Þrjár lægðir - sjö dagar

Þar sem má gera ráð fyrir um það bil tveimur dögum á lægð eru ekki margir dagar eftir til annars en afgreiðslu á þeim. En svona er nú matseðillinn frá föstudegi 5. júlí til fimmtudagsins 11.

Kortið að neðan gildir um hádegi á sunnudag og sýnir 500 hPa hæð auk þykktar og iðu (í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar). Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, en rauðar strikalínur sýna þykktina, bleikgráir blettir sýna iðuna (en við höfum ekki áhyggjur af henni hér).

w-blogg050713a

Föstudagslægðin er þarna komin langleiðina til Svalbarða. Hún er gerðarlegust lægðanna þriggja, reyndar með allra dýpstu háloftalægðum á þessum árstíma hér við land. Sjávarmálsþrýstingur er þó ekki nærri meti - því fremur kalt er í lægðarmiðjunni sem fer hratt hjá. Snjóa á í fjöll norðanlands í norðanáttinni á laugardagskvöld - kannski niður í 400 til 600 metra. Hríðinni fylgir hvassviðri eða stormur á fjöllum. En það gengur fljótt yfir.

Næsta lægð er miklu grynnri og er á kortinu á Grænlandshafi. Hún fer yfir á mánudag. Sunnudagurinn gæti orðið allgóður víða um land - en hvar vinningar birtast í því happdrætti vita hungurdiskar ekki.  Á kortinu má sjá smálægð langt suður í hafi og gæti hún orðið til þess að draga úrkomuna til suðurs þannig að lægðarmiðjan fari yfir landið sunnanvert eða jafnvel sunnan við á mánudaginn. Það eykur líkur á vænum dagpörtum.

Þegar mánudagslægðin er komin hjá gengur hæðarhryggur yfir landið. Sumar spár segja að honum fylgi talsvert hlýrra loft en það sem leikið hefur um okkur að undanförnu. Hæsta tala sem sést yfir landinu í spá evrópureiknimiðstöðvarinnar frá hádegi í dag (fimmtudag) er 5600 metrar - þá yfir Austurlandi seint á þriðjudagskvöld. Væri það á hádegi í léttskýjuðu veðri myndi það duga í 25 til 27 stiga hita - en hér er allt á hraðferð og um miðja nótt þannig að ekki lítur allt of vel út með að við sjáum slíkar tölur. Síðan á þykktin að hrapa um 250 metra (12 stig) fram á fimmtudag þegar fimmtudagslægðin fer hjá. Sú er leiðinleg sé að marka spár - en ekki eins djúp og sú fyrsta af þessum þremur.

Svo bíða fleiri lægðir - en það er allt í óljósri framtíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Trausti, haustlægðirnar ganga nú yfir landið í röðum með tilheyrandi roki og rigningu. Er óðahlýnunin enn að angra ykkur á Veðurstofunni?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.7.2013 kl. 19:47

2 identicon

Ekki nefna haustlægðir í júlí. Þetta eru sumarlægðir sem hafa líkingu við haustlægðir.!

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 6.7.2013 kl. 14:50

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Við eigum sem sagt ekki sjö dagana sæla!

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.7.2013 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 229
  • Sl. sólarhring: 236
  • Sl. viku: 2054
  • Frá upphafi: 2350790

Annað

  • Innlit í dag: 210
  • Innlit sl. viku: 1838
  • Gestir í dag: 204
  • IP-tölur í dag: 203

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband