Leitað að hlýju lofti (ekki handa okkur)

Þó verið sé að leita þarf ekki að vera að verið sé að leita eftir einhverju handa okkur. Við leitum sum sé að hlýju lofti - ekki handa okkur - bara hlýju. Ekki hvaða hlýja lofti sem vera skal heldur því hlýjasta á markaðnum í dag. Leitinni lýkur um það bil um leið og hún hefst því þykktarkort evrópureiknimiðstöðvarinnar er við höndina.

Þetta er sama kortið og hungurdiskar eru alltaf að rýna í - eini munurinn er sá að búið er að snúa því þannig að Indland er nú neðst en Síbería og norðurskautið efst.

w-blogg080513a

Austurhluti Íslands er sýnilegur til vinstri við norðurskautið. Hægri jaðar  myndarinnar liggur um Tæland, Kína og Síberíu. Eins og venjulega eru jafnhæðarlínur heildregnar en þykktin er sýnd með litum. Ísland slefar inn í græna litinn - sem er svo sem sæmilegt miðað við ástandið að undanförnu. Dekksti brúni liturinn þekur svæði þar sem þykktin er meiri en 5880 metrar.

Grófleg þumalfingursregla segir að hitinn hækki um eitt stig fyrir hverja 20 metra aukna þykkt. Það er dálítið álitamál hvar núllið er - það fer eftir stað og árstíma. Í maí má hér á landi setja það við 5180 metra. Ef við gerum það fáum við út 35 stiga hita við 5880 metra þykkt. Það er einskonar meðalhiti sólarhringsins. Jarðvegur er skraufþurr á Indlandi á þessum tíma árs - og sólin ekki mjög fjarri hvirfilpunkti. Mikið kólnar á björtum nóttum - líka á Indlandi. Dægursveiflan er stór - ábyggilega 20 til 30 stig.

Þetta eru allt þumalfingursútreikningar í losaralegum huga ritstjórans, tökum þá ekki allt of bókstaflega. Alvöru spár gera ráð fyrir 45 stiga hámarkshita að deginum í innsveitum Indlands á þeim tíma sem kortið gildir og að í 850 hPa hæð fari hann yfir 30 stig.

Maí er hlýjasti mánuður ársins á Mið-Indlandi. Í júní taka heldur svalari monsúnrigningar völdin. Algengt mun að hámarkshiti fari í 40 stig í maí - en allt yfir 45 telst mjög mikið. Indland er þessa dagana hlýjasta landsvæði jarðar en það er nærri því eins hlýtt við suðurjaðar Saharaeyðimerkurinnar í Afríku. Þegar rigningarnar taka við á Indlandi færist hlýjasta svæðið vestur til Pakistan og enn vestar. Landamærasvæði Bandaríkjanna og Mexíkó eru einnig á uppleið.

Hæsti hiti á Indlandi er umdeildur. Metin má sjá bæði á wikipediu og á illblárri en að öðru leyti frábærri metasíðu Maximilliano Herrera. Maximilliano vinnur hörðum höndum að því að stinga á slæmum metakýlum víða um lönd og hefur orðið vel ágengt.

En hitinn þarna suðurfrá kemst aldrei norður til Íslands. Mesta þykkt sem vitað er um yfir Íslandi er 5660 metrar og hæsti mældi 850 hPa hiti yfir Keflavíkurflugvelli er 14 stig. Eitthvað hærri hiti hefur sést í tölvugreiningum.

Hér á landi hefur hæsti hiti það sem af er ársins komist í rúm 15 stig, Það var í lok febrúar og byrjun mars. Hvað verður biðin löng eftir stigunum sextán? Hvenær fáum við fyrstu 20 stig sumarsins? Rifja má upp fjögurra ára gamlan fróðleikspistil um 20 stiga mörkin á vef Veðurstofunnar.

Þar kemur fram að á síðari árum er meðaldagsetning fyrstu 20 stiga ársins þann 23. maí á sjálfvirku stöðvunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 288
  • Sl. sólarhring: 311
  • Sl. viku: 1574
  • Frá upphafi: 2352637

Annað

  • Innlit í dag: 256
  • Innlit sl. viku: 1415
  • Gestir í dag: 242
  • IP-tölur í dag: 236

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband