Lægðir gerast skæðari

Dæmi finnast um illviðri af fullum vetrarvindstyrk í september - en algeng eru þau ekki. September í ár hefur að mestu sloppið við skæð veður, stormdagar í byggð hafa að vísu verið níu en enginn þeirra hefur náð máli. Stormur hefur mest orðið á sex byggðarstöðvum sama daginn - það er ekki mikið.

En nú er staðan þannig að spár eru farnar að sýna lægðir sem bíta. Vonandi sleppum við samt við bit þeirra - alla vega virðumst við sleppa alveg við mjög krappa lægð sem á að fara hratt til austnorðausturs skammt fyrir suðaustan land annað kvöld (laugardagskvöldið 27. september).

Lítum á vindaspá harmonie-líkansins sem gildir kl. 21 á laugardagskvöld.

w-blogg270914a

Hér er lægðin skammt suður af Öræfum. Nú er auðvitað óvíst hvort spáin hittir rétt í - en auðvitað eiga hagsmunaaðilar að gefa textaspám Veðurstofunnar gaum þar til lægðin er gengin hjá. 

Vindátt er sýnd með örvum - því lengri sem þær eru því meiri er vindhraðinn. Vindhraði (10-mínútna meðaltal) er líka sýndur í lit, kvarðinn batnar sé kortið stækkað. Á rauðleita svæðinu er spáð meiri vindhraða en 24 m/s - tíu vindstigum eða meir. Athuga ber að spáin gildir aðeins kl. 21 - fyrr um kvöldið er rauða svæðið vestar og síðar verður það komið austar. Við sjáum líka smátt brúnleitt svæði, þar er vindur meiri en 32 m/s - 12 vindstig eða fárviðri. 

Á kortinu má einnig sjá hvítar heildregnar línur. Þær gefa hámarkshviðu næstliðna klukkustund til kynna - jafnhámarkshviðulínur (heldur langt orð). Innsta línan sýnir 45 m/s og í gulum ferningi má sjá 49 m/s. Hreint ískyggilegar tölur yfir opnu hafi - svona tölur sjást alloft í bylgjubrotum við há fjöll - en sjaldnar úti á sjó. 

Vindurinn er miklu sterkari sunnan við lægðarmiðjuna heldur en norðan hennar. Slíkt er algengt í lægðum sem dýpka með aðstoð heimskautarastarinnar og fá snúning sinn úr niðurdrætti hennar á veðrahvörfunum. En ekki meira um það að sinni.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 33
  • Sl. sólarhring: 139
  • Sl. viku: 1782
  • Frá upphafi: 2348660

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 1561
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband