eru líkurnar orðnar meiri en 70 prósent - og 1. nóvember um 95 prósent. Þetta segir okkur eitthvað um haustkomuna - er hún við þessi þrep?

Lóðrétti kvarðinn til hægri sýnir meðalhaustsummu tímabilsins 1949 til 2013. Þetta er eðalmjúkur ferill - gerast vart mjúkari. Ekki er þar að sjá neitt áberandi þrep - hvar eigum við að setja haustbyrjun á hann? Eftir nokkra skoðun á málinu verður þeirri hugmynd varpað fram að haustið byrji þegar meðalsumman nær 30 haustpunktum. Það gerist 18. september.

Nú væri hægt að athuga hvenær einstakar veðurstöðvar eða landshlutar ná 30 haustpunktum að meðaltali. Sömuleiðis má athuga hver áraskipti eru - hvaða hausti hefur gengið best að forðast 30 punkta mörkin - og hvaða haust náði þeim fyrst? Er munur á milli tímabila? Er hægt að grennslast fyrir um haustpunkta lengra aftur í tímann en til 1949?

Þessar athyglisverðu spurningar bíða fleiri pistla - grunur leikur hins vegar á að ekki séu þeir lesendur margir sem iða í skinninu eftir svörum og því óvíst hvort svörin verða gefin upp á hungurdiskum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

það er komin litur á trén því er komið haust her um slóðir eflaust kemur það seidna í reykjavík. þó við mennirnir viljum ráða því hvenær haustið birjar lætur íslensk náttúra ekki plata sig þó einstakir útlendíngar geri það

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 9.9.2014 kl. 08:56

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég iða í skinninu! Og aldrei að vekja upp forvitni nema svala henni!

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.9.2014 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 197
  • Sl. sólarhring: 344
  • Sl. viku: 2022
  • Frá upphafi: 2350758

Annað

  • Innlit í dag: 180
  • Innlit sl. viku: 1808
  • Gestir í dag: 176
  • IP-tölur í dag: 176

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband