Fyrirferðarlítil en lúmsk regnsvæði

Lægðin fyrir suðvestan land grynnist og þokast norður - eins og gert var ráð fyrir. Engin eiginleg skilakerfi fylgja lægðinni. Meðan ritstjórinn var þjáður af skilafíkn hér á árum áður hefði hann samt, hiklaust, sett einhverjar litaðar línur á greiningar- og spákort dagsins. En hvaða liti á að nota? Ekki gott að segja. 

En á spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 21 á miðvikudagskvöld eru nokkur regnsvæði - eða eigum við að kalla þau skúragarða?

w-blogg230714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, vindur og átt eru sýnd með hefðbundnum vindörvum og úrkomuákefð sýnd með litum, grænum og bláum. Kvarðinn batnar sé myndin stækkuð. Svo má einnig ef vel er að gáð sjá jafnhitalínur 850 hPa-flatarins - strikaðar með 5 stiga bili, +10-stiga óskalínan er öll nokkuð fyrir austan land. Hún er það oftast. 

Inni í úrkomusvæðunum má sums staðar sjá litla þríhyrninga. Þar segir líkanið að úrkoman sé klakkakyns - megnið af úrkomunni fyrir suðvestan land er þannig gerð. Þess er að vænta að hún falli í áköfum dembum - svo er minni úrkoma þess á milli. Úrkomusvæðin fyrir suðaustan landið eru hvort um sig tvískipt. Syðri hlutar þeirra eru þaktir þríhyrningum - en þeir nyrðri eru lausir við þá. Þar segir líkanið að úrkoman sé breiðukyns - regnþykkni þar sem úrkoma fellur nokkurn veginn jafnt og þétt.

Yfir landinu suðvestan- og vestanverðu eru litlir úrkomubleðlar þaktir þríhyrningum. Þetta er væntanlega úrkoma sem verður til þegar óstöðugt og rakt loft rekst á fjallgarða svæðisins. 

Að sögn reiknimiðstöðvarinnar eiga úrkomusvæðin fyrir suðaustan landið að renna að mestu framhjá - þó ekki alveg. Það sem er suðvestan við land á hins vegar að koma inn á landið aðfaranótt fimmtudags - eða á fimmtudagsmorgunn. Að rekast á landið æsir það frekar upp.

Úrkomuákefðin er mest í bláa litnum, 5 til 10 mm á 3 klst. Tveir mm/klst eru mígandi rigning - það finnst að minnsta kosti flestum. Þetta aumingjalega regnsvæði getur því skilað drjúgmiklu. En spár eru eins og þær eru. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d
  • w-blogg081124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.11.): 225
  • Sl. sólarhring: 473
  • Sl. viku: 1714
  • Frá upphafi: 2409145

Annað

  • Innlit í dag: 209
  • Innlit sl. viku: 1536
  • Gestir í dag: 208
  • IP-tölur í dag: 203

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband