Sumarið handan við hornið í heiðhvolfinu

Á hverju vori snýst vindur ofan við 18 til 20 km hæð úr vestri til austurs. Hæð yfir norðurslóðum tekur við af lægð vetrarins. Þá aftengist hringrás heiðhvolfs og veðrahvolfs. Neðan við 15 til 18 km hverfur norðurslóðalægðin sjaldnast alveg þannig að vestanátt er oftast ríkjandi þar á sumrin. En afl hennar þverr mjög á sama tíma og skiptin verða ofar. Um mánaðarskeið, í júlí og fyrstu daga ágústmánaðar, er vestanáttin í lágmarki.

Ein af þeim hugmyndum sem er í gangi varðandi veðurfarsbreytileika er að í mjög hlýju veðurfari fyrir milljónum ára hafi hringrásin í veðrahvolfinu snúist við á sumrin - rétt eins og heiðhvolfshringrásin. Sannleikurinn er sá að við núverandi veðurfar munar ekkert óskaplega miklu að það gerist. Það myndi e.t.v. nægja aðf sólin héldist í sumarsólstöðuhæð í fáeinar vikur (sem gerist auðvitað ekki). Aukin gróðurhúsaáhrif gætu hugsanlega valdið umsnúningi veðrahvolfshringrásarinnar að sumarlagi.

Í 30 hPa-þrýstifletinum verða áttaskiptin yfir Íslandi nær alltaf á tímabilinu 15. apríl til 10. maí. Það má halda því fram að þetta sé sérstök árstíð hér á landi. Fellur nokkurn veginn saman við mánuðinn hörpu. Þá ná norðanáttir hámarki. - En hvað um það, við lítum á spá sem gildir í 30 hPa-fletinum klukkan 12 á mánudag. Kortið er frá bandarísku veðurstofunni.

w-blogg060513a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Þær eru orðnar fáar og mun enn fækka næstu daga. Hæsta línan (sú í kringum hæðirnar) sýnir 2400 dekametra (24 kílómetra). Litafletirnir sýna hita (kvarðinn batnar við stækkun). Mjög áberandi hlýjast er yfir Grænlandi og þar vestan við. Jafnhitalínur eru í litlu samræmi við jafnhæðarlínurnar.

Það er tvennt sem gæti skýrt hitadreifinguna. Annars vegar er það ósonmagn, loft með ósoni hitnar mun meira heldur en það ósonlausa. Næsta kort sýnir dreifingu ósonmagns og má sjá af því að hlýindin eru einmitt mest á svipuðum slóðum og ósonið er í hámarki. Hin skýringin á hitadreifingunni er niðurstreymi. Niðurstreymi hitar ætíð. Þarna undir er kuldapollurinn mikli í veðrahvolfinu (sjá pistil gærdagsins). Loft streymir frá honum í allar áttir og dregur þar með niður allt fyrir ofan.

Þetta gæti verið sambland beggja þessara þátta. Ósonið er mest enn ofar en 24 km og niðurstreymi eykur þar af leiðandi magnið í þessari hæð. En ritstjórinn er nú enginn ósonsérfræðingur (höfum það á hreinu).

w-blogg060513b

Kortið sýnir ósonmagn (eins og það er í ameríska reiknilíkaninu) á sama tíma og fyrra kort. Hér er um heildarmagn ósons að ræða - ekki bara það í 30 hPa. Kortið batnar við stækkun. Magntölur eru svokallaðar dobson-einingar. Gildin við Ísland eru í kringum 430 einingar. Hundrað dobson-einingar jafngilda 1 mm þykktar ósonlagsins væri það allt flutt til sjávarmálsþrýstings. Þetta er ekki prentvilla, ósonlagið er í raun og veru svona þunnt (rúmir 4 mm yfir Íslandi á kortinu) - en hefur samt sín gríðarlegu áhrif. Aðeins örlitar breytingar í magni þeirra lofttegunda sem hafa áhrif á geislunarbúskap jarðarinnar setja allt úr skorðum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 335
  • Sl. sólarhring: 341
  • Sl. viku: 1621
  • Frá upphafi: 2352684

Annað

  • Innlit í dag: 299
  • Innlit sl. viku: 1458
  • Gestir í dag: 285
  • IP-tölur í dag: 276

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband