Mikill lægðagangur

Nú skiptir yfir í nokkuð grófgerðan lægðagang hér við land. Á morgun (laugardag) fer mjög djúp lægð til norðausturs yfir landið suðaustanvert og veldur víða leiðindaveðri. Þó hún verði farin að grynnast og miðja hennar að fletjast út er engu að síður mjög hvasst á stóru svæði í kringum hana, sérstaklega á suðaustur- og norðvesturjöðrum kerfisins. Trúlega verður mikil hríð víða á heiðum og e.t.v. víðar um tíma - og rétt fyrir ferðamenn og aðra sem eitthvað eiga undir veðri að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar.

w-blogg080314 

Þetta er gervihnattarmynd af innrauðu sviði rafsegulrófsins - á henni er hlutum snúið þannig að hvítt er kalt en því dekkra sem svæði er því hlýrra er það. Sjá má tillögu að hitakvarða neðst á myndinni - hann ætti að batna eitthvað við stækkun. Það hvítasta og kaldasta eru háreist ský, mikill blikuskjöldur norðan og austan við lægðarmiðjuna en hana er að finna nærri miðju sveipsins neðarlega á myndinni. Myndin er frá því kl. 1 á aðfaranótt laugardags.

Þótt lægðin sé hraðfara verður landið ekki alveg laust við hana fyrr en á aðfaranótt mánudags en þá nálgast næsta lægð. Að sögn reiknimiðstöðva á hún að fara vestar og valda mikilli - en skammvinnri -rigningu um landið sunnan og vestanvert. Ef marka má sömu spár á hún að grynnast á leiðinlega veginn - sem kostar skammvinnt en hart suðvestan- eða vestanskot. Vonandi lendir það vestan við land - að mestu - ef af verður - ef-ef-ef.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veðrið nú í byrjun árs hér á höfuðborgarsvæðinu virðist ætla að verða keimlíkt veðrinu í fyrra á sama tíma - og sama svæði. Frekar hlýtt tvo fyrstu mánuðina og algjörlega snjólaust (eins og í fyrra) en svo fer að snjóa í mars. Sem betur fer höfum við ekki enn fengið sama hvellinn í ár og kom 5. mars í fyrra, með hörkufrosti og miklum skaða á trjágróðri.

Það lítur því ekki vel út með árið í heild - þ.e. ef árið í ár heldur áfram að líkjast því í fyrra - og fátt sem bendir til áhrifa hnattrænnar hlýnunar hér á landi.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 8.3.2014 kl. 11:53

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Reyndar var mjög gott veður í mars í fyrra fyrir utan fyrstu vikuna. Það gerði stutt kuldakast dagana 4. og 5. mars sem endaði með snjókomu þann 6. sem olli ófærð á höfuðborgarsvæðinu. Sá snjór var fljótur að hverfa og það sem eftir var mánaðar voru austanáttirnar ríkjandi, oftast með björtu og þurru veðri. Nú erum við hinsvegar í mjög umhleypingasömu veðri með hverri lægðinni á eftir annarri. Kuldinn í norðri gæti síðan gert atlögu eftir miðjan mánuð, samkvæmt langtímaspám. Það stefnir því í allt annað veður en í mars í fyrra og varla hægt að segja að eitthvað sé að endurtaka sig.

Áhrif hnattrænnar hlýnunnar eru alltaf óræð enda eru hitasveiflur hér talsvert miklar. Meðalhiti milli ára getur t.d. auðveldlega sveiflast meira hér heldur en hlýnað hefur á jörðinni sl. 100 ár.

Emil Hannes Valgeirsson, 8.3.2014 kl. 17:24

3 identicon

Hér mælir sjálfskipaður hnatthlýnunarsérfræðingur: "Áhrif hnattrænnar hlýnunnar eru alltaf óræð..."(sic)

Vinsamlegast athugið að engin "hnattræn hlýnun" hefur verið í gangi í heiminum sl. 15+ ár og engar líkur á að hún muni láta á sér kræla í komandi framtíð - hvorki undirliggjandi, yfirliggjandi, fram- eða afturliggjandi.

Reyndar er staðan í dag sú að meðalhiti sl. febrúarmánaðar er nánast á pari við febrúar 1981!

> https://twitter.com/SteveSGoddard/status/441648875850301440/photo/1/large

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.3.2014 kl. 18:21

4 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Og hér mælir sjálfskipaður hnattkólnunarsérfræðingurinn H.H. ásamt skoðunarbróðurnum T.S. Annars er þessi færsla ekki mér vitanlega um hnattræna hlýnun eða einkavað álíka, heldur um óveðurslægð. Sýnir vel þráhyggjuna í þeim H.H.og T.S.

Pálmi Freyr Óskarsson, 8.3.2014 kl. 19:19

5 identicon

Elsku Pálmi minn. Ég var nú óbeint að svara dálítið skrítinni og illskiljanlegri færslu frá Trausta í gær, þ.e. "Þótt ekki sé vitað hvort aukin gróðurhúsaáhrif ýti undir þessa afbrigðilegu hegðan veðrakerfa í vetur eða ekki má samt segja að þetta afbrigðilega þrýstifar, og einkennilegt háloftamynstur, sem veldur því, fer, eitt og sér, langt með að skýra hita- og úrkomuvik bæði hér við norðanvert Atlantshaf sem og í Bandaríkjunum, Kanada og Alaska."

Ef þér líkar ekki þessi skrif okkar Hilmars þá kærirðu okkur bara, er það ekki?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 8.3.2014 kl. 21:16

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég get vel fallist á nafnbótina „sjálfskipaður hnatthlýnunarsérfræðingur“ sem rýmar vel við titilinn: Sjálfmenntaður heimilisveðurfræðingur. Ekki skemmir svo fyrir að hafa nýlega verið útnefndur: Hnatthitaspámeistari 2013.Ánægður

Emil Hannes Valgeirsson, 8.3.2014 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 48
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 1797
  • Frá upphafi: 2348675

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 1575
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband