Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Raunverulegur og reiknaður snjór

Á Veðurstofunni er í gangi reikniverkefni. Háupplausnarveðurlíkan sem kallað er harmonie reiknar spár án afláts rétt rúma tvo sólarhringa fram í tímann. Að mörgu er að hyggja þegar slíkt er gert með aðeins fárra kílómetra upplausn. Eitt af því sem nauðsynlegt er að vita er hvort landið er snævi hulið eða ekki.

Í vetur hefur verið gerð tilraun til að láta líkanið sjálft búa snjóhuluna til. Það var núllstillt í haust með snjólausu landi (utan jökla) og síðan hefur snjóað og bráðnað í líkaninu í allan vetur. Svo virðist sem talsvert vit sé í þessari reiknuðu snjóhulu - en nú fara hlutirnir að verða spennandi. Tekst líkaninu að bræða allan vetrarsnjóinn á eðlilegan hátt á næstu vikum og mánuðum? Það er fyrirfram ekki víst.

En við skulum líta á snjóhuluna eins og líkanið segir hana verða síðdegis á fimmtudag (9. maí). Við þökkum harmoniehóp Veðurstofunnar fyrir útsjónasemina og gera tilraunina jafnframt sýnilega.

w-blogg090513a

Á brúnu svæðunum er snjólaust, en kvarðinn frá gráu yfir í hvítt táknar mismunandi magn snævar. Á dekkstu svæðunum er sáralítill snjór -  en mikill á þeim hvítu. Kvarðinn sýnir ekki snjódýptina heldur er magnið tilfært sem vatnsgildi í kílóum á fermetra. Sýnist líkaninu að magnið sé meira en 200 kg á fermetra er hvíti liturinn notaður. Tölur eru á stangli um kortið, misháar. Athuga þarf að þær eru settar við hámörk í snjómagninu og eiga því flestar við um snjó á fjöllum og fjallatindum.

Sé kortið borið saman við gervihnattamyndir og snjóathuganir á veðurstöðvum virðist sem talsvert vit sé í kortinu. En eins og áður sagði skera næstu vikur um það hversu vel þessi fyrsti vetur með reiknuðum snjó kemur út.  

Athyglisvert er að líta á hæstu tölurnar (kortið batnar lítillega við stækkun). Sú alhæsta er á Öræfajökli 8948. Tæp 9 tonn á fermetra af vetrarsnjó þar. Mestöll úrkoma fellur þar sem snjór á vetrum og talan ætti því að samsvara úrkomumagni sem fallið hefur frá því í september (um 8 mánuðir). Næsthæst er talan á Mýrdalsjökli, 8554 kg á fermetra.

Það er sérlega athyglisvert að snjómagnið á Drangajökli er 5305 kg á fermetra, um 2000 kg meira heldur en á Langjökli og Hofsjökli. Hæsta talan á Tröllaskaga er 2491 kg á fermetra og á skaganum austan Eyjarfjarðar (nafnakeppnin stendur víst enn yfir) er hæsta gildið 2968 kg á fermetra. Talan á Snæfellsjökli er ívið lægri, en hafa verður í huga að hann er aðeins lægri í líkaninu heldur en í raunveruleikanum. Á Austurlandi eru Smjörfjöll sunnan Vopnafjarðar með býsna háa tölu, 3622 kg á fermetra.

Rétt er að ítreka að háu tölurnar eiga við fjöll en ekki byggðir.

En líkanið heldur ekki aðeins utan um ákomu heldur líka bráðnun. Hér að neðan er reiknuð 12 tíma bráðnun (og ákoma) á fimmtudag 9. maí.

w-blogg090513b 

Það virðist hvergi eiga að bæta í snjó nema á smábletti á Mýrdalsjökli, þar segir líkanið að 6 kg á fermetra eigi að bætast við snjómagnið. Bráðnunin er mjög mismikil, sjá má tölur á bilinu 10 til 12 kg á fermetra á allmörgum stöðum. Í innsveitum norðaustanlands eru gildi á bilinu 5 til 9 kg á fermetra nokkuð algeng.


Leitað að hlýju lofti (ekki handa okkur)

Þó verið sé að leita þarf ekki að vera að verið sé að leita eftir einhverju handa okkur. Við leitum sum sé að hlýju lofti - ekki handa okkur - bara hlýju. Ekki hvaða hlýja lofti sem vera skal heldur því hlýjasta á markaðnum í dag. Leitinni lýkur um það bil um leið og hún hefst því þykktarkort evrópureiknimiðstöðvarinnar er við höndina.

Þetta er sama kortið og hungurdiskar eru alltaf að rýna í - eini munurinn er sá að búið er að snúa því þannig að Indland er nú neðst en Síbería og norðurskautið efst.

w-blogg080513a

Austurhluti Íslands er sýnilegur til vinstri við norðurskautið. Hægri jaðar  myndarinnar liggur um Tæland, Kína og Síberíu. Eins og venjulega eru jafnhæðarlínur heildregnar en þykktin er sýnd með litum. Ísland slefar inn í græna litinn - sem er svo sem sæmilegt miðað við ástandið að undanförnu. Dekksti brúni liturinn þekur svæði þar sem þykktin er meiri en 5880 metrar.

Grófleg þumalfingursregla segir að hitinn hækki um eitt stig fyrir hverja 20 metra aukna þykkt. Það er dálítið álitamál hvar núllið er - það fer eftir stað og árstíma. Í maí má hér á landi setja það við 5180 metra. Ef við gerum það fáum við út 35 stiga hita við 5880 metra þykkt. Það er einskonar meðalhiti sólarhringsins. Jarðvegur er skraufþurr á Indlandi á þessum tíma árs - og sólin ekki mjög fjarri hvirfilpunkti. Mikið kólnar á björtum nóttum - líka á Indlandi. Dægursveiflan er stór - ábyggilega 20 til 30 stig.

Þetta eru allt þumalfingursútreikningar í losaralegum huga ritstjórans, tökum þá ekki allt of bókstaflega. Alvöru spár gera ráð fyrir 45 stiga hámarkshita að deginum í innsveitum Indlands á þeim tíma sem kortið gildir og að í 850 hPa hæð fari hann yfir 30 stig.

Maí er hlýjasti mánuður ársins á Mið-Indlandi. Í júní taka heldur svalari monsúnrigningar völdin. Algengt mun að hámarkshiti fari í 40 stig í maí - en allt yfir 45 telst mjög mikið. Indland er þessa dagana hlýjasta landsvæði jarðar en það er nærri því eins hlýtt við suðurjaðar Saharaeyðimerkurinnar í Afríku. Þegar rigningarnar taka við á Indlandi færist hlýjasta svæðið vestur til Pakistan og enn vestar. Landamærasvæði Bandaríkjanna og Mexíkó eru einnig á uppleið.

Hæsti hiti á Indlandi er umdeildur. Metin má sjá bæði á wikipediu og á illblárri en að öðru leyti frábærri metasíðu Maximilliano Herrera. Maximilliano vinnur hörðum höndum að því að stinga á slæmum metakýlum víða um lönd og hefur orðið vel ágengt.

En hitinn þarna suðurfrá kemst aldrei norður til Íslands. Mesta þykkt sem vitað er um yfir Íslandi er 5660 metrar og hæsti mældi 850 hPa hiti yfir Keflavíkurflugvelli er 14 stig. Eitthvað hærri hiti hefur sést í tölvugreiningum.

Hér á landi hefur hæsti hiti það sem af er ársins komist í rúm 15 stig, Það var í lok febrúar og byrjun mars. Hvað verður biðin löng eftir stigunum sextán? Hvenær fáum við fyrstu 20 stig sumarsins? Rifja má upp fjögurra ára gamlan fróðleikspistil um 20 stiga mörkin á vef Veðurstofunnar.

Þar kemur fram að á síðari árum er meðaldagsetning fyrstu 20 stiga ársins þann 23. maí á sjálfvirku stöðvunum.


Snjóalög í maí

Snjólag hefur verið athugað á veðurstöðvum hér á landi frá 1921. Meðaltöl fyrir landið allt og landshluta eru til aftur til 1924. Fyrstu árin voru stöðvar þó fáar og e.t.v. varlegt að taka allt of mikið mark á meðaltölunum þau ár. En við reiknum samt.

Snjólagsathugun fer þannig fram að veðurathugunarmaður athugar hvort jörð sé alhvít, flekkótt eða alauð. Meðaltal fyrir stöðina er reiknað þegar allar athuganir hafa borist Veðurstofunni og nokkrum mánuðum síðar liggur meðaltal allra stöðva í mánuðinum fyrir.

Nú hefur verið óvenjusnjóþungt í útsveitum nyrðra og einnig víða inn til landsins um landið norðaustanvert. Sömuleiðis er enn alhvítt víða á Vestfjörðum en snjómagn virðist vera minna á þeim slóðum heldur en þar sem það er mest norðanlands.

Snjóhula hefur verið athuguð við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum frá 1970. Myndin sýnir snjóhulu og fjölda alhvítra daga á stöðinni á árunum 1971 til 2012 (42 ár).

w-blogg070513a

Myndin er nokkuð óróleg þannig að smástund tekur að rýna í hana áður en allt er ljóst. Lárétti ásinn sýnir árin. Kvarðinn til vinstri sýnir snjóhulu mánaðarins í prósentum (blái ferillinn). Sé hún hundrað prósent hefur verið alhvítt allan mánuðinn, sé hún núll hefur jörð verið alauð. Kvarðinn til hægri sýnir fjölda alhvítra daga í maí (gráir fletir og lína). Takið eftir því að hann nær yfir fleiri daga heldur en eru í mánuðinum. Græna punktalínan sem nær þvert yfir myndina sýnir hvar 31 degi er náð.

Á 42 árum hefur einu sinni verið alhvítt við Skeiðsfossvirkjun allan mánuðinn, 31 alhvítur dagur og snjóhula því 100 prósent. Þetta var 1995. Í átta maímánuðum hefur aldrei orðið alhvítt, síðast 2010. Enginn mánuður hefur verið alauður. Litlu munaði þó 1974 en þá var jörð talin flekkótt einn dag.

Langvinnur snjór í maí er oftast leif af meiri snjó fyrr á árinu. En stundum bætir á. Þar sem snjór fellur á snjó bráðnar hann mun síður en ef hann fellur á auða jörð sem e.t.v. hefur verið böðuð sól daginn áður. Þetta sést vel þegar snjóalög í maí á Norður- og Suðurlandi eru borin saman.

w-blogg070513b

Lárétti ásinn sýnir ártöl. Hér er kvarðinn lengri heldur en á fyrri myndinni, nær aftur til maí 1924 og fram til maí 2012. Lóðréttu kvarðarnir sýna meðalsnjóhulu landshluta. Gráu súlurnar tákna meðalsnjóhulu norðanlands, Norðurland nær hér frá Önundarfirði austur á Vattarnes. Snjóléttar sveitir Húnavatnssýslu eru taldar með. Rauðu punktarnir sýna snjóhulu á landinu sunnanverðu.

Gríðarlegur munur er á landshlutunum. Það er aðeins einn maímánuður syðra sem slefar upp í tæp 20%. Þetta var 1949 - frægur mánuður, síðan koma í röð maí 1989, 1979 og 1990.

Það er maí 1979 sem er snjóþyngstur nyrðra, síðan 1949, 1924 og 1995. Sé litið á tímabil kemur í ljós að árin í kringum 1950 eiga sérlega snjóþung vor á Norðurlandi - fóru þá saman snjóþungir vetur og köld vor. Maímánuðir hafísáranna um og fyrir 1970 voru einnig drjúgsnjóþungir þótt enginn þeirra sé í toppbaráttunni, 1968 komst næst því.

Hvernig svo fer að þessu sinni vitum við ekki en sól hækkar á lofti og dagurinn lengist. Munar mikið um hvern bjartan dag á snjóasvæðum jafnvel þótt hiti fari ekki mjög hátt.

Smáviðbót degi síðar:

Í framhaldi af 100 prósent snjóhulu maímánaðar við Skeiðsfossvirkjun 1995 var ritstjórinn spurður um fleiri slík tilvik. Það er ekki oft sem snjóhula hefur verið 100 prósent á veðurstöð. Listinn er í viðhenginu sem fylgir pistlinum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sumarið handan við hornið í heiðhvolfinu

Á hverju vori snýst vindur ofan við 18 til 20 km hæð úr vestri til austurs. Hæð yfir norðurslóðum tekur við af lægð vetrarins. Þá aftengist hringrás heiðhvolfs og veðrahvolfs. Neðan við 15 til 18 km hverfur norðurslóðalægðin sjaldnast alveg þannig að vestanátt er oftast ríkjandi þar á sumrin. En afl hennar þverr mjög á sama tíma og skiptin verða ofar. Um mánaðarskeið, í júlí og fyrstu daga ágústmánaðar, er vestanáttin í lágmarki.

Ein af þeim hugmyndum sem er í gangi varðandi veðurfarsbreytileika er að í mjög hlýju veðurfari fyrir milljónum ára hafi hringrásin í veðrahvolfinu snúist við á sumrin - rétt eins og heiðhvolfshringrásin. Sannleikurinn er sá að við núverandi veðurfar munar ekkert óskaplega miklu að það gerist. Það myndi e.t.v. nægja aðf sólin héldist í sumarsólstöðuhæð í fáeinar vikur (sem gerist auðvitað ekki). Aukin gróðurhúsaáhrif gætu hugsanlega valdið umsnúningi veðrahvolfshringrásarinnar að sumarlagi.

Í 30 hPa-þrýstifletinum verða áttaskiptin yfir Íslandi nær alltaf á tímabilinu 15. apríl til 10. maí. Það má halda því fram að þetta sé sérstök árstíð hér á landi. Fellur nokkurn veginn saman við mánuðinn hörpu. Þá ná norðanáttir hámarki. - En hvað um það, við lítum á spá sem gildir í 30 hPa-fletinum klukkan 12 á mánudag. Kortið er frá bandarísku veðurstofunni.

w-blogg060513a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Þær eru orðnar fáar og mun enn fækka næstu daga. Hæsta línan (sú í kringum hæðirnar) sýnir 2400 dekametra (24 kílómetra). Litafletirnir sýna hita (kvarðinn batnar við stækkun). Mjög áberandi hlýjast er yfir Grænlandi og þar vestan við. Jafnhitalínur eru í litlu samræmi við jafnhæðarlínurnar.

Það er tvennt sem gæti skýrt hitadreifinguna. Annars vegar er það ósonmagn, loft með ósoni hitnar mun meira heldur en það ósonlausa. Næsta kort sýnir dreifingu ósonmagns og má sjá af því að hlýindin eru einmitt mest á svipuðum slóðum og ósonið er í hámarki. Hin skýringin á hitadreifingunni er niðurstreymi. Niðurstreymi hitar ætíð. Þarna undir er kuldapollurinn mikli í veðrahvolfinu (sjá pistil gærdagsins). Loft streymir frá honum í allar áttir og dregur þar með niður allt fyrir ofan.

Þetta gæti verið sambland beggja þessara þátta. Ósonið er mest enn ofar en 24 km og niðurstreymi eykur þar af leiðandi magnið í þessari hæð. En ritstjórinn er nú enginn ósonsérfræðingur (höfum það á hreinu).

w-blogg060513b

Kortið sýnir ósonmagn (eins og það er í ameríska reiknilíkaninu) á sama tíma og fyrra kort. Hér er um heildarmagn ósons að ræða - ekki bara það í 30 hPa. Kortið batnar við stækkun. Magntölur eru svokallaðar dobson-einingar. Gildin við Ísland eru í kringum 430 einingar. Hundrað dobson-einingar jafngilda 1 mm þykktar ósonlagsins væri það allt flutt til sjávarmálsþrýstings. Þetta er ekki prentvilla, ósonlagið er í raun og veru svona þunnt (rúmir 4 mm yfir Íslandi á kortinu) - en hefur samt sín gríðarlegu áhrif. Aðeins örlitar breytingar í magni þeirra lofttegunda sem hafa áhrif á geislunarbúskap jarðarinnar setja allt úr skorðum.  


Vorið mjakast norðar (lítið þó hér)

Nú hlýnar á norðurslóðum og vorið mjakast norður á bóginn. En við erum enn inni í kuldanum. Í dag var 500 hPa-flöturinn yfir Íslandi við það lægsta á norðurhveli öllu. Ekki var þó kaldast hér (skárra væri það nú). En kortið hér að neðan sýnir 500 hPa hæð og þykkt um hádegi á mánudag (segir evrópureikinimiðstöðin).

w-blogg050513a

Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Það sést mun betur sé kortið stækkað (tvisvar). Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin er sýnd með litaflötum. Þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttastar er vindur mestur. Sumar - að okkar viðmiði - er á gulu og brúnu svæðum myndarinnar. Grænu svæðin sýna það sem við getum almennt búist við á þessum tíma árs, en við viljum helst vera alveg laus við þau bláu. Þar undir er þykktin minni en 5280 metrar. Fjólublái liturinn hefur horfið af kortinu síðan við litum á kort sem þetta síðast (20. apríl). Hann gæti þó sýnt sig síðar - en vonandi ekki.

Á þessu korti eru grænu svæðin frekar lítil um sig og jafnhæðarlínur eru þar í flestum tilvikum þéttar (þetta er ekki regla). Þarna eru meginskil norðurhvelsins - á milli heimskautaloftsins og því sem kalla má temprað.

Bláa svæðið er farið að dragast áberandi saman frá því sem verið hefur - en sunnar eru margar afskornar lægðir eða kuldapollar. Eins og minnst var á í pistli fyrir nokkrum dögum um kulda á Spáni eru þær flestar orðnar til við það að mjóir fleygar af köldu lofti hafa brotist suður og lokast þar inni. Aðrar verða til við það að hlýir hryggir á leið norður falla fram fyrir sig. Það sést ekki af þessu korti einu og sér hvernig þessir pollar hafa myndast.

Athyglisverður kuldapollur er á kortinu yfir suðurríkjum Bandaríkjanna. Hann varð til sem fleygur úr norðri fyrir fáeinum dögum. Um leið og hann braust suður skildi hann eftir sig eftirminnilegt hríðarveður í miðvesturríkjunum. Það snjóaði allt suður til Arkansas og Oklahóma - af bloggsíðum vestra má ráða að það sé óvenjulegt svo seint á vorin. Á þessu korti er enn grænn litur í honum miðjum og jafnhæðarlínur nokkrar. Ekki gott.

Kuldapollurinn við Kaliforníuströnd slær vonandi á hita sem ríkt hafa þar síðustu daga. Enginn grænn litur er í honum. Sjórinn undan ströndinni er líka svo kaldur að hann á erfitt með að keyra upp skúraveður eða rigningu - þrátt fyrir lægðina. En ritstjórinn ætti kannski ekki að fjalla mikið um það.

Megnið af Alaska er inni í bláa litnum eins og við. Þar var apríl óvenjukaldur - sá kaldasti í Fairbanks síðan 1924.

Hér á græni liturinn að komast yfir landið síðdegis á miðvikudag og af náð sinni vera yfir okkur í heila tvo daga. Guli liturinn á að verða víðsfjarri svo langt sem evrópureiknimiðstöðin vill tjá sig um. En þegar léttir til gæti sólin glatt okkur um hádaginn - hvar sem það svo verður á landinu.


Kaldur apríl í háloftunum?

Spurningamerkið í fyrirsögninni er reyndar óþarft því apríl var vissulega kaldur hér á landi, jafnvel kaldasti mánuður vetrarins á örfáum stöðvum. Fyrstu fregnir benda einnig til þess að hann hafi verið kaldasti mánuður vetrarins í háloftunum yfir landinu (þótt vormánuður sé). Það segir greining evrópureiknimiðstöðvarinnar, meðalþykktin yfir landinu var ekki nema 5195 metrar.

Greiningar evrópureiknimiðstöðvarinnar ná aðeins aftur til 1958 og hefur apríl aldrei á því tímabili verið jafnkaldur í neðri hluta veðrahvolfs. Næst kemst apríl 1983 með 5202. Munurinn er ekki marktækur. Samtímagreiningar eru til frá því að reglubundnar háloftaathuganir hófust skömmu fyrir 1950. Sé leitað í það safn kemur í ljós að þrír aprílmánuðir, 1949, 1951 og 1953 eru með jafnlitla þykkt og apríl nú, 1953 lægstur. Þá var meðalþykktin að sögn 5182 metrar.

Í bandarísku endurgreiningunni sem hungurdiskar vitna oft til eru þessir mánuðir lítillega hlýrri, 1951 lægstur með 5205 metra. En meðalhiti í apríl nú var þó nokkuð hærri heldur en hitinn var í apríl 1949, 1951 og 1953. Í Reykjavík var 1951 kaldastur, meðalhiti 0,0 stig, en í nýliðnum apríl var hann hins vegar 1,9 stig.

Þykktin er að jafnaði mjög góður mælikvarði á meðalhita mánaða. Hún neglir hann samt ekki niður. Sé loft óvenju stöðugt er hiti lægri heldur en þykktin segir til um. Sé það óstöðugt er hitinn hærri. Tökum við mark á því verðum við að gera ráð fyrir því að loft hafi verið óvenju óstöðugt í nýliðnum aprílmánuði. Sjórinn er e.t.v. mun hlýrri nú heldur en var við sambærilegar háloftaaðstæður í kringum 1950.

Niðurstaðan gæti verið sú að apríl hafi nú verið um 1,5 stigum hlýrri heldur en hann ætti að vera. Það er út af fyrir sig merkilegt.

Það er ekki við því að búast að endurgreiningar reiknimiðstöðvarinnar og þeirrar bandarísku séu nákvæmlega sammála um ástand á fyrri tíð. Hvorug er heldur endilega alveg rétt. Við förum því gætilega í samanburði við fyrri tíma. Við leit finnst að það hefur aðeins tvisvar gerst áður á tímabili endurgreiningarinnar (frá 1871) að þykktin í apríl hafi verið sú lægsta á vetrinum. Þetta var árin 1953 og 1922. Þetta segir varla neitt um sumarið því 1953 var það mjög hagstætt en harla skítt 1922.

Og enn malar norðanáttin.


Nýtt lágmarkshitamet í maí - fyrir landið allt

Síðastliðna nótt (2. maí) fór hitinn á sjálfvirku stöðinni á Brúarjökli niður í -21,7 stig. Lægsti hiti sem mælst hefur á Íslandi í maí. Þetta gerðist milli klukkan 5 og 6 að morgni. Hafa ber í huga að stöðin var stofnuð 2005 og er ein kaldasta veðurstöð landsins. Kuldakastið nú er þannig það mesta í maí í á starfstíma stöðvarinnar.

Kuldinn að þessu sinni er líklega sá mesti sem komið hefur hér á landi í maí allan þann tíma sem sjálfvirka stöðvakerfið hefur verið rekið (15 til 17 ár). Meirihluti stöðvanna hefur nú slegið eldri maímet sín. Stöðvamaímet hafa einnig fallið á nokkrum stöðvum mannaða kerfisins - en fallstöðvarnar hafa flestar verið reknar í innan við 25 ár.

Met á eldri (og reyndari) stöðvum eru eldri en þetta, allmörg úr miklu kuldakasti fyrstu dagana í maí 1982. Kuldinn nú virðist því vera sá mesti í maí að minnsta kosti frá þeim tíma. Hvað stöð á Brúarjökli hefði mælt í því kasti veit enginn.

Hegðan hita í kringum lægstu lágmörk hefur enn ekki verið athuguð til fullnustu. Háupplausnarhitamælingar á sjálfvirku stöðvunum benda til þess að lægstu lágmörk í hægviðri eigi sér stað í mjög grunnu lagi af lofti sem blandast fljótt hreyfi vind. Lag af því tagi virðist einnig geta sveiflast til á þann hátt að stöð sé ýmist inni í mesta kuldanum eða ekki.

Sjálfvirku mælarnir eru mjög vakrir og virðast fljótir að laga sig að umhverfishitanum. Hefðbundnir vínandamælar í mælaskýlum mannaðra stöðva eru hins vegar seinni til. Því valda bæði mælarnir sjálfir sem og skýlin. Sjálfvirku mælarnir virðast þannig geta náð snöggum hitasveiflum sem fara hjá stöðinni á fáeinum mínútum - en hefðbundin mælaskýli ekki.

Eru þetta þá sambærilegar mælingar? Ekki er alveg nóg um það vitað. Sjálfvirka stöðin les 2-mínútna lágmarkshita á 10-mínútna fresti allan sólarhringinn. Á mönnuðu stöðinni eru aðeins upplýsingar um lægsta gildi frá síðustu lágmarksmælingu - og hugsanlega mælingar á 3 stunda fresti hluta sólarhringsins. Samanburður á viðbragðstíma er því ekki auðveldur.

En lágmarkshitametið á Brúarjökli verður að viðurkenna enda er það meir en 3 stigum neðan gamla metsins.

En hvað um byggð? Hiti fór að þessu sinni niður í -17,6 stig á sjálfvirku stöðinni á Grímsstöðum á Fjöllum klukkan 5. Þetta er 0,2 stigum lægra en Möðrudalsmetið frá 1. maí 1977. En lágmarkið á mönnuðu stöðinni á Grímsstöðum eftir síðastliðna nótt var aðeins -14,5 stig. Sjálfvirka stöðin hefur aðeins athugað í örfáa mánuði. Enginn samanburður hefur enn farið fram á mælingum stöðvanna tveggja. Við hinkrum því við með að lýsa því yfir að byggðarmetið úr Möðrudal sé fallið.

Skyndiútreikningar benda til þess að apríl hafi verið kaldari heldur en mars á 12 sjálfvirkum veðurstöðvum. Ritstjórinn hefur ekki enn athugað á hve mörgum þeirra hann er kaldasti mánuður vetrarins. Það gerist sjaldan. Apríl er alloft kaldari heldur en mars - sérstaklega þegar mars er hlýr eins og var í fyrra. Þá var apríl kaldari en mars á 69 stöðvum og á enn fleiri 2010, þá voru þær 113.

Hér er listinn í ár. Stöðvarnar eru dreifðar um landið.

Mismunur mánaðarmeðalhita mars og aprílmánaðar 2013 (°C)
Taflan sýnir stöðvar þar sem apríl var kaldari heldur en mars

árstöðapr-marsnafn
20136472-0,53Laufbali
20131679-0,30Skarðsheiði Miðfitjahóll
20131936-0,26Bláfeldur
20132862-0,21Hornbjargsviti
20135933-0,11Kárahnjúkar
20131496-0,10Skarðsmýrarfjall
20134323-0,09Grímsstaðir á Fjöllum
20135932-0,07Brúarjökull B10
20132692-0,06Gjögurflugvöllur
20131673-0,05Hafnarmelar
20132640-0,02Seljalandsdalur
20136975-0,01Sandbúðir

Í viðhengi með pistli gærdagsins mátti sjá lista yfir ný mánaðarmet fyrir maí á fjölmörgum stöðvum. Þessi listi er endurnýjaður í dag og enn fleiri stöðvar hafa komist inn - auk þeirra sem voru kaldari aðfaranótt annars maí heldur en þann fyrsta.

Listinn byrjar á sjö mönnuðum stöðvum. Þær eru flestar tiltölulega ungar - en athyglisvert er að nýtt met er hér sett á Eyrarbakka, 0,1 stigi neðar heldur en gamla metið sem var frá 1982. Sumar tölurnar eru tvöfaldar - hafi lágmarkið verið jafnlágt á fleiri en einni klukkustund.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aftur að meti og hársbreidd

Fyrsti maí var mjög kaldur - en veður var þó hægt og víða var sólskin. Það sér til jarðar á meginhluta myndarinnar hér að neðan (modismynd af vef Veðurstofunnar). Hún er úr gervihnetti kl. 14:15. Bæði í gær (30. apríl) og í dag 1. maí var loft mjög óstöðugt yfir suðvestanverðu landinu þannig að éljadrög kreistust úr einhverjum aumingjalegustu klökkum sem um getur. En þetta voru éljakakkar en ekki góðviðrisbólstrar - úr þeim síðarnefndu fellur engin úrkoma. Hungurdiskar fjölluðu um ámóta ástand fyrir um þremur vikum.

w-blogg020513a

Hafísinn vekur alltaf athygli á myndum sem þessum. Hann er ekki sérlega ógnandi um þessar mundir. Mælingar telja austurgrænlandsísinn í heild í meðallagi að útbreiðslu (um 500 þúsund ferkílómetrar). Miðað er við þrjátíu ára tímabilið 1979 til 2008 - en það meðaltal er mun lægra heldur en fyrr á tíð. Austurgrænlandsísinn er yfirleitt í hámarki að magni til í apríl.

En lágmarkshitamet maímánaðar á Íslandi var ekki slegið aðfaranótt 1. maí - en tilraunin tókst nærri því - komst svo nærri að skemmtilegt er. Nóttin sem fer í hönd þegar þetta er skrifað (aðfaranótt 2. maí) á enn möguleika í metkeppninni - en síðan líður tækifærið (vonandi) hjá.

En við lítum á mynd sem sýnir atlögu tveggja stöðva að metinu. Þær eru Sáta norðan Hofsjökuls og Brúarjökull.

w-blogg020513

Nú þarf að skerpa aðeins á athyglinni til að ná taki á myndinni og tökum í það góðan tíma. Lóðrétti ásinn sýnir hita. Bilið sem sýnt er nær frá -20 stiga frosti og upp í -10 stig. Lárétti ásinn sýnir tíma. Lóðréttu punktalínurnar marka 10-mínútna bil. Fyrsti punktur á línuritinu (lengst til vinstri) er kl. 23:00 að kvöldi 30. apríl 2013 - sá síðasti er kl. 02:50 aðfaranótt 1. maí.

Á myndinni eru fjórir ferlar, tveir frá hvorri stöð. Annar stöðvaferillinn sýnir hita á hverjum heilum 10-mínútum - við köllum það bara hitann. Hinn sýnir lágmarkshita sem skráður er á sama tíma. Lágmarkið er lægsti 2-mínútna meðalhiti næstliðinnar klukkustundar - ekkert er sagt um hvaða tvær mínútur er um að ræða.

Lítum nú á ferlana - fyrst frá Sátu. Blái ferillinn sýnir hita á Sátu á 10-mínútna fresti, en sá rauði lágmarkið 1ö-mínúturnar á undan. Stöku sinnum falla ferlarnir saman.

Í ljós kemur að á milli kl. 23:30 og 23:40 hefur hitinn á Sátu fallið niður í -17,95 stig. Maímetið er -17,4 stig. Þarna er lágmarkið undir maímetinu. Gallinn er bara sá að þarna er enn aprílmánuður. Síðasta athugun aprílmánaðar er kl. 24:00, en sú fyrsta 1.maí er kl. 00:10. Þá eru bæði hiti og lágmark ofan maímetsins. Skotið á metið geigaði - það munaði 30 mínútum.

Síðan eru það Brúarjökulsferlarnir tveir. Sá græni sýnir hitann en sá bleiki lágmarkið. Lágmarkið fór lægst á milli kl. 01:40 og 01:50. Lægsta gildið er -17,31 stig. Maímetið er eins og áður sagði -17,4 stig. Þetta skot geigaði líka - það munaði 0,05 stigum.

Metmælingin úr Möðrudal frá 1. maí 1977 er auðvitað ekki með nákvæmni nema upp á 0,2 til 0,3 stig, auk þess sem aðeins er hugsanlegt að hitinn hafi þá nótt verið lægstur fyrir miðnætti.

En svo á að heita að met séu skráð með 0,1 stigs nákvæmni og við ákveðum að halda okkur við það. Stigin -17,3 eru þá alla vega það lægsta sem mælst hefur á sjálfvirkri stöð í maímánuði. Hvort það met fellur nú í nótt verður bara að koma í ljós. Klukkan 24 var Sáta komin niður í -16,4 stig og öll nóttin telst til maímánaðar.

Mikill fjöldi stöðvamaímeta féll reyndar nóttina sem hér er til umfjöllunar, á 170 stöðvum sé allt talið. Megnið af því telst þó varla marktækt því sumar stöðvarnar eru nýjar eða eiga aðeins fárra ára mælingar að baki.

Í viðhenginu er listi yfir maímánaðarmet (merk og ómerkileg) sem féllu 1. maí. Nördin geta yljað sér við hann. Vonandi heldur hann þó ekki fyrir þeim vöku - en það má fara á athugunarsíðu Veðurstofunnar og fylgjast með stöð fyrir stöð hvort nóttin í nótt gerir enn betur.

Viðbót kl. 01:20

Nú er Sáta komin niður í -17,8 og réttu megin mánaðamóta. Nýtt maílágmark Íslands hefur litið dagsins (?) ljós. Hvað gerist á byggðarstöðvunum? Mývatn (hinn alræmdi (?) Neslandatangi) er í -16,1 stigi - enn vantar 1,3 stig í metjöfnun. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lagðar niður (ekki þó alveg)

Þessa dagana eru þrjár mannaðar veðurskeytastöðvar að hverfa af kortunum. Þetta eru Lambavatn (byrjaði 1922), Kirkjubæjarklaustur (byrjaði 1926) og Stórhöfði í Vestmannaeyjum (byrjaði 1921). Auðvitað er mikil eftirsjá að þeim öllum. En úrkomumælingar halda vonandi áfram og á öllum stöðunum halda sjálfvirkar stöðvar mælingum áfram.

Sú spurning kemur upp hvers megi vænta varðandi samfellu hitamælinga á þessum stöðum. Í öllum tilvikum hafa samhliða mælingar verið gerðar í nokkur ár. Tilefni er til samanburðar en hann er gerður á ýmsan hátt. Sá einfaldasti er að bera saman mánaðarmeðalhita stöðvagerðanna tveggja og leita árstíðasveifluna uppi.

Línuritin eru ekki falleg og myndrænt dálítið úr jafnvægi en hér var ákveðið að hafa þetta svona til þess að hitakvarðarnir yrðu nákvæmlega eins. Lítum fyrst á Stórhöfða.

w-blogg010513a

Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins en sá lóðrétti meðalmun mönnuðu og sjálfvirku stöðvanna. Sé munurinn jákvæður hefur verið hlýrra á mönnuðu stöðinni. Sjá má að munur á mælingum stöðvanna beggja er 0,1 stig eða minni í öllum mánuðum. Meðalmunur fyrir árið í heild er aðeins 0,07 stig. Það þýðir að hægt er að nota hitamælingar sjálfvirku stöðvarinnar í beinu framhaldi af mælingum þeirrar mönnuðu.

Veðurathuganir á Stórhöfða hafa verið gerðar á 3 klukkustunda fresti í meir en 60 ár. Það þýðir að dægursveifla á stöðinni er vel skilgreind og stöðvarnar samanburðarhæfar hvað þetta snertir.

Sama á við um Kirkjubæjarklaustur. Þar hefur líka verið athugað á 3 klukkustunda fresti í meir en 60 ár. Dægursveiflan þar er því heldur ekki til vandræða við meðaltalsreikninga. Samanburðurinn á mönnuðu og sjálfvirku stöðinni sýnir hins vegar nokkurn mun.

w-blogg010513c

Myndin sýnir að hlýrra hefur verið á mönnuðu stöðinni heldur en þeirri sjálfvirku í öllum mánuðum ársins. Enda þó nokkur vegalengd milli stöðvanna. Sú mannaða hefur lengst af verið í góðu skjóli inni í þéttbýlinu - en hin er austar, á svonefndum Stjórnarsandi. Ástæður munarins eru fleiri en ein. Alla vega er ítarlegri samanburðar þörf, þar á meðal á dægursveiflu einstakra mánaða.

Meðalmunur yfir árið er 0,27 stig. Hann er mun meiri að vetrarlagi heldur en á sumrum. Minnstur er munurinn í september. Í framhaldinu þarf greinilega smáleiðréttinga við, æskilegast er að þær séu sem einfaldastar.

Myndin á Lambavatni er enn önnur.

w-blogg010513b

Þar er hlýrra á sjálfvirku stöðinni í júní, júlí og desember. Meðalmunur yfir árið er nærri því enginn, eða mínus 0,05 stig. Á mönnuðu stöðinni voru aldrei gerðar athuganir að nóttu. Meðalhita hefur því þurft að reikna með aðstoð svokallaðra hitastuðla. Á stöðvum án næturathugana fæst aldrei trygging fyrir því að stuðlarnir hafi verið rétt áætlaðir nema með ítarlegri mælingum. Leiðréttingarstuðlarnir eru misstórir eftir mánuðum en hafa samt verulega árstíðasveiflu.

Útlit myndarinnar gæti bent til þess að taka þurfi stuðla Lambavatns til athugunar. Reynist þeir hafa verið ónákvæmir þarf að endurreikna öll eldri meðaltöl staðarins - eigi að framlengja mæliröðina með því að nota sjálfvirku stöðina.

Það er almennt séð mikið óráð að leggja niður athuganir á stöðvum þar sem athugað hefur verið lengi án þess að hægt sé að bera mannaðar og sjálfvirkar athuganir saman um nokkurra ára skeið. Í þessum tilvikum hafa samanburðarmælingar verið gerðar og ætti með tiltölulega lítilli fyrirhöfn að vera hægt að halda mæliröðunum óslitnum í framtíðinni.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 372
  • Sl. viku: 1847
  • Frá upphafi: 2350583

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1650
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband