Örfá orð um Asóreyjahæðina

Að undanförnu hefur verið mjög hlýtt á Bretlandseyjum víðar í Vestur- og Suðvesturevrópu. Þar þakka menn Asóreyjahæðinni blíðuna. Við skulum eyða nokkrum orðum í hana. Fyrst er spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting og hita í 850 hPa-fletinum kl. 18 á mánudag 15. júlí.

w-blogg140713a

Kortið nær suður undir Kanaríeyjar og vel norður fyrir Ísland. Í vestri má sjá Nýfundnaland og Ítalíu nálægt austurjaðri þess. Jafnþrýstilínur eru heildregnar á 5 hPa bili en litir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Á gula svæðinu norðan og vestan Íslands er hann lítillega neðan frostmarks en dekksti brúni liturinn yfir Afríku sýnir hvar hitinn er meiri en 25 stig.

Lægð er við Ísland (eins og oftast), þetta er mánudagslægðin en miðvikudagslægðin er við Nýfundnaland. Háþrýstisvæði á miðju skammt suðvestur af Bretlandseyjum og teygir það sig bæði til suðvesturs og austurs. Góður hiti er í hæðinni allri. Asóreyjar eru vestur af Portúgal, í hæðarhryggnum miðjum.

Miðja hæðarinnar er í talsvert norðaustlægari stöðu heldur en að meðaltali - en hún er hins vegar ámóta öflug og algengast er. Þegar hún verður enn öflugri getur Ísland notið góðs af hlýindunum - en oftast eru þau þá einskorðuð við landið norðan- og austanvert því suðvestansuddi ríkir á Suður- og Vesturlandi. Sé hæðin visnari eða miðja hennar liggur sunnar komast lægðir okkar slóða til austurs fyrir sunnan land.

Veðurfar hér á landi kemst þannig stöku sinnum inn á áhrifasvæði hæðarinnar. Ágætt er að kannast við hana. En við skulum líka líta á meðalástandið. Kortið er úr safni bandarísku veðurstofunnar og er mikið litafyllerí ríkjandi og jafnþrýstilínur óþarflega þétt dregnar. En allt kemur samt skýrt fram. Það sýnir meðalþrýsting á svæðinu í júní, júlí og ágúst. Aldrei þessu vant er þrýstieiningin ekki hPa (hektópasköl) heldur Pa (pasköl).

w-blogg140713b

Hér er miðja hæðarinnar rétt vestan Asóreyja, en við sjáum að hryggur teygir sig til austurs um Evrópu og á hinn vænginn til Bandaríkjanna sunnanverðra. Oft er hæðin tvískipt og er í Ameríku frekar tengd Bermúda heldur en Asóreyjum. Suðurvængur hæðarinnar knýr staðvindana allt frá Afríku til Karabíska hafsins.

Önnur ámóta hæð er yfir Kyrrahafinu. Hæðirnar eru sterkari að sumarlagi heldur en að vetri. Við sjáum meðallægðina við Ísland mjög vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enn einn fræðandi og alþýður fræðslupistill hjá þér ! Hafðu hjartans þakkir fyrir hann og alla aðra ! Stenst ekki mátið að gauka að þér smá athugunaratriði úr fortíðinni, sem ég er að bauka með í handritinu "Emmy, stríðið og jökullinn", - veðrið á og við Ísland frá miðjum september til októberloka 1942. Ef Þjóðverjar hefðu náð Íslandi í október 1940 urðu Kanar og Bretar að ná því til baka á þessu tímabili.

Annars hefði það dregist um allt að eitt ár.  

Ómar Ragnarsson, 14.7.2013 kl. 13:28

2 identicon

Er ekki frekar óvenjulegt (og jafnframt óhagstætt hérlendis, a.m.k. vestanlands) hvað þessi hæð hefur oft verið vestarlega (og jafnvel norðarlega) í sumar? Hæðarmiðjan hefur oft verið suður eða SSA af Hvarfi ef mér skjátlast ekki - og þá ekki jafn langt suður af Hvarfi eins og á kortinu sem sýnir meðalþrýsting.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 14.7.2013 kl. 23:00

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Ómar, þakka þér fyrir - og sömuleiðis. Það var frekar hryssingslegt veðurfar á þessu tímabili 1942, m.a. gerði mikinn hríðarbyl viku af október og var talað um mannhæðarháa skafla á Ísafirði og sjávargangur olli tjóni norðanlands. Snjór var síðan viðloðandi landið norðanvert. En það má vafalítið finna einhverja hagstæða innrásardaga. Í mjög fljótu bragði sýnist mér að dagar fram til 21. eða 22. september hafi verið bærilegir - en við getum athugað þetta betur. Björn. Þú hefur varla litið á kortin undir réttu horni. Hæðin hefur verið norðar en að jafnaði - en jafnframt austar. Suðsuðvestur af Hvarfi hafa lægðir verið óvenju þaulsetnar og hafa átt venju fremur greiða leið til landsins. Vestlæg staða Asóreyjahæðarinnar er ávísun á norðanáttir hér á landi, misillvígar þó.

Trausti Jónsson, 15.7.2013 kl. 01:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 20
  • Sl. sólarhring: 347
  • Sl. viku: 1594
  • Frá upphafi: 2350221

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 1467
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband