Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Fyrsti og fjórði dagur norðanáttarinnar (og sá þriðji líka)

Mjög hlýtt varð sunnanlands í dag (þriðjudaginn 29. júlí) þegar vindur gekk til norðurs og sólin fór að skína. Hitinn komst hæst í 22,6 stig á Sámsstöðum og meira að segja í 19,2 stig á annarri sjálfvirku stöðinni við Veðurstofuna milli kl. 19 og 20 (við sjáum e.t.v. eitthvað af því hámarki á mönnuðu stöðinni þegar lesið verður af hámarksmæli kl. 9 í fyrramálið). 

Hitinn sást vel á þykktarkorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 í dag. Þetta er fyrsti dagur norðanáttarinnar. 

w-blogg300714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heildregnar línur sýna þykktina í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Þykktin er meiri en 5540 metrar á bletti við landið suðvestanvert. Það er með því mesta sem þar hefur sést í sumar.

Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum - í dag var flöturinn í um 1400 metra hæð. Hiti í hlýja blettinum er yfir 8 stig - sem telst bara gott. En við sjáum að fyrir norðan land er þykktarsviðið nokkuð bratt þar sem kaldara loft sækir að. Lægsta jafnþykktarlínan (sem rétt sést í) sýnir 5340 metra. Þetta er 10 stigum kaldara loft en það sem er við Suðvesturland.  

Þetta væri hið besta mál ef kuldinn stefndi ekki til Íslands. Á föstudaginn, sem er fjórði norðanáttardagurinn - standist spár, er kalda árásin í hámarki. Kortið gildir um hádegi þann dag.

w-blogg300714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heldur leiðinlegt. Þykktin er ekki nema 5290 metrar þar sem hún er minnst í kuldapollinum fyrir norðaustan land og frost í 850 hPa um -5 stig. Ekki er þó jafnkalt um landið suðvestanvert. Þykktin yfir Reykjavík er um 5380 metrar. 

Við hljótum að þola þetta vel - ekki síst vegna þess að sjór er mjög hlýr og von er því til þess að líkanið sé heldur neðarlega í spádómum sínum. Samband lofts og sjávar í líkönunum er þó síbatnandi og varla hægt að treysta því lengur að spádómar gangi of langt. 

Skíni sól verður sæmilega hlýtt að deginum - og þar sem verður skýjað verður ekki eins kalt að nóttu og ella væri.

Svo er annað. Á þessu korti sjáum við að jafnþykktarlínurnar virðast ekki vita mikið af landinu - þær ganga yfir það nærri því eins og landið sé ekki þarna. Hitinn í 850 hPa (litirnir) finnur hins vegar meira fyrir því - við sjáum að fleygur af hlýrra lofti gengur inn í kuldann við Faxaflóa.

Þegar kuldinn kemur - á miðvikudag og fimmtudag (annan og þriðja norðanáttardagana) fer hann hraðar yfir bæði fyrir vestan og austan land heldur en yfir landinu sjálfu. Þá hækkar loftþrýstingur ívið meira báðu megin við landið heldur en fyrir sunnan það - landið myndar smáskjól og þar með lægðardrag.

Þá gerist það (séu spár réttar) að loft dregst inn í lægðardragið úr austri, suðaustri og jafnvel suðri í lægri lögum (upp í 2 til 3 km hæð) - utan af sjó. Þurr norðvestanátt er hins vegar ofar. Þegar svona háttar til getur loft orðið mjög óstöðugt og úrkoma hafist syðst á landinu. Getur jafnvel rignt mikið.

Kortið hér að neðan gildir á þriðja degi norðanáttarinnar - kl. 6 á fimmtudagsmorgni.

w-blogg300714c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það sýnir lægðardragið og úrkomuna vel. Jafnþrýstilínur eru heildregnar - en úrkoma er sýnd í lit. Litlir þríhyrningar sýna hvar úrkoman er klakkakyns - orðin til þar sem loft er mjög óstöðugt. Blái bletturinn syðst á landinu táknar 5 til 10 mm úrkomu á 3 klst.

En um þessa úrkomu er ekki algjört samkomulag - hvort hún myndast, hve mikil hún verður, hvar nákvæmlega hún fellur er ekki alveg gefið. En alla vega ættu íbúar syðst á landinu ekki að verða mjög hissa þótt snarlega þykkni í lofti og dropar tekið að falla.

Síðan á þetta úrkomusvæði að slitna frá og berast suðaustur í mikla úrkomusúpu sem verður yfir Bretlandseyjum á föstudaginn. Evrópureiknimiðstöðin gerir svo ráð fyrir því að annað svona lægðardrag (afleiðingar kuldans) myndist seint á föstudag (samanber hlýja fleyginn á föstudagsþykktarkortinu) og valdi rigningu víða um landið suðvestanvert á laugardag - það er þó enn óvissara.

Ef fimmtudagsklakkarnir yfir suðurströndinni verða mjög háreistir dæla þeir raka upp undir veðrahvörfin - og breiðist hann þar út - og gæti hjálpað til að slá á næturkulda (vonandi).  


Verður norðanáttin köld?

Nú, þegar þetta er skrifað, sunnudagskvöldið 27. júlí nálgast lægð landið úr suðvestri. Það gerir skammvinnan landsynning - síðan óræða átt þegar lægðin fer yfir landið sunnanvert á mánudag og loks gerir norðanátt þegar hún er komin austur fyrir. Þannig er staðan á kortinu hér að neðan sem gildir um hádegi á þriðjudaginn (29. júlí).

w-blogg280714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting, litirnir úrkomumagn síðastliðnar 6 klst og strikalínur sýna hita í 850 hPa. Þetta virðist vera venjuleg norðanátt - rigningu er spáð á Norðurlandi og víða verður strekkingsvindur (fylgist með honum á vef Veðurstofunnar). Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar.

Norðanáttin er vísast orðin nokkuð langþráð um landið sunnanvert - hún gæti fært íbúum þess landshluta bæði sól og þurrt veður. En norðanáttin kostar langoftast kólnandi veður - um síðir - og þannig virðist það einnig vera að þessu sinni.  

Við sjáum (kortið batnar við stækkun) að það er +5 stiga jafnhitalína í 850 hPa (um 1400 metra hæð) sem liggur yfir Íslandi. Það telst frekar hlý norðanátt - enda er hún rétt að byrja. Við Norðaustur-Grænland lúrir hins vegar 0 stiga jafnhitalínan - og þeir sem stækka kortið og sjá þar að auki vel geta fundið blett með -5 stigum nærri því efst á kortinu - ekki langt frá Svalbarða. 

Útbreiðsla kalda loftsins sést mun betur á 500 hPa-hæðar- og þykktarkortinu hér að neðan. Það batnar ekki mikið við stækkun. 

w-blogg280714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta kort gildir á sama tíma og það að ofan. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, litafletir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin milli gulu- og grænu litanna er við 5460 metra, en mörkin milli þeirra grænu og bláu er við 5280 metra. Hér er enn hlýtt við Ísland - eins og við viljum hafa það.

En við sjáum að samfelld norðvestanátt er í háloftunum yfir Grænlandi, við jörð (sjá hitt kortið) er hins vegar norðan- eða norðnorðaustanátt. Þessi vindsnúningur með hæð (mót sól) táknar að kalt loft sé í framsókn. Það sjáum við líka á því að horn er á milli jafnþykktar- og jafnhæðarlína - vindurinn sem er samsíða jafnhæðarlínunum ber lægri þykkt í átt til landsins. 

Við vitum ekki enn hversu kalt verður - en líklega verður föstudagurinn kaldastur - og auðvitað næturnar sitt hvoru megin við hann. Blái liturinn = næturfrost á láglendi kemst langleiðina til landsins - en vonandi ekki alveg. Það vill líka til að í norðanátt er oftast skýjað norðaustanlands og gæti það komið í veg fyrir næturfrost í efri byggðum þar um slóðir. 

Gangi norðanáttin hins vegar niður í þann mund sem kalda loftið kemur - gætu síðdegisskúrir séð um að það verði líka skýjað sunnanlands. - Síðan er sjávarhiti óvenjuhár undan Norðurlandi og það dregur úr líkum á því að það verði mjög kalt að þessu sinni.

Við vitum því ekkert enn um það hvað norðanáttin verður köld að þessu sinni - kannski kemur hún með langþráð sólskin.  


Sýndarsnjófyrningar í júlílok

Þrátt fyrir linnulausa bráðnun í allt sumar er enn vetrarsnjór á hæstu jöklum og fjöllum í harmonie-spálíkaninu. Eins gott fyrir jöklana að ekki bráðni allt fyrir haustið - þótt þróun líkansins sé reyndar ekki komin svo langt að þar séu sýndarjöklar sem skríða fram og gera allt það annað sem jöklar gera.

Kortið hér að neðan gildir um hádegi sunnudaginn 27. júlí. Snjómagn er sýnt með litum - frá hvítu og gráu yfir í blátt (kvarðinn sést betur sé kortið stækkað) - og einnig má sjá allmörg hámörk merkt með tölum. Tölurnar sýna magnið í kg á fermetra.

w-blogg270714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mikill snjór er enn á jöklunum - en við sjáum samt að enginn sýndarsnjór er nú eftir á stórum svæðum á skriðjöklum - þeir eru auðir. Vetrarsnjórinn er þar allur bráðnaður. 

Hæsta talan á kortinu er á Öræfajökli  9249 kg á fermetra - rúm 9 tonn.

Á Mýrdalsjökli eru meir en 7 tonn á fermetra þar sem mest er. Sömuleiðis sýnist Drangajökull vera í góðum málum, enn sitja meir en 5 tonn á fermetra þar sem mest er þar. Vetrarsnjórinn er hins vegar alveg við að hverfa á Snæfellsjökli, þar er hæsta talan aðeins 132 kg á fermetra. Í raunveruleikanum er tindurinn hærri heldur en í líkaninu þannig að staðan er trúlega ívið betri en þetta. 

Enn er mikill snjór fyrir austan, 1300 kg á fermetra á fjöllunum sunnan Vopnafjarðar og nærri 900 þar sem mest er á Austfjarðafjöllum norðanverðum. Þrándarjökull stendur nokkuð vel. 

Fyrir norðan eru fyrningar mestar sitt hvoru megin Flateyjardals, rétt í kringum tonn á fermetra þar sem mest er. Minna er á Tröllaskagafjöllum.


Skiptir um átt í háloftunum?

Skiptir nú um átt í háloftunum? Það er e.t.v. ekki í alveg í hendi en víst er að evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir að meðalstaða næstu tíu daga verði ólík þeirri sem verið hefur ríkjandi í sumar. Þýðir það að rigningum sé lokið um landið sunnanvert? Nei - ekki endilega - en úrkoman á að koma úr annarri átt. Kannski að sólin brjótist fram dag og dag. 

Við lítum fyrst á meðalhæð 500 hPa-flatarins síðustu tíu daga - í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar og Bolla Pálmasonar spákortagerðarmeistara Veðurstofunnar. 

w-blogg260714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - en hafa ber í huga að þær eru hér teiknaðar með minna bili en á þeim kortum sem að jafnaði sjást á hungurdiskum vindur sýnist því sterkari en hann er. Litafletir sýna vik frá meðallagi áranna 1981-2010.

Jákvæða risavikið yfir Skandinavíu hefur setið þar nær allan júlímánuð fram til þessa og sömuleiðis var það ríkjandi langtímum saman í júní (þá þó með hléi - þegar veðurlag var öðru vísi). Neikvætt vik hefur verið yfir Íslandi og nú síðustu tíu dagana fyrir suðvestan land. Vikin hafa saman aukið mjög á sunnanáttina frá því sem venjulegt er. Auk þessa hefur lægðabeygja verið ríkjandi.

Nú er hins vegar að sjá að breyting verði á. Kortið hér að neðan sýnir meðalástand næstu tíu daga - eins og evrópureiknimiðstöðin sér það fyrir sér. Meðan að frekar auðvelt er að túlka vikakort fortíðar (við vitum jú hvernig veðrið var) eru framtíðarkort mun erfiðari viðfangs. Við vitum nefnilega ekki hversu stöðug framtíðarstaðan er - hún gæti t.d. verið einhver samsuða úr tvenns konar veðurlagi sem þó er ólíkt því sem meðalkortið viriðist sýna. Stærð vikanna getur þó gefið vísbendingar um festu veðurlagsins. En lítum á spákortið.

w-blogg260714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er mikið jákvætt vik suður af Grænlandi - hlýtt loft frá Ameríku? Örin sýnir meðalstefnu þrýstivindsins næstu tíu daga, fram til 4. ágúst. Hann hefur nú snúist til vestnorðvesturs - í stefnu frá Grænlandi. Þetta er auðvitað mun þurrkvænni átt heldur en sunnanáttin. - En, því miður, er enn mikil lægðarbeygja áberandi. Það hlýtur að þýða að lægðir eða þrálátar síðdegisskúrir - nú, eða hvort tveggja komi mikið við sögu. Við ættum þó að sjá eitthvað til sólar.

Enn lengri spár evrópureiknimiðstöðvarinnar - fram yfir miðjan ágúst gera nú ráð fyrir að aftur gangi í suðaustan- eða sunnanáttarfestu - ef það gerist er vonandi að lægðabeygjan minnki. 


Kuldapollurinn við norðurskautið

Að sumarlagi eru oftast einhverjir kuldapollar að sveima yfir Norðuríshafi. Sá sem var þar í fyrra var bæði óvenjuöflugur og óvenjuþrálátur - og sumarið þar áður bjó sá sem þá var á ferðinni til óvenjudjúpa lægð snemma í ágúst sem ýtti undir sérlega mikla hafísbráðnun næstu vikur á eftir. 

Tíðindalítið hefur verið yfir Norðuríshafinu í sumar - en í gær (miðvikudaginn 23. júlí) og fyrradag skerptist þónokkuð á kuldanum (hvað sem veldur) og verður kalt á stóru svæði næstu daga - og dregur úr ísbráðnun á því svæði sem kuldans gætir. 

Þetta abbast svosem ekki beinlínis upp á okkur - því er ekki spáð í dag að kuldans gæti hér á landi - en þessar hræringar ýfa upp bylgjumynstrið alveg frá nyrstu héruðum Kanada í vestri og langt austur eftir Síberíu. Hugsanlega losar það um lægðasvæðið þráláta sem hékk yfir okkur allan fyrri hluta mánaðarins og hefur síðan þá legið við stjóra fyrir suðvestan land. 

Við lítum á háloftakort sem sýnir ástandið eins og evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir því að það verði um hádegi á laugardag (26. júlí).

w-blogg250714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar en þykkt er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hver litur nær yfir 60 metra bil og eru mörkin á milli gulra og grænna lita við 5460 metra. Við viljum helst vera gula megin garðs. Mörkin á milli bláu og grænu litanna er 180 metrum neðar, við 5280 metra.

Á kortinu þekur blái liturinn allstórt svæði undan Norðaustur-Grænlandi og norður af Svalbarða. Minnsta þykkt sem vitað er um yfir Keflavíkurflugvelli í júlí er 5291 m. Hún mældist 24. júlí 2009. Þá varð mikið og eftirminnilegt tjón í kartöflugörðum vegna næturfrosta. Það er alveg ljóst að við viljum ekki sjá svona nokkuð - helst ekkert undir 5400 í júlí. 

En á kortinu er engin lægð við Ísland - bara lægðardrag og vindurinn í háloftunum orðin vestlægur. Vestanátt í háloftunum að sumarlagi er svosem ekkert sérstakt fagnaðarefni - lægðir sem ganga úr vestri til austurs í nágrenni við landið eru blautar - rétt eins og þær sem beina til okkar vindi úr suðri. En þessi staða er samt sem áður sú líklegasta um langa hríð til breytinga. Þær gætu hins vegar tekið nokkra daga. 

Spárunan frá hádegi í dag (kortið er úr henni) segir hæðarhrygginn yfir Skandinavíu brotna niður í framhaldi af þessu en nýr hryggur myndist austar, í sæti lægðarinnar sem hefur setið yfir Vestur-Síberíu meira eða minna mestallan mánuðinn - einu bylgjusæti austan við festuna hjá okkur.

Þetta kemur betur í ljós þegar fyrsta lægð nýju lægðabrautarinnar kemur til landsins á aðfaranótt mánudags. Rigna á úr henni um mestallt land. En svo gæti reyndar allt hrokkið í sama far og áður.  


Úrkoma í Reykjavík og í Bláfjöllum það sem af er júlí

Eins og fram hefur komið á fjasbókarsíðu hungurdiska hefur úrkoma mælst yfir 500 mm í Bláfjöllum það sem af er mánuði. Athuganirnar eru trúverðugar og úrkoman er meiri heldur en mælst hefur á nokkurri íslenskri veðurstöð í júlí. Hins vegar eru nokkur ár eru í að samanburður á milli mannaðra og sjálfvirkra úrkomumælinga verði það langt kominn að hægt verði að afhenda Bláfjöllum metið og e.t.v. er einfaldlega réttast að vera með tvo metalista annan fyrir sjálfvirkar en hinn fyrir mannaðar stöðvar. 

En hér að neðan er línurit sem sýnir uppsafnaða úrkomu í Bláfjöllum í júlí - og einnig við Veðurstofuna til samanburðar. 

w-blogg240714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti kvarðinn sýnir úrkomumagn í mm en sá lárétti daga júlímánaðar. Tala er sett í upphafi dags og 2 dagar eru í hverju bili. Ráða má úrkomuákefð af halla ferlanna (Bláfjöll grár ferill, Reykjavík rauður). Ferill Reykjavíkur virðist harla veigalítill miðað við Bláfjallaferilinn, enda hefur 7 sinnum meiri úrkoma mælst í Bláfjöllum heldur en við Veðurstofuna. 

Úrkomuákefðin var mest í Bláfjöllum aðfaranótt 11. júlí, en þá féllu 14,7 mm/klst þegar mest var. Þurrar klukkustundir í Bláfjöllum hafa verið 234 það sem af er eða 42 prósent mælitímans. Þurrar klukkustundir við Veðurstofuna eru hins vegar hátt í helmingi fleiri og hefur verið þurrt 77 prósent tímans. 

Á seinni myndinni fær Reykjavík sinn kvarða - og verður ferillinn við það líkur Bláfjallaferlinum á fyrri myndinni - meginúrkomuhryðjurnar ganga yfir á svipuðum tíma á stöðvunum báðum. 

w-blogg240714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mesta klukkustundarákefðin í Reykjavik mældist 3,8 mm, síðar sama dag og ákefðin var mest í Bláfjöllum. Þótt þurru klukkustundirnar séu 423 er greinilegt að þær mynda ekki miklar samfellur - það er helst í kringum þann 5. og þann 21. að við sjáum einhverja flatneskju. 

Það hefur verið vitað mjög lengi að úrkoma i Bláfjöllum er miklu meiri heldur en í Reykjavík. Þetta kemur fram bæði í mælingum og í háupplausnarspálíkönum. Í dag (fimmtudaginn 24. júlí) spáir harmonie-spálíkanið t.d. um 50 mm úrkomu næstu tvo sólarhringa í Bláfjöllum, en á sama tíma innan við 10 mm í Reykjavík.


Fyrirferðarlítil en lúmsk regnsvæði

Lægðin fyrir suðvestan land grynnist og þokast norður - eins og gert var ráð fyrir. Engin eiginleg skilakerfi fylgja lægðinni. Meðan ritstjórinn var þjáður af skilafíkn hér á árum áður hefði hann samt, hiklaust, sett einhverjar litaðar línur á greiningar- og spákort dagsins. En hvaða liti á að nota? Ekki gott að segja. 

En á spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 21 á miðvikudagskvöld eru nokkur regnsvæði - eða eigum við að kalla þau skúragarða?

w-blogg230714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, vindur og átt eru sýnd með hefðbundnum vindörvum og úrkomuákefð sýnd með litum, grænum og bláum. Kvarðinn batnar sé myndin stækkuð. Svo má einnig ef vel er að gáð sjá jafnhitalínur 850 hPa-flatarins - strikaðar með 5 stiga bili, +10-stiga óskalínan er öll nokkuð fyrir austan land. Hún er það oftast. 

Inni í úrkomusvæðunum má sums staðar sjá litla þríhyrninga. Þar segir líkanið að úrkoman sé klakkakyns - megnið af úrkomunni fyrir suðvestan land er þannig gerð. Þess er að vænta að hún falli í áköfum dembum - svo er minni úrkoma þess á milli. Úrkomusvæðin fyrir suðaustan landið eru hvort um sig tvískipt. Syðri hlutar þeirra eru þaktir þríhyrningum - en þeir nyrðri eru lausir við þá. Þar segir líkanið að úrkoman sé breiðukyns - regnþykkni þar sem úrkoma fellur nokkurn veginn jafnt og þétt.

Yfir landinu suðvestan- og vestanverðu eru litlir úrkomubleðlar þaktir þríhyrningum. Þetta er væntanlega úrkoma sem verður til þegar óstöðugt og rakt loft rekst á fjallgarða svæðisins. 

Að sögn reiknimiðstöðvarinnar eiga úrkomusvæðin fyrir suðaustan landið að renna að mestu framhjá - þó ekki alveg. Það sem er suðvestan við land á hins vegar að koma inn á landið aðfaranótt fimmtudags - eða á fimmtudagsmorgunn. Að rekast á landið æsir það frekar upp.

Úrkomuákefðin er mest í bláa litnum, 5 til 10 mm á 3 klst. Tveir mm/klst eru mígandi rigning - það finnst að minnsta kosti flestum. Þetta aumingjalega regnsvæði getur því skilað drjúgmiklu. En spár eru eins og þær eru. 


Reykjavíkursumarúrkoma nálgast met

Þegar þetta er skrifað (mánudagskvöldið 21. júlí) hefur úrkoma í Reykjavík það sem af er júlí mælst 76,4 mm. Mesta úrkoma sem vitað er um í júlí mældist 126,9 mm. Það var 1885. Litlu minna mældist í júlí 1926 117,6 mm. Eins og málin standa nú er heldur á móti líkum að núverandi júlímánuði takist að komast upp fyrir þessa fyrri bleytu. 

Aftur á móti var júní sérlega úrkomusamur, sá næstblautasti sem vitað er um. Nú er ljóst að þessir tveir mánuðir saman eru komnir upp fyrir öll önnur júní- og júlípör - nema eitt, 192,2 mm hafa nú mælst síðan 1. júní. Júní og júlí 1899 skiluðu samtals 211,9 mm - það er metið. Nú vantar aðeins tæplega 20 mm upp á að það náist. Það getur varla talist ólíklegt að 20 mm skili sér fyrir mánaðamótin - en auðvitað er það engan veginn víst.

Við skulum líta á línurit sem sýnir samanlagða úrkomu í júní og júlí frá upphafi mælinga 1885.

w-blogg220714i

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti ásinn sýnir úrkomumagn, en sá lárétti markar árin. Hafa verður í huga að á árunum 1908 til 1919 voru engar úrkomumælingar í Reykjavík - en aftur á móti var mælt á Vífilsstöðum. Þótt þær athuganir séu að sumu leyti ótrúverðugar látum við þær fylla upp í eyðuna eins og hægt er.

Hér sést glöggt hversu afbrigðilegir núlíðandi sumarmánuðir eru í langtímasamhenginu. Auk 1899 stinga 1923 og 1984 sér upp fyrir 180 mm.

Svo sjáum við líka hversu óvenjuleg sumrin sex, 2007 til 2012 eru í langtímasamhenginu. Úrkoman í júní og júlí var þá sérlega lítil - örfá ár eru samkeppnisfær - en aldrei neinir áraklasar í líkingu við þessa sex ára röð. - Kannski ekki að furða að raddir heyrðust um að veðurfar í Reykjavík hefði breyst endanlega til batnaðar. En - .

Þótt sagan segi okkur að líklegt sé að rigningatíð haldi áfram í ágúst er samt alls ekki hægt að ganga að því vísu. Sumrin 1899 og 1984 var engin miskunn í ágúst. Júní, júlí og ágúst þessi ár skiluðu yfir 300 mm alls, en ágúst 1923 var hins vegar í þurrara lagi. Annars eru kröfur um þurrk orðnar svo miklar að ágúst má verða í þurrasta lagi til að ekki verði kvartað undan úrkomunni hver sem hún verður. 

Lauslega er fylgst með stöðu hita- og úrkomumála á fjasbókarsíðu hungurdiska:

https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/


Róleg og tíðindalítil staða

Eftir góðan sunnudag á Suður- og Vesturlandi er spurt um næsta regnsvæði. Það er vissulega ekki langt undan og nægilega öflugt til að spilla frekari þurrki en er samt öllu veigaminna heldur en flest þau sem við höfum fengið yfir okkur að undanförnu. 

Á korti úr hirlam-spánni sem gildir kl. 21 á mánudagskvöld sjáum við það sem grænt belti suður af landinu.

w-blogg210714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ekki er nú samt víst að þurrt verði þennan mánudag sunnanlands - en við erum ekkert að smjatta á því hér - beinið hlustum ykkar að Veðurstofunni.

En við sjáum grunna sumarlægð suðvestur í hafi. Í þurrkasumrunum hér fyrir nokkrum árum hefði mátt ganga út frá því sem vísu að lægðin þokaðist til suðausturs - frá okkur. Nú er annað uppi - auðvitað fer hún beint til norðurs næstu daga. Þótt hún grynnist er hún vel grunduð af öflugri háloftalægð sem á að halda okkur við efnið: Óstöðugt loft, lægðarbeygju og tilheyrandi skúradembur. Það veðurlag á að endast alla vinnuvikuna - en hvort djúp lægð með enn meiri rigningu plagar okkur svo um næstu helgi vitum við ekki enn með vissu. 

Norðaustanlands verður úrkomuminna - og sennilega besta veður alla dagana - sé rétt reiknað.  


Óvenju rakur júnímánuður

Júnímánuður var rakur á landinu - hér er ekki verið að tala um rigninguna og heldur ekki rakastig - heldur daggarmark og rakaþrýsting sem mæla hversu mikil vatnsgufa er í lofti. Meðalrakaþrýstingur og daggarmark hafa ekki mælst hærri í júní en í þeim nýliðna. 

Almennt er mikil fylgni á milli daggarmarks og hita - það þarf því ekki að koma svo á óvart að daggarmark hafi verið hátt í hlýindunum í júní. Það kom hins vegar nokkuð á óvart að það skyldi vera mun hærra en áður hefur verið á þeim tíma sem auðaðgengilegar mælingar ná til.

Hér horfum við aðeins á myndir sem byggjast á mælingum í Reykjavík, en ástandið var svipað fyrir norðan. Meðaldaggarmark (og rakaþrýstingur) var þar líka hærra en verið hefur á tímabilinu. Raunar er það svo að í júní er mun meiri fylgni á milli daggarmarks í Reykjavík og á Akureyri [r=0,84] heldur en hitans á sömu stöðum [r=0,49]. Daggarmarkið merkir loftið betur heldur en hitinn og er tregara til breytinga. [r er fylgnistuðull - því nær sem hann er 1,0 því meiri er fylgnin]

Daggarmarki verður ekki breytt nema með rakaíbætingu (uppgufun frá vatnsfleti eða úrkomu - sem hækkar daggarmarkið) eða þéttingu raka (sem lækkar það). Daggarmark getur aldrei orðið hærra heldur en hitinn. Séu hiti og daggarmark jöfn er loftið mettað.

w-blogg180714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti kvarðinn sýnir daggarmark (°C) en sá lárétti tímann, frá 1949 til 2014. Daggarmarkið í júní 2014 er um 0,7 stigum hærra en það sem hæst hefur áður orðið. Næsthæst var það 2010 - en júní það ár var sá hlýjasti á öllu tímabilinu. Lægst var meðaldaggarmarkið í hinum kalda júní 1952 og síðan í júní 2011 sem var sérlega kaldur fyrir norðan. 

Þar sem daggarmarkið er eins og áður sagði alltaf lægra en hitinn eða jafnt honum getur það ekki orðið methátt nema í mjög hlýjum mánuðum. Öðru gegnir um rakastig - rakastig getur verið mjög hátt þótt mjög kalt sé í veðri og lágt í hlýju. Rakastigið mælir ekki magn raka í lofti - heldur eingöngu þurrk - hversu líklegt vatn í fljótandi formi er til þess að gufa upp. Það „sýnir“ mun á hita og daggarmarki [daggarmarksbælingu]. 

Sérstaða nýliðins júnímánaðar kemur vel fram á síðara línuriti dagsins.

w-blogg180714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá meðalhita (láréttur ás) og meðaldaggarmark (lóðréttur) í júní í Reykjavík (tímabilið 1949 til 2014). Þarna er júní 2014 langt ofan við alla aðra á daggarmarkskvarðanum - en meðalhitinn í júní 2010 er hæstur. Sé farið í smáatriði myndarinnar (hún skánar við stækkun) má taka eftir að ártölin sem byrja á 20 raða sér flest hver lengst til hægri í punktadreifinni. 

Júní 2011 og 1952 eru langt neðan dreifarinnar, 2011 er þó langt í frá í hópi þeirra köldustu í Reykjavík. Það var bara svona óskaplega þurrt. Júní 1952 er nær köldustu árunum - en er mun þurrari en þau öll. Uppruni loftsins í þessum tveimur þurru júnímánuðum virðist hafa verið annar en gengur og gerist.  

Meðaldaggarmark í Reykjavík, það sem af er júlí (til og með 19.), er ekki nálægt meti - það hefur ekki verið nógu hlýtt.  


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 120
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 955
  • Frá upphafi: 2420770

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 843
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband