Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Óvenjuhlýtt víða í Noregi

Eins og minnst var á hér á hungurdiskum fyrir nokkrum dögum situr mjög hlýtt loft yfir Noregi þessa dagana. Þjóðhátíðardagur norðmanna (17. maí) var sá hlýjasti nokkru sinni á sumum veðurstöðvum og í dag (hvítasunnudag) voru maímet slegin í Þrændalögum og Vestur-Noregi. Norska veðurstofan segir frá því á sínum twitter að hiti hafi komist í 29,1 stig í Steinker í Þrændalögum og í 27,6 stig í Björgvin. Það er nýtt met fyrir maí þar á bæ.

Af þessu tilefni lítum við á hefðbundið 500 hPa hæðar- og þykktarkort, spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á annan í hvítasunnu (20. maí). Eins og venjulega eru jafnhæðarlínur heildregnar, vindur blæs nokkurn veginn samsíða þeim og því ákafar sem línurnar eru þéttari. Þykktin er sýnd með litaflötum, skipt er um lit á 60 metra bili.

w-blogg200513a

Rauða örin bendir á hlýja blettinn við Vestur-Noreg. Hann var aðeins stærri um sig í dag (hvítasunnudag) og rýrnar frekar næstu daga. Innan blettsins er þykktin meiri en 5580 metrar. Það þykir okkur draumaþykkt um hásumar - hefur varla sést hér í maí. Ekki nægir að þykktin sé mikil til þess að hiti við jörð verði hár heldur þarf líka að hindra aðgengi kælandi sjávarlofts. Í þessu tilviki er það austlægar og suðaustlægar áttir sem sjá um þann greiða vestan og norðan fjalla.

Ef vel er að gáð má sjá lítinn kaldari blett og smálægð yfir Skagerak. Hún ber með sér óstöðugra loft sem spillir hlýindum þar sem hún fer hjá.

Hér við land má sjá miklu gerðarlegri kuldapoll sem kælir okkur næstu tvo daga eða svo. Sólarglennur hjálpa þó til að deginum.


Hæsti hiti það sem af er ári

Í dag (laugardaginn 18. maí) mældist hiti loksins yfir 18 stigum á landinu. Reyndar aðeins á einni veðurstöð, Sauðárkróksflugvelli. Hámarkshiti dagsins var þar 18,1 stig. Komst í 18,0 á Brúsastöðum í Vatnsdal. Hvað hvítasunnudagur ber í skauti sínu vitum við ekki enn.

Eins og umferðarslysið á Snæfellsnesi bar með sér var þar gríðarhvasst. Tíu-mínútna meðalvindhraði komst í 26,4 m/s á Grundarfirði og í 32,7 m/s í hviðu. Enn öflugri hviður mældust á veðurstöð við Miðfitjarhól á Skarðsheiði, sú mesta 37,2 m/s. Ritstjóranum varð hálfpartinn um og ó á gönguferð við rætur Hafnarfjalls - fáir á ferð.

Útsynningur á 2. dag hvítasunnu?


Kalt vor í Alaska

Í Alaska mun hafa verið kalt í vor og er enn. Sagt er að varla hafi verið jafnkalt síðan 1992 og enn sé möguleiki á að komast nær metum. Hitinn í apríl var sá sjöundi lægsti frá upphafi samfelldra mælinga 1918 (Bandaríska veðurstofan). Þarlendir bloggarar fylgjast með ástandinu. Einn þeirra er í Fairbanks og virðist nokkuð virkur. Fairbanks er inni í miðju landi og þar ríkir meginlandsloftslag, skiptast á jökulkaldir vetur og hlý sumur. Harla ólíkt Íslandi.

Suður í Lægi (Anchorage) er tíð heldur líkari því sem við þekkjum, sjónarmun sunnar en Reykjavík. Þar var snjór og snjókoma í dag (föstudag). Á bandarísku veðurstofunni er sú regla að einhver veðurfræðinga á vakt í svæðismiðstöðvunum ryður úr sér á prenti langri rollu um stöðu dagsins bæði við jörð og í háloftum. Þetta er hástafatexti í belg og biðu. Textinn í dag byrjaði svona:

AN UPPER LEVEL TROUGH ACCOMPANIED BY MUCH-ADVERTISED UNSEASONABLY
COLD AIR IS MOVING THROUGH SOUTHERN ALASKA THIS AFTERNOON.

Eins og sjá má fá fræðingarnir nokkuð frjálsar hendur í orðavali. Ritstjóri hungurdiska áttar sig ekki alveg á því hvort hér gætir mæðutóns vakthafandi sem hefur þurft að búa við langvinnt símaáreiti út af kuldaspá sjónvarpsveðurfræðings - eða bara venjulega kaldhæðni í kuldanum. Hrá þýðing er nokkurn veginn svona: HÁLOFTALÆGÐARDRAG Á LEIÐ YFIR SUÐUR-ALASKA NÚ SÍÐDEGIS BER MEÐ SÉR MARGAUGLÝSTA ÓVENJULEGA VORKULDA. Jú, það er einhver mæða í þessu.

En við skulum líta á lægðardragið (margauglýsta). Spáin er frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir um hádegi laugardaginn 18. maí.

w-blogg180513a

Þetta er sneið úr hefðbundnu norðurhvelskorti sem sýnir jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar en þykktin er sýnd í lit. Eins og venjulega eru mörk á milli grænna og blárra lita sett við 5280 metra þykkt. Því minni sem þykktin er því kaldara er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Þumalfingursregla segir að hvert litabil samsvari um 3 stigum á Selsíuskvarða.

Sjónarhorn kortsins er óvenjulegt. Norðurskaut er til vinstri rétt ofan við miðju. Ísland sést á hvolfi rétt undir textaborðanum. Lægðin skammt þar frá er sú við Suður-Grænland og fjallað var um í pistli gærdagsins.

Alaska er neðarlega á myndinni þar teygir myndarlegt lægðardrag sig suður um - frá myndarlegum kuldapolli norðan við austurhorn Síberíu. Í lægðardraginu er hinn margauglýsti kuldi - og bara býsnagrimmur miðað við árstíma. Sýnist sem það sé 5220 metra jafnþykktarlínan sem liggur um Anchorage. Hún dugar í snjókomu inn til landsins og við ströndina líka sé úrkoman nægilega áköf.

Vefmyndavélar sýna þegar þetta er skrifað (upp úr hádegi á föstudegi að Alaskatíma) dæmigerðan maísnjó í Reykjavík (sem er þrátt fyrir allt ekki algengur), blauta grámyglu. Væntanlega er bylur til fjalla og inni í sveitum. Kaldasta loftið á kortinu er yfir norðvesturströnd Alaska, þar er þykktin minni en 5040 metrar - vetur á fullu. En norðurhluti Alaska er fyrir suðurhlutann eins og Grænland fyrir okkur - þar getur veturinn ríkt fram á sumar ef svo ber undir.

Í áframhaldi spátextans sem vitnað var í hér að ofan kemur fram að dragi úr vindi eftir að létt hefur til gætu kuldamet fallið á svæðinu. Síðan er gert ráð fyrir því að hiti komist upp í meðallag um miðja næstu viku. Það þýðir að græni liturinn breiðist yfir mestallt eða allt fylkið. En hafi evrópureiknimiðstöðin rétt fyrir sér verpir lægðardragið eggi - litlum kuldapolli sem fer áfram suðsuðaustur allt til Seattle og nágrennis. Þar á þykktin stutta stund að komast niður í bláa litinn á miðvikudag eða svo.

Algengt er að litlir kuldapollar af þessu tagi tefji sumarkomuna við norðvesturströnd Bandaríkjanna, júní er oft furðukaldur á þeim slóðum. En síðan kemur sumarið þar svo um munar.

Dekksti brúni liturinn á kortinu sýnir þykkt meiri en 5760 metra yfir Oklahóma eða þar um kring. Þar er svo sannarlega komið sumar (með hættu á þrumuveðrum og illum vindum).


Náðarsamlegast

Náðarsamlegast hlýnar lítillega um hvítasunnuhelgina. Því miður fáum við aðeins að njóta reyksins af réttunum áður en svalinn umlykur okkur að nýju (sé vit í spám). Reiknimiðstöðvar greinir hins vegar á um það hvort verður - kalt eða svalt. En fyrst eru það svokölluð hlýindi. Við lítum á þau frá fjórum mismunandi sjónarhornum - en alltaf á sama tíma. Klukkan er þá 18 á laugardaginn 18.

Öll kortin hér að neðan byggjast á spám evrópureiknimiðsöðvarinnar. Fyrst er kort sem sýnir hæð og hita í 925 hPa.

w-blogg170513a

Þetta er nokkuð vænleg staða. Hæðin er á mjög góðum stað, en köld lægð við Suður-Grænland leitar á. Hiti yfir Norðurlandi er á bilinu 6 til 8 stig í rúmlega 800 metra hæð. Ef sólin skín gæti það skilað sér í 15 stiga hita eða svo. Kannski að 16 stiga múrinn verði rofinn. Kaldara loft er við Suðurland. Þar stendur vindur á land og auk þess þrýstir hlýtt loft að úr austri. Hlýja loftið úr vestri hikar því nokkuð.

Hlýja loftið við Hjaltland er raunverulega hlýtt, hitabylgjuhlýtt, 15 stig í 800 metra hæð. Á góðum degi dugar það í 23 stig við sjávarmál. En hitabylgjuloftið kemst ekki til Íslands (að sögn).

Næsta kort sýnir mættishita í 850 hPa.

w-blogg170513b

Þetta kort nær yfir aðeins stærra svæði en það fyrra og heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting. Litafletir hins vegar mættishita í 850 hPa. Mættishiti er stundum kallaður þrýstileiðréttur hiti (ekki alveg í lagi það) og mælir hversu loft sem er í 850 hPa hæð yrði hlýtt ef það væri dregið óblandað niður í 1000 hPa (nærri sjávarmáli).

Þeir sem stækka kortið sjá að mættishiti er rúm 16 stig bæði yfir Vestfjörðum og Austurlandi. Það lofar nokkuð góðu. Hér sést kalda stíflan við Suðurland einnig vel. Hún nær greinilega upp í 850 hPa og reyndar ofar. Yfir vesturströnd Skotlands er mættishitinn rúm 25 stig. Þar stendur nokkuð hvass vindur af landi og má vel vera að hitinn á láglendi nái svo hátt - nærri fjöllum á svæðinu.

Við sjáum einnig kuldann við Suður-Grænland vel. Mættishitinn er lægstur nærri Syðri-Straumfirði, -7,1 stig. Ekki viljum við það. Kuldinn verður að fara suður fyrir Hvarf til að komast hingað og loftið hlynar óhjákvæmilega á leiðinni. En lægðin mjakast austur um helgina og sveiflar kaldara lofti hingað í leiðinni. Sunnan við hana er mikill vindstrengur, reiknimiðstöðin segir hviður á þessum tíma ná upp í 36 m/s.

Þriðja kortið sýnir þykktina (sem heildregnar línur) auk hitans í 850 hPa.

w-blogg170513c

Hér sést kalda stíflan við Suðurland vel. Hún er nægilega öflug til þess að þykktin verður lítillega lægri í henni heldur en utan við hana. Kuldans gætir hins vegar ekki uppi í 500 hPa (ekki sýnt). Mest er þykktin yfir Norðausturlandi, í kringum 4450 metrar. Það þykir nokkuð gott miðað við ástandið að undanförnu, en ósköp aumingjalegt miðað við hitabylgjuþykktina austast á kortinu. Hún er þar meiri en 5580 metrar. Svo mikil verður þykktin ekki á hverju ári hér á landi.

Þykktin er minnst við Vestur-Grænland, um 5140 metrar. Stutt frá vetrarástandi. Reiknimiðstöðin segir kalda loftið hellast yfir okkur úr vestri á mánudag, annan í hvítasunnu. Sú spá er ekki endilega rétt - en rétt er að fylgjast með málum.

Síðasta kortið er úr miðjum nördaheimum. Sýnir þrýstihæð veðrahvarfanna á sama tíma og fyrri kort sýna. Kvarði og tölur eru í hPa. Þetta kort nær yfir þvert Atlantshafið. Bláu litirnir sýna há veðrahvörf en kvarðinn nær alveg yfir í hvítt - sem táknar óvenjulág veðrahvörf.

w-blogg170513d

Það sem sést svo makalaust vel á þessum kortum eru skipti á milli svæða þar sem hlýtt og kalt ríkir undir. Hlýtt loft er fyrirferðarmeira en kalt og veðrahvörfin því hærri yfir því en yfir því kalda. Bláu svæðin sýna þrjú aðskilin hlý svæði. Eitt þeirra er hitabylgjuloftið yfir Skotlandi og Suður-Noregi. Annað svæði er örmjór þvengur langt að sunnan og norður fyrir Ísland. Það þriðja þekur stórt svæði neðarlega á kortinu. Stóru hlýju svæðin takast á og kremja það mjóa á milli sín. Mjóa svæðinu er einnig þrýst til norðausturs af ásókn kalda loftsins við Suður-Grænland. Hlýindi standa því mjög stutt við.

Veðrahvörfin eru sérlega neðarlega við Hvarf á Grænlandi og greinilegt er að jökullinn (fjalllendið) hefur náð að aflaga þau umtalsvert. Veðrahvarfalægðin grynnist síðan umtalsvert þegar jökullinn sleppir taki og verður orðin mun grynnri þegar hún á að fara hér yfir á þriðjudag.

Takið einnig eftir tiltölulega lágum veðrahvörfum við Spán (grænir og gulir litir). Þegar kortið gildir er þar nýgenginn yfir fleygur af mjög lágum veðrahvörfum. Veðurstofur Spánar og Portúgal spá snjó á fjallvegum aðfaranótt föstudags og jafnvel líka á aðfaranótt laugardags.  


Á hörpu

Harpa er fyrsti mánuður sumars að íslensku tímatali, stendur fjórar fyrstu vikur þess og tveimur dögum betur. Í ár bar sumardaginn fyrsta og þar með fyrsta dag hörpu upp á 25. apríl að almennu vestrænu tímatali, því sem kennt er við Gregoríus páfa XIII.

Oft hefur verið minnst á mánuðinn hörpu hér í pistlum hungurdiska og verður ekki tuggið aftur að sinni. Við víkjum hins vegar að morgunhitanum í Stykkishólmi á hörpu allt frá 1846. Þessi pistill er því sá fjórði í röð þar sem fjallað er um hitasögu íslensku mánaðanna frá miðri 19. öld til okkar daga.

w-blogg160513.

Lóðrétti ásinn sýnir hita, sá lárétti árin. Súlurnar sýna þá meðalhita hörpu einstök ár tímabilsins. Hlýir mánuðir tímabilsins 1925 til 1942 skera sig nokkuð úr. Langhlýjust var harpa árið 1935 og í öðru til þriðja sæti er harpa áranna 1889 og 1936. Síðan er 1974 rétt ofan við hörpu 1880.

Langkaldast var á hörpu 1882 (sumarlausa árið fyrir norðan) og síðan 1906. Meðalmorgunhitinn var undir frostmarki í báðum þessum mánuðum. Þrír aðrir mánuðir strjúka núllið, 1920, 1949 og 1979, við getum ekki gert upp á milli þeirra.

Þótt verulega hlýir mánuðir hafi ekki sést á síðustu árum er ekki heldur neitt um mjög kalda mánuði. Við látum ósagt hvernig fer með hörpu í ár, 2013. Staðan í Reykjavík fyrstu þrjár vikur mánaðarins er nú sú að fara þarf aftur til sömu þriggja vikna hörpu 1994 til að finna ámóta hita.

Hlýjasta harpa í Reykjavík á tímabilinu 1949 til 2012 var 1961, já 1961 (8,5 stig). Það gæti komið á óvart. Ritstjórinn hefði sennilega í hugsunarleysi giskað á 1974 og til vara á 1960 sem hlýjustu mánuði. En svona er þetta, maí 1961 leit lengi vel út fyrir að ná hæstu hæðum, en síðan gerði mikið hret í síðustu vikunni (á skerplu). Kannski var það einmitt það hret sem byrjaði hafísárin. Alla vega lá leið 30-ára hitans þar eftir bara niðurávið.

Á sama árabili (1949 til 2012) var harpa köldust í Reykjavík 1979 (1,4 stig), en 1949 er ekki langt þar fyrir ofan (1,8 stig). Þessir mánuðir eru alveg í sérflokki því meðalhiti á hörpu 1967 og 1989 sem koma í þriðja til fjórða sæti var 3,2 stig.

Reiknuð leitni hitans á öllu tímabilinu er 0,6 stig á öld. Þetta er aðeins helmingur leitninnar á einmánuði.


Bíðum enn eftir hærri hita

Hæsti hiti ársins, það sem af er, mældist á Dalatanga 1. mars, 15,7 stig. Við bíðum enn eftir hærri tölu. Í fyrra var hæsti marshitinn 20,7 stig og mátti bíða til 23. maí eftir hærri hita. Nú biðjum við bara um 16 stig - af hógværð.

Lítum á mynd sem sýnir hæsta hita hvers dags á landinu frá áramótum.

w-blogg150513

Lóðrétti ásinn sýnir hita en sá lárétti daga frá áramótum. Til að auðvelda lesturinn hafa mánaðamót verið sett inn sem rauðar lóðréttar strikalínur. Ef svarið væri ekki gefið væri ekki auðvelt að giska á hvaða árstíma við erum að horfa á. Reiknuð leitni er að vísu upp á við (0,01 stig á dag) - en tilfinningin er samt sú að fyrri hluti línuritsins sýni hærri hita en sá síðari. Sá dagur sem lægsta hámarkshitann á í janúar og febrúar sýnir 4,6 stig (13. janúar) en slatti af dögum á síðari hlutanum er talsvert fyrir neðan það.

Kaldastur er sá eftirminnilegi 5. mars þegar hiti komst hvergi upp fyrir frostmark á landinu. Um það kuldakast fjölluðu hungurdiskar um í mjög bólgnu máli - og ekki skal vottur af því endurtekinn hér.

Þegar þetta er skrifað hafa níu dagar í röð átt landshámarkshita yfir 10 stigum. Þetta hljómar því miður eins og um hlýindi sé að ræða - en meðalhiti síðustu 30 daga í Reykjavík er aðeins 3,2 stig. Það er 1 stigi undir meðallaginu 1961 til 1990, en 2,3 stigum undir meðallagi sömu daga ársins síðustu 10 ára (2003 til 2012). Sýnir kannski að við erum orðin góðu vön. Reyndar ... (?)


Tvö háþrýstisvæði

Við lítum á hæðir. Háþrýstisvæðin sem kennd eru við Norðuríshaf og Asóreyjar eru bæði áberandi á kortum þessa dagana, þau eru meira að segja ekki fjarri þeim stöðum sem þau eru kennd við.

w-blogg140513a

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, en litafletir hita í 850 hPa-fletinum og gildir um hádegi á þriðjudag 14. maí. Norðuríshafshæðin er um 1032 hPa í miðju - við norðurskautið, en Asóreyjahæðin alveg neðst á kortinu, vestan eyjanna og er um 1038 hPa í miðju.

Myndarleg lægð er við Skotland og vestan hennar er hvass norðanstrengur, rétt að landið sleppur við hann. Þau líkön sem sjá Vatnajökul láta strenginn ná vestur á hann. Við sjáum líka að með norðanstrengnum fylgir örmjó görn af köldu lofti sem tekist hefur að þræða að norðan. Í bláa litnum er frost í 850 hPa meira en -6 stig. Það er 2 til 3 stigum lægra en var í dag (mánudag) - en telst ekki alvarlegt á þessum árstíma - meira að það sé þreytandi. Við þessi skilyrði er kaldast í löngum (háum)  brekkum áveðurs.

En heldur á að hlýna aftur til miðvikudags þegar görnin hrekst til vesturs þegar loftið sem á myndinni er austan við vindstrenginn nær hingað. Það er nú svosem ekki sérlega hlýtt hingað komið.

Ólík gerð hæðanna tveggja sést vel á þessu korti. Asóreyjahæðin er hlý, en norðurskautshæðin köld. Þar sem neðri hluti veðrahvolfs er kaldur fellur þrýstingur heldur hraðar með hæð en þar sem hann er hlýr. Kalda loftið hefur minni þykkt en það hlýja. Háloftafletir standa því mun lægra yfir köldum hæðum heldur en hlýjum þótt þær séu ámótaöflugar við jörð.


Snjókomudagar í Reykjavík í maí

Fjöldi snjókomudaga er býsna tilviljanakenndur frá mánuði til mánaðar og ári til árs. Við lítum hér á snjókomudagafjölda í Reykjavík í maí 1920 til 2012. Dagur er merktur sem snjókomudagur hafi einhver hluti úrkomunnar þann daginn fallið sem snjór. Ekki skiptir máli hversu mikið eða lítið það er og ekki heldur hvert hlutfall hans er í heildarúrkomu dagsins. Snjókomudagar eru vor og haust fleiri heldur en alhvítir dagar um landið suðvestanvert.

w-blogg120513

Lárétti ásinn sýnir árin en sá lóðrétti dagafjöldann. Af gráu súlunum má sjá snjókomudagafjölda í maí öll ár tímabilsins. Það vekur strax athygli að breytileikinn er mjög mikill. Maímánuðirnir eru 93, þar af 31 alveg án snjókomudags. Flestir voru snjókomudagarnir í maí 1937, 8 talsins og þeir voru 7 í maí 1989.

Þrátt fyrir alla óregluna frá ári til árs er samt greinilegt að snjókomudagar voru mun fleiri á tímabilinu kalda síðari hluta 20. aldar heldur en bæði fyrr og síðar. Varla er það tilviljun.


Hlýjast yfir Norðausturlandi

Í dag, föstudaginn 10. maí var hiti hæstur á norðausturlandi - til verulegrar tilbreytingar frá því sem verið hefur. Það gæti gerst aftur á morgun, laugardag. En ekki skal spáð um það. Reykir í Fnjóskadal sýndu 13,5 stig milli kl. 12 og 13 í dag og ámóta hlýtt varð bæði á Akureyri og Torfum í Eyjafirði.

Evrópureiknimiðstöðin sýndi þá 15,1 stiga mættishita í 850 hPa fletinum yfir Norðausturlandi. Mættishita má einnig kalla þrýstileiðréttan hita. Það er sá hiti sem reiknast ef loft er flutt niður að 1000 hPa þrýstingi. Það er í reynd ekki auðvelt - kemur þó fyrir í hvössum vindi. En loft hlýnar oft við blöndun að ofan. Það hefur trúlega að einhverju leyti gerst í dag, en einnig er líklegt að það sé líka sólaryl að þakka að hitinn komst í 13 stigin. Sólarylur gerir reyndar lítið fyrir lofthitann nema að jörð sé auð.

Hér ættu menn að sjá að ritstjórinn er kominn á hálan ís því hann veit harla lítið um snjóalög á stöðvunum - alla vega á Reykjum í Fnjóskadal. Á snjódýptarkorti Veðurstofunnar mátti í dag sjá tilkynningu um flekkótta jörð á Vöglum (neðar í dalnum) en snjódýpt var talin 112 cm. Hlýtt loft að ofan - eða sólarylur?

En hár mættishiti hjálpar - því hann segir nokkuð til um það hversu hlýtt getur orðið við jörð áður en uppstreymi hefst. Hlýnun vegna sólaryls á þannig erfitt með að toppa mættishitann. En lítum á mættishitaspá reiknimiðstöðvarinnar fyrir hádegi á laugardag (11. maí).

w-blogg110513

Litafletir sýna mættishitann - kvarðinn til hægri skýrist við stækkun. Enn er hlýjast yfir Norðausturlandi, þar má sjá töluna 14,3°C (sé kortið stækkað). Kannski verður hitinn aftur hæstur á sömu slóðum á morgun? Hér sést sérlega vel hvernig Grænlandsjökull stendur sem veggur gegn framsókn mun kaldara lofts vestan Grænlands. Það verður að fara suður fyrir Hvarf til að ná til okkar.

Í suðurjaðri myndarinnar má sjá snyrtilega lægðarbylgju. Hlýi geirinn kemur vel fram sem dekksti liturinn og við sjáum kalt loft í framsókn við kuldaskil og hlýtt við hitaskilin framan við bylgjuna. Bylgjan hreyfist hratt til austurs. Kalda loftið við Hvarf og lægðarbylgjan eiga að ná stefnumóti suðaustan við land á sunnudag og í sameiningu búa til myndarlega lægð sem svo veldur norðaustanátt á mánudag.


Vorströggl

Vorinu hefur nokkuð miðað undanfarna daga og líkur til að næsta norðankast verði nokkru hlýrra heldur en þau sem á undan hafa gengið. - Hvað sem svo verður.

w-blogg100513a

Kortið gildir um hádegi á sunnudag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar en litir sýna þykktina. Hún segir frá hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli bláu og grænu litanna er við 5280 metra. Skipt er um lit á 60 metra bili. Allt blátt við Ísland er undir meðalhita þannig að sunnudagurinn verður ekki hlýr. En kalda loftið er að þessu sinni komið úr suðri - bítur varla.

Þegar háloftalægðin fyrir suðvestan land fer til austurs snýst vindur til norðausturs og norðurs eins og vera ber. Kalda loftið hringast loks um lægðina. Efnið í norðanáttinni verður þá að minnsta kosti til að byrja með komið sunnan fyrir lægðina, austur fyrir og loks til suðurs fyrir vestan hana. Von er til þess að bylgjan mikla yfir Ameríku loki fyrir loft sem annars kæmi til suðurs fyrir austan Grænland.

Það er nokkur kraftur í kuldapollinum mikla og má ef vel er að gáð sjá fjólubláan blett í honum miðjum. Þar er þykktin minni en 4920 metrar. Pollur þessi ógnar okkur ekki svo langt sem sést.

Lægðardragið í ameríkubylgjunni er öflugt og við sjáum að blái liturinn nær alveg suður um vötnin miklu. Vel má vera að það snjói og frjósi á þeim slóðum á sunnudag-mánudag. Miklar hitasveiflur eru þessa dagana vestra og hiti nærri metum sums staðar í norðvesturríkjunum á föstudag/laugardag.

Svo virðist sem hækkandi sól sé að takast að valda umskiptum í austanverðri Evrópu. Það er vorboði um norðanverða álfuna þegar loft úr austri hættir að vera kalt og verður þess í stað hlýtt.

Spár meir en 5 til 7 daga fram í tímann eru langoftast vitlausar á einhvern hátt. Þær breytast gjarnan hratt og mikið frá einu spárennsli til annars. Spá um öfgar langt fram í tímann eru nærri því alltaf rangar. En það er samt ekki leiðinlegt að fylgjast með þeim - og svo kemur fyrir að þær rætast.

Rennsli reiknimiðstöðvarinnar miðvikudaginn 8. maí kl. 12 lét hlýja loftið úr austri ná alveg til Íslands. Rennslið í dag, fimmtudaginn 9. maí kl. 12 sýndi allt annað ástand. Við sjáum þykktarspárnar á kortinu hér að neðan. Þær eiga við sama tíma í framtíðinni. Í fyrra rennslinu er þykktin yfir Íslandi meiri en 5480 metrar. Það dugir í hátt í 20 stiga hámarkshita á landinu. Síðara rennslið sýnir ekki nema 5280 metra þykkt. Dugir varla í 10 stiga landshámarkshita. Heldur leiðinlegt þegar búið er að veifa hlýindum framan í mann.

w-blogg100513b

En kalda rennslið (kalt hjá okkur) er hlýtt annars staðar því það segir að 5640 metra línan komist vestur á Mæri í Noregi við enda spátímabilsins. Það dugir í hátt í 27 til 30 stig ef heppni er með. Það væri nærri hlýindameti í Suður-Noregi í maí. Öfgar í enda spátímans - eru nærri því alltaf rangar. Skemmtiefni samt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband