Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013
19.7.2013 | 00:22
Hlýindi vestanhafs og austan
Hlýindi vestanhafs og austan hafa verið í fréttum. Evrópumegin hefur þó varla frést af metum, en bretar munu ekki hafa fengið jafnlangan sumarhlýindakafla síðan 2006 (þegar síðast var skítatíð hér á Suðvesturlandi).
Vestra hafa hlýindin ekki verið þau allra snörpustu síðustu daga - nema hvað veðurnörd minnast á að höggvið hafi verið nærri hámarksmetum næturlágmarka og daggarmarks. Ástandið er sérlega varasamt þegar saman fara hár hiti og hátt rakastig dag og nótt. Til að höndla þetta hafa menn búið til sérstaka óþægindavísitölu sem notuð er í aðvörunarskyni víða um heim. Hún er þó ekki allstaðar skilgreind á nákvæmlega sama hátt.
En við lítum nú sem oftar á kort af stöðu 500 hPa-flatarins og þykktarinnar. Kortin geta verið ágæt viðmið - allt sem er hlýrra en þetta á Bretlandseyjum og vestanhafs er mjög óþægilegt og jafnvel varasamt. Öll kortin eru ættuð frá evrópureiknimiðstöðinni.
Fyrst er það Evrópukortið.
Hér eru Bretlandseyjar fyrir miðju. Ísland er þar ofan við til vinstri. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin er sýnd með litum. Í miðju er hæðin meiri en 5820 metrar þar sem mest er. Þetta er býsna hátt - en er samt nokkuð frá meti. Brúnu klessurnar við Skotland sýna hvar þykktin er meiri en 5640 metrar. Þetta er óskaþykkt okkar - hefur í sögunni aðeins örfáum sinnum náð til Íslands. Nokkuð langt er í næstu jafnþykktarlínu (5700 m), hún er suður á Spáni. Spár í dag (fimmtudag) segja að hún eigi að komast norður til Parísar á miðvikudag í næstu viku. Ef af verður mæðast þar margir - og enn hlýnar á Bretlandi.
Við Ísland er hlýrra en verið hefur og landið meira að segja að komast inn í skammvinna hæðarbeygju. Slík beygja leitast við að bæla uppstreymi og leysa upp ský - en eins og sjá má er suðvestanáttin sterk (jafnhæðarlínur eru þéttar) og erfitt við hana að eiga.
Næsta kort sýnir meginhluta Norður-Ameríku.
Brúnu litirnir eru hér dekkri og þykktin er meiri en 5760 metrar yfir mestöllum Bandaríkjunum og vestast er hún meiri en 5820 og jafnvel sjást smáblettir með 5880 metrum. Við sjáum skarpt lægðardrag teygja sig til suðvesturs frá Labrador. Það mjakast til suðausturs og segja sumar spár að það létti aðeins á hitanum í norðausturríkjunum
Við getum ekki yfirgefið stöðuna án þess að horfa á norðurslóðir. Þar er grænn litur áberandi en það segir að þykktin sé minni en 5460 metrar.
Mjög hlý hæð er yfir Vestur-Síberíu, þar er þykktin meiri en 5640 metrar á stóru svæði í kringum 70. breiddarbauginn, meira en hægt er að reikna með við 70 gráður næst Íslandi. Kalt loft er yfir Grænlandi öllu, en samt er þar enginn afgerandi kuldapollur einmitt núna. Hins vegar er stóri pollurinn nærri norðurskautinu með sterkasta móti miðað við árstíma (blár í miðju). Hann fer þar í hringi og færist í aukana. Komist hlýtt loft inn í háloftalægðina verður til mjög djúp lægð við sjávarmál og þá með miklum vindi. Varla verður lægðin sú þó eins djúp og ágústlægðin í fyrra sem rótaði upp í hafísnum þannig að meira bráðnaði en nokkru sinni á síðari tímum.
18.7.2013 | 00:29
Kaldast í Reykjavík (að tiltölu)?
Hægt er að setja tölur fram á ýmsa vegu. Við lítum nú aðeins á síðustu fimm júlímánuði - og aðeins fyrstu 17 daga þeirra, reiknum út meðaltal og berum saman við fyrstu 17 daga júlímánaðar 2013. Þá fæst eftirfarandi tafla:
Meðalhiti fyrstu 17 daga júlímánaðar 2013 og samanburður við sömu daga árin 2008 til 2012
mh17 | m2008 til 2012 | vik | hæst | lægst | NAFN | ||
1395 | 9,79 | 12,14 | -2,35 | 16,1 | 1,8 | Eyrarbakki | |
1475 | 9,63 | 12,52 | -2,89 | 17,0 | 4,1 | Reykjavík | |
1779 | 9,74 | 11,98 | -2,24 | 17,2 | 3,0 | Hvanneyri | |
2050 | 9,32 | 11,14 | -1,82 | 15,4 | 4,2 | Stykkishólmur | |
2738 | 8,62 | 10,27 | -1,65 | 19,2 | 3,4 | Bolungarvík | |
3433 | 9,95 | 10,87 | -0,92 | 23,5 | 3,4 | Sauðárkrókur flugvöllur | |
3471 | 9,89 | 10,85 | -0,96 | 23,6 | 4,5 | Akureyri - Krossanesbraut | |
4019 | 8,36 | 21,7 | 0,9 | Upptyppingar | |||
4060 | 11,29 | 10,51 | 0,78 | 26,0 | 3,7 | Hallormsstaður | |
4193 | 9,45 | 17,8 | 5,6 | Dalatangi | |||
4271 | 10,95 | 10,14 | 0,81 | 26,1 | 4,3 | Egilsstaðaflugvöllur | |
4300 | 8,92 | 10,29 | -1,37 | 22,0 | 2,2 | Mývatn | |
5544 | 9,84 | 10,37 | -0,53 | 15,5 | 3,3 | Höfn í Hornafirði | |
5872 | 9,58 | 18,2 | 3,5 | Teigarhorn | |||
5988 | 9,03 | 8,02 | 1,01 | 16,9 | 4,4 | Vattarnes | |
6012 | 9,44 | 12,7 | 7,2 | Surtsey | |||
6015 | 9,60 | 11,74 | -2,14 | 12,5 | 5,7 | Vestmannaeyjabær | |
6017 | 8,80 | 11,06 | -2,26 | 12,3 | 5,5 | Stórhöfði | |
6272 | 10,64 | 11,80 | -1,16 | 18,0 | 2,0 | Kirkjubæjarklaustur - Stjórnarsandur | |
6420 | 9,61 | 12,46 | -2,85 | 17,1 | 1,3 | Árnes | |
6657 | 7,04 | 9,11 | -2,07 | 17,9 | -0,7 | Veiðivatnahraun | |
6935 | 6,47 | 8,94 | -2,47 | 16,1 | 0,1 | Hveravellir | |
9,24 | 10,64 | -1,40 | 26,1 | -0,2 | Landið allt (byggðir) |
Fyrsti dálkurinn er númer stöðvarinnar, síðan kemur meðalhiti fyrstu 17 daganna í ár, þar næst meðalhiti sömu daga á árunum 2008 til 2012. Þarnæst er mismunur þessara dálka (hitavik), hæsti hiti dagana 17 í ár og lægsti hiti sömu daga. Linan endar á nafni stöðvarinnar. Síðasta línan sýnir landsmeðaltal. Aukastafir eru tveir til þess að metingur sé sem auðveldastur.
Vikin eru mest (neikvæð) á Suðvesturlandi - og hæsta talan reyndar í Reykjavík, -2,89 stig. Ekki furða að mönnum bregði við - miðað við síðustur ár. Hiti er yfir meðaltalinu á Austurlandi það sem af er mánuði, hæsta mesta vikið þar er +1,01 stig, á Vattarnesi. Á Egilsstöðum og Hallormsstað er jákvæða vikið um 0,8 stig. Landsmeðalvik er -1,4 stig.
Að jafnaði voru fyrstu 17 dagar júlímánaðar á landinu öllu þessi ár um 0,3 stigum kaldari heldur en mánuðurinn í heild.
En - munum að júlímánuðir áranna 2008 til 2012 voru sérlega hlýir í langtímasamhengi og þá sérstaklega á landinu suðvestanverðu. Tímabilið er valið til þess að vikin í þessum landshluta sýnist sem mest.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.7.2013 | 01:21
Af deyfunni
Við lítum í skyndingu á stöðu hita, úrkomu og sólskinsstunda í Reykjavík frá 1. júní til 15. júlí miðað við síðustu 64 ár.
Hiti: 9,8 stig. Í 35. sæti (ofanfrá), kaldast frá 2006, ekki sem verst - miðað við tímabilið allt
Úrkoma: 115,4 mm. Í 5. sæti (ofanfrá) - harla blautt. Aðeins vantar 10,2 mm upp á það úrkomumesta, það var 1969.
Sólskinsstundir 189. Í 6. sæti (neðanfrá) - harla dauft en talsvert ofan við það sólarminnsta (1969 með 162 stundir).
Síðustu sjö dagar hafa aðeins skilað 16,6 sólskinsstundum. Það er þó ekki það versta sem sést hefur áður í sömu viku (dauf getur sumarvikan verið).
15.7.2013 | 01:22
Engin efnisleg breyting
Engin efnisleg breyting verður næstu daga á ferðum veðurkerfa í námunda við landið. Lægðirnar rúlla hjá og náðarsamlegast kemur stöku sinnum einn bjartur dagur á milli. Jú, hlýir dagar skjótast inn í syrpuna við og við fyrir norðan. En lítum á norðurhvelskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á þriðjudaginn 16. júlí.
Á kortinu má sjá mestallt norðurhvel norðan 30. breiddarbaugs og lengra suður í hornunum. Að venju eru jafnhæðarlínur svartar og heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktinni er lýst með litum. Kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað. Þykktin segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.
Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Háloftalægð er í þann mund að fara yfir landið og önnur, norðaustur af Nýfundnalandi, bíður eftir að komast að. Sumar spár gera ráð fyrir því að smáhlé verði milli lægða og úrkomu á miðvikudaginn - en við segjum sem minnst um það.
Lægðin við Nýfundnaland fer reyndar hægar yfir heldur en sú fyrri og virðist eiga að ná í meira af hlýju lofti, kannski svipað og var á dögunum þegar hitinn komst í rúm 26 stig á Egilsstöðum. Það gæti endurtekið sig á fimmtudag eða föstudag. Við bíðum spennt eftir nánari fréttum af því.
Grænu litirnir eru þeir köldustu á kortinu fyrir utan einn smáan bláan blett í miðjum kuldapollinum sem er austur af Svalbarða. Hann rúllar einhverja hringi um Íshafið. Það má taka eftir því að grænu litirnir eru útbreiddari okkar megin á hvelinu heldur en hinum megin. Alaska og Síbería eru nærri grænlitalaus umvafin gula sumarlitnum.
Það virðist ganga illa að hnika þessu ástandi til. Yfir botni Persaflóa má sjá hvítan blett. Þar er þykktin svo mikil að hún sprengir kvarðann - en hann nær upp í 6000 metra. Hugsanlegt er að líkanið skjóti hér aðeins of hátt - það kemur í ljós á þriðjudaginn.
Vestanverð Evrópa er á þykktarbilinu 5580 og rétt upp fyrir 5640 metra. Þetta er sérlega hagstætt - blíðuveður með dagshita á bilinu 22 til 28 stig - á stöku stað getur hann skotist upp fyrir 30. Þegar þykktin fer að vera yfir 5640 og nálgast 5700 fer hitinn að verða óþægilegur. Það er fyrst suður á miðjum Spáni sem við náum í 5700 metra, en þar eru menn vanir þessu. Þetta ástand á lítið að breytast næstu daga.
Háloftahæð er yfir Bandaríkjunum. Þar er þykktin fyrir ofan 5760 metrum á löngu belti sem liggur frá vestri til austurs. Evrópa myndi kveina hástöfum yfir svona hita en vestra eru menn vanir sumarhitanum - en þetta má ekki verða mikið hlýrra en þetta. Þá fara þeir líka að kveina - og ekki af ástæðulausu.
14.7.2013 | 01:13
Örfá orð um Asóreyjahæðina
Að undanförnu hefur verið mjög hlýtt á Bretlandseyjum víðar í Vestur- og Suðvesturevrópu. Þar þakka menn Asóreyjahæðinni blíðuna. Við skulum eyða nokkrum orðum í hana. Fyrst er spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting og hita í 850 hPa-fletinum kl. 18 á mánudag 15. júlí.
Kortið nær suður undir Kanaríeyjar og vel norður fyrir Ísland. Í vestri má sjá Nýfundnaland og Ítalíu nálægt austurjaðri þess. Jafnþrýstilínur eru heildregnar á 5 hPa bili en litir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Á gula svæðinu norðan og vestan Íslands er hann lítillega neðan frostmarks en dekksti brúni liturinn yfir Afríku sýnir hvar hitinn er meiri en 25 stig.
Lægð er við Ísland (eins og oftast), þetta er mánudagslægðin en miðvikudagslægðin er við Nýfundnaland. Háþrýstisvæði á miðju skammt suðvestur af Bretlandseyjum og teygir það sig bæði til suðvesturs og austurs. Góður hiti er í hæðinni allri. Asóreyjar eru vestur af Portúgal, í hæðarhryggnum miðjum.
Miðja hæðarinnar er í talsvert norðaustlægari stöðu heldur en að meðaltali - en hún er hins vegar ámóta öflug og algengast er. Þegar hún verður enn öflugri getur Ísland notið góðs af hlýindunum - en oftast eru þau þá einskorðuð við landið norðan- og austanvert því suðvestansuddi ríkir á Suður- og Vesturlandi. Sé hæðin visnari eða miðja hennar liggur sunnar komast lægðir okkar slóða til austurs fyrir sunnan land.
Veðurfar hér á landi kemst þannig stöku sinnum inn á áhrifasvæði hæðarinnar. Ágætt er að kannast við hana. En við skulum líka líta á meðalástandið. Kortið er úr safni bandarísku veðurstofunnar og er mikið litafyllerí ríkjandi og jafnþrýstilínur óþarflega þétt dregnar. En allt kemur samt skýrt fram. Það sýnir meðalþrýsting á svæðinu í júní, júlí og ágúst. Aldrei þessu vant er þrýstieiningin ekki hPa (hektópasköl) heldur Pa (pasköl).
Hér er miðja hæðarinnar rétt vestan Asóreyja, en við sjáum að hryggur teygir sig til austurs um Evrópu og á hinn vænginn til Bandaríkjanna sunnanverðra. Oft er hæðin tvískipt og er í Ameríku frekar tengd Bermúda heldur en Asóreyjum. Suðurvængur hæðarinnar knýr staðvindana allt frá Afríku til Karabíska hafsins.
Önnur ámóta hæð er yfir Kyrrahafinu. Hæðirnar eru sterkari að sumarlagi heldur en að vetri. Við sjáum meðallægðina við Ísland mjög vel.
12.7.2013 | 00:20
Næstu lægðir - gjörið svo vel
Í dag (fimmtudaginn 11. júlí) sló verulega á hitann fyrir norðan og austan - enda nálgast myndarlegur kuldapollur úr vestri. Kuldaskilin voru þó langt á undan honum sjálfum en hann fer yfir á morgun (föstudag). Er þá gert ráð fyrir skúradembum. Fyrri mynd dagsins sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og hita í honum um hádegi (föstudag).
Hita- og hæðarsvið er nokkuð sammiðja, vindur er hvass í kringum háloftalægðina en kuldinn fyllir vel upp í hana og kemur þar með í veg fyrir hvassan vind við sjávarmál. Það er helst að strekkings sé að vænta undan Suðurlandi frá Reykjanesi og austur úr. Bent er á textaspár Veðurstofunnar um frekari upplýsingar um það.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar og svartar, vindátt og vindhraði eru sýnd með hefðbundnum vindörvum. Hitinn er sýndur með litum, kvarðinn til hægri batnar mjög við stækkun. Um tuttugu stigum munar á hæsta og lægsta hita kortsins. Þegar kortið gildir er lágmarkið sem það sýnir mínus 31,2 stig - yfir Hrútafirði. Í veðurlagi sem þessu eru oftast skúrir sem dægursveifla og hlýtt land ýta undir. Skúrirnar eru þá oftast mun meiri inni í sveitum heldur en við sjávarsíðuna. Kannski heyrast einhverjar þrumur.
Þykktin, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs er ekki sýnd á þessu korti en er aðeins um 5300 metrar í miðju lægðarinnar. Það er gott að kerfið fer hratt framhjá og það um hábjartan dag.
Á laugardaginn er nýtt úrkomusvæði tekið við. Það er mjög hraðfara og háloftabylgjan sem því fylgir er veigalítil miðað við þá stóru á kortinu hér að ofan.
Við skulum því líta á sunnudagsháloftaspána.
Hér eru jafnhæðarlínur heildregnar sem fyrr, en þykkt er sýnd með rauðum strikalínum. Iða er grábleik. Föstudagslægðina má sjá langt norðaustur í hafi. Þar sýnir innsta jafnþykktarlínan 5340 metra. Laugardagslægðarinnar gætir eiginlega ekki - föstudagskerfið hefur étið hana með húð og hári.
En ný lægð nálgast úr vestri. Um hádegi á sunnudag er hún vestast á Grænlandshafi og á að fara til austurs fyrir sunnan land á mánudag. Fyrir nokkrum dögum gerðu reiknimiðstöðvar ráð fyrir því að hún myndi grípa föstudagslægðina og senda hana síðan til suðurs aftur - skammt undan Norðausturlandi. Þykktin átti samkvæmt þeim spám að fara niður í um 5270 metra í allhvössum vindi. Þannig nokkuð er ávísun á hríð langt niður á heiðar. En - við sleppum vonandi alveg við þennan möguleika.
Nú má á kortinu sjá hæð yfir Grænlandi vestanverðu - slíkt hefur lítið sést að undanförnu. Hún á þó ekki að leggja leið sína hingað heldur á að fara til norðvesturs og hjálpa til við ísbræðslu á kanadísku eyjunum í næstu viku. Ekki veitir af hjálp til þess - ef skip eiga að komast þar um í september.
Næsta lægð til okkar eftir þetta er ekki orðin til á sunnudagskortinu - og eru evrópureiknimiðstöðin og sú bandaríska ekki sammála um það hvort hún kemur strax á þriðjudag (sú síðarnefnda) eða ekki fyrr en á miðvikudag (sú fyrrnefnda). Þetta er hálfgerður grautur og óvissa greinilega mikil.
Taka má eftir því á sunnudagskortinu hér að ofan að 5640 metra jafnþykktarlínan er yfir suðurströnd Írlands. Þar hefur verið mjög hlýtt að undanförnu og helst að sjá að svo verði áfram. Það er dálítið spennandi að fylgjast með því vegna þess að stöku spárunur hafa gert ráð fyrir enn meiri þykkt á þessum slóðum - jafnvel upp undir 5700 metra. Við treystum því þó varlega.
Hitamet Írlands er orðið gamalt, 33,3 stig sem mældust þar sumarið 1887. Sumir vilja þó ekki nota þetta gamla met en miða við 32,5 stig sem met. England á hins vegar mest 38,5 stig.
11.7.2013 | 00:13
Hæsti hiti ársins?
Eins og nimbus fjallar um í bloggi sínu í dag (10. júlí) komst hiti enn hærra á landinu heldur en í gær. Met dagsins var 26,1 stig og mældist á Egilsstaðaflugvelli. Fjölmargar aðrar stöðvar náðu hæstu gildum ársins í dag allt frá Vestfjörðum norðanverðum og austur á firði. Suðvestanlands var allt í hófi.
Í viðhenginu má finna lista um hitabetrunga dagsins og þar fyrir neðan endurnýjaðan árslista. En nú er spurningin hvort stigin 26,1 á Egilsstöðum verða hæsti hiti ársins 2013? Síðustu 139 árin hefur hæsti hiti ársins verið hærri en þetta í 37% tilvika - síðast í fyrra þegar 28,0 stig mældust á Eskifirði 9. ágúst. Árið í ár hefur þannig nú þegar náð býsna langt.
Þegar athugað er hvenær ársins hæsti hiti þess er skráður kemur í ljós að í 49% tilvika er það fyrir 11. júlí og í 78% tilvika er það fyrir 26. júlí. Meðalhiti er hæstur á landinu í síðustu viku júlímánaðar, en hæstu hámörk ársins lenda samt fyrr á sumrinu frekar en síðar. Sumarmiðja árshámarka er í kringum 11. júlí - en meðalhitans hálfum mánuði síðar.
Nú er spáð kólnandi veðri - vonandi verður reyndin ekki eins slæm og spárnar. Þær hafa reyndar heldur linast á kuldanum frá því sem þær gáfu til kynna í gær.
10.7.2013 | 00:17
Hæsti hiti ársins - til þessa
Í dag (þriðjudaginn 9. júlí) komst hiti í 24,0 stig á sjálfvirku stöðinni á Torfum í Eyjafirði og hefur hvergi orðið hærri á landinu það sem af er þessu ári. Um þetta og fleira má lesa í pistli nimbusar í dag. Það verður ekki endurtekið hér.
Í viðhenginu má hins vegar finna lista um hæsta hita ársins (það sem af er) á öllum sjálfvirkum veðurstöðvum landsins. Þar sést meðal annars að dagurinn í dag var sá hlýjasti á mestöllu Norðurlandi sem og víða austanlands. Smáblettir á norðausturhorninu og á Austfjörðum sitja þó eftir - með hæstan hita snemma í júní. Suðvestanlands eru dagar í kringum 10. júní einnig enn þeir hlýjustu.
Hiti hefur nú náð 10 stigum á öllum stöðvum landsins, í dag komst hitinn á Þverfjalli vestra í 10,9 stig. Það er lægsti hámarkshiti stöðvar það sem af er. Enn hefur hiti á Stórhöfða í Vestmannaeyjum ekki komist hærra en 12,3 stig - en sú tala hefur reyndar birst oftar en einu sinni (sjá viðhengið).
Í viðhenginu er einnig listi yfir hæsta hita á landinu hvern dag það sem af er ári á almennum sjálfvirkum stöðvum. Þar má m.a. sjá að tuttugustigadagar eru enn mjög fáir.
Morgundagurinn (miðvikudagur 10. júlí) gæti orðið góður víða norðan- og austanlands og jafnvel gert betur en dagurinn í dag. Því má búast við því að listinn í viðhenginu verði þá þegar úreltur. Fimmtudagur á enn möguleika á góðum árangri á Austurlandi - en síðan er það búið í bili og við tekur kuldi - jafnvel ískyggilegur (vonandi eru spár rangar).
9.7.2013 | 01:24
Hlýjasta loft ársins
Nú er spurningin hvort spurningarmerki eigi að fylgja í fyrirsögninni - eða hvort bæta á við - til þessa? Sum ár hafa runnið sitt skeið án þess að jafnhlýtt loft hafi farið yfir landið og það sem fara á yfir á þriðjudag og miðvikudag í þessari viku. En - þótt hlýtt loft fari hjá er ekki þar með sagt að þess gæti niður til okkar.
En þykktarkort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á þriðjudagskvöld lofar góðu.
Jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar, en litafletir sýna hita í 850 hPa-fletinum í um 1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Mjög hlýtt loft er yfir öllu landinu, hlýjast er það austanlands þar sem þykktin er yfir 5600 metrum. Á góðum degi dugar það í 25 til 27 stiga hámarkshita - en til að svo megi verða þarf vind, hann þarf að standa af landi - og ef vindur er hægur þarf að vera glampandi sólskin til að framkalla þessar háu tölur.
Mættishitaáhugamenn (þessir þrír) mega vita að hæsti mættishiti í 850 hPa sem enn fréttist af í spám fyrir þriðjudag og miðvikudag er 26,3 stig. Þá yfir Austurlandi á miðvikudag.
Hvort það tekst vitum við ekki - en fylgjumst vel með. Þótt líka sé hlýtt yfir Suður- og Vesturlandi er hár hiti ólíklegri þar vegna áhrifa sjávar og skýjahulu, en það er samt aldrei að vita nema einhverjir staðir á þeim slóðum verði útvaldir - ólíklegt þó.
Vindur verður að sögn reiknimiðstöðva heldur meiri á miðvikudag heldur en þriðjudag þannig að þótt þykktin minnki lítillega verða líkur á 25 stigum litlu minni þá heldur en á þriðjudeginum. Auk þess á Austurland enn möguleika á háum tölum á fimmtudaginn - en þá eru síðustu forvöð að sinni. Þá um kvöldið ryðst mun kaldara loft inn á svæðið úr vestri. Föstudagsþykktarspána má sjá á kortinu hér að neðan. Það lítur ekki vel út og umskiptin gríðarleg.
Kortið gildir kl. 6 að morgni föstudags. Þykktin er aðeins 5300 metrar við Vestfirði - á vondum degi dugar það í snjó á fjöllum - verði einhver úrkoma á annað borð. Þrjúhundruð metrar skilja að 5600 og 5300 metra. Á hitamæli samsvarar það 15 stiga hitafalli. Hitafallið í 850 hPa er ámóta, +12 stig á miðvikudag yfir í mínus 3 á fimmtudag. Niðri við jörð er meira hóf í hitafallinu.
Fimmtudags-föstudagslægðin er því leiðinleg - ekki er þó spáð miklum vindi - en einhverri úrkomu. Síðan kemur næsta lægð að sögn strax á laugardag - eftir það greinir reiknimiðstöðvar á um framhaldið.
5.7.2013 | 00:06
Þrjár lægðir - sjö dagar
Þar sem má gera ráð fyrir um það bil tveimur dögum á lægð eru ekki margir dagar eftir til annars en afgreiðslu á þeim. En svona er nú matseðillinn frá föstudegi 5. júlí til fimmtudagsins 11.
Kortið að neðan gildir um hádegi á sunnudag og sýnir 500 hPa hæð auk þykktar og iðu (í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar). Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, en rauðar strikalínur sýna þykktina, bleikgráir blettir sýna iðuna (en við höfum ekki áhyggjur af henni hér).
Föstudagslægðin er þarna komin langleiðina til Svalbarða. Hún er gerðarlegust lægðanna þriggja, reyndar með allra dýpstu háloftalægðum á þessum árstíma hér við land. Sjávarmálsþrýstingur er þó ekki nærri meti - því fremur kalt er í lægðarmiðjunni sem fer hratt hjá. Snjóa á í fjöll norðanlands í norðanáttinni á laugardagskvöld - kannski niður í 400 til 600 metra. Hríðinni fylgir hvassviðri eða stormur á fjöllum. En það gengur fljótt yfir.
Næsta lægð er miklu grynnri og er á kortinu á Grænlandshafi. Hún fer yfir á mánudag. Sunnudagurinn gæti orðið allgóður víða um land - en hvar vinningar birtast í því happdrætti vita hungurdiskar ekki. Á kortinu má sjá smálægð langt suður í hafi og gæti hún orðið til þess að draga úrkomuna til suðurs þannig að lægðarmiðjan fari yfir landið sunnanvert eða jafnvel sunnan við á mánudaginn. Það eykur líkur á vænum dagpörtum.
Þegar mánudagslægðin er komin hjá gengur hæðarhryggur yfir landið. Sumar spár segja að honum fylgi talsvert hlýrra loft en það sem leikið hefur um okkur að undanförnu. Hæsta tala sem sést yfir landinu í spá evrópureiknimiðstöðvarinnar frá hádegi í dag (fimmtudag) er 5600 metrar - þá yfir Austurlandi seint á þriðjudagskvöld. Væri það á hádegi í léttskýjuðu veðri myndi það duga í 25 til 27 stiga hita - en hér er allt á hraðferð og um miðja nótt þannig að ekki lítur allt of vel út með að við sjáum slíkar tölur. Síðan á þykktin að hrapa um 250 metra (12 stig) fram á fimmtudag þegar fimmtudagslægðin fer hjá. Sú er leiðinleg sé að marka spár - en ekki eins djúp og sú fyrsta af þessum þremur.
Svo bíða fleiri lægðir - en það er allt í óljósri framtíð.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 16
- Sl. sólarhring: 211
- Sl. viku: 981
- Frá upphafi: 2420865
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 862
- Gestir í dag: 13
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010