Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Gæftaleysi og meðalvindhraði vetrarins (það sem af er)

Ekki er gott að segja hvernig veturinn skorar á illviðrakvarðanum þegar allt hefur verið gert upp, en þegar er ljóst að meðalvindhraði hefur verið með hæsta móti á landinu. Þeir sem sækja til sjávarins virðast sammála um óvenjulegt gæftaleysi og sömuleiðis er þreytuhljóð að heyra víða úr sveitum - þar sem austan- og norðaustanbelgingurinn hefur verið að gera mönnum lífið leitt. Það eru margar hliðar á veðrinu.

En meðalvindhraðatölur eru háar. Þegar tekin eru meðaltöl yfir stór landsvæði og marga mánuði segja tölurnar einar og sér ekki svo mikið - við verðum að kvarða þær í mikið og lítið, hyggja að hæstu og lægstu gildum.

w-blogg130314 

Á myndinni má sjá þrjár tilraunir til vindmetings meðaltals desember, janúar og febrúar frá 1950 til 2014. Það er desember árið áður (1949) sem telst með 1950 og svo framvegis. Lóðrétti ásinn sýnir metra á sekúndu, en sá lárétti árin.

Gráu súlurnar sýna meðalvindhraða allra mannaðra stöðva. Ekki er víst að það úrval sé sambærilegt allan tímann - en látum gott heita. Þarna má sjá að 2014 skýst hærra upp heldur en öll önnur ár allt aftur til 1993 og í allri röðinni eru aðeins fjögur tilvik þar sem vindhraði er meiri en nú. Það er 1975, 1989, 1992 og 1993 (hæst) - og svo er 1991 jafnhvasst og nú.

Rauði ferillinn sýnir reiknaðan þrýstivind á Íslandssvæðinu, sunnan frá 60 gráðum til 70 gráða norðurbreiddar og milli 10 og 30 gráða vesturlengdar. Til reikningsins eru notuð gögn frá evrópureiknimiðstöðinni og amerísku endurgreiningunni. Taka verður skýrt fram að líkönin eru ekki sambærileg allan tímann og samanburður óviss. En við ímyndum okkur samt að hér sé um góða vísbendingu að ræða. Hér lendir 2014 á toppnum og síðan (í röð að ofan) 1957, 1994, 1996 og 2002. Þótt óvissan sé talsverð - er 2014 þrátt fyrir allt á toppnum.

Græni ferillinn er styttri en hinir og nær aðeins aftur til 1995. Á bakvið hann er meðalvindhraði á sjálfvirkum útnesjastöðvum. Við reynum að teygja okkur út á miðin umhverfis landið. Hér er 2014 líka á toppnum, ómarktækt ofan við 2002 og 1999.

Vindurinn hefur mikið belgt sig í vetur. Ekki er ótrúlegt að við þurfum að fara að minnsta kosti 20 ár aftur í tímann til að finna ámóta - og það voru verstu árin frá 1950.

Mars, það sem af er, lækkar meðaltölin lítillega. Taka varð færslu gærdagsins út af sömu ástæðu og venjulega - enda lesa nær engir færslur sem eru eldri en sólarhringur hvort eð er.


Nýtt landsdægurhámark (ekki svo merkilegt það)

Um leið og háloftavindar snúast til suðlægra og jafnvel vestlægra átta að vetrarlagi aukast mjög líkur á háum landshámarkshita. Síðastliðna nótt (aðfaranótt þriðjudags) fór hiti á Dalatanga í 15,6 stig og er það hæsti hiti sem vitað er um á landinu þann 11. mars. Gamla metið (14,5 stig) var sett á Akureyri árið 1953 - fyrir 61 ári. Þetta er fyrsta nýja landsdægurhámarkið á þessu ári - hins vegar eru ný landsdægurlágmörk orðin tvö það sem af.

Í venjulegu ári má búast við 3 til 5 landsdægurmet af hvorri tegund falli - en nýjum metin eru þó í raun mjög mismörg frá ári til árs. Á síðustu 15 árum hafa 132 landsdægurhámörk fallið - 8,8 á ári - talsvert umfram væntingar. Á sama tíma hafa aðeins 62 landsdægurlágmörk falið - sé eingöngu miðað við athuganir í byggð - rétt um helmingur á við hámörkin, 4,1 á ári. Frá 1993 fjölgaði stöðvum mjög á hálendinu og hafa þær stöðvar smám saman verið að hreinsa upp landsdægurmet. Séu hálendisstöðvarnar teknar með í lágmarksdægurmetatalningunni reynast 108 slík met hafa fallið á síðustu 15 árum, eða 7,2 á ári. Í tölunum er ekki talið með þegar met fellur hvað eftir annað sama almanaksdaginn.

Munurinn á 8,8 hámarksmetum og 4,1 lágmarksmetum á ári skýrist af tvennu. Annars vegar hafa mikil hlýindi verið ríkjandi hér á landi - en það hefur líka áhrif að hámarkshitamælingar voru framan af gerðar á mun færri stöðvum heldur en lágmarksmælingarnar. Það eitt og sér eykur líkur á hámarksmetum lítillega umfram lágmarksmetin.

Nú sitja eftir aðeins 5 landsdægurhámarksmet frá 19. öld (enn gætu fáein í viðbót leynst í gögnum), en 24 landsdægurlágmarksmet standa enn frá sama tíma.

Eins og oft hefur komið fram segja einstök landsdægurmet ekkert um það hvort tíðarfar er kalt eða hlýtt. Þess má t.d. geta að enn stendur eitt landsdægurhámark sem sett var í mars 1918 - seint á frostavetrinum mikla [Seyðisfjörður 14,7 stig þann 17.

Það verður að teljast tilviljun að 133 hámarksdægurmet hafa fallið síðustu 15 árin í Reykjavík - nánast það sama og á landinu í heild. En ekki hafa fallið nema 8 lágmarksdægurmet á sama tíma. Hér er vart um aðrar skýringar að ræða heldur en hlýnandi veðurfar.

Í Reykjavík stendur enn 21 dægurhámark frá 19. öld, en hvorki meira né minna en 179 dægurlágmörk.

Á Akureyri eiga síðustu 15 árin 101 hámarksdægurmet - en dægurlágmarksmetin eru á sama tíma aðeins 8 eins og í Reykjavík. Hámarksmælingar voru stopular á Akureyri fyrir 1935 en samt sitja enn 8 dægurhámörk frá 19. öld á stóli. Dægurlágmörk sem enn lifa frá sama tíma eru 52 á Akureyri - væru trúlega fleiri ef stöðin hefði ekki naumlega misst af frostavetrinum mikla 1880 til 1881 en frá þeim vetri lifa enn 36 dægurlágmörk í Reykjavík.

 


Nógu slæmt - en sleppum samt við það versta

Mikið illviðri gekk í dag (mánudag 10. mars) yfir landið vestan- og norðanvert, fyrst af suðaustri og suðri en síðan suðvestri og jafnvel vestri. Tíu-mínútna meðalvindhraði fór í 40 m/s á veðurstöðinni Kolku nærri Blöndulóni og á fáeinum stöðvum öðrum yfir 32 m/s. Mestu hviður voru yfir 50 m/s. Bráðabirgðatalning sýnir að stormur var á meir en 30% veðurstöðva.

Þegar þetta er skrifað (seint á mánudagskvöldi) hefur veðrið enn varla náð hámarki á Ströndum og á stöku stað við norðurströndina - en vonandi fer þar ekki illa.

Lægðin sem veldur veðrinu grynnist ört og treðst milli Vestfjarða og Grænlands. Hún varð ekki alveg jafndjúp og snörp og reikningar bentu til um tíma auk þess sem hún fór aðeins vestar en áður hafði verið gert ráð fyrir. Við sluppum þar með sennilega við allra versta veðrið. 

w-blogg110314a 

Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir kl. 6 að morgni þriðjudags 11. mars. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, þykkt er mörkuð með strikalínum en þriggja stunda þrýstibreyting með litum. Loftvog stígur svo ört milli Vestfjarða og Grænlands að kvarðinn springur, í hvíta blettinum stígur þrýstingur mest 21 hPa á þremur klukkustundum. Jafnþrýstilínurnar liggja nærri því hver ofan í annarri - og engin fjöll að plata. Við viljum ekki fá yfir okkur lægðarbakhlið af þessu tagi.

Við sjáum að það er 5280 metra jafnþykktarlínan sem liggur um Faxaflóa - þannig að ekki fylgir kuldi sem heitið getur. Næsta lægð virðist ekki vera í fasa við háloftabylgjuna sem ætti að gefa henni fóður - en eitthvað samsull verður samt úr annað kvöld (þriðjudag) en vonandi ekki hvasst.


Éljagarður

Síðdegis í dag (sunnudag 9. mars) gekk nokkuð snarpur éljagarður inn á Reykjanesskaga og hélt síðan áfram til norðurs - en af mjög minnkandi afli. Éljagarðar sem þessir voru á árum áður sérlega hættulegir á vetrarvertíð á Suðvesturlandi þegar hann rauk allt í einu upp af vestri úr hægri landátt þegar fjöldi smábáta var á sjó.  

Garðurinn sem gekk yfir í dag var hins vegar búinn að vera inni í veðurspám í marga daga - aðeins var spurning um hversu snarpur hann yrði og hversu lengi hann varði. Við skulum líta á vindhraðarit frá Keflavíkurflugvelli (af vef Veðurstofunnar).

w-blogg100314a 

Vindur var mjög hægur, síðast af suðsuðaustri, allt þar til skömmu eftir kl. 16 að hann rauk á nokkrum mínútum upp í vestsuðvestan 17 m/s og hviður fóru yfir 20 m/s. Hiti breyttist lítið og ekkert sérstakt var að sjá á loftþrýstiriti. Ritstjórinn fylgdist lítt með skýjafari í dag - var þar að auki ekki á Reykjanesi - en ábyggilega hefur þurft glöggt auga til að sjá hvað í vændum var.

En tölvuspár sáu garðinn vel - sem dæmi er hér spá harmonie-líkansins kl. 20 - en þá var garðurinn kominn upp á Akranes og vind sunnan við hann tekinn að lægja.

Á þversniðum sást að hringrás garðsins náði að minnsta kosti 3 km hæð - en raki barst ofar.

w-blogg100314b 

 


Staða meðaltala eftir átta daga af mars

Mars fer frekar hlýindalega af stað - þótt skakviðri fylgi. Lítum á meðaltöl fyrstu átta dagana.

Fyrst eru vik miðuð við 1961 til 1990:

stöðármándagarmhitivikúrkvikmþrýstþrýstivik  
12014381,270,7-3,3983,5-17,1 Reykjavík
1782014380,531,2-6,9984,4-19,4 Stykkishólmur
4222014381,022,112,1985,8-16,7 Akureyri
6202014382,782,437,6985,3-17,4 Dalatangi
7052014382,922,022,2985,0-16,4 Höfn í Hornafirði

Og síðan 2004 til 2013:

stöðármándagarmhitivikúrkvikmþrýstþrýstivik  
12014381,27-0,1-5,8983,5-19,0 Reykjavík
1782014380,53-0,3-10,7984,4-18,0 Stykkishólmur
2522014380,150,2-11,5986,3-16,6 Bolungarvík
4222014381,020,710,2985,8-18,0 Akureyri
6202014382,781,341,8985,3-19,0 Dalatangi
7052014382,921,315,8985,0-14,9 Höfn í Hornafirði

Hiti er vel ofan meðallagsins 1961 til 1990, en í því miðað við 2004 til 2013 um landið vestanvert, fyrir norðan og austan er hiti vel ofan beggja meðaltala.

Úrkoma er enn undir meðallagi um landið vestanvert, vikadálkurinn sýnir hversu langt magnið (í mm) liggur undir eða ofan meðallagsins. Fyrir norðan og austan er úrkoma enn ofan meðallags beggja tímabila. Þetta gæti breyst næstu daga því mikilli úrkomu er spáð um landið vestanvert og neikvæða vikið vinnst fljótt upp.

Þrýstingur er enn langt undir meðallagi beggja tímabila, en ef trúa má spám hækkar hann eitthvað næstu viku til tíu daga - þrátt fyrir mikinn lægðagang - svo einkennilega sem það kann að hljóma.

Mánudagslægðin er enn nokkuð ógnandi en von er til þess að versta veðrið fari vestan við land.

Tryggir lesendur taka eftir því að færsla gærdagsins hefur verið fjarlægð - af sömu ástæðu og venjulega.


Mikill lægðagangur

Nú skiptir yfir í nokkuð grófgerðan lægðagang hér við land. Á morgun (laugardag) fer mjög djúp lægð til norðausturs yfir landið suðaustanvert og veldur víða leiðindaveðri. Þó hún verði farin að grynnast og miðja hennar að fletjast út er engu að síður mjög hvasst á stóru svæði í kringum hana, sérstaklega á suðaustur- og norðvesturjöðrum kerfisins. Trúlega verður mikil hríð víða á heiðum og e.t.v. víðar um tíma - og rétt fyrir ferðamenn og aðra sem eitthvað eiga undir veðri að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar.

w-blogg080314 

Þetta er gervihnattarmynd af innrauðu sviði rafsegulrófsins - á henni er hlutum snúið þannig að hvítt er kalt en því dekkra sem svæði er því hlýrra er það. Sjá má tillögu að hitakvarða neðst á myndinni - hann ætti að batna eitthvað við stækkun. Það hvítasta og kaldasta eru háreist ský, mikill blikuskjöldur norðan og austan við lægðarmiðjuna en hana er að finna nærri miðju sveipsins neðarlega á myndinni. Myndin er frá því kl. 1 á aðfaranótt laugardags.

Þótt lægðin sé hraðfara verður landið ekki alveg laust við hana fyrr en á aðfaranótt mánudags en þá nálgast næsta lægð. Að sögn reiknimiðstöðva á hún að fara vestar og valda mikilli - en skammvinnri -rigningu um landið sunnan og vestanvert. Ef marka má sömu spár á hún að grynnast á leiðinlega veginn - sem kostar skammvinnt en hart suðvestan- eða vestanskot. Vonandi lendir það vestan við land - að mestu - ef af verður - ef-ef-ef.


Meðalþrýstingur metlágur hér á landi

Meðalsjávarmalsþrýstingur í desember, janúar og febrúar hefur aldrei verið jafnlágur í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1823. Þessa þrjá mánuði höfum við hér á hungurdiskum kallað alþjóðaveturinn, þann tíma sem alþjóðlega telst til vetrarins, en hér á landi telst mars einnig með.

Reyndar munar aðeins sjónarmun á tölunum nú og alþjóðaveturinn 1989 til 1990 - en samt. Þann vetur var líka óvenjuhlýtt í Evrópu norðanverðri - rétt eins og nú. Lítum nú á línurit sem sýnir meðaltölin allt frá 1823 til 2014.

w-blogg070314

Lárétti ásinn sýnir árin - en sá lóðrétti meðalsjávarmálsþrýsting í hPa. Enga sérstaka leitni er að sjá en talsverða tímabilaskiptingu. Stutt er síðan þrýstingur alþjóðavetrarins var mjög hár (2010).

Já, veðrakerfi hafa hegðað sér óvenjulega í vetur. Þrýstingur fyrstu dagana í mars hefur haldið áfram að vera óvenjulágur - en þó er ekki endilega víst að þrýstingur í desember til mars nái nýju meti. Samkeppnin er hörð á botninum, bæði við áðurnefndan vetur 1989 til 1990, en einnig 1988 til 1989 og síðan er 1893 til 1894 ekki langt undan.

En svona er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu tíu daga, frá hádegi 6. mars til hádegis þann 16.

w-blogg070314b 

Þrýstingi er spáð langt undir meðallagi hér á landi þess daga (talan -13,6 sést yfir landinu sé kortið stækkað) en að sama skapi háum yfir meginlandinu. - Svo kemur hér ein löng setningasambreyskja:

Þótt ekki sé vitað hvort aukin gróðurhúsaáhrif ýti undir þessa afbrigðilegu hegðan veðrakerfa í vetur eða ekki má samt segja að þetta afbrigðilega þrýstifar, og einkennilegt háloftamynstur, sem veldur því, fer, eitt og sér, langt með að skýra hita- og úrkomuvik bæði hér við norðanvert Atlantshaf sem og  í Bandaríkjunum, Kanada og Alaska.


Suðvestanátt í þrjá daga (hvað svo?)

Í dag (miðvikudaginn 5. mars) fór meðalvindátt á landinu loks vestur fyrir suður og hinni hreinu austanáttarsyrpu því lokið. Líklega verður meðalátt líka úr suðvestri eða vestri á morgun, fimmtudag, og sömuleiðis á föstudaginn. Þann dag verður kröpp lægð suður í hafi sem spurning er hvað gerir.

Eins og er gera spár ráð fyrir því að hún fari til norðausturs við Suðausturland á laugardaginn. Fyrir utan braut lægðarinnar er nokkur óvissa með úrkomutegund - það er að segja hvar rignir og hvar snjóar. Rétt að fylgjast með spám Veðurstofunnar varðandi slíkt - sem og auðvitað vindhraða.

En við bregðum upp spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á föstudag.

w-blogg060314a 

Stóra lægðin er þarna um 963 hPa í miðju, dýpkar ört og hreyfist hratt til norðnorðausturs. Hún skefur upp dálítinn hæðarhrygg á undan sér - eins og hver önnur jarðýta og þá herðir tímabundið talsvert á suðvestanáttinni norðan við hrygginn þegar hann aftur stuggar við lægðinni vestan við land. Þessu fylgir eitthvað leiðindaéljakóf um landið vestanvert. - En svo slaknar á áður en djúpa lægðin tekur völdin.

Í framhaldi af hlýindafréttunum frá Svalbarða sem voru hér upp á borðinu í gær má geta þess að einnig var mjög hlýtt á Norðaustur-Grænlandi, hiti var 6,9 stigum ofan meðallags við Scoresbysund og 5,6 stig ofan þess á Station Nord. Einnig var óvenjuhlýtt í Syðri-Straumfirði (+4,9) og norður við Thule (+2,6 stig). Í Nuuk og þar sunnan við var hiti hins vegar nærri meðallagi - enda náði kuldinn að vestan stundum þangað. Einnig má koma fram að (alþjóða-) veturinn var sá hlýjasti í Björgvin í Noregi frá því að samfelldar mælingar hófust þar 1861. Kuldafréttir úr fjarlægum heimsálfum virðast oftast sjá um að birta sig sjálfar á athugasemdum hungurdiska án aðkomu ritstjórans.


Ný meðalhitamet á Svalbarða og nágrenni

Rigningamet á Bretlandseyjum, austanáttamet á Íslandi, stappar nærri landshitameti í Noregi og glæsileg meðalhitamet sett á Svalbarða.

Norska veðurstofan upplýsirað hiti á Svalbarðaflugvelli hafi verið 14,5 stigum yfir meðallagi og 11,9 stigum yfir því í Nýja-Álasundi. Þetta eru ekki bara ný hitamet fyrir febrúar heldur eru þau fjórum og fimm stigum fyrir ofan hæsta meðalhita til þessa. Á Finnmörk var hiti um 11 stigum ofan meðallags inn til landsins. Hiti á Bjarnarey og eyjunni Hopen suður af Svalbarða var líka hærri en vitað er um til þessa. Á Bjarnarey var hiti 7,1 stigi ofan meðallags en 11,9 á Hopen. Einnig var hlýtt á Jan Mayen - þó ekki met. Hiti var þar 4,9 stigum ofan meðallags.

Í Norður-Noregi var fádæma úrkomuleysi en óvenjulegar úrkomur víða í Suður-Noregi. Óvenjulega hlýtt var líka í Svíþjóð og Finnlandi - sérstaklega norðan til í þessum löndum. Snjóalög eru með allra minnsta móti um mestallt Finnland.

Þótt enginn febrúar hafi orðið hlýrri en nú í kringum Svalbarða og á Finnmörku var febrúar 1990 enn hlýrri um sunnanverða Skandinavíu heldur en sá nýliðni. Við skulum til fróðleiks bera saman hæð og hæðarvik 500 hPa-flatarins þessa tvo mánuði. Fyrst febrúar 1990.

w-blogg050314d 

Neikvæð vik eru blá (þau allramestu fjólublá) en jákvæð rauð. Vikið suður af Íslandi er -280 metrar og yfir Íslandi er það á bilinu 200 til 250 metrar.

Svo febrúar nú.

w-blogg050314d 

Hámarksvik nýliðins febrúar er -276 metrar, nærri því það sama og 1990. Við nánari skoðun sést þó að töluverður munur er á kortunum. Austanátt er miklu meiri hér á landi heldur en 1990 og jafnvikalínur liggja miklu þéttar yfir landinu og nágrenni þess heldur en 1990. Sömuleiðis eru vik jákvæð við Norðaustur-Grænland ólíkt því sem var í febrúar 1990.

Séu hæðartölurnar skoðaðar kemur í ljós að 500 hPa-flöturinn lá talsvert lægra yfir Íslandi 1990 heldur en nú og hefur raunar aldrei svo vitað sé verið lægri hér á landi í nokkrum mánuði svo öruggt sé. Ákveðnir mánuðir á fyrri tíð (fyrir 1920) liggja þó undir grun.

Veður hér á landi var ákaflega erfitt í febrúar 1990 - ekki aðeins sums staðar um landið norðan- og austanvert eins og nú heldur um allt land að kalla. Alhvítir dagar voru þá 24 í Reykjavík en enginn nú. Alhvítt var allan mánuðinn á Akureyri rétt eins og nú.

En hvað svo? Mars og Apríl 1990 voru leiðindamánuðir hér á landi - svo ekki sé meira sagt. Það segir þó ekkert um framhaldið nú. Veðraframtíðin er ætíð óráðin.


Kalt loft úr vestri (nær alla leið)

Það hefur gerst nokkrum sinnum á undanförnum tveimur mánuðum að kalt loft úr vestri hefur nálgast landið - komist rétt með herkjum inn á og yfir það - en hörfað jafnharðan fyrir austanáttinni. Nú virðist sóknarþunginn loksins ætla að verða meiri.

Við fáum nú yfir okkur nokkra éljagarða úr suðvestri og bjartara veður með smærri éljum á milli. Spár greinir hins vegar nokkuð á um það hversu mikil úrkoma fylgir og hversu mikið af henni verður í föstu formi á láglendi. Talað er um 50 til 90 mm á höfuðborgarsvæðinu næstu 6 til 7 daga. Það verður að teljast harla ólíklegt að allt þetta magn falli allt sem snjór - enda eins gott. En einhver slabbleiðindi eru líklegust. Það er svo vonandi að ekki frjósi að ráði upp úr slíku. En það ætti að bæta í snjóinn á skíðasvæðum suðvestanlands.

En við skulum líta á norðurhvelskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á miðvikudag (5. mars).

w-blogg040314a 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar (tölur í dekametrum) en þykktin er sýnd með litum (kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað). Mörkin á milli grænu og bláu litanna eru við 5280 metra og skipt er um lit á 60 metra bili. Miðja háloftalægðarinnar miklu er við Suður-Grænland en kuldinn henni tengdur er þar nokkuð fyrir suðvestan og vestan og hann streymir til austurs út á Atlantshaf sem hitar loftið baki brotnu upp undir eða upp fyrir frostmark þegar hingað er komið.

Þetta er harla óþægileg staða - uppskrif að illviðrum - en einhvern veginn liggur öllum lægðavísum svo mikið á að komast til Íslands að nær ekkert skipulag er þar á. Vísarnir dreifast á smálægðir og lægðadrög sem fara eiga yfir landið hvert á fætur öðru.

En það er samt eins gott að fylgjast vel með. Jafnhæðarlínurnar suðvestur af landinu á kortinu eru gríðarþéttar og vel gæti einhver smálægðin náð að draga niður eitthvað af háloftavindinum.

Að sögn evrópureiknimiðstöðvarinnar á fyrsta lægðarbylgjan sem nær í hlýtt loft sér til fóðurs ekki að ganga yfir fyrr en á sunnudaginn - og á þá að fara til norðausturs fyrir suðaustan land. Eitthvað kunnuglegt það.

Bandaríska veðurstofan finnur (nú í nýjustu spárununni) sunnudagslægðina hins vegar ekki - en gerir þess í stað meira úr lægðardragi sem á að fara hjá á miðvikudag - um það leyti sem kortið hér að ofan gildir. Reiknimiðstöðin gerir þar minna úr - eitthvað smátt sem fer til norðausturs milli Íslands og Færeyja án teljandi beinna áhrifa hér á landi.

Alla vega er von á heldur meiri tilbreytingu í veðri næstu daga en verið hefur að undanförnu. Eftir helgi er allt galopið - rennsli í sama far og áður - æsilegri lægðagangur eða jafnvel fyrirstöðumyndun sunnan við land og alvöru vestanátt.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 120
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 955
  • Frá upphafi: 2420770

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 843
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband