Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013
29.6.2013 | 01:31
Hitabylgja í Bandaríkjunum suðvestanverðum
Fimmtíu stig á Selsíus-hitakvarðanum (°C) jafngilda 122 stigum á Fahrenheit. Þetta er ekkert venjuleg tala, en sést þó stundum. Þar á meðal þessa dagana í suðvestanverðum Bandaríkjunum. Ekki verður vitað fyrr en eftirá hversu hátt hitinn mun fara næstu daga - en sumir eru farnir að tala um 55 stigin. Það eru laugardagur og sunnudagur sem eru líklegastir til slíkra afreka.
Við lítum á hefðbundið háloftakort sem sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina á þessum slóðum.
Lesendur átta sig vonandi á landafræðinni. Sjá má Flórída og Kúbu neðantil til hægri og Suður-Grænland lengst uppi til hægri. Jafnhæðarlínur eru heildregnar á 60 metra bili, sú hæsta sýnir 5940 metra. Svo vill til að það er um það bil það mesta sem sést hefur hér við land. Þykktin er sýnd með litaflötum - við munum aldrei sjá hana verða svona mikla nærri okkur.
Litlu svörtu blettirnir sýna svæði þar sem þykktin er meiri en 5940 metrar. Sé loft mjög þurrt og sól hátt á lofti á heiðskírum himni eru 50 stigin líkleg. En muna þarf að hitinn fellur þá líka gríðarhratt að næturlagi þannig að bilið sem sólin þarf að vinna upp á kvarðanum er gríðarbreitt. - Sannleikurinn er sá að helst þarf vindur að blása af fjöllum til þess að næturhitahvörfin blandist hratt upp.
Ritstjóri hungurdiska hefur enga reynslu í að fást við svona mikla þykkt og enn síður hefur hann reynslu af staðháttum undir svarta blettinum - því þeir ráða svo miklu.
Þykkt af þessu tagi sést helst yfir Miðausturlöndum, Íran og Pakistan og þar hefur hún náð 6 kílómetrum. Sömuleiðis mun þykktin hafa náð 6 km í augum öflugra fellibylja - en raki og ský koma í veg fyrir að hiti þar verði mjög hár við sjávarmál.
Sést hefur í fréttum að veðurvitar sjái glitta í nýtt hitaheimsmet í Dauðadal í Kaliforníu - en sá góði staður á núgildandi heimsmet 56,7°C, 134°F. Það er reyndar vafasamt að mati ritstjóra hungurdiska. Hann er ekki einn um þá skoðun - en það er bara skoðun. Hvað um það - allt yfir 53 stigum telst til tíðinda - jafnvel í dalnum heita.
Á meðan þessu vindur fram sitjum við í kuldapollagarðinum miðjum og sjáum varla hærri hita á landinu en 14 til 16 stig - ekkert lát sést á því ástandi.
27.6.2013 | 00:38
Sumargæði í Reykjavík síðustu 90 árin
Fyrir nokkru reyndu hungurdiskar að telja sumardaga í Reykjavík. Í þeirri talningu kom í ljós að síðustu sumur hafa verið sérlega gæf hvað slíka daga varðar. Reyndar eru yfirburðir þeirra fram yfir fyrri sumur svo mikil að ótrúlegt má teljast. Nú er reynd önnur nálgun.
Hún fer þannig fram að litið er á fjóra veðurþætti. Þeir eru mánaðameðalhiti, mánaðarúrkoma, sólskinsstundafjöldi mánaða og úrkomudagafjöldi mánaða. Dagur er talinn úrkomudagur sé sólarhringsúrkoma einn millimetri eða meiri. Í upphafi var miðað við tímabilið 1933 til 2012 - 80 ár og hver mánaðanna júní, júlí og ágúst teknir sér.
Næst var júnímánuðum raðað frá þeim hlýjasta til þess kaldasta. Sextán hlýjustu mánuðirnir (fimmtungur úrtaksins) fengu einkunnina 1, næstu sextán 2 og þeir sextán köldustu fengu töluna fimm. Sömu aðferð var beitt á hinar breytistærðirnar þrjár, sólríkustu mánuðirnir fengu 1 í einkunn en sextán þeir lökustu töluna 5, þurrustu mánuðirnir og þeir sem fæsta áttu úrkomudagana fengu 1 í einkunn, en þeir votustu og úrkomutíðustu fengu 5. Eins og sjá má eru gæði hér metin að nútímahætti. Landbúnaður vill frekar að júní sé tiltölulega úrkomusamur en hlýr - en síðan taki þurrviðri með hlýindum við.
Að lokum eru tölur mánaðanna þriggja ár hvert lagðar saman. Því hærri sem talan er því laklegra var sumarið.
Nú verður að upplýsa að upphaflega ætlaði ritstjórinn að búa til eins konar hrakdagatal fyrir Reykjavík - í andstöðu við sumardagatalið. Í ljós kom hins vegar að virkilegir hrakdagar reyndust fáir og furðumörg sumur án slíkra daga. Sú aðferð sem notuð var reyndist sumsé misheppnuð (og þarf ekki að upplýsa meir um hana). Þá var gripið til aðferðarinnar að ofan - hugmyndin var að leita að rigningasumrum og rigningamánuðum. Þess vegna er hærri einkunn gefin fyrir verra veður - því hærri sem talan var því lakari er mánuðurinn.
En - þegar þetta var komið á mynd varð einhvern veginn ankannanlegt að bestu sumrin skyldu skora lægst. Lokahnykkurinn varð því sá að snúa lokakvarðanum við - á myndinni hér að neðan eru það því bestu sumrin sem fá hæsta einkunn. Tímabilið var síðan lengt aftur til 1921, en sömu einkunnabil notuð.
Eitt sumar skoraði á fullkomlega neikvæðan hátt - fékk núll í einkunn, allir veðurþættir allra mánaðanna fengu 5 - fullkomna skor á hrakviðrakvarðanum, en núll í gæði. Þetta er auðvitað hið illræmda sumar 1983. Ekkert sumar á tímabilinu náði mestu hugsanlegri gæðaskor, 48, en sumarið 2009 komst næst því með 41 stig. Sumur síðustu ára skera sig úr - eins og í sumardagatalningunni - en fá smásamkeppni frá árum í kringum 1930.
Topp-tíu listinn er svona:
röð | ár | gæðaeinkunn | |
1 | 2009 | 41 | |
2 | 1928 | 40 | |
2 | 1931 | 40 | |
4 | 2010 | 39 | |
4 | 2012 | 39 | |
6 | 2011 | 38 | |
7 | 1951 | 37 | |
7 | 1957 | 37 | |
7 | 2007 | 37 | |
10 | 1927 | 36 | |
10 | 1958 | 36 |
En minnt er á að þetta gildir fyrir Reykjavík - líklegt er að ámóta listi eigi við um landið suðvestanvert, en annar norðaustanlands. En lítum líka á botnsætin - þar ættu rigningasumrin að liggja:
röð | ár | gæðaeinkunn | |
1 | 1983 | 0 | |
2 | 1925 | 6 | |
2 | 1984 | 6 | |
4 | 1976 | 8 | |
5 | 1923 | 9 | |
6 | 1955 | 10 | |
6 | 1975 | 10 | |
6 | 1989 | 10 | |
9 | 1969 | 11 | |
10 | 1995 | 12 | |
11 | 1937 | 13 | |
12 | 1947 | 14 | |
13 | 1940 | 15 |
Af frægum rigningasumrum saknar maður helst sumarsins 1972 - en á listanum eru að öðru leyti góðkunningjar veðurnörda. Þau munu þó varla mörg muna 1925 - en það sumar á nokkuð óvænta innkomu - ritstjórinn hefði heldur veðjað á að 1926 væri í hópnum.
Tveir júnímánuðir (2008 og 2012) náðu toppskor (16 stigum) í gæðum en júní 1923, 1979 og 1983 liggja á botninum. Fimm júlímánuðir eru með fullt hús gæða (1936, 1939, 1957, 1958 og 2009), júlí 1925, 1983 og 1989 eru í botni (núll stig). Enginn ágústmánuður er með 16 stig, ástæðan er sennilega sú að sól hefur lækkað á lofti og mikill hiti og mikið sólskin falla síður saman þegar liðið er á sumarið - en það hlýtur samt að koma að því. Þrír ágústmánuðir eru með 15 stig, 1931, 1960 og 2011. Þrír ágústmánuðir ná engu stigi, 1937, 1976 og auðvitað 1983.
Af uppgjöri einstakra mánaða má sjá að fullteins góðir mánuðir hafi komið á árum áður og þau síðustu, en úthald sumra áranna frá og með 2009 hefur verið mjög sérstakt.
Hvar 2013 endar vitum við ekki, en júní virðist það sem af er liggja undir meðalgæðum samkvæmt matsaðferð dagsins.
Hér er auðvitað um leik að ræða en ekki loftslagsvísindi - lesendur hafi það í huga.
Viðbót: Listi um einkunnir einstakra mánaða og sumra er í viðhengi. Þar má einnig finna samskonar mat fyrir Akureyri. Verði þeim að góðu sem vilja neyta.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.6.2013 | 00:20
Kröftugar lægðir
Kuldapollurinn mikli sem sat allan fyrri hluta júnímánaðar yfir Norðuríshafi skipti sér í tvennt og tók vestari helmingurinn á skrið og fyrir helgina gekk hann til suðurs nokkuð vestan við Grænland og er á kortinu hér að neðan kominn nærri því að þeim stað sem góðkunningi aldinna veðurnörda, veðurskip Bravó sat á árum áður. Þetta er á milli Suður-Grænlands og austurstrandar Labrador.
Næst liggur leið pollsins til austurs og norðausturs í átt til Íslands og hann á síðan að halda áfram hraðferð sinni allt þar til hann er kominn á þann stað sem hringferðin hófst, yfir Norðuríshafi. En kortið sýnir stöðuna um hádegi á morgun, þriðjudag 25. júní. Öll kort pistilsins eru úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Eftir skiptinguna sat annar ámóta öflugur kuldapollur eftir yfir Norðuríshafinu og er á þessu korti við Ellesmereyju og á að verpa þar kuldaeggi sem fer til suðurs svipaða leið og sá fyrri. Í þessu tilviki eru allar þessar skiptingar hluti af rýrnunarferli kuldans á norðurslóðum, því enn eru nokkrar vikur í hásumar.
En eins og venjulega eru jafnhæðarlínur heildregnar en þykktin er sýnd með litaflötum. Blái liturinn sýnir svæði þar sem þykktin er minni en 5280 metrar - það er næturfrostaþykkt hér á landi á þessum árstíma. Dekkri blái liturinn er byrjar við 5220 metra en við svo lága þykkt getur gert slydduél á láglendi. Sjávarylur og sólskin sjá vonandi um að forða okkur frá slyddunni að þessu sinni - en enn telst óvíst með næturfrostið.
Þegar kuldapollurinn mætir hlýrra lofti úr suðri getur mikil lægðadýpkun átt sér stað á austurjaðri hans. Næsta mynd sýnir spá sem gildir kl. 6 á miðvikudagsmorgni (26. júní).
Þarna er lægðin, á vestanverðu Grænlandshafi. Evrópureiknimiðstöðin telur hana verða um 977 hPa í miðju og hirlam-reiknilíkanið gerir hana enn dýpri. Þetta er óvenjulegt á þessum árstíma. Í lok síðustu viku gekk óvenjuöflug lægð beint til austurs fyrir sunnan land og kom ekki við sögu hér. Vestan við hana steig loftvog mest um 15 hPa á 3 klst sem er fáheyrt á þessum árstíma.
Við höfum séð dýpri lægðir en 977 hPa undir lok júnímánaðar og í júlí - en ekki mikið meira en svo. Í þessari lægð er miðjan svo köld að þessi lága þrýstitala felur enn dýpri háloftalægð sem sést á næsta korti.
Hér eru jafnhæðarlínur enn heildregnar, litafletirnir sýna nú hita í 500 hPa og sömuleiðis má sjá vindörvar gefa styrk og stefnu. Það sem er merkilegast á kortinu er talan við háloftalægðina, 5140 metrar. Þetta er einhver lægsta tala sem sést hefur á 500 hPa-korti hér við land að sumarlagi. Varlegt er að fullyrða að um met sé að ræða en það er alla vega ekki fjarri því. Lægðin á að grynnast heldur áður en hún fer yfir landið á fimmtudagskvöld eða föstudag.
Það er erfitt að komast út úr svona kuldapollakraðaki. Það vill til að sól er hátt á lofti og hitar vel og vandlega þegar hún fær að skína, en ósköp er þetta aumt í bleytu og trekki.
En - verra gat það orðið. Fyrir tveimur dögum var spá fyrir þetta sama lægðakerfi enn verri. Þá átti ný og minni lægð að komast í tengsl við kuldapollinn og var vindi í 100 metra hæð sunnan við lægðarmiðjuna spáð 36 m/s. Ritstjórinn minnist þess varla að hafa séð svo mikinn vind við lægðarmiðju að sumarlagi - óstuddan af fjallgörðum eða landslagi. Við látum það spákort fylgja með sem viðhengi (jpg-skjal) svo lesendum hætti ekki til að rugla því saman við það sem nú er spáð. Lægðarmiðjan litla sem sést á viðhengiskortinu finnst ekki á spákortum dagsins í dag - vonandi rís hún ekki upp að nýju í þriðjudagsspánum.
21.6.2013 | 00:28
Fyrsti sumardagurinn í ár (í Reykjavík)
Það var varla búið að skilgreina sumardaga og jafnframt kvarta yfir algjörri fjarveru þeirra í ár þegar sá fyrsti dettur inn. Sé tekið mark á skilgreiningunni telst 20. júní fyrsti sumardagurinn í Reykjavík í ár (en er auðvitað ekki sumardagurinn fyrsti). Þá er bara spurningin hversu margir þeir verða.
En þeir eru þegar orðnir 15 á Akureyri.
Munið þó að skilgreining hungurdiska (sjá næsta pistil á undan þessum) er ekkert betri en hver sú önnur sem menn velja sér. Vonandi hafa lattelepjendur, bjórþambarar og grillir notið blíðunnar utandyra. Ritstjórinn sá þó ekki mjög marga á fæti né á hjólum í austurhverfi borgarinnar fyrr í kvöld - ætli þeir hafi ekki stokkið á fjöll.
20.6.2013 | 00:37
Af sumardagatalningum
Almannarómur segir sumardaga hafa verið fáa suðvestanlands það sem af er júnímánuði. Við skulum gefa okkur að það sé rétt og skilgreinum sumardag því þannig að enginn dagur fram til þessa 2013 teljist slíkur. Það tók reyndar ekki langan tíma að finna skilgreiningu. Hún er útlistuð hér að neðan. Varla þarf að taka fram að ekki má taka niðurstöðum of bókstaflega.
Við lítum á daglegar athuganir í Reykjavík klukkan 12, 15, 18 og 21. Þetta er algengur grilltími, en tekur ekki til morgunathafna - enda segjast menn þá vera svo hressir að veðrið skipti engu máli. Við viljum að það sé alveg úrkomulaust að minnsta kosti þrjá af þessum athugunartímum, við setjum okkur líka fyrir að úrkoma frá 9 til 18 mælist minni en 2 mm. Þetta þýðir að við leyfum skammvinna smáskúr. Við viljum líka að ekki sé alskýjað á öllum athugunartímunum fjórum - en erum að öðru leyti ekki kröfuhörð á sólina. Að lokum viljum við að meðalhiti athugunartímanna fjögurra sé að minnsta kosti 13,1 stig - eða að hámarkshitinn kl. 18 sé meiri en 15 stig.
Menn getur auðvitað greint á um það hversu skynsamleg skilgreining þetta er en athugum hvað talning sem nær yfir árin frá og með 1949 til og með 2012 sýnir á mynd.
Já, þetta er svona í raun og veru. Sumrin 2010, 2011 og 2012 eru langefst á listanum, sjónarmun ofar en sumarið 2003 sem er í fjórða sæti. Eina sumarið sem nær yfir 35 daga fyrir 2003 er 1958, en þá voru reyndar 11 sumardagar í september - það mesta á öllu tímabilinu. Einnig taldist 1. október til sumardaga það ár. Í frækilegu neðsta sæti er auðvitað sumarið 1983 - margfrægt fyrir sérleg ömurlegheit - gaman þó (eftirá) að hafa upplifað það. Einn dagur það árið - ekki þó alveg sumarlaust. Nokkur sumur önnur eru litlu betri.
Meðalsumardagafjöldi áranna 1961 til 1990 er aðeins 13 dagar, en meðaltal síðustu 10 ára er 39 dagar - þrefalt á við hið venjulega ástand. Geta menn nú kviðið fyrir afturhvarfinu.
Það hefur alloft gerst að enginn sumardagur hefur látið sjá sig þann 20. júní, tuttugu sinnum á 64 ára tímabilinu - nærri þriðja hvert ár að jafnaði. Biðin í ár er því langt í frá vonlaus. Lengst var biðin eftir fyrsta sumardeginum árið 1989 - beðið var til 31. júlí, fjórir urðu þeir alls það sumarið.
Við skulum líka líta á ástandið á Akureyri. Á þeim lista má reyndar sjá daga í mars, apríl, nóvember og 1 dag í desember. Þessir aukadagar eru svo fáir að þeir hafa lítil áhrif á talninguna (en fá að vera með).
Við sjáum hér að tíminn frá 1995 til okkar daga er vel yfir eldra meðallagi. Síðustu tíu ár gáfu að meðaltali 48 sumardaga (9 fleiri en í Reykjavík), en á tímabilinu 1961 til 1990 var fjöldinn að meðaltali 37 dagar - 24 dögum fleiri en í Reykjavík á sama tímabili. Reykjavík hefur því mjög halað á Akureyri hvað sem svo síðar verður.
Sumarið 1979 á fæsta sumardaga á tímabilinu og 1993 litlu fleiri. Flesta daga á sumarið 1955 en það er eitt frægasta rigningasumar sögunnar á Suðurlandi (ekki nærri því eins kalt þó og 1983). Næstflestir voru sumardagarnir á Akureyri 1976 og svo er 2004 í þriðja sæti.
Mestur munur á sumardagafjölda í Reykjavík og á Akureyri er 53 - þannig var það sumarið 1955. Sumardagarinir eru nærri því alltaf fleiri fyrir norðan heldur en í Reykjavík, þó hefur það þrisvar snúist við. Það var 1950, 1958 og 2011. Á Akureyrarmyndinni sést að árabilið 1975 til 1978 var sérlega sumardagagæft á Akureyri, meðaltalið var þá 50 á ári (svipað og síðustu 10 árin). Þessi ár voru sumardagarnir í Reykjavík í meðaltali (1961 til 1990).
Eins og fram kom í upphafi má ekki taka þessum talningum of alvarlega - þetta er til gamans gert. Ekki ætti að nota niðurstöðurnar sem rökstuðning fyrir einu né neinu og mun ritstjórinn ekki taka undir slíkt.
Pistlar hungurdiska verða eitthvað færri á næstunni heldur en vant er sökum sumarleyfa - en falla þó ekki alveg niður.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.6.2013 | 01:11
Sitja enn eftir
Fyrir viku var hér fjallað um hæsta hita ársins á öllum sjálfvirkum veðurstöðvum landsins. Í dag hjökkum við í sama fari og kynnum uppfærðan lista. Hann má nálgast í viðhenginu.
Á listanum má sjá að stigin 15,4 sem mældust á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga hanga enn inni sem hæsti hiti ársins þar á bæ. Heldur einkennilegt (en ekki einstakt). Fáeinar stöðvar sitja enn eftir með maíhita efstan á blaði. Þær má sjá í töflunni hér að neðan. Tölur í °C.
ár | mán | dagur | klst | hæst | nafn | |
2013 | 3 | 1 | 14 | 15,7 | Dalatangi | |
2013 | 5 | 8 | 18 | 15,0 | Skálafell | |
2013 | 5 | 10 | 14 | 12,6 | Brúarjökull B10 | |
2013 | 5 | 13 | 16 | 14,8 | Skarðsfjöruviti | |
2013 | 5 | 16 | 16 | 11,6 | Stórhöfði | |
2013 | 5 | 16 | 17 | 11,8 | Surtsey | |
2013 | 5 | 17 | 13 | 10,9 | Bláfjöll |
Hitinn á Skálafelli þann 8. maí er reyndar grunsamlegur - en hefur ekki verið afskrifaður. Sömuleiðis kann að vera einhver bilun í Bláfjöllum. Tölur frá öðrum stöðvum eru hins vegar raunverulegar. Á Stórhöfða, Skarðsfjöruvita, í Surtsey og á Brúarjökli hefur hiti ekki enn komist hærra en hann varð þessa maídaga.
Aðrar stöðvar hafa endurnýjast. Reyndar þrjár í dag (þriðjudaginn 18. júní). Það eru:
ár | mán | dagur | klst | hæst | nafn | |
2013 | 6 | 18 | 16 | 14,1 | Seljalandsdalur - skíðaskáli | |
2013 | 6 | 18 | 17 | 16,9 | Ísafjörður | |
2013 | 6 | 18 | 17 | 16,1 | Súðavík |
Ísafjörður og Súðavík áttu sinn hlýjasta dag nú síðdegis. Á listanum má sjá að 17. júní var hvergi á landinu hlýjasti dagur ársins.
Reiknaðar veðurspár benda til þess að varla geri hlýindahrinu næstu daga - en þó hlýtur að vera von til þess að þær stöðvar í byggð sem hingað til hafa ekki enn náð 13 stigum hljóti að geta gert betur - jafnvel þótt tíð verði frekar svöl. Fyrir utan Stórhöfða hafa stöðvarnar í kaupstaðnum í Vestmanneyjum og í Grindavík enn ekki náð 13 stigunum í ár. Ein stöð á hálendinu hefur ekki enn náð 10 stigum, sú í Tindfjöllum.
Þeir sem afrita skrána inn í töflureikni geta raðað henni að vild, t.d. eftir stöðvanöfnum.
18.6.2013 | 00:54
Hlýtt þar - kalt hér
Þar, í fyrirsögninni, vísar til hlýinda í Mið-Evrópu. Hlýr strókur sunnan frá Miðjarðarhafi gengur þar til norðausturs í vikunni. En á eftir fylgir lægðardrag með þrumum og kaldara veðri. Þetta sést á kortinu hér að neðan. Það er frá evrópurreiknimiðstöðinni og gildir kl. 18 á fimmtudag (20. júní).
Jafnhæðarlínur eru heildregnar og sýna lægðir, lægðardrög og hæðarhryggi. Litafletir sýna þykktina. Hún er meiri en 5700 metrar á stóru svæði sem rétt snertir Danmörku og Svíþjóð og nær alveg suður til Miðjarðarhafs. Smáblettur sýnir meiri þykkt heldur en 5760 metra. Nýleg úrkoma sem olli flóðum á svæðinu er líkleg til að draga heldur úr hámarkshita - mikil orka fer í að láta bleytuna gufa upp. Þó eru hitaaðvaranir í gildi í að minnsta kosti Austurríki, Tékklandi og hluta Póllands auk sumra Balkanlanda.
Lægðin yfir Frakklandi fer til norðausturs og henni fylgja miklir þrumugarðar og öllu svalara veður. Hér á landi sitjum við hins vegar uppi með þykkt á bilinu 5340 til 5400 metra. Það er allt of lágt - hámarkshiti á landinu nær 15 til 18 stigum þar sem sólin skín. Allt umfram það telst sérstök heppni. Og ekki allt búið enn.
17.6.2013 | 01:31
Myndarleg lægð
Lægðin sem stefnir hingað að kvöldi 17. júní er nokkuð djúp. Þrýstingi í lægðarmiðju er spáð niður fyrir 980 hPa á þriðjudaginn. Svo djúpar lægðir koma ekki að landinu á hverju ári í júnímánuði.
Spár eru ekki sammála um hversu lágt þrýstingurinn fer hér á landi - en hann gæti þó orðið lægri heldur en síðan 2002 - í júnímánuði að segja. Þá gerði eftirminnilegt illviðri einmitt þann 18. júní og segja sumir að þar með hafi sumrinu lokið það árið - því það stórsá á gróðri.
Fyrri hluti júnímánaðar 2002 var fádæma góður og náði hiti í Reykjavík þá 22,4 stigum - einstakt svo snemma sumars.
Lægðin núna verður vonandi ekki nærri því svo slæm en við sjáum þó á kortinu hér að neðan að þrýstilínur eru þéttar sunnan og suðaustanvið lægðarmiðjuna. Vindur þar gæti farið í 15 til 20 m/s þar sem mest er.
Kortið er fengið úr hirlam-reiknilíkaninu og gildir kl. 9 á þriðjudagsmorgni 18. júní. Þrýstilínur eru dregnar með 2 hPa bili og þrýstibratti sýnist því meiri heldur en er á kortum þar sem 4 eða 5 hPa eru notuð milli lína - en það er algengast.
16.6.2013 | 01:00
Daufur 17. júní ?
Varla er hægt að segja að veðurspá fyrir þjóðhátíðardaginn sé vond - kannski veðrið komist nálægt því að vera svosem ekki neitt. Hafátt er sjaldan hlý um hásumar sé jafnframt skýjað. Svo eru líkur á síðdegisskúrum inn til landsins. Íbúar Norður- og Austurlands eru að sögn heldur betur settir - e.t.v. nægir suðvestanáttin þar til að halda þokuloftinu úti á sjó - fari svo verður hiti þar meiri en 15 stig þar sem best lætur. En lesendur eru hvattir til þess að lesa textaspár á vef Veðurstofunnar - á þeim bæ er fylgst mun betur með heldur en hér á hungurdiskum.
En við lítum samt á hefðbundið spákort sem gildir kl. 15 síðdegis þann 17. júní.
Þarna má sjá að sunnanátt er spáð yfir landinu í heild - von til þess að hún verði hafgolubani nyrðra. Sjá má lægð á suðvestanverðu Grænlandshafi, sú hreyfist austur og þess vegna fylgja henni engin hlýindi. Þau virðast ekki heldur eiga að fylgja lægðinni þar á eftir (yfir Austur-Kanada á kortinu) því hún á að fara svipaða leið og sú fyrri síðar í vikunni.
Hlýtt loft er víðs fjarri. Það má þó sjá yfir Alpalöndum á kortinu - hiti í 850 hPa er þar yfir 20 stig. Svo virðist sem mjög snörp hitabylgja sé í pípunum þar um kring því þykkt er spáð upp undir 5760 metra um og fyrir. En hún stendur e.t.v. ekki nægilega lengi við til að met fari að falla.
15.6.2013 | 01:26
Þunn sneið
Síðdegis á laugardag (15. júní) stefnir smár kuldapollur til suðsuðausturs skammt fyrir norðaustan land. Hann er ekki einungis smár um sig heldur nær hann líka mjög skammt upp á við og er að því leyti dálítið merkilegur. Kortið hér að neðan sýnir stöðuna í 925 hPa fletinum kl. 21. Það er fengið úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Sú sem liggur yfir Austurland sýnir að hæð 925 hPa-flatarins er þar 740 metrar. Vindur er mestur þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttastar og stefna hans fylgir línunum að mestu leyti. Stóra örin bendir á miðju kuldapollsins. Af vindinum má sjá að dálítil lægðarhringrás er í kringum hann. Í miðjunni er tveggja stiga frost.
Förum nú upp í 850 hPa. Táknmálið er það sama nema hvað litakvarðinn er ekki sá sami. Þeir sem vilja sjá það geta stækkað kortin. Hér er það 1420 m jafnhæðarlínan sem strýkur Austurland.
Hér bregður svo við að hlýjast er þar yfir sem kaldast var á efra kortinu. Lægðarhringrásin er veikari í 850 hPa en var niðri í 925 hP. Hitinn +2,4 stig yfir miðjunni. Hvernig er nú með þetta?
Skýringarnar geta verið fleiri en ein. Ritstjóranum finnst líklegast að sneiðin kalda hafi orðið til í lægstu lögum yfir Austurgrænlandsísnum, misst þar fótanna og runnið til suðurs. Þegar hún breiðir úr sér dregst loftið næst fyrir ofan niður og hlýnar. Það sést vel á 850 hPa-kortinu. Raunar slitnaði sneiðin frá umfangsmeira kuldasvæði norðurundan (sést ekki á þessum kortum) - eins konar fingrum úr kuldapollinum stóra í Norðuríshafi sem kom við sögu í pistli gærdagsins.
Hluti sneiðarinnar snertir Norðausturland á aðfaranótt sunnudags. Sneið sem þessi sést nánast hvergi nema á 925 hPa-kortinu. Mættishiti í 850 hPa fylgir hitanum og er eins og hann hæstur í miðju hringsins. Sama gerist á hefðbundnum þykktarkortum - þar sést lítil miðja hlýrri heldur en umhverfið. Ekki auðvelt við að eiga - en skiptir litlu máli.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 120
- Sl. sólarhring: 144
- Sl. viku: 955
- Frá upphafi: 2420770
Annað
- Innlit í dag: 111
- Innlit sl. viku: 843
- Gestir í dag: 106
- IP-tölur í dag: 105
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010