Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Enn af sýndarsnjónum

Nú er rúm vika síðan síðasti sýndarsnjórinn hvarf úr Esjunni. Við höfum áður fjallað um sýndarsnjóinn í harmonie-veðurlíkaninu hann fellur þar geymist um hríð og bráðnar síðan rétt eins og í raunheimum.

Sýndarsnjórinn fór að safnast á jökla og fjöll strax í september síðastliðið haust og hefur þar lifað af veturinn. Sá raunverulegi hefur gert það líka og mesta furða er hversu vel heimarnir hafa fylgst að.

Enn eru stórir skaflar í Esjunni - en líkanesjan veit ekkert af giljum og dældum og reyndar ekki skafrenning heldur. Við lítum á kort dagsins.

w-blogg020713a

Kortið batnar lítillega við stækkun og ættu tölurnar þá að sjást sæmilega. Mælieiningin fyrir magn snævar er kíló á fermetra. Minnstu greinanlegu fletir eru 2,5 km ferningar - ekki fjarri 6 ferkílómetrum. Menn geta dundað sér við að reikna út hversu mikið vatn felst á bakvið töluna 1. Snjódýptar er ekki getið - til að reikna hana út þurfum við að vita eðlismassa snævarins.

Mestur er snjórinn á Öræfajökli, hæsta talan er 9419 kg á fermetra, tæp 10 tonn. Síðan kemur Mýrdalsjökull með 9025 kg á fermetra. Talsverður snjór er enn utan jökla á háfjöllum á Norður- og Austurlandi. Smjörfjöll sunnan Vopnafjarðar vekja sérstaka athygli með yfir 3 tonn á fermetra þar sem mest er.

Þessa daga er kalt í veðri og snjóbráðnun hæg ef skýjað er. Meira að segja bætir lítilsháttar í snjóinn á háfjöllum Tröllaskaga og á norðanverðum jöklunum - sé að marka líkanið. Við bíðum spennt eftir því hversu mikill sýndarsnjór verður eftir í lok sumars. Þá verður líklega byrjað aftur á núlli.


Sérstakur mánuður

Nýliðinn júní var býsna sérstakur. Hiti var ofan við meðallag um land allt og norðaustanlands hafa aðeins fáir júnímánuðir mælst hlýrri en þessi. Sunnanlands var sólarlítið og góðir dagar fáir. Skilgreining hungurdiska telur þrjá sumardaga í mánuðinum i Reykjavík, það er talsvert lakari heldur en hefur verið undanfarin ár, þó þarf ekki að fara lengra aftur en til 2006 til að finna færri í júní - og langtímameðaltal segir þá að jafnaði aðeins vera 1 til 2, svipað eða minna en nú.

Sjá annars síðu nimbusar og uppgjör Veðurstofunnar.

Júlí byrjar heldur kuldalega - kuldapollur fer yfir á mánudag og honum fylgir nokkuð óstöðugt loft - en síðan virðast lægðir eiga að fara til austurs fyrir sunnan land fram eftir vikunni.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 44
  • Sl. sólarhring: 232
  • Sl. viku: 1009
  • Frá upphafi: 2420893

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 887
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband