Þunn sneið

Síðdegis á laugardag (15. júní) stefnir smár kuldapollur til suðsuðausturs skammt fyrir norðaustan land. Hann er ekki einungis smár um sig heldur nær hann líka mjög skammt upp á við og er að því leyti dálítið merkilegur. Kortið hér að neðan sýnir stöðuna í 925 hPa fletinum kl. 21. Það er fengið úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg150613a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Sú sem liggur yfir Austurland sýnir að hæð 925 hPa-flatarins er þar 740 metrar. Vindur er mestur þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttastar og stefna hans fylgir línunum að mestu leyti. Stóra örin bendir á miðju kuldapollsins. Af vindinum má sjá að dálítil lægðarhringrás er í kringum hann. Í miðjunni er tveggja stiga frost.

Förum nú upp í 850 hPa. Táknmálið er það sama nema hvað litakvarðinn er ekki sá sami. Þeir sem vilja sjá það geta stækkað kortin. Hér er það 1420 m jafnhæðarlínan sem strýkur Austurland.

w-blogg150613b

Hér bregður svo við að hlýjast er þar yfir sem kaldast var á efra kortinu. Lægðarhringrásin er veikari í 850 hPa en var niðri í 925 hP. Hitinn +2,4 stig yfir miðjunni. Hvernig er nú með þetta?

Skýringarnar geta verið fleiri en ein. Ritstjóranum finnst líklegast að sneiðin kalda hafi orðið til í lægstu lögum yfir Austurgrænlandsísnum, misst þar fótanna og runnið til suðurs. Þegar hún breiðir úr sér dregst loftið næst fyrir ofan niður og hlýnar. Það sést vel á 850 hPa-kortinu. Raunar slitnaði sneiðin frá umfangsmeira kuldasvæði norðurundan (sést ekki á þessum kortum) - eins konar fingrum úr kuldapollinum stóra í Norðuríshafi sem kom við sögu í pistli gærdagsins.

Hluti sneiðarinnar snertir Norðausturland á aðfaranótt sunnudags. Sneið sem þessi sést nánast hvergi nema á 925 hPa-kortinu. Mættishiti í 850 hPa fylgir hitanum og er eins og hann hæstur í miðju hringsins. Sama gerist á hefðbundnum þykktarkortum - þar sést lítil miðja hlýrri heldur en umhverfið. Ekki auðvelt við að eiga - en skiptir litlu máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Ágúst 2020
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

 • ar_1871p
 • ar_1871t
 • ar_1870p
 • ar_1870t
 • w-blogg010820a

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (7.8.): 81
 • Sl. sólarhring: 120
 • Sl. viku: 1339
 • Frá upphafi: 1951024

Annað

 • Innlit í dag: 72
 • Innlit sl. viku: 1131
 • Gestir í dag: 62
 • IP-tölur í dag: 62

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband