Í leit að hausti 4 [munar á landshlutum?]

Enn af haustleit. Í síðasta pistli var haustdagur skilgreindur. Í framhaldi af því voru reiknaðar líkur á því að almanaksdagur væri haustdagur á landinu (í heild). Við tökum nú næsta skref og athugum hvort haustið kemur á misjöfnum tíma eftir því hvar er. 

Megingalli við slíkan samanburð á milli veðurstöðva er sá að mjög fáar stöðvar landsins hafa haldið út allan þann tíma sem við notum í reikningana. Það má auðvitað bæta með splæsingum en verður samt ekki gert hér. Eru áhugasamir beðnir velvirðingar á leti ritstjórans. 

En við byrjum á Reykjavík og Akureyri. Fyrri myndin sínir haustlíkur einstakra daga á stöðvunum tveimur.

w-blogg100914a 

Lóðrétti ásinn sýnir daga almanaksársins en sá lóðrétti haustlíkurnar. Við höfum ekki ákveðið við hvaða líkur haustið á að byrja - það er okkar val, en á landsmyndinni í pistli gærdagsins voru tvö þrep áberandi, það fyrra 25. ágúst en hið síðara 6. september. 

Blái ferillinn á myndinni á við Reykjavík og sýnir að haustlíkurnar ná 50 prósentum þann 15. september - en 60 prósentum þann 27. Þrepið 25. ágúst er ekki mjög áberandi - en við getum samt séð að fyrir þann tíma eru haustlíkur nær engar - en fara mjög ákveðið vaxandi eftir það.

Á Akureyri er þrepið 25. ágúst mjög áberandi - þá fara haustlíkurnar í fyrsta sinn yfir 20 prósent. Þann 9. september verða líkurnar 50 prósent, en 60 prósent þann 20. Um það bil viku munar á haustkomu á Akureyri og í Reykjavík - sé þessi sameiginlegi mælikvarði notaður. Hvort hann er eðlilegur fyrir alla landshluta er ekki víst - en lítum á dæmi frá tveimur öðrum stöðvum, Grímsstöðum á Fjöllum og Dalatanga. Þessar stöðvar eru helstu fulltrúar meginlands og úthafs hér á landi.

w-blogg100914b 

Hér tökum við eftir því að vorinu á Dalatanga er varla lokið 1. júlí (rauður ferill). Ekki getum við talið háar líkurnar á myndinni til haustsins? En á Grímsstöðum (grár ferill) eru kaldir dagar að sumarlagi allmargir - þó færri heldur en á Dalatanga framan af júlímánuði. Það er að sjálfsögðu alveg á mörkunum að við getum kallað þessa júlí- og ágústdaga á Grímsstöðum til haustsins - en við látum það vera hér. Hægt væri að skilgreina hlýindadaga á móti - sem eyddu þá haustdögunum - en við látum slíkar æfingar eiga sig. Þetta er nægilega flókið eins og það er. 

En haustlíkur (svona skilgreindar) á Grímsstöðum fara upp í 50 prósent þann 25. ágúst - kannski er eitthvað haustlegt við þann dag? Á Dalatanga gerist það hins vegar ekki fyrr en 13. september - á svipuðum tíma og í Reykjavík. Sjórinn kælir Dalatanga miðað við Grímsstaði fram í miðjan júlí - en strax upp úr því fer hann að ylja Austfirðingum og það er ekki fyrr en í desember sem líkurnar á stöðvunum tveimur verða aftur svipaðar (þær rekast upp í 100 prósentin).

w-blogg100914c

Síðasta mynd dagsins á að sýna framhaldsleið haustleitarinnar. Við berum saman tvo hætti haustleitar. Hversu jafngildir eru þeir? Grái ferillinn sýnir haustlíkur í Stykkishólmi fyrir það sama tímabil og sýnt var á fyrri myndunum tveimur (1949 til 2013). Græni ferillinn sýnir hins vegar haustlíkur - reiknaðar á sama hátt - nema hvað í stað meðalhita sólarhringsins er miðað við hitann kl. 9 að morgni eingöngu. 

Við sjáum að yfir sumarið - til þrepsins 25. ágúst (grár ferill) skilar morgunhitinn ívið of mörgum haustdögum miðað við meðalhita sólarhringsins. Þriðji ferillinn (sá rauði) sýnir haustdagahlutfallið - reiknað út frá morgunhitanum allt tímabilið 1846 til 2013. Það sem skiptir mestu máli á þessari mynd er að ekki er mikill munur á gráa og græna ferlinum (sem taka til sama tímabils). Grái ferillinn nær 50 prósenta mörkunum þann 9. september, en sá græni 6. september. Við 60 prósent mörkin eru ferlarnir tveir á sama stað.  

Það að ferlarnir tveir eru svona líkir gefur okkur undir fótinn með það að við getum e.t.v. séð hvernig haustlíkurnar hafa breyst í tímanna rás - allt aftur á miðja 19. öld. Það er framtíðarviðfangsefni - þótt fáir hafi e.t.v. áhuga. 

Það má rifja upp að munurinn á hita 19. og 20. aldar er einna minnstur í október.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 40
  • Sl. sólarhring: 354
  • Sl. viku: 2756
  • Frá upphafi: 2378332

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 2444
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband