Í leit að hausti 5 [alltaf á sama tíma?]

Negla má haustkomuna niður á sólarhæð, t.d. við jafndægur á hausti - málið leyst. Samt vitum við sem eitthvað fylgjumst með tíðinni að haustveðrið (hvað sem það nú er) kemur á misjöfnum tíma frá ári til árs. Stundum lifir eitthvað af sumrinu áfram vel frameftir - en stundum er haustið mjög snemma á ferð.

Við lítum nú örlítið á breytileikann og notum til þess meðalhita í byggðum landsins og haustsummu sem skilgreind var í fyrsta þætti þessarar yfirferðar. Dagar þegar meðalhitinn er undir 7,5 stigum fá haustpunkta (stig), því fleiri eftir því sem meira neikvætt víkur frá þessum hita. Síðan safnast þessir punktar fyrir smám saman með vaxandi þunga eftir því sem á líður.

Stungið var upp á því að telja haustið komið þegar summan næði 30 haustpunktum eða meira. Við skulum nú líta á gögnin. Hér er sem fyrr miðað við tímabilið 1949 til 2013.

w-blogg160914a

Lóðrétti ásinn sýnir haustsummuna, en sá lárétti tímann frá 1. júlí til áramóta. Bláu línuna höfum við séð áður. Þetta er meðalhaustsumma daga tímabilsins. Hún fer framhjá 30 punktum þann 18. september og framhjá 100 punktum 12. október. Það hlýtur að vera komið haust 12. október. Að miða við 100 punkta er of mikið - 30 henta greinilega betur. Auk þess er ekki mikill munur á 30 punkta dagsetningunni og svo þeirri dagsetningu sem út kom þegar stungið var upp á að haustið væri komið þegar 50% líkur væru á því að dagurinn væri haustdagur (= dagur sem fær haustpunkt). Sjá um það mál í fyrri pistlum. 

En við athugum líka hversu haustsumman hefur mest verið á hverri dagsetningu síðari hluta ársins. Rauða línan sýnir það. Hún sýnir þar með líka hvaða dag 30 punkta múrinn hefur fyrst verið rofinn. Á tímabilinu 1949 til 2013 gerðist það fyrst 31. ágúst. Það var 1970 - ekki síst vegna margra „haustdaga“ í júlímánuði það ár. Hundrað punkta markinu var fyrst náð þann 21. september 1979 - það margfræga kuldaár. 

Árið 1959 þurfti að bíða eftir 30 punktunum til 20. október. Harla óvenjulegt. Það munar því 50 dögum á haustkomunni 1970 og 1959.

Haustið 1959 náðust 100 punktarnir ekki fyrr en 4. nóvember, 44 dögum síðar en 1979.

Þá er það breytileikinn á milli tímabila. Síðari myndin sýnir samanburð á þremur 10-ára tímabilum.

w-blogg160914b 

Bláa línan sýnir meðalhaustsummu hvers dags 1949 til 1958 (fyrstu 10 ár þess tíma sem undir er), græna línan sýnir síðustu tíu ár (2004 til 2013). Sáralítill munur er á 30 punkta degi þessara ára, 1949 til 1958 er hann 24. september, en þann 23. síðustu tíu ár. Á kuldatímabilinu 1977 til 1986 náðust 30 punktar að meðaltali þann 9. september, haustið á kalda skeiðinu var eftir þessu um hálfum mánuði fyrr á ferð heldur en verið hefur að undanförnu - sem og fyrir um 60 árum. 

Nú gætum við haldið lengra aftur - og leitað að snemm- og seinbærum haustum á fyrri tíð - og jafnvel reiknað fleiri meðaltöl. Við sjáum til með það.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 364
  • Sl. viku: 1836
  • Frá upphafi: 2350572

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1639
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband